Þriðjudagur 4.1.2011 - 22:22 - 3 ummæli

Sjálfstæðisflokkurinn týndur

Sjálfstæðisflokkurinn virðist algerlega týndur í stjórnmálaumræðunni þessa dagana á meðan Framsókn og villikettirnir í VG eru áberandi í hinu pólitíska sviðsljósi.

Það sem merkilegra er – það virðist enginn sakna Sjálfstæðisflokksins!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.1.2011 - 08:21 - 4 ummæli

Beðið eftir VaffGé

Það er víða beðið eftir VG.  ESB armur VG, Samfylkingin, Framsókn, þjóðin. Allir bíða eftir VG.

Á morgun kemur í ljós hvort villikettirnir leggja niður rófuna og leggjast malandi í faðm Steingríms J. og Jóhönnu – eða hvort villikettirnir fara á flakk.

Ég spái því að villikettirnar leggi niður rófuna og lepji úr rjómaskál ríkisstjórnarinnar fram á vor.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 3.1.2011 - 11:23 - 2 ummæli

Samfélag á villigötum

Við erum samfélag á villigötum. Viðhorfið „Allt er bannað sem ekki er sérstaklega leyft“ hefur tekið yfir.

Til að fylgja eftir þessu hættulega viðhorfi er verið að setja á fót eftirlitsnefnd á eftirlitsnefnd ofan.

Tjáningafrelsi er forsenda þess að við getum varið önnur réttindi okkar. Nú er verið að setja á fót ríkisrekna eftirlitsnefnd með tjáningafrelsinu.

Við erum að sjá þróun sem hefur komið samfélögum víða um heim á kaldan klaka. Samfélögum sem við viljum ekki bera okkur saman við.

Quis custodiet ipsos custodes?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 2.1.2011 - 21:30 - 4 ummæli

Quis custodiet ipsos custodes?

Quis custodiet ipsos custodes?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.1.2011 - 17:57 - 8 ummæli

Kjarni lýðræðisins er vilji fólksins

„Kjarni lýðræðisins er vilji fólksins. Svo einfalt er það, hvað sem líður kenningum eða visku spekinganna“

Þetta er rétt hjá forseta lýðveldisins.  Hins vegar eiga stjórnmálamenn afar erfitt með að sætta sig við þessa staðreynd. Ekki hvað síst núverandi leiðtogar ríkisstjórnarinnar.

Forsetinn sagði einnig:

„Þá er áríðandi að allir þeir sem kjörnir eru hafi jafnan í huga að þeir eru þjónar þjóðarinnar. Það er fólkið í landinu, þjóðin sjálf sem fer með æðsta valdið…“

Þessu eiga stjórnmálamenn enn erfiðara með að kyngja. Ekki hvað síst núverandi leiðtogar ríkisstjórnarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 31.12.2010 - 17:42 - 13 ummæli

Aðeins 10 íslenskir flóttamenn á dag

Jóhanna Sigurðardóttir er ánægð með að það séu „einungis“ 10 íslenskir flóttamenn sem flýja ríkisstjórn hennar daglega og flytja úr landi. Jóhanna hélt að það yrðu miklu fleiri sem myndu flýja hana og ríkisstjórn hennar.

En ef við setjum þetta í sögulegt samhengi  – þá hafa ekki fleiri Íslendingar flúið land síðan síðasta hungursneyðin á Íslandi gekk yfir 1880 og árin þar á eftir.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.12.2010 - 21:41 - 3 ummæli

Íslenska vaðmálskrónan og kúgildin

Einstaka hagfræðingar reyna um þessar mundir að verja íslensku vaðmálskrónuna. Benda á að í kjölfar hruns sem hannað var af Seðlabankanum í viðleitni þeirrar annars ágætu stofnunar til að viðhalda vaðmálskrónunni þá sé betra að hafa vaðmálskrónuna tímabundið vegna „sveigjanleika“ hennar sem geti hjálpað til við að draga okkur upp úr kúadellunni.

Gleyma því reyndar í röksemdafærslunni að það var vaðmálskrónan sem kom okkur í þennan efnahagslega fjóshaug sem þarf að draga okkur upp úr.

Hins vegar eru miklu fleiri hagfræðingar sem telja okkur betur sett hæfilega langt frá fjóshaugnum – þar sem vaðmálskrónan hefur einungis gildi – og horfa út fyrir kúadelluna og vaðmálskrónuævintýrið.

Félagi minn – Friðrik Jónsson – sem hefur á undanförnum mánuðum átt við viðráðanlegra verkefni en vaðmálskrónuna – það er Talibana í Afganistan – skrifar besta blogpistil ársins – einmitt um vanhæfi vaðmálskrónunnar – og gerir betur með því að draga fram mögulega lausn!!

Enda vill Alþjóðabankinn fá hann í vinnu!

Ákvað því að stela pistli hans og endurflytja hann í þessu kúadellu vaðmálskrónubloggi mínu – enda um að ræða fyrstu raunhæfu lausnina í mögulegri peningamálastefnu Íslands sem ég hef séð á árinu:

„fimmtudagur, 30. desember 2010

Plásturinn af…

Það streyma fram tíðindin í efnahags- og peningamálum nú í lok ársins. Seðlabankinn birti skýrslu um peningastefnu eftir höft skömmu fyrir jól og strax eftir jól birti efnahags- og viðskiptaráðherra grein með vangaveltum um framtíðarfyrirkomulag peningamála.

Helgarblaðið Fréttatíminn birtir svo í dag ágæta umfjöllun um fyrrnefnda skýrslu, grein ráðherrans og stutt viðtöl við pólitíska fulltrúa annarra stjórnmálaflokka.

Eins og við er að búast greinir menn á um leiðir, en í grein efnahags- og viðskiptaráðherra er kallað eftir víðtæku samráði um framtíðar peningastefnu. Seðlabankinn virðist helst mæla með að stefnt verði að upptöku evru með aðild að ESB, en hugsanlegur næst-skársti kostur sé einhverskonar fastgengisstefna gagnvart evrunni.

En allt er þetta víst erfitt, flókið og ekki til neinar patentlausnir.

Sem er er ekki alls kostar rétt.

Málið er að þetta þarf ekki að vera sérstaklega flókið og víst eru til patentlausnir. Vandinn er kannski einna helst sá að menn neita annars vegar að horfast í augu við ákveðnar staðreyndir og hins vegar að líta til þeirra fordæma sem finna má í ekki allt of fjarlægri fortíð m.a. frá einhverju best heppnaða hagkerfi veraldar.

Má ég reyndar til með að skjóta hér að gagnrýni á hagfræðikennslu hér á landi sem virðist einblína á töflureiknishagfræði, en kennir ekki hagsögu að neinu marki, nema að því er virðist lítin kúrs um sögu hagkenninga.

Flestir virðast sammála um það að okkar núverandi gjaldmiðill, íslenska krónan, sé meira og minna ónýt. Samt er hummað og ha-að yfir því að gera það sem nauðsynlegt er, og veita henni náðarhöggið. Í skjóli gjaldeyrishafta og verðtryggingar er lífi haldið í gjaldmiðlinum í þeirri veiku von, sem er vissulega mjög íslensk, að „þetta reddist“.

Peningamagn úr böndunum

Mikið hefur gert úr því að eitt af því sem veldur erfiðleikum varðandi hugsanlegt afnám gjaldeyrishafta er hvernig erlendir eigendur íslenskra peningabréfa bregðist við. Munu þeir allir ryðjast á brott og skipta sínum íslensku peningaeignum í erlendan gjaldeyri eins fljótt og auðið er? Svarið við þeirri spurningu er einfalt já, og þar sem talið er að þær eignir hlaupi á hundruðum milljarða (líklega kringum 400 rekur mig minni til) er nokkuð ljóst að gengið getur ekki annað en hrunið þar sem m.v. núverandi gengi myndi gjaldeyrisforðinn nokkurn veginn klárast að óbreyttu eingöngu við að hleypa útlendingunum á brott.

Stærra mál sem menn hafa algerlega leitt hjá sér er krónueign innlendra aðila. Af hverju ætti nokkur íslendingur að vilja halda í peningabréfaeign í íslenskum krónum við afnám hafta? Þrýstingurinn við afnám gjaldeyrishafta verður þ.a.l. engir 400 milljarðar, heldur eflaust nær 1000 ef ekki meira.

Í þessu samhengi er gott að líta til þess hverjar krónuskuldbindingarnar í íslenska hagkerfinu eru og hvernig þær hafa vaxið. Peningamagn í umferð hefur margfaldast á undanförnum áratug, og það sem athyglisverðast er, er að það hefur áfram aukist eftir hrun.

Í lok árs 2001 var M3 peningamagn (samtala M2 (peningamagn og almenns sparifjár) og bundinna innlána) tæpir 343 milljarðar króna. M4 peningamagn (peningamagn og sparifé (M3) að viðbættri innlendri verðbréfaútgáfu) 392,6 milljarðar. Í lok árs 2007 voru gildin fyrir sömu mælingar peningamagns orðnar 1.230 milljarðar fyrir M3 og tæpir 1.637 milljarðar fyrir M4. Eftir hrun, í lok árs 2009 var staðan þannig að M3 stóð í 1.606 milljörðum. M4 var í lok árs 2008 komið í um 1.943 milljarða, en mér sýnist að sú tala hafi lækkað í um 1.626 milljarða undir lok árs 2009 sem endurspeglar væntanlega afskrift innlendrar verðbréfaeignar í kjölfar hrunsins.

Heildar innlendar skuldir íslensks banka- og peningakerfis hafa vaxið úr tæpum 500 milljörðum 2001 í næstum 3.500 milljarða undir lok nóvembers síðastliðinn. Heildar erlendar skuldir í íslenskum krónum talið hafa aukist úr 417,5 milljörðum 2001 í tæpa 433 milljarða í lok nóvember sl. eftir að hafa risið hæst skv. tölum Seðlabankans í rúma 10 þúsund milljarða 2008.

(Þeir sem vilja skoða gögn seðlabankans geta gert það hér í Ársskýrslu 2008, bls. 62, Árskýrsla 2009, bls. 84, og nýjustu upplýsingar um stöðu bankakerfisins í bankatöflum Seðlabankans.)

En í stuttu máli er staðan orðin þannig varðandi okkar ágæta gjaldmiðil að skuldbindingar honum tengdar eru komnar langt út fyrir öll velsæmismörk og það sem getur talið sjálfbært í okkar hagkerfi, sérstaklega í kjölfar hrunsins. Það er ekki hægt að skattleggja þjóðina út úr þessum vanda, það verður að gengisfella hana út úr þessum vanda.

Það gengisfall getur hins vegar ekki orðið með hefðbundnum hætti þar sem það myndi einfaldlega þýða hrun þjóðfélagsins, auk þess sem hið eilífa fjármálaheróinfix íslenska fjármálakerfisins, verðtryggingin, kemur í veg fyrir að slík leiðrétting gangi alla leið.

Þýska leiðin

Sú staða sem Ísland er í, er í sjálfu sér ekki einstök og hægt er að ná þjóðinni úr þessu öngstræti, en með mjög róttækum aðgerðum. Fyrsta skrefið á þeirri leið er að aflétta þeim hugsunarhætti að peningaleg eign njóti sérstakrar ofurverndar umfram aðrar eignir. Það verður að slíta þann streng. Vissulega gæti staðan verið ennþá verri, hefðu stjörnvöld haustið 2008 reynt að ábyrgjast erlendar skuldbindingar bankakerfisins, en sem betur fer var það ekki hægt. Vandinn er hins vegar sá að meira og minna var gengist í ríkisábyrgð fyrir öllum innlendum skuldbindingum banka- og peningakerfisins, langt umfram efnilegar innistæður. Það er sá vandi sem hangir yfir okkur í dag og reynt er að ýta á undan okkur með gjaldeyrishöftunum fyrst og fremst.

Þýskaland hefur í þrígang á síðustu öld staðið frammi fyrir þeim vanda að vera með ónýtan gjaldmiðil. Í öll þrjú skiptin var gripið til óvenjulegra og mjög róttækra aðgerða sem allar gengu upp efnahagslega. Fyrst gerðist það 1923-24 þegar Þýskaland náði sé út úr vítahring óðaverðbólgu með upptöku rentenmark og síðar reichsmark. Í annað sinn gerðist það 1948 með upptöku Deutsche Mark í stað Reichsmark, og í þriðja sinn gerðist það 1990 við sameiningu Þýskalands og útskiptinu austur-þýska marksins fyrir það vestur-þýska.

Gjaldmiðilsbreytingin 1923-24 var gert í reynd auðveldar fyrir þar sem allar peningalegar eignir í þáverandi þýskum gjaldmiðli höfðu þá þegar brunnið upp á verðbólgubálinu mikla.

Gjaldmiðilsbreytingin 1948 hins vegar varð hins vegar þess valdandi að auðlegð sem eingöngu byggðist á peningalegum eignum þurrkaðist nánast upp. Það hins vegar var það verð sem greiða þurfti fyrir efnahagslega endurreisn Þýsklands.

Kjarninn í gjaldmiðilsbreytingunni 1948 var hins vegar sú að í fyrsta lagi var ákveðið að taka upp nýja mynt, Deutsche Mark í stað Reichsmark. Í öðru lagi, og öllu mikilvægara, var sú ákvörðum að mismunandi gengi yrði á yfirfærslum fjárskuldbindinga úr gamla gjaldmiðlinum yfir í þann nýja. Laun t.d. fóru á genginu einn á móti einum, smærri peningaeignir á genginu tíu á móti einum, en stærstu fjárskuldbingar á genginu tíu á móti 0,65 (0,65 Deutsche Mark fengust s.s. fyrir hver 10 Reichsmark).

Samhliða þessari breytingu var jafnframt aflétt flestum viðskiptahindrunum, gjaldeyrishöftum og vöruskömmtunum. Og já, einnig voru skattar lækkaðir og skattkerfið einfaldað.

Afleiðingin var sú að þýskt efnahagskerfi hrökk í gang og framhaldið var líkast kraftaverki, enda æ síðar kallað wirschaftswunder, eða efnahagsundur. (Lesa má eilítið um þetta hér og hér.)

Sama grundvallarregla var síðan höfð til viðmiðunar við sameiningu Þýskalands, laun fóru á einu gengi, innistæður á öðru og stærri fjárskuldbindingar á því þriðja.

Lærdómur fyrir Ísland?

Af efnahagssögu Þýskalands á síðustu öld má því draga ýmsa lærdóma fyrir Ísland í þeirri stöðu sem landið er nú statt í. Fyrst og fremst þá að smáskammtalækningar duga skammt og draga einungis sársaukan á langinn. Núverandi stjórnvöld tóku vissulega við erfiðu búi, en ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða má allt eins búast við núverandi stjórnar verði alveg eins minnst sem hrunstjórnar tvö, eða stjórnar hinna glötuðu tækifæra.

Hér mætti t.d. fara út í sambærilegar aðgerðir og í Þýskalandi með upptöku nýs gjaldmiðils og beitingu mismunandi gengis við yfirfærsluna. Laun, lágmarksinnistæður og almennt vöruverð færu á einu gengi, en allar stærri fjárskuldbindingar á öðru og mun lægra gengi. Öll ríkisskuldabréf, húsbréf o.s.frv. yrðu innkölluð og gefin út ný í nýjum gjaldmiðli. Og já, verðtrygging yrði afnumin í einum vettvangi. Í þessu fælist stórtæk niðurfærsla peningalegra eigna og –skulda.

Til þess að auðvelda og flýta þessari aðgerð væri t.d. hægt að taka upp nýjan íslenskan gjaldmiðil sem hefði nákvæmlega sama gengi og Evran og því lýst yfir að til a.m.k. næstu 5 ára yrði fylgt hreinni fastgengisstefnu. Samhliða yrði því lýst yfir að Evra væri gjaldgeng sem lögeyrir á Íslandi og þá mætti í reynd spara sér útgáfu á nýja íslenska gjaldmiðlinum í seðlum og myntum og eingöngu hafa hann sem rafrænan gjaldmiðil. Seðla- og myntþörf yrði einfaldlega mætt með því að nota evrur.

Róttæk aðgerð af þessu tagi yrði sambærileg við það að rífa plástur af sári. Það að viðhalda sáraumbúðum og bómullarinnpökkun krónubréfaeigenda er nokkuð sem við höfum ekki efni á, og langdregið afnám sáraumbúðanna mun einungis valda illbærum sársauka og tjóni.“

 

.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.12.2010 - 11:42 - 3 ummæli

Ótrúlegt fylgi Bezta flokksins

Það er ekki frétt að Bezti flokkurinn skuli hafa misst 8% fylgi frá kosningum.  Það er frétt að Bezti flokkurinn haldi 27% fylgi í skoðanakönnun Capacent.

Það er líka frétt og áhyggjuefni fyrir Samfylkinguna sem galt afhroð í borgarstjórnarkosningunum að fylgi við flokkinn haggast ekkert. Það liggur í sama botninum og áður.

Það er hins vegar ekki frétt að Framsóknarflokkurinn heldur einungis sínum 2,5% í skoðanakönnun eftir að hafa misst borgarfulltrúa sinn í síðustu kosningum. Það væri frétt ef fylgið hefði vaxið.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.12.2010 - 10:56 - 4 ummæli

Ríkisstjórn slegin af í beinni

Ríkisstjórn Samfylkingar, Framsóknar og starfhæfs hluta VG virðist hafa verið slegin af nánast í beinni útsendingu á vefmiðlunum í gær. Málið var greinilega ekki nægilega þroskað til þess að möguleg ný ríkisstjórn gæti staðið af sé atgang fjölmiðlamanna – enda hefði þurft að gera upp mál innan VG áður en næstu skref yrðu tekin.

Nú hafa formenn allra þessara flokka vísað stjórnarmyndunarviðræðum á bug – auk þess sem einstakir þingmenn hafa afneitað slíkri ríkisstjórn – þótt sumir hafi tekið vel í hana.

Það stefnir því í kosningar í vor – illu heilli – því þjóðin þarf starfhæfa ríkisstjórn strax til að takast á við verkefni komandi vikna.  Núverandi ríkisstjórn er ekki starfhæf.

Við skulum rifja upp hver þau verkefni eru:

Brotthvarf AGS og lok efnahagsáætlunar sjóðsins og ríkisstjórnarinnar á vormánuðum.

Aðildarviðræður við Evrópusambandið sem hefjast munu fyrir alvöru í marsmánuði þegar fyrstu kaflar samnings verða opnaðir.

Ríkisstjórnin þarf að móta nýja peningamálastefnu og efnahagsstefnu til framtíðar og tryggja slíkum áætlunum breiðan stuðning.  Um það fjallaði ákall Árna Páls Árnasonar efnahags- og viðskiptaráðherra í grein sinni   „Framfarastoð eða skálkaskjól“ í Fréttablaðinu í gær.

Góð grein og tímabær.

Þá þarf  ríkisstjórnin að mynda breiða pólitíska samstöðu um samningsáherslur í viðræðum við Evrópusambandið. Þær samningsviðræður hefjast hvort sem mönnum líkar betur eður verr. Spurningin er einungis hver pólitískar áherslur Íslands verða í þeim viðræðum.

Reyndar er vika langur tími í pólitík. Við skulum sjá hvort leiðtogarnir tali ekki eitthvað saman upp úr áramótunum – áður en við boðum til kosninga!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.12.2010 - 13:59 - 20 ummæli

90% misskilningur þjóðarinnar

90% þjóðarinnar virðist haldinn misskilningi um að svokölluð 90% almenn lán Íbúðalánasjóðs hafi átt 90% hlut í þenslu á fasteignamarkaði árin 2004 – 2006 og þannig verið ein ástæða efnahagshrunsins. 

Hið rétt er að 90% almenn lán Íbúðalánasjóðs hafa ekkert með fasteignabóluna að gera.

Staðreyndin er nefnilega sú að sjaldan í sögunni hafði Íbúðalánasjóður veitt hlutfallslega færri 90% lán en seinni part ársins 2004.  Þá voru árið 2005  eiginleg almenn 90% lán Íbúðalánasjóðs á höfuðborgarsvæðinu einungis 40 stykki – og enn færri á árinu 2006! 

Þrátt fyrir þetta hafa útrásarvíkingar í forystu bankanna,  fjölmiðlar og ýmsir stjórnmálamenn komið þeirri ranghugmynd fyrir hjá 90% þjóðarinnar að 90% almenn lán Íbúðalánasjóðs hafi verið aðalástæða þenslunnar síðari hluta árs 2004 og misserin þar á eftir. Rannsóknarnefnd Alþingis – sem reyndar rannsakaði ekki aðdraganda breytinga á lánum Íbúðalánasjóðs 2004 – fellur einnig í sömu gryfju. 

Þá telja margir að 90% lán hafi komið til árið 2004 – þegar hið rétta er að Íbúðalánasjóður og forveri hans hafa lánað 90% lán allt frá árinu 1986. 

Áður en lengra er haldið er ástæða til að skoða yfirlit sem sýnir árlegt hlutfall 90% lána í útlánum Íbúðalánasjóðs og áður Húsnæðisstofnunar tímablið 1986 til 2004. 

Hlutfall 90% lána í útlánum Íbúðalánasjóðs og Húsnæðisstofnunar

Eins og sjá má á myndinni þá varð breyting á útlánareglum Íbúðalánasjóðs árið 2004 til þess að DRAGA VERULEGA ÚR 90% LÁNUM ÍBÚÐALÁNASJÓÐS!  Hlutfallið hrapaði úr 48% lána fyrir breytingar í 16% lána eftir breytingar. 

Þess má geta að flest 90% lánin síðari hluta ársins 2004 voru leiguíbúðalán sem fyrst og fremst fóru út á land.

Því er það deginum ljósara að 90% lán Íbúðalánsjóðs hafa ekkert með snarhækkað húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu haustið 2004 að gera.  SÖKIN LIGGUR ALFARIÐ HJÁ BÖNKUNUM sem hófu hömlulaus útlán á fasteignatryggðum lánum í september 2004. 

Bankarnir lánuðu samtals 10 stykki íbúðalán í ágústmánuði 2004 að fjárhæð 90 milljónir – en fóru í tæpa 30 MILLJARÐA í september og höfðu lánað 115 MILLJARÐA tímabilið september – desember 2004. 

Þennsluáhrif þessarar aðgerðar bankanna var og er augljós – enda var Greiningardeild Kaupþings með ástæður hennar á hreinu í greiningu sinni í desember 2004 eins og eftirfarandi tilvitnun í frétt á Stöð 2 staðfestir: 

„Fasteignaverð hefur aldrei hækkað jafnhratt á höfuðborgarsvæðinu og undanfarna þrjá mánuði. Verðið hefði hins vegar lækkað eða staðið í stað ef íbúðalán bankanna hefðu ekki komið til, að mati greiningardeildar KB-banka…“

Reynt hefur verið að halda því fram að áætlanir stjórnvalda um innleiðingu almennra 90% lána til kaupa á hóflegu húsnæði hefðu ýtt bönkunum út á íbúðalánamarkaðinn.  Þessi skýring kom reyndar fyrst fram á vordögum 2005 – eftirá – þegar einn bankastjóranna var að verjast ásökunum um að bankarnir hefðu ollið mikilli þenslu með óábyrgri lánastarfsemi sinni á undangengnum mánuðum. 

Í kjölfarið fóru bankarnir og þeir sem þá studdu í öfluga áróðursherferð í fjölmiðlum þar sem reynt var að festa þessa eftirá söguskoðun í sessi.  Það tókst .

Væntanlega hefur bankastjórinn verið með smá óbragð í munninum – því hann og aðrir bankastjórar vissu að stjórnvöld hyggðust fresta innleiðingu almennra 90% lána vegna stöðu í efnahagsmálum fram á árin 2006 og 2007.  Þeim skilaboðum hafði ítrekað verið komið til þeirra.

Alþjóð hefði einnig átt að vera ljóst í upphafi árs 2004 að ákvörðun um innleiðingu 90% lána yrði ekki tekin fyrir en á síðari hluta ársins 2004 þar sem sú ákvörðun kom skýrt fram í fréttatilkynningu Félagsmálaráðherra á gamlársdag 2003:
 
„Frekari ákvörðun um hámarkslán og innleiðingu hækkunar hámarkslána í 90% verður tekin í kjölfar þess að niðurstaða ESA vegna málsins liggur fyrir á vormánuðum.“
 
 Félagsmálaráðuneytið.  Fréttatilkynning 31. desember 2003
 
 Niðurstaða ESA kom reyndar ekki fyrr en í ágústmánuði 2004 – nokkrum dögum áður en bankarnir hófu að lána íbúðalán á lágum vöxtum.  Enda heimilaði Alþingi ekki almenn 90% lán fyrr en í desember 2004 – þegar bankarnir höfðu þegar sprengt upp fasteignverð á höfuðborgarsvæðinu og kynt illilega undir þenslu.

Þess má geta að á sama tíma horfði Seðlabankinn á bankana kynda verðbólgubálið án þess að grípa til aðgerða og hækka bindiskyldu til að draga úr útlánaþenslunni.

 

 Meira um máli í skýrslunni: 

 
 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur