Miðvikudagur 10.6.2015 - 19:23 - 3 ummæli

Seðlabankinn er vorið 2015!

Seðlabankinn átti einna stærstan þátt í að leggja Ísland í rúst með klikkaðri hávaxtastefnu sinni sem engin áhrif hafði á vísitölubundin langtímalán íslenskra fjölskyldna en varð til þess að beina alþjóðlegu fjármagni í óhóflegu magni inn í íslenskt hagkerfi sem varð til þess að styrkja krónuna langt umfram eðlilegar forsendur sem varð til þess að Íslendingar gátu hagað sér eins og svín í innflutningi og eyðslu erlendis.

Þetta er með lengri setningum sem ég hef sett á blogg – en það breytir því ekki að þetta er því miður satt og rétt.

Hávaxtastefna Seðlabankans á sama tíma og alþjóðlegt fjármagn varð á útsöluprís varð til þess að stórnendur íslensku „alþjóðlegu“ bankanna gátu þanið þá út eins og blöðru – þar til allt sprakk!

Okkur langaði að læra af hruninu. En við gerum það greinilega ekki. Allavega ekki Seðlabankinn!

Nú hafa snillíngarnir undir Svöruloftum ákveðið að gera sömu mistökin aftur!  Og það með sömu gölnu rökunum og áður. „Eins og tíðkast í þeim löndum sem við berum okkur saman við“!

En ég spyr í þúsundasta skiptið – og fæ væntanlega ekki svör nú frekar áður – er stór hluti langtímaskuldbindinga fjðlskyldnanna í landinu í verðtryggð annuitetslán þannig að hækkun skammtímavaxta seðlabanka breytir engu umráðstöfunartekjur og breytir því engu um þenslu og verðbólgu!

Þótt nokkrar fjölskyldur hafi nú tekið langtímalán sín óvertryggðum lánum – sem þess í stað eru  með breytilega vexti – blekking dauðans – þá mun stóraukin greiðslubyrði þeirra ekki hafa nokkur áhrif á heildarmyndina.

Með öðrum orðum. Vaxtahækkun Seðlabankans mun ekki hafa nein áhrif á „verðbólguhvetjandi hegðun“ flestra íslenskra fjölskyldna – en á móti setja fjölda bláeygðra fjölskyldna sem héldu að óvertryggð lán væru lausnin – á hausinn vegna snögglega stórhækkaðrar greiðslubyrðar. Hækkunar á greiðslubyrði sem er meiri en á vondu verðtryggðu lánunum.

En hverjir fara verst út úr Seðlabankaruglinu?

Jú, það eru fyrirtækin í landinu sem EKKI eru að flytja út sína vöru og þjónustu. Fyrirtækin sem fá greitt fyrir sína vöru í ónýtri íslenskri krónu. Fyrirtækin sem voru að fá séns til að styrkja sig og dafna – en eru nú slegin aftur í jörðina af fáránlegum vaxtahækkunum Seðlabankans.

Þetta eru fyrirtækin sem urðu að fjárfesta og byggja upp til að auka framlegð sína svo þau gætu staðið undir eðluilegum og hóflegum launahækkunum á almennum markaði. Það eru nefnilega ekki öll fyrirtæki „Grandi“ með tekjur í erlendri mynt og ofsagróða.

Seðlabankinn er eins og íslenska vorið 2015.  Kalt, ömurlegt og drepur allan þann nýgræðing sem reyndi að skjóta rótum. Seðlabankinn er að leggja í eitt af vestu kalsumrum Íslandssögunnar. Og það algerlega að óþörfu!

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.5.2015 - 17:02 - 1 ummæli

Þegar Halldór Á kenndi mér pólitík

Kjaftfor gutti að stíga sín fyrstu spor í pólitík. Hafði valið Framsóknarflokkinn eftir töluverða umhugsun. Ef ekki hefði verið Framsókn þá hefði það verið Alþýðuflokkurinn.  Ekki Kvennaframboðið þótt guttinn hafi kosið það ágæta framboð áður en hann gekk í stjórnmálaflokk.

Kjaftfori guttinn var ég.

Náði skjótum frama hjá ungu Framsóknarfólki og var einn af fulltrúum SUF sem ferðaðist um landið með fulltrúum  Framsóknarkvenna og fólki úr framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 1986 og heimsóttu öll flokksfélögin.

Fyrsti túrinn hafði mikil áhrif á mig. Ég, Inga Þyrí og Halldór Ásgrímsson voru send á Suðurnesin. Við ferðuðumst í nokkurra ára gömlum, svörtum Benz. Ráðherrabíll sjávarútvegsráðherra. Halldór Ásgrímsson var ekki fyrir það að skipta um bíla að óþörfu og alls ekki ef það yki kostnað skattgreiðeinda.

Halldór sem flestir héldu að væri leiðinlegur var bara alls ekki leiðinlegur!  Hann var bara stórkostlega skemmtilegur. Kímnibros sem náði alla leið til augnanna. En stutt í alvöruna þegar við fórum að ræða alvörumál.

Þegar við komum inní sjávarþorpin og bæina sem við heimsóttum þá var alltaf fyrst ekið niðurá höfn.  Skipin skoðuð. „Er þetta ekki …. GK..“ spurði Halldór mig þegar við ókum í áttina að Sandgerði og blámálað nótaskip sigldi með ströndinni!  Ég fletti upp í huganum þar sem ég þekkti nokkur skip í flotanum eftir að hafa hökkt sem háseti á Heklu og Esju í sumarfríum … en þekkti ekki skipið. Þagði. „Jú, þetta er …GK“ sagði Halldór síðan á sinn rólega, yfirvegaða hátt. Ég er náttúrlega fyrir löngu búin að gleyma heitinu á skipinu – en er viss um að Halldór mundi það fram á sinn síðasta dag!

Við ókum niðrá kaja í Sandgerði eins og við höfðum gert allsstaðar áður. Það var smá rigning. Bátur að landa. Skipverjar unnu á fullu við löndun. „Ætli það sé ekki best að heyra í þeim hljóðið“ sagði Halldór, opnaði dyrnar á gamla, svarta Benzinum.  Ég vissi ekki hvort ég ætti að fara eða vera. Ákvað að sitja inn í hlýjunni með Ingu Þyrí. Hef alltaf séð eftir því síðan.

Halldór hins vegar gekk í rólegheitunum aftur fyrir bílinn, opnaði skottið og tók upp regnstakk sem hann smeygði yfir sig.  Þetta var áður en honum áskotnaðist selskinnsjakkinn frægi.  Sjávarútvegsráðherrann gekk niður að bátnum og sjómennirnir hættu að landa um stund. Ég sá handapat og greinilega fjörlegar samræður!

Eftir stundarfjórðung eða svo sneri Halldór sér við og gekk í átt að bílnum.  Sjómennirnir stungu saman nefjum og létu svipað og svartbakar kring um þorsklifur. Höfðu greinilega ýmislegt að ræða hvor við annan eftir að hafa átt samtal við sjávarútvegsráðherrann.

„Þeir skömmuðu mig“  sagði Halldór þegar hann hafði lagt regnstakkinn í skottið og settist inn í bílinn. „En ég skammaði þá bara á móti“ sagði hann og brosti. Þessu skemmtilega kímnibrosi sem náði alla leið til augnanna.

„Hallur. Ef þú vilt ná árangri í pólitík þá er mikilvægast að hlusta á fólkið. Hvort sem þú ert sammála því eða ekki“ sagði Halldór þegar hann setti gamla, svarta sjávarútvegsráðherra Benzinn í fyrsta gír og ók í átt að Framsóknarheimilinu í Sandgerði.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.5.2015 - 05:52 - 5 ummæli

Fylgi Pírata er «ekki fylgi»

Fylgi Pírata í viðhorfskönnunum þessa dagana er ekki fylgi við Pírata nema að mjög takmörkuðu leyti. Fylgið er «ekki fylgi» við hinn hefðbundna fimmflokk sem kjósendur hafa endanlega gefist uppá.

Það er merkilegur andskoti að sjá jafnvel reyndustu frétta- og stjórnmálaskýrendur flögra kringum Pírata eins og mý um mykjuskán.  Og enn steiktara að sjá sömu aðilja halda því fram að viðhorfskannannafylgið við Pírata sé raunverulegt fylgi. Hvílíkur barnaskapur!

Vissulega er hið úrelta íslenska flokkakerfi í uppstokkun. Enda 20.aldar stéttaflokkakerfið úrelt. Ég spáði slíkri uppstokkun ítrekað í bloggpistlum strax á árunum 2009 – 2010  og færði rök fyrir óhjákvæmanleika slíkrar uppstokkunar. «Ekki fylgið» við Pírata er einmitt vísbending um þetta.

Reyndar er líka merkilegt að sjá álitsgjafana ennþá beita frasanum «fjórflokkurinn».  Frá því «Frjálslyndir og vinstri menn» með hæstvirtan forseta vor, Ólaf Ragnar Grímsson í fararbroddi var og hét, hefur íslenska flokkakerfið ekki verið fjórflokka, heldur fimmflokka. Fjórir hefðbundnir stjórnmálaflokkar með rætur aftur til annars áratugar síðustu aldar og síðan einn «nýr» flokkur. Sem oftar en ekki hefur náð góðum hluta óánægjufylgis gamla «fjórflokksins».

Aftur að «ekki fylgi» Pírata.

Píratar eru allra góðra gjalda verðir. Mér finnst þeir oft frábærir!  En stundum finnst mér þeir algerlega úti á túni. Og á stundum síst skárri en gamli fimmflokkurinn.  Eigum við að ræða röðun á lista í Kópavogi fyrir síðustu kosningar?

Ég vona að Píratar séu komnir til að vera í einhvern tíma í því uppstokkunarferli sem nú er í gangi í íslenskri pólitík. En að Píratar séu flokkur með traust tugprósenta fylgi er tálsýn.

Stór hluti almennings vill ekki óbreyttan fimmflokk/fjórflokk heldur róttæka uppstokkun á flokkakerfinu. Eða eigum við frekar að segja róttæka uppstokkun á því hvernig þingmenn eru valdir og kjörnir – og því hvernig ákvarðanir eru teknar í stórum, mikilvægum þjóðmálum.

Stór hluti almennings vill fá að hafa bein áhrif á það hvaða einstaklingar setjast á Alþingi. Ekki að láta flokksræðið – hvort sem að er flokksræði gamla fjór/fimmflokksins eða tilviljunarkennt rafrænt flokkræði Pírata, velja einstaklingana sem eiga möguleika á að taka sæti á Alþingi.

Og stór hluti almennings vill hafa bein áhrif á stór þjóðmál sem koma upp á milli kosninga og ekki var fjallað um í kosningum. Fólk vill ekki skrifa upp á óútfylltan víxil í kosningum.

Við getum dregið þennan vilja stórs hluta almennings saman í tvö stykkorð:

  • Persónukjör og þjóðaratkvæðagreiðslur.

Og ástæðan fyrir því að Píratar fá «fylgi» í viðhorfskönnunum er að stór hluti almennings vill breytingar og uppstokkun á gamla fjór/fimmflokknum.

Það hefur minnst með Pírata að gera að öðru leiti en því að Píratar hafa verið fram að þessu ekki hluti gamla flokkakerfisins. Þess vegna fá þeir «fylgi» í viðhorfskönnunum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.4.2015 - 18:26 - 13 ummæli

Frú forseti, Katrín Jakobsdóttir

Ég ætla bara að segja það sem tugþúsundir Íslendinga hugsa. Ég vil Katrínu Jakobsdóttur sem forseta Íslands.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.4.2015 - 12:39 - Rita ummæli

Þjóðarmorð í 100 ár

Fyrir 100 árum þann 24. apríl 1915 handtóku tyrknesk yfirvöld í Ottómannríkinu 235 armenska menntamenn, listamenn, kaupsýslumenn og iðnaðarmenn í Konstantínópel.  Flestir þeirra hurfu. Einungis 8 lifðu af næstu misserin.

Þetta var upphaf þjóðarmorða Tyrkja á Armennum á 20. öldunni en á árunum 1915 – 1917 létust allt að 1,5 milljón Armena beint eða óbeint fyrir hendi Tyrkja.  Reyndar höfðu tugþúsundir Armena fallið í þjóðernisofsóknjm Tyrkja gegn síðustu áratugi 19. aldar.

Því miður voru þjóðarmorð Tyrkja á Armenum einungis forsmekkurinn af gríðarlegum þjóðarmorðum síðustu 100 árin.

Þjóðarmorð þýskra nasista á Gyðingum eru flestum efst í huga þegar rætt er um þjóðernishreinsanir enda voru um 6 milljónir þeirra myrtir af nanistum í síðari heimsstyrjöldinni. En það má ekki gleyma að fleiri þjóðir og kynþættir urðu fyrir barðinu á útrýmingarherferð nasista. Romafólk varð illilega fyrir barðinu sem og trúarhópar eins og Vottar Jehóva.

Og einnig ber að hafa í hug að það voru ekki einungis Þjóðverjar sem réðust gegn Gyðingum, úkraínskir og rúmenskir þjóðernissinnar létu til dæmis ekki sitt eftir liggja í ofsóknunum.

Þjóðernisflutningar Stalíns í Sovétríkjunum þar sem nánast heilu þjóðirnar voru fluttar frá heimkynnum sínum með þeim afleiðingum að fjöldi fólks lét lífið er af svipuðum meiði þótt ekki hafi verið um beinar þjóðernishreinsanir að ræða á sama hátt og í helförinni gegn Gyðingum.

Á síðustu árum höfum við horft upp á skelfileg þjóðarmorð.

Það eru ekki nema um 20 ár síðan skelfileg þjóðarmorð voru framin í Rúanda þar sem vígasveitir  öfgaþjóðernissinnaðra Húta réðust gegn fólki af ættbálki Tútsa og myrtu um 800 þúsund manns á 100 dögum.

Átök í Suður-Súdan undanfarna áratugi nálgast það að vera þjóðarmorð og meira að segja hér í Evrópu áttu sér í raun stað þjóðarmorð í átökunum í ríkjum fyrrum Júgóslavíu.

Og í dag má sjá tilbrigði við þjóðarmorð í ofsóknum Ríkis Islam gegn Jasídum í Sýrlandi.

Ég hef ekki lyst til að hrekja skelfileg þjóðarmorð síðustu aldar frekar.

En þessi skelfilegi þjóðarmorð eru bein óheilbrigðar, öfgafullrar þjóðernishyggju. Það er því miður stutt frá stækri þjóðernishyggju yfir í ofbeldi – jafnvel þjóðarmorð. Það verðum við að hafa í huga. Allta.

Við Íslendingar megum vera stolt af þjóðerni okkar, tungumáli og þjóðmenningu. En það stolt má ekki byggja á hroka heldur verður það að byggja á auðmýkt og virðingu fyrir öðrum þjóðum og annarri menningu.  Ólík þjóðerni og ólík menning á ekki að vera grunnur átaka milli mismunandi menningu, trú og þjóðerni. Þvert á móti eigum við að rækta fjöbreytileikan í sátt og samlyndi. Skapa mannlegan samhljóm.

Því miður ber sífellt meira af óheilbrigðri og stækri þjóðernishyggju í íslenskri umræðu. Í stað eðlilegs stolts af eigin arfleið og virðingu fyrir annarri menningu, í stað þess að skapa mannlegan samhljóm í fjölbreytileika, virðast allt of margir reiðubúnir til átaka á grundvelli kynþáttar og trúar.  Og þá getur orðið stutt í ósköpin. Það hafa þjóðarmorð síðustu aldar sýnt okkur.

… og við megum ekki gleyma því að á landnámstímanum og áratugina þar á eftir var Ísland fjölmenningarsamfélag þótt það hafi þróast yfir í tiltölulega einsleitt samfélag gegnum aldirnar. Öfgafullir íslenskir þjóðernissinnar ættu að hafa það í huga!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 17.4.2015 - 10:22 - 2 ummæli

Vantar «dugnad» á Íslandi?

„Dugnad“ er eitt af þessum orðum sem hefur dálítið aðra meiningu í norsku en íslensku. Ég hef haft mikinn „dugnad“ í Noregi en er ekki viss um að „dugnaður“ sé það sem lýsir mér best á íslensku.

„Dugnad“ er óaðskiljanlegur þáttur í íþróttastarfi og öðru félagsstarfi barna og unglinga í Noregi og virkar nánast eins og lítil herskylda á foreldra og forráðamenn.

„Dugnad“ er ólaunað vinnuframlag fyrir félagið. Vinnuframlag sem skapar félaginu tekjur til að halda úti barna og unglingastarfi.
Það mæta allir í „dugnad“. Það er ekkert val.

Þegar strákarnir mínir þeir Styrmir og Magnus æfðu hjá Start þá var það skylda fyrir foreldri að mæta þrisvar sinnum í sjoppuna á meistaraflokksleikjum á Sør-Arena og selja pulsur, pizzur, kaffi og kók. Sex sinnum fyrir okkur sem vorum með tvo gutta æfandi.

En það var allt í lagi. Hagnaðurinn af veitingasölunni rennur til barna og unglingastarfsins í Start. Til barnanna.

Nú um helgina eru það tvær 8 tíma vaktir á Umbro-Cup. Afar stóru handboltamóti sem haldið er hér í Kristiansand. 8 tímar fyrir Magnús og 8 tímar fyrir Grétu sem æfa handbolta með AK28. Reyndar átti sá gamli að bæta við enn einni 8 tíma vaktinni fyrir sjálfan sig þar hann æfir og spiler með 4. Deildarliði AK28. En ég slapp þar sem mönnum fannst 16 tímar temmilegt á einni helgi og ég á annarri löppinni eftir aðgerð.

En það er allt í lagi. Tekjurnar af handboltamótinu eru verulegar og renna til barna og unglingastarfsins í AK28. Til barnanna.

Þar sem Gréta æfir fótbolta með Gimleroll þá bíður 8 tíma vakt á Sør-Cup næsta haust.

… og svo allir smádugnaðarnir inn á milli til að fjármagna keppnisferðir.

Þótt ég fái stundum nóg af endalausum „dugnad“ verandi með 3 börn sem æfa handbolta og fótbolta þá finnst mér þetta gott og jákvætt. Þetta er gott félagslega. Tengir foreldra betur en ella. Og það eru allir með – ekki bara hluti foreldra sem fórnar sér í „íslensku“ sjálfboðaliðsstarfi þar sem fáir bera upp mikið – þótt það séu líka margir slíkir sjálfboðaliðar sem vinna ómælda vinnu fyrir lið barnsins síns, utan hefbundins „dugnaðar“.

… og þá er ég kominn að öðru einkenni Norðmanna. Það eru í raun foreldrar sem bera uppi barna og unglingastarfið. Þeir þjálfa, sjá um utanumhald og skipulagningu æfinga og leikja. Þeir eru órjúfanlegur hluti barna og unglingastarfsins.

Vissulega vinna foreldrar á Íslandi mikið sjálfboðaliðastarf kring um íþróttastarf og annað félagsstarf barnanna sinna – sumir. En margir eru og vilja vera stikkfrí. Í Noregi er enginn stikkfrí.

Er kannske ástæða til að taka upp norskan „dugnað“ á Íslandi?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.4.2015 - 14:05 - 3 ummæli

Flöt 86 000 ISK hækkun á alla

SA og stjórnvöld virðast sammála um að 300 þúsund króna lágmarkslaun í Íslandi séu allt of há laun. Það vita það allir að svo er ekki.

Lágmarkslaun eru nú 214 þúsund krónur á mánuði. Hækkun úr núverand lágmarsklaun í 300 þúsund króna lágmarkslaun eru 86 þúsund krónur.

Forstjórum finnst slík launahækkun til sín ekkert tiltökumál.  Ég er sammála þeim í því.

Ég er hins vegar ósammála þeim í því að það sé tiltökumál að hækka lægstu laun um 86 þúsund krónur.

Lausnin er hins vegar einföld.

Hækkum öll laun frá fægikústatækni til forstjóra og forsætisráðherra um 86 þúsund krónur. Ekki krónu meira né minna.

…. og bönnum bankabónusa næstu 3 árin …

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.3.2015 - 08:08 - 15 ummæli

Kristnir, arískir hryðjuverkamenn

Á meðan múslimar sæta nánast ofsóknum á Íslandi og víða um Evrópu vegna trúar sinnar og undir því yfirskyni að það sé hætta á því að þeir fremji hryðjuverk í nafni Íslam þá eru það kristnir aríar sem hafa framið mannskæðustu hryðjuverk í Evrópu undanfarin ár.

Norðmaðurinn Anders Behring Breivik sem myrti 69 manns árið 2011, þar af flest ungmenni allt niður í 14 ára börn og nú Þjóðverjinn Andreas Lubitz sem myrti 149 manns, þar með talin heilan barnaskólabekk og ungabörn.

Vissulega eru hryðjuverk íslamskra, morðóðra hryðjuverkamanna í Írak, Sýrlandi og Nígeríu skelfileg. En þau hryðjuverk eru ekki á ábyrgð venjulegra múslima á Íslandi eða annars staðar í Evrópu. Ekki frekar en hryðjuverk hinna kristnu aría eru ekki á ábyrgð kristinna Norðmanna eða Þjóðverja.

Fólk ætti að hafa það í huga …

VIÐBÓT:

Þegar pistillinn var skrifaður var ekkert komið fram um slæma geðheilsu flugmannsins. Ég hef fengið ábendingar um að það sé því vafasamt að kalla morðin á 150 farþegum flugvélarinnar „hryðjuverk“.  Það sjónarmið á fullan rétt á sér. Það breytir ekki verknaðinum og þeirri staðreynd að morðin sem framin voru af mögulega geðveilum manni hafa kostað margfalt fleiri mannslíf en mannskæðustu hryðjuverkaárásir múslima í Evrópu og að hinn kristni, hvíti Norðmaður  Anders Behring Breivik er þá versti hryðjuverkamaður í Vestur-Evrópu undanfarna áratugi – ef við skilgreinum ekki morðin á flugfarþegum þýsku farþegaþotunnar sem fórnarlömb hryðjuverks.  Niðurstaðan er sú sama: „Vissulega eru hryðjuverk íslamskra, morðóðra hryðjuverkamanna í Írak, Sýrlandi og Nígeríu skelfileg. En þau hryðjuverk eru ekki á ábyrgð venjulegra múslima á Íslandi eða annars staðar í Evrópu. Ekki frekar en hryðjuverk hinna kristnu aría eru ekki á ábyrgð kristinna Norðmanna eða Þjóðverja.“

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.3.2015 - 19:52 - 15 ummæli

Launsátur í Samfylkingunni

Samfylkingin á greinilega í miklu meiri tilvistarvanda en ég hélt. Óháð því hvað fólki finnst um Árna Pál Árnason og störf hans, hlýtur vandi þessum fyrrum breiðfylkingar að vera mikill fyrst Sigríður Ingibjörg átti að vera lausnin.

Sigríður Ingibjörg er ekki lausnin. Hún er hluti vandans.

Samfylkingin á erfitt uppdráttar vegna þess að henni mistókst á mörgum sviðum í síðustu ríkisstjórn.  Þau mistök urðu til þess að Samfylkingin galt afhroð í síðustu Alþingiskosningum þar sem formaðurinn var vængstýfður í kosningabaráttunni af sitjandi forsætisráðherra Samfylkingarinnar og fyrrum formanni hennar.

Sigríður Ingibjörg er óaðskiljanlegur hluti þeirra mistaka sem einn af lykilþingmönnum flokksins og formaður þingnefndar sem til dæmis réð ekki við eitt af meginverkefnum sínum – húsnæðismálin.

Og ef Árni Páll Árnason er vandinn vegna þess að hann skorti nýsköpun og geti ekki leitt flokkinn inn í framtíðina, þá getur Sigríður Ingibjörg með sína fortíð ekki verið lausnin.

… enda var þetta umsátur um formanninn ekki spurning um „nýja framtíð“ heldur birtingarmynd ákveðins klofnings innan Samfylkingarinnar. Klofnings sem ég hélt að Árni  Páll  hefði náð að brúa.

Staðreyndin virðist hreinlega vera sú að ákveðinn hluti hinnar „gömlu“ forystu getur ekki sætt sig við að Árni Páll hafði betur en hún í fjöldakosningu við formannskjör eftir að Jóhanna hætti. „Gamla“ forystan beitti því gamaldags brögðum. Þóttist sátt við formanninn, taldi öðrum trú um að kosningar væru ekki á döfinni, safnaði liði til landsfundar og atti andstæðingi formannsins á vaðið í von um að nógu margir stuðningsmenns sitjandi formanns sætu heima.

Launsátrið gekk næstum upp …

… og tilvistarvandi Samfylkingarinnar jókst!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.3.2015 - 16:14 - 13 ummæli

Bjargar Gunnar Bragi Framsókn?

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra gæti verið að bjarga Framsóknarflokknum frá algjöru afhroði í næstu Alþingiskosningum um leið og hann kemur höggi á samstarfsflokkinn sem hefur nýtt sér erfiða stöðu Framsóknar eftir galnar gælur lítils hóps flokksmanna við kynþáttaöfgar og múslimahræðslu.

Það sjá allir sem vilja sjá að póstkort utanríkisráðherrans til ESB um „afturköllun“ aðildarumsóknar hefur ekkert gildi annað en táknrænt fyrir núverandi ríkisstjórn Íslands. Ríkisstjórnin getur ekki á þennan hátt afturkallað aðildarumsókn að ESB – eins og ESB hefur þegar fattað – heldur einungis lýst yfir að ÞESSI ríkisstjórn muni ekki halda aðildarumsókn áfram. Sem var löngu ljóst.

Gunnar Bragi hefur skapað eðlilega reiðibylgju í samfélaginu. Ekki endilega fyrir það að segjast hafa „afturkallað“ aðildarumsóknina í póstkorti – heldur fyrir að að svívirða Alþingi með sniðgöngu sem ekki stenst lagalega.

En í þessu felst snilldin hjá Gunnari Braga. Hann veit að póstkortið hefur einungis táknrænt gildi og fjallar um huta af starfsáætlun núverandi ríkisstjórnar sem staðfestir að hún ætlið ekki að fylgja umsókninni eftir. Aðildarumsóknin liggur því bara á ís þar til næsta ríkisstjórn tekur við – því þingsályktun Aþingis um aðildarumsókn stendur.

Reiðibylgjan sem þetta lítt marktæka póstkort veldur þjappar stækustu andstæðingum ESB aðildar saman – um Framsókn! Flokkinn sem er reiðubúinn að ganga mjög langt til að stöðva aðildarferlið – í hugum fólks.  Það mun skila flokknum dýrmætum atkvæðum í næstu alþingiskosningum.  Atkvæði sem kunna að tryggja flokknum framhaldslíf – en kannske annað framhaldslíf en gömlu bæjarradikalarnir hefðu óskað sér …

En samstarfsflokkurinn liggur í því.  Væntanlega mun þetta endanlega hrekja nánast alla ESB sinna sem enn eru þar innandyra út úr flokknum.  Svik formanns Sjálfstæðisflokksins við þann hluta flokksins sem skilaði Sjálfstæðisflokknum góðri kosningu í síðustu Alþingiskosningum – með því að lofa þjóðaratkvæði um áframhald aðildarviðræðna að ESB – loka dyrunum fyrir þetta fólk. Og flokkurinn mun ekki bæta við sig atkvæðum stækra andstæðinga ESB. Þvert á móti munu þeir kjósendur frekar styðja Framsókn „sem þorir“. Þökk sé Gunnari Braga.

Og hver er fórnarkostnaður Framsóknar?

Enginn.

Eftir gegndarlausa aðför andstæðinga flokksins í aðdraganda og kjölfar síðustu sveitarstjórnarkosninga þar sem flokkurinn í heild sinni var ómaklega sakaður um kynþáttahatur og múslimahatur þótt sumir hafi sýnt slíkar tilnheygingar – þá er staða flokksins veik. Smá táknræn aðför að þingræðinu breytir ekki þeirri stöðu til hins verra. Þvert á móti. Hún losar um þá pattstöðu!

Gunnar Bragi  hefur því að líkindum veitt Framsókn framhaldslíf.  Hvað sem okkur hinun finnst um aðferðafræðina …

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur