Mánudagur 27.12.2010 - 12:30 - 8 ummæli

Dyragættin opnuð fyrir Framsókn

Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra hefur nú opnað rifu á dyragátt ríkisstjórnarinnar fyrir Framsókn, en eins og ég benti á fyrir jól í pistlinum „Framsókn á leið í ríkistjórn“, þá þarf ríkisstjórnin að móta nýja peningamálastefnu og efnahagsstefnu til framtíðar og tryggja slíkum áætlunum breiðan stuðning.

Slíkan stuðning tryggir ríkisstjórnin einungis með því að efla ríkisstjórnina og þá er nærtækast að semja við Framsóknarflokkinn.

 Sú rifa sem Árni Páll Árnason opnar fyrir Framsókn á dyragætt Stjórnarráðsins er grein sem hann ritar í Fréttablaðinu í dag undir heitinu „Framfarastoð eða skálkaskjól“.

 Í greininni boðar efnahags- og viðskiptaráðherra víðtækt samráð um nýja peningamálastefnu. Nýja peningamálastefnu sem ég benti á fyrir jól að væri algerlega nauðsynlegt að móta á næstu vikum vegna loka efnahagsáætlunar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og brotthvarf hans frá Íslandi næsta sumar.

 Árni Páll bendir réttilega á að „Við verðum að meta með raunsæjum hætti tjónið af íslenskri krónu til lengri tíma litið og setja okkur raunhæf markmið um afnám hafta, sem ekki leiða til efnahagslegrar kollsteypu.“

  Það er deginum ljósara að ríkisstjórnin hefur að óbreyttu ekki bolmagn til þess að vinna slíka peningamálastefnu.

 Árni Páll Árnason segir í upphafi greinarinnar: „Hafa stjórnarstofnanir, ríkisstjórn, Alþingi og stjórnmálaflokkarnir afl til að velja eða munum við kjósa að lúra í leysingum og bið?“.

 Skilaboðin eru skýr. Árni Páll er að brýna menn til nauðsynlegra verka. Hann hefur opnað dyragættina fyrir Framsókn.

 Ætti Sigmundur Davíð ekki að svara kallinu,  taka upp símann og spyrja Árna Pál hvort hann sé að óska eftir afli Framsóknar í vinnuna við mótun nýrrar peningamálastefnu?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.12.2010 - 11:26 - 19 ummæli

Frjálslyndur frjálslyndur flokkur?

Það kemur ekki allskostar á óvart að nú sé í undirbúningi stofnun frjálslynds miðhægriflokks, en Eyjan skúbbaði á Þorláksmessu að tenórinn og tollarinn Guðbjörn Guðbjörnsson væri að undirbúa stofnun slíks flokks og að undirbúnings og málefnavinna hafi staðið í allt haust.

Guðbjörn sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum með stæl þegar íhaldsöflin og stækir andstæðingar Evrópusambandsins höfðu betur gegn flokksforystunni í ályktun gegn Evrópusambandinu. Þá boðaði Guðbjörn stofnun nýs frjálslynds Evrópusinnaðs flokks sem nú er í burðaliðnum.

Það er rétt sem Guðbjörn bendir á.  Stór hluti frjálslynds fólk sem hingað til hefur stutt Sjálfstæðisflokk, Framsóknarflokk og Samfylkingu á miklu meira sameiginlegt með hvort öðru en með ýmsum íhalds og hagsmunahópum innan eigin flokka.

Eins og aðstæður eru í stjórnmálum í dag þá gætu þær forsendur skapast að þessir frjálslyndu hópar þessara þriggja flokka nái saman í nýjum flokk frjálslyndum sem leggi jafnframt áherslu á félagslega ábyrgð.

Nú er að bíða og sjá hvort hinn nýi flokkur Guðbjörns verður frjálslyndur frjálslyndur flokkur á miðju og hægra megin við miðju íslenskra stjórnmála.  Það er nefnilega til flokkur á Íslandi sem nefnist Frjálslyndi flokkurinn en er allt annað en frjálslyndur.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.12.2010 - 15:05 - 1 ummæli

Jólin boða nýtt upphaf

Jólin boða nýtt upphaf. Hvort sem um er að ræða jólin í hinum forna norræna sið þar sem jólablót voru haldinn til að fagna því að sól tók að rísa að nýju eða hin kristnu jól þar sem fæðing Jesús boðaði nýtt ljós og nýtt upphaf.

Það verður spennandi að fylgja nýju upphafi í kjölfar jóla – hvert sem það verður.

Óska öllum ættingjum og vinum nær og fjær til sjávar og sveita, friðar og gleðilegra jóla!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.12.2010 - 07:26 - 31 ummæli

Framsókn á leið í ríkisstjórn

Framsóknarflokkurinn er á leið í ríkisstjórn. Ástæðan er einföld. Verkefni næstu mánaða eru það viðamikil og mikilvæg fyrir framtíð þjóðarinnar að eina leiðin til að leysa þau er breið samstaða og sterk ríkisstjórn.

Tíminn er of naumur fyrir þingkosningar þannig að Samfylking og VG hafa ekki annan kost en að taka Framsóknarflokkinn með í ríkisstjórn.

Ástæða þess að breikka þarf grunn ríkisstjórnarinnar til að móta framtíðarstefnu sem heldur er fyrst og fremst tvíþætt:

Brotthvarf AGS og lok efnahagsáætlunar sjóðsins og ríkisstjórnarinnar á vormánuðum.

Aðildarviðræður við Evrópusambandið sem hefjast munu fyrir alvöru í marsmánuði þegar fyrstu kaflar samnings verða opnaðir.

Ríkisstjórnin þarf því að móta nýja peningamálastefnu og efnahagsstefnu til framtíðar og tryggja slíkum áætlunum breiðan stuðning og ríkisstjórnin þarf að mynda breiða pólitíska samstöðu um samningsáherslur í viðræðum við Evrópusamstarfið.

Það verður ekki gert án þess að breikka ríkisstjórnina.

Framsóknarmenn þurfa því að ákveða sig hvaða áherslur þeir ætla að hafa í stjórnarsamstarfinu.

Miðað við reynslu mína sem fyrrverandi Framsóknarmaður þá tel ég að áherslurnar verði eftirfarandi:

Ríkisstjórnin endurskoði yfirlýsingar sínar um að ekki verði frekar aðhafst í skuldamálum heimilanna. Á móti hverfi Framsókn frá áherslu sinni á almenna niðurfellingu skulda. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír leiti sameiginlega raunhæfra leiða til aðstoðar heimilunum.

Aðferðafræði við fjárlagagerð verði endurskoðuð, tekin verði upp langtímafjárlög og greinarmunur verði gerður á útgjöldum eftir því hvort um fjárfestingu sem síðar muni bera arð eða um hrein útgjöld er að ræða. Formaður Framsóknarflokksins hefur talað skýrt fyrir slíku.

Ríkisstjórnin liðki fyrir arðsömum atvinnuskapandi fjárfestingaverkefnum og skapi litlum og millistórum fyrirtækjum svigrúm til athafna í kjölfar skuldaleiðréttingar.

Ríkisstjórnin standi við niðurstöðu sáttarnefndar um endurskoðun fiskveiðistefnunnar um að farin verði svoköllu samningsleið.

Breytt verði um vinnulag í viðræðum við Evrópusambandið á þá leið að allt verði upp á borðum. Unnin verði skýr stefnumörkun og samningsmarkmið í landbúnaði og byggðamálum.

Styrking og uppbygging húsnæðissamvinnufélaga og búseturéttarformsins frekar en leið sértæks félagslegs húsnæðis.

Ríkisstjórnarflokkarnir og Framsókn munu væntanlega taka því rólega yfir jólin meðan forysta VG í ríkisstjórn vinnur að því að fá á hreint hvort andófsliðið ætlar að fylgja VG áfram eða kljúfa sig frá flokknum.

Hver sem niðurstaðan verður af þeim innaflokksviðræðum VG þá munu ríkisstjórnarflokkarnir og Framsókn hella sér í stjórnarmyndunarviðræður strax eftir áramót – leynt eða ljóst.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.12.2010 - 16:30 - 12 ummæli

Friðhelgi einkalífs stjórnmálamanna

Friðhelgi einkalífs er einn af grunni siðaðs samfélags. Það á líka við þegar stjórnmálamenn eiga í hlut. Söguburður um stjórnmálamenn er hins vegar oft svæsinn.
 
Nú hefur Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra borið hendur yfir höfuð sér vegna slíkra sögusagna og segir meðal annars:
„Ég kippi mér ekki upp við atgang sem að mér snýr starfs míns vegna en bið um að fá að lifa mínu einkalífi í friði og halda minni fjölskyldu utan við allt slíkt“

Við eigum að verða við bón Steingríms J.  Við eigum almennt að stjórnmálamönnum eftir að lifa sínu einkalífi í friði og við eigum að halda fjölskyldum þeirra utan við umræðuna.

Nóg er atið og árásirnar í pólitíkinni samt.

Sjá nánar umfjöllun á Pressunni: „Steingrímur J. ósáttur: …“

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.12.2010 - 22:17 - 11 ummæli

Lúpínufasismi og skóg“ræktar“ofstæki!

Það er eitt að rækta upp landið í eðlilegu jafnvægi þar sem borin er virðing fyrir þeim sérstæða og viðkvæma hefðbundna íslenska lággróðri og fágætu birkiskógum sem fyrir eru. Annað að ryðjast óbeislað yfir íslenska náttúru með því að eitra fyrir henni með lúpínu og ganga á dýrmætt votlendi með illa ígrundaðri lerkirækt.

Það verður að vera eðlilegt jafnvægi. Það jafnvægi hefur ekki verið virt í íslenskri „landgræðslu“ og íslenskri „skógrækt“.

Lúpína á rétt á sér á einstaka stað. En lúpínufasistar hafa vaðið um landið eins og fílar í postúlínsbúð og lagt viðkvæma íslenska náttúru í rúst vítt og breitt. Í nafni „landgræðslu“ og „landræktar“.

Látum þetta vera.

En herferð lúpínufasista og skóg“ræktar“ofstækismanna í fjölmiðlum í garð eðlilegrar verndar íslenskrar náttúru og kröfu um eðlilegt jafnvægi í íslenskri náttúru sem reynt er að tryggja með nýrri löggjöf sem umhverfisráðherra hefur haft forgöngu um – segir allt sem segja þarf.

Umhverfisstofnun neyddist til að bregðast við með eftirfarandi yfirlýsingu:

„Það er ekki rétt að breytingar sem kveðið er á um í drögunum takmarki stórlega eða banni skógrækt hér á landi. Því var meðal annars haldið fram að óheimilt verði að gróðursetja öll helstu tré sem nýtt eru til skógræktar, mögulegri atvinnustarfsemi í skógrækt verði fórnað og að frelsi áhugafólks til að græða upp landið verði einnig takmarkað. Þá var fullyrt að öll helstu skógræktartré verði bönnuð. Þetta er rangt.

Í drögum að frumvarpinu segir að umhverfisráðherra geti ákveðið að dreifa megi tilteknum framandi lífverum án leyfis og birt verði skrá yfir þessar tegundir. Ætlunin er að helstu skógræktar- og landgræðslutegundir verði á þessum lista. Einnig getur ráðherra ákveðið að vissar lífverur megi flytja til landsins án leyfis og skal hann á sama hátt birta skrá yfir þær. Markmið með breytingum á lögunum er því síður en svo að takmarka stórlega eða banna skógrækt hér á landi. “

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.12.2010 - 22:41 - 12 ummæli

Þegar bankarnir stálu jólunum!

Jólin 2004 hafði húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu rokið upp úr öllu valdi á fjórum mánuðum. Það var í boði bankanna.
 
Alþingi hefur nú ákveðið að láta gera óháða rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs og meðal annars meint áhrif sjóðsins á hækkun húsnæðisverðs og þenslu haustið 2004. Slík rannsókn er afar mikilvæg til þess að hrekja þær rangfærslur sem gengið hafa um Íbúðalánasjóð og rötuðu alla leið í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. 
 
Gagnstætt því sem margir hafa haldið fram og rannsóknarnefnd Alþingis kokgleypti án rannsóknar þá var það innkoma bankanna á íbúðalánamarkað og gegndarlaus útlán þeirra til heimila sem var meginástæða stórhækkunar á húsnæðisverði og þenslu frá því í ágúst 2004 fram á árið 2008.  
 
Ekki Íbúðalánasjóður og þær breytingar sem gerðar voru á fyrirkomulagi og útlánareglum hans enda varð sprengingin í húsnæðisverðinu eftir að bankarnir komu inn á markaðinn og áður en hin svokölluðu almennu 90% lán Íbúðalánasjóðs voru heimiluð. 
 
Þetta má sjá á myndinni hér að neðan:
 
Guli hlutinn sýnir það tímabil sem bankarnir voru á íbúðalánamarkaði. 
 
Eins og sést þá tekur húsnæðisverð stökk í kjölfar þess að bankarnir hefja að lána íbúðalán og hefur það hækkað umtalsvert áður en Íbúðalánasjóður fær heimild til 90 lána.

Reyndar höfðu 90% lán Íbúðalánasjóðs engin áhrif á verðlag íbúða á höfuðborgarsvæðinu þar sem sjóðurinn veitti einungis nokkra tugi slíkra lána þar.

Þótt rannsóknarnefnd Alþingis haldi fram að breytingar á lánafyrirkomulagi Íbúðalánasjóðs hafi verið orsök þeirrar miklu þenslu sem varð á fasteignamarkaði og í efnahagslífinu á síðari hluta ársins 2004 og allt fram á árið 2008, þá var greiningardeild KB banka á annarri skoðun í desember 2004 eins og eftirfarandi tilvitnun í frétt á Stöð 2 staðfestir:

„Fasteignaverð hefur aldrei hækkað jafnhratt á höfuðborgarsvæðinu og undanfarna þrjá mánuði. Verðið hefði hins vegar lækkað eða staðið í stað ef íbúðalán bankanna hefðu ekki komið til, að mati greiningardeildar KB-banka…“
 
 
 
 
 
 
 
 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.12.2010 - 09:12 - 5 ummæli

Sýndarveruleiki VG

Það var sem mig grunaði. Uppnámið kring um fjárlögin var hefðbundinn sýndarveruleiki Vinstri grænna. VG hefur lengi leikið þann leik að hafa tvær skoðanir í hverju máli og tryggt að það séu tveir til þrír þingmenn í sýndarandófi gegn ríkisstjórninni. Hins vegar er alltaf tryggt í VG försunum að meirihluti sé á bak við ríkisstjórnina því það síðasta sem Vinstri grænir geta hugsað sér er að missa mjúka ráðherrastólanna.

Þessi sýndarveruleiki VG er snjallt pólitískt herbragð. Vinstri grænir vita að ákveðinn hluti kjósenda þeirra verður alltaf í stjórnarandstöðu hvort sem VG er í stjórn eða ekki. Því tryggja Vinstri grænir sýndarveruleika þar sem hluti þingmanna er í eilífu andófi og stjórnarandstöðu.  Ef slíkt andóf er ekki fyrir hendi þá missir VG dýrmætan hóp kjósenda frá sér.

Það gerðist einmitt í borgarstjórnarkosningunum þegar hefðbundið andófslið úr VG kaus Bezta flokkinn og fylgi Vinstri grænna hrundi gersamlega. VG má prísa sig sæla að hafa haldið borgarfulltrúa.

Vinstri grænir ætla ekki að láta það sama henda í Alþingiskosningunum. Þess vegna setja þeir upp sýndarveruleika. Spurningin er bara sú – mun þjóðin sjá í gegnum sýndarveruleika VG eða ekki?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 18.12.2010 - 11:11 - Rita ummæli

Samkeppni í skattheimtu

Það þarf alvöru samkeppni í skattheimtu á Íslandi. Gegndarlaus skattpíning sem „Norræna velferðarstjórnin“ stendur fyrir er allt að drepa og þá ekki hvað síst landsbyggðina. Núverandi svigrúm sveitarfélaganna til samkeppni í skattheimtu er nánast engin og gefur Íslendingum ekkert raunverulegt val á grunni misjafnar skattheimtu.

Við náum hins vegar fram grunni fyrir alvöru samkeppni í skattheimtu á Íslandi með því að gerbreyta núverandi fyrirkomulagi sveitarstjórna og um leið sambandi og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Íbúar á Austurlandi eiga að geta notið umtalsvert lægri skatta en íbúar á suðversturhorninu – ef sú yrði niðurstaðar lýðræðislega kjörinna fulltrúa þeirra. Þannig eiga héruðin að geta laðað að sér starfsemi með skattívilnunum ef þeim sýnist svo.

En til þess að slíkt sé unnt þarf að leggja niður núverandi sveitarstjórnarkerfi og setja þess í stað á fót nýjar grunnstjórnsýslueiningar í formi 6 – 8 öflugra, sjálfstæðra og lýðræðislegra héraðsþinga og héraðsstjórna sem taki yfir sem stærstan hluta fjárveitingarvalds, framkvæmdavalds og samfélagslegra verkefni ríkis og sveitarfélaga hver í sínu héraði

 

Hinar nýju lýðræðislegu héraðsstjórnir eiga að sjái um stærsta hluta skattheimtunnar, ráðstafi henni til verkefna heimafyrir á grundvelli ákvarðanna héraðsþinga, en greiði eins konar útsvar til ríkisins til reksturs þess.

Með þessari breytingu getur hvert og eitt lýðræðislega kjörið héraðsþing ákveðið að lækka eða hækka skatta eftir áherslu í hverju héraði fyrir sig.

Það þarf nefnilega að draga úr miðstýring ríkisvaldsins og embættismannakerfisins í Reykjavík sem tók í raun yfir Kaupmannahafnarvaldið 1904 og kom því aldrei áfram til þjóðarinnar.

Það er staðreynd að lunginn úr skatttekjum landsbyggðarinnar renna til Ríkissjóðs í Reykjavík þar sem aðeins hluti þeirra er aftur dreift til fólksins í landinu og það á forsendum Reykjavíkurvaldsins. Þá hefur engu skipt hvort fjármálaráðherrar hafi komið úr Þingholtunum eða Þistilfirði eða heilbrigðisráðherrar af Seltjarnarnesi eða af Skaganum.

Þessu þarf að breyta.

Það gerum við með því að koma á fót samkeppni í skattheimtu milli öflugra héraða sem stjórnað er af lýðræðislega kjörnum héraðsþingum og héraðsstjórnum.

Ég skora á þá lesendur sem eru mér sammála að láta rödd sína heyrast. Það er nefnilega framundan stjórnlagaþing sem getur lagt til breytingar í stjórnarskrá sem kalla eftir breytingum á stjórnskipan í þessa áttina. Aukum raunverulegt lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar með róttækum breytingum á sveitarstjórnarstiginu og fyrirkomulagi skattheimtu á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 17.12.2010 - 19:51 - 5 ummæli

Er Andri Geir að ritskoða mig?

Er Andri Geir Arinbjarnarson að ritskoða mig?

Nú hef ég beðið í margar klukkustundir eftir því að Andri Geir birti eftirfarandi athugasemd mína:

  • Hallur Magnússon
    17.12 2010 kl. 13:33 #

    Your comment is awaiting moderation.

    Andri Geir.

    Ekki gleyma því að Íbúðalánasjóður er með ótakmarkaða ríkisábyrgð auk þess sem greiðsluflæði er tryggt úr nánast öllu húsnæði landsmanna.
    Það skilar sér að sjálfsögðu í lægri ávöxtunarkröfu en ella.

    Einfalt.

    Skil reyndar ekki hvað þér gengur til með þessum pistli.

    Hins vegar voru raunvextir af húsbréfalánum Íbúðalánasjóðs – og áður húsnæðisstofnun oftast um 6%. – sjá bls. 21 í eftirfarandi skýrslu:

    http://ils.is/Uploads/document/A%C3%B0dragandi%20innlei%C3%B0ing%20og%20%C3%A1hrif%20breytinga%20-.pdf

    Sauradraugur.

    Fullyrðing þín: „Ákvörðunin um 90% lánahlutfall ÍLS leiddi til stjórnlausrar samkeppni á þessum markaði með þekktum afleiðingum.“ er röng.

    Sjá nánar:

    http://ils.is/Uploads/document/A%C3%B0dragandi%20innlei%C3%B0ing%20og%20%C3%A1hrif%20breytinga%20-.pdf

  •  

    Á sama tíma lifa rangfærslur í athugasemd stórmennisins „Sauradraugur“ sem ákveður að koma fram undir dulnefni – án þess að leiðrétting mín á rangfærslum „Sauradraugs“ ná fram að ganga.

    Ég hef borðið mikla virðingu fyrir Andra Geir og skrifum hans – en nú er mér nóg  boðið.

    Andri Geir!

    Ætlar þú virkilega að ritskoða athugasemdir frá mér – meðan nafnlaus „stórmenni“  geta tjáð sig með rangfærslum í athgugasemdarkerfinu?

    Þetta hljóta að vera einhver mistök!

    Er það ekki?

    Flokkar: Óflokkað

    Höfundur

    Hallur Magnússon
    Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

    Heldur upp á eftirfarandi vísu:

    "Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
    sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
    djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
    manndóm til að hafa eigin skoðun."

    Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
    RSS straumur: RSS straumur