Föstudagur 30.3.2012 - 08:01 - 9 ummæli

Borgar sig að spara?

Styrmir minn situr nú með smá fúlgu fjár eftir vel heppnaða fermingu og veltir fyrir sér hvað hann skuli gera við féð. Drengurinn er skynsamur og þótt hann vilji nota hluta fjárins strax þá ætlar hann að geyma hluta formúunnar til síðari tíma. Styrmir ætlar að spara.

Þetta gladdi mig í fyrstu og ég fór léttur í lund niðrí MP banka til að stofna reikning fyrir Styrmi minn. En þegar ég sá „sparnaðarkostina“  runnu á mig tvær grímur. Eftir að haft gegnum árin predikað um gildi sparnaðar þá sá ég strax að ég gat ekki mælt með því við fermingardrenginn að hann skyldi „spara“ til lengri tíma með því að leggja fermingarpeninganna inn á „sparnaðarreikning“.

Ástæðan er einföld. Féð mun brenna upp á verðbólgubálinu – alveg eins og sumarhýran mín úr sveitinni sem lögð var inn í formi dilks í KB Borgarnesi á hverju hausti hvarf eins og dögg fyrir sólu á sínum tíma.

Í dag er verðbólgan rúm 6%.  Ársvextir óverðtryggðra sparireikninga eru frá 3,30% ef binding er einn mánuður upp í 3,95% sé binding 18 mánuðir.  Styrmir minn tapar fénu sínu á þeirri neikvæðu ávöxtun.

En sem betur fer hefur Styrmir annan valkost. Hina illræmdu verðtryggingu!

Með því að festa peningana sína í 3 ár þá halda þeir verðgildi sínu og ávaxtast um 1,70% á ári.  Það er ávöxtun upp á 1700 krónur á ári fyrir 100 þúsund kallinn!  Styrmir nær að mjaka þessari ávöxtun í 1,90% ef hann bindur fermingarpeningana sína í 5 ár. Það gerir 1900 krónur á ári.

En – þökk sé verðtryggingunni – þá brenna peningarnir ekki upp á verðbólgubálinu – eins og á óverðtryggðu reikningunum.

En hversu lengi verður það?  Er ekki mantra dagsins að afnema verðtrygginguna? Hver er staða Styrmis mín þá og fermingarpeningana hans?

Það var stoltur og ánægður faðir sem gekk inn í MP banka í gær. En það kom niðurbrotinn og hugsi pabbi út.  Hvernig á ég að skýra fyrir Styrmi að það borgi sig bara alls ekki að spara?

Sem betur fer er Styrmir bráðvelgefinn strákur og mun skilja stöðuna. En þeir tímar þar sem predikerað er að sparnaður sé dyggð – þeir tímar eru liðnir á mínu heimili.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.3.2012 - 12:42 - 3 ummæli

67% hækkun rekstrarkostnaðar ÍLS

Rekstrarkostnaður Íbúðalánasjóðs hækkaði um 720 milljónir eða 67% milli áranna 2011 og 2010.  Þetta kemur fram í ársreikningi sjóðsins fyrir árið 2011 sem birtur var í morgunn.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.3.2012 - 15:22 - 5 ummæli

ÍLS gegn lántakendum í vanda?

Greiðsluerfiðleikaúrræði Íbúðalánasjóðs hafa lengstum miðað að því að aðstoða fjölskyldur og einstaklinga í greiðsluerfiðleikum. Þar hefur frysting lána hjá Íbúðalánasjóði í allt að 3 ár verið afar mikilvægt úrræði og orðið til þess að hjálpa mörgum fjölskyldum út úr greiðsluerfiðleikum án þess að missa húsnæðið sitt.

Árangur greiðsluerfiðleikaaðstoðar Íbúðalánasjóðs var greindur í BS ritgerð Guðrúnar Soffíu Guðmundsdóttir í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri árið 2008.  Í úrdrætti BS ritgerðarinnar segir ma:  “

„Í þessu lokaverkefni er skýrsluhöfundur að rannsaka hvort greiðsluerfiðleikaaðstoð Íbúðalánasjóðs sem er í boði fyrir lántakendur skili tilætluðum árangri…

… Loka niðurstaða rannsóknarinnar var sú að árið 2007 voru 79% af þeim sem sóttu um greiðsluerfiðleikaaðstoð í skilum með sín lán og hafði sá hlutur aukist úr 70% árið 2002. Má það teljast vel ásættanlegt fyrir Íbúðalánasjóð að greiðsluerfiðleikaúrræði skili árangri upp á 79%.“

Eitt grundvallaratriði árangurs frystingarleiðarinnar var sú að þar sem afborganir og vextir sem hefði átt að greiða á frystingartímabilinu var bætt við höfuðstól íbúðalánsins um hver áramót þá skilgreindi bæði Íbúðalánasjóður og Ríkisskattstjóri að vextir ársins hefðu verið gerðir upp.

Á grundvelli þessa hafa lántakendur Íbúðalánasjóðs alltaf fengið vaxtabætur. Enda takmörkuð hjálp í frystingu láns ef vaxtabætur tapast.

Nú vill Íbúðalánasjóður breyta þessari hefðbundnu skilgreiningu og það í trássi við Ríkisskattstjóra!!! 

Stefna Íbúðalánasjóðs virðist því vera að draga verulega úr vægi þess mikilvæga greiðsluerfiðleikaúrræðis sem frysting lána hefur verið gegnum tíðina. Greiðsluerfiðleikaúrræði sem hefur reynst almenningi á Íslandi afar vel fram að þessu.

Held ég verði enn einu sinni að rifja upp lögbundið hlutverk Íbúðalánasjóðs eins og það er skilgreint í 1. grein laga um húsnæðismál:

„Tilgangur laga þessara er að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.“

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.3.2012 - 11:31 - 4 ummæli

Góður grunnur að fiskveiðistjórnun

Miðað við þau viðbrögð sem ég sé og heyri úr ólíkum áttum þá er ég nokkuð viss að nýtt frumvarp að lögum um stjórnun fiskveiða er gróður grunnur að fiskveiðistjórnun framtíðarinnar.  Frumvarpið er nefnilega nákvæmlega það. Grunnur.

Að sjálfsögðu er ýmislegt sem betur má fara og þarf að slípa til í meðförum Alþingis.  Frumvarpið þarf að þróa áður en það verður að lögum.

Hinir ýmsu ólíku hagsmunahópar eru ósáttir með eitt og annað. En það er einmitt vísbending um að hér sé kominn grunnur að skipulagi sem meginhluti þjóðarinnar muni geta sætt sig við – eftir að frumvarpið hefur náð fullum þroska og orðið hæft til afgreiðslu sem lög frá Alþingi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 24.3.2012 - 00:03 - 10 ummæli

Móðursjúkir læknar í hormónaslag!

Fjöldi lækna virðast hafa dottið í móðursýkiskast við þá eðlilegu hugmynd að veita velmenntuðum og sérþjálfuðum skólahjúkrunarfræðingum heimild til að ávísa getnaðarvarnartöflum til unglingsstúlkna sem löngu eru farnar að stunda kynlíf.

Auðvitað eru skólahjúkrunarfræðingar sem eru oft á tíðum í miklu betra sambandi við unglingsstúlkurnar og hafa gjarnan náð þróuðu trúnaðarsambandi við stúlkurnar betur til þess fallnir að meta félagslega og kynferðislega stöðu þeirra en sífellt sitthvorir heilsugæslulæknar.

Læknastéttin er svo fjarri því að vera sú besta til að taka félagslega ákvörðun um það hvort ávísa skuli getnaðarvarnartöflum  til unglingsstúlkna. Reyndar er ákveðinn hluti þeirrar ágæti fagstéttar nánast óhæfir til þess að taka ákvarðanir út frá félagslegum forsendum þótt þótt læknisfræðileg hæfni þeirra sé afara góð.

Þá stendur eftir hvort þú þurfir – á lyfjafræðilegum og líffræðilegum forsendum – að vera læknir til þess að taka ákvörðun um tilvísun á getnaðarvarnir.  Svarið við því er nei.

Því íslenskir hjúkrunarfræðingar – að ég tali ekki um hjúkrunarfræðinga sem hafa sérstaklega fengið fræðslu um viðfangsefnið – eru fullkomlega hæfir til að meta lyfjafræðilegar og líffræðilegar forsendur enda með góðan faglelgan bakgrunn til þess.

Og það sem meira er – þeir eru menntunar sinnar vegna – mun betur til þess fallnir að meta félagslega hvort ávísa eigi getnaðarvarnartöflur til unglingsstúlkna en stór hluti læknastéttarinnar.

… auk þess sem það tekur drjúgan part meðgöngu að ná viðtalið við heimilislækninn sinn vegna getnvaðarvarnartafla eins og ástandið er í dag á undirmönnuðum heilsugæslustöðvum!!!

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.3.2012 - 23:23 - 14 ummæli

Biðröð til Noregs

Einhver snillingur sagði fyrir nokkru síðan: „Fólk kýs með fótunum“.

Það eru kosningar í gangi. Ríkisstjórning er gersamlega fallin í þeim kosningum. Fólk er að kjósa með fótunum. Það kýs Noreg.

Ég hef undanfarna 3 daga verið að aðstoða norska starfsmannamiðlun við að leita eftir Íslendingum til starfa í Noregi. Við þurftum ekki að leita. Fólkið kom af sjálfsdáðum í tugatali. Stóð í biðröðum til Noregs. Fólkið er búið að kjósa með fótunum. Það er á leið úr landi – eins og fjárfestingar erlendra aðilja á Íslandi.

Ríkisstjórnin getur tímabundið tafið hrun íslensku krónunar með gjaldeyrishöftum „a la ráðstjórnarríkin“. En sem betur fer getur ríkisstjórnin ekki heft frjálsan flutning fólks – ekki einu sinni þótt Vigdís Hauks gangi í lið  með þeim 🙂

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.3.2012 - 12:36 - 4 ummæli

Birgi Guðmundsson sem forseta?

Af hverju ekki að gerbreyta forsetaembættinu og fá hin snjalla stjórnmálafræðing Birgi Guðmundsson sem forseta? Hann hefur alla burði til þess að skilja til hlýtar undirliggjandi pólitíska strauma við stjórnarmyndanir.

Birgir er í ofanálag vel menntaður venjulegur Íslendingur sem á meira að segja ákveðnar rætur inn í Vestur-Íslendingasamfélagið í Kanada – og yrði því forseti Íslendinga í Kanada einnig 🙂

Þá er Birgir eftir því sem ég best veit kvæntur geðhjúkrunarfræðingi – sem er gott „baköpp“ fyrir forseta Íslands bæði innanlands og utan! Ekki hvað síst þegar leita skal ráða hjá spúsu sinni í samskiptum við íslenska stjórnmálamenn!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.3.2012 - 23:11 - Rita ummæli

Hlunnindi stjórnenda Íbúðalánasjóðs

Í ljósa ummæla framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs á Pressunni sem heldur því fram að ekki hafi verið launaskrið í Íbúðalánasjóði – þá óska ég eftir því að framkvæmdastjórinn birti meðalheildarlaun sviðsstjóra 1. janúar 2010 og aftur meðalheildarlaun sviðsstjóra 1. janúar 2012.

Einnig að fram komi sundurliðaður heildarkostnaður við hlunnindi sviðsstjóra 1. janúar 2010 og 1. janúar 2012. 

Með hlunnindum á ég við kostnað við tæknibúnað á heimilum sem sjóðurinn leggur til, persónuleg tæki ss. farsíma og fartölvur, greiðslur persónulegra símreikninga – þmt. sjónvarpsáskriftir, nettengingar og niðurhal af neti gegnum heimatengingar, bílastyrki og annan kostnað sem ríkisendurskoðun skilgreinir sem hlunnindi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.3.2012 - 01:20 - 1 ummæli

Eftirsjá af stjórnarformanni ÍLS

Það er eftirsjá af hinum skelegga hagfræðingi Katrínu Ólafsdóttur sem til skamms tíma gegndi stöðu formanns stjórnar Íbúðalánasjóðs en þarf nú að hætta sem slíkur þar sem hún hefur verið skipuð í peningamálanefnd Seðlabanka Íslands.

Ég hef átt nokkur samskipti við Katrínu frá því hún tók við stjórnarformennsku. Katrín hefur tekið á málum af mikilli festu og fagmennsku sem er svo mikilvæg í opinberri stjórnsýslu. Að sjálfsögðu tekur það tíma að setja sig inn í nýja hluti og því sérstaklega slæmt að missa Katrínu einmitt þegar hún var búin að ná afar góðum tökum og afla sér víðtækrar þekkingar á viðfangsefninu.

Ég batt miklar vonir við Katrínu í því stefnumótunar og uppbyggingarferli sem verður að vera hjá Íbúðalánasjóði á næstu misserum og treysti henni 100% til að ná fram markvissum og og hagkvæmum rekstri Íbúðalánasjóðs eftir kostnaðarsamt yfirgangstímabil undanfarinna mánaða.

Það verður spennandi að sjá hver tekur við keflinu í því erfiða embætti sem stjórnarformennska í Íbúðalánasjóði er. Vonandi verður það einhver á svipuðu „kaliberi“ og Katrín. Hvorki Íbúðalánasjóður né þjóðin má við öðru.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.3.2012 - 09:15 - 2 ummæli

Lýkur útgjaldaþenslu Íbúðalánasjóðs?

Nú fer að styttast í ársuppgjör Íbúðalánasjóðs fyrir árið 2011. Það verður spennandi að sjá hvort nýjum stjórnendum sjóðsins tekst að koma böndum á þá gífurlegu útgjaldasprengju sem varð hjá sjóðnum eftir að Guðmundur Bjarnason hætti sem framkvæmdastjóri.

Í árshlutauppgjöri Íbúðalánasjóðs vegna fyrstu 6 mánuða ársins 2011 kom í ljós að rekstrarkostnaður Íbúðalánasjóðs hafði hækkað um 43% miðað við fyrstu 6 mánuði ársins 2010 – en Guðmundur Bjarnason var framkvæmdastjóri sjóðsins fyrri hluta ársins 2010 og lét af störfum 1. júlí 2010.

Það fór reyndar sérkennilega hljótt í umræðunni þessi gífurlega hækkun rekstrarkostnaðar á fyrstu 6 mánuðum ársins 2011, en þess má geta að fjöldi starfsfólks Íbúðalánsjóðs jókst um rúm 30% frá árinu 2009 til 2012. Stærsti hluti þeirrar aukningar varð eftir að Guðmundur Bjarnason fór á eftirlaun.

Launaskrið virðist hafa verið mjög mikið innan Íbúðalánasjóðs eftir að nýir stjórnendur tóku við þrátt fyrir að stjórnvöld hafi lagt áherslu á sparnað í rekstri ríkisins og ríkisfyrirtækja – en Íbúðalánasjóður er í 100% eigu íslenska ríkisins.

Já, það verður spennandi að sjá hvort stjórnendur Íbúðalánasjóðs hafi náð að koma böndum á útgjaldaaukninguna síðari hluta ársins 2011.

Að lokum er ekki úr vegi að minna á lögbundið hlutverk Íbúðalánasjóðs eins og það er skilgreint í 1. grein laga um húsnæðismál:

„Tilgangur laga þessara er að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.“

 

PS: VERÐ AÐ LEIÐRÉTTA RANGFÆRSLUR Í PISTLINUM. FJÖLGUN STARFSMANNA ÍBÚÐALÁNASJÓÐS VAR RÚM 50% EN EKKI RÚM 30%.  VAR MEÐ GAMLAR TÖLUR!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur