Það fór ekki fram hjá neinum að Árni Páll Árnason rúllaði yfir Helga Seljan í Kastljósinu í gær. Sem er sjaldgæf sjón þegar Helgi Seljan á í hlut. Alveg óháð því sem fólki finnst um réttmæti laga þeirra sem Árni Páll hafði forgöngu um að setja. Það sáu það allir sem vildu sjá að það voru öflug málefnaleg rök fyrir lagasetningunni og að hún gekk ekki lengra í þágu lántakenda en raunin varð.
Í kvöld sáum við tilraun tapsárra Kastljóssmanna til að koma Árna Páli á kné að honum fjarstöddum með afar leiðandi spurningum og sérstakri úrklippu úr löngu viðtali gærdagsins.
Sem betur fer voru viðmælendur Kastljóssins – sem báðir hafa frá upphafi verið á öndverðu meiði við Árna Pál varðandi lögin sem hann setti – vandaðir og heiðarlegir menn. Þeir féllu ekki í freistnina að fylgja „settöppi“ Kastljóssins heldur héldu sig við málefnalega og uppbyggilega umræðu – stjórnandanum til mikillar arðmæðu virtist.
Gísli Tryggvason talsmaður neytenda sem lengi hefur barist gegn verðtryggingu – of stundum farið offari að mínu mati í þeim slag – stóð sig frábærlega. Hann kom rökum gegn verðtryggingu afar vel á framfæri, hann kom rökum sínum gegn lagasetningu ákveðið en hóflega á framfæri – en féll ekki í þá gildru sem Kastljósið hafði egnt – að halda út í ómálefnalegan slag við Árna Pál og varfærnislega lagasetningu hans á sínum tíma.
Sveinn kom reyndar á framfæri kjarna málsins um verðtrygginguna – verðtrygging er eðlileg í íselnsku efnahagslífi þar sem við þurfum að lifa við ónýtan gjaldmiðil – en GRUNNUR verðtryggingar lána er ekki eðlilegur. Það er nefnilega allt annað mál.
Sigurvegarar kvöldsins voru Gísli Tryggvason, Sveinn viðskitpafræðingur og Árni Páll Árnason lögfræðingur fyrir málefnalega umræðu síðustu tvo daga. Allir þessir menn eiga erindi á Alþingi. En tapararnir eru… já, hverjir ætli þeir séu!