Davíð Oddsson er orðin pólitísk mús en ekki það pólitíska ljón sem hann eitt sinn var. Davíð hefur skriðið ofan í músarholuna sína á Hádegismóum og tístir þar að pólitískum andstæðingum sínum. Skopmyndateiknari í vinnu hjá Davíð sýnir nú meiri manndóm en hinn pólitíski ritstjóri.
Skopmyndateiknarinn sem fór aðeins yfir strikið í teikningu sinni af Siv Friðleifsdóttur alþingismanni er maður að meiru með því að biðja Siv persónulega afsökunar og birta afsökunarbeiðni opinberlega. Davíð hvarf hins vegar ofan í músarholuna.
Reyndar hafði Siv ekki kveinkað sér undan teikningunni enda ekki hennar eðli að væla undan pólitískum átökum og þeim árásum sem hafa á hana dunið gegnum tíðina – ekki hvað síst undanfarið þegar Siv stendur í fæturna og sýnir pólitískan styrk sinn andstæðingum hennar til armæðu.
Siv er einn öflugasti stjórnmálamaðurinn á Alþingi. Hún hefur styrkst sem slík að undanförnu. Það er ekkert væl í henni heldur er hún greinilega reiðubúinn að takast á við erfið verkefni stjórnmálanna á næstu mánuðum og misserum.
Siv hefur nú króað músina Davíð af í holu sinni. Siv segir í viðtali við Fréttatímann:
„Okkur ritstjóra Morgunblaðsins gekk vel að vinna saman hér áður fyrr. Leiðir okkar hafa ekki legið saman eftir að hann hvarf úr stjórnmálum og tók að sér að verða seðlabankastjóri og síðar ritstjóri Morgunblaðsins. Miðað við mín kynni af honum tel ég að hann sé stærri maður en svo að hann vilji láta þetta kyrrt liggja án viðbragða.
Blaðið hlýtur annað hvort að gefa út opinbera afsökunarbeiðni eða útskýra hvers vegna þetta ætti að vera í lagi.“
Nú kemur í ljós hvort Davíð er maður eða mús. Mun hann áfram liggja í músarholunni sinni – eða mun hann koma fram með afsökunarbeiðni eða útskýra hvers vegna það er í lagi að ganga yfir strikið i skopmyndateikningum.
Ég spái því að Davíð muni þegja og staðfesta þannig að hann er orðin pólitísk mús.