Laugardagur 3.3.2012 - 16:11 - 8 ummæli

ISK í dauðateygjunum

Hin ónýta íslenska króna er í dauðateygjunum enda lifir hún vart af afnám verðtryggingarinnar.  Sífellt fleiri íslenskir stjórnmálaleiðtogar vilja taka upp alvöru gjaldmiðil. Sigmundur Davíð vill kanadískan dollar. Jóhanna Sigurðardóttir vill taka upp evru.

Spurningin er ekki hvort heldur hvenær við fáum alvöru gjaldmiðil.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 2.3.2012 - 22:29 - 5 ummæli

Franek Rowzadowski ræður!

Franek Rowzadowski ræður meira um Ísland og íslenskt efnahagslíf en Steingrímur J. Hvað sem Þistilfirðingurinn reynir að segja. Íslendingar vita ekkert hver Franek Rowzadowski er.  Eða hvað hann er að gera!

En íslenskur almenningur á kröfu til þess að vita með hverjum Franek Rowzadowski fastafulltrúi Alþjóða gjaldeyrissjóðsins „manglar“  – því þessi einn valdamesti og ósýnilegasti maður á Íslandi hefur meiri bein áhrif á stefnu ríkisstjórnarinnar en allir óbreyttir þingmenn þingflokka VG og Samfylkingar til samans.

Lýðræðislegt?

Það sem verra er er að Franek Rowzadowski stjórnast af sömu trúarbrögðunum og fulltrúar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins gera og hafa gert gegnum tíðina. Trúarbrögðum sem sjaldnast hafa tekið mið af hagsmunum Íslendinga.

Látið mig þekkja það. Tók árlega á móti sendinefndnum þessa sérkennilega fyrirbæris og þurfta ALLTAF að byrja á að kenna þessu liði grundvallaratriði hins sérkennilega verðtryggingakerfis íslensku krónunnar og hvernig íslensk verðtryggð króna fylgir ekki venjubundnum lögmálum alvöru gjaldmiðla.

Það kom liðinu frá Alþjóðagjalderyrissjóðnum alltaf jafn mikið á óvart að það væri eitthvað í gangi sem hét verðtrygging meginhluta langtímalána íslenskra fjölskyldna – þótt hluti sendinefndarinnar væri sá sami ár eftir ár.

Það kom mér hins vegar enn meira á óvart að yfirleitt kom þetta lið beint af fundi úr Seðlabankanum þar sem núverandi aðalhagfræðingur þeirrar ágætu stofnunnar hafði „kynnt“ þeim stöðu íslensks efnahagslífs – þar sem eitt af megin útskýringarefnunum hefði einmitt átt að vera sérkennilegt eðli íslenskrar verðtryggðar krónu!

Gleymi aldrei þegar Seðlabankinn skammaði okkur eins og hunda annars vegar fyrir það að útskýra fyir sendinefndinni eðli íslenskrar verðtryggðar krónu – sem var greinilega nánast dauðasök – og hins vegar að nefndin tók sér af sjálfsdáðum lengri tíma til að setja sig inn í málin en Seðlabankinn hafði skipulagt!

Frétti síðan að brot á tímamörkum hefði ekki verið málið – heldur það að við sögðum sendinefndinni sannleikann um verðtryggðu íslensku krónunnar en fylgdum ekki fyrirfram ákveðnu leikriti Seðlabankans.

Súrealískt?

Já, en svona var þetta. En súrealisminn hefur síst minnað með fastafulltrúanum Franek Rowzadowski!

 

„Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að frekari launahækkanir umfram framleiðniaukningu geti kynt undir verðbólgu á Íslandi …“  http://visir.is/vara-vid-frekari-launahaekkunum-/article/2012120309760

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.3.2012 - 20:15 - 13 ummæli

Útlending í FME!

„Þegar núverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins var ráðinn árið 2005 lagði ég til að útlendingur yrði ráðinn forstjóri og færði fyrir þau skýr rök. Stjórnvöld hefðu betur farið að mínum tillögum þá.

Nú verður nýr forstjóri Fjármálaeftirltisins ráðinn. Það á að vera útlendingur.“

Þetta bloggaði ég 25. janúar 2009.

Enn einu sinni kemur í ljós að afar oft hef ég rétt fyrir mér þótt það falli í grýttan jarðveg þegar ég kem því á framfæri …

… afsakið hrokann, en svona er það bara!

Sjá ofangreinda færslu:

http://hallurmagg.blog.is/blog/hallurmagg/entry/783492/

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.2.2012 - 21:19 - 17 ummæli

Trúverðugleiki Gunnars A. fokinn!

Trúverðugleiki Gunnars Andersens fauk endanlega út í veður og vind í dag þegar lögmaður hans breytti efnislegum ágreiningi yfir í „formtæknilegan ríkisstarfsmanna“ ágreining.  Í stað þess að taka slaginn um trúverðugleika og það sem er satt og rétt – þá er tekin vígstaða um „réttindi ríkisstarfsmanns“ og hvort lagatæknilega sé rétt staðið að því að koma slíkum starfsmanni frá.

Vörn Gunnars hætti í dag að snúast um hið augljósa. Meintar rangfærslur um missi trúverðugleika Gunnars vegna meintra afskipta hans af aflandsfélögum Landsbankans og  það að mögulega  hafa ekki sagt satt og rétt frá um þau afskipti. Vörnin féll niður á sama plan og þegar óhæfur drykkfeldur kennari sem ekki vill taka á áfengissýki sinni reynir að hanga á stöðu sinni á grunni „réttinda sinna sem opinber starfsmaður“.

Þessi tæknilega vörn Gunnar Andersen styrkir líkur á meintri sekt í hugum almennings!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.2.2012 - 20:13 - 19 ummæli

Fyrrum hrokagikkurinn Stefán Jón!

Það var dálítill hroki í Stefáni Jóni Hafstein hér í eina tíð.  Allavega var hann dálítið góður með sig. Hafði reyndar að sumu leiti efni á því. Vel gefinn, myndarlegur maður sem auðvelt á með að tjá sig við hvern sem er. Ljóst að það rúllar enginn yfir Stefán Jón.

En Stefán Jón hefur breyst. Hann dró sig út úr íslenskri pólitík og fór að starfa að þróunarsamvinnu í Afríku. Ég hef fylgst með honum þar. Séð hann vinna gott starf. Og séð „dálítinn hroka“ hægt en örugglega þróast yfir í hæfilega auðmýkt.

Þrátt fyrir hæfilega auðmýktina rúllar enginn yfir Stefán Jón. Það segir honum enginn fyrir verkum. En hann hefur lært að þjóna.

Þannig þarf forseti Íslands að vera.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.2.2012 - 12:11 - 6 ummæli

Hvernig veit Álfheiður?

Hvernig veit Álfheiður að enginn þingmaður hafi hringt í mótmælendur á Austurvelli og leiðbeint þeim í aðför að lögreglu og Alþingishúsi?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.2.2012 - 13:54 - 3 ummæli

Bönnum lestur Nýja testamentisins!

Eigum við ekki að banna lestur Nýja testamentisins í Ríkisútvarpinu?  Það er nefnilega unnt að túlka ritningargreinar þar sem gyðingahatur.

… annað en umburðarlyndið í garð annarra en „guðs útvöldu þjóð“ í Tenakh! Að ég tali ekki um Mishna og Talmúd!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.2.2012 - 08:30 - 16 ummæli

Framsókn höfð að féþúfu!

Fyrirtæki í Reykjavík reynir nú að hafa minn gamla flokk Framsóknarflokkinn að féþúfu! Fyrirtækið rukkaði Framsóknarflokkinn um tvöfalt hærri fjárhæð en um var samið fyrir þjónustu þess í aðdraganda kosninganna 2009. Fyrirtækið hefur ekki getað lagt fram nein gögn né neinar sannanir fyrir því að fjárkrafa þess eigi við rök að styðja.

Þvert á móti dæmdi héraðsdómur fyrirtækinu í vil eingöngu á málflutningi framkvæmdastjóra fyrirtækisins sem aldrei kom að málinu og á málflutningi starfsmanns fyrirtækisins sem bauð Framsóknarfélögunum í Reykjavík sérkjör fyrir þjónustuna. Engin gögn. Engar sannanir.

Ég veit þetta því það var ég sem kosningastjóri hjá mínum gamla flokki sem fékk munnlegt tilboð um sérkjör á þjónustu fyrirtækisins.  Þjónustu sem aldrei hefði verið keypt ef hún hefði átt að kosta það sem rukkað var fyrir. Aldrei.

Auðvitað eru allar líkur á að hæstiréttur snúi þessum sérstaka dómi héraðsdóms við. Því ef það gerist ekki þá eru félagasamtök í landinu berskjölduð fyrir óprútnum fyrirtækjum sem geta gefið út á þau tilhæfulausa reikninga.

En á meðan beðið er dóms hæstaréttar þá reynir fyrrnefnt fyrirtæki að gera Framsókn að féþúfu með því að kúga það til greiðslu tilhæfulauss reiknings með umfjöllun í fjölmiðlum.  Kúgunarleið sem fyrirtækið hefur áður beitt gegn flokknum.

Eins og menn vita þá er ég ekki lengur í Framsóknarflokknum. Mér gæti ekki verið meira sama um erfið fjármál flokksins og það að einhver aðildarfélög hans verði gjaldþrota. En ég vil þá að gjaldþrotið byggi á raunverulegum fjárskuldbindingum sem Framsókn hefur staðið fyrir en ekki tilhæfulausum fjárkröfum fyrirtækis út í bæ.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.2.2012 - 09:15 - Rita ummæli

Loksins fatta stjórn og bankar!

Ég veit ekki hvort ég á að hlægja eða gráta nú þegar forsvarsmenn fjármálafyrirtækja og stjórnarþingmenn leggja til að  ágreiningur um skuldavandann verði leystur í gerðardómi.

Ég man ekki betur en sömu aðiljar hafi nánast farið af hjörunum þegar Gísli Tryggvason Talsmaður neytenda lagði árið 2009 fram tillögur um einmitt slíka gerðardómsleið!

Menn hefðu betur farið að ráðum Talsmanns neytenda á sínum tíma. Það hefði sparað mikið bull, orku og peninga.  Þá væri samfélagið nú að rísa á grunni sáttar í stað þeirrar sundrungar sem stjórnvöld og fjármálafyrirtæki völdu.

Ég ætla að taka mér það bessaleyfi og birta færslu á vef Talsmanns neytenda frá því 27. ágúst 2009:

„Tilmælum nú beint til lánveitenda um gerðardómslausn

 

Réttum fjórum mánuðum eftir að forsætisráðherra var send tillaga um eignarnám íbúðarveðlána og niðurfærslu þeirra eftir mati gerðardóms eru bönkum og öðrum kröfuhöfum nú send sambærileg tilmæli – en sú varaleið nær jafnframt til bílalána o.fl. lána til neytenda, sem fyrri tillaga gerði ekki.

Talsmaður neytenda hefur nú beint spjótum sínum að bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum og kröfuhöfum í viðleitni sinni við að leita samræmdra lausna – en ekki aðeins frystinga og frestana – á brýnum skuldavanda neytenda.

Beðið í fjóra mánuði eftir fyrri ríkisstjórn og nú fjóra mánuði eftir síðustu ríkisstjórnum

Framan af vetri átti talsmaður neytenda eins og fleiri von á frumkvæði frá stjórnvöldum til lausnar á skuldavanda neytenda í kjölfar banka- og gengishruns eins og ítrekaðar yfirlýsingar bentu til.

Sem dæmi má nefna að á forsíðu DV 7. október 2008, daginn eftir svonefnd neyðarlög, var haft eftir þáverandi viðskiptaráðherra að slegin yrði skjaldborg um hag almennings og fullyrt í undirfyrirsögn að erlend lán yrðu yfirtekin og lækkuð. Á baksíðu Morgunblaðsins þremur mánuðum síðar, hinn 7. janúar 2009, segir í fyrirsögn að erlend lán fari til Íbúðarlánasjóðs og fullyrt að verið sé að leggja lokahönd á slíkan flutning; þá er staðhæft að myntkörfulán verði væntanlega yfirtekin á svipuðu gengi og þegar þau voru tekin.

Lýst eftir þremur þrepum strax 11. febrúar sl.

Því var það ekki fyrr en rúmum fjórum mánuðum eftir bankahrun og síðara gengisfall íslensku krónunnar að talsmaður neytenda tók frumkvæði í málinu og átti aðild að sameiginlegu ákalli til stjórnvalda um almennar aðgerðir til lausnar efnahagsvanda heimilanna ásamt nokkrum hagsmunasamtökum 11. febrúar 2009. Þar var lýst þörf á almennum aðgerðum til lausnar skuldavanda neytenda – hvort sem væri í verðtryggðum lánum eða gengistryggðum. Þ.m.t. var nefnd almenn niðurfærsla höfuðstóls íbúðarveðlána. Í ákallinu var lögð áhersla á þrjú þrep aðgerða:

  1. bráðaaðgerðir sem voru í vændum – og hafa verið framkvæmdar,
  2. niðurfærslu skulda í eitt skipti – sem enn er beðið og
  3. framtíðarlöggjöf um jafnvægi milli neytenda og kröfuhafa – sem er næsta verkefni.

Nánar er farið yfir aðdragandann frá október 2008 til aprílloka 2009 í tillögu TN 09-2 (bls. 5-8) sem send var 27. apríl sl. í kjölfar alþingiskosninga sem tillaga um tiltekna aðferðarfræði – leið til málsmeðferðar á flóknu máli – en án þess að leggja til ákveðna niðurstöðu eins og aðrir höfðu gert.

Annað skref nær 11 mánuðum eftir hrun

Nú þegar árangurslaust hefur verið beðið viðbragða stjórnvalda í fjóra mánuði til viðbótar og nær 11 mánuðir eru liðnir frá neyðarlögunum hefur talsmaður neytenda ákveðið að leggja til sambærilega lausn sem bankar og aðrir kröfuhafar geta sjálfir samið um við neytendur samkvæmt gildandi lögum um samningsbundna gerðardóma.

 Þeim 25 viðskiptabönkum, sparisjóðum, eignarleigufyrirtækjum og öðrum kröfuhöfum, sem fengu tilmælin send,  hefur verið gefinn frestur til 15. september nk. til þess að svara tilmælum talsmanns neytenda skriflega. Þá verður liðið hálft annað ár frá fyrra gengisfalli íslensku krónunnar – sem leiddi af sér mikla og ófyrirséða hækkun gengisbundinna og síðar verðtryggðra skulda neytenda og þarafleiðandi forsendubrest auk röksemda um ólögmæti slíkra lána og fleiri lagaraka.

 

Aðild neytenda nauðsynleg

Tillaga talsmanns neytenda í vor og tilmæli nú snúa að sveigjanlegri lausn sem stjórnvöld ákveði með málefnalegum hætti eða málsvarar neytenda komi að á jafnræðisgrundvelli ásamt kröfuhöfum. Útilokað er að dómi talsmanns neytenda að fela bönkum og öðrum lánveitendum sjálfdæmi um hvort, hvernig og gagnvart hverjum beri að færa niður skuldir.

Nú loks deilt um hvernig – en ekki hvort…

Þróun undanfarna daga virðist þó benda til þess að ekki sé lengur deilt um hvort koma eigi til móts við skuldara íbúðarveðlána, bílalána og annarra neytendalána – heldur með hvaða hætti og gagnvart hverjum. Að mati talsmanns neytenda rímar sú staða vel við tillögu hans og tilmæli sem lúta að málsmeðferð en ekki tiltekinni niðurstöðu enda hefur hann ekki aðhyllst flata niðurfærslu skulda heldur var samkvæmt tillögunni (bls. 4) gert ráð fyrir mismunandi niðurstöðu eftir mismunandi hópum og þá fyrst og fremst eftir

  • tegund láns,
  • tímasetningu lántöku og
  • atvikum sem síðar komu til.

Einnig var lagt til að heimilt yrði að líta til fleiri atriða. Efniságreiningur virðist þó enn milli þeirra sem aðhyllast almennar lausnir og stjórnvalda um hvort miða eigi við neytendasjónarmið á borð við forsendubrest, tjón og sanngirnisreglur eins og þegar aðrar hamfarir – svo sem jarðskjálfti – veldur tjóni eða hvort miða eigi samræmdar aðgerðir fyrst og fremst við hvort skuldari geti greitt.“

 http://talsmadur.is/Pages/55?NewsID=1080

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.2.2012 - 08:39 - 5 ummæli

FME, BR og organdi grísir

Það er hjákátlegt að sjá marga þá sem réðust af miklu offorsi á starfsheiður bæjarritarans í Kópavogi þegar hann var ráðinn yfirmaður Bankasýslu ríkisins,  þar sem hann var metinn hæfasti umsækjandinn, orga nú eins og stungnir grísir yfir því að forstjóri Fjármálaeftirlitsins sé í vandræðum vegna vafasamra starfa sinna fyrir aflandsfélög Landsbankans.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur