Sunnudagur 1.3.2015 - 13:21 - Lokað fyrir ummæli

Að fylgja sannfæringu sinni

Oft er sagt að fólk eigi að fylgja sannfæringu sinni og standa á sínu. Hlutirnir eru aftur á móti ekki alltaf svo einfaldir og hagsmunir geta verið misjafnir og stangast á. Lögmenn standa oft í svona aðstæðum, til dæmis þegar kemur að því að veita umbjóðendum ráðgjöf um næstu skref í málum. Það getur reynst erfitt að vinna úr málum sem snúa að prinsipum, þar sem umbjóðandinn vill fara í málarekstur sama hvað það kostar og þrátt fyrir að ekki sé um mikla fjárhagslega hagsmuni um að ræða. Það er jú prinsipið. Hér þurfa lömenn oft að meta mál út frá ýmsum viðmiðum eins og t.d.  hvort það sé hreinlega forsvaranlegt að fara í málarekstur byggt á prinsipforsendum einum. Þrátt fyrir vilja umbjóðandans þá er mikilvægt að átta sig á því að ábyrgð sérfræðingsins, það er að segja lögmannsins, á framvindu máls er mikil. Lögmenn verða að meta það sjálfstætt hvort og þá með hvað hætti hagsmunir umbjóðanda þeirra er best tryggðir óháð vilja umbjóðandans. Á þessu sjálfstæða mati þarf lögmaðurinn svo að byggja ráðgjöf sína.

Staða lögmanna hefur breyst mikið á undanförnum árum þegar litið er til dæmis til þeirra verkefna sem þeir hafa þurft að takast á við, ég tala nú ekki um eftir bankahrunið. Fjöldi lögmanna hefur einnig aukist mikið en það hefur m.a. leitt til þess að fleiri lögmenn eru um þau verkefni sem lögmenn sinna á hverjum tíma. Ein birtingarmynd þess er sú staðreynd að hinar ýmsu málaflækjur eru farna að gera vart við sig í réttarvörslukerfinu, mál sem í reynd eiga ekkert erindi þangað. Mál sem sum hver eru í þess eðlis að geta með tiltölulega einföldum hætti verið leyst inni á kontor lögmannsins en ekki fyrir dómi. Þar spilar ráðgjöf lögmannsins stóra rullu. Þeir sem vinna sem lögmenn og hafa gert lengi taka eftir þessu. Því má velta fyrir sér hvort í einhverjum tilvikum helgist málareksturinn ef til vill meira af tekjuvon lögmannsins en sannfæringu umbjóðandans um mikilvægi þess að standa á sínum prinsippum.

Dæmi um þetta er t.d. mál sem ég kom að þar sem farið var af stað í dómsmál á grundvelli skaðabóta sem málsaðili fór fram á vegna tjóns sem umbjóðandi minn var sagður hafa valdið. Í gögnum málsins var aftur á móti engin sönnun fyrir því að umbjóðandi minn hafi valdið umræddu tjóni né heldur var þar að finna tilvísun í þann lagagrundvöll sem ábyrgð umbjóðandans átti að byggja á. Enginn grunnur fyrir málarekstri var til staðar. Eftir nærri eins og hálfs árs málarekstur tapaðist málið fyrir viðkomandi og umbjóðandi minn var sýknaður af öllum kröfum. Eftir stóð hár málskostnaður sem gagnaðilinn þurfti að greiða. Hér er ekki um einstakt tilvik um að ræða. Samkeppni milli lögmanna er orðin það mikil að svo virðist sem farið sé að gæta meiri tilhneigingar en áður til að setja mál af stað en ella þrátt fyrir lítið tilefni. Tjónið af slíkum málum er alltaf umbjóðandans. Með þessu er ég ekki að mælast gegn því að fólk standi á sínum prinsippum heldur vil ég brýna lögmenn til þess að vera vandir að virðingu sinni og hafa fagleg vinnubrögð í heiðri. Lögmaðurinn má vitaskuld aldrei í störfum sínum láta stýrast af öðrum hagsmunum en umbjóðandans og sérstaklega þegar kemur að því að meta forsendur fyrir rekstri dómsmála.

Það er ef til vill ekki úr vegi að með aukinni framleiðslu lögmanna þá sé hugað að því að ekki sé slakað á gæðakröfunum. Aukin framleiðsla á kostnað gæðanna er engum til hagsbóta á þessum vettvangi. Lögmenn gæta mikilla hagsmuna og þurfa því umfram allt að vera starfinu vaxnir.

 

Flokkar: Lögfræði

Miðvikudagur 7.1.2015 - 11:18 - Lokað fyrir ummæli

Ísland og mansal

Ég hef í skrifum mínum hér stundum sagt frá einu og öðru sem rekið hefur á fjörur mínar í lögmennskunni. Oftar en ekki koma upp mál sem eru frábrugðin því sem maður á að venjast í daglegu amstri og langt frá þeim raunveruleika sem maður vill kalla sinn eigin.

Eitt slíkt sérstakt mál bar upp á milli jóla og nýárs en þá hafði ungur maður samband við mig. Viðkomandi er frá Þýskalandi en var staddur hér á landi. Hafði hann lesið grein erlendis um mál sem ég var að vinna í er varðaði bann við því að samkynhneigðir gefi blóð. Hafði hann haft upp á mér í því skyni að biðja mig um að hjálpa sér í erfiðleikum sem hann væri staddur í. Ég bað hann um að upplýsa mig um málið og kom þá í ljós að hann var staddur í sumarbústað einhvers staðar úti á landi með þremur íslenskum karlmönnum. Í fyrstu fannst mér eitthvað bogið við frásögnina og bað hann um að útskýra betur fyrir mér í hverju erfiðleikar hans fælust og hver tilgangur samtalsins væri. Hann tjáði mér að hann væri 24 ára gamall, hafi átt erfiða æsku og leiðst út í að selja sig til að geta framfleytt sér. Hann hafi gengist við því að koma til Íslands og að leyfa nokkrum hérlendum karlmönnum að nota líkama sinn eins og hann orðaði það sjálfur. Í þessu fólst að hann átti að stunda kynlíf með nokkrum karlmönnum sem borguðu fyrir hann flugfarið og greiddu fyrir þjónustu hans.

Drengurinn hafi gert samkomulag við umrædda karlmenn um að hann myndi gista hjá karlmannspari en færi til hinna karlmannanna á ákveðnum dögum. Tjáði hann mér að þeir hefðu tekið af honum vegabréfið og fjármuni ásamt því að banna honum að hafa samband við nokkurn mann hér á landi nema umrætt karlmannspar sem hýstu hann. Vildi hann athuga hvort ég gæti aðstoðað hann í því að komast aftur af landi brott og um leið fá vegabréfið sitt til baka. Hann tjáði mér að hann hafi þurft að framkvæma athafnir fyrir umrædda menn sem væru svo viðurstyggilegar að hann gat ekki tjáð sig um það án þess að gráta. Ég tjáði honum umsvifalaust að setja sig í samband við lögregluna og tilkynna málið og að ég myndi gera það fyrir hann. Hann frábað mig um að gera það enda taldi hann að það myndi hafa afleiðingar heima fyrir. Ég tjáði honum að ég gæti ekki hjálpað honum nema að lögreglan væri látin vita. Hann bað mig um að gera það samt ekki. Ég ítrekað við hann afstöðu mína en ég sagði honum að hafa samband við mig aftur og leyfa mér að fylgjast með framvindu málsins. Ég gerði honum líka grein fyrir því að ég myndi þrátt fyrir fyrri afstöðu mína reyna að hjálpa honum að komast burt og finna fyrir hann ferðaskjöl með aðstoð fagaðila. Um þetta leyti sleit hann samtalinu og ekkert heyrðist í honum fyrr en viku síðar. Þá hringdi hann og tjáði hann mér að hann væri komin aftur heim til Þýskalands og væri kominn á götuna þar sem fósturforeldrar hans hefði gefist upp á honum vegna þess að hann hafði farið í þessum erindagjörðum til Íslands. Hann tjáði mér að farið hafi verið illa með hann á Íslandi, mennirnir sem borguðu honum að koma hingað hafi verið hræddir um að málið myndi komast upp og hafi hótað honum öllu illu. Tjáði hann mér að umræddir menn virtust vera vel tengdir á Íslandi og það væri honum fyrir bestu að þaga því þeir hefði líka tengsl í Þýskalandi. Í þetta skipti náði ég að ræða meira við viðkomandi og komast að ýmsu í fortíð hans og stöðu sem er þyngri en tárum taki að fjalla um.

Mér er ljóst eftir þetta atvik að afstaða mín til laga um vændis og vændiskaup hér á landi er óbreytt. Það að setja regluverk sem gerir kaup á vændi ólöglegt kemur verst niður á þeim sem stunda vændi þar sem meiri hætta er á að umræddur aðili verður beittur þrýstingi, hótunum og ofbeldi vegna ótta kaupandans um að eitthvað komist upp.

Ég óttast mjög að orðræðan og viðhorf okkar Íslendinga til vændis séu á villigötum. Það er afar brýnt að aukin fræðsla og rannsóknir eigi sér stað á mansali og vændi. Ekki síst er brýnt að rannsökuð verði þau úrræði og leiðir sem mögulegar eru til þess að vinna á þessum vanda og hvað skilar raunverulegum árangri í þeim efnum. Það regluverk sem við höfum sett upp gerir ekkert til þess að aðstoða þá sem þurfa á því að halda og liðsinna þeim af þessari braut sem á hana hafa villst. Þótt mansal sé vitaskuld glæpsamlegt athæfi þá er vændi e.t.v. fyrst og fremst félagslegt vandamál sem verður ekki leyst í refsivörslukerfinu. Vændisvandinn hverfur hvorki, minnkar né leysist við það að gera athæfið refsivert hvort sem er athæfi seljanda eða kaupanda. Hér er þörf á öðrum lausnum, öðrum úrræðum eins og t.d. að hafa virkt félagslegt úrræði eða stoðkerfi sem seljendur vændis gætu leitað til fagaðila ýmis konar allt eftir eðli og umfangi vandans og gert þeim kleift að byggja sig upp og vinna sig út úr vændinu.

Það er óhugnanlegt til þess að vita að einstaklingar hér á landi stundi athæfi sem með réttu má kalla mansal. Ég læt mér ekki detta í hug eitt augnablik að ekki séu fleiri svona tilvik í gangi í okkar litla samfélagi. Nógu erfitt er fyrir innlenda aðila að leita sér hjálpar út úr vændi, þannig að maður getur rétt ímyndað sér hvernig ástandið er hjá einstaklingum, konum eða körlum, sem eru flutt hingað gagngert í þessum tilgangi og hótað öllu illu.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 29.12.2014 - 10:13 - Lokað fyrir ummæli

2014 og þjóðarsáttin

Nú er árið 2014 senn á enda og þá er venja að fara yfir farinn veg. Það verður ekki hjá því komist að fara yfir ástandið í þjóðfélaginu okkar á þessum tímamótum. Hver sem metur stöðuna í dag kemst í reynd ekki að annarri niðurstöðu en þeirri að þjóð okkar er í vanda og hér ríkir algjört stefnuleysi. Vandinn sem upp hefur komið t.d í heilbrigðiskerfinu endurspeglar vanda á fleiri sviðum innan kerfisins. Ekki virðist nóg að vandinn sé bundinn við að fjármagna heilbrigðiskerfið heldur er einnig sama vanda að finna t.d. í menntamálum, löggæslu og í að bæta kjör ellilífeyrisþega og þeirra sem nauðsynlega þurfa á aðstoð að halda frá hinu opinbera.

Hvar sem stigið er niður fæti verður ekki fram hjá því litið að ríkisstjórn þessa lands hefur því miður ekki mótað heilstæða stefnu til að taka á þeim vanda sem nauðsynlegt er að vinna á. Ber forgangsröðun verkefna í fjárlögum stefnuleysinu vitni. Svo virðist sem haldreipi þessarar ríkisstjórnar til að halda velli sé skuldaleiðréttingin sem hún setti af stað fyrir heimilin í landinu. Er allt undir hana hlaðið í þeirri vona að dugi til að framfleyta stjórnarheimilinu út þetta kjörtímabil. Þá skal ekki heldur gleyma þeim skattalækkunum sem ríkisstjórnin á heiðurinn af. Þótt skattalækanir séu í reynd gott mál þá verður samt að velta fyrir sér tímasetningunni. Er skynsamlegt að lækka skatta þegar það reynist okkur ofviða að fjármagna grunnstoðir samfélagsins? Þá má ekki gleyma því að svo virðist sem hin gamalgróna séríslenska spilling sé aftur farin að gera vart við sig í kerfinu, vinapólitíkin er farin af stað og allt gert til að byggja undir vildarvini og flokksgæðinga.

Hvað sem þessu líður þá er sorglegt að ekki hafi tekist betur til, að hér sé ekki reynt að tryggja betur grunnstoðir samfélagsins, byggja upp kerfi þar sem bæði heilbrigðiskerfið, mennta- og samtryggingarkerfið sé tryggt og byggt upp þannig að sé þjóð vorri til sóma. Eins og staðan er í dag er mikilvægt að stjórnvöld byggi upp traust á stjórnkerfið og um leið sameini þjóðina í því markmiði að byggja upp þjóðfélag sem þjóni hagsmunum sem flestrar. Það er orðið forgangsverkefni að búa svo í haginn að hér vilji fólk byggja upp framtíð sína. Eflaust er ekki hægt að ætlast til þess að pólitískir leiðtogar sem alist hafi upp með silfurskeið í munni sér get t.d. sett sig í spor almúgans eða þeirra sem þurfa að berjast við kerfið. Mikið vantar upp á að leiðtogar séu til staðar sem hafi skilning á aðstæðum fólksins en einmitt slíka leiðtoga þarf til að sameina þjóð vora.

Það er deginum ljósara að eitthvað þarf að breytast og marka þarf nýja stefnu til að vinna gegn þeirri þróun sem því miður hefur átt sér stað undanfarin ár. Hér þarf að forgangsraða í reynd og ætti árið 2015 að vera það ár sem ný stefna verður tekin í stjórnun landsins. Þessu verður ekki áorkað nema með þjóðarsátt en henni verður aldrei hægt að ná fram nema að stjórnmálamenn þessa lands hafi skilning á þörfum fólksins. Það er ekki hægt að tala um þjóðarsátt á sama tíma og fjallað er um gælustyrki til sérhagsmunahópa, eða kaup á bifreiðum ráðherra eða byggingu höfuðstöðva fyrir ríkisbanka og um leið gera kröfu um það að hin almenni launamaður sætti sig við enn frekari skerðinu lífskjara sinna.

Að sama skapi verður framtíðarlausn ekki fenginn á vanda heilbrigðiskerfisins nema fyrir þjóðarsátt. Framtíð þjóðar vorrar er jú bundinn við það hversu vel okkur tekst t.d. að halda uppi nútíma heilbirgðisþjónustu, að við getum tryggt öldruðum sæmandi ævikvöld, að við hlúum að okkar minnstu bræðrum og systrum og að grunnstoðir samfélagsins haldist.

Íslendingar eru upp til hópa harðduglegt fólk sem hefur tekist í gegnum mikla erfiðleika og fórnir að byggja upp nútíma samfélag sem stenst samanburð við stærri þjóðir heimsins. Það er jú í reynd ótrúlegt að 300 þúsund manna samfélagi hafi tekist að byggja upp þetta nútímaþjóðfélag en það hefur tekist með fórnum almennings þessa lands. Það er hverju okkar brýnt forgangsverk að gæta hagsmuna þjóðarinnar og tryggja framgang og velgengni hennar sem heildar. Í því sambandi verður að brýna fyrir ráðamönnum að ekki er hægt að hunsa það sem hefur skilgreint þessa litlu þjóð í gegnum aldirnar, í gegnum hörmungar sultar, fátækar og náttúaflanna. Í gegnum öróf aldanna höfum við verið menningarþjóð, ljósviti við ystu sker, og aflað okkur virðingar og hróðurs fyrir þær sakir. Okkar velgengni og velmegun verður aldrei reist á efnahagslegir hagsæld einnri saman. Því skulum við ekki og megum ekki gleyma.

[…] því hvað er auður og afl og hús

ef eingin jurt vex í þinni krús.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 29.11.2014 - 13:56 - Lokað fyrir ummæli

Má deila á dómarann?

Fyrir nokkru síðan kom ég að máli sem snérist um skaðabætur gagnvart opinberum aðila. Umbjóðendur mínir töldu að tiltekið bæjarfélag hefði staðið illa að vegaframkvæmd sem varð til þess að fasteign þeirra stór skemmdist og var dæmd ónýt. Var málið sótt fyrir dómsstólum og vanst í héraði enda lágu á bak við málið fjöldin allur af gögnum og sérfræðiálitum sem staðfestu málatilbúnað umbjóðenda minna. Niðurstaða héraðsdóms var mjög vel rökstudd og dómurinn vel uninn enda voru tveir sérfróðir meðdómendur fengnir til að dæma í málinu auk dómarans.

Eins og í flestum svona mála þá var því áfrýjað til Hæstaréttar enda taldi bæjarfélagið ekki annað hægt. Þegar til málflutnings kom í Hæstarétti fór af stað atburðarrás sem ég hefði aldrei sjálfur getað trúað og í reynd lýginni líkust. Málið var flutt fyrir Hæstarétti í októbermánuði fyrir þriggja manna dómi. Eftir að búið var að flytja málið kom orðsending frá Hæstarétti þess efnis að flytja ætti málið aftur og þá fyrir fimm manna dómi. Samhliða því óskaði rétturinn eftir að málsaðilar öfluðu nýrra gagna í málinu. Fyrir þá sem þekkja ekki til þá er þetta mjög óvanalegt þegar litið er til þess að við meðferð einkamála gildi meginregla sem kölluð er málsforræðisreglan. Í þeirri reglur felst í grófum dráttum að málið og sá búningur sem það er lagt fram í, þar á meðal sönnungargögn, er á forræði málsaðilanna en ekki dómara. Dómarinn dæmir þá í málinu í þeim búningi sem það er lagt fram, málsaðilarnir bera þannig ábyrgð á því að leggja fram öll gögn máli sínu til stuðnings og að sama skapi bera þeir hallan ef þeim láist að afla gagna. Dómarinn á ekki að hlutast til um að lagfæra málatilbúnað annars aðilans. Hvað sem þessu líður þá var málið sem sagt aftur flutt fyrir Hæstarétti í þessum mánuði. Niðurstaða dómsins lág svo fyrir og var bærinn sýknaður af öllum kröfum, sem sagt fjölskipuðum dómi héraðsdóms var snúið. Afleiðingar dómsins eru þær m.a. að 85 ára gömul kona hefur misst aleigu sína.

Þegar manni finnst brotið á réttarfarsreglum, og það meginreglu réttarfars, þá fara ýmsar spurningar að vakna. Getur verið rétt sem Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrum dómari Hæstaréttar hefur í gegnum tíðina sagt að eitthvað sé í reynd rangt í kerfinu okkar. Er eðlilegt að rétturinn ákveði það eftir að búið er að flytja málið að það eigi að flytja það aftur? Getur Hæstiréttur leyft sér að kalla eftir nýjum gögnum í máli sem búið er að flytja fyrir héraði og dæma í? Er réttlætanlegt að Hæstiréttur hlutist til um að afla nýrra sönnunargagna öðrum málsaðilnum til hagsbóta? Niðurstaða Hæstaréttar er endaleg og í réttinum eru mjög hæfir dómarar sem hafa að baki áratugareynslu í lögfræði en rétturinn verður eins og aðrar stofnanir í samfélaginu að þola gagnrýni.

Það hefur myndast sú venja í okkar kerfi að lögmenn deili ekki á dómarann og þá sérstaklega ekki í Hæstarétti. Oft mætti ætla að um þetta væri þögul samstaða innan lögmannastéttarinnar. Lögmenn verðar aftur á móti að sinna hlutverki sínu og halda uppi gagnrýnni umræðu í þjóðfélaginu þegar kemur að réttindum einstaklinga. Það er beinlínis skylda lögmanna að vera virkir í júridískri gagnrýnni í samfélaginu.

Flokkar: Lögfræði

Miðvikudagur 26.11.2014 - 16:39 - Lokað fyrir ummæli

Er Dróma ósómi að verða að Arion ósómi

Fyrir meira en ári síðan birtist grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni Drómi ósómi. Í þeirri grein var farið yfir vinnbrögð fjármálafyrirtækisins eða innheimtufyrirtækisins Dróma.  Eins og svo margir eflaust þekkja var umrætt fyrirtæki þekkt fyrir ótrúlega óbilgirni í garð skuldara sinna.  Það sem einkenndi þetta ágæta fyrirtæki líka var getuleysi þess til að taka á málum og framfylgja hinum einföldustu vinnureglum eins og t.d. að halda utan um skjöl og gögn sem tengdust málum sem þar voru í vinnslu. Þetta er þó liðin tíð sem betur fer þar sem Arion-banki hefur nú tekið við flestum þessara krafna og sér nú um að vinna úr þeim vanda og í raun vitleysu sem myndaðist hjá Dróma.

Við yfirtöku Arion-banka á kröfum Dróma vonaðist t.d. undirritaður til þess að unnið yrði betur úr málum og að skuldarar fengju betri úrlausnir sinna mála, úrlausnir sem t.d. tækju meira mið af því sem önnur fjármálafyrirtæki voru að gera fyrir þá skuldara sína sem áttu í skuldavanda.

Í fyrstu má segja að Arion-banki hafi tekið vel á málum og ekki verður hægt að bera þessi tvö fjármálafyrirtæki saman enda ljóst að mati undirritaðs að Drómi fór lengra en önnur fjármálafyrirtæki í óbilgirni ekki nema vera skyldi tiltekið bílafjármögnunarfyrirtæki sem hefur því miður verið annálað fyrir mikla ósvífni í garð skuldara. En það sem sætir furðu minni er hversu erfilega Arion-banki virðist eiga með að loka og vinna úr mörgum þeirra mála sem bankinn tók yfir af Dróma þrátt fyrir að öðrum og sanngjarnari aðferðum sé beitt við úrvinnslu þeirra. Oftar en ekki virðast vanta gögn bakvið kröfur, illa gengur að átta sig á aðferðafræði eða ákvörðunum sem fulltrúar Dróma virðast hafa tekið við úrvinnslu sumra mála. Virðist því miður sem erfiðlega gangi fyrir Arion að vinda ofan af þeim ósóma sem tilhafður var hjá Dróma í mörgum mála og því sé bankinn komin í öngstræti með þessi mál eða getur verið að Arion-banki hafi leyst umræddar kröfur til sín á svo háu verði að það sé í reynd erfitt að gefa nokkuð eftir þrátt fyrir að umræddar kröfur séu vonlausar.

Erfitt er að segja til um þetta. Það sem er aftur móti brýnt og má ekki missa sjónar á er það að margir skuldarar sem áttu því miður í viðskiptum við Dróma hafa ekki enn fengið lausn á sínum skuldavanda nú sex árum eftir hrun. Það ætti að vera forgangsmál úr því sem komið er að þessir aðilar fái úrslausn sinna mál sem fyrst.

Flokkar: Dægurmál · Lögfræði · Viðskipti og fjármál

Þriðjudagur 28.10.2014 - 14:31 - Lokað fyrir ummæli

NOH8

Fyrir nokkru kynnist ég samtökum sem standa að baki NOH8 herferðinni en um er að ræða líknarfélag í Bandaríkjunum Norður-Ameríku sem hefur það að markmiði að efla jafnrétti almennt, milli kynjanna og jafnan rétt til hjúskapar. Markmiðum sínum reyna samtökin að ná í gegnum menntun og fræðslu, með almennri málafærslu eða advocacy, í gegnum netmiðla og með mótmælum.

Herferðin byrjaði sem þögul mótmæli í formi ljósmyndagjörnings ljósmyndarans Adam Bouska og lífsförunautar hans Jeff Parshley í kjölfar þess að fylgisþing Kaliforníufylkis samþykkti lagabreytingu sem bannaði hjónaband milli einstaklinga af sama kyni árið 2008, svokallaða Proposition 8. Í gjörningnum voru ljósmyndir af einstaklingum með límband fyrir munninum til að tákna þöggun þeirra og skammstöfunin NOH8 rituð á annan vangan. Fjöldi einstaklinga tóku þátt í gjörningnum og ekki aðeins sam- og tvíkynhneigðir heldur gagnkynhneigðir líka.

Það sem vakti athygli mína var að mörgum af fylgismönnum þessara samtaka þótti ekki endilega þörf á því að fá íslenska aðila til liðs við sig þar sem Íslendingar hefðu náð tiltölulega langt á þessum vettvangi. Mér þótti það sérstök afstaða enda að mínu mati skylda Íslendinga sem þjóðar í fararbroddi á þessu sviði til að vekja athygli á því hversu vel okkur hefur miðað áfram í að auka mannréttindi hér á landi og að við ættum um leið að vera talsmenn fyrir slíkri þróun annars staðar í hinum stóra heimi.

Mér þykir umrædd samtök margt áhugaverð og tel að bæði almenningur og stjórnmálamenn ættu ekki að láta sitt eftir liggja og birta af sér mynd með umræddum letrunum og límbandi fyrir munni sér enda er ljóst að við megum aldrei sofna á verðinum í barráttunni fyrir auknum mannréttindum og jafnrétti. Eins og Kennedy sagði; „One person can make a difference, and everyone should try“.

Ég get samhliða þessu upplýst um það hér að til stendur að láta reyna á lögmæti þess að samkynhneigðum á Íslandi sé meinað að gefa blóð. Þrátt fyrir góðan tilgang bannsins í upphafi verður að draga tilvist þess í efa nú á dögum, einkum þegar litið er til þess að allt blóð í dag er skimað. Þá verður líka að hafa í huga að samkvæmt því sem við heyrum í fréttum og upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum þá virðist mesta smithættan vera hjá sprautufíklum, jafnt konum sem körlum.

Flokkar: Dægurmál · Lífstíll · Lögfræði · Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda

Mánudagur 27.10.2014 - 10:18 - Lokað fyrir ummæli

Skattar og stjórnsýsla

Fyrir nokkru tók ég að mér mál fyrir umbjóðanda sem sneri að samskiptum við skattyfirvöld. Umbjóðandinn hafði átt félag sem hann hafði selt en honum hafði verið ráðlagt af fagfólki að skipta upp félaginu og selja svo. Fór hann að þeim ráðum og þremur árum eftir sölu félagsins fékk hann fyrirspurnarbréf frá Ríkisskattstjóra þar sem hann var beðinn um að upplýsa um vexti málsins. Var bréfinu svarað og heyrðist ekkert í Ríkisskattstjóra fyrr en tveimur árum seinna eða fimm árum eftir að umrædd sala hafði átt sér stað. Var þá aftur spurst fyrir um sölu félagsins og umbjóðanda mínum gert að gera grein fyrir ákveðnum atriðum í tengslum við söluna. Eftir að því bréfi var svarað var farið í það að afla upplýsinga um afstöðu Ríkisskattstjóra og hvers vegna málið væri í þeim farvegi sem það var. Í samskiptum við Ríkisskattstjóra var reynt að benda á ýmis atriði varðandi formhlið málsins og leitað svara við því af hverju embættið væri að spyrja sömu spurninga og það gerði þremur árum áður. Málið endaði með þeim hætti að Ríkisskattstjóri gerði breytingar á framtölum umbjóðandans og færði hann úr 10% skatthlutfalli í nærri 40%. Við málsmeðferðina var reynt með góðum rökum að fá málið fellt niður. Umbjóðandinn stóð eftir með skattbreytingu og mikinn kostnað þegar upp var staðið. Málið var kært til yfirskattanefndar sem nærri tveim árum seinna komast að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið rétt staðið að málinu af hendi Ríkisskattjóra og felldi úr gildi umrædda breytingu. Umbjóðandinn fékk nærri 70 milljónir endurgreiddar ásamt nærri 7 milljónum í vexti. Í reynd hefði málið aldrei átt að fara af stað þar sem málsgrundvöllur var veikur.

Svo er það Seðlabankinn en til mín kom umbjóðandi með bréf frá seðlabankanum þar sem hann var spurður út í gjaldeyrisfærslur sem bankinn taldi vera ólöglegar. Umræddar færslur áttu sér eðlilegar skýringar sem í reynd voru að mati undirritaðs heimilar samkvæmt því regluverki sem gilti um slíkar gjaldeyrisfærslur. Fóru af stað bréfaskrif og gagnaöflun sem tók bæði tíma og kostaði fjármuni fyrir umbjóðandan. Sex mánuðir liðu frá síðustu samskiptum þegar einblöðungur barst frá bankanum til umbjóðanda míns. Á bréfinu, sem var með virðulegum blæ með merki seðlabankans og á fínum pappír, var ein setning sem sagði: „Þar sem lögin eru ólögleg þá er málið fellt niður.“ Þessi setning er auðvitað að mörgu leiti kómísk þar sem fyrir það fyrsta það er ekki á valdi stjórnvalds að kveða á um það hvort lög séu ólögleg eða ekki. Í reynd hefði bakinn frekar átt að segja að málið væri fellt niður og ekki orði meira.

Hvað er það í okkar kerfi sem veldur því að hinn almenni borgari þarf að vera í hlutverki aðilans sem berst við vindmyllur þegar kemur að því að eiga í samskiptum við hið opinbera. Er það ekki reynd þannig að hið opinbera á að þjóna almenningi en ekki öfugt? Er ekki eðlilegt að kerfið sé skilvirkara og að mál séu ekki að taka of langan tíma og að ekki sé verið að fara af stað með mál sem skila litlu sem engu þegar upp er staðið. Er ekki í lagi að endurskoða þetta kerfi. Það er vel hægt að spara t.d. fjármuni með því að vera ekki með kerfi sem reynir að halda dauðadæmdum málum gangandi og getur svo ekki brotið odd af oflæti sínu og fellt mál niður þegar þeim er bent á villur í  málatilbúnaði. Þarf þetta litla samfélag að vera með svona kerfi?

Flokkar: Dægurmál · Lögfræði · Viðskipti og fjármál

Sunnudagur 28.9.2014 - 14:57 - Lokað fyrir ummæli

Sex hundruð sumur

Það hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með skrifum mínum að ég hef haft ýmislegt að segja um hvernig unnið er að málum skuldugra heimila og fyrirtækja innan bankakerfisins. Margt hefur gengið á og sumt hefur verið lyginni líkast enda reynt að ganga eins nærri þessum aðilum og hægt er þegar kemur að innheimtu krafna bankanna. Þrátt fyrir að vera löglærður og ýmsu vanur þá er ótrúlegt að horfa upp á hvernig þetta kerfi virkar. Að það sé í reynd hægt að hundsa dóma og nota til þess lögskýringar og túlkanir sem fara gegn betri vitund bara af því að það hentar fjármálafyrirtækjunum er ótrúlegt að horfa upp á. Virðist sem það sé allt reynt til að ganga á rétt skuldarans eins og ekkert annað væri eðlilegra. Er þetta ótrúlegt þegar litið er til þess að nú eru sex ár liðin frá hruni og það virðist lítið hafa breyst. Fyrir okkur sem höfum verið að reyna að vinna í þessum málum og moka flórinn má með sanni segja að þessi tími hefur verið eins og sex hundruð sumur en ekki bara sex.

Staðreyndin er sú að margt er óuppgert í skuldamálum einstaklinga og fyritækja og enn er verið að berjast við fjandsamlegt kerfi sem gengur harðar fram en áður. Í þessu samhengi vil ég benda á nauðungasölur sem fara nú fram en oftar en ekki er verið að fara fram á sölu eigna sem vitað er að ná ekki að dekka kröfur þeirra sem fara fram á uppboðin. Oftar virðist hér um að ræða aðgerðir til að knýja fram efndir sem fyrirfram er vitað að nái því markmiði ekki. Þá er spurningin hvers vegna er verið að fara fram á uppboðið ef ekki til að fá kröfuna greidda með andvirði eignarinnar?

Svo eru það kröfurnar sem eru vegna tækjakaupa. Mörg dæmi eru um það að litlir atvinnurekendur standa uppi með tugmilljóna kröfur á sér vegna tækjakaupa þegar ljóst má vera að umrædd tæki sem standa eiga undir fjármögnunni gera það alls ekki. Dæmi um þetta er einstaklingur sem rekur flutningaþjónustu á sínu nafni og er með þrjá átta ára gamla sendlabíla. Lánin á þeim standa í dag í nærri 18 milljónum en ljóst er að umrædd tæki ná ekki að dekka þá fjárhæð ef til uppboðs kæmi eða sölu þeirra. Eigandinn getur ekki með góðu móti endurnýjað tækin eða komið þeim í verð svo hann geti leyst sig undan þessum fjárskuldbindingum. Hann þarf því að horfa upp á að annað hvort reyna hvað hann getur að reka þetta áfram í óbreyttu ástandi eða fara í þrot. Á sama tíma fer kröfuhafinn fram á hærri greiðslur upp í kröfuna. Hér er ekki verið að taka tillit til aðstæðna. Það að kröfuhafanum þyki réttlátt að krafan sé hækkuð um meira en helming og að skuldarinn eigi að gangast við því og greiða sýnir í hnotskurn villuna í þessu kerfi og að kröfuhafarnir ætli sér ekki að taka neina ábyrgð á aðstæðum sem orðið hafa í þjóðfélaginu við hrunið.

Einnig ber að nefna ótrúlegt ástand sem orðið hefur þegar kemur að leiðréttingum á gengislánum innan bankanna. Mörg dæmi erum um það að þegar kemur að því að semja um skuldbindingar fólks og farið í afskriftir, hvort sem það er vegna gengislána eða annarra fjárskuldbindinga, að gengið sé á ábyrgðarmenn með eftirstöðvar þrátt fyrir að samið hafi verið um kröfurnar við aðalskuldara. Dæmi um þetta er mál konu nokkurar sem gerði samning við bankan um fjárskuldbindingar sínar og fékk hluta af þeim afskrifaðar. Hún þurfti að greiða af eftirstöðvum næstu þrjú árin en eftir þann tíma átti krafan að vera að fullu greidd. Á sama tíma hafði ábyrgðarmaður á kröfum konunnar fengið leiðréttingu á bílaláni sem ábyrgðarmaðurinn hafði verið með og var í erlendri mynt. Var viðkomandi að fá í gegn endurútreikning númer tvö. Þegar ábyrgðarmaðurinn spurðist fyrir um endurgreiðsluna vegna leiðréttingarinnar var honum tjáð að þeirri fjárhæð, sem var upp á nærri 1 milljón, hefði verið skuldajafnað við skuldir fyrrgreindrar konu sem viðkomandi var í ábyrgð fyrir. Þetta gerði bankinn þrátt fyrir að aðalskuldarinn væri að greiða af skuldum sínum og væri búinn  að semja við bankan. Hér tók bankinn einhliða ákvörðun um skuldajöfnum og án þess að leggja það fyrir aðalskuldarann eða ábyrgðaraðilann. Hverjum hefði dottið það í hug að þegar samið væri um skuldir aðila líkt og gert var í þessu tilviki að bankinn færi að ganga lengra í því að fá meira upp í kröfu sína. Hvers virði eru svona samningar við bankana eiginlega? Það mætti halda að svo lengi sem fyrirtæki er kallað banki þá megi það taka peninga af fólki án nokkurs samráðs eða samnings sem undir öðrum kringumstæðum væri ekki kallað annað en þjófnaður. Hafa menn ekki lært neitt síðastliðin sex ár eða erum við kannski kominn aftur á upphafsreit?

Hvað er þá orðið okkar starf

í sex hundruð sumur?

Höfum við gengið til góðs

götuna fram eftir veg?

Flokkar: Lögfræði · Viðskipti og fjármál

Þriðjudagur 9.9.2014 - 15:34 - Lokað fyrir ummæli

Fórnarlömb getuleysis yfirvalda

Í byrjun september fóru af stað uppboð á eignum fólks í skuldavanda þrátt fyrir loforð ráðherra um að gripið yrði til aðgerða svo fresta mætti uppboðum fram í mars á næsta ári. Enn er beðið eftir því að ráðherra leggi fram frumvarpið svo hægt verði að fara í það að fresta þeim uppboðum sem fyrirhuguð eru í þessum mánuði.

Í umfjöllun um málið hefur komið fram óánægja um það að ekki hafi verið gripið til aðgerða fyrr þar sem ljóst mátti vera að úrræði ríkisstjórnarinnar vegna leiðréttinga á húsnæðislánum einstaklinga tækju lengri tíma að fara í gegn. Ekki getur það talist sanngjarnt að þeir sem t.d. hafa fengið boðun um að fasteignir þeirra eigi að bjóða upp í septembermánuði fara á mis við frestun á uppboðum meðan þeir sem t.d. hafa fengið boðun um uppboð í októbermánuði fá þá frestun. Mér er spurn hvort embættismenn ráðuneytisins og embætta sýslumanns séu t.d. ekki meðvitaðir um jafnræðisregluna, er virkilega hægt að mismuna fólki á Íslandi með þessum hætti? Eiga þeir sem t.d. fá á sig uppboð í september ekki jafnan rétt á frestun og þeir sem eiga á hættu að eignir þeirra fari á uppboð mánuðina þar á eftir?

Grundvallarreglan í þessu hlýtur að vera sú að gæta þurfi að jafnræði í þessu og að réttindi fólks fari ekki forgörðum vegna slælegra vinnubragða embættismanna og skammsýni þeirra sem taka ákvarðanir. Ljóst er að fyrir mörgum mánuðum síðan var hægt að sjá það fyrir að fresta hafi þurft uppboðum mun lengur en gert var. Skuldaúrræði ríkisstjórnarinnar taka einfaldlega mun lengri tíma í úrvinnslu eins og fréttir sl. daga hafa staðfest.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 2.9.2014 - 21:39 - Lokað fyrir ummæli

Getur sá sótt rétt sinn fyrir dómi sem skráður er á vanskilaskrá?

Eins og staðan í þjóðfélaginu okkar er í dag þá hafa margir farið illa út úr efnahagshruninu og hefur fjöldi þeirra sem eru skráðir á vanskilaskrá aukist nokkuð frá hruni. Erfitt getur reynst að hreinsa sig af skránni enda eru fjármálastofnanir iðnar við að halda öllum skráningum um vanskil einstaklinga til haga. Ég er einn af þeim sem telja að breyta þurfi regluverkinu varðandi slíkar skráningar og að þeim sé eytt út fyrr en gert er og að færri mál séu skráð í umræddan grunn.

Með vísan til þessa má benda t.d. á þá staðreynd að í lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 er að finna ákvæði sem gefur t.d. málsaðila heimild til að krefja stefnanda í máli um svokallaða málskostnaðartryggingu. Er í ákvæðinu vísað til þess að ef ætla megi að aðili sé t.d. ekki fær um að greiða kostnað vegna málsins þá sé hægt að fara fram á umrædda tryggingu. Geti viðkomandi ekki framvísað umræddri tryggingu þá ber að vísa málinu frá.  Skiljanlega er verið að tryggja að aðilar sem eiga t.d. ekki eignir eða standa illa séu í reynd ekki að hefja málarekstur af litlu eða engu tilefni og kostnaður málsins lendir allur á mótaðilanum. Skýrt er fjallað um tilgang umrædds ákvæði í greinargerð með lögunum.

Hvað sem því líður þá er staðreynd málsins hins vegar sú að lögmenn nota umrætt ákvæði í auknu mæli og til þess eins að fá mál felld niður. Er þá oftar en ekki vísað til þess að málsaðili hafi komist á vanskilaskrá eða að fjárhagur hans hafi verið gerður opinber með skráningur í grunni eins og t.d. hjá Creditinfo. Þessu fylgir auðvitað ákveðin ábyrgð en það sem meira máli skiptir er að þeir sem þurfa að sækja rétt sinn fyrir dómstólum og geta staðið undir kostnaði lögmanns síns og mótaðila geta átt á hættu að mál þeirra séu felld niður t.d. vegna þess að þeir hafa komist inn á vanskilaská og vegna þess að þeir eru krafðir um málskostnaðartryggingu. Slík trygging getur vel farið yfir það sem er í reynd hin raunverulegur kostnaður málsins enda er fjárhæð tryggingar matsatriði dómara hverju sinni. Hér er fín lína sem þarf að skoða betur enda ólíkir en gildir hagsmunir sem vegast á. Auðvitað þarf að gæta þess að ekki sé hægt að valda mönnum skaða t.d. með tilhæfulausum málarekstri. Hins vegar geta komið upp tilvik þar sem einstaklingar hafa gott mál í höndum en þurfa frá að hverfa þar sem þeir geta ekki sett fram tryggingar fyrir málskostnaði  í málinu. Heppilegra hefði verið að mínu mati ef lagaákvæði þetta hefði kveðið skýrar á um þau tilvik sem réttlæta kröfu um málskostnaðartryggingu.

Flokkar: Lögfræði

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur