Föstudagur 24.04.2015 - 12:39 - Rita ummæli

Þjóðarmorð í 100 ár

Fyrir 100 árum þann 24. apríl 1915 handtóku tyrknesk yfirvöld í Ottómannríkinu 235 armenska menntamenn, listamenn, kaupsýslumenn og iðnaðarmenn í Konstantínópel.  Flestir þeirra hurfu. Einungis 8 lifðu af næstu misserin.

Þetta var upphaf þjóðarmorða Tyrkja á Armennum á 20. öldunni en á árunum 1915 – 1917 létust allt að 1,5 milljón Armena beint eða óbeint fyrir hendi Tyrkja.  Reyndar höfðu tugþúsundir Armena fallið í þjóðernisofsóknjm Tyrkja gegn síðustu áratugi 19. aldar.

Því miður voru þjóðarmorð Tyrkja á Armenum einungis forsmekkurinn af gríðarlegum þjóðarmorðum síðustu 100 árin.

Þjóðarmorð þýskra nasista á Gyðingum eru flestum efst í huga þegar rætt er um þjóðernishreinsanir enda voru um 6 milljónir þeirra myrtir af nanistum í síðari heimsstyrjöldinni. En það má ekki gleyma að fleiri þjóðir og kynþættir urðu fyrir barðinu á útrýmingarherferð nasista. Romafólk varð illilega fyrir barðinu sem og trúarhópar eins og Vottar Jehóva.

Og einnig ber að hafa í hug að það voru ekki einungis Þjóðverjar sem réðust gegn Gyðingum, úkraínskir og rúmenskir þjóðernissinnar létu til dæmis ekki sitt eftir liggja í ofsóknunum.

Þjóðernisflutningar Stalíns í Sovétríkjunum þar sem nánast heilu þjóðirnar voru fluttar frá heimkynnum sínum með þeim afleiðingum að fjöldi fólks lét lífið er af svipuðum meiði þótt ekki hafi verið um beinar þjóðernishreinsanir að ræða á sama hátt og í helförinni gegn Gyðingum.

Á síðustu árum höfum við horft upp á skelfileg þjóðarmorð.

Það eru ekki nema um 20 ár síðan skelfileg þjóðarmorð voru framin í Rúanda þar sem vígasveitir  öfgaþjóðernissinnaðra Húta réðust gegn fólki af ættbálki Tútsa og myrtu um 800 þúsund manns á 100 dögum.

Átök í Suður-Súdan undanfarna áratugi nálgast það að vera þjóðarmorð og meira að segja hér í Evrópu áttu sér í raun stað þjóðarmorð í átökunum í ríkjum fyrrum Júgóslavíu.

Og í dag má sjá tilbrigði við þjóðarmorð í ofsóknum Ríkis Islam gegn Jasídum í Sýrlandi.

Ég hef ekki lyst til að hrekja skelfileg þjóðarmorð síðustu aldar frekar.

En þessi skelfilegi þjóðarmorð eru bein óheilbrigðar, öfgafullrar þjóðernishyggju. Það er því miður stutt frá stækri þjóðernishyggju yfir í ofbeldi – jafnvel þjóðarmorð. Það verðum við að hafa í huga. Allta.

Við Íslendingar megum vera stolt af þjóðerni okkar, tungumáli og þjóðmenningu. En það stolt má ekki byggja á hroka heldur verður það að byggja á auðmýkt og virðingu fyrir öðrum þjóðum og annarri menningu.  Ólík þjóðerni og ólík menning á ekki að vera grunnur átaka milli mismunandi menningu, trú og þjóðerni. Þvert á móti eigum við að rækta fjöbreytileikan í sátt og samlyndi. Skapa mannlegan samhljóm.

Því miður ber sífellt meira af óheilbrigðri og stækri þjóðernishyggju í íslenskri umræðu. Í stað eðlilegs stolts af eigin arfleið og virðingu fyrir annarri menningu, í stað þess að skapa mannlegan samhljóm í fjölbreytileika, virðast allt of margir reiðubúnir til átaka á grundvelli kynþáttar og trúar.  Og þá getur orðið stutt í ósköpin. Það hafa þjóðarmorð síðustu aldar sýnt okkur.

… og við megum ekki gleyma því að á landnámstímanum og áratugina þar á eftir var Ísland fjölmenningarsamfélag þótt það hafi þróast yfir í tiltölulega einsleitt samfélag gegnum aldirnar. Öfgafullir íslenskir þjóðernissinnar ættu að hafa það í huga!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur