Fimmtudagur 21.4.2011 - 10:26 - 30 ummæli

Davíð Oddsson pólitísk mús

Davíð Oddsson er orðin pólitísk mús en ekki það pólitíska ljón sem hann eitt sinn var.  Davíð hefur skriðið ofan í músarholuna sína á Hádegismóum og tístir þar að pólitískum andstæðingum sínum. Skopmyndateiknari í vinnu hjá Davíð sýnir nú meiri manndóm en hinn pólitíski ritstjóri.  

Skopmyndateiknarinn sem fór aðeins yfir strikið í teikningu sinni af Siv Friðleifsdóttur alþingismanni er maður að meiru með því að biðja Siv persónulega afsökunar og birta afsökunarbeiðni opinberlega.  Davíð hvarf hins vegar ofan í músarholuna.

Reyndar hafði Siv ekki kveinkað sér undan  teikningunni enda ekki hennar eðli að væla undan pólitískum átökum og þeim árásum sem hafa á hana dunið gegnum tíðina – ekki hvað síst undanfarið þegar Siv stendur í fæturna og sýnir pólitískan styrk sinn andstæðingum hennar til armæðu.

Siv er einn öflugasti stjórnmálamaðurinn á Alþingi. Hún hefur styrkst sem slík að undanförnu. Það er ekkert væl í henni heldur er hún greinilega reiðubúinn að takast á við erfið verkefni stjórnmálanna á næstu mánuðum og misserum.

Siv hefur nú króað músina Davíð af í holu sinni. Siv segir í viðtali við Fréttatímann:

„Okkur ritstjóra Morgunblaðsins gekk vel að vinna saman hér áður fyrr. Leiðir okkar hafa ekki legið saman eftir að hann hvarf úr stjórnmálum og tók að sér að verða seðlabankastjóri og síðar ritstjóri Morgunblaðsins. Miðað við mín kynni af honum tel ég að hann sé stærri maður en svo að hann vilji láta þetta kyrrt liggja án viðbragða.

Blaðið hlýtur annað hvort að gefa út opinbera afsökunarbeiðni eða útskýra hvers vegna þetta ætti að vera í lagi.“

Nú kemur í ljós hvort Davíð er maður eða mús. Mun hann áfram liggja í músarholunni sinni – eða mun hann koma fram með afsökunarbeiðni eða útskýra hvers vegna það er í lagi að ganga yfir strikið i skopmyndateikningum.

Ég spái því að Davíð muni þegja og staðfesta þannig að hann er orðin pólitísk mús.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.4.2011 - 18:56 - 3 ummæli

Kata Thoroddsen flott!

Mér finnst menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir Thoroddsen Tulinius Möller fá allt of lítið hrós fyrir frábært framtak hennar sem tryggir öllum undir 25 ára aldri skólavist í kreppunni og atvinnuleysinu.

Hún náði að kreista fram 6 milljarða  í verkefnið. Verkefni sem skiptir afar miklu máli á þeim tímum sem við lifum á. Verkefni sem allavega VG, Samfó og Framsókn eru sammála um að eigi að fara í. Held ég.

Það er náttúrlega ferlegt að missa Kötu í fæðingarorlof. Mikið væri gott ef Jóhanna væri enn á barneignaraldri …

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.4.2011 - 20:28 - 6 ummæli

Framsóknarsmokkurinn

Ég og félagar mínir í FUF Reykjavík eins og Friðrik Jónsson sem nú vinnur hjá Alþjóðabankanum eftir farsælan feril í utanríkisþjónustunni og hjá alþjóðastofnunum starfandi í Afganistan, Steingrímur Sævarr Ólafsson ritstjóri Eyjunnar með meiru og hún Steingerður sem ég veit bara ekkert hvar er niðurkomin í dag – við gerðum allt vitlaust í Framsóknarflokknum árið 1985 þegar við settum smokkinn á oddinn í pólitík.

Við vildum semsagt að Framsóknarflokkurinn berðist fyrir því í sveitarstjórnarkosningunum 1986  að sveitarstjórnir tryggðu aðgengi að ódýrum smokkum í smokkasjálfsölum sem víðast.  Vildum helst niðurgreiðslu á smokknum.

Röksemdir okkar voru annars vegar að smokkurinn væri mikilvæg vörn gegn kynsjúkdómum og ekki hvað síst gegn nýrri ógn þá banvæns sjúkdóms – AIDS – og hins vegar hreinlega til þess að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir ungra stúlkna.

Þetta féll ekki í kramið hjá hinum eldri. Man sérstaklega eftir því hvernig Alfreð Þorsteinsson tók þó málið mildilegum höndum og dró kurteisislega í efa að þetta væri stærsta pólitíska baráttumálið – án þess að slá málið alfarið út af borðinu. Enda var eitt af áhersluatriðum í kosningastefnuskrá Framsóknar fyrir borgarstjórnarkosningarnar betra aðgengi ungs fólks að getnaðarvörnum.

En afstaða Framsóknarmanna sem efuðust um þetta stefnumál Félags Ungra Framsóknarmanna í Reykjavík breyttist örfáum mánuðum síðar – þegar  sjálfur Steingrimur Hermannsson var einn þeirra sem tóku þátt í herferð gegn AIDS og öðrum kynsjúkdómum með því að sitja fyrir með smokk í hönd á mynd á  frægu smokkaplaggaddi!

Nú er búið að endurvekja þetta fræga og nauðsynlega smokkaplaggadd – 25 árum síðar!

Mér finnst það frábært.

… og mér finnst við krakkarnir í FUF Reykjavík 1985 eiga smá í þessu góða framtaki!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.4.2011 - 12:20 - 16 ummæli

Jóhanna leyndó í 110 ár?

Það er alveg ljóst að Jóhanna Sigurðardóttir og félagar hennar í ríkisstjórninni vilja ekki að margvíslegt klúður þeirra komi fram í dagsljósið. Nóg er það samt. En er ekki einum of langt gengið að mistök Jóhönnu og Steingríms J. verði leyndó í 110 ár?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.4.2011 - 17:39 - 3 ummæli

1400 mikilvægir Skagfirðingar

Vissuð þið að í Skagafirði eru um 1400 einstaklingar sem eiga mikilvægasta atvinnufyrirtæki byggðarlagsins – fyrirtæki sem hefur lagt sitt af mörkum til að byggja upp og viðhalda atvinnu í byggðalaginu? 

Vissuð þið að lunginn úr þeim fiskveiðikvóta sem Skagfirðingar hafa afnot af er ekki í eigu „kvótakóngs“ heldur þessara 1400 einstaklinga?

Vissuð þið að Skagfirðingar hafa haldið hlutdeild sinni í fiskveiðiheimildum en ekki selt þær á brott?

Vissuð þið að fyrirtæki í eigu 1400 Skagfirðinga eru í fremstu röð í úrvinnslu íslenskra gæðamatvæla?

Gætu önnur byggðarlög – ekki síst þau þar sem fáeinir einstaklingar höfðu afnotarétt af fiskveiðiheimildum en seldu afnotaréttinn í burtu – lært eitthvað af þessum 1400 Skagfirðingum?

Ég bara svona spyr!

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 17.4.2011 - 13:33 - 6 ummæli

AGS vill einkavæða ÍLS

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn stefnir að einkavaæðingu Íbúðalánasjóðs. Það liggur klárt og skýrt á borðinu. Nú er að sjá hvort vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fer að vilja Alþjóða gjaldeyrissjóðsins eða hvort hún tryggur áfram tilvist Íbúðalánasjóðs í þeirri mynd sem hann hefur starfað frá 1999.

Í fjórðu endurskoðun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins vegna efnahagssmála á Íslandi segir:

„Sérstaklega mun ríkisstjórnin fyrir lok desembermánaðar veita nægilegu eigin fé inn í Íbúðalánasjóð til þess að hækka eiginfjárhlutfall hans upp í 5% af áhættuvegnum eignum hans (2,25% af VLF). Yfirvöld legga einnig drög að tímalínu til þess að samhæfa eiginfjárkröfur ÍLS til krafna sem gilda um aðrar fjármálastofnanir og leggja fram frumvarp sem kveður á um að FME skuli hafa eftirlit með ÍLS.“

Þetta þýðir á mannamáli annars vega að AGS vill auka eigið fé svo það nái núverandi langtímamarkmiði um 5 í CAD með fjárframlagi úr ríkissjóði og hins vegar að í lengri framtíð verði eigið fé aukið í 8 CAD sem er almennt lágmarkshlutfall fjármálafyrirtækja á SAMKEPPNISMARKAÐI.

Þótt það sé betra að hafa CAD hlutfall ÍLS í 5 þá er engin sérstök þörf til þess. Núverandi eiginfjárhlutfall dugir algerlega til eðlilegs reksturs sjóðsins.

Hins vegar verða stjórnvöld að afnema ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæði  ef CAD hlutfallið fer í 8 eða hærra því þá er ríkisstuðningurinn orðinn klárlega óheimill.

Ergo.

AGS vill einkavæða Íbúðalánasjóðs enda hefur það verið nánast trúarleg stefna Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um langt árabil.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.4.2011 - 09:26 - 12 ummæli

Flokkspólitík ASÍ og SA

Það var flokkspólitík sem drap samningaviðræður ASÍ og SA.  Forysta ASÍ er framlenging á Samfylkingunni – og hluti þingmanna Samfylkingar er framlenging ASÍ.  Samtök Atvinnulífsins er framlenging mismunandi hluta Sjálfstæðisflokks – kvótakónga og annarra.

Mismunandi flokkspólitískir hagsmunir þar sem pólitískt bakland ASÍ og pólitískt bakland SA sem hafa nýverið tekist á á Alþingi – tókust á um lífi ríkisstjórnarinnar á röngum vettvangi.

Því fór sem fór.

Ég auglýsi eftir samvinnustjórnmálum: Samvinnustjórnmál takk fyrir

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 15.4.2011 - 13:16 - 18 ummæli

Samvinnustjórnmál takk fyrir!

Samvinnustjórnmál voru rekin með góðum árangri í borgarstjórn Reykjavíkur í tíð síðari meirihluta Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Samvinnustjórnmálin gengu upp af því að VG og Samfylking tóku þátt í þeim.  Mál voru unnin í náinni samvinnu meirihluta og minnihluta og það náðist breið samstaða um mörg mikilvæg mál.

Það þýddi ekki að allir væru sammála og að ekki væri ágreiningur um ákveðna hluti og sumar leiðir. Það var tekist um slíkt í atkvæðagreiðslum. Eðlilega. Stjórnmál snúast um mismunandi áherslur og hugmyndafræði.

En það náðist betri og breiðari samstaða um miklu fleiri mál en áður – enda fengu viðhorf bæði meirihluta og minnihluta borgarstjórnar að njóta sín í flestum málum.

Við þurfum sambærilega samvinnustjórnmál inn á Alþingi og milli ríkisstjórnar og Alþingis.

Alþingi og ríkisstjórn þurfa að koma sér upp úr þeirri pattstöðu karpstjórnmála sem þau eru í.

Sumir stjórnarandstöðuþingmenn hafa verið afar óbilgjarnir og lítt reiðubúnir til samstarfs við ríkisstjórnina. Málflutningurinn ekki lausnamiðaður og alls ekki á grunni hugmyndarinnar um samvinnustjórnmál. Á hinn bóginn er hjákátlegt að heyra forsætisráðherra kveinka sér undan slíkum málflutningi því stjórnmálaferill hennar hefur einmitt mótast af hörðum óbilgjörnum málflutningi. Það sama má segja um fjármálaráðherrann.

Það er tími til að þessu linni. Stjórn og stjórnarandstöðunni ber skylda til þess að tóna niður hörkuna og óbilgirnana, rísa upp úr skotgröfunum og hefja umburðarlynd og hógvær samvinnustjórnmál.  Samvinnustjórnmál þar sem unnið er að sem breiðustu samstöðu um sem flest mál þar sem sjónarmið meirihluta og minnihluta ná að njóta sín – en takast síðan á um þau mál sem ekki næst samkomulag um á prúðari og uppbyggilegri hátt en verið hefur.

Alþingi, ríkisstjórn og stjórnarandstaða skulda almenningi það. Líkt og borgarulltrúar í Reykjavík skulduðu Reykvíkingum samvinnustjórnmálin eftir bullið og vitleysuna fyrri hluta síðasta kjörtímabils – bull og vitleysu sem allir flokkarnir í þáverandi ríkisstjórn báru ábyrgð á. En sneru villu sinnar vegar yfir í árangrusrík samvinnustjórnmál.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.4.2011 - 11:23 - 9 ummæli

ESB svínin til Íslands!

Við eigum að hleypa ESB svínum til Íslands. Dauðum. En í heilum skrokkum eingöngu. Og svo fremi sem 100% öruggt sé að svínin beri ekki með sér smitandi dýrasjúkdóma.

Á móti eigum við að tryggja íslenskum lömbum hindrunarlaust aðgengi að ESB löndum. Íslenskum rollum líka.

Hvernig?

Jú, með því að semja við ESB um að fella alfarið niður tolla á íslenskt lambakjöt og afnema alfarið kvóta á innflutning íslensks lambakjöts til Evrópusambandslanda.

Til jafnræðis eigum við að semja um niðurfellingu tolla á innflutning á smitfríu svínakjöti í heilum skrokkum til Íslands og tollum á íslensku fullunnu svínakjöti til Evrópusambandsins.

Afnám toll og magntakmarkana á íslenskt lambakjöti inn í Evrópusambandið mun renna styrkum stoðum undir íslenskan sauðfjárbúskap og tryggja íslenskum sauðfjárbændum örugga og góða afkomu.

Afnám tolla á svínakjöt í heilum skrokkum til Íslands mun ganga að bankarekinni, undirbjóðandi magnsvínarækt  á Íslandi dauðri – en hún er að drepast hvort eð er af taprekstri og nýjum reglugerðum landbúnaðarráðherra.

En afnám tolla á heilbrigðu svínakjöti í heilum skrokkum mun tryggja íslenskri kjörvinnslu traustan rekstrargrundvöll og væntanlega lækka vinnslukostnað á íslensku lambakjöti, nautakjöti og hrossakjöti til muna og þannig hækka verð á þeim afurðum til bænda án þess að hækka verð til neytenda.

Þessi aðgerð mun einnig auka möguleika íslenskrar svínaræktar á fjölskyldubúum. Sérstaða íslensks lífrænt ræktaðs svínakjöts sem unnt er að fullvinna á hagkvæman hátt í kjötvinnslum eykur möguleika á sölu á ásættanlegu verði bæði innanands og í Evrópu.

Það þarf ekki að selja mörg íslensk lífræn gæðasvín á góðu verði í Hollandi og Bretlandi undir heitinu ”Happy Icelandic Pig”  – þar sem ég held að sé um þessar mundir góður markaður fyrir íslensk svín skeyta skapi sínu á   – til þess að styrkja lítil svínabú á landsbyggðinni á Íslandi.

Eitt af slagorðum Lansdssambands sauðfjárbænda ætti því að vera:  “Slátrum ESB svínunum, brytjum þau niður á Íslandi og látum íslensku sauðkindina leggja Evrópu að fótum sínum”

Sindri. Ég treysti á þig í þessu máli!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.4.2011 - 13:39 - 11 ummæli

Hrun 100 ára flokkakerfis?

Staðan í íslenskum stjórnmálum er nú svipuð og fyrir 100 árum þegar gömlu flokkarnir sem tókust á um heimastjórnarmálin voru orðnir úreltir og flokkakerfið stokkaðist upp. Upp úr þeirri uppstokkun mótaðist í grunninn það flokkakerfi sem við höfum búið við síðan og staðist fjölmörg áhlaup, klofninga og nýja flokka.

Núverandi flokkakerfi er jafn úrelt og flokkakerfi heimastjórnarpólitíkunnar fyrir 100 árum. Allt bendir til þess núverandi flokkar munu stokkast upp og endurraða sig að nýju. Allir stjórnmálaflokkarnir eru meira og minna klofnir. Allir.

Um nokkurt skeið hefur verið ljóst að frjálslyndi hluti Framsóknarflokks, frjálslyndi hluti Samfylkingar og frjálslyndi hluti Sjálfstæðisflokks eiga miklu meira sameignlegt með hvor öðrum en með hagsmunagæsluliðinu í sínum eigin flokkum.  Það er jafnvel að finna frjálslynt fólk í VG sem gæti átt samleið með þessum hópum,

Þetta er að koma betur og betur í ljós í þeim átökum um ákveðin grundvallarsjónarmið sem fram hafa farið í Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum, VG og Samfylkingunni á undanförnum mánuðum og misserum. Flokkunum hefur misvel tekist að halda þessum meiningarmun og átökum frá almenningi. Þar hefur Samfylkingin reyndar tekist það skást – en meiningarmunurinn þar innanborðs er meiri en marga grunar.

Sjónarmið annarra hópa innan Framsóknarflokks, VG og  jafnvel Sjálfstæðisflokks liggja einnig betur saman en við aðra hluta eigin flokks.

Þá hafa upp úr pólitískum glundroða hrunsins komið fram nýir öflugir einstaklingar í stjórnmálum sem væntanlega munu láta til sín taka í framtíðinni ef þeir kjósa svo.  Sérstaklega á sveitarstjórnarstiginu.  Sem dæmi um það eru liðsmenn Besta flokksins í Reykjavík þeir Óttar Ó Proppe og Einar Örn Benediktsson.  Fleiri má nefna.

Það eru því allar líkur á að það sé að hefjast tímabil endurskipulagningar íslenskra stjórnmálahreyfinga og stjórnmála almennt.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur