Föstudagur 6.3.2015 - 17:55 - 7 ummæli

Túlkunarsvigrúm ESB/EES og Sigrúnar Magnúsdóttur

Flest öll ríki innan EES – Evrópska efnahagssvæðisins – nýta sér það svigrúm sem túlkun á reglum og tilskipunum ESB/EES gefur – ríkjum sínum í hag. Eðlilega. Það hefur ekkert með málfræðilega túlkun að gera. Enda þarf ekki að leita út fyrir íslenskuna og Ísland til að sjá mismunandi túlkun á lögum og reglugerðum. Það er lifibrauð íslenskra lögmanna!

Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra hefur á ósanngjarnan hátt setið undir árásum úr mörgum áttum eftir að hún benti á að það væri unnt að „túlka“ tilskipanir ESB/EES betur með hagsmuni Íslendinga í huga.

Málið er nefnilega að Sigrún Magnúsdóttir hefur algerlega rétt fyrir sér.

Vandi Íslands og Íslendinga hefur um áratuga skeið verið að á meðan allar aðrar þjóðir túlka reglugerðir og tilskipanir Evrópusambandsins/Evrópska efnahagssvæðisins eins vítt og hagfellt og unnt er fyrir land sitt og þjóð, þá hafa íslenskir embættismenn oftast túlkað sömu reglur þröngt og í raun unnið gegn íslenskum hagsmunum.  Kaþólskari en páfinn!

Og stundum hafa þeir lesið reglugerðirnar og tilskipanirnar á svipaðan hátt og skrattinn les Biblíuna.  Snúa út úr þeim eins og unnt er til að fá niðurstöðu sem er andstæð íslenskum hagsmunum!

Þetta hefur ekkert með íslensku að gera.

Ekki veit ég hvort þetta er rótgróinn þrælsótti embættismanna gegn valdinu – sem áður var gagnvart Kaupmannahafnarvaldinu en núna Brusselvaldinu – eða vegna þess að embættismenn vilja halda eigin völdum með því að skapa grýlu úr ESB. Kannske hvorutveggja!

En staðreyndin er sú að á meðan ekki liggja fyrir óyggjandi dómar EFTA eða ESB dómstólsins um mismunandi túlkanir og möguleg ágreiningsefni í reglugerðum og tilskipunum – þá hafa ríki ákveðið svigrúm til túlkunar sér í hag. Sem við Íslendingar eigum að nýta okkur. Jafnvel þó það hafi verið Framsóknarkona sem benti á þessa augljósu staðreynd!

… og svo það sé á hreinu – þá er himinn og haf á milli afstöðu minnar og Sigrúnar Magnúsdóttur til ESB og mögulegrar inngöngu Íslands í það ágæta ríkjasamstarf.

Einhver spyr sig af hverju ég sé fyrst núna að koma með pistil um þetta efni, þá er svarið einfalt.  Hysterían var svo galin fyrstu dagana eftir ummæli Sigrúnar að hluti netheima var ekki reiðubúinn að taka umræðuna á þokkalega vitrænum nótum …

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.2.2015 - 19:26 - 8 ummæli

Sprengir fjalldrottning sig fyrir ISIS?

Er raunveruleg hætta á því að íslensk „fjalldrottning“ sprengi sig í loft upp í sjálfsmorðsárás fyrir ISIS?

Veit að þetta er viðkvæmt umfjöllunarefni. En það er staðreynd að ungar konur – þess vegna vel menntaðar og uppaldar í Evrópu – eru reiðubúnar að fórna lífi sínu í sjálfsmorðsárás. Þeim er „launað“ með því að vera hampað sem hetju í ákveðnum hryðjuverkakreðsum!

Margir á Vesturlöndum undrast þetta. Margir á Vesturlöndum benda á slíkar stúlkur og telja þær merki um „hættuleg trúarbrögð islam“.

OK.

Nálgumst þetta aðeins öðruvísi. Hvað margar íslenskar stúlkur íhuga sjálfsmorð vegna ýmissa ástæðna?

Hvað margar íslenskar stúlkur reyna að fremja sjálfsmorð þó oftast til að kalla á hjálp – en stundum klárlega vegna þess að þær vilja ekki lifa lengur af ýmsum ástæðum?!

Hvað ef þessar stúlkur hefðu þann kost að sjálfsmorð væri eðlileg leið út úr hugarkrísu og til viðbótar þá fengju þær sérstakan sess í því samfélagi sem þær eru að kynnast eða eru uppaldar í – þær fengju mikla athygli – sem þær kannske skorti áður?

Væri þá ekki „skárri“ kostur fyrir þær að fremja sjálfsvígsárás sem þær eru hylltar fyrir en að skera sig hljóðlátt á púls!

Er þetta kannske ástæðan fyrir því að það virðist tiltölulega auðvelt fyrir hryðjuverkamenn að fá ungar konur í sjálfsmorðshugleiðingum að fremja sjálfsmorð í misskilinni „trúarlegri“ árás fyrir  „trúarlegu pimpin“ sem stjórna þeim?  Dólga sem ekkert hafa með neina trú að gera heldur völd og auð – sem er hinn raunverulegi grunnur ISIS – ekki íslömsk trú sem eru potkemintjöld dólganna.

Eigum við ekki að líta okkur nær áður en við fordæmum um of „trúarleg“ sjálfsmorð kvenna og frekar að reyna að skilja af hverju konur eru reiðubúnar að taka eigið líf til þess að öðast „góðan“ orðstí í því samfélagi sem þær tilheyra eða vilja tilheyra?

Ég veit það ekki sjálfur. En hef hugsað töluvert um það undanfarið. Og tel rétt að opna umþetta umræðuna.

Hér er tengill á frétt sem tengist þessari pælingu minni:

http://www.vg.no/nyheter/innenriks/terrorisme/venner-om-terrormistenkt-ble-plutselig-veldig-religioes/a/23400217/

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 24.1.2015 - 18:50 - 12 ummæli

Samvinnuháskóli Borgarfjarðar

Hugmyndir um sameiningu háskóla á landsbyggðinni geta styrkt bæði háskólamenntun og einstök byggðasvæði. En þá þarf að vanda sig!

Menntamálaráðherra hefur nú sett fram hugmyndir að sameiningu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Háskólans á Bifröst og Landbúnaðarháskólans á Hólum.

Þessar tillögur ber að skoða með opnum huga.

Sameining Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Háskólans á Bifröst er borðliggjandi. Með slíkri sameiningu myndast sterkari og fjölbreyttari háskóli en nú þar sem grunnfög skólanna er mismunandi.

Stjórnun, viðskiptafræði, lögfræði og fög á sviði félagsvísinda á Bifröst.

Náttúruvísindi, skipulagsfræði og afar mikilvæg fagmenntun fyrir landbúnað, á Hvanneyri.

Hins vegar bætir Landbúnaðarháskólinn á Hólum nánast ekki neinu inn í þetta háskólaumhverfi.

Landfræðilega er Háskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri á sömu „torfunni“. Sem þýðir að fjarlægðir veikja beina stjórnun sameinaðans háskóla Bifrastar og Hvanneyrar ekki mikið. Það er því unnt að spara frá fyrsta degi í stjórnunarkostnaði slíks nýs háskóla án þess að markviss stjórnun veikist að marki.

Annað er uppi á teningnum ef Landbúnaðarháskólinn á Hólum er settur saman við Bifröst og Hvanneyri. Mögulega mun stjórnunarkostnaður lækka en slík sameining mun klárlega veikja faglega og rekstrarlega stjórnun verulega.

Því er klárlega betra að hinn frábæri Landbúnaðarháskóli á Hólum sameinist Háskólanum á Akureyri. Það mun styrkja Háskólann á Akureyri mjög  því þótt fáir viti af því þá hefur Landbúnaðarháskólinn á Hólum um langt árabil tekið þátt á mikilvægum rannsóknarverkefnum á alþjóðavettvangi. Verkefnum sem hafa vakið mikla athygli utan landssteinanna,en minni athygli á Íslandi einhverra hluta vegna.

Það er því einnig unnt að draga úr stjórnunarkostnaði á Hólum og Akureyri með sameiningu háskólanna þar eins og klárlega er unnt með sameiningu háskólanna í Borgarfirði.

En með þessu er ekki öll sagan sögð.  Háskólarnir í Borgarfirði eru báðir með langa reynslu í vel heppnuðum undirbúningsdeildum fyrir háskólanám. Að sameina þá reynslu samhliða því að sameina háskólana ætti að styrkja faglegt, vel heppnað fjarnám í flottum, breiðari  háskóla en í dag. Fjarnám sem ætti að byggja enn betur upp og mögulega á fleiri sviðum en eru til staðar í dag.

Reyndar ættu stjórnvöld að leggja upp með að fjarnám á háskólastigi fari fyrst og fremst fram á landsbyggðinni en ekki í Reykjavík. Reykjavík hefur nóg.

Þá má ekki gleyma því að fyrir okkur Íslendinga er mikilvægt að styrkja tengsl milli framhaldsskólastigsins og háskólastigsins. Slík tengsl hafa nánast ekki verið til fram til þessa!

Nánar um það í næsta pistli.

En svona í lokin. Það er borðleggjandi að sameina háskólana í Borgarfirði. Sameining Hóla í það kompaní veikir slíkan háskóla. Spái því að þeir sem vilja vinna gegn góðum háskólum á landsbyggðinni vilji Hóla með Borgarjarðarskólunum. Hólar hafa miklu meira að gefa til Háskólans á Akureyri og Háskólinn á Akureyri mikið að gefa Landbúnaðarháskólanum á Hólum.

Og að sjálfsögðu á sameinaður háskóli háskólanna á Hvanneyri og á Bifröst að nefnast „Samvinnuháskólinn í Borgarfirði“  Annars vegar til að undirstrika samvinnuverkefnið sem verður til með samvinnu og sameiningu þessarra tveggja flottu háskóla og hins vegar til að halda á lofti einnar merkilegusti menntastofnundar landsins – Samvinnuskólans – sem mun eiga aldar afmæli eftir 3 ár það er árið  2018. Samvinnuskólinn og sum gildi hans hafa nefnilega lifað nánast heila öld og lifir nú að breyttum breytanda í Háskólanum á Bifröst.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 15.1.2015 - 20:09 - 9 ummæli

Samvinnurekstur er framtíðin!

Samvinnurekstur er framtíðin. Ef stjórnmálamenn hafa vit á því að gera nauðsynlegar breytingar á lögum um samvinnufélög svo samvinnurekstur sé jafn hagstætt rekstrarform og rekstur hlutafélaga sem í dag er lagalega – en ekki siðferðislega – betra rekstrarform.

Núverandi lagaumhverfi útilokar til dæmis að tiltölulega lítill hópur sérfræðinga geti stofna heilbrigt samvinnufélag um sameiginlegan rekstur sinn þar sem einn félagi hefur eitt atkvæði. Þess í stað þvingar löggjafinn slíkan hóp inn í hlutafélag þar sem ákvarðanir og völd liggja hjá þeim sem er fjársterkastur og getur lagt inn mest hlutafé. Óháð því hvert framlag hans er að öðru leiti til rekstursins.

Þetta er einungis eitt dæmi af mismununinni sem ríkir milli samvinnurekstrar og hlutfélagarekstrar.

Því miður veit almenningur á Íslandi afar lítið um misumandi form samvinnurekstrar. Í anda íslenkrrar umræðu er viðhorf allt of margra svart/hvítt. Stór hluti þjóðarinnar setur samansem merki  milli samvinnurekstrar og SÍS. Eða samvinnurekstrar og hins öfluga kaupfélags Kaupfélags Skagafjarðar og fyrirtækja í þess eigu. Fyrirtækja sem EKKI eru samvinnufélög einmitt vegna þess hvernig löggjafinn hefur sett niður samvinnufélög og hlutafélagsvætt íslenskt atvinnulíf, Og þar með ólýðræðisvætt íslenskt atvinnulíf.

Því hlutafélagavæðing Íslands hefur útrýmt öllu lýðræði úr athafnalífinu.

Það var reyndar ekki erfitt því almenningur sá að í gömlu hefðbundnu samvinnufélögunum var gamla grunnhugsunin um „einn maður eitt atkvæði“ og að lýðræði ætti að ráða – forsmáð. En það þýðir ekki að samvinnurekstur sé ekki góður. Þvert á móti.  Það þýður að fólk þarf að vera vakandi yfir lýðræðinu. Hvort sem það er innan samvinnufélags – eða í samfélaginu yfir höfuð!

Jamm!

Samvinnurekstur er framtíðin!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.9.2014 - 13:07 - 10 ummæli

Hvar eru Símapeningarnir?

Nú á að selja hlut ríkisins í Landsbankanum. Gott og vel. Treysti þvi að söluverðmætinu verði vel varið.

En þá vaknar gömul spurning.

Hvar eru Símapeningarnir?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.7.2014 - 20:58 - 4 ummæli

Hjarðhugsun og danska leiðin!

Flest stærstu mannlegu slys mannkynssögunnar hafa verið vegna hjarðhugsunar (groupthink) .  Við Íslendingar höfum fengið okkar skerf af slíkum mistökum. Nú virðist enn eitt hjarðhugsunarslysið í uppsiglingu. Það er hin „frábæra“ leið í fjármögnun húsnæðiskerfisins – hin guðdómlega „danska leið“ sem forseti ASÍ lagði til fyrir einhverjum misserum síðan og margir hafa mært síðan. En enginn kannað í kjölinn.

Ég benti á veikleika þeirrar leiðar fyrir margt löngu síðan – en að venju vildi enginn hlusta. Ég bað auðmjúklega menn um að kanna í kjölinn ákveðin atriði sem væru veikleikar þeirrar leiðar fyrir okkur Íslendinga. Það virðist sem enginn hafi viljað skoðað veikleikana en eftir því sem tíminn hefur liðið þá eru fleiri og fleiri í klappliðinu. „Danska leiðin“ er guðdómleg og mun bjarga íslenskum húsnæðismálum – segir hjörðin.

En eins og svo oft hefur hjörðin rangt fyrir sér.

Danska kerfið byggir á jafnvægi milli inn og útgreiðslna. Svona eins og í húsbréfakerfinu sem skilaði okkur lengst af 6% – 9% raunvöxtum – vöxtum umfram verðbólgu. Kerfi þar sem fólk fékk lánaða verðtryggða milljón sem þurfti að borga verðtryggt með 5,1% vöxtum í allt að 40 ár – en milljónin var bara 910 þúsund – 940 þúsund króna virði í fasteignaviðskiptum.

En aðstæður til þess að endurfjármögnun gangi munu ekki verða til í íslensku „dönsku kerfi“ að óbreyttu.

Grundvöllur þess að danska kerfið getur gengið í Danmörku nútímans er tvíþættur.

Annars vegar að skuldabréfaflokkarnir séu það stórir að tryggt sé að þeir séu viðskiptahæfir hvenær sem er.  Hver skuldabréfaflokkur þarf að vera að lágmarki því sem samsvarar  um 70 milljónir evra  að stærð. Það samsvarar um 110 milljörðum íslenskra króna.

Hins vegar þurfa skuldabréfaflokkarnir í „danska keffinu“  að vera viðskiptahæfir í hagkerfi sem er margfalt stærri en það íslenska. Reyndar stærra en danska hagkerfið.

Ástæða þess að „danska kerfið“ gengur í Danmörku er nefnilega tvíþætt. Og báðir þættirnir eru því miður ekki til staðar á Íslandi.

Í fyrsta lagi eru skuldabréfaflokkarnir í Danmörku miklu stærri en 110 milljarðar ISK. Ef „danska kerfið“ verður tekið upp á Íslandi þá mun hver skuldabréfaflokkur einungis verða brot af þeirri stærð.

Í öðru lagi þá er danska efnahagssvæðið hluti af evrusvæðinu. Danska krónan er beintengd evrunni þannig að fjármögnunarsvæði „danska kerfisins“ er ekki einungis Danmörg heldur Evrópusambandssvæðið í heild sinni. Enda eru það þýskir fjárfestar sem eru stærstir í fjármögnun „danska kerfinu“.

Ísland er ekki hluti af myntsvæði Evrópu. Reyndar geta til dæmis Þjóverjar yfir höfuð ekki fjárfest í nýju íslensku „dönsku kerfi“ vegna gjaldeyrishafta og ónýtrar krónu.

„Danska kerfið“ er  því dauðadæmt á Íslandi við óbreyttar aðstæður. Ef það verður innleitt þá munu húsnæðisvextir óhjákvæmilega stórhækka og raunvextir mögulega verða hærri en þegar þeir voru hæstir í húsbréfakerfinu þegar þeir fóru yfir 9%. Þá erumv ið að tala um 9% vxtir umfram veðbólgu. … og einhver heldur að óverðtryggð lán muni hafa lægri raunvexti í „danska kerfinu“ þá er það misskilningur. Raunvextir munu að líkindum verða mun hærri en verðtryggðir vextir sem nemur „verðbólguáhættuálagi“. En það er annað mál.

En að venju munu Íslendingar ekki hlusta á viðvörunarorð – og munu að líkindum ekki einu sinni reyna að skoða hvort ég hef rétt fyrir mér. Ekki í þessu frekar en í fyrri tillögum í húsnæðismálum sem hefðu leitt til þess – ef menn hefðu hlustað – að íslenskur húsnæðismarkaður væru ekki eins galinn og hann er í dag. … enda er é ekki í hjörðinni.

Spái því að hjarðhugsunin og „danska leiðin“ verði ofaná. Sem mun þýða skelfilega tíma fyrir íslenskan almenning – hvort sem hann mun fjárfesta í eigin húsnæði eða leigja húsnæði sem fjármagnað verður með hinni guðdómlegu „dönsku leið“.

Og því miður verður það aðgöngumiðið að enn einu hruninu  íslensku efnahagslífi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 29.6.2014 - 13:30 - 12 ummæli

Höfuðstöðvar ÍLS á Krókinn!

Það er rétt ákvörðun hjá ríkisstjórninni að færa höfuðstöðvar Fiskistofu út á land. Hún hefur ekkert að gera á höfuðborgarsvæðinu. Reyndar hefði ég viljað sjá höfuðstöðvarnar fluttar á Ísafjörð, Seyðisfjörð eða Hornafjörð frekar en Akureyri, en það er annað mál.

101 Reykjavík skelfur dálítið við þessa ákvörðun. En það  mun fljótt jafna sig.

Auðvitað er það ekki auðvelt fyrir 70 starfsmenn að taka ákvörðun um það að hvort þeir vilji halda áfram að vinna á Fiskistofu og flytjast til Akureyrar með fjölskyldur sínar eða ekki. Ekki frekar en það er ekki auðveld ákvörðun fyrir jafnmarga starfsmenn útgerðarfyrirtækis á Þingeyri og Húsavík að flytjast til Grindavíkur til að halda starfi sínu eða ekki.

Munurinn liggur reyndar í því að meira er um atvinnutækifæri fyrir starfsfólkj Fiskistofu í Reykjavík en fyrir starfsfólk útgerðarfyrirtækisins á Húsavík og Þingeyri. Auk þess sem hluti starfsmanna Fiskistofu mun væntanlega fá starf á svæðisskrifstofu í Reykjavík.

Flutningur opinberra starfa út á land er engin nýjung þótt allt of lítið hafi verið gert af því. Dæmi um slíkan vel heppnaðan flutning er uppbygging starfsstöðvar Íbúðalánasjóðs á Sauðárkróki. Sá hluti starfsemi Íbúðalánasjóðs hefur virkað afar vel.

Höfuðstöðvar Íbúðalánasjóðs þurfa ekki að vera í Reykjavík. Þar er nóg að hafa hóflega starfsstöð. Ég skora því á ríkisstjórnina að flytja höfuðstöðvarnar og lánasvið Íbúðalánasjóðs á Sauðárkrók. Forstjóri sjóðsins getur hafið störf þar með yfirstjórn sjóðsins 1. september 2015.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.5.2014 - 18:38 - 10 ummæli

Hættur á Útvarpi Sögu vegna íslam

Undanfarna þrjá mánuði hef ég unnið að uppbyggingu fréttavefjar Útvarps Sögu. Það hefur verið skemmtilegt, en erfitt, tímafrekt og krefjandi starf. Ég hef skrifað fréttir upp úr ævintýralega fjölbreyttum viðtölum við fólk hvaðanæva úr samfélaginu sem hafa verið gestir hins frábæra útvarpsmanns Markúsar Þórhallssonar í morgunútvarpinu, Péturs Gunnlaugssonar og Erlings Más Karlssonar í síðdegisútvarpinu og Höskuldar Höskuldssonar í Bixinu.

Það kom mér á óvart hversu margir fréttafletir hafa komið fram í þessum oftast frábæru viðtalsþáttum. Viðtalsþáttum þar sem fólk fær að njóta sín í tiltölulega löngum viðtölum miðað við það sem almennt gerist í nútímafjölmiðlun.

Eðli málsins vegna þá hafa alls konar sjónarmið komið fram á þessum spennandi vettvangi sem reyndar oft á tíðum hefur ekki notið sannmælis og staðið í harðri baráttu gegn blokkamyndun á auglýsingamarkaði þar sem „litla“ Útvarpi Sögu hefur verið haldið utan við mælingar á notkun ljósavakamiðla þvert á ákvæði samkeppnislaga og þannig verið útilokað frá auglýsingum sem birtingarhúsin hafa haldið um sem er um 80% af auglýsingamarkaðnum. Því gladdi það mitt litla hjarta þegar samkeppniseftirlitið opnaði fyrir aðkomu minni ljósvakamiðla að notkunarmælingum. Nú er sóknarfæri fyrir Útvarp Sögu.

Ég hafði hugsað mér að taka þátt í þessar sókn Útvarps Sögu og var vongóður að fá með mér góðan blaðamann inn á vef Útvarps Sögu, www.utvarpsaga.is , til að þétta þá umfjöllun sem ég hef haldið þar úti undanfarna mánuði og auka fjölbreytni.

En því miður verð ég að segja skilið við Útvarp Sögu.

Ástæðan eru efnistök er varða mosku, múslima og íslam almennt. Ég er ekki sáttur með hvernig Útvarp Saga hefur nálgast það viðfangsefni. Eitt er að vera vettvangur og miðill fyrir ólíkar skoðanir og það er virðingarvert að Útvarp Saga gefur öllum sjónarmiðum vettvang. Annað er þegar það virðist vera að fjölmiðillinn taki sér stöðu með harðri gagnrýni á trúarbrögð og gegn byggingu guðshúss múslima almennt, ekki einungis staðsetningu þess. Ég hef verið hugsi yfir þeirri afstöðu en virði rétt fólks til að hafa slík sjónarmið. En þegar sjónarmið sem ég er andstæður virðist nánast orðið hluti ritstjórnarstefnu fjölmiðilsins þá má túlka það þannig að ég sem starfsmaður á vef Útvarps Sögu sé hluti slíkrar ritstjórnarstefnu og sé henni sammála.

Þá stöðu get ég ekki hugsað mér.

Ég hafði hugsað mér að láta helgina líða og taka þetta upp við það ágæta fólk og frábæru samstarfsaðilja sem ég hef unnið með á Útvarpi Sögu að undanförnu og óska eftir hlutlægari nálgun miðilsins sjálfs á þessu mikilvæga en viðkvæma umfjöllunarefni. Eitt væri að vera vettvangur fyrir ólík sjónarmið, annað að taka stöðu gegn trúarbrögðum og trúarhóp. En eftir atburðarrás dagsins í dag þar sem frétt minni þar sem ég kom á framfæri viðbrögðum Salmann Tamimi á Eyjunni við frétt Útvarps Sögu á utvarpsaga.is „Salmann hlynntur aflimun þjófa í refsingarskyni“ – sem er ein fárra frétta sem ég hef ekki skrifað á þann miðil undanfarna 3 mánuði – var eytt án samráðs við mig þá verð ég að setja punktinn. Samvisku minnar vegna.

Ég er bara ekki reiðubúinn að starfa á fjölmiðli sem virðist taka einarða stöðu gegn starfsemi trúarhóps og virðist frekar kynda undir andúð á ákveðnum hóp Íslendinga og innflytjenda á þennan hátt. Jafnvel þótt einstaklingar innan þess trúarhóps hafi skoðanir sem mér líkar ekki og missi sig í reiðikasti í fjölmiðlum.

Ég er ekki viss um að mínir ágætu vinir á Útvarpi Sögu sjái þessa umfjöllun fjölmiðilsins í sama ljósi og ég og að þeir telji sig ekki ýta undir andúð á múslimum. En ég upplifi þetta á þennan hátt og ég er ekki reiðubúinn að halda að öðru leiti frábæru samstarfi við starfsfólk Útvarp Sögu áfram vegna þessa. Ég vil að það sé 100% á hreinu að ég get ekki stutt mismunun gagnvart trúarbrögðum, kynþætti né kynhneygð.

En ég óska Útvarpi Sögu velfarnaðar í framtíðinni og vona að hinir dugmiklu eigendur og stjórnendur Útvarps Sögu nýti þennan viðskilnað minn á jákvæðan hátt í reynslubanka sínum.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.5.2014 - 13:09 - 6 ummæli

Moskumálið styrkir Samfó og Framsókn

Sú ofurháhersla sem stóra moskumálið hefur fengið í fjölmiðlum hefur haft tvennt í för með sér. Það kom Framsóknarflokknum og oddvita hans í umræðuna og gegndarlausar árásir á oddvitan hafa orðið til þess að fylgi hennar hefur aukist mjög. Réttmæt gagnrýni á orð hennar hefur í mörgum tilfellum breyst í hreina og klára hatursumræðu – og í þeim tilfellum orðin af sama meiði og túlka má  upphafleg ummæli oddvitans. Það er ekki síður sá hluti umræðunnar sem hefur aukið fylgi Framsóknarflokksins, fólki ofbýður harkan og orðbragðið. Dálítið kaldhæðnislegt að eiginlegir andstæðingar múslima og fólk sem ofbýður því sem við getum kallað nánast einelti á oddvitan fyrir ummæli hennar skuli tryggja Framsóknarflokknum borgarfulltrúa.

En þótt moskumálið hafi styrkt Framsóknarflokkinn þá hefur það líka styrkt Samfylkinguna í borginni. Þar trónir næsti borgarstjóri Reykjavíkur Dagur B. Eggertsson með sterka landsföðurímynd og hefur getað farið gegnum kosningabaráttuna án þess að þurfa að ræða stefnumál af neinni alvöru. Hann hefur tekið á umræðunni af hófsemd, að sjálfsögðu gagnrýnt ummæli oddvita Framsóknarflokksins en ekki tekið það skref að hjóla í hana af hörku. Það hafa aðrir flokksmenn séð  um.

Það er nefnilega hagur Samfylkingarinnar að þurfa ekki að ræða stefnumálin og þurfa að verja þau í harðri stjórnmálaumræðu. Þá er ég ekki að segja að stefnumálin séu ekki góð. En Samfylkingin hefur sloppið við að takast á við hina stjórnmálaflokkana um þau á meðan allt púðrið hefur farið í stóra moskumálið. Samfylkingin hefur getað haldið Degi B. Eggertssyni sem yfirveguðum og reyndum stjórnmálamanni sem hefur traust borgarbúa til að taka við embætti Jóns Gnarr sem borgarstjóri. Sá vilji borgarbúa hefur minna með stefnumál en meira um traust á manninum að gera.

Og vegna moskumálsins þá hefur Dagur losnað við harða umræðu um stefnumál Samfylkingarinnar. Hin trausta ímynd helst því ólöskuð. Hann er bara Borgarstjórinn með stórum staf í hugum stórs hluta borgarbúa. Það skilar Samfylkingunni væntanlega kosningasigri í Reykjavík.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.5.2014 - 21:40 - 19 ummæli

Guðfinna Jóhanna á að taka við sem oddviti xB strax!

Oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík hefur forsmáð það sem Framsóknarflokkurinn hefur staðið fyrir um áratugaskeið. Umburðalyndi og samvinnu. Vissulega hafa einstaka sinnum flokksbrot misst sig aðeins í átt til óheilbrigðrar þjóðernishyggju en hjarta flokksins hefur hins vegar verið heilbrigð þjóðhyggja sem tekur öðrum opnum örmum og fagnað fjölbreytileika.

Núverandi oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík sem hafði mörg mikilvæg málefni á oddinum fyrir borgarstjórnarkosningarnar hefur brugðist Reykvíkingum og flokksmönnum með óskiljanlegri afstöðu sinn gagnvart múslimum. Sem margir – fram að þessu – hafa getað stutt Framsóknarflokkinn með heilum hug.

Vegna þessa verður núverandi oddviti Framsóknarflokksins að víkja nú þegar. Hún er ekki að tala fyrir hug hins venjulega Framsóknarmanns – nema flokkurinn hafi breyst þvímeira þessi 4 ár sem ég hef verið utan hans.

Hið eina rétta er að oddvitinn afhendi Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur sem skipar 2. sæti lista Framsóknarflokksins kyndilinn og að hún berjist þessa síðustu dga fyrir því að Framsóknarflokkurinn fái mann kjörinn í borgarstjórn.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur