Föstudagur 7.11.2014 - 12:48 - FB ummæli ()

Efnahagslífið á Íslandi: allt í góðu lagi?

Birtist fyrst á ensku á icelandicecon.blogspot.com.

Seðlabankinn lækkaði vexti í vikunni og var bara nokkuð ánægður með hvernig hlutirnir væru að ganga fyrir sig í efnahagslífinu. Seðalbankastjóri sagði m.a.s. að aðrar þjóðir öfunduðu Íslendinga. Einhvern veginn datt mér í hug að oft mætti böl bæta með því að benda á annað verra.

Á yfirborðinu

Það er mikið rétt að á yfirborðinu er Ísland alls ekki að standa sig svo illa. Verðbólga hefur lækkað, atvinnuleysi hefur lækkað og hagvöxtur, eins ófullkominn og villandi og sá mælikvarði er á velferð, hefur aukist. Stýrivextir eru nú „ekki nema“ 5,75%.

Verðbólga (gögn og myndir: Hagstofa Íslands)
Atvinnuleysi
Hagvöxtur

En eins og svo oft áður er ekki nóg að horfa á yfirborðið. Undir hinni rósrauðu mynd sem er dregin upp af því einu að horfa á verðbólgu, atvinnuleysi og hagvexti (hvenær ætlum við annars að hætta að horfa á þennan blessaða hagvöxt, getum ekki einhvern daginn vaxið upp úr þessum ósið að stara á þennan meingallaða mælikvarða á velferð?) þá er mikið ósagt.

Undir yfirborðinu

Fyrst, af hverju hefur verðbólga lækkað?

Verðbólga hefur lækkað vegna þess að gengi krónunnar hefur verið stöðugt. Gengi krónunnar hefur verið stöðugt vegna þess að gjaldeyrishöft eru til staðar. Gengi krónunnar hefur líka verið veikt og verið haldið veiku með gjaldeyriskaupum Seðlabankans, sem er raunar mjög nauðsynleg aðgerð og ef eitthvað væri þá mætti Seðlabankinn gera meira af henni. Á sama tíma hafa nafnlaunahækkanir verið takmarkaðar.

Saman leiðir stöðugt gengi krónunnar og hóflegar launahækkanir til þess að kostnaður framleiðslu innan hagkerfisins er stöðugur og hefur lítið hækkað. Það leiðir til lítils verðlagsþrýsting á framleiðsluvörum, þ.e. neysluvörum (verðbólga á Íslandi, eins og víðast annars staðar, er mæld með verðlagsbreytingum neysluvara). En það er önnur  ástæða fyrir því hvers vegna verðbólga er lág: lítil innlend eftirspurn (sem er vegna þess að fólk hefur ekki jafn mikið af peningum milli handanna og það gerði).

Liðnir eru þeir dagar þegar hagvöxtur á Íslandi var dreginn áfram af innlendri eftirspurn og neyslu. Í lok 10. áratugarins og á árunum fyrir 2008 var vöxtur í einkaneyslu upp undir tveggjastafa prósentutala á ári. Nú er vöxturinn varla helmingurinn af því. Einkaneysla hefur líka dregist saman. Nú er hagvöxturinn dreginn áfram af túristanum.

Einkaneysla á Íslandi, vöxtur hennar (rauð lína) og magn

Þessi samdráttur í vexti einkaneyslu er fullkomlega eðlilegur. Bankakerfið er ekki að pumpa út jafn mikið af lánum og áður (vegna þess að bankarnir eru varfærnari en áður) og vöxtur launa hefur verið svo takmarkaður að það er fyrst núna sem við erum komin aftur upp í raunlaunin eins og þau voru fyrir Hrun.

Á meðan er grundvöllur langtímavelferðar – fjárfesting í framleiðslufjármagni á borð við vegi, húsnæði, verksmiðjur, tæki og tól – afar veikur svo ekki sé sterkara að orði komist. Fjárfesting í framleiðslufjármagni þyrfti að vera líklega um þriðjungi hærri en hún er til að teljast eðlileg.

Fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu

Reyndar er magn fjárfestingar svo lágt að „magn“ framleiðslufjármagns er byrjað að láta á sjá. Þetta þýðir m.ö.o. að fjárfesting í hagkerfinu er ekki að ná að halda í við „ryðmyndun“ í framleiðslufjármagni Íslands: tímans tönn bítur stanslaust á vegum, húsnæði og verksmiðjum og það þarf að halda þeim við. Það er ekki að gerast m.v. þessar tölur: Ísland er að „ryðga“.

Vísitala framleiðslufjármagns í hagkerfi Íslands (2005=100)

Svo má bæta við atriðum eins og verkfalli lækna og mótmælum 4.500-6.000 einstaklinga fyrir framan Alþingishúsið. Eitthvað er ekki eins og það á að vera, þótt hagvöxtur, atvinnuleysi og verðbólga séu öll að þróast í rétta átt.

Í stuttu máli 

Ég hef sagt eftirfarandi áður og sé enga ástæðu til að breyta þessari skoðun minni.

Ytri hluti hagkerfisins, ferðaþjónusta sérstaklega, hefur verið lyftistöngin á bakvið hagvöxt síðastliðin misseri. Hóteluppbygging er t.d. ein skýring þess að fjárfesting er þó það sem hún er. Þessi uppbygging og vöxtur er bein afleiðing þess að krónan féll í verði og hefur gert Seðlabankanum það kleyft að byggja upp þó það sem hann hefur byggt upp af gjaldeyrisforða. Á meðan hefur stöðugt gengi krónunnar, afleiðing haftanna, og hógværar launahækkanir verið grundvöllur lægri verðbólgu. Eftirspurn í gegnum ytri hluta hagkerfisins hefur svo borið uppi heildareftirspurn þannig að atvinnuleysi hefur þó lækkað um það sem það hefur lækkað. Þetta er yfirborðið.

Á meðan hefur fjárfesting verið eins lág og hún hefur verið vegna þess að óvissa um áhrif afnáms gjaldeyrishafta er of mikil. Enginn veit hvenær eða hvernig gjaldeyrishöft hverfa, því er bara lofað að einhvern veginn einn daginn muni það gerast.

Þetta veldur gríðarlegri óvissu: enginn heilvita fjárfestir fer í miklar fjárfestingar í framleiðslufjármagni ef hann veit ekki hvernig og hvenær höftunum verður lyft. Ástæðan er að þegar/ef höftunum verður lyft gæti það, ef það er ekki gert „rétt“, orðið eins og að kasta stórum steini í grunnt vatn: það gusast allt út um allt. Gengi krónunnar, vaxtastig, innflæði tekna og útflæði gjalda fyrir hinn almenna fjárfesti eru aðeins nokkur af þeim atriðum sem mjög erfitt og jafnvel ómögulegt er að spá fyrir um þegar því er aðeins lofað að höftin muni hverfa „einn góðan veðurdag“.

Þetta gerir áætlanagerð sem er nauðsynlegur grundvöllur fjárfestingar ómögulega. Og þar sem áætlanagerðin er ómöguleg hættir fjárfestirinn við og enginn fjárfesting á sér stað. Það leiðir líka til þess að engin atvinnumyndun á sér stað heldur. Og Ísland heldur áfram að ryðga.

(Og ekki láta ykkur detta það í hug að „rífa plásturinn af“ eins og Samtök Atvinnulífsins hafa stungið upp á þegar kemur að afnámi gjaldeyrishafta. Í júlí bar ég það saman við að „sprengja stíflu“ og drekkja öllu því sem fyrir neðan stífluna er. Svo gleymið því!)

Að tala um langtíma efnahagsbata á Íslandi er skáldskapur meðan áætlanir eru um að afnema höftin „einhvern veginn einn góðan veðurdag“. En gjaldeyrishöftin eru nákvæmlega ástæða þess að efnahagslífið er þó það sem það er. Að baki haftanna getur fólk áætlað það með sæmilegri vissu hvert gengi krónunnar verður í nánustu framtíð; að baki haftanna þarf ekki að horfast í augu við hver sannleikurinn er um hversu mikið af fjármagni myndi gusast út úr landinu um leið og þeim yrði lyft (með tilheyrandi óvissu um gengi krónunnar, vexti, verðbólgu, launakröfur, o.s.frv.); og að baki haftanna geta pólitíkusar talað um eitthvað annað því það er jú eftir allt „útlit fyrir hagvöxt í skammtímakortunum“. Að lyfta höftunum – einn, tveir og þrír – væri hins vegar á sama tíma efnahagslegt sjálfsmorð.

Gjaldeyrishöftin, eða réttara sagt óljós loforð stjórnmálamanna um að þeim verði aflétt „einhvern veginn einn góðan veðurdag“, eru ástæða þess að fjárfesting, grundvöllur langtíma velferðar á Íslandi, er eins lítil og hún er. En það er gjaldeyrishöftunum að þakka, á sama tíma, að gengi krónunnar er stöðugt og verðbólga lág. Eða eins og minn fyrrum kennari og yfirmaður orðaði það: „Þetta hangir allt saman á höftunum.“

Nú ætla ég að vera hispurslaus. Þar sem það eru óljós loforð stjórnmálamanna um afnám hafta „einhvern veginn einn góðan veðurdag“ sem halda aftur af fjárfestingu í hagkerfinu, vegna þeirrar gríðarlegu óvissu sem slík óljós loforð leiða af sér, er þá ekki einfaldlega betra að lýsa því yfir að höftin verða til staðar til frambúðar?

Ímyndið ykkur hvað myndi gerast. Hinn almenni fjárfestir sem vill fjárfesta í tækjabúnaði til þess að auka framleiðslugetu sína gæti þá loksins gert sæmilega kostnaðar- og tekjuáætlun af fjárfestingunni. Komi slík áætlangerð út í plús mun fjárfestirinn fjárfesta og þar með skapa bæði atvinnu og aukna framleiðslugetu innan hagkerfisins. Á sama tíma er gerð ný „Þjóðarsátt“ um hóflegar launahækkanir, lækkun vaxta og fjárfestingu í opinberu fjármagni. Gjaldeyrishöftin sjá til þess að gengi krónunnar og verðbólga, samhliða hóflegum launahækkunum, verði stöðug. Atvinna og atvinnutekjur skapast í gegnum fjárfestingu í bæði opinbera og einkageiranum. Stuðla ætti sérstaklega að fjárfestingu sem leiddi af sér aukinn útflutning á vörum og þjónustu.

Annaðhvort þessi sviðsmynd eða  áframhaldandi hálfkák um afnám hafta „einhvern veginn einn góðan veðurdag“.

Nú, eða þá að fara skiptigengisleiðina og með því þurrka upp mest allt vatnið (fjármagnið) sem stíflan (gjaldeyrishöftin) sér til að æði ekki niður fjallshlíðina og drekki þorpinu (hagkerfi Íslands) fyrir neðan hana. Þá mætti sprengja stífluna í loft upp án mikilla vandkvæða. En þótt það sé efnahagslega gáfulegast getum við gleymt því að ráðandi pólitísku öfl vilji fara þá leið.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.9.2014 - 11:15 - FB ummæli ()

Sæstrengur til Bretlands?

1.

„Túrbínutrix“ (orð sem ég heyrði fyrst af í smiðju Ómars Ragnarssonar) er þegar farið er í stórinnkaup á ákveðnum þætti af virkjanaframkvæmd sem notuð eru til að réttlæta stækkun á framkvæmdinni allri. Nafnið kemur af þeirri hugmynd að kaupa skuli stórar túrbínur fyrir litla virkjanaframkvæmd sem þegar hefur verið samþykkt. Svo er reiknað upp á nýtt og komist að því að til að framkvæmdin borgi sig (eða borgi sig enn betur) verður að stækka hana alla því túrbínurnar sem er búið að kaupa eru svo stórar og dýrar!

Hugmyndina er hægt að setja fram á almennari máta en bara varðandi túrbínur. Í stuttu máli er viljandi farið í mikinn kostnað í upphafi verks til að fá sem mestan „sokkinn kostnað“ í upphafi verks áður en það gefur eitthvað af sér. Hinn hái sokkni kostnaður í upphafi kallar eftir því að verkið allt verði stækkað til að eitthvað fáist út úr því. Sérstaðan er að það var alltaf „planið“ að fara þessa leið – þótt það geti að sjálfsögðu verið kynnt almenningi á allt annan hátt.

Þetta trix er upplagt þegar farið er í framkvæmdir sem kostaðar eru með annarra manna fé og/eða eru með ábyrgð hins opinbera. Sokkinn kostnaður – t.d. kaup á alltof stórum túrbínum m.v. upphaflegar áætlanir – er notaður til að réttlæta að henda meiri peningum á eftir þeim upprunalegu, einhverjum til hagsbóta. Þetta er ekki ósvipað því að tvöfalda upphæð 50/50 veðmáls í hvert skipti sem spilað er og tapa viljandi fyrstu 2-3 umferðunum „til komast í alvöru upphæðir“ ef svo mætti segja.

2.

Lagning sæstrengs er dæmi um hugsanlegt túrbínutrix, því miður. Hugmyndir – hvort þær verði að áætlunum er annað mál – eru fyrir 700-1200MW sæstreng. 1200MW sæstrengur er ekkert smáræði og jafngildir u.þ.b. framleiðslu TVEGGJA Kárahnjúkavirkjana (framleiðsluGETA Kárahnjúka er 690MW en vatnsaflsvirkjanir ná aldrei 100% nýtingu af framleiðslugetu).

3.

Það má reikna með að til að „nýta“ sæstreng sem getur flutt 1200MW muni verða mikill þrýstingur á frekari virkjanaframkvæmdir á Íslandi eftir að strengurinn hefur verið lagður: það verður að virkja meira til að nýta strenginn! Umframorkugetuframleiðsla í íslenska raforkukerfinu í dag er ca. 100-200MW. Til að nýta strenginn allan þyrfti þá að virkja upp á ca. 1-1,5 Kárahnjúkavirkjanir í viðbót (færi eftir flutningsgetu strengsins).

4.

Þá verður einnig að flytja alla orkuna að sæstrengnum og það kallar á meiriháttar framkvæmdir vegna styrkingu raforkuflutningskerfisins innan Íslands sjálfs. Net háspennulína myndi vera á Íslandi, allt til að flytja orkuna að sæstrengnum. Eitthvað segir mér að ferðamannaiðnaðurinn yrði ekki par hrifinn: ferðamenn koma ekki til Íslands til að horfa á háspennulínur.

5.

Ríkisstyrkir Bretlands vegna grænnar orku eru til 15 ára í senn fyrir hvert verkefni sem styrkt er. Styrkirnir fara eftir því hvert verkefnið er og miðast við að borga ákveðið verð fyrir „græna“ orku, sama hvert markaðsverðið er (ef markaðsverð er hærra en viðmiðunarverð borgar orkufyrirtækið til breska ríkissjóðsins, annars borgar ríkissjóður til orkufyrirtækisins). Í tilfelli vindorku er t.d. miðað við 90 pund fyrir hverja framleidda MWh. Þetta þýðir að framleiðanda vindorku er lofað 90 pundum/MWh, sama hvert markaðsverðið á orku er (þetta er reyndar ekki alveg svona einfalt en við skulum sleppa því að grafa okkur dýpra inn í breska orkugeirann og ríkisstyrkina á bakvið hann). Þetta loforð rennur út eftir 15 ár en eftir það fæst markaðsverð fyrir orkuna. Þessir styrkir koma til vegna umhverfismarkmiða, sem hafa verið sett í lög, um myndun gróðurhúsalofttegunda. Eingöngu 2020 markmiðið er lögfest, 2030 og 2050 markmiðin eru það ekki. Mjög nýlega var ríkisstyrkjunum breytt og þeir m.a. styttir úr 20 árum í 15. Þrýstingurinn kom frá Tories (sem eru að bregðast við vinsældum UKIP sem hafa náð meiri vinsældum en Tories þola en UKIP er á móti ríkisstyrkjunum).

6.

Ríkisstyrkirnir eiga EKKI við um græna orku sem er framleidd fyrir UTAN Bretland. Breti sem á 50 vindmyllur í Kína fær ekki pund í styrki frá breska ríkinu. En aftur á móti fær kínverskt fyrirtæki – eða norskt, eins og t.d. Statoil og Statkraft – styrki frá hinu opinbera í Bretlandi ef það byggir vindmyllu innan breska raforkukerfisins.

7.

Það er algjörlega óljóst hvert orkuverðið um strenginn yrði, það getur enginn slegið því föstu hvert það yrði. Þetta er algjört samningsatriði. En til viðmiðunar: samkvæmt evrópskri skýrslu um raforkumarkaðinn í álfunni var heildsöluverð fyrir raforku á breska markaðinum ca. 50-70 EUR/MWh um mitt ár 2013. Bretar geta líka flutt inn orku frá mið-Evrópu, þar sem heildsöluverð hefur verið ca. 40-70EUR/MWh síðastliðin ár, um sæstrengi sem þegar eru til staðar. Hvergi í Evrópu hefur orkuverð á heildsölumarkaði farið upp fyrir 100EUR/MWh síðastliðin ár (ef þetta er rangt hjá mér, endilega leiðréttið mig!). Ef Bretar bjóðast til að borga 150-200 USD (ca. 120-160 EUR) fyrir hverja MWh sem framleidd er fyrir utan breska raforkukerfið og flutt inn með sæstreng yrði ég frekar hissa. En þeir borga það glaðir, í 15 ár, ef þú framleiðir megavattstundina innan breska raforkukerfisins, líkt og í tilfelli Statoil/Statkraft! En aftur: þetta verður að ræða við Breta! Þangað til vitum við ekki hvað þeir vilja bjóða. En ekki búast við að þeir bjóði tvöfalt heildsöluverð á raforku í mið-Evrópu.

7.

Hvað varðar þá sem benda á að orkuverð muni pottþétt fara hækkandi og verða nægilega hátt til að það skipti ekki máli þótt ríkisstyrkir breskra skattgreiðanda renni út er ágætt að hafa í huga að á árunum 1990-2005 lækkaði raforkuverð í Bretlandi um 25% (að raunvirði, stóð nokkurn veginn í stað að nafnvirði). Á hverjum auglýsingasnepli fyrir fjárfestingar í verðbréfum stendur að „ávöxtun í fortíð segir ekki til um ávöxtun í framtíð“. Það er ágætt að hafa það í huga öllum stundum.

8.

Burtséð frá a) lagningu sæstrengsins sjálfs þá þarf að b) leggja net strengja innanlands að sæstrengnum og c) virkja sem ígildir 1-1,5 Kárahnjúkavirkjunum til að „nýta“ strenginn. Ég hef ekki skoðað það sérstaklega hvað þetta á allt saman að kosta en ég spyr: ef hagkerfið ofhitnaði á árunum þegar Kárahnjúkar og meðfylgjandi framkvæmdir stóðu yfir, yrði þetta skárra?

9.

Það eru allar líkur á því að raforkuverð til almennings á Íslandi myndi hækka. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, benti réttilega á þetta á orkuráðstefnu í London fyrir ári síðan. Hversu mikil hækkunin yrði veit enginn en algengt raforkuverð til almennings hér í Bretlandi er í kringum 0,12 pund (ca. 23 krónur) fyrir kWh en þetta er þó breytilegt eftir landssvæðum og milli orkufyrirtækja (hér er tafla sem sýnir verðin í UK án vsk). OR býður raforku fyrir ca. 7 krónur/kWh með vsk.

10.

Í stuttu máli sagt: stígum varlega til jarðar. En það kostar vonandi ekkert mikið fyrir Íslendinga að æfa enskuna og tala við Breta. Bara ekki gleyma sér, það er ekki gulllykt í loftinu enn.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 17.9.2014 - 11:29 - FB ummæli ()

Áburður, atvinna og unga fólkið

Stjórnmálamenn skortir vanalega ekki hugmyndir til að búa til störf og lækka atvinnuleysi (og stuðla þar með að eigin endurkjöri). En hugmynd Framsóknarmanna um að byggja áburðarverksmiðju er líklega ein af þeim hugmyndum sem seint myndi komast hátt á lista hugmynda raðað eftir því hversu áhrifaríkar þær eru við atvinnusköpun að teknu tilliti til kostnaðar: 150-200 bein störf er ekki mikið. En ef hugmyndin með uppbyggingu íslenskrar áburðarverksmiðju er „að skapa ný vel launuð störf hér á landi til að vinna bug á atvinnuleysi, til að laða brottflutta Íslendinga aftur heim og til að vekja ungum Íslendingum von í brjósti um að stjórnvöld ætli sér að skapa þeim tækifæri og atvinnuöryggi í framtíðinni“ þá get ég bent á aðra betri hugmynd.

Atvinnuleysi og hið opinbera

Fyrst skulum við átta okkur á því að það er venjulega einkageirinn sem skapar „vel launuð störf“. Einkageirinn skapar hins vegar ekki starf fyrir starfsmann nema eftirspurn sé eftir því sem viðkomandi starfsmaður mun framleiða. Eftirspurn skapast vegna þess að fólk hefur tekjur og einkageirinn mun þá og því aðeins viðhalda eða þenja út hringrás tekna innan sjálfs síns ef væntingar eru fyrir hendi að hægt sé að selja framleiðsluna sem einkageirinn framleiðir. Þessar væntingar, sem eru svo mikilvægar fyrir ákvarðanir innan einkageirans þegar kemur að ráðningu starfsmanna, eru undir miklum áhrifum af hagtölum á borð við atvinnuleysi. Hátt atvinnuleysi þýðir að fólk innan hagkerfisins hefur lægri tekjur en ella og því er útlit fyrir lægri sölutekjur en ella – því fólk hefur ekki efni á því að kaupa hluti. Hátt atvinnuleysi þýðir m.ö.o. að einkageirinn dregur saman seglin sem í alvarlegustu tilvikunum leiðir til þess að atvinnuleysi hækkar enn frekar: neikvæð afturverkun (e. negative feedback) myndast þar sem atvinnuleysi nærist á sjálfu sér.

Þetta er, í mjög stuttu máli, það sem gerðist í Kreppunni miklu. Til að koma í veg fyrir að neikvæða afturverkunin nái fótfestu er það almennt viðurkennt í dag að viðhalda verður tekjum innan hagkerfisins þegar atvinnuleysi eykst. Þetta er gert með opinberum aðgerðum, s.s. atvinnuleysisbótum. Önnur aðferð eru opinberar framkvæmdir – eins og t.d. að byggja áburðarverksmiðju – en þær eru stundum síður en svo sérstaklega gáfulegar.

Ekki áburð heldur beina atvinnusköpun

Þriðja leiðin og sú allra áhrifaríkasta er að hið opinbera búi til störfin beint eða verði það sem er kallað „Vinnuveitandi af síðustu sort“ (e. employer of last resort) sem ég ætla hér að skammstafa VISS.

VISS hefur verið notað á margvíslegan hátt í gegnum tíðina og hægt er að finna dæmi um hugmyndina a.m.k. aftur til 17. aldar (hjá einum af upphafsmönnum laissez-faire stefnunnar í Englandi, William Petty – þótt hugmyndir hans um atvinnusköpun hafi ekki alltaf verið í gáfulegri kantinum). Frægust eru öll prógrömmin sem voru sett upp af Roosevelt á kreppuárunum (sjá t.d. Works Progress Administration, Civil Conservation Corps, National Youth Administration, Rural Utilities Service). Í Argentínu var Plan Jefes  y Jefas sett upp árið 2002 og þótt það hafi verið takmarkað að stærð (hver sem er gat ekki fengið vinnu í gegnum það) voru heildaráhrifin á atvinnuleysi og fátækt mjög jákvæð (sjá t.d. Tcherneva og Wray, 2005). Á Indlandi er National Rural Employment Guarantee rekið.

Á Íslandi væri hægt að fjármagna VISS prógramm með atvinnuleysisbótum í dag. Ca. milljarður er greiddur út í atvinnuleysisbætur á hverjum mánuði og þessa fjármuni mætti einfaldlega nota til að borga fólki fyrir að vinna í staðinn fyrir að vera atvinnulaust. Sé miðað við að VISS prógram myndi borga laun ekki fjarri grunn neysluviðmiðum mætti borga 4.000 manns (til samanburðar voru 6.000 einstaklingar atvinnulausir í júní síðastliðnum) 250.000 á mánuði (heildarlaunakostnaður einn milljarður og til samanburðar eru grunnatvinnuleysisbætur 179.000 á mánuði) fyrir ýmis konar störf sem kæmi samfélaginu vel. Nokkur dæmi um slík störf væru:

– uppgræðsla lands

– hreinsun gatna, garða og lands

– viðhald í kirkjugörðum

– uppbygging stíga og annarrar aðstöðu við helstu ferðamannastaði Íslands

– mönnun æskulýðsstöðva

– mönnun á bílastæðagæslu og fleira tilfallandi þegar kemur að atburðum á borð við íþróttaviðburði, tónlistarviðburði o.fl.

– skrásetning sagna úr héruðum (sjálfur kem ég úr Skagafirði og hefði gaman af því ef allar sögurnar úr þeirri sveit væru til á prenti/á rafrænu formi og ég þykist vita að svipað sé uppi á teningnum í öðrum landshlutum)

– viðhald á húsnæði hins opinbera

– gæsla við leik- og grunnskóla, s.s. við gangbrautir

– lagning og uppbygging vega, stíga og annarra innviða

– smalanir búfjár á haustin

– menntun starfsfólks, s.s. viðhald hæfileika eða námskeið við atvinnuleit svo viðkomandi einstaklingur finni vinnu fyrr

– … o.s.frv.

Allt eru þetta verkefni sem krefjast vinnuafls og sum verkefna væri hægt að sérsníða að hæfileikum og kunnáttu viðkomandi einstaklings: mannfræðingur gæti fengið vinnu í gegnum VISS prógramm við að skrá sagnir úr héruðum meðan smiður gæti fengið vinnu við að viðhalda húsnæði hins opinbera. Þá er það vitanlega ekki ætlunin að þetta sé framtíðarstarf heldur eru þetta skammtímastörf sem hægt er að vinna meðan leitað er að betri vinnu í einkageiranum, vinnu sem myndi borga betur en 250.000 á mánuði.

Athugið að kostnaður væri hverfandi eða enginn fyrir hið opinbera því mun minna, eða ekkert, væri greitt í atvinnuleysisbætur á meðan. Og til að sjá hversu áhrifaríkt VISS prógramm væri við atvinnusköpun má nefna að uppbygging áburðarverksmiðju á að kosta ca. 120 milljarða og skapa 150-200 bein störf. 120 milljarðar á núvirði myndu fjármagna VISS prógramm fyrir 4.000 manns í 13 ár m.v. 250.000 krónur í (raun)laun á mánuði.

Áhrifin af VISS prógrammi

Atvinnuleysisbætur hafa þann kost að þær stoppa neikvæðu afturvirknina svo atvinnuleysi hættir að nærast á sjálfu sér. VISS prógramm myndi gera nákvæmlega hið sama. Kostirnir við VISS prógramm umfram atvinnuleysisbætur eru hins vegar margir aðrir.

Í fyrsta lagi er hæfileikum fólks viðhaldið og þeir jafnvel auknir í staðinn fyrir að viðkomandi geri ekki neitt á meðan hann leitar – eða leitar ekki – að vinnu. Þetta er jákvætt í augum einkarekins fyrirtækis sem vill ekki ráða til starfa starfsfólk sem hefur takmarkaða reynslu eða þekkingu. Þetta er sérstaklega mikilvægt í tilviki ungs fólks.

Í öðru lagi er komið í veg fyrir að fólk skrái sig á atvinnuleysisbætur í von um „frían pening frá ríkinu“. Í VISS prógrammi er unnið fyrir laununum en þau eru líka nægilega há til að sjá viðkomandi farborða (m.v. neysluviðmið).

Í þriðja lagi er hægt að notast við VISS prógramm til að framkvæma samfélagslega jákvæð störf sem einkageirinn sér sér ekki hag í að framkvæma: hreinsun gatna og garða, uppbygging innviða á borð við vegi, rafmagnskerfi, o.s.frv., gæsla ýmis konar í samstarfi við löggæslu og björgunarsveitir, o.fl.

Í fjórða lagi er ALLTAF hægt að finna vinnu í gegnum VISS prógramm og þar sem tekjurnar eru miðaðar við lágmarksgrunnframfærslu kemur prógrammið í veg fyrir sára fátækt. Á sama tíma, vegna þess að launin eru aðeins við grunnframfærslu, er fráleitt að halda því fram að VISS prógramm væri verðbólguhvetjandi, sérstaklega ef dregið er úr útgreiðslu atvinnuleysisbóta á sama tíma.

Í fimmta lagi fer fólk út fyrir hússins dyr, ef svo mætti segja. Það einangrast ekki, það tekur þátt í samfélaginu og finnur tilgang í lífinu þrátt fyrir skammtíma erfiðleika í formi atvinnumissis. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á samband atvinnuleysis og andlegrar vellíðan og oftar en ekki er orsakasamhengið að atvinnuleysi veldur andlegri vanlíðan (sjá t.d. Isaksson, 1989; Paul & Moser, 2009; Murphy & Athanasou, 1999). Komið væri í veg fyrir þessi neikvæðu áhrif af atvinnuleysi með VISS prógrammi.

Að lokum er VISS prógramm jákvætt fyrir einkageirann. Sjái einkageirinn að ákveðin grunntrygging er á tekjum einstaklinga í gegnum VISS prógramm er væntingum einkageirans um framtíðarsölutekjur viðhaldið. Einkageirinn sér sér því hag í því að þenjast út og ráða fólk til þess að hægt sé að framleiða þær vörur sem væntingar eru fyrir að hægt sé að selja, einmitt vegna þess að tekjum er og verður viðhaldið fyrir ofan ákveðið lágmark vegna VISS prógrammsins. Laun innan einkageirans eru hærri en innan VISS prógrammsins – sem miðar við grunnframfærsluviðmiðið – og þar með rætist draumurinn að baki hugmyndinni um uppbyggingu áburðarverkmiðju um „ný vel launuð störf“ eins og sagt er í tillögunni um þingsályktun um stofnun áburðarverksmiðju. Einkageirinn sér um að skapa þessi nýju vel launuðu störf.

Í stuttu máli sagt: ekki byggja áburðarverksmiðju! Notum frekar peningana í beina atvinnusköpun. Það er áhrifaríkara, ódýrara og samfélagslega jákvæðari aðgerð.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 27.8.2014 - 10:46 - FB ummæli ()

Í tilefni af verðtryggingaráliti EFTA

Blaðamaður hjá 365 hefur fengið leyfi til þess að fjalla um ráðgefandi álit EFTA dómsstólsins um verðtrygginguna sem væntanlegt er á morgun. Ég ætla að segja ykkur frá því strax að ef álitið er á þann veg að verðtrygging sé ólögleg samkvæmt tilskipun um óréttmæta skilmála í neytendasamningum og skoða þarf ca. 1.500 milljarða af verðtryggðum skuldum á Íslandi þá er engin hætta á því að ríkissjóður fari á hausinn.

Ástæðan er sú að ríkissjóður og Seðlabanki Íslands geta skrifað niður eins margar krónur niður á blað og þeim lystir og búið þær til með því einu að stimpla nokkrar tölur inn í tölvu. Þetta var t.d. gert „í massavís“ árið 2008 þegar Seðlabankinn fékk aukið eigið fé „frá“ ríkissjóði upp á 270 milljarða í formi ríkisskuldabréfs (ríkissjóður fékk í staðinn ástarbréf bankanna). En enginn hafði borgað þessa 270 milljarða í skatta. Þeir voru heldur ekki millifærðir si svona frá ríkissjóði til Seðlabankans. Það eina sem var gert var að ríkisskuldabréfið var búið til með því einu að stimpla það inn í tölvu á Kalkofnsvegi 1 og eins og hefur verið rætt má þetta skuldabréf vera með hvaða vöxtum og lánstíma sem er, þar með talið 0% og 1000 ár.

Hið sama yrði upp á teningnum ef ríkissjóður þyrfti að redda t.d. Íbúðalánasjóði út úr sínu gjaldþroti (gefið að svokölluð ríkisábyrgð á þeirri stofnun haldi) vegna ólögmæti verðtryggingar. Ríkissjóður gæti að sama skapi búið til eins margar krónur og hann vildi ef það þyrfti t.d. að bjarga bankastofnunum frá eiginfjárvandræðum vegna ólögmæti verðtryggingar á neytendalánum.

Það er svo önnur spurning hverjar yrðu aðrar efnahagslegar afleiðingar af ólögmæti verðtryggingar á neytendalánum. Blessunarlegar erum við nú þegar með ágætis dæmi til að leiðbeina okkur þegar við hugsum um svarið við þeirri spurningu: ólögmæti gengistryggðu lánanna. Ekki virðist það ólögmæti hafa haft neinar stórkostlegar neikvæðar efnahagslegar afleiðingar. Almennt má raunar telja afleiðingarnar frekar jákvæðar: minni skuldavandræði einstaklinga og fyrirtækja, meiri vilji til neyslu og fjárfestingar, o.s.frv.

Ég ætla að leyfa mér að halda því fram, þar til annað kemur í ljós, að það yrði blessun fyrir íslenskt efnahagslíf ef verðtrygging á neytendalánum yrði dæmd ólögleg. Mótvægisaðgerðir þyrftu vafalaust að vera einhverjar (ÍLS, hugsanlega einhverjar bankastofnanir, aukin útgáfa verðtryggðra ríkisskuldabréfa) en á heildina litið yrði niðurstaðan vafalaust jákvæð.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 17.8.2014 - 15:01 - FB ummæli ()

Leikreglur, hagkerfið… og Landsnet

Einhverjir hafa komið að máli við mig eftir síðasta pistil þar sem ég benti á að „stofnanaleg umgjörð hagkerfisins“ (SUH) skiptir máli fyrir gengi krónunnar – og raunar gengi hagkerfisins alls. Það virðist hins vegar vera á reiki hvað ég er að meina með „stofnanalegri umgjörð hagkerfisins“. Mig langaði því til að notast við nýlegt og ákallandi dæmi til að útskýra hugtakið og mikilvægi þess betur.

Hvað er SUH?

SUH er samansafn „leikreglna“. Eins og allir þeir sem einhvern tímann hafa leikið sér eða stundað íþrótt vita þá skipta leikreglur leiksins/íþróttarinnar höfuðmáli. Leikreglurnar skilgreina hvernig leikmenn eiga að haga sér og þær skilgreina markmið leiksins. Örlitlar breytingar á leikreglum geta gjörbreytt leiknum, jafnvel svo mikið að um nýjan leik er að ræða. Dæmi er t.d. bandarískur ruðningur sem þróaðist út frá rugby í Englandi. Í ensku rugby er bannað að henda boltanum fram og upphaflega var sú leikregla í bandarískum ruðningi – og var munurinn á leikjunum því ekki mikill. Allt breyttist hins vegar þegar slík sending fram á völlinn var leyfð og bandarískur ruðningur varð í raun til.

Annað dæmi er þegar konur fengu kosningarétt, þá breyttust allar leikreglur í bæði stjórnmálum og efnahagsmálum. Eða þegar þrælahald var bannað. Eða þegar almenningur í Bretlandi fékk vald til að hafa aukin áhrif á stefnu stjórnvalda eftir „Glorious Revolution“ í Bretlandi á 17. öld. Eða þegar Ísland átti að taka upp nýja stjórnarskrá – sem var kæft. Allt eru þetta dæmi um breytingar á leikreglum hag- og stjórnkerfisins en oft er línan þar á milli ógreinanleg. Allt eru þetta dæmi um breytingar á SUH.

En hvernig á SUH að vera?

Svarið við þessari spurningu fer eftir því hver þú ert. Ef þú ert aðili sem hefur hag af því að leikreglurnar séu eins og þær séu eða verði breytt þannig að þú fáir aukin efnahagsleg eða pólitísk völd viltu skiljanlega að reglurnar séu þannig. En það er ekki þar með sagt að það sé best fyrir þjóðina alla, þ.e. alla leikmennina. Þótt þú græðir á leikreglunum geta þær verið, svo ekki sé fastar að orði komist, óheppilegar fyrir aðra.

Í eins stuttu máli og ég get ímyndað mér að koma því á blað: grundvallarviðmiðið er að leikreglurnar – SUH – eiga að vera sanngjarnar og siðferðislega réttlátar. Þær eiga að taka á öllum aðilum, stórum sem smáum, á sama hátt og veita öllum leikmönnum (þjóðin) sömu tækifæri (t.d. „einn maður, eitt atkvæði“ sem er brotið á Íslandi). Enginn á að fá pólitíska meðhöndlun vegna þess að hún/hann þekkir einhvern og enginn á að fá aukin völd samkvæmt leikreglunum nema allir aðrir leikmenn (þjóðin) ekki eingöngu samþykki það heldur hafi möguleika á að breyta skoðun sinni hvenær og hvernig sem er. Að hafa framkvæmda-, löggjafar-, dóms- eða einhvers konar ákvörðunarvald innan stjórnkerfisins á ekki að fela í sér aukna möguleika á því að koma sér upp efnahagslegum auði né heldur á slíkt að bjóða upp á að auka auð tengdra aðila viðkomandi á kostnað annarra leikmanna. Þá á efnahagslegur auður ekki að koma fólki til þessara valda. Stofnanir hins opinbera skulu bera hag allra leikmanna í brjósti en ekki sinn eigin, sinna forstöðumanna eða tengdra aðila. Opinberar stofnanir mega aldrei hafa ákvörðunarvald án stöðugs utanaðkomandi aðhalds frá annaðhvort leikmönnum sjálfum eða öðrum opinberum stofnunum því þá er stór hætta á að slíkt vald verði misnotað. Aðgangur almennings að valdhöfum og framkvæmdaaðilum opinberrar þjónustu skal vera skýr, opinber og áhrifaríkur.

Dæmi: Landsnet og fyrirhuguð lagabreyting á raforkulögum

Nú langar mig til að nefna dæmi um fyrirhugaða breytingu á leikreglum hagkerfisins sem brýtur í bága við sum af grundvallarviðmiðunum hér að ofan. Þetta dæmi er fyrirhuguð lagabreyting á raforkulögum. Samkvæmt þessum breytingum mun eftirfarandi gerast:

  • Landsnet fær aukið ákvörðunarvald en minna aðhald frá bæði þjóðinni allri og öðrum opinberum stofnunum (Orkustofnun í þessu tilfelli). Þessu er best lýst með þeirri hugmynd í fyrirhuguðum lagabreytingum um kerfisáætlun sem Landsnet skal gera og framkvæma. Þessi kerfisáætlun verður gerð opinber og opin fyrir athugasemdum aðeins í byrjun en eftir að Orkustofnun hefur veitt leyfið fyrir henni er Landsnet með nánast öll spil á hendi.
  • Orkustofnun getur krafist „þess að [Landsnet] geri  breytingar á kerfisáætlun, eftir því sem stofnunin telur þörf á.“ En ekkert er sagt um forsendur þess hvenær Orkustofnun myndi krefjast þessa. Þess aukin heldur er Orkustofnun ekki beint undir almenning komin heldur ráðherra – sem almenningur nota bene skipar ekki. Áhrifamáttur almennings á Landsnet er því orðinn að svo gott sem engu (sjá einnig síðasta punktinn í þessum lista).
  • „Greining valkosta“ í framkvæmdaáætlun (til 10 ára) er eins og Landsnet sér hana fyrir sér, enginn annar. Miðað við þá staðreynd að Landsnet ofmat kostnað vegna lagningu jarðstrengja um Voga og nálæg sveitarfélög um ca. 300-500% má efast um að Landsnet sé, eitt og óstutt, í stakk búið til að gera þessa „greiningu valkosta“ eins og það sér hlutina.
  • Eftir að framvæmdaáætlun, gerð af Landsneti, hefur verið stimpluð frá Orkustofnun fá sveitarfélög enga möguleika á að breyta henni – nema í gegnum Orkustofnun sem, aftur, lýtur ekki þeirra vilja heldur ráðherra. Raunar er það svo að Landsnet fær hluta ákvörðunarvalds sveitarfélaga í hendurnar samkvæmt drögunum: „Sveitarfélögum ber við næstu endurskoðun aðalskipulags, eigi síðar en innan fjögurra ára frá samþykkt kerfisáætlunar, að samræma skipulagsáætlanir vegna verkefna í staðfestri 10 ára kerfisáætlun.“ Ef þetta hefði verið raunin í Eyjafirði í dag hefði Landsnet getað hunsað óskir íbúa og sveitarfélagsins og lagt háspennulínuna beint fyrir framan Akureyrarflugvöll – því þannig var kerfisáætlunin – með tilheyrandi flugslysahættu (sjá t.d. frétt RÚV um baráttu sveitarfélaga og íbúa í Eyjafirði við Landsnet).

Athugasemdir almennings við gjörðir og áætlanir Landsnets verða takmarkaðar miðað við það sem þær eru í dag. Eftir breytingu er eini möguleiki almennings að hafa áhrif á stefnu Landsnets með athugasemdum við kerfisáætlun. Í dag fær almenningur mun fleiri tækifæri (kerfisáætlun, drög að tillögu að matsáætlun, tillaga að matsáætlun…).

Landsnet verður líka erfiðara að leiðrétta þegar það tekur upp á því að mistúlka lög og reglur sem um það gilda. Frægasta vitleysa Landsnets á þessu sviði er túlkun þess á raforkulögum sem fyrirtækið skal framfylgja. Landsnet heldur því fram að „skylda [sé] lögð á Landsnet að byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku.“ En þetta er kolrangt. Sannleikurinn er að skylda er lögð á Landsnet að byggja flutningskerfið upp á þjóðhagslega hagkvæman hátt (1.mgr. 1. gr. raforkulaga, nr. 65/2003) að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku.

Munurinn á „hagkvæmum hætti“ og „þjóðhagslega hagkvæmum hætti“ er stórkostlegur! „Hagkvæmur háttur“ á við Landsnet eitt og sér og má einfaldlega túlka sem hagnað fyrirtækisins. Þjóðhagslega hagkvæmur háttur á við Landsnet og þjóðina alla! Síðara hugtakið innifelur þar með neikvæð og jákvæð áhrif af starfsemi Landsnets á þjóðina alla sem og hagnað Landsnets.

Munurinn á „hagkvæmum hætti“ og „þjóðhagslega hagkvæmum hætti“ er því svipaður og munurinn milli nettó og brúttó. Oft hef ég spurt mig hvernig Landsnet hefur náð að gera þessa grundvallarskissu.

Í heildina á litið er því þessi tillaga að breytingum á leikreglum hagkerfisins þvert á það sem grundvallarviðmiðið ætti að vera. Landsnet fær aukið ákvörðunarvald en þarf að taka minna tillit til sjónarmiða almennings og annarra opinberra stofnana en áður. Landsnet fær raunar svo mikið ákvörðunarvald að það er sett hærra í goggunarröðina en ákvörðunarvald sveitarfélaga þegar kemur að flutningskerfi raforku. Í stuttu máli er leikreglunum breytt til hins verra með tilheyrandi neikvæðum efnahagslegum afleiðingum.

Þetta er bara örlítið dæmi um hversu víðfem áhrif „leikreglnanna“ eru. Það er fátt í hagkerfinu sem er annaðhvort ekki hluti af leikreglunum sjálfum – hluti af stofnanalegri umgjörð hagkerfisins – eða bein afleiðing þeirra. Hagkerfið, þ.e. leikurinn,er skilgreint innan veggja þessara leikreglna. Þess vegna skipta leikreglurnar svona miklu máli fyrir efnahagslega þróun.

Þess má geta að atvinnuvegaráðuneytið tekur við athugasemdum frá almenningi – mér og þér – við frumvarpsdrögin til og með 20. ágúst. Hafiði áhuga á því að leikreglur Íslands séu ekki ósanngjarnar, hygli ekki sumum á kostnað annarra og virði ekki álit almennings að vettugi skuluð þið endilega senda ráðuneytinu línu (postur@anr.is) með athugasemdum varðandi frumvarpsdrögin. Og munið orð Montesquieu:

Harðstjórn prins í fáræðistjórn er ekki jafn hættuleg fyrir velferð almennings og sinnuleysi borgara í lýðræðisríki.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 15.8.2014 - 11:22 - FB ummæli ()

Hinn bitri sannleikur um krónuna

Eftirfarandi innslag er lengri útgáfa af grein sem birtist í nýjasta tölublaði Kjarnans. Kafað er dýpra í grundvöll gjaldmiðla og hvernig einkageirinn fylgir hinu opinbera eftir. Einnig er rætt lítillega betur um vaxtamuninn milli hagkerfa í samhengi við landsframleiðslu á mann.

Vonandi er örlitlu kjöti bætt á beinin samanborið við styttri útgáfu greinarinnar í Kjarnanum. Þó má fjalla mun dýpra um málefnið, t.d. áhrif seðlabanka á lengri enda vaxtarófsins og hvernig seðlabankinn getur stjórnað langtímavöxtum eins og hann vill með peningamálastefnunni. Þá er ekkert farið í hvað kæmi í staðinn fyrir peningamálastefnu keyrða á stýrivaxtabreytingum en skynsamlegasti kosturinn er líklega margnotuð aðferð seðlabanka í gegnum tíðina: lánastýring (sem m.a. hefur verið kölluð „credit controls“ á ensku en fleiri nöfn eru notuð fyrir hugtakið). Lánastýring getur komið í mörgum formum og myndum og getur farið út um þúfur eins og aðrar aðferðir við peningamálastjórnun. En fáar aðrar aðferðir eru þó jafn áhrifaríkar þegar á hólminn er komið.

———————

Krónan, líkt og langflestir gjaldmiðlar, er gefin út af hinu opinbera.  Grundvöllurinn fyrir tilvist hennar er sú sama og flestra annarra gjaldmiðla í gegnum tímann: þú, íbúi Íslands, borgar skattana þína í krónum. Ef þú borgar þá ekki ferðu í steininn og þar sem fæstir vilja enda í tugthúsinu býr þetta til eftirspurn eftir krónum. Þetta gerir það að verkum að einföld bókhaldsfærsla á borð við innistæðu á tékkareikningi, áður gerð á leirtöflur en nú á tölvuskjá, verður eftirsóknarverð þar sem innistæðu þessa má nota sem greiðslu fyrir skattaskuldum yðar.

Þess vegna er krónan til: hið opinbera segir að þú skulir borga skattana þína í krónum ellegar enda í grjótinu. Einkaaðilar, sem þurfa að borga skatta, fylgja svo hinu opinbera eftir og setja upp samninga þar sem upphæðir eru í krónum, t.d. verð mjólkurlítra út í búð. Bankar, sem eru milligönguaðilar milli hins opinbera og skattborgara, búa svo til bókhaldsfærslur, í krónum, á sínum efnahagsreikningum og hafa þar með áhrif á magn króna í umferð sem samþykktar eru sem fullnaðargreiðsla milli einkaaðila: debetkortafærsla er safn bókhaldsfærslna á efnahagsreikningum bankastofnana kaupanda og seljanda þeirrar vöru sem greitt er fyrir.

Eftir sem áður verða bankar alltaf að hafa „forða“ í formi eigin innistæða hjá Seðlabanka Íslands. Hafi þeir það ekki geta þeir ekki verið milligönguaðilar í viðskiptum manna á milli því það eru þessar innistæður sem ganga milli banka þegar viðskiptavinir þeirra sveifla debetkortinu. Eini útgefandi þessara innistæða er Seðlabanki Íslands, þ.e. hið opinbera. Þessar innistæður eru bókhaldsfærslur og í krónum. Þar sem þessar krónur, líkt og aðrar, eru bókhaldsfærslur getur hið opinbera búið til eins mikið af krónum og það vill hvenær sem það vill, eins og t.d. sást þegar Seðlabanki Íslands fékk 270 milljarða nýtt eigið fé, í formi ríkisskuldabréfs, árið 2008. Þessar krónur komu hvergi, enginn hafði nýverið borgað þær í skatta og enginn prentaði þær. Þær voru einfaldlega stimplaðar inn í tölvu á Kalkofnsvegi 1. En þótt myndun króna fyrir hið opinbera sé eins auðveld og raun ber vitni er sannleikurinn samt sá að bankar gefa út ca. 95% af þeim krónum sem notaðar eru sem fullnaðargreiðsla í viðskiptum manna á milli á Íslandi. Hlutfallið er svipað í mörgum öðrum löndum.

Allt þetta er ekkert nýtt og ekkert framandi. Og allt þetta er mjög svipuð grundvallaruppbygging að baki gjaldmiðli og uppgjörskerfi viðskipta og í hverju öðru landi, stærsta spurningin er hvort viðkomandi opinberu stofnanir geti búið til bókhaldsfærslurnar að vild eða ekki, þ.e hvort hið opinbera hafi fullveldi þegar kemur að útgáfu peninga. Sem dæmi er Bretland fullvalda ríki þegar kemur að útgáfu eigin peninga, þ.e. pund, en það eru evrulöndin ekki því hinn endanlegi útgefandi evrunnar er Seðlabanki Evrópu, sem er fjölþjóðastofnun. Ísland er fullvalda ríki þegar kemur að útgáfu krónunnar.

Krónan er því eins og hver annar gjaldmiðill. Hún er gjaldmiðill því hið opinbera segir að hún sé það, þ.e. með henni og henni einni skalt þú borga skatta á Íslandi. Það er því umhugsunarefni hví Íslendingar virðast vilja kenna þessum gjaldmiðli um hitt og þetta sem öðrum gjaldmiðlum er ekki kennt um. Grein Bjarna Janusarsonar í Kjarnanum 7. ágúst síðastliðinn var góð að því leyti að í henni kristölluðust svo mörg af þeim atriðum sem krónunni er kennt um. Ég ætla að nefna eftirfarandi og reyna að útskýra hví þau atriði eru röng.

Krónan og vextir

Röksemdafærslan fyrir því að krónan hafi áhrif til hækkunar á vaxtastig á Íslandi er í stuttu máli sú að þar sem svo fáir eru að nota krónuna (hagkerfið er svo lítið) þá er eftirspurn eftir henni lítil og vextir verða að vera hærri til að lokka aðila inn í þá stöðu að eiga krónur. Væri þetta raunin ætti þetta að gilda í öðrum hagkerfum líka, þ.e. lítil hagkerfi, með eigin mynt, ættu að vera með hærri vexti en stór hagkerfi með eigin mynt.

Raunin er að fylgnin þar á milli er svo veik – sjá Mynd 1 – að hættulegt og jafnvel beinlínis rangt væri að halda því fram að þetta væri almennt reglan.

Mynd 2 sýnir raunar að sambandið er mun sterkara milli landsframleiðslu á mann og vaxtastigs: því meira sem framleitt er á haus í hagkerfinu, því lægri eru vextirnir. Uppbyggilegt stofnanalegt umhverfi hefur mikilvæg áhrif á báða þessa þætti og því er ekki ólíklegt að fylgnin sem sést á Mynd 2 sé ekki að lýsa ströngu orsakasamhengi milli þessara þátta heldur kristöllun á mismunandi stofnanalegu umhverfi landanna sem um ræðir. Sum löndin hafa einfaldlega komið sér upp stofnanalegu umhverfi sem er jákvætt fyrir bæði vaxtastig og meðaltekjur (landsframleiðslu á mann). Þótt vissulega verði að hafa í huga hugsanlegt tvíhliða orsakasamhengi milli þessara þátta þá væri þetta í góðu samræmi við niðurstöðu Acemoglu og Robinson (2013): rík lönd hafa komið sér saman um stofnanalega þætti sem styðja við einkaframtak, pólitíska og efnahagslega miðstjórn sem er byggð á sanngirni og óskum heildarinnar en ekki háværra þrýstihópa, almenna framþróun og ódýra en hæfilega mikla fjármögnun til þeirra sem eiga hana skilið (en ekki vegna þess að þeir eiga „vini“ á réttum stöðum). Í stuttu máli það sem almennt mætti kalla „sanngjarnt“og „siðferðislega þroskað“ (e. fair and moral) þjóðfélag.

vextir og landsframleidsla_mynd1 vextir og landsframleidsla_mynd2 Ath.: Unnið upp úr tölum frá OECD. Gögn fyrir 2012 og 2013, USD á PPP, grunnár 2005. Ísland er litað rautt. Vextir langtímaríkisskuldabréfa leiðréttir fyrir verðbólgu. Eingöngu unnið með lönd sem notast við eiginn gjaldmiðil sem ekki er notaður í gjaldeyrisforðum annarra landa (USD, EUR, GBP, JPY, CHF sleppt) líkt og raunin er með krónuna. Löndin eru, í minnkandi röð eftir vöxtum: Ungverjaland, Síle, Nýja Sjáland, Ísrael, Svíþjóð, Kórea, Ísland, Kanada, Ástralía, Danmörk, Tékkland, Noregur.

Allt í allt sýnir þetta að minnsta kosti að að krónan, sem gjaldmiðill, hefur hverfandi og líklegast engin áhrif á vaxtastig á Íslandi.

En ef gjaldmiðillinn hefur engin áhrif á vexti, hvað er það þá? Og hvað eru vextir?

Vextir eru, í grundvallaratriðum og burtséð frá mikilvægum stofnanalegum áhrifum, það verð sem þú vilt fyrir að gefa eftir tafarlaus yfirráð yfir ákveðinni upphæð reiðufjár. Þú færð ekki vexti fyrir það að eyða ekki peningunum þínum, þ.e. spara, því þú getur ákveðið að spara sömu upphæð í formi reiðufjár eða með því að lána fyrirtæki úti í bæ. Sparir þú ákveðna upphæð í formi reiðufjár geturðu eytt viðkomandi upphæð hvenær sem þú vilt, sem veitir þér hugarró og getu til að mæta ófyrirsjáanlegum útgjöldum. Þetta getur þú ekki ef þú lánar til fyrirtækis úti í bæ því þú verður að bíða eftir því að lánið verði greitt til baka. Þess vegna heimtar þú vexti af láninu til fyrirtækisins en þú færð enga vexti þegar þú sparar í formi reiðufjár: þú færð vexti fyrir að samþykkja að gefa eftir þá getu þína að geta eytt peningunum þínum hvenær sem þér dettur í hug eða hvenær sem þú virkilega þarft þess.

Keynes, sem var peningahagfræðingur umfram allt, benti réttilega á skammtíma vextir gætu verið hverjir sem er. Fyrir utan 4. áratug síðustu aldar, þegar hið opinbera fylgdi ráðgjöf Keynes og sýnt var fram á í verki að hann hafði rétt fyrir sér, hefur kreppan eftir 2008 sýnt hið sama: stýrivextir, þ.e. skammtímavextir, víðsvegar um heiminn eru nú nærri núlli. Seðlabanki Íslands getur gert nákvæmlega hið sama og stærstu seðlabankar heims þegar kemur að stýrivöxtum á Íslandi. Það er ekki krónan sem stoppar stýrivexti á Íslandi frá því að vera „hverjir sem er“. Það er hagfræðimódel Seðlabanka Íslands og sú (ranga) hugmynd að best sé að hafa áhrif á gang hagkerfis með stýrivaxtabreytingum.

Meginvandamálið, samkvæmt Keynes, var þó langtímavextir og hvernig ætti að koma böndum á þá svo ekki skapaðist óstöðugleiki í hagkerfinu. Þótt málið væri flóknara þegar kæmi að langtímavöxtum var það ennþá stofnanaumgjörðin sem skipti mestu máli. Dæmi um augljós áhrif stofnanaumgjarðarinnar á Íslandi á langtímavexti er uppbygging lífeyrissjóðakerfisins. Það þarf ekki að segja mörgum það að ef stærsti aðilinn á einhverjum markaði er lagalega skyldugur til þess að heimta ákveðið, og hátt, verð fyrir vöruna sem hann höndlar með mun það hafa teljandi áhrif á markaðinn allann. Er virkilega einhver sem heldur því fram að 3,5% viðmiðið hafi ekki teljandi áhrif á langtímavexti á Íslandi? Sá hinn sami vill þá væntanlega halda því fram að verðlagsráð hins opinbera hafi ekki haft áhrif á mjólkuverð á Íslandi eða að vaxtaþök og –gólf hins opinbera á bankakerfið á sínum tíma hafi ekki haft áhrif?

Fylgjandi ráðleggingum Keynes sýndi hið opinbera í Bretlandi að ekki aðeins væri hægt að hafa skammtímavexti hverja sem er heldur gilti hið sama um langtímavexti. Það sem þurfti var að beita peningamálastefnunni á ákveðinn máta, sem og var gert með góðum árangri (þar til Keynes dó árið 1946). Hægt væri að nota svipaða peningamálastjórn á Íslandi og með henni væri komið í veg fyrir yfirgengilegar sveiflur í vöxtum. Vandamálið sem stafar af lífeyrissjóðakerfinu er hins vegar utan við áhrifasvið peningamálastefnunnar. Það vandamál verður að leysa á annan hátt: að horfast í augu við það og taka á því.

Athugið að hér hefur ekkert verið minnst á gjaldmiðilinn enda ekki ástæða til: áhrifin af litlum gjaldmiðli á vexti er engin og í versta falli hverfandi – sem sjá má á Mynd 1. Hins vegar, líkt og stofnanalegir þættir, hafa væntingar mikil áhrif á vaxtastig (og þetta vissi og notfærði Keynes sér). Og einn áhrifaþáttur væntinga er verðbólga.

Krónan og verðbólga

Krónan hefur misst mest allt upprunalegt verðgildi sitt síðan hið opinbera setti hana á stofn. Með öðrum orðum hefur verðbólga „verið fylgifiskur krónunnar“ eins og einhver gæti komist að orði.

Nú tel ég mig sæmilega að mér kominn, þótt ég segi sjálfur frá, þegar kemur að kenningum um orsakir verðbólgu. Nefna má aukna eftirspurn, áföll á framboðshliðinni, átök á vinnumarkaði, aukið peningamagn, breytingar í smásöluálagi, skattabreytingar og þannig mætti áfram telja. Ég hef hins vegar aldrei séð alþjóðlega viðurkennda kenningu þess efnis að gjaldmiðlinum sjálfum sé kennt um eigin virðisrýrnun. Samt á það að vera raunin í tilviki Íslands. Orð Bjarna í fyrrnefndri grein eru dæmi: „Krónan veldur einnig hærri verðbólgu. Verðbólgan er mikil af því að við erum með litla og veika mynt.“

Tökum augljósasta dæmið um áhrifavald verðbólgu: peningamagn í umferð. Við getum öll verið sammála um að krónan, sem gjaldmiðill, ræður engu um það hvað mikið er búið til af henni. Það eru bankar sem búa til ca. 95% af krónum, þ.e. peningum, í umferð á Íslandi. Og frá 1886, sem er ártalið sem tölur Hagstofunnar ná aftur til, til ársloka 2013 jókst peningamagn í umferð ríflega 211.000.000-falt.

Þrátt fyrir að hagkerfið hafi stækkað töluvert síðan þá er sú stækkun hverfandi í samanburði við þessa tölu. Þess vegna hefur verðbólga „verið fylgifiskur krónunnar“ síðan hún var sett á fót: virðisrýrnun krónunnar hefur ekkert með það að gera að hún sé „lítil og veik mynt“ heldur vegna þess að það er búið að búa til of mikið af henni í gegnum tíðina. En það er ekki henni að kenna heldur okkur sjálfum.

Krónan og verðtrygging

Verðtrygging er hluti af stofnanaumgjörð íslenska hagkerfisins. Líkt og svo margir aðrir stofnanalegir þættir var verðtrygging sett á laggirnar sem svar við þáverandi vandamáli: verðbólgu. Við höfum þegar séð að verðbólga hefur ekkert með gjaldmiðilinn að gera og því er fráleitt að halda því fram að gjaldmiðillinn hafi eitthvað með verðtryggingu að gera: ef A (krónan) leiðir ekki af sér B (verðbólgu) en B leiðir af sér C (verðtrygging) leiðir A ekki af sér C.

En verðtryggingin hefur hvetjandi áhrif á verðbólgu. Þetta atriði var augljóst í upphafi þegar laun voru verðtryggð og í fyllilegu samræmi við þá fræðilegu niðurstöðu að því algengari sem verðtrygging er í hagkerfi, því hærri verður verðbólga (því nafnstærðir innan hagkerfisins munu sífellt hækka á víxl en hundurinn nær aldrei að bíta í skottið á sér, sama hversu hratt hann hleypur). Þegar verðtrygging launa var tekin úr sambandi minnkuðu þessi áhrif. En þau eru ennþá til staðar. Verðbólga á Íslandi hefur verið há m.a. vegna þess að verðtrygging er algeng og þótt hundurinn hlaupi ekki jafn hratt í hringi og hann gerði þá hleypur hann enn.

Þess aukin heldur hefur verðtryggingin áhrif á peningamálastefnu Seðlabankans: lántakar verðtryggðra lána eru varðir fyrir stýrivaxtabreytingum svo þörf verður á enn meiri breytingum, þ.e. sveiflum, í stýrivöxtum til að ná fram áætluðum áhrifum á hagkerfið. En einmitt þessar stýrivaxtabreytingar eru að stórum hluta ábyrgar fyrir spákaupmennsku með krónuna sem aftur veldur því að gengi hennar verður sveiflukennt til skamms tíma. Langtímasveiflan eykst líka því ekki tekst að halda aftur af útþenslu peningamagns í umferð með peningamálastefnunni eins og hún er framkvæmd í umhverfi verðtryggingar. Afleiðingin verður verðbólga, viðskiptahalli og gengisfall sem jafnvel getur endað, eins og raunin varð, með gjaldeyrishöftum til að stoppa gengisfallið.

Skilningur á þessu er blessunarlega að aukast, samanber orð Afnámsnefndarinnar um verðtryggingu: „ Hækkun stýrivaxta Seðlabankans hefur í för með sér hækkun útlánavaxta lánastofnana… Með þessu móti hafa stýrivextirnir mun meiri áhrif á eftirspurn heimila með óverðtryggð lán en heimila með verðtryggð jafngreiðslulán… Bætt leiðni stýrivaxta ætti að vera jákvæð fyrir peningastefnu Seðlabankans og gerir hlutverk hans ábyrgðarmeira.“

Að finna blóraböggul

Sannleikurinn um krónuna er bitur. Hann er bitur því þótt mörgum þyki það þægilegt þá er ekki hægt að benda á hana sem blóraböggul fyrir heimatilbúin vandamál Íslendinga. Háir vextir, verðbólga, viðskiptahalli og gengissveiflur hafa ekkert með krónuna að gera heldur stofnanalegt umhverfi hagkerfisins. Krónan er saklaus bakari í hagkerfi sem smiðurinn – Íslendingar – hefur búið til stofnanalega umgjörð um sem hefur ákveðnar efnahagslegar afleiðingar. Og sem endranær er lausnin ekki að hengja bakarann þegar smiðurinn er sekur.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.7.2014 - 11:18 - FB ummæli ()

Hrósa skal þegar þess er vert

Fyrir tveimur árum síðan gerði ég grín að ríkissjóði Íslands. Tilefnið var skuldabréfaútgáfa í USD sem bar 6,0% vexti sem notað var til að borga erlend lán sem báru 3-3,5% vexti. Ég bar vextina saman við íbúðalánsvexti í Bandaríkjunum sem báru mun lægri vexti en nýútgefið skuldabréf ríkissjóðs. Ég stakk upp á því – í góðlátlegu gríni með alvarlegum undirtóni – að Alþingishúsið yrði næst notað sem veð til að fá lægri vexti. Að minnsta kosti ætti að bjóða lægri vexti næst þegar farið yrði í erlenda skuldabréfaútgáfu.

Nýlega, nánar tiltekið 8. júlí, gaf ríkissjóður út EUR skuldabréf upp á 750 milljónir evra. Vextirnir í þetta sinnið voru lægri: 2,56%. Hugmyndin með útgáfunni var að endurfjármagna útistandandi lán ríkissjóðs sem bera hærri vexti en nýja lánið.

Þetta er skynsamlegt! Öllu mikið skynsamlegra en USD útgáfan fyrir tveimur árum síðan! Enn athyglisverðara er að ávöxtunarkrafan á þessu EUR skuldabréfi ríkissjóðs er svipuð eða lægri en ávöxtunarkrafan sem gerð er á skuldabréf sumra þeirra landa sem nota evruna sem lögeyri. Krafan á grískum skuldabréfum með örlítið styttri gjalddaga (5 ár, svo ef allt væri eðlilegt er samanburðurinn Grikklandi í hag) er í kringum 4,0% og portúgölsk bréf til 5 ára bera um 2,4% ávöxtunarkröfu.

Ég ætla því að hrósa fjármálaráðuneytinu fyrir þessa útgáfu. Vel gert!

Það er svo annað mál hvort ríkissjóður eigi að gefa út skuldabréf í erlendri mynt. Ef þið spyrjið mig þá er svarið þvert, sterkt og óhikað nei! En það er önnur og lengri umræða.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.6.2014 - 01:31 - FB ummæli ()

Bólan (?) á húsnæðismarkaði

Það er stundum rætt um bólumyndun á húsnæðismarkaði og sýnist sitt hverjum. Líklega fer það mest eftir því hvernig „bóla“ er skilgreind hvort svarið við spurningunni „er bóla á húsnæðismarkaði?“ sé neikvætt eða jákvætt. Út frá raunverðsþróun er ekkert markvert að gerast. Hins vegar er einn mælikvarði sem segir að núverandi þróun getur ekki gengið til langframa: þróun íbúðalána á móti nýfjárfestingu í húsnæði.

Fyrst, kíkjum á verðþróun á húsnæði.

Nafnverð og raunverð (nafnverð a.t.t. verðlagsþróunar) húsnæðis

husnaedisverd

Eins og sjá má er ekkert alvarlegt að gerast þegar horft er á raunverð húsnæðis.

Það er hins vegar íbúðalán á móti nýfjárfestingu í húsnæði sem sýnir að núverandi þróun getur ekki gengið að eilífu, sjá myndir hér að neðan. Og ég leyfi mér að skilgreina „bólu“ sem þróun eða stöðu sem ekki gengur að eilífu (og þá mætti raunar skilgreina núverandi efnahagsskipulag sem gengur að svo stórum hluta á óendurnýjanlegum orkugjöfum sem raun ber vitni sem bólu).

Upp á síðkastið hefur aukning í útistandandi húsnæðislánum á Íslandi verið meiri en fjárfestingin í húsnæði á sama tíma. Og það er þróun sem ekki gengur til langframa af þeirri einföldu ástæðu að ef húsnæðislán eru að aukast hraðar en „magn“ húsnæðis er að aukast mun virði húsnæðislána að lokum verða margfalt virði húsnæðis. Við getum ímyndað okkur, til að gera dæmið einfalt og ýkt, að allir yrðu þá einn daginn með 200% húsnæðislán á móti virði húseignarinnar… þið skiljið hvert ég er að fara!

Í sögulegu samhengi hefur samhengi þessara stærða verið ágætur mælikvarði á bólumyndun – í skilningi þess að „bóla“ er þróun sem getur ekki gengið að eilífu . Í tilviki Bandaríkjanna má finna fjögur dæmi þess, síðan 1970, að fjármála- og efnahagsvandræði áttu sér stað í kjölfarið á því að aukning íbúðalána var meiri en nýfjárfesting í húsnæði á sama tíma: í byrjun 8. áratugarins, í lok 8. áratugarins („thrift crisis“), í lok 9. áratugarins („savings and loans crisis“ eða „thrift crisis II“) og 1998-2008.

Myndirnar hér að neðan sýna gögnin í hnotskurn. 1998-2008 bólan er raunar svo stór að ég læt tímabilið 1952-1995 á sér mynd svo fólk geri sér betur grein fyrir skalanum.

Bandaríkin: íbúðafjárfesting og ársbreyting á útistandandi íbúðalánum, 1952-2013 (milljarðar USD á verðlagi hvers tíma).

USA_ibudalan_ibudafjarfesting

Bandaríkin: íbúðafjárfesting og ársbreyting á útistandandi íbúðalánum, 1952-1995 (milljarðar USD á verðlagi hvers tíma).

USA_ibudalan_ibudafjarfesting1

Síðasta dæmið (1998-2008) lýsir því raunar hvað þróun, sem aldrei getur gengið að eilífu, getur í raun gengið lengi. Húsnæðisbólan sem byrjaði í alvöru eftir 2001 var rekin áfram af „framförum“ innan fjármálageirans sem gerði bönkum það kleift að auka magn íbúðalána í umferð margfalt hraðar en áður hafði verið normið. Lágir stýrivextir án nokkurra skilyrða á útþenslu lánsfjár í umferð áttu einnig hlut að máli. Bólan var keyrð áfram af lánsfé – eins og allar fjármálabólur.

Þegar kemur að Íslandi er þróunin um það bil eftirfarandi:

Íbúðafjárfesting og ársbreyting á útistandandi íbúðalánum (ma.kr.)

Island_ibudafjarfesting

Eitt verður að taka skýrt fram: gögn eru af skornum skammti svo geta verður í eyðurnar. Þannig er vinstri hluti rauðu línunnar gisk hjá mér! Giskið er ekki vísindalegra en svo að ég vinstri hluti rauðu línunnar er byggður á meðalhlutdeild íbúðalána af skuldum heimila frá 2007-2014 en 2007 er fyrsta árið sem íbúðalán eru tekin sérstaklega út fyrir sviga í gögnum Seðlabankans (eftir því sem ég best veit). Þess vegna má ekki samþykkja gögnin algjörlega hrá en eftir sem áður treysti ég mér til að halda því fram að þau séu alls ekki alvarleg skrumskæling á raunveruleikanum.

Sé myndin fyrir Ísland hér að ofan ca. nokkurn veginn hér um bil rétt (hún er rétt fyrir post-2008 tölurnar) má sjá að við erum komin aftur í þróun sem í sögulegu ljósi séð hefur verið undanfari þess að húsnæðismarkaðurinn hefur, að minnsta kosti, hikstað. Gildir það jafnt fyrir Bandaríkin sem og Ísland.

Hversu lengi þessi þróun getur gengið fyrir sig er ómögulegt að segja. Íbúðafjárfesting á Íslandi er ekki mikil sem stendur sem er ein ástæða þess hversu „auðvelt“ það er fyrir aukningu í íbúðalánum að vera hærri en nýfjárfesting í húsnæði er. Því má færa rök fyrir því að „lausnin“ við þessari þróun sé einfaldlega að spýta í lófana, taka sér hamar í hönd og auka fjárfestinguna í húsnæði.

En það er bara ekkert svo auðvelt. Fjárfestingu þarf að meta á grundvelli þess hvort hún sé arðsöm eða ekki. Það kallar á mat á greiðsluflæði vegna t.d. fjármagnskostnaðar fjárfestingar og í núverandi efnahagsumhverfi á Íslandi er slíkt mat ekki auðvelt. Helsta ástæðan fyrir því eru yfirlýsingar stjórnvalda þess efnis að það eigi að afnema gjaldeyrishöft „einn góðan veðurdag“. Enginn veit hver áhrifin verða af slíkri efnahagsaðgerð á t.d. gengi krónunnar, vexti, verðbólgu o.fl.

Einmitt þess vegna myndast mikil óvissa á greiðsluflæði vegna fjármagnskostnaðar fjárfestingar. Ofan á það kemur svo enn frekari óvissa í formi þess að erfitt getur verið að selja nýbyggt húsnæði ef kaupandinn vill ekki kaupa það, t.d. vegna hárra vaxta, verðbólgu o.s.frv.

Óvissan um hvað muni gerast með blessuð gjaldeyrishöftin er því valdur að því að íbúðafjárfesting, sem og önnur fjárfesting, er lág (fyrir utan ríkisstyrkta stóriðju sem borgar aðeins brot af raunverulegum orkukostnaði, allt í nafni „atvinnusköpunar“). Á meðan myndast bóla – í skilningi þess að þróunin gengur ekki að eilífu – á fasteignamarkaði sem erfitt getur verið að vinda ofan af án þess að alvarleg efnahagsáföll eigi sér stað.

Að lokum: já, það er bóla á fasteignamarkaði í skilningi þess að núverandi þróun íbúðalána, sem eru langmikilvægasti áhrifavaldur fasteignaverðs, m.v. íbúðafjárfestingu gengur aldrei að eilífu. Er „bólan“ við það að springa með tilheyrandi verðhruni á fasteignamarkaði? Nei, og raunar gæti þessi þróun gengið lengi enn án þess að nokkuð markvert gerist. En það er þó vert að hafa augun hjá sér.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.5.2014 - 22:49 - FB ummæli ()

Nei, Ásgeir, bindiskyldan virkar ekki

Í Morgunblaðinu þann 14. maí síðastliðinn var viðtal við Dr. Ásgeir Jónsson, hagfræðing. Þar segir orðrétt:

Það er engum blöðum um það að fletta að Seðlabankinn þarf á fleiri stýritækjum að halda en aðeins stýrivöxtum og þar kemur bindiskyldan sterklega til greina. Hún á einnig sérstakt erindi til Íslands vegna yfirvofandi afnáms hafta og fyrir þá sök hvað jafnvægi á gjaldeyrismarkaði er viðkvæmt. Bindistkyldan bindur lausafé í myntkerfinu og temprar inn- og útflæði á greiðslujöfnuði [við útlönd] og auðveldar Seðlabankanum að viðhalda gjaldeyrisforða.

Með bindiskyldu eru lánastofnanir [bankar þar með taldir] krafðar um að hluti innlána þeirra sé lagður inn á reikning í Seðlabankanum. Hækkun bindiskyldu dregur því úr getu banka til að auka útlán og stunda það sem hefur verið kallað „peningamargföldun“.

Ég er með slæmar fréttir fyrir Ásgeir og aðra sem halda að bindiskyldan virki eins og Ásgeir heldur fram hér, sérstaklega hvað varðar seinni málsgreinina: þetta er kolrangt.

Bindiskyldan og útlánamyndun

Fyrst, útskýrum það, einu sinni enn, að bindiskyldan, sem kallast „reserve requirement“ á ensku, takmarkar EKKI getu banka til að mynda útlán. Hugmyndin sem Ásgeir setur fram er að lækka „peningamargfaldarann“ með því að hækka bindiskylduna – og öfugt vilji Seðlabankinn auka útlán.

En þetta virkar ekki. Hér má lesa greinar um það málefni: „Um myndun peninga og skulda“ og „Seðlabanki Englands um peningamyndun“. Í eins fáum orðum og ég get ímyndað mér að hægt sé að útskýra ferlið: bankar lána aldrei út grunnfé Seðlabankans né heldur innlán sem þeir taka við frá almenningi heldur mynda þeir innlánið og útlánið á sama tíma og grunnfé Seðlabankans eykst í kjölfarið!

Því ef banka vantar lausafé, eftir að hann hefur samtímis myndað innlánið og útlánið, til að uppfylla bindiskylduna þá a) fær hann fólk til að leggja inn peningana hjá sér (en, nota bene, EFTIR að útlánið var búið til), b) fær hann lánað lausafé hjá öðrum bönkum sem e.t.v. eiga það til eða c) fer til Seðlabankans og tekur lausafjárlán hjá honum, sem bókast sem aukning á grunnfé því innistæða innlánastofnunar í Seðlabankanum er hluti af grunnfé Seðlabankans.

Þetta er praktíkin. Svona er þetta, sama hvað kennslubækur í hagfræði segja. Það þarf ekkert að rífast um það hvort bindiskyldan virki á „peningamargfaldarann“ því peningamargfaldarinn er, hispurslaust, ekki til. Eða eins og Seðlabanki Englands orðaði það, í varfærnislegum stofnanatón (mín áhersla):

While the money multiplier theory can be a useful way of introducing money and banking in economic textbooks, it is not an accurate description of how money is created in reality.

Reynsla annarra landa

En skoðum reynslu annarra landa: hvernig gekk þeim að halda aftur af útlánamyndun með breytingum á bindiskyldunni? Ef þeim gekk sæmilega, þá gæti Ásgeir e.t.v. haft rétt fyrir sér að það mætti skoða málið í tilviki Íslands.

Skoðum niðurstöður Geršla og Jašováa, 2014. Höfundarnir skoðuðu margskonar aðgerðir 11 seðlabanka í heiminum sem ætlað var að draga úr útlánaþenslu. Aðeins fjórir af þeim (Króatía, Rúmenía, Eistland, Lettland) reyndu að nota breytingar á bindiskyldunni til þess arna – e.t.v. vegna þess að hinir sjö vissu að það myndi ekki virka, því niðurstöðurnar voru eftirfarandi (sjá Geršla og Jašováa, 2014, bls. 17 og bls. 19-20):

As the credit data show, however, the boom did not stop… rendering the overall effectiveness of [tightening reserve requirements] questionable.

Further, reserve requirements are not observed to have an impact on taming credit growth.

Svo bindiskyldan virkar ekki, samkvæmt raunverulegum gögnum en ekki kennslubókum, þegar kemur að því að breyta „getu banka til að auka útlán.“ Við þetta má bæta að eftirfarandi lönd eru með enga fasta bindiskyldu: Kanada, Ástralía, Svíþjóð og Bretland. Skiljanlega er Seðlabanki Englands með enga fasta bindiskyldu, ætlaða til að halda aftur af útlánaþenslu, því hann áttar sig á því að peningamargfaldarinn er ekki til og bankar lána aldrei út hvorki grunnfé seðlabankans né innistæður almennings.

Þess vegna eru eftirfarandi staðhæfingar Ásgeirs í fyrirlestri hans – „Aftur til fortíðar?“ – sem viðtalið í Morgunblaðinu er byggt á beinlínis rangar (mín skáletrun í síðari tilvitnun):

B[indiskyldan] ræður stærð peningamargfaldarans og hefur áhrif á peningamagn í umferð. −> Hærri bindiskylda dregur úr peningamagni.

Hækkun bindiskyldunar [sic.] [á síldarárunum] kom í veg fyrir að bankarnir myndu lána út þessar nýju innistæður [sem íslenskar útgerðir fengu í kjölfar mikilla útflutningstekna þeirra af síldarútflutningi] (og margfalda aukið grunnfé með auknum innlánum).

Bindiskyldan og greiðslujöfnuður við útlönd

Einnig stendur í Morgunblaðinu (mín skáletrun):

Í þriðja lagi er beiting bindiskyldu gagnlegt tæki til að tempra miklar sveiflur í greiðslujöfnuði við útlönd og viðhalda gjaldeyrisforða. Innflæði á greiðslujöfnuði verður ekki margfaldað með sama hætti í bankakerfinu þar sem bankinn er skyldugur til þess að leggja lausaféð til hliðar.

OK, fyrst verður að átta sig á því hvernig alþjóðlegar greiðslur eiga sér stað í bankakerfinu. Til að gera langa sögu stutta ætla ég að ekki að lýsa ferlinu í smáatriðum – sjá þó tvær útskýringarmyndir í lok þessa pistils þar sem lýst er greiðslu upp á 100 dollara frá Frank í landi A til Abe í landi B (sem ég vona að fólk skilji án þess að ég útskýri). Niðurstaðan er einfaldlega sú að

  • Ef alþjóðlega greiðslan fer í gegnum seðlabanka landanna eykst gjaldeyrisforði seðlabanka þess lands sem greiðslan á sér stað til. Grunnfé eykst því viðskiptabanki þess sem tekur við greiðslunni (Abe í myndunum hér að neðan) fær aukna innistæðu í seðlabankanum þegar greiðslan kemur til landsins. Í staðinn fær seðlabankinn hærri innistæðu í seðlabanka þess myntar sem greiðslan átti sér stað í (US Fed í tilfelli myndar 1 því greiðslan er í USD).
  • Ef greiðslan fer í gegnum viðskiptabanka viðskiptabanka þeirra sem eiga í viðskiptunum (mynd 2 hér að neðan) aukast erlendar (skammtíma) eignir viðskiptabankans sem tekur við greiðslunni fyrir hönd viðtaka greiðslunnar. Grunnfé seðlabankans í landinu sem greiðslan flæðir til eykst ekki því hann kemur hvergi nærri hinni alþjóðlegu greiðslu, hún er aldrei bókuð í gegnum hann. Þessi aðferð er meira hefðbundin en að bóka greiðsluna í gegnum seðlabankann – a.m.k. ef fjármagnshreyfingar eru frjálsar á milli landanna.

Það er því alls óvíst, eins og Ásgeir segir, að grunnfé Seðlabankans aukist þótt greiðsla eigi sér stað til Íslands. Og jafnvel þótt það myndi gerast þá skiptir það ekki máli fyrir útlánagetu bankakerfisins því eins og ég hef tönnlast á þá lána bankar ekki út grunnfé sem er einmitt ástæðan fyrir því að magnbundnar íhlutanir (e. quantitative easing) stærstu seðlabanka heims hafa ekki leitt til óðaverðbólgu í viðkomandi myntum: bankar lána aldrei út grunnfé seðlabankans, „jafnvel þótt sumir hagfræðingar trúi enn þessari lygasögu“ (e. „…although some economists still believe this monetary myth„, bls. 14).

Hið raunverulega samhengi útlána og greiðslujafnaðar

En hvernig var fjármagnsjöfnuðurinn (e. capital account) svona jákvæður á Íslandi á sama tíma og útlánaþenslan var hvað mest fyrir árið 2008, eins og Ásgeir sýnir á glæru 16 í fyrirlestri sínum? Er eftirfarandi staðhæfing Ásgeirs ekki rétt?:

Greiðslujöfnuður hefur raunveruleg áhrif á peningamagns [sic.] í umferð og útlán bankakerfisins – og mikið innflæði [fjármagns] leiðir til þenslu og eignabólu

Nei. Þetta er ekki rétt: orsakasamhengið milli greiðslujafnaðar (e. balance of payments) og útlána bankakerfisins er frá útlánum bankakerfins á greiðslujöfnuð – og ekki í hina áttina eins og Ásgeir heldur fram.

Það er mjög auðvelt að útskýra hví og sýna fram á með einföldum prófum á raunverulegum gögnum.

Fjármagnsjöfnuðurinn (e. capital account) í greiðslujöfnuði hagkerfis (e. balance of payments) er spegilmynd viðskiptajafnaðar (e. current account). Mjög jákvæður fjármagnsjöfnuður þýðir að viðskiptajöfnðurinn er mjög neikvæður því summa fjármagnsjafnaðar og viðskiptajafnaðar er (eða á að vera ef þjóðhagsreikningar væru nákvæm vísindi) núll.

Með þetta í huga er gott að átta sig á því að ef Ásgeir hefur rétt fyrir sér með að „Greiðslujöfnuður hefur raunveruleg áhrif á peningamagns [sic.] í umferð og útlán bankakerfisins – og mikið innflæði [fjármagns] leiðir til þenslu og eignabólu“ þá er tímaröð atburða þannig að innflæði fjármagns, þ.e. jákvæður fjármagnsjöfnuður, á sér stað fyrst og aukning útlána bankakerfisins næst.

Þetta er hægt að prófa með einföldu Granger prófi. Hér má sjá þær niðurstöður fyrir Ísland yfir tímabilið 1972-2007 (KABRT=fjármagnsjöfnuður, d_Credit=breyting á útlánum bankakerfisins frá fyrra ári):

 VAR system, lag order 1

OLS estimates, observations 1972-2007 (T = 36)

Log-likelihood = -846.53914

Determinant of covariance matrix = 9.1180081e+017

AIC = 47.3633

BIC = 47.6272

HQC = 47.4554

Portmanteau test: LB(9) = 23.4641, df = 32 [0.8632]

 

Equation 1: KABRT_90kr

  Coefficient Std. Error t-ratio p-value
const -16972.1 5166.36 -3.2851 0.00242 ***
KABRT_90kr_1 -0.219826 0.181365 -1.2121 0.23409
d_Credit_90kr_1 0.492791 0.0760541 6.4795 <0.00001 ***

 

Mean dependent var  13821.86 S.D. dependent var  49241.10
Sum squared resid  1.63e+10 S.E. of regression  22226.53
R-squared  0.807897 Adjusted R-squared  0.796255
F(2, 33)  69.39152 P-value(F)  1.51e-12
rho  0.030309 Durbin-Watson  1.881921

F-tests of zero restrictions:

All lags of KABRT_90kr   F(1, 33) =   1.4691 [0.2341]

All lags of d_Credit_90krF(1, 33) =   41.984 [0.0000]

 

Equation 2: d_Credit_90kr

  Coefficient Std. Error t-ratio p-value
const 19397.5 14236.7 1.3625 0.18227
KABRT_90kr_1 0.513258 0.49978 1.0270 0.31190
d_Credit_90kr_1 0.803897 0.209579 3.8358 0.00053 ***

 

Mean dependent var  78186.61 S.D. dependent var  122502.1
Sum squared resid  1.24e+11 S.E. of regression  61248.75
R-squared  0.764303 Adjusted R-squared  0.750019
F(2, 33)  53.50521 P-value(F)  4.40e-11
rho  0.099389 Durbin-Watson  1.754677

F-tests of zero restrictions:

All lags of KABRT_90kr   F(1, 33) =   1.0547 [0.3119]

All lags of d_Credit_90krF(1, 33) =   14.713 [0.0005]

Til að þýða þetta yfir á mannamál: tímaröð atburða virðist ganga í berhögg við það sem Ásgeir heldur fram. „Equation 1“ lýsir því að útlán aukast fyrst og fjármagnsjöfnuður bregst svo við. „Equation 2“ lýsir því að útlán bregðast ekkert við þótt breyting verði á fjármagnsjöfnuði, öfugt við það sem Ásgeir heldur fram.

Og hver er ástæðan fyrir þessu? Muniði eftir því að fjármagnsjöfnuðurinn er spegilmynd viðskiptajafnaðar. Þegar banki býr til útlán verða til peningar (innlán í banka) sem að hluta til er eytt í innflutning á öllu milli himins og jarðar. Þess vegna er tímaröð atburða sú að fyrst verður til útlán í bankakerfinu. Innláninu sem verður til við þá útlánamyndun er svo eytt í innflutning, t.d. á bíl. Við það verður til neikvæð bókun á viðskiptajöfnuði og á sama tíma verður jákvæð bókun á fjármagnsjöfnuði.

Og ef þið trúið mér ekki þá eru hér niðurstöður Granger prófs á tímaröðinni milli útlánaþenslu og viðskiptajöfnuði (CAB) við útlönd: útlánaþensla leiðir til þess að viðskiptajöfnuður við útlönd versnar (sem þýðir að spegilmyndin, fjármagnsjöfnuður, er jákvæður – eins og við vorum búin að sýna fram á hér rétt á undan).

VAR system, lag order 1

OLS estimates, observations 1972-2007 (T = 36)

Log-likelihood = -829.20959

Determinant of covariance matrix = 3.4816229e+017

AIC = 46.4005

BIC = 46.6645

HQC = 46.4926

Portmanteau test: LB(9) = 32.8238, df = 32 [0.4265]

Equation 1: CAB_90kr 

  Coefficient Std. Error t-ratio p-value
const -2914.07 3472.26 -0.8392 0.40737
CAB_90kr_1 0.0150094 0.285747 0.0525 0.95843
d_Credit_90kr_1 -0.275041 0.0826502 -3.3278 0.00216 ***

 

Mean dependent var -21588.07 S.D. dependent var  34428.40
Sum squared resid  1.02e+10 S.E. of regression  17577.39
R-squared  0.754235 Adjusted R-squared  0.739340
F(2, 33)  50.63719 P-value(F)  8.78e-11
rho  0.071486 Durbin-Watson  1.803902

F-tests of zero restrictions:

All lags of CAB_90kr     F(1, 33) = 0.0027591 [0.9584]

All lags of d_Credit_90krF(1, 33) =   11.074 [0.0022]

En af hverju hækkaði þá peningamargfaldarinn?

Að lokum verður að útskýra eftirfarandi myndir úr fyrirlestri Ásgeirs.

Bindiskylda Sedlabankans

Peningamargfaldarinn_Asgeir

Af hverju hækkaði peningamargfaldarinn svona mikið þegar bindiskyldan var lækkuð? Sýnir þetta ekki einmitt að Ásgeir hefur hárrétt fyrir sér: grunnfé Seðlabankans (M0) er margfaldað í gegnum bankakerfið þar til það verður að peningamagni í umferð (M3)?

Nei. Það sem gerist er að peningamagn í umferð (M3) er ákveðið fyrst af bönkunum þegar þeir ákveða að búa til útlán til einstaklinga og fyrirtækja. Eftir að þeir eru búnir að því líta þeir í kringum sig eftir grunnfé Seðlabankans (M0), þ.e. lausafé, til að uppfylla bindiskyldu Seðlabankans. Eða eins og Alan R. Holmes, forstöðumaður lánveitinga hjá Seðlabanka Bandaríkjanna á árunum 1965-1979, sagði:

In the real world, banks extend credit, creating deposits in the process, and look for the reserves later.

Svo ef Seðlabankinn gerir mikla kröfu um bindiskyldu þá þurfa bankarnir að finna mikið af grunnfé (M0) fyrir ákveðið peningamagn í umferð (M3) sem þeir hafa þá þegar búið til. Allar líkur eru á því að fyrr en síðar muni þeir lenda í vandræðum með að finna það á millibankamarkaði eða með því að fá fólk til að leggja innistæður sínar inn á bankareikninga í þá banka sem vantar grunnfé til að uppfylla bindiskylduna. Til að koma í veg fyrir lausafjárskort verður Seðlabankinn að stíga inn og búa til grunnféð sem vantar upp á – og þar sem bindiskyldan er há þarf Seðlabankinn að búa til mikið af því!

Og hókus pókus, þá er hægt að reikna hlutfallið M3/M0 og fá út að „peningamargfaldarinn“ er lágur því bankarnir, til að uppfylla bindiskylduskipun Seðlabankans, verða að fara til Seðlabankans sjálfs til að finna grunnféð sem upp á vantar. Til einföldunar má segja að ef bindiskyldan er 50% þá munu bankarnir fá lánaða eina krónu, í formi grunnfjár, frá Seðlabankanum fyrir hverjar tvær krónur sem þeir hafa þegar búið til með útlánastarfsemi sinni.

Svo þegar seðlabankinn lækkar bindiskylduna þurfa bankarnir að banka sjaldnar en áður á glugga Seðlabankans í leit að grunnfé því Seðlabankinn sjálfur gerir minni kröfur en áður um að bankarnir séu með lausafé, þ.e. grunnfé, á sínum bókum. Þá hækkar peningamargfaldarinn (M3/M0) eðlilega því bankarnir búa til útlán og peninga í umferð (M3) án þess að þurfa síðar að fara til Seðlabankans til að finna grunnfé (M0). Bankarnir þurfa þá e.t.v. bara að fá lánaða eina krónu, í formi grunnfjár, frá Seðlabankanum fyrir hverjar 10 sem þeir hafa þegar búið til (10% bindiskylduhlutfall).

Þetta kemur fram á myndum Ásgeirs sem sífellt hærri „peningamargfaldari“ eftir því sem bindiskyldan er lækkuð en raunveruleikinn er sá að hlutfallið milli M3  (peningamagn í umferð) og M0 (grunnfé Seðlabankans) hefur ekkert með „peningamargfaldara“ grunnfjár að gera. Bankarnir taka fyrst ákvörðunina um hversu mikið af peningum þeir búa til, Seðlabankinn verður að fylgja þeim og búa til grunnféð sem upp á vantar – ellegar búa til lausafjárskort (skort á grunnfé).

Hlutfallið M3/M0, sem er hinn margfrægi „peningamargfaldari“, er því einmitt ekkert annað en það: hlutfall tveggja stærða sem er í raun ekkert merkilegt og hefur enga þýðingu per se.

Þegar kemur að tímaröð þess hvor stærðin hækkar á undan hinni þá er það svo að M3 hækkar fyrst og togar M0 með sér. Hversu hratt M0 er toguð upp af M3 fer eftir því hversu mikla bindiskyldu Seðlabankinn lætur á bankakerfið.

Flóknara er það ekki.

 

—————————————-

Mynd 1: Alþjóðleg útgreiðsla í dollurunum, í gegnum seðlabanka landanna (land greiðanda: land A).

International Payment_1

Mynd 2: Alþjóðleg útgreiðsla í dollurum, í gegnum erlendan viðskiptabanka (e. correspondent bank) viðskiptabankans í landi greiðanda (land A).

International Payment_2

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.3.2014 - 23:34 - FB ummæli ()

Seðlabanki Englands um peningamyndun

„Fyrir löngu síðan“, þegar umræðan um skuldaniðurfellingu var fjörug, skrifaði ég grein þar sem ég reyndi að útskýra hvernig peningar myndast. Þar ritaði ég m.a.:

Einstaklingur fer í banka og biður um lán. Treysti bankinn (og lántakinn sjálfur) honum fyrir því að geta borgað lánið til baka og treysti einstaklingurinn á að geta eytt láninu á þann hátt sem honum sýnist mun útlánið og innlán lántaka samhliða því verða búin til. Úr algjörlega engu! 
Útlánið og innlánið sem lántakinn ætlar að nota til að gera hvað sem honum lystir við eru búin til á eftirfarandi hátt: bankinn bókar hjá sér að lántaki skuldi honum upphæð lánsins og bókar um leið að lántaki eigi hjá sér innistæðu sem er jafnhá upphæð lánsins.

Margir hristu hausinn yfir þessu. Ég fékk slatta af athugasemdum frá fólki sem spurði mig, í raun og reynd, hvort ég væri að grínast Sérstaklega átti ég að vera að grínast því „gamla góða hagfræðin“ var búin að svara spurningunni „hvernig verða peningar til?“ fyrir margt löngu síðan. Og ég var búinn að heyra það svar fyrir margt löngu síðan meðan ég var í BSc. námi í hagfræði við Háskóla Íslands. Svarið er m.a.s. á Vísindavefnum en þar er spurningunni svarað með hinum margfræga „peningamargfaldara“ bankakerfisins (ég mæli eindregið með því að fólk lesi svarið í heild – og gleymi því svo snarlega!):

Ef seðlabanki lætur aukið magn af seðlum og mynt í umferð þá eykst innstæða á margs konar reikningum mun meira vegna svokallaðra margfeldisáhrifa. Það gerist til dæmis vegna þess að þegar einn aðili leggur fé inn á bankareikning þá lánar bankinn hluta fjárins út aftur. Sá sem fær féð að láni eða viðskiptavinir hans leggja svo aftur einhvern hluta þess sem þeir fá inn á bankareikninga. Það fé er svo aftur lánað út og þannig koll af kolli. Heildarinnstæður á bankareikningum aukast því um margfalda þá upphæð sem upphaflega bættist við peningamagn í umferð.

Peningamargfaldarasagan er klassíska svarið við spurningunni „hvernig verða peningar til?“ Bankar endurlána, aftur og aftur, sama peninginn. Hér má lesa um peningamargfaldarann á Wikipedia.

Hvað er peningamargfaldarinn aftur?

Rétt er að taka örstutt saman hvað peningamargfaldarinn er. Það má lesa um hann í erindi sem ég sendi nefndasviði Alþingis í nóvember 2012. Ég ætla að segja ykkur strax að þetta er EKKI ferlið að myndun peninga í raun og reynd, ég vík að því síðar:

Í kennslubókum í hagfræði finnst venjulega útskýring í ætt við eftirfarandi á því hvernig peningar myndast.

Segjum til einföldunar að það sé aðeins einn banki í hagkerfinu. Lesandinn er beðinn um að ímynda sér að fyrir hverjar 100 kr. sem lagðar eru inn á innlánsreikning í banka skuli bankinn halda eftir til dæmis 10 kr. til öryggis í lausafé. Þetta hlutfall (10/100) er „bindiskylduhlutfall“ eða „bindiskylda“ og það er seðlabankinn sem ræður þessu hlutfalli. Bankinn getur því lánað út 90 kr. fyrir hverjar 100 kr. sem viðskiptavinur leggur inn í bankann. Bankinn veit að það er óhætt að lána út svo mikið því það eru þúsundir viðskiptavina sem eru með sín innlán hjá bankanum og það er harla ólíklegt að allir komi á sama tíma að ná í peningana sína. Bankinn er því í raun að notfæra sér „lögmál stórra talna“ (e. law of large numbers) með því að lána út 90 kr. af hverjum 100 kr. sem lagðar eru inn.

Þessum 90 kr. sem lánaðar eru út er eytt í vöru og þjónustu. Ef við segjum að A leggi 100 kr. inn í bankann og B tekur 90 kr. lán til að kaupa mjólk af C eru allar líkur á því að C muni leggja þessar 90 kr. inn í bankann aftur. Af þessum 90 kr. getur bankinn lánað 81 kr. til D og svo koll af kolli.

Þannig býr bankakerfið til nýja peninga að auki fyrir þá sem voru lagðir inn í upphafi með því að  endurlána sama peninginn aftur og aftur en þó sífellt lægri upphæð. Hægt er að reikna út nákvæmlega hve mikið af peningum verður í hagkerfinu að lokum þegar aðilar B, C, D, o.s.frv. eru allir búnir að taka sín lán. Heildarmagn peninga verður: 100/0.1 = 1000kr. Peningamargfaldarinn er með öðrum orðum 1/bindiskylduhlutfall.

Afleiðingar kenningarinnar um peningamargfaldarann eru m.a. eftirfarandi:

1. Frumskilyrði er að bankinn verður að fá pening fyrst í hendurnar áður en hann getur endurlánað hann aftur og aftur. Einhver – s.s. einstaklingur eða jafnvel seðlabankinn – verður að leggja pening inn í banka í upphafi til að bankinn geti lánað peningana út.

2. Seðlabankinn á að geta stjórnað því hversu mikið af peningum er í hagkerfinu með því að breyta bindiskylduhlutfallinu og stjórna nýprentun peninga.

3. Það er stærðfræðilegt hámark á því hversu mikið af peningum getur verið í hagkerfinu. Þetta hámark er upprunalegt innlegg margfaldað með peningamargfaldaranum.

4. Bankar eru hreinir milligönguaðilar lausafjár, þ.e. banki verður að finna lausafé fyrst hjá einum aðila sem hann svo lánar öðrum aðila. Lausafé bankans ætti því að minnka við lánveitingu samkvæmt þessari kenningu.

 Hér er líklega best að benda á að þessi kenning um myndun peninga hefur verið lengi við lýði á Íslandi, e.t.v. ekki síst hjá þeim sem eru áberandi í heimi hagfræðinnar á Íslandi. Hér er Eiríkur Guðnason, heitinn, sem síðar varð einn þriggja Seðlabankastjóra, að lýsa myndun peninga árið 1978. Þar notast hann við peningamargfaldarann. Gylfi Magnússon er höfundur svarsins á Vísindavefnum sem áður var vitnað í en það birtist árið 2000. Hér, árið 2013, er minn gamli lærifaðir, Ásgeir Jónsson, að notast við peningamargfaldarann til að útskýra aukningu peningamagns í umferð, sérstaklega í kjölfar lækkunar bindiskyldunnar árið 2003. Og hér eru glærur af vef Háskóla Íslands, mér sýnist úr Þjóðhagfræði I muni ég rétt (allavega er kennslubókin örugglega eftir Mankiw), þar sem peningamargfaldarinn er útskýrður (glæra 42 og áfram). Og ég ætla ekki að gleyma því að sjálfur notaðist ég í mörg ár við peningamargfaldarann til að (reyna að) skilja bankastarfsemi! Það er aðeins nýlega (ca. síðan 2009) að augu mín opnuðust.

Seðlabanki Englands um peningamyndun

En þetta er orðinn langur inngangur að ástæðunni fyrir því hví ég byrjaði að skrifa „á blað“. Ástæðan er nýr pappír frá Seðlabanka Englands. Höfundarnir eru þrír aðilar frá „Framkvæmdastjórn Peningagreiningar“ (e. Monetary Analysis Directorate). Einhver myndi halda að slíkir einstaklingar af „framlínu“ peningakerfisins vissu eitthvað um hvað þeir eru að tala þegar kemur að peningakerfinu. Pappírinn útskýrir m.a. hvernig greiðslukerfið virkar – eitthvað sem var aldrei kennt í BSc. náminu í hagfræði en ætti, að mínu mati, réttilega að vera það.

En eftirfarandi beinar tilvísanir eru sérstaklega hvað varðar peningamargfaldarann. Ég leyfi mér að notast beint við enska textann þegar ég vísa í þá. Afsakið ef einhverjum þykir tilvísanirnar vera að segja það sama, ég vil vera viss um að meiningin komist til skila:

Money creation in practice differs from some popular misconceptions — banks do not act simply as intermediaries, lending out deposits that savers place with them, and nor do they ‘multiply up’ central bank money to create new loans and deposits.

Og:

In the modern economy, most money takes the form of bank deposits. But how those bank deposits are created is often misunderstood: the principal way is through commercial banks making loans. Whenever a bank makes a loan, it simultaneously creates a matching deposit in the borrower’s bank account, thereby creating new money.

The reality of how money is created today differs from the description found in some economics textbooks:

• Rather than banks receiving deposits when households save and then lending them out, bank lending creates deposits.

• In normal times, the central bank does not fix the amount of money in circulation, nor is central bank money ‘multiplied up’ into more loans and deposits.

Og:

The vast majority of money held by the public takes the form of bank deposits. But where the stock of bank deposits comes from is often misunderstood. One common misconception is that banks act simply as intermediaries, lending out the deposits that savers place with them. In this view deposits are typically ‘created’ by the saving decisions of households, and banks then ‘lend out’ those existing deposits to borrowers, for example to companies looking to finance investment or individuals wanting to purchase houses.

In fact, when households choose to save more money in bank accounts, those deposits come simply at the expense of deposits that would have otherwise gone to companies in payment for goods and services. Saving does not by itself increase the deposits or ‘funds available’ for banks to lend. Indeed, viewing banks simply as intermediaries ignores the fact that, in reality in the modern economy, commercial banks are the creators of deposit money. This article explains how, rather than banks lending out deposits that are placed with them, the act of lending creates deposits — the reverse of the sequence typically described in textbooks.

Another common misconception is that the central bank determines the quantity of loans and deposits in the economy by controlling the quantity of central bank money — the so-called ‘money multiplier’ approach.

Enska orðið „misconception“ þýðir misskilningur, ranghugmynd, eða rangtúlkun. Seðlabanki Englands kallaði s.s. peningamargfaldaramódelið um myndun peninga misskilning. Íslenskir hagfræðingar hafa s.s. margir verið haldnir misskilningi um hvernig peningar myndast – kannski á svipaðan hátt og þegar Hildur Líf misskildi sjálfa sig hér um árið? Vafalaust hafa einhverjir aðrir verið haldnir þeim misskilningi m.v. þær athugasemdir sem ég fékk eftir að ég skrifaði textann sem ég vísa í í byrjun þessarar greinar.

Og hvað með það þótt peningamargfaldarinn sé rugl?

Staðreyndin um að peningamargfaldaramódelið um myndun peninga er „misskilningur“ er ekki léttvæg.

Eins og ég vék að í erindi mínu til nefndasviðs Alþingis þá er ein afleiðing módelsins m.a. sú að Seðlabanki Íslands getur haft teljandi áhrif á peningamagn í umferð. En sannleikurinn er að hann getur það ekki því peningamyndun bankakerfisins er ekki í samræmi við peningamargfaldaramódelið. Seðlabanki Íslands „leiðir“ ekki bankana þegar kemur að myndun peninga: það er akkúrat öfugt!

Peningamargfaldaramódelið tengist líka vaxtastefnu seðlabanka. Þótt ég fari ekki í þá sálma hér þá eru margir hagfræðingar sem halda og hafa haldið því fram að vaxtastefna seðlabanka sé, jafnvel, svo gott sem gagnslaus til þess að halda aftur af peningamyndun. Einhverjir Íslendingar gætu hugsað nokkur ár aftur í tímann og spurt sig hvort það sé ekki svo gott sem augljóst! Og ef vaxtastefna seðlabanka virkar, ætti þá ekki að vera mikil aukning lánsfjármagns í t.d. Evrópu þar sem stýrivextir Evrópska Seðlabankans eru 0,25%? En svo er ekki: aukning lánsfjármagns nú er mun minni en hún var þegar stýrivextir evrópska Seðlabankans voru mun hærri.

En vaxtastefna seðlabanka er ekki tilgangslaus þótt hún hafi, að öllum líkindum, afskaplega takmörkuð áhrif á peningamyndun. Keynes benti á að sé hagkerfi með eiginn gjaldmiðil getur það ráðið eigin vöxtum – algjörlega – sé peningastefnan notuð rétt (og það er hún ekki í dag)! Að hans mati átti að notast við sjálfstæðan seðlabanka til þess að lækka langtímavexti innan hagkerfisins niður í hvaða tölu sem talin væri skynsamleg til þess að ná fullu atvinnustigi öllum stundum. Bretar notuðu hans kenningar í stuttan tíma og náðu langtímavöxtum verulega niður (sjá örstutt innlegg um það hér). Þetta væri líka hægt á Íslandi: vextir gætu verið mun lægri væri peningastefnu Seðlabankans beitt rétt.

Margir hagfræðingar sem komu í kjölfar Keynes studdu notkun magntakmarkana á lána- og þar með peningamyndun bankakerfisins í stað vaxtatækisins (ekki það sama og hugmynd monetarista um fastan vöxt peningamagns). Margir seðlabankar í heiminum (UK, US, Frakkland, Þýskaland, Japan,…) hafa notast við magntakmarkanir á lánaveitingum banka í stað vaxtatækisins til þess að hafa áhrif á hagkerfið. Og í mörgum tilvikum gekk það mjög vel. Þessir hagfræðingar skildu að bankakerfið virkar ekki eins og peningamargfaldarinn segir til um.

Það þarf að ræða og nálgast stjórnun peningamála á Íslandi af alvöru. Hluti af því ferli er að átta sig á því hvernig peningakerfið virkar – og það virkar ekki eins og peningamargfaldaramódelið segir til um. Og þetta breytir svo miklu: um leið og það er skilið almennilega að bankar starfa ekki í samræmi við peningamargfaldarann opnast dyr í rétta átt að því að stjórna peningakerfinu eins og á að stjórna því!

Til dæmis verður, í ljósi þess að peningamargfaldarinn er í raun ekki til, að ræða hvort það sé þá skynsamlegt að ætla að notast við „Verðbólgumarkið plús“eins og minnst hefur verið á eftir að við losnum við höft (hvenær sem það á gerast…)? Og ef svo, hvernig á þá að byggja upp Verðbólgumarkið plús? Er e.t.v. betra að setja beinar magntakmarkanir á lána- og þar með peningamyndun banka? Hvernig ættu þær að vera uppbyggðar? Og hvað með að banna bönkum yfir höfuð að búa til peninga og láta Seðlabankann um það allt saman – hugmyndir í ætt við þær sem Betra Peningakerfi (og fleiri félög í öðrum löndum) er með?

Þess vegna er það ekki léttvægt að peningamargfaldaramódelið sé rugl. Burtséð frá því að hagfræðinemum við Háskóla Íslands er kenndur „misskilningur“ þá skiptir þetta máli varðandi uppbyggingu peningakerfisins sjálfs. Þess vegna verður að skilja hvernig bankar búa til peninga!

P.S. Hvernig væri að breyta svarinu á Vísindavefnum? Varla á að láta rangt svar standa þar óhreyft lengi, eða hvað?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur