Þriðjudagur 27.12.2011 - 11:57 - Rita ummæli

„Kapp er best með forsjálni“

„Tveggja til þriggja mánaða æfing fyrir  knattspyrnuflokk, hugsa eg að sé það minsta  sem verður komist af með fyrir  kappraunina.  En náttúrlega standa þeir betur að vígi, sem tamið hafa sér fimleika allan  veturinn.“

Þannig heldur Bennó áfram umfjöllun sinni um knattspyrnu í Skinfaxa árið 1916 – en ég hef að undanförnu birt nokkra kafla þessara skemmtilegu og fróðlegu pistlan hans sem veita innsýn í knattspyrnuna og stöðu hennar á Íslandi í miðri fyrri heimstyrjöldinni.

En áfram heldur Bennó:

Er það líka vel hægt í flestum kaupstöðum að iðka fimleika, því vanalegast  eru þar starfandi fimleika- og íþróttafélög á vetrum. En til sveita verða menn að æfa sig betur — minst þrjá mánuði, þar sem  þeir  standa ver að vígi en kaupstaðarbúar — hvað fimleikana snertir. Oft er  það  sagt — og það með sanni — að fimleikarnir séu undirstaða — máttarstoð —  íþrótta, því  þar læra menn fyrst og fremst að anda rétt og reglulega, ganga beinir og  óhikað, hlaupa, og gera  ýmsar æfingar, svo að allir vöðvar  líkamans verða stæltir og  liðugir, — til hvers er vera  skal.

Mundu færri  íþróttamenn hafa ofreynt sig en  raun  er á, ef þetta hefði verið tímanlega vel athugað — að enginn má óœfður fara í kappraunir.

Kynnið ykkur því vel íþróttina, temjið hana vandlega,  áður en þið leggið út í  kappraunina, því  annars gæti það orðið ykkur óbætanlegt tjón — sú  skammsýni og þekkingarleysi; — sem hinsvegar verður ykkur til frægðar og frama, ef  þið vanrækið aldrei þessa sjálfsögðu reglu.

Það  verður aldrei of oft varað við,  að menn fari óæfðir eða lítt undir búnir í kappraunir. Kapp er best með forsjálni.

Nú eru knattspyrnuleikarnir að byrja aftur, og á því vel við að athuga hvernig góður knattspyrnuflokkur á að vera úr garði ger, svo ólastanlegur sé. Skal það nú athugað nánar. Ellefu manna sveitir leikast á í 90 mínútur — nema öðruvísi sé um samið, — 45 mínútur á hvort mark.

Áður fyr var staða leikmanna ekki sem best ákveðin fyrirfram, nema staða markvarðar, — flæktist þá hver fyrir öðrum.

 En brátt komust menn að þeirri niðurstöðu, að vissast og best er að ákveða fyrirfram fylkingarskipun leikmanna, þannig að hver þátttakandi hafi sinn vissa og ákveðna stað að gæta, bæði til sóknar og varnar. Hverri sveit leikmanna má skifta í varnar sveit og sóknarsveit.

Áður voru t. d. 8 menn í sóknarsveitinni og aðeins 3 menn í varnarsveitinni, en þetta vildi ekki blessast, svo nú var breytt um þannig: 5 menn skyldu vera í sóknarsveitinni og 6 menn i varna r sveitinni, og hefir það reynst best.

Verður því heppilegast að raða leikmönnum þannig á völlinn:

                                                         Markvörður.

Bakvörkur (hægri).                                                                 Bakvörður (vinstri).

Framvörður (hægri).               Miðvörður.                     Framvörður (vinstri).

Útframherji   Innframherji   Miðframherji.      Innframherji    Útframherji

(hægri).                (hægri).                                       (vinstri).         (vinstri).

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 24.12.2011 - 02:54 - Rita ummæli

Þekkja skaltu knattspyrnulögin

„Hver sá, sem ætlar sér að verða þátttakandi í knattspyrnuleik, verður fyrst af öllu að læra til hlítar knattspyrnulögin. Þetta tek eg fram enn þá einu sinni vegna  þess, að þetta er svo vanrækt, hjá þeim, sem leggja stund á þessa íþrótt. „ segir Bennó í merkum greinaflokki sínum um knattspyrnu sem birtist í nokkrum heftum Skinfaxa árið 1916 og ég hef birt á blogginu undanfarið.

Bennó fjallar áfram um gagnsemi þess að iðkendur tileinki sér „knattspyrnulögin“:

„Þráfaldlega kemur það fyrir hér í Reykjavík (og víðar býst ég við), að keppendurnir vegna  þekkingarleysis á knattsp.lögum, gera knattsp.flokk sínum mikinn óleik, með því  að kunna ekki til hlítar knattsp.lögin. 

Það bitnar svo sem ekki eingöngu á manninum sjálfum, heldur oftast á öllum flokknum, og er því þetta mjög  athugavert fyrir öll knattsp.félög að herða á félögum sínum að læra lögin. Besta ráðið væri að félögin héldu fundi,  þar sem knattspyrnureglurnar og skýringar þeirra væru aðallega til umræðu. Ef svo væri, þá spái eg því að knattspyrnan mundi taka miklum framförum.

Verður þá klaufinn síður eftirbátur félaga sinna, ef hann vildi hugsa meir um lög og leikreglur knattspyrnu, því það er svo með allar íþróttir, að leikreglur og tamning þeirra verður fullkomlega að lærast, ef að nokkru verulegu gagni á að verða, og er fróðlegt að vita, að oftast er það í knattleiknum sem sigrinum veldur, einmitt það að kunna vel allar leikreglur og brögð og vera fljótur að hugsa, álykta og framkvœma.

Reyndar getur flokksforinginn mikið hjálpað óæfðum mönnum með tilsögn sinni, þegar hann er nœrstaddur, en það er hann sjaldnast, þegar mest á reynir. Best er að allur flokkurinn (sveitin) sé jafnvígur til leika.

Þó skaðar það ekki, að einn eða tveir menn í flokknum, séu afbragð sinna manna, ef hinir í flokknum eru vel samtaka og þeim hjálplegir, en sé svo ekki, stoðar það lítt, ef þeir hafa ekki aðstoð félaga sinna.

Þó ótrúlegt sé, þá er það svo í knattspyrnuleiknum, að afbragðsmaðurinn fær litlu áorkað, þó duglegur sé, ef hann hefir ekki að baki sér óskiftan flokkinn í samhuga verki. Sigurinn í knattspyrnu er kominn undir því, að hver keppandi sé á sínum stað og flokkurinn um leið samstiltur (skilji vel hlutverk sín) eins og eg hefi áður í þessari grein bent á.

Deilunni er nú loksins lokið, um gagnsemi, hollustu -og nauðsyn íþrótta fyrir hvert þjóðfélag, því um það eru allir sammála, en deilan stendur ennþá yfir, hvernig æfa á íþróttir og temja sér þær, bæði til gagns, gleði og afreks.

Þó vita menn það, að mjög er hættulegt óhörðnuðum og óreyndum unglingum, að ætla sér að taka þátt í erfiðri kappraun, óundirbúnir. Hefir mörgum orðið hált á því, en þetta er það sem svo oft hefir átt sér stað, þó ekki enn þá svo tilfinnanlega hér á landi og eyðilagt góða framtíð íþróttamannsins. Hann hefir ofreynt sig, hjartað bilað (ofþensla í lungum, o. s. frv., sem sagt er að sumir af okkar fáliðuðu íþróttasveit hafi).

Að mínu áliti ætti enginn að fá að taka þátt í útiíþróttum, nema hann hafi áður ítarlega kynt sér íþróttareglurnar, og hvernig ber að æfa þá íþrótt, sem hann velur sér til þess að hafa sem allra mest gagn af.“

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.12.2011 - 01:18 - 16 ummæli

Borgarfulltrúar í leiguhúsnæði?

Meirihluti borgarstjórnar vill leiguíbúðavæða miðbæinn. Spurning dagsins. Hvað búa margir borgarfulltrúar í leiguhúsnæði?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 22.12.2011 - 23:51 - Rita ummæli

Þekkja skaltu knattspyrnulögin

„Hver sá, sem ætlar sér að verða þátttakandi í knattspyrnuleik, verður fyrst af öllu að læra til hlítar knattspyrnulögin. Þetta tek eg fram enn þá einu sinni vegna  þess, að þetta er svo vanrækt, hjá þeim, sem leggja stund á þessa íþrótt. „ segir Bennó í merkum greinaflokki sínum um knattspyrnu sem birtist í nokkrum heftum Skinfaxa árið 1916 og ég hef birt á blogginu undanfarið.

Bennó fjallar áfram um gagnsemi þess að iðkendur tileinki sér „knattspyrnulögin“:

„Þráfaldlega kemur það fyrir hér í Reykjavík (og víðar býst ég við), að keppendurnir vegna  þekkingarleysis á knattsp.lögum, gera knattsp.flokk sínum mikinn óleik, með því  að kunna ekki til hlítar knattsp.lögin. 

Það bitnar svo sem ekki eingöngu á manninum sjálfum, heldur oftast á öllum flokknum, og er því þetta mjög  athugavert fyrir öll knattsp.félög að herða á félögum sínum að læra lögin. Besta ráðið væri að félögin héldu fundi,  þar sem knattspyrnureglurnar og skýringar þeirra væru aðallega til umræðu. Ef svo væri, þá spái eg því að knattspyrnan mundi taka miklum framförum.

Verður þá klaufinn síður eftirbátur félaga sinna, ef hann vildi hugsa meir um lög og leikreglur knattspyrnu, því það er svo með allar íþróttir, að leikreglur og tamning þeirra verður fullkomlega að lærast, ef að nokkru verulegu gagni á að verða, og er fróðlegt að vita, að oftast er það í knattleiknum sem sigrinum veldur, einmitt það að kunna vel allar leikreglur og brögð og vera fljótur að hugsa, álykta og framkvœma.

Reyndar getur flokksforinginn mikið hjálpað óæfðum mönnum með tilsögn sinni, þegar hann er nœrstaddur, en það er hann sjaldnast, þegar mest á reynir. Best er að allur flokkurinn (sveitin) sé jafnvígur til leika.

Þó skaðar það ekki, að einn eða tveir menn í flokknum, séu afbragð sinna manna, ef hinir í flokknum eru vel samtaka og þeim hjálplegir, en sé svo ekki, stoðar það lítt, ef þeir hafa ekki aðstoð félaga sinna.

Þó ótrúlegt sé, þá er það svo í knattspyrnuleiknum, að afbragðsmaðurinn fær litlu áorkað, þó duglegur sé, ef hann hefir ekki að baki sér óskiftan flokkinn í samhuga verki. Sigurinn í knattspyrnu er kominn undir því, að hver keppandi sé á sínum stað og flokkurinn um leið samstiltur (skilji vel hlutverk sín) eins og eg hefi áður í þessari grein bent á.

Deilunni er nú loksins lokið, um gagnsemi, hollustu -og nauðsyn íþrótta fyrir hvert þjóðfélag, því um það eru allir sammála, en deilan stendur ennþá yfir, hvernig æfa á íþróttir og temja sér þær, bæði til gagns, gleði og afreks.

Þó vita menn það, að mjög er hættulegt óhörðnuðum og óreyndum unglingum, að ætla sér að taka þátt í erfiðri kappraun, óundirbúnir. Hefir mörgum orðið hált á því, en þetta er það sem svo oft hefir átt sér stað, þó ekki enn þá svo tilfinnanlega hér á landi og eyðilagt góða framtíð íþróttamannsins. Hann hefir ofreynt sig, hjartað bilað (ofþensla í lungum, o. s. frv., sem sagt er að sumir af okkar fáliðuðu íþróttasveit hafi).

Að mínu áliti ætti enginn að fá að taka þátt í útiíþróttum, nema hann hafi áður ítarlega kynt sér íþróttareglurnar, og hvernig ber að æfa þá íþrótt, sem hann velur sér til þess að hafa sem allra mest gagn af.“

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 22.12.2011 - 08:00 - 1 ummæli

Illræmdir atvinnumenn

„Eins og í öllum íþróttum, sem mikilli útbreiðslu ná, og sem fólkinu geðjast að, þá fór að bera mikið á iþrótta-atvinnumönnum (Professional sportm.).“

Þannig hefst umfjöllun Bennó um hina alræmdu atvinnumenn í knattspyrnu í Skinfaaxa árið 1916 – en Bennó var ekki par hrifinn af atvinnumönnunum sem hann taldi skemma íþróttandann í knattspyrnunni sem og öðrum íþróttum.

Áfram heldur Bennó:

„Fékk England fljólt á þeim að kenna, því hvergi eru þeir fleiri og öflugri, en einmitt þar. Árið 1887 stofnuðu þeir með sér „The League „. Það er allsherjar – samband enskra atvinnumanna í knattsp. Er þeim bestu þar borgað £ 8 (um 144 krónur) um vikuna, og gefur því að skilja að margur áhugamaðurinn (Amateursportm.) stóðst það ekki og gjörðist atvinnumaður; spiltist því um stund þessi heilsusamlega keppni, sem í knattsp. var — áður en atvinnumennirnir komu til sögunnar. Heilsusamleg keppni þrífst ekki, þar sem að peningar eru í aðra hönd, — eftir sigurinn.

Ekki var það þó fyr en árið 1907, að stofnsett var knattspyrnusamband áhugamanna (The Amateur Association) til varnar því að allir gjörðust a tvinnumenn í knattspyrnu. Voru líka mörg fjelög farin að misbeita valdi sínu, og kvöddu áhugam.félög, að gerast Atvinnum.félög, því á því væri meira að græða. En nú var rösklega við brugðið, og bannað, að áhugamenn hefðu nokkur mök saman við atvinnum.

Voru sett lög um það, að áhugamenn og atvinnumenn mættu ekki einusinni keppa saman (hver á móti öðrum), né þiggja mútur, eða neitt þess háttar. Það átti að halda fast við þá algengu reglu, sem er um áhugamenn að þeir iðka íþróttina listarinnar vegna, en ekki vegna peninga, eins og áhugamenn gjörðu og gera.

 Sem dæmi um, hve stranglega þetta áhugamanna félag hegnir, ef út af reglunum er breytt, skal þess getið að í fyrravor (í aprílmánuði) kepptu knattspyrnuflokkur frá Manchester og frá Liverpool saman.

Knattspyrnan fór fram i Manchester og fóru svo leikar að M.flokkurinn vann. En við það fanst eitthvað athugavert —svo þetta félag áhugamanna (Amateur Association) tók málið til rannsóknar.

 Kom þá í ljós að flestir keppandanna í Liverpools-flokknum voru leigðir af veðmálastjórunum (the bookmakers ); fengu þeir álitlega upphæð peninga, fyrir að tapa leiknum. Sem von var fengu þeir mjög strangan dóm, fjórir þeirra voru reknir fyrir fult og alt úr knattsp.fj. og mega aldrei oftar taka þátt í knattspyrnu, sem áhugamenn.

Eins og menn sjá, þá er ekki við lambið að leika sér, þar sem þetta áhugam.félag er.

Heimssamband knattspyrnufélaga (The Worlds Union) var stofnað 1908 – 09 . Eru í því eru flestar þær þjóðir, sem knattspyrnu iðka, undir einhverri stjórn.

Þetta er nú í stuttu máli saga knattspyrnunnar á Englandi. Mættum við Íslendingar læra af þessum félagsskap þeirra Engl. samheldni, þá væri mikið fengið. Ef til vill eiga knattsp.félögin eftir að vinna það verk. Má þá segja að betur er af stað farið en heima setið.“

Næst birtist sá hluti greinaflokks Bennó þar sem áhersla er lögð á mikilvægi þess að kunna knattspyrnulögin. Þar segir ma:

„Verður þá klaufinn síður eftirbátur félaga sinna, ef hann vildi hugsa meir um lög og leikreglur knattspyrnu, því það er svo með allar íþróttir, að leikreglur og tamning þeirra verður fullkomlega að lærast, ef að nokkru verulegu gagni á að verða…“

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.12.2011 - 12:20 - 4 ummæli

Ónýt leiguíbúðaskýrsla Capacent!

Það stefnir í stórslys í húsnæðismálum í Reykjavík ef borgarstjórn ætlar að byggja stefnumörkun sína í húsnæðismálum á leiguíbúðaskýrslu Capacent. Skýrslan er ónýt, gefur kolranga mynd af stöðu og framtíðarþörfum almennings í húsnæðismálum og með ólíkindum að svo virt fyrirtæki sem Capacent láti slíka skýrslu frá sér.

Í skýrslu Capacent sem byggir meðal annars á meingallaðri könnun fyrirtækisins er algerlega horft framhjá því húsnæðisúrræði sem að öllum líkindum hentar best stórum hluta þeirra  12 þúsund fjölskyldna og einstæðinga sem Capacent telur að þurfi á leiguhúsnæði að halda í Reykjavík á næstu árum.

Búseturéttarformið sem er sú leið sem hentar stórum hluta Íslendinga og er rökrétt úrræði fyrir þá sem vilja langtímaöryggi í húsnæðismálum án þess að hætta öllu sínu í húsnæðiskaupum.  Búseturéttarformið rekið í húsnæðissamvinnufélögumum er alþekkt um Norðurlöndin, í Evrópu og í Bandaríkjunum.   Á Íslandi er komin góð reynsla á formið í húsnæðissamvinnufélögunum Búseta, Búmönnum og fleiri búseturéttarfélögum.

Capacent lét eins og búseturéttarformið væri ekki til og veitti svarendum í viðhorfskönnuninni ekki möguleika á að taka afstöðu til þess hvort búseturéttarformið myndi henta. Þá er ekki að sjá á gögnum Capacent um skiptingu eigin húsnæðis og leiguhúsnæðis á Íslandi og á Norðurlöndunum að fyrirtækið greini þetta húsnæðisform. Grunar að það sé flokkað hjá Capacent sem almennt leiguhúsnæði frekar en eigið húsnæði.

Það er algerlega ljóst að Reykjavíkurborg getur ekki tekið afstöðu um stefnu í húsnæðismálum á grundvelli skýrslu Capacent. Reykjavík verður að skoða ítarlega búseturéttarformið og húsnæðissamvinnufélagsformið áður en næstu skref eru tekin.

Það sama á við ríkisstjórnina, enda eru fjölmargir kostir við búseturéttarformið auk þess sem það getur á einfaldan hátt leyst vanda ríkisstjórnarinnar með stöðu lána Íbúðalánasóðs gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA.

Meira um búseturéttarformið og húsnæðissamvinnufélagaformið á næstu dögum!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.12.2011 - 19:09 - 3 ummæli

…að slá, bregða eða sparka í keppendur

„Um langan aldur var knattspyrnan iðkuð með mjög ófullkomnum leikreglum, eins og þeim, að leyfilegt var að grípa knöttinn  með höndunum, er hann kom í loftinu frá mótherja (mótspilara), var það kallað „fair catch“, og gaf það rétt til aukaspyrnu (fríspark). Einnig var leyíilegt að bera knöttinn og bregða keppendunum, og í hvert skifti sem mark var  „skorað“ (A goal scored)  var skift um markhlið o.s.frv. „

Þannig heldur Bennó áfram umfjöllun sinni um knattspyrnu í Skinfaxa árið 1916 – en áður hef ég birt úr pistlum hans þar sem fjallað var um uppruna knattspyrnunnar og hinn mikilvæga dómara þar sem Bennó sagði meðal annars:

Æfið ykkur alltaf undir handleiðslu dómarans, og venjið ykkur á að hlíta og hlýða úrskurðum hans í hvívetna. Vitið að það er erfitt að vera knattsp.dómari, og gjörið það ekki erfiðara, með hrópum og köllum, um laga og leikreglubrot, á meðan á leiknum stendur. Slíkt  skaðar leikinn — eins og  áður er sagt — og er til lítilla bóta,  þó til sé ætlast.“

En fræðandi umfjöllun Bennó hélt áfram:

„Það var ekki fyr en árið 1863, er stofnaður var félagsskapur meðal enskra knattspyrnufélaga  ( „The English Football Association“)  að  fast skipulag komst á leikinn, og að öll þessi  brögð voru talin óleyfileg, sem að framan  eru nefnd.  Er nú engum keppanda leyfilegt að slá, bregða eða sparka í keppendur,  né  snerta knöttinn viljandi, með höndum,  nema markverði — en þó aðeins eftir  vissum reglum (sjá knattsp.Iögin 8. grein.)

Eftir stofnun þessa ágœta félagsskapar, útbreiddist knattspyrnan mjög, þó að annar knattleikur, knattspyrnunni nokkuð líkur, væri einnig í hávegum hafður, og keppti mjög um völdin við knattspyrnuleikinn. Þessum leik — ef leik skyldi kalla — var  gefið nafnið „Rugby Football „, og er það mesti fantaleikur, sem ég hefi  ennþá séð.

Hver keppandi má nota hendur og fætur eftir vild, hælkróka, öll leggjabrögð, og ýms  önnur þrælabrögð, sem nöfnum tjáir  að nefna.  Kemur það líka oft fyrir, næstum því í hverjum leik — að menn verða óvígir, fara úr liði, hand- og fótleggsbrotna. 

Er ólíkt betri og skemmtilegri leikur knattspyrnan, en þessi ryskinga-fantaleikur.

En þó ber ekki að neita því, að alvarleg meiðsli geta orðið í knattspyrnu, ef hrottalega er leikið, og  dómaranum ekki hlýtt,  sem skyldi — er því vel að athuga,  að knattspyrna fari fram með leikni liðleik og ofstopalaust. Gleyma sér aldrei svoað menn  sparki í mótherja í stað knattarins, en af því stafar mesta hætta (fótbrot, liðskekkjur og fl.)

Þráfaldlega kemur það fyrir að menn spyrna í mótherja  af  gremju og reiði, yfir því að þeir mistu knöttinn á rásinni. Á dómari leiksins að hegna slíkum mönnum mjög stranglega — gjöra þá leikræka; það er  eina  ráðið, sem dugar, og um leið betrar. En hefir þó aldrei verið notað hér á landi.

Árið 1866 var ennþá breytt  knattsp .- lögunum þannig að rangstæðu (off side) reglurnar voru mikið bættar og lagfærðar.  Getur nú t. d. enginn keppenda orðið rangstæður (off side) á sínum vallarhelmingi (svæðisins), og m. fl.

Þá var og rétt á eftir þessu stofnuðalþjóðastjórn knattsp.félaga. (The International Football Board), sem  saman stendur af 8 — átta — mönnum, sem valdir eru af Englands-, Skota-, Íra- og Walesbúum (Football Association) tveir menn frá hvorum þeirra. Hafa þeir á hendi aðalúrskurðarvald, og framkvæmdir á reglum og lagabreytingum knattsp. en þó getur lagabreyting ekki fram farið, nema með samhljóða atkvæðum þessara átta manna (frá  „The Internationall Football Board“ ).

En reglum þeim, lögum og laga skýringum, sem þeir setja, verða svo öll knattsp.félög að hlíta og hlýða.

Árið 1872 fór fyrsti þjóðarkappleikur milli Englendinga og Skota fram, og brátt komu svo  írar og Walesbúar  þar á eftir. 1873—74 byrjuðu fyrstu  knattsp .kappIeikarnir milli háskólabæjanna Oxford  og Cambridge, sem nú eru frægir mjög um allan hinn mentaða heim.

 Á Englandi eru rúm 10000 knattsp.-félög, með mörg hundruð þúsund, starfandi meðlimum, en eins og þið vitið  þá er knattsp. sú langútbreiddasta íþrótt Englands.  Er þetta því ef til vill ekki svo undarlegt, en það merkilegasta við knattsp.

  • er, að allar þjóðir, sem hann hafa iðkað, hafa tekið við leikinn slíku ástfóstri að undrun sœtir, og má með sanni segja,
  • að engin ein íþrólt sem nú er iðkuð, hefir náð meiri útbreiðslu um heim allan, en knattspyrnan. (The Association Football ).“

Næst munum við lesa aðeins um atvinnumennsku sem Bennó var ekkert sérstaklega hrifinn af!

„Eins og í öllum íþróttum, sem mikilli útbreiðslu ná, og sem fólkinu geðjast að, þá fór að bera mikið á iþróttaatvinnumönnum (Professional sportm.).“

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.12.2011 - 09:22 - 6 ummæli

Látið Öskjuhlíðina í friði!

Elsku Bezti. Látið Öskjuhlíðina í friði!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.12.2011 - 08:07 - 2 ummæli

Dómarinn er maðurinn!

„Það sem mest hefur staðið — og stendur — íþróttum okkar fyrir þrifum, er skortur góðra leikvalla og íþróttatœkja, en þó er  þetta að lagast og nú á hinum síðari  árum  eru menn að skilja þetta, sem betur fer.“

Gamalt vandamál og nýtt.  Nú held ég áfram þar sem frá var horfið í síðasta pistli „Bennó“ sem fjallaði um knattspyrnuíþróttina í hinu gagnmerka riti Skinfaxa árið 1916 – riti sem hafði meiri áhrif á samtíma sinn og samfélagsþróun en menn geta ímyndað sér í dag. 

Stefán Pálsson sagnfræðingur benti mér á að Bennó myndi líklega vera  Benedikt G. Waage, íþróttaforkólfur.

Bennó sá fram á betri tíð knattspyrnunni og íþróttaiðkun yfir höfuð til handa í miðri fyrri heimstyrjöldinni í febrúar 1916:

Leikvellir eru að rísa upp og áhuginn að  vakna í þessum efnum.  F áar íþróttir  þurfa á betri og  stær ri leikvelli að halda, en einmitt knatt pyrnan, þar sem firð á milli marka er að minsta kosti 100 jarðs,  og breidd 50 j arðs .

Þegar svo að leikvellirnir  eru uppkomnir, er stærsta steininum rutt  úr leið, og ætti þá þar að koma, að við stæðum jafnfætis öðrum íþróttnm — þó að það eigi vitanlega mjög langt  í land —  ennþá.“

Eftir þessa bjartsýni fjallaði „Bennó“ um mann leiksins – dómarann:

„Næsta skrefið sem stíga ber eftir að knattspyrnuleikvöllurinn er fenginn, er að  fá hæfan mann til að stjórna leiknum (dómara), og best er að hann skipi fyrir á hverri æfingu sem haldin  er; fyrst og fremst á hann að sjá um að leikreglunum sé hlýtt, og að leikurinn fari vel, skipulega og friðsamlega fram.  Það segir sig sjálft, að d ómaran um verða svo allir þátttakendur leiksins að hlýða, og meir en  það. Þeir verða að hjálpa honum til að  gæta þess að leikreglunum sje framfylgt og er einna mest þörf á þessu, þegar kappleikar fara fram.

Gætið þess að tefja ekki dómarann, eða hindra hann í starfi sínu,  en hvetjið heldur félaga ykkar til góðra  samvinnu við  dómarann. Ef ykkur finst einhver  þátttakandanna, hafa beitt ykkur  rangindum, þá er að kæra  það eftir  á; en  ekki meðan á leiknum  stendur. Þetta gildir svo um  allar íþróttir. (Sjá leikreglur  Í. S. Í.)

Annars er best að ofstopamenn og þeir sem baldnir eru viðureignar, væru aldrei þátttakendur á kappmótum, því að þeim mönnum er enginn sómi í leiknum,  þó þeir séu  annars mjög duglegir. Þeir fæla frá — þessa fáu áhorfendur sem leikmótin sækja.

Æfið ykkur alltaf undir handleiðslu dómarans, og venjið ykkur á að hlíta og hlýða úrskurðum hans í hvívetna. Vitið að það er erfitt að vera knattsp.dómari, og gjörið það ekki erfiðara, með hrópum og köllum, um laga og leikreglubrot, á meðan á leiknum stendur. Slíkt  skaðar leikinn — eins og  áður er sagt — og er til lítilla bóta,  þó til sé ætlast.

Það má engum líðast að stofna flokk sínum i voða, með ærslum og ólátum; getur þá svo farið að þeim  hinum  sama verði „vísað úr leik“ og er það stór hnekkir — ekki síst fyrir félaga hans, sem illa hafa mátt af honum sjá.

Hafið því vel hugfast, að það er dómari leiksins, sem valdið hefir — á meðan leiknum stendur, og  þar næst  er það verk flokksforingans, að sjá um, að hver maður í flokknum hegði sér sómasamlega, og  komi ekki í bága við leikreglurnar.

Athugið þetta vel og munið að í öllu, sem lýtur að góðri reglu gildir máltækið: Á skal að ósi  stemma „.

Í næsta pistli fjallar „Bennó“ um þróun leikreglna í knattspyrnu:

„Er nú engum keppanda leyfilegt að slá, bregða eða sparka i keppendur, né  snerta knöttinn viljandi, með höndum, nema markverði — en þó aðeins eftir  vissum reglum (sjá knattsp.Iögin 8. grein.)“

… og aðeins um atvinnumennsku!

„Eins og í öllum íþróttum, sem mikilli útbreiðslu ná, og sem fólkinu geðjast að, þá fór að bera mikið á iþróttaatvinnumönnum (Professional sportm.).“

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 18.12.2011 - 00:42 - 2 ummæli

Fáklæddir knattspyrnumenn 1916

„Frá Englendingum er knattspyrnan  komin hér að landi.  Er þessi leikur einn af  þjóðaríþróttum þeirra. Hafa þeir iðkað knattspyrnu í margar aldir, og eru  ennþá bestir í henni; fjölgar þó keppinautum þeirra  daglega, að kalla má, og nú erum við að bætast við hópinn. Og spá mín er sú, að við verðum þeim skeinuhættir,  áður en  líkur, ef við höldum eins drengilega áfram,  og byrjað var. -„

Svona hófst greinaflokkur um knattspyrnu í Skinfaxa – hinu merka riti ungmennahreyfingarinnar – árið 1916. Höfundur greinaflokksins sem ég ætla að birta hér á blogginu mínu næstu daga – var „Bennó“. Ekki veit ég hver „Bennó“ var – en það kæmi mér ekki á óvart að það hafi verið sjálfur ritstjórinn Jónas frá Hriflu Jónsson.

En áfram með smjerið:

„Enskur kaupsýslumaður, sem var á ferð hér i Reykjavík, og dvaldi hér um nokkurt  skeið, kendi öllum knattspyrnu, sem vildu  ómaka sig  suður á „Melana“ við Reykjavík, en fásótt var oftast. Og þegar hann svo fór héðan, má svo segja  að leikurinn hafi með honum farið; urðu því allar hans góðu leiðbeiningar til lítils gagns.

Fór nú svo fram um hríð, að lítið var  þessi leikur iðkaður. Í  annað sinni bar hér að landi enskan  prentara, og  auðnaðist honum að safna saman flokk manna (mest voru það prentarar) til knattspyrnuæfinga, og man ég vel hve duglega þeir störfuðu að leiknum, suður á  „Melunum“. Þótti það þó ekki í þá daga árennilegt að vera svona fáklæddur að leikjum úti á víðavangi í  kvöldloftinu.

 Ríkti líka þá sá hugsunarháttur hér að loka að sér dyrum og gluggum og „dúða sig“ vel, ef undir bert loft  var komið. En nú er „öldin önnur „, og er það að mínu álíti  íþróttunum að þakka, sem hafa breytt hugsunarhættinum til hins betra.

 Á meðan þessi enski prentari dvaldi hér, var starfað með miklum áhuga að knattspyrnuleiknum, en þegar hann fór af landi burt, lognaðist félagsskapurinn útaf.

 Þeir sem næstir koma við  sögu  knattspyrnunar, voru Mentaskólanemendurnir og mest að  þakka fimleikakennara  skólans, Ó.R., sem alla tíð  hefur haft mjög mikinn  áhuga fyrir knattspyrnuleiknum.

En þetta, að nemendur Mentaskólans fóru að iðka  knattsp. var um það skeið, sem skólalífið við þennan  skóla var í blóma lífs  síns; var þá líka öflugri og betri félagsskapur þeirra en nú er  hann. Kom líka að því  að áhuginn þvarr,  og þeir hættu að mæta  „suður á Melum,, til knattsp.æfinga.

En ekki átti þó fyrir  knattsp.leiknum að liggja að falla í valinn, og eiga í því  sammerkt, mörgu af  því, sem til þjóðþrifa hefir horft hjá okkur, ef fengið hefði að þróast. En rétt á eftir þessu, sem að framan er frá sagt, mynduðust knattspyrnufélögin i flestum  kaupstöðum landsins. Var það mest að  þakka handiðna- og verslunarmönnum,  sem eru líka  þær stéttir manna, sem mest og best hafa stutt að gengi íþrótta hér á landi, enn sem komið er.

 Með stofnun þessara knattspyrnufélaga  var upptekinn sú  rétta stefna til útbreiðslu og gagnsemdar leiknum, og er vonandi  að þessi góði félagsskapur dafni, og að menn kynni sér leikinn, og meti kosti  hans,  áður en  þeir dœma hann.“

Í næsta pistli fjallar „Bennó“ um lykilmanninn í knattspyrnuíþróttinni – dómarann. Þar segir ma. :

„Hafið því vel hugfast, að það er dómari leiksins, sem valdið hefir — á meðan leiknum stendur, og  þar næst  er það verk flokksforingans, að sjá um, að hver maður í flokknum hegði sér sómasamlega, og  komi ekki í bága við leikreglurnar.“

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur