Þriðjudagur 18.9.2012 - 08:00 - 11 ummæli

Menntamálaráðuneyti gegn menningu!

Menntamálaráðuneytið vinnur gegn íslenskri menningu.  Kannske er það vegna þess að um er að ræða íslenska þjóðmenningu en ekki snobbmenning 101 Reykjavík.

Göngur og réttir eru ekki einungis mikilvægar fyrir íslenskt atvinnulíf á landsbyggðinni. Göngur og réttir með þeim hefðum sem þeim fylgja eru mikilvæg menningarverðmæti íslensku þjóðarinnar.

Það er mikilvægt að íslensk æska hafi kost á að kynnast þessum þjóðmennningarverðmætum Íslendinga. Þá er ekki síður lærdómsfullt fyrir börnin okkar að taka þátt í göngum og réttum og átta sig þannig á samhengi landbúnaðar, vinnu og matvælaöflunar.

En Menntamálaráðuneytið leggur stein í götu þessa.  Af ástæðum sem Menntamálaráðuneytið hefur ekki getað fært rök fyrir önnur en „þessu verður ekki breytt“ – þá velur ráðuneytið að halda samræmd próf í miðjum göngum og réttum. Þannig kemur ráðuneytið í veg fyrir að þau börn og unglingar sem kost hafa á því að taka þátt í íslenskri þjóðmenningu samhliða því að gera gagn – geti sótt réttir.

Það er ekkert því til fyrirstöðu að halda samræmd próf nokkrum vikum síðar.

Þetta er skammarlegt kæra vinkona Katrín Jakobsdóttir Thoroddsen!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.9.2012 - 10:05 - 1 ummæli

Gutti stimplar sig út!

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur að líkindum stimplað sig út úr baráttunni um að verða næsti formaður Samfylkingarinnar með dýrustu launahækkun ársins.  Launahækkun forstjóra LSH sem slík skiptir ekki sköpum fyrir fjárhag ríkisspítalana. En afleiðingar launahækkunarinnar munu  meðal annars verða verulegt fjárhagslegt tjón í rekstri LSH .

Starfsfólk LSH hefur á undanförnum misserum af miklum faglegum metnaði staðið ótrúlega saman í að reka hágæða heibrigðisþjónustu í blóðugum niðurskurði. Starfsálag hefur aukist verulega, starfsumhverfi hrakað og tækjabúnaður oft rekinn á lyginni einni. Nú var svo komið að ekki er unnt að ganga lengra í niðurskurði og vanrækslu á endurnýjun tækja án stórslysa.

Þrátt fyrir þá stöðu hefur starfsfólk LSH staðið sína plikt og rúmlega það. Það stefndi í að starfsfólkið héldi áfram fórnfúsu starfi sínu næstu misserin þrátt fyrir þrengingarnar.

En nú er ævintýrið búið. Gutti velferðarráðherra rústaði vinnumóral á LSH með vanhugsaðri launahækkun. Starfsfólk LSH hefur ekki lengur geð á því að fórna sér nú þegar forystusauðurinn er genginn úr takti við annað starfsfólk ríkisspítalana. Það mun verða LSH  dýrt.

Og að líkindum verða til þess að Gutti getur gleymt frama sínum í forystu Samfylkingarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.9.2012 - 09:50 - Rita ummæli

Stjórnin eða hrunkrónan?

Það er eðlilegt að ríkisstjórnin vilji þakka sér árangurinn í þeim atvinnugreinum þar sem uppgangur hefur verið og tekjur í íslenskum krónum aukist. En staðreyndin er sú að hrun íslensku krónunnar er fyrst og fremst ástæða tekjuaukningarinnar – ekki sértækar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Þá er ég ekki að gera lítið úr aukinni endurgreiðslu kostnaðar vegna erlendrar kvikmyndagerðar í anda Finns Ingólfssonar sem lagði grunn að uppbyggingu kvikmyndagerðar á Íslandi á sínum tíma og núverandi ríkisstjórn hefur lagt aukinn kraft í.

Þá er ég heldur ekki að gera lítið úr ferðamannaátaki aðilja í ferðaþjónustu með tilstyrk ríkisstjórnarinnar.

En staðreyndin er sú að þótt þessar aðgerðir skipti máli þá er stóraukinn fjöldi ferðamanna fyrst og fremst vegna hruns krónunnar. Verðlag á Íslandi er hlægilega lágt í kjölfar hruns krónunnar miðað við verðlag víða annars staðar.  Helgarferð til Íslands með öllu er kostar ekki meira fyrir íbúa Osló en þokkalegt skrall á laugardegi í heimabænum.  Það er helst bjórinn á Gardemoen sem telur í Íslandsferðarbuddunni þeirra.

Norðmenn koma ekki til Íslands vegna aðgerða ríkisstjórinnar heldur vegna hrunkrónunnar.

Það sama má segja um stóraukin umsvif erlendra kvikmyndagerðarmanna á Íslandi. Auðvitað telur endurgreiðsla ríkisins.  En meginástæðan er sú að vegna hrunkrónunnar er kostnaður á Íslandi hlutfallslega lægri en annars staðar auk þess sem erlendir kvikmyndagerðarmenn vita að þeir geta treyst á faglegheit íslensks kvikmyndagerðarfólks.

Ef við lítum á hagnað íslenskrar útgerðar þá byggir hún fyrst og femst á hruni íslensku krónunnar. Enda hefur ríkisstjórnin unnið gegn útgerðinni með auknum álögum.

Það sama á við stóriðjuna. Aukinn hagnaður þar er vegna hruns krónunnar. Enda hefur ríkisstjórnin leynt og ljóst unnið gegn íslenskri stóriðju.

Þessi jákvæðu áhrif hrunkrónunnar á ofangreindar atvinnugreinar eru samt einungis önnur hlið peningsins.

Hin hlið hrunkrónunnar er erfið staða almennings. Kaupgeta almennings hrundi með hrunkrónunni. Innfluttar vörur hafa hækkað í takt við hrunið meðan launin hafa staðið í stað eða lækkað. Atvinna minnkað. Álögur ríkisstjórnarinnar aukist.  Auknum jöfnuði náð með því að skerða kjör millistéttarinnar og þrýsta henni niður og nær lágtekjuhópunum í stað þess að bæta kjör þeirra sem minna mega sín.

Ríkisstjórnin getur því ekki barið á brjóst sér og þakkað góðan árangur á þann hátt sem hún reynir þessa dagana. Það er rétt að hún hefur gert eitt og annað þokkalegt – en auknar tekjur atvinnuveganna í íslenskum krónum er bara alls ekki ríkisstjórninni að þakka – heldur hrunkrónunni.

En vandamálið er að ekkert bendir til að núverandi stjórnarandstaða sé eða hafi verið skárri kostur.

Það er meginvandamál íslensku þjóðarinnar.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.9.2012 - 06:57 - Rita ummæli

Búseti berst gegn straumnum

Þótt stjórnvöld hafi ekki gert neitt til að skapa búseturéttarforminu og húsnæðissamvinnufélögunum heilbrigðan rekstrargrundvöll þá hefur húsnæðissamvinnufélagið Búseti nú tekið mikilvægt skref í uppbyggingu húsnæðismarkaðarins með stórverkefni við miðbæ Reykjavíkur. Því ber að fagna á alþjóðaári samvinnufélaga. Búseti berst gegn straumnum með hag almennings í brjósti.

Núverandi húsnæðislöggjöf er beinlínis andstæð húsnæðissamvinnufélögum og búseturéttarforminu. Túlkun Íbúðalánasjóðs á þeirri löggjöf hefur þess utan verið eins andstæð búseturéttarforminu og sjóðurinn hefur getað komist upp með. Enda hvarflar ekki að forsvarsmönnum Búseta að leita til Íbúðalánasjóðs um lánafyrirgreiðslu. Sú staðreynd ætti að vera stjórnvöldum umhugsunarefni þegar farið er yfir galinn rekstrarkostnað þess annars ágæta sjóðs.

Til hvers er sjóðurinn eiginlega?  Innheimta skuldir og reka leiguhúsnæði frekar en að sinna fyrrum hlutverki sínu sem svo vel er skilgreint í lögum um húsnæðismál: „… að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.“. ?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.9.2012 - 06:33 - 2 ummæli

Íhaldsstrákarnir óttast Hönnu Birnu!

Strákagengið í þingflokki Sjálfstæðisflokksins óttast greinilega Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem gæti ef hún vildi rúllað upp prófkjöri í Reykjavík og tekið fyrsta sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi Alþingiskosningar. Það er hin rökrétta skýring á því að þingflokkurinn kasti duglegri konu sem þingflokksformanni og geri umdeildan fyrrum bankastrák og hrunliða að formanni þingflokks.

Það virðist reyndar vera að myndast óttabandalag innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins leitt af Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins. Óttabandalag sem hangir saman á óttanum við Hönnu Birnu og sameinar strákana sem fyrrum áttu í átökum.

Það er nefnilega pólitískt lífsspursmál fyrir strákagengið að halda Hönnu Birnu frá leiðtogasætinu í Reykjavík. Ekki síst er það pólitískt lífsspursmál fyrir Bjarna Benediktsson því það er ljóst að Hanna Birna í leiðtogasæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík mun verða dagleg ógn við leiðtogahlutverk Bjarna Benediktssonar. Hlutverk sem hann leikur reyndar frekar ósannfærandi þessi annars ágæti og geðþekki drengur.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 31.8.2012 - 07:10 - Rita ummæli

96% hækkun rekstrarkostnaðar ÍLS!!!

Rekstrarkostnaður Íbúðalánasjóðs hækkaði um 96% fyrstu tvö árin eftir að Guðmundur Bjarnason lét af störfum sem framkvæmdastjóri sjóðsins. Rekstrarkostnaður Íbúðalánasjóðs hækkaði um 41% á 12 mánuðum frá því 30. júní í fyrra til 30. júní í ár og mun hækka enn frekar síðari hluta ársins í ár ef marka má skýrslu stjórnar ÍLS.

Þessi gífurlega hækkun rekstrarkostnaðar hefur farið undarlega hljótt!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.8.2012 - 06:58 - 1 ummæli

Háskólabærinn Reykjavík?

Reykjavík er margþætt borg og skemmtileg. Reykjavík er meðal annars háskólabær. Reykjavík hefur í grunninn allt til þess að geta verið fyrirmyndar háskólabær.

En hvað þarf til svo að háskólabær sé til fyrirmyndar?

Það er ýmislegt. Meðal annars góðar almenningssamgöngur sem eru samkeppnisfærar við einkabílinn í kostnaði. Nægt leiguhúsnæði á eðlilegu leiguverði. Leikskólapláss fyrir börn ungra foreldra í námi. Og reyndar margt fleira.

Er Reykjavík góður háskólabær?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 18.8.2012 - 08:59 - 15 ummæli

Bjórinn í búðirnar?

Ég er afar stoltur af þeim vinum mínum og ættingjum sem misst hafa fótanna gagnvart Bakkusi en hafa staðið upp, rifið af sér fjötrana og halda nú áfram betra lífi – einn dag í einu.

Ég finn til með þeim vinum mínum og ættingjum sem misst hafa fótanna gagnvart Bakkusi og ekki hafa náð að snúa vörn í sókn.

Allt þetta ágæta fólk á öllum aldri hefur lent í erfiðleikum með áfengi þótt það hafi þurft að gera sér ferð í áfengisútsölur ÁTVR til að ná sér í brjóstbirtuna. Samt lenti það í erfiðleikum með áfengisneysluna.

Mér var hugsað til þessa í Kiwi þar sem ég var að sækja mér mjólk út á morgunkornið.

Því meira að segja í Noregi – þar sem allt er bannað nema það sé sérstaklega leyft – er bjór með allt að 5% áfengisinnihaldi seldur í matvörbúðum.

Það er kannske misskilningur. En þótt ég hafi skimað hægri vinstri eftir öllum norsku ölkunum eftir búðarferðina í Kiwi þá sýnist mér ég ekki sjá hlutfallslega fleiri virka alkóhólista í Noregi en á Íslandi. Og þeir voru alls ekki meira áberandi en þegar ég bjó síðast í Noregi árið 2006 þegar bjór sterkari en 3,5% var einungis seldur í Vinmonopolet!

Íslensku vínbúðirnar eru margar afar góðar búðir sem bjóða faglega þjónustu. Ekki dettur mér í hug að kvarta yfir þeim. En er það virkilega nauðsynlegt fyrir ríkið að halda utan um alla bjórsölu utan löggiltra bara og veitingahúsa með tilheyrandi kostnaði?  Er ekki nær að láta verslunina sjá um dreifingu á öli innan við 5% í styrkleika?

Ef það er hægt í Noregi án þess að áfengisbölið aukist – þá er það unnt á Íslandi. Er það ekki?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 17.8.2012 - 00:09 - 4 ummæli

Sjóva, Saga, VBS og Byr!

Sjóvá, Saga Capital, VBS og Byr. Gleymdi ég einhverju í þessari upptalningu pólitískra hrakfara eftirhrunsáranna?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.8.2012 - 19:23 - 2 ummæli

Fellir Breivik Stoltenberg?

Norska þjóðin gaf heiminum fordæmi um það hvernig unnt er að sigrast á illsku, kynþáttahatri og  ofbeldi með samhyggð, kærleika og staðfestu eftir voðaverk Breiviks í Úteyju og í Osló. Það var norska þjóðin sem sigraði illskuna og aðför að lýðræðislegu samfélagi með því að bregðast ekki við með hatri heldur draga fram ástúð í garð þeirra sem féllu og láta hið lýðræðislega réttarríki í Noregi hafa sinn gang. 

Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs stóð sig eins og hetja í kjölfar voðaverka Breivik. Hann leiddi þjóð sína í gegnum erfiðan tíma með auðmýkt hins öfluga, lýðræðislega leiðtoga.

Það er því nöturlegt að pólitísk framtíð Stoltenbergs geti verið í hættu vegna voðaverka Breivik.

Hreinskilin, vel unnin rannsóknarskýrsla um viðbrögð lögreglu við hryðjuverkum Breivik og greining á frammistöðu stjórnvalda í aðdraganda hryðjuverkanna sýnir að stjórnvöld og lögregla brugðust. 

Breivik gat framið hryðjuverk í Osló vegna þess að stjórnvöld – og Jens Stoltenberg persónulega – brugðust ekki við skýrum ábendingum um nauðsynlegar aðgerðir kring um stjórnsýsluna í Osló.

Lögreglan brást með því að vera ekki undirbúin undir hryðjuverk sem þessi og hunsa ábendingar um yfirvofandi hættu.  Lögregan brást algerlega í viðbrögðum sínum við hryðjuverkaárásunum.  Það hefði verið unnt að bjarga mörgum mannslífum ef ekki hefði verið margfalt klúður og ráðaleysi lögreglu eftir að Breivik hóf skothríð og dráp í Útey.

Það er átakanlegt að lesa helstu atriði úr þessari rannsóknarskýrslu. Maður finnur til  með ekki einungis ættingjum og vinum fórnarlambanna – heldur einnig þeim í stjórnsýslunni og í lögreglunni sem þurfa að lifa við það að hafa brugðist og bera þannig óbeina sök á dauða ungmenna. Það hlýtur að vera hræðileg staða.

En nú er að sjá hvort Stoltenberg muni taka á sig ábyrgð og segja af sér sem forsætisráðherra Noregs.

Ég spái því að svo muni verða. Ég spái því að Stoltenberg og ríkisstjórn Noregs muni á næstu vikum tryggja að sett verði af stað ferli sem tryggi úrbætur í starfi lögreglu og öryggismálum almennt. Þegar þeirri vinnu hefur verið hleypt af stokkunum muni Stoltenber axla ábyrgð og segja af sér.  Þannig mun hann undirstrika að hann er öflugur, lýðræðislegur leiðtogi sem ber ábyrgð.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur