Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra hefur nú opnað rifu á dyragátt ríkisstjórnarinnar fyrir Framsókn, en eins og ég benti á fyrir jól í pistlinum „Framsókn á leið í ríkistjórn“, þá þarf ríkisstjórnin að móta nýja peningamálastefnu og efnahagsstefnu til framtíðar og tryggja slíkum áætlunum breiðan stuðning.
Slíkan stuðning tryggir ríkisstjórnin einungis með því að efla ríkisstjórnina og þá er nærtækast að semja við Framsóknarflokkinn.
Sú rifa sem Árni Páll Árnason opnar fyrir Framsókn á dyragætt Stjórnarráðsins er grein sem hann ritar í Fréttablaðinu í dag undir heitinu „Framfarastoð eða skálkaskjól“.
Í greininni boðar efnahags- og viðskiptaráðherra víðtækt samráð um nýja peningamálastefnu. Nýja peningamálastefnu sem ég benti á fyrir jól að væri algerlega nauðsynlegt að móta á næstu vikum vegna loka efnahagsáætlunar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og brotthvarf hans frá Íslandi næsta sumar.
Árni Páll bendir réttilega á að „Við verðum að meta með raunsæjum hætti tjónið af íslenskri krónu til lengri tíma litið og setja okkur raunhæf markmið um afnám hafta, sem ekki leiða til efnahagslegrar kollsteypu.“
Það er deginum ljósara að ríkisstjórnin hefur að óbreyttu ekki bolmagn til þess að vinna slíka peningamálastefnu.
Árni Páll Árnason segir í upphafi greinarinnar: „Hafa stjórnarstofnanir, ríkisstjórn, Alþingi og stjórnmálaflokkarnir afl til að velja eða munum við kjósa að lúra í leysingum og bið?“.
Skilaboðin eru skýr. Árni Páll er að brýna menn til nauðsynlegra verka. Hann hefur opnað dyragættina fyrir Framsókn.
Ætti Sigmundur Davíð ekki að svara kallinu, taka upp símann og spyrja Árna Pál hvort hann sé að óska eftir afli Framsóknar í vinnuna við mótun nýrrar peningamálastefnu?