Styrmir minn situr nú með smá fúlgu fjár eftir vel heppnaða fermingu og veltir fyrir sér hvað hann skuli gera við féð. Drengurinn er skynsamur og þótt hann vilji nota hluta fjárins strax þá ætlar hann að geyma hluta formúunnar til síðari tíma. Styrmir ætlar að spara.
Þetta gladdi mig í fyrstu og ég fór léttur í lund niðrí MP banka til að stofna reikning fyrir Styrmi minn. En þegar ég sá „sparnaðarkostina“ runnu á mig tvær grímur. Eftir að haft gegnum árin predikað um gildi sparnaðar þá sá ég strax að ég gat ekki mælt með því við fermingardrenginn að hann skyldi „spara“ til lengri tíma með því að leggja fermingarpeninganna inn á „sparnaðarreikning“.
Ástæðan er einföld. Féð mun brenna upp á verðbólgubálinu – alveg eins og sumarhýran mín úr sveitinni sem lögð var inn í formi dilks í KB Borgarnesi á hverju hausti hvarf eins og dögg fyrir sólu á sínum tíma.
Í dag er verðbólgan rúm 6%. Ársvextir óverðtryggðra sparireikninga eru frá 3,30% ef binding er einn mánuður upp í 3,95% sé binding 18 mánuðir. Styrmir minn tapar fénu sínu á þeirri neikvæðu ávöxtun.
En sem betur fer hefur Styrmir annan valkost. Hina illræmdu verðtryggingu!
Með því að festa peningana sína í 3 ár þá halda þeir verðgildi sínu og ávaxtast um 1,70% á ári. Það er ávöxtun upp á 1700 krónur á ári fyrir 100 þúsund kallinn! Styrmir nær að mjaka þessari ávöxtun í 1,90% ef hann bindur fermingarpeningana sína í 5 ár. Það gerir 1900 krónur á ári.
En – þökk sé verðtryggingunni – þá brenna peningarnir ekki upp á verðbólgubálinu – eins og á óverðtryggðu reikningunum.
En hversu lengi verður það? Er ekki mantra dagsins að afnema verðtrygginguna? Hver er staða Styrmis mín þá og fermingarpeningana hans?
Það var stoltur og ánægður faðir sem gekk inn í MP banka í gær. En það kom niðurbrotinn og hugsi pabbi út. Hvernig á ég að skýra fyrir Styrmi að það borgi sig bara alls ekki að spara?
Sem betur fer er Styrmir bráðvelgefinn strákur og mun skilja stöðuna. En þeir tímar þar sem predikerað er að sparnaður sé dyggð – þeir tímar eru liðnir á mínu heimili.