Miðvikudagur 24.2.2016 - 21:00 - 3 ummæli

Spor Pírata ekki bara í sandinn…

Spor Pírata í íslenskum stjórnmálum eru ekki einungis spor í sandinn sem munu mást út í næsta flóði.  Þeir hafa þegar sett spor í stefnu og hugsun annarra flokka. Spor sem munu standa næstu árin. Þá skiptir engu hvernig óhjákvæmileg núverandi átök innan Píratapartýsins munu enda.

Það sem er svo spennandi við stöðu Pírata nú er hvernig þeir munu takast á við alvöruna og ábyrgðina. Píratar eru ekkert öðruvísi en annað fólk. Þess vegna er sú staða sem þau eru í núna nánast fyrirsjáanleg. Og það er gott fyrir Pírata að hún kemur upp núna því það gefur þeim tíma til að ganga í gegnum þetta þroskaskeið í tíma fyrir næstu kosningar. Því þetta er hluti af hefðbundnu þroskaferli hóps. Ef þau klára sig af þessu á skynsaman hátt ÞÁ erum við að horfa á öflugt framtíðarafl í íslenskum stjórnmálum. Ef ekki – þá er þetta einungis enn ein tilraunin til breytinga.

En „bottomlæn“ verður alltaf að Píratar hafi verið VERULEGA spennandi tilraun. Og lærdómurinn af henni mun hafa áhrif í þróun stjórnmála til framtíðar.

Ég efast um að fólk almennt skilji hvaða áhrif Píratar hafa haft á aðra stjórnmálaflokka og dálítið breytt þeim vonandi til hins betra. Píratar hafa þegar markað spor sem ekki verða útmáð. Mögulega mun byltingin éta börnin sín en áhrif byltingarinnar mun gæta til framtíðar. Þannig að þótt Píratasjoppunni yrði lokað hér og nú þá myndu þau sem að henni hafa komið verið stolt af sínu verki…

… en ég held og vona að Píratar náð fótfestu á ný eftir nauðsynlegt þroskaferli.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.2.2016 - 08:15 - 3 ummæli

Leiðtoginn Árni Páll Árnason

Á augabragði er Árni Páll Árnason orðinn sterkur leiðtogi Samfylkingarinnar.  Vopn andstæðinga hans innan Samfylkingarinnar hafa snúist í höndum þeirra.  Þeir hafa áður lyft kutann á loft nánast úr launsátri en Árni Páll stóð þá árás af sér af naumindum.

Í þetta skiptið tók leiðtoginn Árni Páll Árnason af skarið með því að draga fram í dagsljósið þá drauga sem Samfylkingin og Árni Páll hafa þurft að kljást við frá Jóhönnutimanum og kvað þá niður. Nú er ekki aftur snúið. Samfylkingin og stuðningsmenn hennar verða að ræða mistök fortíðar, gera fortíðina upp. Viðurkenna mistök sín fyrir þjóðinni, en jafnframt standa með stolti á grunni þess jákvæða sem Samfylkingin hefur náð fram í íslensku samfélagi.

Árni Páll sem fram að þessu hefur ekki náð að hrista af sér drauga fortíðar. Drauga sem voru honum til trafala í Alþingiskosningunum þar sem fugfjaðrirnar voru nánast klipptar af honum.  Árni Páll þurfti að heyja orrustu sem formaður í ríkisstjórnarflokki þar sem fráfarandi formaður stýrði sökkvandi skipi í strand í stað þess að láta hinum nýja formanni eftir stjórnvölinn.

Árni Páll hefur nú af auðmýkt hrist af sér þessa fortíðardrauga með opinskáu bréfi til flokksmanna sinna og tekið skref til framtíðar sem sýnir að hann hefur það sem þarf til þess að leiða stjórnmálaflokk upp úr öldudalnum.

Nú er valið flokksmanna hans. Ætla þeir að standa að baki þeim sem frá upphafi hafa gert sitt til að leggja stein í götu formannsins vegna þess að Samfylkingarfólk valdi „rangan“ formannsframbjóðanda í fjölmennri, lýðræðislegri kosningu og reynt a nýta sér tæknilega glufu í lagaverki flokksins til að koma formanninum frá.  Eða ætla þeir að standa að baki leiðtoganum sem nú hefur stigið fram og sýnt að hann er öflugur leiðtogi sem hefur og getur breytt samræðu Samfylkingarinnar við fólkið í landinu og þannig komið Samfylkingunni á réttan kjöl.

Framtíð tilraunarinnar Samfylkinginn er undir. Á 100 ára árstíð Alþýðuflokks Íslands …

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.12.2015 - 17:32 - 3 ummæli

Styrkir Sóley stöðu mannréttindaráðs?

Sjaldan eða aldrei hefur mikilvægi mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar verið meira en nú þegar Íslendingar standa með Evrópu allri gagnvart mesta flóttamannavanda undanfarinna áratuga.  Hins vegar hefur staða mannréttindaráðs verið frekar veik. Því miður hefur ráðið verið frekar ráð upp á punkt þar sem fulltrúar neðarlega á listum stjórnmálaflokkanna hafa setið.

Stórlaxarnir sem leiða listana hafa leitast eftir setu í „valdaráðum“.

Gæti það verið að Sóley Tómasdóttir hafi sem oddiviti Vinstri Grænna í borgarstjórn viljað auka styrk og veg mannréttindaráðs með því að taka nú við formennsku í ráðinu?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.11.2015 - 13:38 - Rita ummæli

Íslensk jól, Yom Kippur og Ramadan!

Þið verðið að afsaka.Það er mikilvægt í því fjölmenningarsamfélagi sem er í þróun á Íslandi að viðhalda heimsóknum skólabarna í kirkjur kring um jól. Það er skylda okkar að kynna börnum þá menningu sem við höfum lifað við gegnum tíðina.

Kristin jól er óaðskiljanlegur hluti okkar sögu og menningar. Á sama tíma á að kynna börnunum jólin eins og þau voru í norrænum sið og mikilvægi jólahátíðarinnar fyrstu alda Íslandsbyggðar.

Einnig hvernig sambærilegar „ljósahátíðir“ er að finna í mismunandi menningarheimum.

Til viðbótar fjalla um gildi og mikilvægi trúarhátíða í öðrum trúarbrögðum. Ramadan, Yom Kippur og svo framvegis.

Sjónarhornið á að vera gagnkvæmur skilningur og virðing fyrir menningu og trúarbrögðum hvers annars.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.11.2015 - 16:17 - 16 ummæli

Umdeildur dómur vegna hópkynlífs

Sýknun fimm drengja af ákæru um nauðgun þar sem þeir stunduðu hópkynlíf með ungri stúlku hefur eðlilega vakið ahygli.

Ég ætla ekki að ræða lagatæknileg atriði og ekki einu sinni drengina.

Heldur samfélagið!

Hvar erum við stödd sem samfélag ef tiltölulega venjulegir strákar á þessum aldri telja það fullomlega eðilegt að stunda kynlíf á þennan hátt sem lýst er í málsgögnum? Fimm með margvíslegar kynlífsathafnir gagnvart 16 ára drukkinni stúlku!

… og að taka upp myndband af atburðinum og sína öðrum í ofanálag.

Hvert erum við komin sem samfélag?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.10.2015 - 20:23 - Rita ummæli

Á lýðræði erindi í atvinnurekstri?

Lýðræði á ekki einungis að vera stjórnmálalegt. Atvinnulýðræði er óaðskiljanlegur huti eiginlegs lýðræðisþjóðfélags. Ný skilgreining á eðli fyrirtækja, sem byggist á lýðræðislegum stjórnarháttum, gæti orðið til þess að ryðja braut réttmætumkröfum sífellt betur menntaðra starfsmanna um aukið lýðrði á vinnustað. Lýðræði á brýnt erindi í atvinnurekstur framtíðarinnar. Það er mjög vænlegur kostur, bæði fyrir starfsmenn og fyrirtæki, kostur sem í raun er byggður á almennum lýðræðislegum réttindum.

Þannig voru lokaorð greinar sem ég ritaði í Vettvang Tímans sumarið 1994, en ég rakst á úrklippu með greininni þegar ég var að taka upp úr gömlum kössum í dag.  Það sló mig hvað ég hafði svo rétt fyrir mér, en samt svo rangt. Atvinnulýðræði er ekki til á Íslandi í dag, tveimur áratugum eftir að ég, bjartsýnn, tilrölulega ungur maðurinn skrifaði þessa grein.

En mér finnst greinin eiga erindi í dag.  Hrunið var ákveðið tækifæri til jákvæðra breytinga á Íslandi, Við virðumst hafa glatað því tækifæri. Við höfðum tækifæri til að endurskipuleggja og byggja upp heilbrigðan húsnæðismarkað á Íslandi.  Það var ekki gert og virðist ekki ætla að gerast. Við höfðum tækifæri á að byggja upp heilbrigðara atvinnulíf. Það var ekki gert og virðist ekki ætla aðgerast. Þvert á móti sína fréttir undanfarinna daga að menn hafi ekkert lært.

En aftur að 21 árs gamalli grein sem ég birti hér á Eyjunni orðrétt og óbreyttri:

„Á lýðræði erindi í atvinnurekstri?“

Í grein þessari mun ég fjalla um spurninguna: „Á lýðræði erindi í atvinnurekstri?“ . Ég tel svo vera. Til þess að sýna fram á réttmæti þeirrar skoðunnar fjalla ég fyrst almennt um lýðræði, þá um atvinnulýðræði, um nýja skilgreiningu á atvinnulífinu sem byggist á lýðræði og að lokum um menntun og kröfuna um atvinnulýðræði.

Um lýðræði

Ef við viljum búa í lýðræðisþjóðfélagi sem stendur undir nafni, þá dugir ekki einungis að tryggja stjórnmálalegt lýðræði. Lýðræði á að vera grunnurinn í öllu því starfi semunnið er í samfélaginu. Það á að ríkja félagslegt lýðræði og það á að ríkja atvinnulýðræði. Galdurinn er að finna það form lýðræðis sem best hentar á hverju sviði fyrir sig.

Ákveðið valdaframsal hlýtur alltaf að vera hluti lýðræðis. En það valdaframsal á að ganga eftir lýðræðislegum leiðum og það á að vera lýðræðinu í heild til framdráttar. Þer, sem taka við valdi eftir lýðræðislegum leiðum, verða að standa og falla með gjörðumsínum. Þeir eiga að leggja verk sín í dóm umbjóðenda sinna með reglulegu millibili og leita eftir áframhaldandi umboði eftir lýðræðislegum leiðum.

Um atvinnulýðræði

Atvinnulýðræði á ekki einungis rétt á sér, það hlýtur aðv era eðliegur hluti lýðræðislegs þjóðfélags. Um það er hins vegar deilt. Sú skoðun er nokkuð útbreidd meðal eldheitra lýðræðissinns, að lýðræði geti einungis verið stjórnmálalegt og iðkað í ýmsum félagasamtökum, en atvinnulýðræði geti ekki gengið nema í undantekningartilfellum. Sjálfstæður eignarréttur sé undirstaða lýðræðis og atvinnulýðræði stangist oft á við eignarréttinn.

Hins vegar hefur verið sýnt framá að í raun sé ekki hægt að skilja að réttinn til lýðræðislegrar sjálfsstjórnunar í stjórnmálalegu tilliti og réttinn til lýðræðislegrar sjálfsstjórnunar i atvinnulífinu. Hér sé í raun sitthvor hliðin á sama peningi.

Ekki verður farið nánar út í þá röksendarfærslu að sinni, en hún rennir mjög stoðum undir þær raddir að atvinnulýðræði eigi að ríkja. En það er óráðlegt að neyða atvinnulýðræði upp á fólk. Kjósi að að vinna eftir hefðbundnum leiðum á forsendum eigenda fyrirtækja, þá á það þann rétt. Slíkt gengur alls ekki gegn humyndum um réttinn til atvinnlýðræðis. Þvert á móti, sú ákvörðun er einmitt hluti lýðræðislegs þjóðfélags,sem byggir á sjálfstæðu, lýðræðislegu vali einstaklinganna.

Ný skilgreining atvinnulífs, byggð á lýðræði

Þá hafa ýmsir, sem eru fylgjandi atvinnulýðræði, skilgreint og eignarréttar á nýjan hátt. Sem sæmi umþað er David nokkur Ellerman í bók sinni The Democratic WorkerþOwned firm: A New Model for East and West. Í stað þess að skilgreina atvinnulífið eftir hefðbundinni skiptingu „einkafyrirtækja“ (privat) og „almmennningsfyrirtækja“ public þar sem eignarhaldsformið ráði öllu, þá er fyrirtækjum skipt eftir stjórnunarformi óháð eignarhaldsformi.

Lýðræðislega stjórnuð fyrirtæki eru því „félagslegar stofnanir“ (social institutions) og byggja á lýðræðislegum persónuréttindum starfsmanna, þrátt fyrir að fyrirtækin séu jafnvel „einkafyrirtæki“ í hefðbundnum skilningi. Þar hafa starfsmennirnir áhrif á stjórnun fyrirtækisins og starfsumhverfis síns á lýðræðislegan hátt, þ.e. einn maður hefur eitt atkvæði.

„Einkafyrirtæki“ (privat organizations) byggja hins vera á persónulegum einkarétti þar sem stjórnun fer fram í umboði eignarhalds. Starfsmenn hafa ekkert um málin að segja nema þeir eigi eignarhlut í fyrirtækinu. Sama eðlis telur Ellerman fyrirtæki í eigu verkamanna (workerþcapitalis firm) sem lúta stjórnunarlega sömu lögmálum og einkafyrirtæki, enda byggjast áhrif verkamannanna á eign sinni í fyrirtækinu, ekki vinnuframlagi eða slíku.Hin hefðbundnu ísensku samvinnufyrirtæki falla undir þessa skilgreiningu einkafyrirtækja.

Þessi nýja skilgreining fyrirtækja gæti auðveldað uppbyggingu atvinnulýðræðis, ef pólitískur vilji er fyrir hendi að framfylgja þeim rétti sem þegnar í lýðræðisríki hafa til lýðrðislegrar sjálfsstjórnunarí atvinnulífinu.

Menntun og krafan um atvinnulýðræði

Almennt menntunarstig í þjóðfélaginu fer hækkandi með hverjum áratugnum sem líður. Með meiri menntun.eykst krafan um aukið sjálfstæði einstaklinganna í atvinnulífinu. Hámenntaðfólk sættir sig ekki til lengdar við að vinna sem undirtyllur sem ekki hafa neitt að segja um starf sitt og starfssvið. Að sjálfsögðu er vilji hámenntaðra einstaklingar tilþessað hafa áhirf á eigin vinnu ekkert meiri sen vilji þeirra sem minni menntun hafa, en með aukinni menntun fylgir oft ríkari vitund um möguleika og rétt manna. Það má einnig líta á þessa þróun óháða menntun, þ.e. uppeldi og bakgrunnur fólks er nú annar en áður, þegar hollusta var að líkindum talin göfugri dyggð en í dag.

Lýðræði á vinnustað, óháð eignarhaldi, hlýtur að verða vænlegur kostur fyrir þetta fólk og um leið vænlegur kostur fyrir fyrirtækin, sem uppskera að líkindum betri vinnu og meiri afköst þegar til lengri tíma er litið. Því mun krafan um aukið lýðræði á vinnustað líklega aukast á komandi árum og atvinnulýðræði almennt aukast í í kjölfarið.

Þetta þýðir samt ekki að hlutverk og valdsvið stjórnenda verði úr sögunni. Eins og fram h efur komið hlýtur ákveðið valdaframsal að fylgja öllu lýðræði. Það sem skiptir máli er að starfsmenn séu meðvitaðir um lýðræðislegan rétt sinn, þótt þeir gangist undir ákveðið valdboð stjórnenda. Þeir geta gripið til lýðræðislegra réttinda sinna, ef stjórnendur misbeita þessu valdi sínu.

Samhliða almennri lýðræðisþróun innan fyrirtækja, má búast við afturhvarai frá hinni gegndarlausu hlutafélagavæðingu smáfyrirtækja til lýðræðislegra samvinnufélaga jafnrétthárra, vel menntaðra einstaklinga. Hvort sú þróun nær til stærri fyrirtækja skal ósagt látið, en hvert sem eignarhaldsformið verður, þá mun lýðræði í atvinnulífinu að öllu jöfnu aukast.

Þó svo fremi sem það létti ekki um of pyngju helstu fjármagnseigenda landsins, sem þá myndu bregðast við með „viðeigandi ráðstöfunum“ í samræmi við að viðhorf sem meðal þeirra ríkir, þ.e. tryggja að lýðræði sé einungis stjórnmálalegt, en ráði engu um rekstur fyrirtækja.

Lokaorð

Lýðræði á ekki einungis að vera stjórnmálalegt. Atvinnulýðræði er óaðskiljanlegur huti eiginlegs lýðræðisþjóðfélags. Ný skilgreining á eðli fyrirtækja, sem byggist á lýðræðislegum stjórnarháttum, gæti orðið til þess að ryðja braut réttmætum kröfum sífellt betur menntaðra starfsmanna um aukið lýðrði á vinnustað. Lýðræði á brýnt erindi í atvinnurekstur framtíðarinnar. Það er mjög vænlegur kostur, bæði fyrir starfsmenn og fyrirtæki, kostur sem í raun er byggður á almennum lýðræðislegum réttindum.

Hallur Magnússon. 1994. „Á lýðræði erindi í atvinnurekstri?“. Tíminn 15. júlí 1994

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.8.2015 - 20:30 - 1 ummæli

Már kyndari andskotans efnahagslega

Seðlabankastjóri er efnahagslegur kyndari andskotans.  Er á leið með Ísland í nýja hringekju hávaxta sem mun kalla á helstu gjaldeyrisgamblara heimsins í ródeó með krónuna sem mun tímabundið styrkja gjaldmiðilinn áður en hann hrynur eins og örmagna kúreki af spræku ungnauti.

Mig grunar að Már vilji leggja íslenskt efnahagslíf í rúst svo Ísland komi á hnjánum inn í ESB.

Það er eina vitræna skýringin á athöfnum þessa kýrskíra kúreka undir Svörtuloftum sem náttúrlega er ennþá maður sem vill bylta Íslandi en reyndar á þveröfugum forsendum við það sem hann vildi sem öfgafullur byltingasinni á vinstri vængnum …

Pax vobiscum Már!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.7.2015 - 18:47 - 3 ummæli

Smá skilmisingur hjá Simma

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er dálítið að misskilja fyrrum kollega sína í blaðamannastétt. Blaðamenn – eins og allir aðrir EIGA og HAFA eigin persónulegu skoðanir. En til að vera faglegir í sínum störfum þurfa þeir að vera hlutlægir í fréttaflutningi og umfjöllun.

Því miður eru mörg dæmi um að einstaka blaðamenn gera ekki greinarmun á eigin persónulegum skoðunum og kjarnanum í vinnunni – það er að skrifa HLUTLÆGAR fréttir hvað sem þeim kann að finnast um það persónulega. Sumir virðast komast upp með að skrifa oft á tíðum HLUTDRÆGAR „fréttir“ þar sem „fréttin“ er afar skökk þar sem hún litast af viðhorfi hins ófaglega blaðamanns.

Því miður hefur Sigmundur Davíð horft framhjá þessu grundvallaratriði í blaðamennsku nokkrum sinnum undanfarið. Sem ég hefði haft skilning á EF Sigmundur hefði ekki sjálfur tilheyrt þessari vandræðastétt um tíma -eins og ég gerði um nokkur ár – og ég var nánast daglega minntur á að ég ætti að gæta hlutlægni og hlutdrægni væri ekki í boði.

En það er ekki unnt að afsaka framhjáhorf Sigmundar Davíðs sem á að vita betur.

Ég var að lesa gagnrýni Sigmundar Davíðs á blaðamenn sem voru að lýsa eigin skoðunum í fjölmiðli í leiðara sem ALLA tíð hafa verið vettvangur persónulegs viðhorf ritstjóra eða annarra sem hafa stöðu til að skrifa leiðara og í dálki sem einmitt er „viðhorfsdálkur“ – en ekki „fréttadálkur“ eða „fréttaskýringardálkur“.  Þarna er Sigmundur Davíð að gagnrýna RÉTTMÆTT form!  Blaðamenn EIGA að koma eigin skoðunum og lífsviðhorfi á framfæri við lesendur sína – ekki gegnum fréttir – heldur í viðhorfsdálkum og leiðurum. Það styrkir lýðræðið og mikilvægt vald fjölmiðla að almenningur VITI hver persónuleg afstaða blaðamanna er til þjóðfélagsmála!

Og eðli málsins vegna er ekki unnt fyrir blaðamanninn að kom lífsskoðunum sínum á framfæri gegnum fréttir og hlutlæga umfjöllun – rétti vettvangurinn er að koma skoðunum sínum á framfæri gegnum „viðhorfsdálka“ og leiðara.

Með því að gera slíkt þá veit almenningur hver lífsskoðunin er – eða ritstjórnarstefna fjölmiðils –  og getur út frá því tekið afstöðu til þess hvort fréttir og almenn umfjöllun viðkomandi blaðamannsins eða fjölmiðilsins sé hlutlæg – eða taki mið af skoðunum blaðamannsins.

Flestir íslenskir blaðamenn fylgja þessari gullnu reglu. Ekki allir. Sumir meira að segja „verðlaunablaðamenn“ hafa látið og láta eigin persónulegu skoðanir stjórna skrifum sínum og reyna þannig að beita fréttum og fréttaskýringum í eigin, persónulegum og pólitískum tilgangi til að hafa áhrif á viðhorf almennings.

En slíkir fjölmiðlasóðar eru sem betur fer alger undantekning.

Ég tek því ofan fyrir þeim Kolbein Óttarssyni Proppé og Snærósu Sindradóttur fyrir að koma á framfæri eigin persónulegu skoðunum í  leiðara og í viðhorfsgrein „Frá degi til dags“. Það er heiðalegra en að vega úr launsátri eins og sumstaðar hefur tíðkast og tíðkast enn.

En ég varð að gefa vini mínum Sigmundi Davíð falleinkunn fyrir viðbrögðin!

Þau eru að mínu mati röng – og ekki honum til framdráttar!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.6.2015 - 10:08 - 2 ummæli

Rafbílavæðum Reykjavík

Ríkið og Reykjavíkurborg eiga að setja sér það markmið að rafbílavæða Reykjavík. Slíkt er unnt að gera með efnahagslegum hvata og ívilnandi reglum fyrir rafbíla. Slík rafbílavæðing er að líkindum þjóðhagslega hagkvæm, mun snarlega bæta loftgæði í höfuðborginni á köldum vetrardögum og hjálpar til að ná markmiðum Íslands um minnkun á losun gróðurhússlofttegunda.

Hinn ágæti umhverfisráðherra Sigrúnar Magnúsdóttur gaf í skyn á Alþingi að Íslands muni stefna að minnkun losunar gróðurhússlofttegunda um 40% fyrir árið 2030, en slíkt markmið þurfa Íslendingar að leggja fram fyrir komandi loftlagsráðstefnu í París.

Rafbílavæðing í Reykjavík yrði mikilvægt skref í þá áttina.

Rafbílavæðing í borg er raunhæf og getur tekið mjög stuttan tíma. Ég hef fylgst með rafbílvæðingu hér í Kristiansand frá því ég flutti út haustið 2012. Það vakti strax athygli mína hve margir óku um á rafknúnum bílum og þeim hefur fjölgað mjög hratt á undanförnum misserum.

Megingalli rafbíla er að þeir komast ekki eins langt á hverri hleðslu og hefðbundnir bílar og það tekur ívið lengur að „fylla“ þá á hraðhleðslustöðvum en venjulega bíla á bensínstöðvum. En þróunin hefur verið sú að drægni rafbílanna á hverri hleðslu lengist sífellt og hraði hlöðunar eykst.

Þessir vankantar rafbíla skipta engu máli í borgarumferð, einungis í langkeyrslum.  Því er ekkert mál að rafbílavæða Reykjavík.

Hér í Kristiansand er algengara en ekki að fjölskyldur sem reka tvo bíla velji að kaupa sér rafbíl sem annan bíl í fjölskyldunni, enda er hann hagvæmari í rekstri en hefðbundir bílar. Þeir henta vel í daglegum akstri til og frá vinnu og í að skutla börnum á æfingar og aðra tómstundastarfsemi sem ekki eru í hjóla eða göngufæri. Og ef fjölskyldan ætlar að skjótast í hyttuna – þá er ekkert mál að gera það í rafbílnum svo fremi sem hyttan sé ekki því lengra frá Kristiansand.

Þrátt fyrir að efnahagur tugþúsunda íslenskra fjölskyldna hafi hrunið í  kjölfar bankahrunsins þá er enn algengt að fjölskyldur reki tvo bíla og ef efnahagslífið og efnahagur fjölskyldnanna fer að batna þá er hætt við að sú þróun haldi áfram.  Því er vert að ríkið og Reykjavíkurborg taki nú strax höndum saman og vinni saman og hrindi í framkvæmda aðgerðaráætlun sem miðar að fjölgun rafbíla í Reykjavík.

Fyrst það var unnt að rafbílavæða Kristiansand þá er unnt að rafbílavæða Reykjavík.

… og fyrir þá sem segjast vilja flottan jeppa – þá prófaði ég að keyra rafknúin ML Benz jeppa á Íslandi áður en ég flutti til Noregs. Hann var frábær!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.6.2015 - 13:29 - 1 ummæli

„Vér mótmælum allir“

„Vér mótmælum allir“ er táknmynd breiðrar samstöðu íslensku þjóðarinnar. Það sem er svo dásamlegt og merkilegt við það að þingheimur allur stóð upp í kjölfar ræðu Jóns Sigurðssonar, þar sem Jón mótmælti því sem hann taldi lögleysu konungsfulltrúa á þjóðfundinum sumarið 1851 þegar Trampe greifi fulltrúi konungs sleit þjóðfundinum þegar útséð var að þjóðfundurinn myndi fella frumvarp dönsku ríkissstjórnarinnar um innlimun Íslands í Danmörku,  og sögðu flestir í einu hljóði „Vér mótmælum allir“ .

Síðan þá hafa allskonar hópar frá hægri til vinstri reynt að samsama sig þessum atburði og reynt að yfirfæra ræðu Jóns og viðbrögð allra þingfulltrúa yfir á sínar eigin pólitísku gjörðir.  En eðli málsins vegna eru slíkar tilraunir hjóm eitt. Því yfirleitt eru þeir sem reyna að sýna sjálfa sig í þessu ljósi hópur fólks með skoðanir sem einungis endurspegla hluta íslensku þjóðarinnar. Og eftir því sem hópurinn er minni virðist hann oftar nota „þjóðin“ í orðræðu sinni.

Reyndar svo allrar sanngirni sé gætt þá voru fulltrúar á þjóðfundinum kannske ekki fulltrúar alls almúgans heldur fulltrúar íslenskrar yfirstéttar og menntastéttar. En þó ákveðin birtingarmynd þjóðarinnar.

„Og ég mótmæli í nafni konúngsins og þjóðarinnar þessari aðferð, og eg áskil þínginu rétt til að klaga til konúngs vors yfir lögleysu þeirri, sem hér er höfð í frammi“ sagði Jón Sigurðsson á þjóðfundinum

Samkvæmt fundargerð Alþingis risu þá upp þingmenn og sögðu flestir í einu hljóði:

„Vér mótmælum allir“

Það er einmitt þetta „Vér mótmælum ALLIR“ sem gerir atburðinn sérstakan.

Sambærileg mótmæli „þjóðarinnar“ hafa ekki verið algeng í Íslandssögunni síðan þá

Svo má einni hafa í huga eftirfarandi úr fundargerð þjóðfundarins 9. ágúst 1851:

„Á meðan þessu fór fram, forðuðust þeur Konúngsfulltrúinn og forseti út úr þíng-salnum, en er þeir voru komnir út, kallaði einn þíngmanna: Lengi lifi konúngur vor, Friðrekur hinn sjøundi! og tóku þingmenn undir í einu hljóði.  Síðan var gengið af fundi“.

Mér virðist seint verða slík samheldni á Alþingi Íslendinga – og reyndar í samfélaginu í heild. Því miður.

Því kannske eru Íslendingar bara eins og Káinn lýsti þeim svo snilldarlega og Egill Helgason rifjaði svo ágætlega upp í pistli sínum í dag:

Þetta er ekki þjóðrækni

og þaðan af síður guðrækni

heldur íslensk heiftrækni

og helvítis bölvuð langrækni.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur