Sunnudagur 10.8.2014 - 20:40 - Lokað fyrir ummæli

Aðgengi að náttúru Íslands

Það hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum umræðan í þjóðfélaginu um gjaldtöku fyrir aðgengi að sumum náttúruperlum Íslands. Hafa sumir landeigendur gípið til þess ráðs að taka gjald fyrir aðgengi með þeim rökum að þeir þurfi að kosta til aðgengi að þjónstu og viðhaldi mannvirkja á umræddum stöðum. Þetta er að vissu leyti skiljanlegt enda hefur fjöldi ferðamanna aukist til muna og dylst engum að það hefur aukið á ýmis vandamál.

Hvað varðar lögfræðilega nálgun málsins þá er ljóst að hér skarast á almannaréttur og eignarréttur. Almannarétturinn tryggir aðgengi almennings að nátturunni þrátt fyrir eignarrétt landeigenda sem er þó stjórnarskrárvarinn. Eins og núverandi regluverki er háttað er með engu móti hægt að fullyrða að gjaldtaka við umræddar náttúruperlur sé lögleg. Það er þó til staðar heimild til gjaldtöku en hún er háð því að sérstakar aðstæður kalli á gjaldtökuna og hún sé framkvæmd t.d. í samvinnu við Umhverfisstofnun.

Hættan er sú að farið verði í það að rýra almannaréttinn með lagasetingu til þess að heimila framangreinda gjaldtöku. Almannarétturinn er mjög mikilvægur þegar horft er til aðstæðna á Íslandi enda náttúran samofin þjóðarsálinni. Hins vegar verður að viðurkenna að landeigendur hafa eitthvað til síns máls og er staðreyndin sú að þeir sem fara með ferðamenn í stórum stíl á umrædda staði gera það í atvinnu- og gróðaskyni. Því vaknar sú spurning hvort umræddir ferðaþjónustuaðilar þurfi í reynd ekki að greiða þann kostnað sem til fellur við viðhald og þjónustu við ferðamenn á umræddum svæðum. Hvaða rök eru fyrir því að náttúruperlur landsins séu fótumtroðnar af ferðafólki og sá sem á því græðir mest er sá sem flytur fólkið á staðinn. Hins vegar eru auðvitað margir sem fara líka á eigin vegum.

Við getum eflaust verið öll sammála því að sátt verður að nást um málið og hafa umræður um náttúrupassa og skattlagningu verið háværar. Hins vegar tel ég ekki farsælt að treysta hinu opinbera að taka nefskatt sem síðan á að nota til uppbyggingar á ferðaþjónstu því slíkt hefur því miður ekki gefið góðan árangur. Menn geta heldur ekki ætlast til þess að ríkið veiti skattfé til uppbyggingar á tilteknum landsvæðum á sama tíma og þeir standa fastir á stjórnarskrárvörðum eignarrétti sínum yfir því landsvæði. Það er ekki bæði hægt að éta kökuna og eiga hana.

Líklega þurfa landeigendur og þeir sem starfa í ferðaþjónstu að ná saman um lausn sem hentar báðum aðilum. Gæti samkomulagið falist í því að ferðaþjónustuaðilar leigji aðstöðu af landeigendum en leiga er í reynd heimild skv. lögum og ætti að vera einfaldari í framkvæmd en sjálf gjaldtakan. Samtök ferðaþjónstuaðila gætu haft milligöngu um þetta gjald og haft umsjón með hvernig því yrði ráðstafað. Þessi deila verður í reynd ekki leyst nema á milli þeirra sem hafa mestu hagsmunina hvað ferðaþjónustuna sjálfa varðar.  Ekkert af þessu er einfalt en mikilvægt er hins vegar að þingmenn og almenningur standi vörð um hinn forna almannarétt enda væri það mikil synd og óheillaspor að fórna almannaréttinum á altari eignarréttarins.

Flokkar: Lögfræði · Óflokkað

Fimmtudagur 26.6.2014 - 15:26 - Slökkt á athugasemdum við Orðræða þjóðar

Orðræða þjóðar

Með efnahagshruninu voru ekki bara fjárhagsleg áföll sem dundu yfir þjóð vora heldur fylgdu annars konar áföll í kjölfarið sem minna hefur verið rætt um. Leiddu þau til þess að ýmsar breytinga urðu á persónu þjóðar vorar sem t.d. endurspeglast í þeirri orðræðu sem er ríkjandi í íslensku samfélagi. Umræðan í þjóðfélaginu er orðin svo neikvæð og illkvittinn að maður undrast stundum hversu slæmt ástandið er í reynd. Reiði sú sem varð til í kjölfar efnahagshrunsins átti rétt á sér enda eru margir einstaklingar og fyrirtæki í landinu í skuldafjötrum sem erfitt hefur reynst að vinna úr.

Sú uppbygging sem leiðtogar þessarar þjóðar tala fyrir hefur því miður ekki breytt líðan fólks í landinu eða breytt viðhorfi þeirra til lands og þjóðar. Í umræðunni heyrast oftar en ekki neikvæð ummæli um land og þjóð, hvað lífsskilyrðin eru slæm og hvað erfitt sé að lifa í landinu. Við erum vör við tíð verkföll og umræðu er varðar stjórnun landsins og fleira í þeim dúr. Sú blogg menning sem hefur tekið sér bólfestu á netmiðlum er heldur ekkert til að hrópa húrra yfir þar sem persónur eru oft svívirtar án nokkurra raka eða rökstuðnings og mannorðsmorð virðast vera daglegur viðburður. Er ekki komið nóg? Er ekki tími til kominn að við skoðum hvert við stefnum sem þjóð?

Þrátt fyrir allt er landið Íslands ekki svo slæmt að búa á. Hér er engin óöld og hér geysa hvorki drepsóttir né stríð. Ég get tekið undir að laun í landinu þurfa að taka mið af því hvað það kostar að lifa, jöfnuður þarf að vera meiri og meiri skilningur þarf að vera í garð skuldara. Passa þarf betur upp á fjölskyldufólk og eldri borgara. Við verðum samt sem áður að gæta velsæmis í garð hvers annars og um leið að sjá hvað í reynd gerir þjóð og land að sérstökum stað og hvað það er í reynd mikil forréttindi að fá að fæðast og búa á landi voru. Atriði sem um er hægt að kvarta yfir eru eitthvað sem við getum breytt og stjórnað.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 6.6.2014 - 08:50 - Slökkt á athugasemdum við Innheimta á villigötum

Innheimta á villigötum

Eftir efnahagshrun var farið út í ýmsar lagabreytingar með því markmiði t.d. að auka rétt neytenda á lánamarkaði. Má nefna sem dæmi breytingar á regluverki varðandi ábyrgðarmenn og svo reglur um neytendalán. Jafnframt var farið í að breyta leikreglum er varða innheimtuaðferðir. Að mati undirritaðs var alls ekki gengið nógu langt í því að bæta úr kerfisvillum er varða t.d. innheimtu á hendur einstaklingum. Í dag eru starfrækt innheimtufyrirtæki sem taka að sér að innheimta kröfur á hendur einstaklingum sem hafa ekki getað af einhverjum ástæðu staðið í skilum með sínar skuldbindingar. Í þessu samhengi þarf að hafa hugfast að þrátt fyrir að nærri 6 ár séu nú liðin frá efnahagshruninu þá eru fjölmargir enn fastir í fjárhagserfiðleikum sem má rekja til hrunsins.

Verður t.d. að segjast eins og er að illa hefur gengið að fá innheimtuaðila til að vinna úr þessum vanda með skuldurum. Er staðreynd málsins sú að innheimtufyrirtækin hafa oftar en ekki tekið allt forræði á þeim kröfum sem þau innheimta fyrir kröfueiganda en kröfueigandi lýsir gjarna svo yfir að forræði innheimtunnar sé alfarið í höndum þess félags sem sér um innheimtuna. Afleiðingar þessa fyrir þann sem skuldar geta verið skelfilegar enda er innheimtufyrirtækið að bæta ofan á kröfu kröfueigandans kostnað sem getur orðið til þess að illa og jafnvel vonlaust sé fyrir skuldarann að vinda ofan af þeim skuldavanda sem hann er í. Eru til mörg dæmi þess að skuldari hafi haft t.d. getu til að greiða mánaðarlega af skuldum með t.d. einfaldri aðferð eins og að skuldbreyta og lengja í lánum en til að svo geti gengið þurft að gangast við því að staðgreiða háar fjárhæðir í innheimtukostnað sem á endanum hafa leitt til forsendubrests af hendi skuldara. Dæmi um þetta er mál sem undirritaður þekkir til þar sem aðili var með 7 milljóna króna skuld við kröfueiganda. Hafði skuldarinn getu til að greiða af umræddri kröfu mánaðarlega fjárhæð ef lengt yrði í láni viðkomandi. Hins vegar þurfti að greiða kostnað vegna innheimtu sem var kominn í nokkur hundruði þúsunda en umræddan kostnað þurfti að staðgreiða. Viðkomandi gat með engu móti staðið undir því og var því málinu sjálfhætt.

Það er alveg ljóst af mínu mati að kröfuhafar verða að gæta þess að auka ekki óhóflega eða að ósekju við vanda skuldara með því að fela 3ja aðila innheimtu kröfu þeirra. Það getur vart þjónað hagsmunum kröfueiganda að setja skuldarann í svo vonlausa stöðu að ómögulegt sé fyrir hann að endursemja um afborganir sökum þess að álögur innheimtuaðila standi því í vegi. Bæta þarf stöðu skuldara enn frekar einkum gagnvart innheimtufyrirtækjum. Það er með engu móti ásættanlegt að vandi þeirra sem skulda sé aukinn með álögum innheimtuaðila en markmið kröfueiganda á að vera til lengri tíma litið að skuldarinn efni sínar skuldbindingar. Það er skammsýni að ætla að það þjóni hagsmunum kröfueigandans að horfa á stöðu skuldara út frá því hvort hann geti greitt álögur til innheimtuaðila.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 5.6.2014 - 22:52 - 2 ummæli

Mosku deilan

Undirritaður hefur fylgst með umræðunni í þjóðfélaginu undanfarið er tengst hefur úthlutun lóðar undir mosku í Reykjavík. Hefur hún oftar en ekki farið út fyrir velsæmandi mörk og hafa aðilar farið frjálslega með staðreyndir í málinu. Undirritaður var verjandi þeirra sem tóku sig til og framkvæmdu gjörning þann þar sem svínshausum var stillt upp á lóð þeirri sem til stendur að umrædd moska rísi á. Af tengslum mínum við það mál verð ég að segja að ég undrast hvernig því hefur verið kastað fram að lögregluyfirvöld hafi ekki sinnt starfi sínu við rannsókn málsins. Hvorki undirritaður né umbjóðendur mínir  fundu fyrir því að lögreglan hefði á einhvern hátt farið á svig við vinnureglur sínar við framkvæmd rannsóknararinnar. Umbjóðendur mínir voru kallaðir til skýrslutöku vegna málsins og voru þær í engu frábrugðnar öðrum skýrslutökum sem undirritaður hefur haft kynni af í störfum sínum sem lögmaður.

Það er jú auðvelt þegar maður fylgist með umræðunni úr fjarska að falla í þá gildru að telja sig geta slengt fram fullyrðingum án þess að vera með allar staðreyndir málsins á hreinu. Umræðan er orðin lituð af tilfinningasemi sem mætti halda að ætti að ráða öllu um það hvernig t.d. réttarkerfið í landinu eigi að virka. Ekki verður hjá því komist að meta umrætt mál út frá þeim staðreyndum sem liggja fyrir í því. Að halda því fram að yfirvöld hafi vísvitandi „sópað málinu undir teppið“ er með öllu fjarstæðukennt og órökstutt. Beita þarf yfirvegun og eðlilegri rökhugsun þegar fjallað er um málefni sem tengjast viðkvæmum málum eins og trúarbrögðum og varast sleggjudóma.

Flokkar: Lögfræði

Sunnudagur 27.4.2014 - 17:27 - Slökkt á athugasemdum við Ætternisstapi

Ætternisstapi

Í störfum mínum sem lögmaður hef ég þurft að takast á við ýmis verkefni sem eru mjög sorleg. Ég hef sinnt störfum sem lögráðamaður fyrir einstaklinga sem eiga við andleg veikinda að stríða og einnig hef ég þurft að hjálpa aðstandendum einstaklinga sem fallið hafa fyrir eigin hendi. Í tveimur tilvikum hef ég komið að máli þar sem einstaklingar hafa reynt að svipta sig lífi og verið vistaðir á geðdeild Landspítalans eftir þær tilraunir. Báðir þessir einstaklingar áttu sögu um að hafa reynt áður að svipta sig lífi. Í báðum þessum tilvikum voru þessir einstaklingar vistaðir í mjög skamman tíma á geðdeild spítalans áður en þeir voru sendir aftur heim án þess að aðstandendur þeirra væru látnir vita.  Báðir sviptu þeir sig lífi innan tveggja sólarhringa frá því að vera útskrifaðir af geðdeildinni. Í báðum tilvikum er um mikla sorgarsögu að ræða.

Það sem mér þykir ámælisvert er að ekki hafi verið fylgt eftir verklagsreglum sem ég tel að eigi ávallt að fylgja eftir í svona tilvikum. Að leyfa einstaklingum að útskrifast tiltölulega fljótt eftir að þeir eru vistaðir og eftir að hafa reynt að svipta sig lífi getur ekki talist eðlileg vinnubrögð hvað þá þegar aðstandendur þeirra eru ekki látnir vita og geta ekki gert ráðstafanir til þess að taka á móti þeim með einum eða öðrum hætti. Ég ætla ekki að setja mig í það dómarasæti að segja að ekki sé verið að vinna faglega á geðdeild Landspítalans en ég tel samt af reynslu minni af þessum málaflokki að það þurfi að taka umræðu um þetta og hvernig við erum að hlúa að fólkinu okkar sem á við andleg veikindi að stríða. Það þarf að gera betur til þess að mæta þörfum þessara einstaklinga og um leið auka rétt aðstandenda til að koma að ferlinu sérstaklega þegar einstaklingar sem eiga við þennan vanda að stríða eru enn sjálfráða. Þegar um ósjálfráða einstakling er að ræða, eða einstakling sem hefur verið sviptur sjálfræði, þá er alltaf fólk til staðar til að taka á móti viðkomandi. Það þarf að tryggja að sjálfráða einstaklingur hafi líka eitthvað öryggisnet til þess að detta á þegar honum er sleppt út. Hér tel ég brýnt að nýta aðstandendur og veita þeim aukinn rétt til þess að mega koma að gagni en ekki hundsa þá eins og dæmin virðast því miður stundum bera með sér. Ég er líka þeirra skoðunar að samfélagið í heild sinni þurfi að taka sig meira á í að fjalla um þetta vandamál sem er alltof algengt og spyrja sig þeirrar spurningar hvað getum við sem samfélag gert til að vinna gegn þessu meini sem sjálfsvíg svo sannarlega er.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.4.2014 - 19:31 - Slökkt á athugasemdum við Fyrning réttinda

Fyrning réttinda

Í fréttablaðinu í dag skrifar Einar H. Bjarnason lögmaður grein um fjármögnunarfyrirtækið Lýsingu en hann hefur áður í skrifum sínum lagt áherslu á að sett verði lög sem rjúfa fyrningu kröfuréttinda viðskiptavina fjármögnunarfyrirtækja. Ég verð að vera sammála Einari  um það sem hann segir í umræddri grein. Það sætir furði að enn þann daginn í dag er verið að deila um hluti sem á í reynd fyrir löngu að vera búið að leysa úr. Virðist því miður sem viðskiptavinir Lýsingar  og annarra fjármögnunarfyrirtækja fái ekki enn þá leiðréttingu sem þeir eiga svo sannarlega rétt á. Nauðsynlegt er að sett verði lög til að rjúfa fyrningu hugsanlegra krafna þessara viðskiptavina á hendur fjármögnunarfyrirtækjunum. Það er óforsvaranlegt af hálfu yfirvalda að sitja með hendur í skauti á meðan fjöldi manns mögulega tapar rétti sínum til leiðréttingar ólögmætra lánasamninga fyrir fyrningar sakir. Hér er um mikilvægt réttindamál að ræða enda um mikla hagsmuni að ræða fyrir aðila sem hafa nú þegar tapað miklu vegna ólöglegra lánasamninga.

Flokkar: Lögfræði

Föstudagur 28.3.2014 - 15:13 - 1 ummæli

Ráðstöfun eigna

Á Íslandi gildir sú regla í erfðarétti að arfsalinn hefur mjög takmarkaðan rétt til að ráðstafa eigum sínum til annarra en skylduerfingja. Hér er þá átt við börn arfsala og maka. Í reynd getur arfsalinn eingöngu ráðstafað 1/3 af eigum sínum til annarra en skylduerfingja. Stundum koma upp tilvik þar sem arfsalinn vill að einhver annar en skylduerfingi taki arf eftir sig en það getur reynst erfitt, sérstaklega ef viðkomandi á börn eða maka. Í sjálfu sér er þetta ekki vandamál þegar arfsalinn á hvorki börn né maka. Undirritaður telur að réttur til að ráðstafa arfi eigi að vera frjáls og að arfsalinn eigi að geta ráðstafað eignum sínum að vild óháð því hvort hann eigi börn eða maka. Það hlýtur að teljast sjálfsagður réttur hvers og eins að hann geti ráðstafað eignum sínum eftir geðþótta.

Það að viðkomandi eigi börn eða maka eru ekki gild rök fyrir því að takmarka svo afgerandi ráðstöfunarrétt einstaklingsins. Að sama skapi ættu það ekki að vera rök til þess að takmarka ráðstöfunarrétt einstaklings sem situr í óskiptu búi, viðkomandi á ekki að þurfa að þola það þurfa að hlíta óbeinum fyrirmælum skylduerfingja um hvernig hann hagi sínum fjármálum. Hér er ég vitaskuld eingöngu að tala um ráðstöfunarrétt viðkomandi yfir sínum eigin eignum en ekki óskiptum eignum látins maka. Hér verður að eiga sér stað viðhorfsbreyting og að réttur fólk til ráðstöfunar eigna sinna sé alfarið í þeirra höndum óháð því hverjir munu svo erfa viðkomandi í framtíðinni.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.3.2014 - 14:49 - Slökkt á athugasemdum við Gjafir eru skattskyldar

Gjafir eru skattskyldar

Í umræðunni hefur verið fjallað um gjafir til handa opinberum starfsmönnum og þá sérstaklega greiðslur vegna dómsmáls seðlabankastjóra en eins og margir vita þá greiddi seðlabankinn kostnað bankastjórans af rekstri dómsmáls hans gegn bankanum. Því hefur verið haldið fram að umrætt dómsmál hafi verið svo mikilvægt mál og að nauðsynlegt hafi verið, ekki síst fyrir bankann sjálfan, að fá úr því skorið fyrir dómi. Á þetta að réttlæta það að seðlabankinn hafi greitt kostnaðinn fyrir seðlabankastjóra. Hver svo sem réttlæting stjórnar seðlabankans kann að vera fyrir því að hafa greitt þennan kostnað þá er alveg ljóst að þegar lög um tekjuskatt eru skoðuð þá kemur á daginn að umrædd greiðsla er í reynd gjafagerningur sem er skattskyldur sem tekjuskattur. Þetta er ekki sambærilegt því að fá dæmdan málskostnað eins og fjallað hefur verið um vegna mála er tengjast Fjámálaeftirlitinu. Það ber að hafa í huga að umrædd kjör sem seðalabankastjóri naut frá seðlabankanum eru ekki almennt í boði fyrir almenning og því er mikilvægt að líkt og með aðra sem þurfa að greiða skatta vegna gjafa eða hlunninda að það sama eigi við um opinbera starfsmenn.

Annað mál sem einnig hefur viðgengist lengi eru dagpeningar sem sumar stéttir fá og í reynd greiða enga skatta af þrátt fyrir að umræddir dagpeningar séu ekki notaðir í þeim tilgangi sem þeir eiga að vera notaðir. Það hefur til dæmis tíðkast hjá sumum stéttum að fá greidda dagpeninga út samhliða því að fá allan kostnað við uppihald og fleira greiddan af vinnuveitanda. Af einhverjum undarlegum ástæðum telja vinnuveitendur í einhverjum tilvikum sér skylt að greiða starfsmanni bæði uppihald á ferðalögum og dagpeninga. Svo greiða þessir sömu starfsmenn enga skatta af umræddum greiðslum þar sem þær eru flokkaðar sem greiðslur upp í kostnað en sá kostnaður endar svo í raun og veru í bókhaldi vinnuveitandans. Eru kannski sumir rétthærri en aðrir þegar kemur að greiðslu skatta?

Flokkar: Lögfræði

Þriðjudagur 4.2.2014 - 15:23 - 8 ummæli

Vændi

Vændi hefur töluvert verið í umræðunni undanfarið og ekki að ástæðulausu. Hefur ákæruvaldið verið duglegt að gefa út ákærur á hendur meintum vændiskaupendum. Að undanförnum árum hefur mikið kapp verið lagt á að uppræta vændi hér á landi og hefur löggjafinn tekið af skarið í þeim efnum. Lögum og regluverki var breytt og farin svokölluð sænsk leið. Hún felur í sér að sökin er færð yfir á kaupendur vændis og þeir gerðir að sakamönnum á meðan salan er refsilaus.

Eflaust hefur tilgangur þessa verið sá að fæla væntanlega kaupendur frá því að kaupa sér vændi. Undirritaður verður að viðurkenna að hann hefur miður góða trú á þessari aðferðafræði enda hefur reynst erfitt að koma í veg fyrir að vændi sé stundað. Þá hafa rannsóknir leitt í ljós að sænska leiðin hefur ekki reynst eins vel og vonir stóðu til þar á bæ.

Undirritaður telur brýna nauðsyn á því að reynt verði að finna nýjar lausnir á þessum aldna fjanda, beita þurfi nýjum aðferðum og hugsun eins og t.d. að nálgast þá betur sem leiðast út í vændi. Nýta þarf meiri fjármuni og mannafla í að hjálpa þeim sem eru fastir í vændi til að komast út úr því. T.d. væri gott að styrkja betur samtök eins og Kvennaathvarfið í því að veita víðtækari aðstoð og efla starf sitt. Reyndin er sú að þeir sem selja sig í vændi gera það oftar en ekki af neyð eða vegna bágra félagslegra aðstæðna sem viðkomandi þarf hjálpa út úr. Það er engum greiði gerður að setja löggjöf sem hvetur frekar til þess að vændisstarfssemi sökkvi dýpra í undirheimana þar sem misnotkunin og mannvonskan nær betur að grassera.

 

Flokkar: Lögfræði

Þriðjudagur 10.12.2013 - 18:22 - Slökkt á athugasemdum við Stöðvum nauðungarsölur

Stöðvum nauðungarsölur

Eins og flestum ætti að vera ljóst þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að grípa til aðgerða í þágu skuldugra heimila í landinu. Eflaust eru skiptar skoðanir á þessum aðgerðum eins og öðru en undirritaður telur þetta mikið þarfaverk enda ljóst að grípa þarf til frekari aðgerða í þágu heimila í þessu landi. Ég tel reyndar að það þurfi einnig að taka á verðtryggingunni enda mæla öll rök fyrir því að fasteignalán til neytenda séu þess eðlis að þau eigi ekki í reynd að vera verðtryggð, hvernig sem lítið er á það þá gengur slíkt reikningsdæmi ekki upp hvað skuldarann varðar. Leikur mikill vafi á um lögmæti verðtryggingarinnar sem enn er ekki búið að leysa úr fyrir dómstólum.

Í tilefni af ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að koma til móts við skuldug heimili landsins er vert að hafa í huga að mörg heimili í landinu eru undir hamri sýslumanna sem ganga að þessu leyti erinda kröfuhafa um uppboð eigna. Ríkisstjórnin virðist ætla að sjá við þessu og setja lög um að hægt sé að stoppa uppboð meðan verið er að vinna í þessum nýju úrræðum í þágu skuldugra heimila. Það er afar brýnt að þessar aðgerðir til að stöðva uppboð séu skilvirkar og þá sértaklega í þá veru að skuldarinn geti með lítilli fyrirhöfn fengið uppboði frestað.  Í reynd ætti þessi aðgerðapakki að vera þannig útbúinn að öllum uppboðum, er varða heimili skuldara, væri slegið á frest meðan verið er að vinna úr aðgerðapakkanum. Aftur á móti vaknar einnig spurning hvernig fer með þá sem hafa nú þegar misst eignir sínar hvort sem það var vegna hækkunar af völdum verðtryggingar eða vegna gengistryggðra lána. Þessir aðilar eiga sinn rétt og þarf að skoða vel hvort þeir hafi getað haldið í eignir sínar hefðu þeir notið þeirra úrræða sem ríkisstjórnin ætlar nú að bjóða upp á. Þetta getur verið erfitt að segja til um. Svo er það lögmæti verðtryggingarinnar. Verði hún dæmd ólögmæt, sem undirritaður telur miklar líkur á, þá verður leiðréttingin enn meiri og er vert að velta því fyrir sér hvort að sú óvissa sem um þetta atriði ríkir kalli ekki einnig á að uppboð á eignum skuldara verðir frestað mun lengur meðan úr því verður skorið fyrir dómstólum. Sanngirnissjónarmið mæla með því að skuldarar fái að njóta vafans að þessu leyti, svo ekki sé minnst á rök tengd því að takmarka tjón þeirra.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur