Föstudagur 17.2.2012 - 20:07 - 14 ummæli

Tapsárir Kastljóssmenn

Það fór ekki fram hjá neinum að Árni Páll Árnason rúllaði yfir Helga Seljan í Kastljósinu í gær. Sem er sjaldgæf sjón þegar Helgi Seljan á í hlut. Alveg óháð því sem fólki finnst um réttmæti laga þeirra sem Árni Páll hafði forgöngu um að setja. Það sáu það allir sem vildu sjá að það voru öflug málefnaleg rök fyrir lagasetningunni og að hún gekk ekki lengra í þágu lántakenda en raunin varð.

Í kvöld sáum við tilraun tapsárra Kastljóssmanna til að koma Árna Páli á kné að honum fjarstöddum með afar leiðandi spurningum og sérstakri úrklippu úr löngu viðtali gærdagsins.

Sem betur fer voru viðmælendur Kastljóssins – sem báðir hafa frá upphafi verið á öndverðu meiði við Árna Pál varðandi lögin sem hann setti – vandaðir og heiðarlegir menn. Þeir féllu ekki í freistnina að fylgja „settöppi“ Kastljóssins heldur héldu sig við málefnalega og uppbyggilega umræðu – stjórnandanum til mikillar arðmæðu virtist.

Gísli Tryggvason talsmaður neytenda sem lengi hefur barist gegn verðtryggingu – of stundum farið offari að mínu mati í þeim slag – stóð sig frábærlega. Hann kom rökum gegn verðtryggingu afar vel á framfæri, hann kom rökum sínum gegn lagasetningu ákveðið en hóflega á framfæri – en féll ekki í þá gildru sem Kastljósið hafði egnt – að halda út í ómálefnalegan slag við Árna Pál og varfærnislega lagasetningu hans á sínum tíma.

Sveinn kom reyndar á framfæri kjarna málsins um verðtrygginguna – verðtrygging er eðlileg í íselnsku efnahagslífi þar sem við þurfum að lifa við ónýtan gjaldmiðil – en GRUNNUR verðtryggingar lána er ekki eðlilegur. Það er nefnilega allt annað mál.

Sigurvegarar kvöldsins voru Gísli Tryggvason, Sveinn  viðskitpafræðingur og Árni Páll Árnason lögfræðingur fyrir málefnalega umræðu síðustu tvo daga. Allir þessir menn eiga erindi á Alþingi. En tapararnir eru… já, hverjir ætli þeir séu!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.2.2012 - 22:17 - 5 ummæli

Beztu vinir verzlunarmiðstöðva!

Beztu vinir verzlunarmiðstöðvanna urðu ofaná á kostnað „Lifandi miðbæjar“ í Reykjavík. Lattelepjandi liðið í 101 er búið að snúa baki við rótunum sínum. Orðið „súbúrbían“. Synd.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.2.2012 - 13:26 - 19 ummæli

Galdrabrenna á Akureyri?

Ef Snorri Óskarsson grunnskólakennari missir starf sitt vegna þess að vitna í Biblíuna á opinberum vettvangi og túlka orð hennar of bókstaflega fyrir smekk annarra – þá erum við komin út á hálan ís. Mér líkar betur kærleiksboðskapur Jesúm Krists en grimmd gamla testamentisins. Það breytir ekki texta gamla testamentisins.

Má Snorri vitna í orð Jesúm krists og leggja út frá þeim á opinberum vettvangi – en ekki vitna í texta gamla testamentisins og leggja út frá honum?

Menn geta tekist á við Snorra á málefnalegan hátt og með málefnalegum rökum. En ef það á að refsa Snorra fyrir skrif hans með mögulegum starfsmissi – þá eru menn farnir að tendra galdrabrennurnar.

Já, og taka undir anda grimmdarinnar í gamla testamenntinu.

 

‎“Ég fyrirlít skoðanir yðar, en ég er reiðubúinn til að láta lífið fyrir rétt yðar til að halda þeim fram.“  

Voltaire.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.2.2012 - 18:33 - 4 ummæli

Verum áberandi hýr í Bakú!

Við eigum að vera  áberandi hýr í Bakú. Hvort sem við erum gagnkynhneigð eða samkynhneigð. Notum öll tækifæri til þess að vera hýr og koma boðskap um eðlileg mannréttindi samkynhneigðra á framfæri. Í öllum viðtölum. Í öllum partýum. Á sviðinu í Bakú.

Páll okkar Hjálmtýsson á ekki að sniðganga Bakú. Hann á að vera í fararbroddi hýrleikans í Bakú og berjast þannig fyrir mannréttindum samkynhneigðra. Og ekki bara samkynhneygðra heldur fyrir mannréttindum almennt sem ljóst er að þarf að bæta verulega í Aserbædsjan.

Páll okkar Magnússon útvarpsstjóri á að hvetja vini okkar á Norðurlöndum til að taka sama pól í hæðina.  Því ef öll Norðurlöndin verða hýr í Bakú og halda á lofti baráttunni fyrir eðlilegum mannréttindum samkynhneigðra þá getur enginn Aseri fram hjá því litið. Eða Evrópa yfir höfuð ef út í það er farið. Eða veröldin öll!

Já, mætum hýr til Bakú!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.2.2012 - 09:04 - 6 ummæli

Kraðak á Alþingi til 2018

Það stefnir í algjört kraðak á Alþingi í kjölfar komandi Alþingiskosninga. Það sjá það allir að flokkakerfið er í rúst og núverandi stjórnmálaflokkar munu ekki gera það gott.  Þeir munu hins vegar allir fá menn kjörna á þing. Ný framboð munu væntanlega ná betri árangri en áður hefur sést í íslenskum stjórnmálum. Þau munu einnig fá menn kjörna á þing.

Ég spái að það verði 7 framboð sem nái mönnum á þing.  Það þýðir væntanlega áframhaldandi glundroði á Alþingi og íslenskum stjórnmálum.

En ég spái því einnig að í kjölfarið fari línur að skýrast upp á nýtt og á nýjum forsendum enda 100 ára „stéttastjórnmál“ að líða undir lok.

Við munum væntanlega sjá stjórnmálastrúktur næstu áratuga liggja fyrir árið 2018. Það er viðeigandi. Öld eftir fullveldi Íslands.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.2.2012 - 08:19 - 4 ummæli

Lýðræðisvæðum lífeyrissjóðina

Það er löngu kominn tími á að lýðræðisvæða lífeyrissjóðanna. Helmingaskipti stjórnendaklíku verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda hefur aldrei verið í lagi. Við sjáum afleiðingar þess lénsskipulags þar sem „verkalýðsleiðtogar“ fá dúsu í ofurstjórnarlaunum og fá að ráðgast með peninga annarra í kompaníi með „auðvaldi“ avinnurekenda.

Það er einfalt að breyta þessu og taka upp beint lýðræði í lífeyrissjóðunum.

En „verkalýðsleiðtogarnir“ munu berjast gegn því með kjafti og klóm. Þeim líkar ekki lýðræði á borði – einungis í orði!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 4.2.2012 - 14:05 - 19 ummæli

Hálmstrá ESB-andstæðinga!

Gallhörðustu andstæðingar aðildarviðræðna að Evrópusambandinu óttast það allra mest að Íslendingar séu að ná góðum aðildarsamningi við Evrópusambandið þrátt fyrir skipulagða skemmdarstarfsemi þeirra sjálfra gagnvart samningaferlinu. Þessi ótti er kominn á nýtt stig sem endurspeglast hjá einum helsta skemmdarverkamanninum Jóni Bjarnasyni sem gerði allt sem ráðherra til að vinna gegn íslenskum hagsmunum með stælum.

Nú sér Jón að samningar ganga of vel að hans mati og grípur því síðasta hálmstráið sem er að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram samningaviðræður að ESB. Það gerir Jón þrátt fyrir að það sé deginum ljósara – ef marka má skoðanakannanir – að rúmur helmingur þjóðarinnar vill klára aðildarviðræður og taka síðan ákvörðun um inngöngu og inngöngu ekki.

Þetta sýnir að andstæðingarnir hafi trú á því að góðir samingar náist og að þjóðin muni að líkindum samþykkja aðild að ESB.

Athyglisvert!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.2.2012 - 08:43 - 7 ummæli

Samfó Bezt í skattpíningu

Samfylkingin er best í skattpíningu. Dagur B. varaformaður Samfylkingarinnar og Beztu vinir hans í borgarstjórn veigra sér ekki að skattpína hestamenn – hækka gjöld á þá um 750%.  Já, 750%.  Þessir skattpíningarflokkar byrjuðu reyndar ferilinn með því að hækka orkureikninga Reykvíkinga um tugi prósenta – þegar miklu mun lægri hækkun hefði dugað.

Þá hefur Jóhanna formaður Samfylkingarinnar rekið gegndarlausa skattpíningarstefnu á landsvísu ásamt hinum valdgíruga vinstrimanni Steingrími J.

Já, Samfylkingin er bezt í skattpíningu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.1.2012 - 08:58 - 6 ummæli

Ögmundur maður að meiru

Ögmundur Jónasson er maður að meiru að biðjast formelga afsökunar á fáránlegum ummælum um opinbera starfsemnn.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.1.2012 - 00:23 - 9 ummæli

„Great Britain“ In memorium

Englendingar sem áður stýrðu hinu öfluga breska heimsveldi mega muna fífil sinn fegri. „The English Rose“ féll fyrir nokkrum áratugum síðan en var þurrkuð svo ásýndin hélst um nokkurt skeið – þar til þurr og líflaus krónublöðin tóku að falla eitt af öðru. Nú er enska þurrkaða rósakrónan endanlega fallin.

Skotar hyggjast skilja England nánast eitt og yfirgefið eftir í „The Great Britain“.  Öðlast sjálfstæði og taka upp evru.

Hið  „sérstaka samband“ við stóra bróður í vestri er sárljúf minning ein. Sambandinu breytt af syni gamallrar negranýlendu Englendinga úr eldheitu „love and hate“ ástarsambandi – þar sem engin komst á  milli elskendanna með amríska hreimnum og gamla enska hreimnum – yfir í kurteisislegt teboð gamallra frænka.

Já – svo ekki sé minnst á endanlegt skipsbrot Englendinga í Evrópu – þar sem þeir hafa reynt að gera sig gildandi í 900 ár eða svo. Fyrst voru þeir hraktir af lendum sínum í Frakklandi. Reyndu að endurheimta þær í margar aldir. Náðu á tímabilum að verða ráðandi afl í Evrópu þótt þeir hafi ekki endurheimt fyrri lendur síðan þá.  En eru nú komnir úr því að vera „upstairs“ í Evrópu í það að vera „downstairs“.

Endanleg staðfesting þess var í dag – þegar einungis ein Evrópuþjóð lét undan gífurlegum þrýstingi Englendinga – og gekk til liðs við vafasama stefnu þeirra sem væntanlega mun skaða bæði ríkin. Eina ríkið Evrópu. Ekki það að Tékkar skuldi Englendingum eitt eða neitt. En líklega búnir að gleyma því þegar Bretar gáfu Þjóðverjum frítt spil í að innlima Súdetahéruðin 1938.

Býst við því að eftir daginn í dag muni „Svarti hundurinn“ enn á ný gangi laus í Downingsstræti 10!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur