Föstudagur 24.5.2013 - 05:55 - 19 ummæli

Áframhald aðildarviðræðna að ESB

Þegar aðildarviðræðum við Evrópusambandið verður fram haldið – væntanlega í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningum að ári – þá getur það verið styrkur að hafa utanríkisráðherra sem hefur efasemdir um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Slík staða kann að styrkja stöðu Íslands gagnvart ESB og tryggja okkur enn betri aðildarsamning en ella.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra er öflugur stjórnmálamaður og mun fullkomlega valda embættinu þótt pólitískir andstæðingar hans reyni að gera lítið úr honum.  Gunnar Bragi verður kominn með ákveðna reynslu sem utanríkisráðherra þegar hann mun leiða aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið að ári liðnu. Það er gott.

Ég spái því að það verði Gunnar Bragi Sveinsson sem verði utanríkisráðherra þegar við göngum í Evrópusambandið 2017.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.4.2013 - 17:18 - 9 ummæli

Tveggja flokka stjórn xV, xS og xB

Það ætti að mynda tveggja flokka ríkisstjórn Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks þar sem Árni Páll Árnason og Katrín Thoroddsen Jakobsdóttir gegna lykilstöðum.  Þegar ríkisstjórnin hefur verið mynduð þá ætti Árni Páll að óska eftir því við Katrínu að hún leiði vinnu við sameiningu Samfylkingar og VG í formlegt, breitt bandalag jafnaðarmanna. Dreifstýrt bandalag sem byggi á þátttöku allra þeirra stjórnmálahópa á vinstri væng stjórnmála á Íslandi sem vilja taka þátt í framgangi jafnaðarhugsjónarinnar – allt frá sósíaldemókratisma yfir í lýðræðislegan sósíalisma.

Það er nefnilega ekki hægt að vera bæði 20. aldar agaður jafnaðarmannaflokkur og „samfylking“ vinstri manna.

Leið agaðs hefðbundins jafnaðarmannaflokks inn í 21. öldina krefst fókusar og flokksaga. Slíkur flokkur getur aldrei orðið stór eins og 20. aldar jafnaðarmannaflokkarnir voru. En ef „fókusaðir“ jafnaðarmenn vilja þá leiðina – þá verða þeir að sætta sig við að vera með fylgi á bilinu 10% – 20%.

Það er möguleiki og að mörgu leiti vænleg leið.  Sú leið kallar á sósíalistaflokk samhliða til vinstri. Flokks sem flakkar milli 10%  20 fylgis – eftir því hvernig uppgjör flokkanna á vinstri hliðinni fyrir kosningar endar. Samtals fylgi þessara flokka fer aldrei yfir 30%. Mögulega miklu minna eins og nú.

Hin leiðin er fjöldahreyfing á vinstri vængnum. Sú leið krefst frelsis mismunandi hópa með mismunandi áherslur. Nú eru þessir hópar út um allar koppa grundir. Ef menn vilja sameina þá krafta sem eru sameiginlegir meðal þessara hópa og draga úr áhrifum þess sem sundrar þá – þá er málið að setja leikreglur. Leikreglur í breiðu bandalagi.

Eins og á fótboltavelli. Eða hnefaleikahring. Reglur sem allir hafa samþykkt fyrirfram að fara eftir og sætta sig við niðurstöðuna hverju sinni svo fremi sem leikreglum er fylgt. Stundum verður einn hópurinn ofan á. Stundum annar. En oftast ná menn samkomulagi um meginatriði.

Verkefni Katrínar Thoroddsen Jakobsdóttur ætti að vera að leiða vinnu við mótun slíkra reglna.

Sú leið getur skilað bandalagi mismunandi hópa með mismunandi áherslum á vinstri vængnum afli sem er miklu meira en afl hefðbundinna jafnarðarmannaflokka í Evrópu undanfarna áratugi.

Árni Páll og Katrín hafa valið.

… og Sigmundur Davíð lykilinn.

Lykilinn að nýrri tveggja flokka ríksstjórn Framsóknarflokks, Samfylkingar og VG.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 29.4.2013 - 07:39 - 8 ummæli

Þjóðin valdi nýja framtíð!

Það er merkilegt að fúllyndir fallistar og flestir stjórnmálaskýrendur sjá ekki hið augljósa í niðurstöðu Alþingiskosninganna.  Þjóðin var að losa sig við gömlu 20.aldar pólitísku hundana og kjósa nýja framtíð. Sigurvegarar kosninganna eru Framsóknarflokkur, Björt framtíð og Píratar sem eru eiga það sameiginlegt að tefla fram nýjum, ferskum frambjóðendum sem ekki sátu á Alþingi fyrir hrun og flestir ekki 20. aldar stjórnmálamenn.

Á sama tíma var þjóðin að hafna gömlu 20. aldar risaeðlunum í Samfylkingu, VG og Sjálfstæðisflokki. Það er þeim sem voru á Alþingi fyrir hrun.

Þótt Jóhanna Sigurðardóttir hafi verið að hætta þá sveif andi hennar yfir Samfylkingunni og þeim stóra hóp 20. aldar pólitíkusa sem þar voru í framboði. Það sem verra var fyrir Samfylkinguna var að hún var algerlega klofin. Ákveðinn hluti hennar fór í bakið á nýjum formanni frá degi eitt og vilja nú koma honum frá. Enda vildi það fólk ekki öflugan, frjálslyndan jafnaðarmann í forystu „flokksins síns“ . Það fólk er fast í raunveruleikafirrtum draumi um 20. aldar bleikan sósíalisma sem er bara ekki 21. öldin!

Árni Páll átti ekki séns í kosningunum vegna þessa.

Steingrímur J. Sigfússon og gömlu 20. aldar sófakommarnir voru næstum búnir að ganga frá VG. En Steingrímur hafði vit á því að halda sig algerlega til hlés og gefa nýjum formanni allt sviðið eftir. VG stóð líka að baki nýja formanninum sem er holdgervingur nýju kynslóðarinnar á vinstri vængnum. Vel menntuð, afar greind kona sem leggur áherslu á samstarf og samvinnu í satað átaka og kreddufestu.

Katrín Jakobsdóttir Thoroddssen fékk sviðið, sneri vörn í sókn og bjargaði VG fyrir horn. En hún gat ekki breytt því að þjóðin var að hafna 20. aldar risaeðlunum sem hún sat og situr upp með.

Sjálfstæðisflokkurinn er kapítuli fyrir sig. Reynir að túlka afhroð sem sigur 🙂   Flokkurinn hafði tök á því að losna úr viðjum 20. aldar pólitíkurinnar og slá nýjan tón. Það gerði hann ekki. Þrátt fyrir ungan formann þá er flokkurinn nú holdgervingur staðnaðar 20. aldar pólitíkur. Þess vegna er forystuhlutverk þess flokks endanlega búið að vera.

Það er ný framtíð að hefjast. Spennandi að sjá hvernig hún mun þróast!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.4.2013 - 09:56 - 12 ummæli

Bjölluat í Brussel

Íslenskir stjórnmálamenn gera bjölluat aldarinnar ef aðildarviðræður að Evrópusambandinu verður hætt án niðurstöðu um aðildarsamning sem lagður verði fyrir íslensku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Slíkt yrði ekki einungis bjölluat í Brussel heldur vanvirðing við íslensku þjóðina sem á að sjálfsögðu að hafa lokaorðið um inngöngu eða inngöngu ekki í Evrópusambandið. Þá ákvörðun á þjóðin að taka með upplýstum hætti. Það er með fullbúinn samning í höndunum þar sem niðurstaða er komin í þau atriði sem menn greinir á um í dag.

Venjulega eru það pörupiltar sem gera bjölluat. Nú er að sjá hverjir þeirra sem nú eru í framboði vilja verða pörupiltar og hverjir ekki …

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.4.2013 - 05:26 - Rita ummæli

ÍLS heildsala 2006 og 2013

Árið 2006 lagði stefnumótunarhópur Framsóknarráðherrans Árna Magnússonar  til að stofna Íbúðabanka í eigu Íbúðalánasjóðs sem sæi um að fjármagna almenn íbúðalán gegnum bankakerfið án ríkisábyrgðar  Árið 2013 leggur stefnumótunarhópur Samfylkingarráðherrans Guðbjarts Hannessonar til að Íbúðalánasjóður taki þátt í stofnun heildsölubanka sem fjármagni almenn íbúðalán gegnum bankakerfið án ríkisábyrgðar.

Það er áhugavert að bera saman þessar tillögur.

Skýrslu pólitískt skipaðs starfshóps félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins árið 2006 er að finna hér:  „Lokaálit stýrihóps um framtíðarstefnumótun um hlutverk og aðkomu stjórnvalda að íbúðalánamarkaðnum“

Skýrslu pólitískt skipaðs velferðarráðherra Samfylkingarinnar árið 2013 er að finna hér: „Skýrsla starfshóps um framtíðarhorfur og framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs“

Þá er vert að skoða í samanburði tillögur starfshóps sem Árni Páll Árnason þáverandi félagsmálaráðherra skipað í ársbyrjun 2010 sem ráðherrann hugðist leggja fram sem umræðuskjal til grundvallar framtíðarstefnumótun í húsnæðismálum. Þegar núverandi velferðarráðherra tók við voru tillögurnar lagðar til hliðar. Tillögurnar frá því 2010 eru að finna hér: „Húsnæði fyrir alla – umræðuskjal“ .

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 15.4.2013 - 08:53 - 2 ummæli

Óþörf útlánakrísa ÍLS

„Íbúðalánasjóður býr nú við heimatilbúna útlánakrísu sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjóðinn.  Ástæða útlánakrísunnar er allt of lág hámarkslán sjóðsins. Hámarkslánið hrekkur skammt til kaupa á hóflegu húsnæði. Ríkisstjórnin og Velferðarráðherra bera ábyrgð á þessari útlánakrísu. Tregi til að hækka hámarkslán hefur ekki einungis þvingað almenning til þess að taka bankalán vegna íbúðakaupa heldur hefur sá tregi komið í veg fyrir aukna atvinnu í steindauðum byggingariðnaði með tilheyrandi verðmætasköpun.“

Þetta skrifaði ég í nóvember. Pistillinn á enn við. Staða ÍLS bara versnar. ÍLS kennir óverðtryggðu lánunum um í mánaðarskýrslu sinni.

En aðalástæðan er ekki óverðtryggð lán bankanna heldur sú staðareynd að bankarnir lána fólki eðlilega lánsfjárhæð til kaupa á húsnæði. Það gerir ÍLS ekki. Hámarkslánið er enn 20 milljónir og dugir ekki venjulegu fólki til kaupa á hóflegu húsnæði.  Vandi ÍLS vegna minnkandi útlána er ALGERLEGA á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar sem hefur ekki samþykkt að veita ÍLS heimild til að hækka hámarkslánið.  Það hefði átt að gera strax árið 2010. Slíkt hefði aukið atvinnu og hagvxt og komið í veg fyrir hluta af núverandi vanda ÍLS.

Mánaðarskýrsla ÍLS:  http://ils.is/um-okkur/frettir/frett/2013/04/12/Utlan-844-milljonir-i-mars/

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 13.4.2013 - 19:39 - 2 ummæli

Þingmenn með hugsjón

Virðing Alþingis hefur farið þverrandi undanfarin ár. Það þýðir hins vegar ekki að Alþingismenn síðustu ára hafi ekki unnið starf sitt af heilindum.  Þvert á móti eru margir þingmenn sem hafa unnið óeigingjarnt starf á grunni hugsjóna sinna og lagt líf sitt og sál í starf sitt. Á skítalaunum.

Margir þingmenn hafa ákveðið að hætta þingmennsku. Þar á meðal er fólk sem hefur gefið líf sína og sál í það erfiða starf sem starf þingmanns er. Og andstætt því sem margir halda þá hafa margir þingmenn unnið af heilindum og lagt sannfæringu sína og lífsskoðanir til grundvallar starfi sínu fyrir land og þjóð. Það ber okkur að meta óháð því hvort við höfum verið sammála þessum þingmönnum eða ekki.

Hæst ber að sjálfsögðu Jóhanna Sigurðardóttir sem hefur helgað nánast allt sitt líf stjórnmálum og jafnaðarhugsjóninni. Þótt ég hafi oft gagnrýnt hana harðlega þá hef ég aldrei efast um að Jóhanna stjórnast fyrst og fremst af því sem hún telur vera rétt. Jóhanna stjórnast ekki af sérhagsmunum heldur eigin hugsjón. Ég hef átt töluverð samskipti við hana starfs míns vegna. Jóhanna gerir miklar kröfur en hún metur það sem vel er unnið fyrir hana. Hvað sem fólki finnst um Jóhönnu þá er sjónarsviptir af henni.

Annar þingmaður yngri þó sem einnig hefur helgað líf sitt landi og þjóð á grundvelli hugsjóna sinna er Siv Friðleifsdóttir. Siv er kannske ekki mjög gömul – einungis um fimmtugt – en hefur lungann úr starfsævi sinni þjónað okkur sem þingmaður og ráðherra. Það liggur meira jákvætt eftir hana en margur hyggur þótt hún hafi verið á milli tannanna á fólki vegna þess að hún fylgdi sannfæringu sinni umn að rétt væri að virkja á Austurlandi.

Þriðji þingmaðurinn sem ég vil minnast á er Þuríður Backmann. Þuríður hefur að mínu viti verið vanmetin sem þingmaður. En hún á afar farsælan þingmannsferil að baki og hefur alla tíð unnið á grundvelli hugsjóna og þess sem hún hefur talið vera rétt. Þuríður hefur verið afbragsðgóður þingmaður.

Fjórði þingmaðurinn sem ég tel upp er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Ég hef þekkt til Þorgerðar Katrínar frá því hún var fyrirliði í ÍR í handbolta á unglingsaldri. Þá strax sýndi hún af sér afburða leiðtogahæfileika og staðfestu. Þorgerður Katrín hefur eins og þeir þingmenn sem ég hef minnst á hér að framan alla tíð unnið á grunni hugsjóna og þess sem hún hefur talið vera rétt fyrir land og þjóð.  Þorgerður Katrín hefur á undanförnum misserum ómaklega verið sökuð um sérhagsmunagæslu af pólitískum andstæðingum sínum. Þær ásakanir standast ekki einfalda skoðun. Því Þorgerður Katrín er og hefur alla tíð verið hugsjónakona og unnið eftir því.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.4.2013 - 08:10 - 19 ummæli

Hanna Birna forsætisráðherra

Hanna Birna Kristjánsdóttir verður forsætisráðherra í nýrri þriggja flokka stjórn án Framsóknarflokksins. Það er verið að undirbyggja það með viðhorfskönnunum þessa dagana. Bjarni Ben mun klára kosningabaráttuna sem formaður. En ef ekki réttist úr kútnum í kosningum mun Hanna Birna taka við. Þannig skapast nýr samningsgrundvöllur við aðra flokka. Samningsgrunnur sem Bjarni Ben hefur ekki.

Framsóknarflokkurinn mun ekki verða í stjórn. Sjálfstæðisflokkurinn mun hins vegar nýta sér þá stöðu sem hann mun hafa til þess að fá forsætisráðherraembættið í þriggjaflokka stjórn án Framsóknar. Því Sjálfstæðisflokkurinn mun væntanlega hafa möguleika á að mynda tveggja flokka stjórn með Framsókn.  Það er trompið sem Sjálfstæðismenn geta notað. Bjarni Ben er ekki með það tromp á hendi gheldur Hanna Birna.

Auðvitað munu verðandi samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn gefa Hönnu Birnu eftir forsætisráðherraembættið. Annars munu þeir ekki komast í ríkisstjórn!

Stóra spurningin er einungis hvaða flokkar verða með Sjálfstæðisflokki í nýrri ríkisstjórn.

Verður það Björt framtíð og Samfylkingin eða verður það Björt framtíð og VG?

Í því felst spennan!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.4.2013 - 07:12 - 2 ummæli

Þegar samfélag nauðgar

Það er með ólíkindum hvað við mannfólkið getum stundum látið múgæsingu ráða gjörðum okkar. Besta fólk getur missti sig í stundargeðshræringu og unnið öðru fólki óbætanlegan skaða. Þessa dagana erum við að rifja upp eitt slíkt tilvik þar sem almennt gott samfélag missti sig í nauðgunarmáli fyrir 13 árum. Það var ekki nóg að ung stúlka yrði fyrir nauðgun af manni. Samfélagið kom í kjölfarið og nauðgaði henni með ósmekklegum undirskriftalista þar sem lýst var stuðningi við ofbeldismanninn.

Flestir þeir sem skrifuðu undir sjá eftir gjörðum sínum. Það breytir því ekki að stór hópur fólks fylgdi múgæsingunni og framdi ódæði.

Þessi saga sem nú hefur verið rifjuð upp þegar hugrökk kona stígur fram og tjáir sig um nauðgunina – nauðgun mannsins og nauðgun samfélagsins – á að vera okkur víti til varnaðar. Við eigum að hafa þennan atburð í huga næst þegar við erum í tilfinningaróti og viljum hrífast með hópnum í fordæmingu fjöldans gagnvart einstaklingi eða litlum hóp fólks. Við eigum að hugsa okkur tvisvar um og spyrja okkur „Er rétt af mér að taka þátt?“.

En aftur að nauðguninni. Dóttir mín Álfrún Elsa Hallsdóttir sagði það sem segja þarf varðandi nauðganir í fésbókarfærslu sinni:

Flott kona 🙂 ! Las listan er verulega brugðið … vona að þeir sem ekki eru þegar búnir að biðjast afsökunar sjái sóma sinn í þvi að gera það núna ! Ætla fara með sömu gömlu tugguna því hún skiptir  verulega miklu máli. Vonandi tekur einn, tveir það til sín. Nauðgun er ekkert nema valdníðsla og hræðilegt ofbeldi , það er EKKERT sem afsakar nauðgun , það er ALLTAF rangt að nauðga , fólk er EKKI að bjóða upp á að láta nauðga sér útaf það er of drukkið , í aðsniðnum fötum eða engum fötum ef út í það er farið!! Ef þú reynir að koma fram vilja þínum og hinn einstaklingurinn vill ekki sofa hjá þér og þú heldur samt áfram þá ert þú að nauðga ! NEI ÞÝÐIR NEI!   Það vill enginn láta nauðga sér og það er orðið smá þreytt að koma með afsakanir um að eithver maður eða kona séu bara svo fín að þauhafi ekki getað nauðgað! Það er til fullt af  „fínum“ ofbeldismönnum, morðingjum,ræningjum sem samt sem áður brjóta á öðru fólki. Þannig er það bara . Eitt í lokin ég er viss um að viðbrögð þeirra sem skrifuðu undir þennan lista hefðu ekki verið þau sömu ef þetta hefði verið stelpan þeirra eða strákurinn þeirra sem hefði verið nauðgað !! Hefðu þau þá skrifað undir listan hefði drengurinn þá enþá verið „saklaus“ ….

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 7.4.2013 - 15:39 - 5 ummæli

Þjóðsaga hrakin!

Sú þjóðsaga gengur enn fjöllum hærra að fyrirætlanir um svokölluð 90% almenn íbúðalán ÍLS til kaupa á hóflegri íbúð hafi orðið til þess að bankarnir ruddust af miklu offorsi haustið 2004 með hömlulaus fasteignatryggð lán.

Þess má reyndar geta að fram í ágúst 2004 höfðu bankarnir alls ekki verið á almennum íbúðalánamarkaði voru með innan við 5% markaðshlutdeild í slíkum lánum fram á haustið 2004. Lánuðu einungis 10 íbúðalán í ágúst 2004 samtals að fjárhæð 100 milljónir en veittu 30 milljarðar í íbúðalán í september 2004 og vel yfir 100 milljarða króna áður en almenn 90% lán Íbúðalánasjóðs komu til sögunnar.

Sannleikurinn er reyndar sá að innreið bankanna á íbúðalánamarkaðinn hefur ekkert með 90% lán Íbúðalánasjóð þvert á það sem ýmsir reyna að telja trú um í kosningabaráttunni.

Friðrik Jónsson starfsmaður Alþjóðabankans hefur greint meginástæðu innkomu bankanna í pistli hér á Eyjunni.  Þar segir Friðrik meðal annars:

„Það virðist oft gleymast þegar orsaka hrunsins er leitað að stór hluti upphafs útrásar bankanna hefði líklega aldrei átt sér stað ef ekki hefði verið fyrir verðtryggingu og verðtryggð ríkis- og húsnæðisbréf með meintri ríkisábyrgð. Eftir brösulegt gengi húsnæðisbréfa og nýs húsnæðiskerfis núverandi forsætisráðherra allan tíunda áratuginn fór að horfa betur við í upphafi nýrrar aldar. Ætli það hafi ekki verið Kaupþing í gegnum lítinn kontór sinn í Köben sem fór fyrst fyrir alvöru að selja íslensk íbúðabréf til erlendra fjárfesta. Fór það svo að eftir að erlendir fjárfestar áttuðu sig á eðli þessara bréfa að framboð annaði ekki eftirspurn. Bréf þessi voru í raun einsdæmi á markaði, þ.e. með jafn mikla ávöxtun og raun bar vitni, verðtryggt í þokkabót, sem var þess eðlis að hún var gengistryggð í raun og vel það. Síðan var meint ríkisábyrgð ofan á allt saman. Áhættuminni pappírar með jafnmiklar væntingar um endurheimtur og ávöxtun voru líklega vandfundnir.

Enda fór það svo að íslensku bankarnir sáu sér þarna leik á borði. Í stað þess að sitja og bíða eftir íbúðabréfaútgáfu hins þunglamalega ríkisbatterís Íbúðalánasjóðs, hví ekki að gefa út slík bréf sjálfir?

Og það gerðu þeir!

Reiknilíkan bankanna var í sjálfu sér sáraeinfalt: Húsnæðimarkaður á Íslandi var á þessum tíma rétt byrjaður að rétta úr kútnum eftir langan stöðnunartíma. Mat bankanna var það að húsnæði væri enn langt frá því sem “eðlilegt” gæti talist og markaðurinn gæti vel borið verulegar verðhækkanir. Í snilldarumhverfi verðtryggðra húsnæðislána var hér kominn einföld leið til að stækka hjá sér efnahagreikninginn, sækja ódýrt erlent fé, hleypa af stað eignabólu (eða að þeirra mati eðlilegri verðleiðréttingu húsnæðismarkaðarins) og græða vel á öllu saman. Stærri húsnæðislánapakki þýddi stærri efnahagsreikning sem þýddi meiri aðgang að erlendu lánsfé sem þýddi meiri hagnað sem þýddi hærri EBIDTA sem þýddi hærra hlutabréfaverð o.s.frv. o.s.frv. Hér var kominn grunnurinn að því sem seinna reyndist spilaborgin stóra sem hrundi endanlega haustið 2008.“

Pistil Friðriks er að finna í heild hér:  http://blog.pressan.is/fridrik/2013/03/23/hugvekja/

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur