Miðvikudagur 24.11.2010 - 07:30 - 2 ummæli

Stjórnlagadómstóll Íslands

Eitt af viðfangsefnum stjórnlagaþings verður að taka afstöðu til þess hvort setja eigi á fót stjórnlagadómstól. Ég hef verið þeirrar skoðunar allt frá því ég las sagnfræði við Háskóla Íslands fyrir aldarfjórðungi að Íslendinga skorti slíkan stjórnlagadómstól.

En eftir að hafa kynnt mér ítarlegan málflutning Gísla Tryggvasonar, Talsmanns neytenda og frambjóðanda á stjórnlagaþing # 3249, um stjórnlagadómstól – þar sem hann færir rök fyrir því að unnt sé að færa hlutverk stjórnlagadómstóls til fullskipaðs Hæstaréttar eða til sérstaks afbrigðis af útvíkkuðum Hæstarétti að viðbættum sérfræðingum á sviði stjórnlagafræði – þá er ég reiðubúinn að skoða slíka útfærslu.

Rökstuðning Gísla er meðal annars að finna í Eyjupistli hans „Sérstakan stjórnlagadómstól?“

En ég mun allavega beita mér fyrir að tryggja í stjórnarskrá ákvæði um stjórnlagadómstól í einni eða annarri mynd ef ég tek sæti á stjórnlagaþingi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.11.2010 - 13:14 - 4 ummæli

Þjóðfélag í fjórtán liðum

Fyrir fjórum áratugum kom fram á hinum pólitíska vettvangi markmiðsyfirlýsing í fjórtán liðum um uppbyggingu íslensks þjóðfélags. Sú markmiðssetning hefur alla tíð sett mark sitt á mína sýn á þjóðfélagið. Ég gæti enn í dag skrifað undir meginefni allra fjórtán greinanna.

Þessi stefnuyfirlýsing á ekki síður við í dag en fyrir fjórum áratugum síðan. Okkur er hollt að hafa hana í huga þegar við tökumst á við núverandi erfiðleika og þurfum leiðarljós inn í framtíðina. 

Markmiðið var að skapa:

1. Þjóðfélag, þar sem jöfnuður og mannleg samhjálp sitja í öndvegi

2. Þjóðfélag, sem tryggir sókn þjóðarinnar til æ fullkomnara og virkara lýðræðis, aukinnar menningar og andlegs sem líkamlegs heilbrigðis allra þegna þjóðfélagsins.

3. Þjóðfélag, þar sem hver einstaklingur getur valið sér eigið lífsform og þroskað hæfileika sína við skilyrði stjórnmálalegs, efnalegs og andlegs frelsis.

4. Þjóðfélag, sem tryggir öllum frelsi frá ótta, skorti og hvers konar efnalegum þvingunum, mismunun og þjóðfélagslegu óréttlæti og hefur réttaröryggi og afkomuöryggi að leiðarljósi.

5. Þjóðfélag, þar sem allir hafa jafnan rétt til menntunar og jafnan möguleika á að njóta allra menningarlegra gæða, sem þjóðfélagið skapar.

6. Þjóðfélag, sem styður að heilbrigðu lífsgæðamati og setur manngildið í öndvegi, en hafnar því gildismati fjármagns og peningavalds, sem þjóðfélag þeirra afla skapar.

7. Þjóðfélag, sem stöðugt sækir fram til aukinnar velmegunnar með skynsamlegri stjórnun og áætlunum um hversu íslenskar auðlindir verði nýttar af mestri fyrirhyggju og atvinnulíf, sem á þeim byggir, verði þróað, án þess að vera að neinu marki byggt upp á fjárfestingu útlendinga.

8. Þjóðfélag, sem missir aldrei sjónar á verndun fegurðar og sérkenna íslenskrar náttúru og rétti allra landsmanna til að njóta þeirra, en hafna skyndigróða, sem síðar gæti spillt verðmætum, sem ekki verða til fjár metin.

9. Þjóðfélag jafnaðar, sem stefnir að útrýmingu hvers konar misréttis milli stétta og milli þegnanna eftir búsetu, en viðurkennir í reynd þjóðfélagslegt mikilvægi allra starfsgreina og jafnar því efnaleg met á milli þeirra.

10. Þjóðfélag frelsis og lýðræðis, þar sem ákvörðunarrétturinn byggir á virku lýðræði, ekki aðeins í kosningum til löggjafarþings og sveitarstjórna, heldur og í fyrirtækjum, í hagsmunasamtökum og í skólum.

11. Þjóðfélag, þar sem samfélagið í heild mótar meginstefnuna, en einstaklingarnir njóta ákvörðunarfrelsis að þeim mörkum, að þjóðarheildin bíði ekki tjón af.

12. Þjóðfélag, þar sem réttur skoðanalegs minnihluta er virtur og réttarstaða hans tryggð.

13. Þjóðfélag ábyrgra þegna, sem byggja störf sín á félagslegri samhjálp og samvinnu og stýra í raun þjóðfélagsþróuninni að þeim leiðum, en hafna annars vegar forsjá og stjórn peningavaldsins með eigingirnina að leiðarljósi, og hins vegar alráðu ríkisvaldi.

14. Þjóðfélag, sem setur metnað sinn í að verja, skapa og vernda sjálfstæða íslenska menningu og menningararfleifð, en rækir jafnframt hið mikilvæga hlutverk smáþjóðarinnar á alþjóðavettvangi og tekur heils hugar þátt í hverju því alþjóðlega samstarfi, sem stefnir að lausn þeirra miklu vandamála allra þjóða að tryggja frið í heiminum og brúa gjána, sem nú skilur ríkar þjóðir og snauðar.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 22.11.2010 - 20:30 - Rita ummæli

Frelsi með félagslegri ábyrgð

Frelsi með félagslegri ábyrgð hefur verið grunnstef í þátttöku minni í þjóðmálaumræðu og störfum mínum í þann rúma aldarfjórðung sem ég hef látið til mín taka á opinberum vettvangi.  Ýmsar áherslur hafa þróast og breyst – en grunnstefið er það sama. Frelsi með félagslegri ábyrgð.

Það er þetta grunnstef sem ég vil leggja til þeirrar mikilvægu vinnu sem framundan er á stjórnlagaþingi þjóðarinnar.

Stjórnarskrá Íslands á að byggja á frjálslyndi og umburðarlyndi, tryggja þegnum landsins örugg mannréttindi og beint lýðræði, skilvirka og lýðræðislega stjórnskipun, réttlátt og óháð dómskerfi og að landsmenn njóti allir ávaxtanna af nýtingu náttúruauðlinda landsins.

Stjórnarskrá Íslands á að tryggja landsmönnum frelsi með félagslegri ábyrgð.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.11.2010 - 23:37 - 2 ummæli

Elsku klaufarnir á RÚV!

Mér þykir vænt um Ríkisútvarpið. Ég starfaði þar fyrir 20 árum sem þáttargerðarmaður í þættinum „Samfélag í nærmynd“.  En ég er aðeins farinn að efast.  RÚV klúðraði hlutverki sínu sem ríkisútvarp með því að undirbúa ekki kynningu á frambjóðendum til stjórnlagaþings.

Elsku klaufarnir.

Þeir áttuðu sig á því korter í kosningar og eru nú að reyna að bjarga því sem bjargað verður.

Ég fékk boð um það í tölvupósti um miðjan dag í dag að taka þátt í kynningu Rásar 1 í vikunni. Var á leið á Húsavík. Fékk símtal upp úr kl. 19:00. Spurður hvort ég gæti ekki komið í upptöku í Efstaleitið. Hefði fengið úthlutaðan tíma kl. 7:00 í fyrramálið – laugardag. Eftir 12 tíma.  Ég varð að segja pass. Verð á Húsavík kl. 7:00 í fyrramálið – laugardag.

OK!   Má þá bjóða þér að viðtalið verði tekið upp gegnum síma?

Já takk – sagði ég.

Stakk reyndar upp á stúdíóinu á Akureyri.  Ekki hægt.

Verð væntanlega með. En gegnum símaviðtal – eins og flestir landsbyggðarframbjóðendurnir. Kom vel á vondann. Vil tryggja áhrif og rétt landsbyggðarinnar í stjórnarskrá – Reykvíkingurinn.

Hvort ætli komi betur út í kynningu – viðtal í stúdíói í Reykjavík fyrir höfuðborgarbúana – eða misjöfn gæði í símaviðtölum fyrir landsbyggðarframbjóðendurna – og mig?

Ég er reyndar sáttur. Vil frekar vera með landsbyggðinni og slæmu skilyrðunum í útsendingunni en með höfuðborgarbúunum sem fá sjálfgjafa forgjöf í boði elsku klaufanna á RÚV!

… og að lokum – mér var bent á að ég ætti að láta auðkennisnúmerið fylgja. Það er 9541!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.11.2010 - 22:42 - 2 ummæli

„Eruð þið alveg ómissandi?“

Það hefur komið mér á óvart hversu margir hafa haft fyrir því að nálgast mig til lýsa ánægju sinni með að ég hefði boðið mig fram til stjórnlagaþings og segjast ætla kjósa mig. Ég er iðulega stoppaður á götu eða við innkaupin af fólki sem ég jafnvel þekki ekki neitt og óskar mér góðs gengis.
 
 
Einn vinur minn sagði reyndar: „Hallur, kæri vin. Nú fæ ég loks tækifæri til að kjósa Framsóknarmann án þess að þurfa að kjósa Framsóknarflokkinn! Við ætlum að kjósa þig. Gangi þér vel.“
 
Mér þykir að sjálfsögðu afar vænt um þetta.
 
En þessi viðbrögð segja mér fleira. Þau segja mér að baráttumál mitt til margra ára – persónukjör – er rétta leiðin í íslenskum stjórnmálum. Kjósendur eiga að raða frambjóðendum í sæti í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna. Það dregur úr flokksræði.
Því miður heyktist Alþingi að breyta kosningalögum í þá átt fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar þrátt fyrir loforð ríkisstjórnarinnar og loforð stjórnarandstöðunnar um stuðing við slíkt fyrirkomulag. Mögulega fyrir þrýsting sitjandi sveitarstjórnarmanna sem óttuðust lýðræðið. Hætt við að sumir nagi sig í handarbökin fyrir þau mistök.

En hvað um það.

Ég hef líka fengið neikvæð viðbrögð. Fyrst og fremst vegna þess að ég hef lengi haft áhuga á að hafa jákvæð áhrif á umhverfi mitt og samfélag og kaus að gera það með þátttöku í stjórnmálaflokki. Tók mér reyndar 12 ára hlé í virkri stjórnmálaþátttöku meðan ég starfaði sem embættismaður, en hef verið skráður í stjórnmálaflokk frá 22 ára aldri.

Mig langar að birta athugasemd sem ég fékk í athugasemdadálki við bloggið mitt:

„Getið þið stjórnmálamenn ekki látið þetta þing vera?? Eruð þið alveg ómissandi?“

Ég varð reyndar aðeins upp með mér yfir því að vera kallaður „stjórnmálamaður“ – enda einungis náð því að verða varaborgarfulltrúi á árunum 1996-2002. Annars bara kjaftfor fótgönguliði í flokki.

 

En þetta er sjónarmið sem á fullan rétt á sér.

En!

Lýðræðið felst í því að allir hafi sama rétt að bjóða sig fram. Ég hef ákveðið að nýta þann lýðræðislega rétt minn.

Þjóðin velur síðan milli þeirra sem bjóða sig fram í lýðræðislegum kosningum.

Í kosningum til stjórnlagaþings þá er atkvæðavægi algerlega jafnt. Eins og það ætti að vera í Alþingiskosningum. Einn maður, eitt atkvæði, jafnt vægi.

Þeir sem fá flest atkvæði verða kjörnir. Það er þjóðin sem velur þá í lýðræðislegum kosningum.

Ég ákvað að bjóða mig fram og leggja mig, mínar áherslur og mínar skoðanir í dóm þjóðarinnar. Jafnvel þótt ég hafi tekið þátt í starfi stjórnmálaflokks. Þjóðin hefur lýðræðislegt val um það hvort það telur kröftum mínum vel varið á stjórnlagaþingi. Það er þjóðin sem heild – en ekki einstakir gestir á bloggsíðu minni – sem ákveður hvort það sé rétt að hluti þeirra sem sitji á stjórnlagaþingi sé í stjórnmálaflokki eða ekki.

Það er lýðræði og ég er þakklátur fyrir það tækifæri sem mér og öllum öðrum kjörgengum Íslendingum stóð til boða. Það er hins vegar að mínu mati aðför að lýðræðinu ef það á að meina hluta þjóðarinnar að bjíða sig fram. Því það er þjóðin sem velur.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.11.2010 - 08:42 - 8 ummæli

Einkavæðing Íbúðalánasjóðs í farvatninu?

Stjórnvöld þurfa ekki að leggja Íbúðalánasjóði til tugmilljarða til að koma eiginfjárhlutfalli sjóðsins í 8 CAD nema ætlunin sé að afnema ríkisábyrgð og einkavæða sjóðinn. Eina rökrétta ástæða þess að ríkissjóður verji milljörðum af dýrmætu skattfé til að ná því takmarki er sú að stjórnvöld hyggist einkavæða Íbúðalánasjóð.

Ef eiginfjárstaða Íbúðalánasjóðs sem lánasjóðs með ríkisábyrgð fer yfir 8 CAD þá brýtur rekstur sjóðsins væntanlega gegn ákvæðum EES samningsins.

Enda gerir reglugerð um fjárstýringu Íbúðalánasjóðs ráð fyrir að langtímamarkmið sjóðsins sé að eiginfjárhlutfall sé einungis 5 CAD sem er tvisvar sinnum hærra en sérfræðingar Deutsche Bank töldu að þyrfti þegar breytingar voru gerðar á fjármögnunarfyrirkomulagi Íbúðalánasjóðs árið 2004. 

Deutsche Bank taldi æskilegt að eiginfjárhlutfallið væri 2,5% CAD til lengri tíma, en að kröfu fjármálaráðuneytisins var langtímamarkmið í reglugerð haft 5% CAD til að minnka líkurnar á að ríkissjóður þyrfti að leggja Íbúðalánasjóði til fé til að standa undir skuldbindingum sínum.

Eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs var 2,1% CAD við 6 mánaða uppgjör í sumar.

Í sjálfu sér er ekkert sem krefst þess að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs sé jákvætt meðan sjóðurinn nýtur ríkisábyrgðar, þótt staða og kjör sjóðsins styrkist eftir því sem eiginfjárhlutfall er hærra. Það eina sem þarf að tryggja er að sjóðurinn geti staðið undir afborgunum af fjármögnunarbréfum sínum. Ekkert bendir til þess að greiðslufall sé framundan hjá Íbúðalánasjóði.

Þess má geta að Byggingasjóður verkamanna var tæknilega gjaldþrota við stofnun Íbúðalánasjóðs. Neikvætt eigið fé sjóðsins var yfir 30 milljarðar að núvirði árið 1998.  Það högg varð Íbúðalánasjóður að taka á sig við stofnun sjóðsins, enda var eigið fé sjóðsins árið 1999 einungis rúmir 6,9 milljarðar.   

Eigið fé sjóðsins um mitt árið 2010 var 8,4 milljarðar eða 1,5 milljörðum hærra en við stofnun Íbúðalánasjóðs.

Þannig að þótt sjóðnum verði lagðir til einhverjir milljarðar úr ríkissjóði á næsta ári til að viðhalda hærra eiginfjárhlutfalli, þá er það einungis brot af því tapi sem sjóðurinn varð að taka á sig í upphafi vegna tæknilega gjaldþrota Byggingarsjóðs verkamann.  

Byggingasjóður verkamanna var sá hluti Húsnæðisstofnunar sem fjármagnaði svokallað “félagslegt húsnæði”.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.11.2010 - 20:39 - Rita ummæli

Stjórna vinstri grænir umhverfismati eða umhverfismati ekki?

Stjórna Vinstri grænir því hvort það skuli gera umhverfismat eða hvort ekki eigi að gera umhverfismat bara eftir því hvað hentar þeim pólitískt?

Það vita það allir sem vilja vita að Vinstri grænir hafa stöðvar atvinnuskapandi verk eftir atvinnuskapandi verk á grundvelli harðra krafna um umhverfismat um allt milli himins og jarðar.

Nú er komið nýtt hljóð í strokkinn.

Vinur minn Ögmundur Jónasson ráðherra virðist hafa ákveðið upp á sitt einsdæmi að flytja ósa Markarfljóts án undangengis umhverfismats.

Einhverjir hafa bent á að þetta stangist á við lagaákvæðið í vatnalögum: „Vötn öll skulu renna sem að fornu hafa runnið“.

Flott prinsipp.

En raunveruleikinn er náttúrlega sá að Markarfljót hefur verið að flakka fram og til baka með ósa sína gegnum aldirnar þannig að vafasamt er að bera framangreindu ákvæði fyrir sig.

Reyndar er ég sammála Ögmundi um að flytja skuli ósa Markarfljóts manngert og koma þannig með krók á mót bragði Eyjafjallajökuls Vestmannaeyingum og reyndar landsmönnum öllum til góða. En ég er samt hugsi yfir því að Vinstri grænir telja sig geta ákvarðað hvenær og hvenær ekki skuli beita umhverfismati.

Heyrði ég einhvern kalla: „Tvískinnungur“?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.11.2010 - 08:00 - 2 ummæli

Völd, verkefni og tekjur heim í hérað!

Það þarf að setja á fót nýjar grunnstjórnsýslueiningar í formi öflugra, sjálfstæðra og lýðræðislegra héraðsstjórna sem taki yfir sem stærstan hluta fjárveitingarvalds, framkvæmdavalds og samfélagslegra verkefni ríkis og sveitarfélaga.

Það þarf að draga úr vægi ríkisvaldsins í Reykjavík og færa valdið nær fólkinu. Ríkisvaldið á einungis að sinna því sem nauðsynlega þarf að vinna miðlægt. Önnur verkefni á að vinna heima í héraði þar sem íbúarnir geta á lýðræðislegan hátt haft beinni og virkari áhrif á framvinduna. Helst tekið virkan þátt í þróun og uppbyggingu sameiginlegra verkefna.

Það þarf að tryggja að stærra hlutfall skattteknanna verði eftir í héruðunum en renni ekki meira og minna til ríkisvaldsins í Reykjavík þar sem misvitrir embættismenn, ríkisstjórn og Alþingi deila einungis hluta þess til baka til samfélagslegra verkefna fólksins í landinu.

Það er eðlilegt að nýjar stjórnsýslueiningar í formi öflugra, sjálfstæðra og lýðræðislegra héraðsstjórna sjái um stærsta hluta skattheimtunnar, ráðstafi henni til verkefna heima fyrir, en greiði eins konar útsvar til ríkisins til reksturs þess. Fólkið og héruðin eiga að sníða ríkisvaldinu stakk með fjárframlögum, en ríkið ekki fólkinu og héruðunum.

Það þarf því að leggja niður núverandi sveitarstjórnir og setja þess í stað á fót 6 til 8 hérðsþing og héraðsstjórnir sem taki yfir sem stærstan hluta fjárveitingarvalds, framkvæmdavalds og samfélagslegra verkefni ríkis og sveitarfélaga.

Það þarf að breyta stjórnarskrá svo þetta sér unnt.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 15.11.2010 - 07:50 - 1 ummæli

Seðlabankinn er á Ísafirði!

Seðlabankinn hefur verið á Ísafirði allt frá árinu 1976. Mér var bent á það í kjölfar síðasta pistils míns, Seðlabankann á Ísafjörð!    Ísfirski trillukarlinn Eyjólfur Ólafsson – sem nú myndi væntanlega kallast smábátasjómaður – ákvað að byggja sér og sínum hús.   

Seðlabankinn á Ísafirði að Hlíðarvegi 45

Þegar Eyjólfur hóf smíðina byrjaði hann á því að láta taka grunn eins og lög gera ráð fyrir. Sagan segir að þegar gröfumenn voru búnir að taka grunninn þá hafi trillukarlinn komið á staðinn, dregið upp umslag með seðlum í og talið launin í verkamenn.

Þegar næsta áfanga lauk kom trillukarlinn aftur með umslag með seðlum í og taldi launin í iðnaðarmennina. Svona endurtók sagan sig koll af kolli þar til smíðinni var lokið árið 1976.

Bæjarbúum þótti víst ekki annað við hæfi en að kalla húsið Seðlabankann eftir þetta, vegna hins skilvísa greiðslumáta húsbyggjandans og hefur það gengið undir því nafni síðan. Afkomendur mannsins búa í húsinu og létu setja skiltið upp fyrir skömmu.

Hinn skilvísi trillukarl Eyjólfur Ólafsson og lést árið 2006, níræður að aldri.

Þá er vert að halda því til haga að Seðlabanki Íslands fetaði í kjölfar Íbúðalánasjóðs og flutti hluti starfssemi sinnar út á land árið 2001 og var þannig með fyrstu stofnunum sem fylgdi stefnu þáverandi ríkisstjórnar að færa hluta starfseminnar út á land. Það var gert þegar árið 2001 þegar símsvörun bankans var flutt á Raufarhöfn.

Sjá frétt SÍ Símsvörun fyrir Seðlabanka Ísland til Raufarhafnar. 

Þessi ráðstöfun hefur almennt gefist vel skilst mér þótt ekki hafi fleiri þættir starfsemi Seðlabanka Íslands verið færður frá Reykjavík!

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 13.11.2010 - 19:55 - 10 ummæli

Seðlabankann á Ísafjörð!

Við eigum að flytja Seðlabankann á Ísafjörð!  Á það benti ég fyrst á opinberum vettvangi  í upphafi árs 2007 í kjölfar þess að vinnufélagi minn hafði sett þessa djörfu hugmynd fram í kaffispjalli.  

Fyrstu viðbrögð mín á sínum tíma voru neikvæð, en svo fór ég að hugsa!

Á þeim tíma hafði Ísafjörður farið illa út úr flutningi hátæknifyrirtækis af staðnum og samkvæmt tölfræði hefur staðurinn verið afar afskiptur hvað varðar flutning þó þeirra opinberra starfa sem ríkið náði að flytja út á landsbyggðina. Núverandi ríkisstjórn hefur reyndar tekið þá stefnu að ýta undir mestu þjóðflutninga af landsbyggðinni mögulega í Íslandssögunni með því nánast að leggja niður heilbrigðisþjónustu víðs vegar um land.

Líka frá Ísafirði.

Því er enn brýnna nú en áður að flytja alvöru opinbert fyrirtæki vestur, allt eða hluta þess. Vestfirðingar eiga það inni hjá þjóðinni. 

Ég vann á sínum tíma í fyrirtæki sem er staðsett er á tveimur stöðum, um það bil 50 manns í Reykjavík og 20 á Sauðárkróki.  Þetta fyrirkomulag hefur gengið afar vel í áratug og starfstöðin á Sauðárkróki er til fyrirmyndar mönnuð metnaðarfullu starfsfólki.

Því þá ekki að flytja Seðlabankann á Ísafjörð? 

Það myndi fjölga hámenntuðu fólki á staðnum sem hvort eð er er ekki á þeytingi vítt og breytt um höfuðborgina í starfi sínu, enda fer starfið fyrst og fremst fram inn á kontór og með upplýsingaöflun gegnum netið, skilst mér, milli þess að gefnar eru út misskynsamlegar yfirlýsingar um stöðu peningamála. 

Það er unnt að sjónvarpa þeim beint frá Ísafirði – ekki síður en frá Svörtuloftum eins og tíðkast hefur undanfarið.

Margföldunaráhrifinn fyrir Ísafjörð yrðu veruleg – og háskóli á Vestfjörðum hefði aðgang að bestu hagfræðingum til kennslu og jafnvel rannsókna. Nema vinkona mín og fyrrum mágkona Kata Jakobs ætli að loka háskólaselinu fyrir vestan.

Auk þess myndi úrvals húsnæði á besta stað losna í miðbænum í Reykjavík. Það væri best nýtt undir listaháskóla – en bygging húsnæðis utan um þann ágæta skóla hefur hvort eð er verið slegið á frest – húsnæði sem stæði þá við hlið stærstu menningarhúsa landsins, Þjóðleikhúsinu, Hörpu, Þjóðmenningarsafninu  og við hlið ráðuneytis menningarmála!

Ekki gleyma því að við öll þjóðin eigum öll ríkisfyrirtækin – ekki bara við höfuðborgarbúarnir.  

Já, af hverju ekki að flytja Seðlabankann á Ísafjörð!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur