Flest öll ríki innan EES – Evrópska efnahagssvæðisins – nýta sér það svigrúm sem túlkun á reglum og tilskipunum ESB/EES gefur – ríkjum sínum í hag. Eðlilega. Það hefur ekkert með málfræðilega túlkun að gera. Enda þarf ekki að leita út fyrir íslenskuna og Ísland til að sjá mismunandi túlkun á lögum og reglugerðum. Það er lifibrauð íslenskra lögmanna!
Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra hefur á ósanngjarnan hátt setið undir árásum úr mörgum áttum eftir að hún benti á að það væri unnt að „túlka“ tilskipanir ESB/EES betur með hagsmuni Íslendinga í huga.
Málið er nefnilega að Sigrún Magnúsdóttir hefur algerlega rétt fyrir sér.
Vandi Íslands og Íslendinga hefur um áratuga skeið verið að á meðan allar aðrar þjóðir túlka reglugerðir og tilskipanir Evrópusambandsins/Evrópska efnahagssvæðisins eins vítt og hagfellt og unnt er fyrir land sitt og þjóð, þá hafa íslenskir embættismenn oftast túlkað sömu reglur þröngt og í raun unnið gegn íslenskum hagsmunum. Kaþólskari en páfinn!
Og stundum hafa þeir lesið reglugerðirnar og tilskipanirnar á svipaðan hátt og skrattinn les Biblíuna. Snúa út úr þeim eins og unnt er til að fá niðurstöðu sem er andstæð íslenskum hagsmunum!
Þetta hefur ekkert með íslensku að gera.
Ekki veit ég hvort þetta er rótgróinn þrælsótti embættismanna gegn valdinu – sem áður var gagnvart Kaupmannahafnarvaldinu en núna Brusselvaldinu – eða vegna þess að embættismenn vilja halda eigin völdum með því að skapa grýlu úr ESB. Kannske hvorutveggja!
En staðreyndin er sú að á meðan ekki liggja fyrir óyggjandi dómar EFTA eða ESB dómstólsins um mismunandi túlkanir og möguleg ágreiningsefni í reglugerðum og tilskipunum – þá hafa ríki ákveðið svigrúm til túlkunar sér í hag. Sem við Íslendingar eigum að nýta okkur. Jafnvel þó það hafi verið Framsóknarkona sem benti á þessa augljósu staðreynd!
… og svo það sé á hreinu – þá er himinn og haf á milli afstöðu minnar og Sigrúnar Magnúsdóttur til ESB og mögulegrar inngöngu Íslands í það ágæta ríkjasamstarf.
Einhver spyr sig af hverju ég sé fyrst núna að koma með pistil um þetta efni, þá er svarið einfalt. Hysterían var svo galin fyrstu dagana eftir ummæli Sigrúnar að hluti netheima var ekki reiðubúinn að taka umræðuna á þokkalega vitrænum nótum …