Fimmtudagur 28.11.2013 - 20:20 - Slökkt á athugasemdum við Er draumaráðningabók frádráttarbær rekstrarkostnaður?

Er draumaráðningabók frádráttarbær rekstrarkostnaður?

Sú meginregla gildir í skattarétti að greiða skal skatta af öllum tekjum þar með talið tekjum lögaðila. Undantekningin frá þeirri reglu er að frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri má draga rekstrarkostnað, þ.e. þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Það getur verið mjög matskennt hvað sé viðurkenndur rekstrarkostnaður og hvað ekki. Þegar undirritaður starfaði innan skattkerfisins á sínum tíma kom upp skemmtilegt álitamál er varðaði það hvort draumaráðningabók gæti talist rekstrarkostnaður eða ekki. Höfðu skattyfirvöld gert athugasemd við gjaldfærslu slíkrar bókar í bókhaldi útgerðarfélags. Stjórnandi fyrirtækisins sem var gamalreyndur sjómaður taldi mikilvægt að hafa draumaráðningabók í rekstri útgerðarfélagsins þar sem það væri alvita að margir skipstjórar væru bergdreymnir og þyrftu oftar en ekki að ráða í drauma til að finna hvenær og hvar væri best að fiska. Ekki fylgir sögunni hvort skattyfirvöld samþykktu skýringu útgerðamannsins en rétt er að nefna það að ýmis rekstrarkostnaður á fyllilega rétt á sér sé hægt að tengja hann beint við tekjuöflun. Hins vegar ber að hafa í hug að heimildarreglan sem fellst í 31. gr. tekjuskattslaga er undatekningarregla og því þarf að vera gild og góð rök fyrir gjaldfærslu kostnaðar sem á að tengjast tekjuöflun rekstursins.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.11.2013 - 20:13 - Slökkt á athugasemdum við Gerviverktaka

Gerviverktaka

Það hefur færst í vöxt að fyrirtæki reyni að takmarka kostnað sem til verður við starfsmannahald. Ein leið í því er að ráða til sín verktaka sem sjá um tiltekin verk. Með því getur vinnuveitandinn nýtt sér svokallaðan innskatt og losnað við öll launatengd gjöld og um leið að þurfa að gæta réttar eins og t.d. uppsagnarfrests sem allir launþegar eiga rétt á. Með verktökum er hægt að stýra með auðveldari hætti flæði vinnuafls og losa sig við vinnuafl með mun minni fyrirhöfn en þegar um hefðbundna launþega er að ræða.

Aftur á móti er það ekki mat verktakans og þess sem kaupir þjónustu hans hvort um launþegasamband eða verktakasamband sé að ræða. Uppfylla þarf ströng skilyrði svo hægt sé að tala um verktakasamband og er oft talað um 12 skilyrði sem þarf að uppfylla. Til eru mörg fordæmi þess í skattarétti að langvarandi verktakasambandi milli aðila er breytt í launþegasamband með inngripi skattyfirvalda. Þegar það gerist þá þurfa þeir sem hafa keypt þjónustu af verktaka sem síðan er skilgreindur sem launamaður hjá verkkaupa oft að endurgreiða háar upphæðir virðisaukaskatts og oftar en ekki taka á sig staðgreiðslu sem greiða átti af þeim tekjum sem verktakinn fékk í formi vertakagreiðslna frá viðkomandi. Þetta hefur oftar en ekki þýtt að mörg fyrirtæki hafa þurft að fara í þrot enda erfitt að taka á sig fjárskuldbindingar fyrir ógreidda skatta langt aftur í tíman. Til að gefa dæmi um það sem skiptir máli við ákvörðun þess hvort um gerviverktöku sé að ræða eður ei má nefna atriði eins og það hvort verktakinn nýti starfsstöð verkkaupa, hvort verkkaupi sé eini aðilinn sem verktakinn þjónusti, hvort verktakinn notast við stimpilklukku hjá verkkaupa eða fær verkfæri hjá verkkaupa. Ef t.d. svarið væri já við þessum atriðum sem ég nefni hér þá eru miklar líkur á því að um gerviverkstöku sé að ræða.

Það sem ef til vill er varasamast við gerviverktöku er ábyrgð verkkaupans. Hafi verktaki til dæmis ekki staðið skil á staðgreiðslu virðisaukaskatts eða öðrum opinberum gjöldum er hætt við því að skattyfirvöld geri verkkaupan ábyrgan fyrir þessum greiðslum verði á annað borð hægt að sanna að um gerviverktöku hafi verið að ræða. Það er mjög mikilvægt fyrir fyrirtæki og einstaklinga í rekstri að gera sér grein fyrir þessu en besta leiðin er að gera samninga til skamms tíma og tilgreina með skýrum hætti hvað fellst í samningssambandi aðila. Of mörg fyrirtæki flaska á þessu með þeim afleiðingum að þau þurfa að taka á sig himinnháar greiðslur opinberra gjalda. Verktakinn, gerviverktakinn, í reynd losnar alveg þar sem það er launagreiðandinn sem ber ábyrgð á skilum á opinberum gjöldum samkvæmt reglum skattaréttarins.

Flokkar: Lögfræði

Fimmtudagur 14.11.2013 - 19:32 - Slökkt á athugasemdum við Eiga börn ekki að njóta vafans í kynferðisbrotamálum?

Eiga börn ekki að njóta vafans í kynferðisbrotamálum?

Umræðan um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum hefur ekki farið fram hjá neinum. Miðað við það sem að undan er gengið hefði maður haldið að dómsstólar og ekki síst ákæruvaldið væru betur í stakk búin til að taka á þessum málaflokki. Fyrir nokkru síðan tók ég að mér mál þar sem grunur lék á því að ungur drengur hefði verið beittur kynferðislegu ofbeldi af hendi frænda síns sem var rétt innan við tvítugt. Tildrög málsins voru þau að móðir unga drengsins varð vitni að atviki sem vakti upp grunsemdir hjá henni um að sonur hennar hefði verið beittur kynferðislegu ofbeldi. Kærði hún málið til lögreglu. Barnið var sent til sálfræðings og í Barnahús og töldu þessir sérfræðingar að drengurinn sýndi einkenni þess að hafa verið beittur kynferðisofbeldi.

Eftir mikla vinnu við að koma málinu í ferli var það fellt niður af ákæruvaldinu þar sem talið var að framburður barnsins væri óskýr eða ótrúverðugur. Samhliða því var talið að hinn grunaði gerandi í málinu væri farinn úr landi. Það verður að teljast ótrúlegt að mjög ungt barn geti farið að ljúga um að það hafi verið beitt kynferðisofbeldi. Í þessum málum verður að vera ljóst að barnið eigi að njóta vafans og málið ekki kæft með einföldum hætti í rannsókn eða af ákæruvaldi án þess að komi til kasta dómstóla. Ég er ekki með þessu að segja að sakarmatið eigi ekki að vera strangt fyrir dómi í svona málum. Aftur á móti verður að taka tillit til aðstæðna og hvað aðrir sérfræðingar eins og t.d. sálfræðingar og þeir sem vinna með börn segja. Rannsóknin verður að vera yfir alla gagnrýni hafin.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.11.2013 - 14:47 - Slökkt á athugasemdum við Skattlagning olíuvinnslu

Skattlagning olíuvinnslu

Frá árinu 1997 hefur verið starfandi starfshópur um olíuleit á landgrunni Íslands á vegum iðnaðarráðuneytisins. Síðan þá hafa lög verið sett um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Árið 2002 var fyrsta leitarleyfið gefið út og eftir það hefur áhugi olíufyrirtækja aukist. Eitt af þeim atriðum sem fyrirtækin horfa til þegar þau taka ákvörðun um hvort fýsilegt sé að hefja olíuleit og -vinnslu er hvernig skattlagningu og gjaldtöku er háttað í viðkomandi ríki. Því er afar mikilvægt að skattaumhverfið sé aðlaðandi fyrir olíufyrirtæki en skili ríkinu um leið sanngjörnum skerf af hagnaðinum.

Helstu tegundir skatta og gjalda á þessu sviði eru leyfisgjöld, svæðisgjöld, framleiðslugjöld og sérstakur olíuskattur. Leyfisgjöldum er ætlað að standa undir kostnaði sem stjórnsýslan hefur af meðferð umsókna vegna leitar og vinnslu auk þess að standa undir nauðsynlegu eftirliti með starfsemi olíufyrirtækja.

Svæðisgjöld eru leiga fyrir þau svæði sem fyrirtæki fær til leitar eða vinnslu. Í þeim ríkjum sem svæðisgjöld eru innheimt hafa þau skilað föstum tekjum til ríkissjóðs og virkað sem hvati fyrir leyfishafann til að gefa eftir svæði, sem er ekki nýtt.

Framleiðslugjöld byggja á verðmæti framleiðslunnar. Kosturinn við þau er að þau tryggja reglulegar og fyrirsjáanlegar tekjur um leið og vinnsla hefst. Kostnaðarliðir fyrirtækja hafa engin áhrif á útreikning framleiðslugjalda. Fyrirtækin fá tekjur af framleiðslunni samhliða gjaldheimtunni og eru framleiðslugjöldin því minni byrði á þeim en t.d. svæðisgjöldin.

Við ákvörðun um skattlagningu olíufyrirtækja þarf að hafa í huga þann gríðarlega kostnað sem fylgir olíuleit. Orkustofnun hefur áætlað að rannsóknir með fjölgeisladýptarmælingum og hljóðendurvarpsmælingum geti kostað frá fimm hundruð milljónum og allt að einum milljarði króna óháð því hvort niðurstöður mælinga skili árangri. Að loknum mælingum þarf að bora tilraunaholur en ein hola kostar á bilinu tvo til þrjá milljarða króna. Fjöldi tilraunaborhola er misjafn og sem dæmi þá voru boraðar sextíu holur áður en gjöfulasta olíusvæðið við Nýfundnaland, Hibernia, fannst. Talið er að heildarkostnaður frá því að rannsóknir hefjist og þangað til olíuvinnslan fari af stað sé um 50 til 100 milljarðar króna. Dæmi eru um að vinnsla hefur verið stöðvuð fljótlega eftir að hún hófst þar sem í ljós kom að magn var ekki nægjanlegt til þess að standa undir framleiðslunni. Það er því engin trygging fyrir velgengni þótt miklum fjármunum og tíma sé eytt í undirbúningsvinnu. Sérfræðingar telja að til þess að olíuframleiðsla geti talist arðbær þá þurfi hver olíulind að gefa af sér 150.000 tunnur af unninni olíu á dag.

Færeyjar, Kanada, Grænland og Noregur innheimta öll svæðisgjöld sem miðast við að borgað sé fast gjald fyrir hvern ferkílómetra. Hins vegar er mismunandi fyrirkomulag á gjaldtökunni. Í Færeyjum er ársgjald sem helst óbreytt fyrstu sex árin en hækkar eftir þann tíma. Í Kanada er gjaldið innheimt mánaðarlega. Á Grænlandi eru svæðisgjöldin tvíþætt, grunnsvæðisgjald sem heimilar leit án borunar og svo leitar- og borunarleyfi sem eru fimm sinnum hærra.

Framleiðslugjöldin virðast aftur á móti vera á undanhaldi hjá ofangreindum ríkjum. Eingöngu Færeyjar og Kanada innheimta framleiðslugjöld. Í Færeyjum er framleiðslugjaldið föst prósenta sem er innheimt á þriggja mánaða fresti. Í Kanada fer gjaldið hins vegar stighækkandi eftir magni framleiðslunnar og greiðist um leið og framleiðslan nær fyrirfram ákveðnu marki.

Færeyingar innheimta sérstakan olíuskatt ásamt viðbótarolíuskatti á meðan á Írlandi er aðeins innheimtur almennur fyrirtækjaskattur. Ríki eins Grænland og Færeyjar, sem enn eru að leita að olíu á sínu yfirráðasvæði, halda skattheimtu niðri og reyna að bæta samkeppnishæfni sína með það að markmiði að laða til sín olíuleitar- og olíuvinnslufyrirtæki. Noregur aftur á móti, sem hefur sterka stöðu vegna auðugra og vel rannsakaðra olíulinda og hagstæðra vinnsluskilyrða, getur leyft sér að taka 80% af hagnaði sem myndast í olíuvinnslunni. Í Kanada, líkt og í Noregi, er að finna gjöfular olíulindir en þrátt fyrir það fer samanlögð skattheimta á olíuvinnslufyrirtæki ekki yfir 60% þar í landi. Ef ýmis olíuríki eru síðan borin saman er ljóst að þau ríki sem hafa stærstu olíulindirnar og hagstæð leitar- og vinnsluskilyrði geta leyft sér háa skattlagningu á meðan ríki sem eru enn á því stigi að leita að olíu verða að gæta hófs.

Ekki er órökrétt að olíufyrirtækin ætlist til að komið sé til móts við þau líkt og álfyrirtækin gera hér á landi. Hins vegar má ekki gefa of mikið eftir þar sem ávallt þarf að tryggja að ríkið fái ásættanlega hlutdeild af hagnaði vegna nýtingar auðlinda í eigu þjóðarinnar. Óvissuþættir eru margir hér á landi og ekki ljóst hvort og hvenær olíuvinnsla muni hefjast á íslensku yfirráðasvæði. Þessi óvissa réttlætir ekki of háa gjaldtöku. Stjórnvöld þurfa að ákveða hver sé ávinningurinn fyrir þjóðina og hvernig honum verði náð svo allir getið vel við unað.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.11.2013 - 14:21 - Slökkt á athugasemdum við Skilningsleysi í garð skuldara

Skilningsleysi í garð skuldara

Nú eru liðin fimm ár frá hruninu og fjögur ár frá því við sáum fyrsta aðgerðapakkann fyrir heimilin og þrjú ár frá því að aðgerðapakki fyrir fyrirtæki leit dagsins ljós. Hvað hefur áorkast á þeim tíma. Við höfum fengið 110% leiðina sem varð svo að 140 eða 150% leiðinni. Svo fengum við beinu brautina svokölluðu sem gerði því miður lítið annað en að sökkva fyrirtækjum landsins enn dýpra í skuldasúpuna.  Nú svo var það umboðsmaður skuldara sem átti að hjálpa heimilum þessa lands en hafnaði svo röggsömum og duglegum einstaklingum á þeim rökum að viðkomandi hafi verið í eigin rekstri eða hafi ekki getað greitt af skuldum sínum, jafn spánskt og það kemur fyrir sjónir þegar þau dæmi eru skoðuð.  Á sumum var hamast svo mikið að það varð ekkert eftir til að berjast fyrir.

Þá má vera að undirritaður sé kannski einum of svartsýnn þegar kemur að þessum málefum en því veldur töluverð reynsla og miður góð. Undirritaður þekkir vel hvað það þýðir að þurfa berjast við þessar stofnanir sem vilja gleypa allt sem hægt er að gleypa og gott betur. Þeir fáu sem hafa svigrúm til að fá sér lögmann geta með miklum látum fengið í gegn það sem er þeim nauðsynlegt en eftir standa þeir sem eru veikari fyrir eða þeir sem allar bjargir virðast bannaðar. Hver stendur með þeim? Umboðsmaður skuldara? Ríkisstjórnin? Alþingi?

Málið er í raun sáraeinfalt. Það verður ekki hægt að rukka þar sem ekki eru til peningar og kröfuhafar verða að horfast í augu við þessa staðreynd hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Lítið samfélag eins og Ísland hefur ekki efni á að gera stóran hluta þjóðarinnar eignalausan eða gjaldþrota. Það er ekki hægt að kreista blóð úr steini.

 

Flokkar: Lögfræði

Fimmtudagur 31.10.2013 - 13:59 - Slökkt á athugasemdum við Ábyrgð stjórnarmanna

Ábyrgð stjórnarmanna

Lengi vel hefur það tíðkast að framkvæmdastjórar og stjórnarformenn einkahlutafélaga séu látnir sæta ábyrgð ef félögin standa ekki skil á vörslusköttum. Þessi ábyrgð nær lengra en svo að gera þá ábyrga sem stjórnarmenn því þeir þurfa persónulega að bera fjárhagslega ábyrgð fyrir umræddum vanskilum. Það getur þýtt að þeir þurfa sjálfir að standa skil á vanskilum og sektum tengdum þeim með sínum persónulegu eignum.

Í seinni tíð hafa eftirlitsaðilar og lögregluyfirvöld gengið lengra og látið alla stjórnina bera þessa ábyrgð. Það er gott að blessað að aðilar séu látnir sæta ábyrgð á að skila ekki vörslusköttum og það er mikilvægt að hið opinbera sé tryggt með það sem því ber að fá en þegar við erum að fjalla um tilvik þar sem fjármunir félagsins eru notaðir til að greiða laun og til að halda rekstri gangandi þá er ekki hægt að segja um stjórnendur þeirra félaga að þeir hafi persónulega hagnast á því að ekki hafi verið staðið skil á vörslusköttum.

Þessi tilvik hafa aukist í seinni tíð eftir hið illræmda efnahagshrun enda voru rekstraraðilar í vandræðum með að fá greitt fyrir sína þjónustu eða vinnu og lentu því í hrakningum með greiðslur til  hins opinbera. Reyndu þessir sömu aðilar að halda fyrirtækjum sínum gangandi með því að láta laun, leigu og kaup á efnum til rekstrar ganga fyrir. Er réttlætanlegt að þessir aðilar eigi svo að missa æru og sínar persónulegu eignir vegna þessa?  Að mínu mati þarf að breyta núgildandi regluverki og afstöðu eftirlitsaðila þannig að það sé meira tekið tillit til þessa þáttar í þeim tilvikum þegar félög hafa ekki staðið skil á vörslusköttum. Í flestum tilvikum er um góða rekstraraðila að ræða en eins og svo margir hafa þeir því miður lent í vandræðum vegna keðjuverkandi áhrifa efnahagshrunsins.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.10.2013 - 16:32 - Slökkt á athugasemdum við Ábyrgðir

Ábyrgðir

Eins og flestir vita þá hefur ýmislegt komið í ljós eftir efnahagshrunið og er þá sérstaklega vísað til starfsemi fjármálafyrirtækja. Við vitum í dag að bankarnir voru að lána ólögleg lán, snuðuðu viðskiptavini sína í verðbréfaviðskiptum og útbjuggu ábyrgðarbréf sem stóðust ekki skoðun. Ég hef sem lögmaður fyrir einstaklinga og fyrirtæki rekið mig ítrekað á það að fjármálafyrirtækin hafa ekki staðið rétt að því að ganga frá lánaskjölum t.d. hvað ábyrgðarmenn varðar. Ítrekað hef ég rekið mig á það að lánaskjöl eru það illa unnin að ábyrgðarmenn hafa losnað undan skyldu sinni sem slíkir.

Fyrir hrun var í gildi samkomulag Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja fyrir hönd aðildarfélaga sinna, Sambands íslenskra sparisjóða fyrir hönd sparisjóða, Neytendasamtakanna og viðskiptaráðherra af hálfu stjórnvalda er tók gildi 1. nóvember 2001 (hér á eftir ,,samkomulagið“). Samkomulagið fjallaði m.a. um sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfalánum og voru allar lánastofnanir aðilar að því.

Í 3. gr. samkomulagsins kemur fram að fjármálafyrirtæki sé skylt að meta greiðslugetu greiðanda nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert. Í greininni kemur jafnframt fram sú meginregla að fjármálafyrirtæki sé þó ávallt skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemi hærri fjárhæð en kr. 1.000.000. Sú undantekning er gerð frá þessari reglu að hjónum eða fólki í óvígðri sambúð er heimilt að undanskilja fjármálafyrirtæki frá skyldu til greiðslumats vegna ábyrgðar á skuldum hvors annars. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins skal jafnframt tryggt að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Bendi niðurstaða greiðslumats til þess að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar en ábyrgðarmaður óskar eftir að lán verði veitt engu að síður skal hann staðfesta það skriflega.

Það er mín reynsla að ofangreindum reglum var í fjölmörgum tilvikum ekki fylgt. Þegar svo háttar til er alls óvíst hvort ábyrgðin bindi hendur ábyrgðarmanns. Því er ljóst að margir telja sig e.t.v. vera ábyrga fyrir skuldbindingum sem við nánari skoðun þeir eru kannski ekki, t.d. vegna lélegs frágangs fjármálastofnunar á lánaskjölum eða lausfylgni við fyrrnefndar reglur.

 

Flokkar: Lögfræði

Miðvikudagur 23.10.2013 - 16:35 - Slökkt á athugasemdum við Allt í plati

Allt í plati

 

Það verður ljóst með hverjum deginum sem líður að dráttur verður á því að aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar fyrir heimili í landinu birtist. Nú bíða heimilin með allar fjárfestingar í þeirri trú að ríkisstjórnin ætli sér að gera eitthvað fyrir þau. Þessi bið hefur óbein neikvæð áhrif á efnahagslífið enda þora einstaklingar og heimili ekki að hreyfa sig fyrr en í ljós kemur hvaða töfralausnir ríkisstjórnin ætlar að koma með.

Auðvelt er að segja að það sé í raun ekkert mál að ákveða einhverjar skuldaleiðréttingar á línuna en þeir sem þekkja til vita að þetta er langt því frá að vera einfalt og í mörg horn að líta. Enn er ekki ljóst hverjir það eru sem eiga að fá þessar leiðréttingar né er vitað  hversu miklar þær eiga að vera. Nú svo er það verðtryggingin en lögmæti hennar er enn á huldu og í reynd myndi það gera mikið fyrir fólkið og efnahagslífið ef hún yrði afnumin. Menn ættu að læra af fyrri mistökum og hafa frumkvæðið að þeirri aðgerð en ekki bíða bara eftir niðurstöðu dómstóla. Það kann að vera of seint í rassinn gripið þegar dómar liggja fyrir og menn hafa þá litla stjórn á eftirleiknum. Á kannski að setja önnur neyðarlög þá eða voru þessi loforð bara allt í plati?

Flokkar: Lögfræði

Föstudagur 18.10.2013 - 16:06 - Slökkt á athugasemdum við Skuldatímasprengja bankanna

Skuldatímasprengja bankanna

Á þriðja þúsund fyrirtækja glímir við tifandi tímasprengju í boði bankanna. Þetta eru fyrirtækin sem fengu hluta af skuldum frestað vegna þess að þau réðu ekki við afborganir af þeim að fullu eftir efnahagshrunið. Meinið er að stór hluti þessara fyrirtækja getur ekkert frekar ráðið við að greiða biðlánin þegar kemur að gjalddögum á þessu ári og því næsta.

Ástæðan er einföld. Fyrirtækin standa ekkert betur en þau gerðu þegar gálgafresturinn var veittur. Útgjöld hafa stóraukist vegna hækkunar opinberra gjalda og veikari krónu. Tekjur aukast lítið, standa í stað eða dragast saman.

Um 700 lítil og meðalstór fyrirtæki fengu skuldafrest til þriggja ára í gegnum „Beinu brautina.“ Nokkur þúsund til viðbótar fengu mismunandi útgáfur af svipaðri fyrirgreiðslu í bönkunum. Flest eiga þessi fyrirtæki sameiginlegt að skulda meira af stökkbreyttum skuldum en þau ráða við.

 

Fallöxi biðlánanna

Biðlánin hanga yfir fyrirtækjunum eins og fallöxi. Þetta leiðir til stöðnunar, því forráðamenn fyrirtækjanna treysta sér ekki í uppbyggingu eða annan vöxt. Þeir vita ekkert hvað tekur við þegar kemur að gjalddögum á lánum sem þeir geta ekki borgað. Fyrirtækin eru heldur ekki söluvænleg með ósjálfbæran skuldaklafa.

Án uppskiptingar á lánastaflanum og frestun hluta þeirra hefðu fyrirtækin vissulega ekki getað staðið í skilum við bankana. En gera þarf skýran greinarmun á biðlánunum og lánum sem verið er að greiða af. Hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja segir að almennt séu lítil vanskil rekstrarlána fyrirtækja sem hafa gengið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Slíkt sé vísbending um að getan til að greiða biðlánin sé almennt góð. Engin innistæða er fyrir þessari ályktun. Höfundur þessarar greinar hefur starfað með fjölmörgum fyrirtækjum að endurskipulagningu fjármála eftir hrun. Alls staðar er sama sagan, bankarnir gera ítrustu kröfur um afborganir lána. Þeir mergsjúga fyrirtækin, sem reyna af bestu getu að standa undir greiðslum. En þau geta ekki meir.

 

Bankarnir stöðva hagvöxt

Bankarnir hafa eignfært kröfur á litlu og meðalstóru fyrirtækin sem þeir vita fyrirfram að þeir geta aldrei innheimt að fullu. Samt ætla þeir að halda þessu ferli til streitu. Staðan er ekki aðeins slæm fyrir viðkomandi fyrirtæki, heldur ekkert síður fyrir þjóðarbúið í heild sinni. Alkunna er að fjölgun starfa er mest hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þar er gróskan, hreyfanleikinn og sveigjanleikinn. Öll stórfyrirtæki byrjuðu sem lítil fyrirtæki.

Ef fjármálastofnanir ætla að halda fjórðungi íslenskra fyrirtækja í spennitreyju ósjálfbærra skulda, þá mun seint bóla á þeim hagvexti sem allir telja nauðsynlegan fyrir viðreisn eftir hrunið.

 

Flokkar: Lögfræði

Fimmtudagur 17.10.2013 - 16:16 - Slökkt á athugasemdum við Vanmáttur umboðsmanns skuldara

Vanmáttur umboðsmanns skuldara

Því hefur verið haldið fram að umboðsmaður skuldara sé vanmáttugur þegar kemur að því að leysa vanda þeirra sem eiga við skuldavanda að stríða.

Ýmislegt hefur gengið á hjá Umboðsmanni og sumt verður afsakað sem byrjunarörðuleikar en rétt er þó að gera kröfur um að rétt sé staðið að málum þegar kemur að úrvinnslu mála skjólstæðinga umboðsmanns skuldara sérstaklega þegar það snýr að beitingu starfsmanna umboðsmanns skuldara á regluverki því sem gildir um starfsemi hans.

Það er mín reynsla að það er víða pottur brotinn þegar kemur að beitingu þess regluverks sem gildir um úrvinnslu skuldavanda einstaklinga. í sumum tilvikum skortir einnig skýrar reglur um hvernig eigi að fara með suma hluti eins og t.d. skipun umsjónarmanna sem eiga að gera tillögur að úrlausn vanda þeirra sem eru í skuldavanda. Lengi vel virtist það vera geðþóttaákvörðun umbættisins hvaða lögmenn eða lögmannasstofur fengu verkefni frá embættinu. Þetta snýr að því að skipa sjálfstætt starfandi lögmann sem umsjónarmann. Undirritaður óskaði eftir skýrum svörum um það hvað réði því hvaða lögmenn fengju starf sem umsjónarmenn. Ekki verður sagt að umbættið hafi með skýrum hætti geta sýnt fram á hvernig það væri gert en í framhaldinu fór að bera meira á því að starfsmenn embættisins sjálfs fóru að taka að sér starfs umsjónarmanns.

 Það sem kannski alvarlegast er þegar umsjónarmennirnir sjálfir beita leikreglunum ekki rétt. Eitt dæmi sem ég get nefnd um slík er einstaklingur sem sótti um greiðsluaðlögun með því að skila inn umsókn til embættis umboðsmanns skuldara. Á meðan hann beið eftir svari umboðsmans þurfti hann að verjast kröfuhöfum sem sóttur hart að honum. Það tók eitt ár að fá umsókn hans samþykkta en á meðan hafði hann þurfti að bera mikinn kostnað vegna innheimtuaðgerða kröfuhafa. Þegar umsókn hans var svo samþykkt var honum tjáð af umsóknarmanni, sem var sjálfstætt starfandi lögmaður, að það ætti að hafna honum þar sem hann hefði ekki byrjað að leggja fyrir um leið og hann hafi sótt um greiðsluaðlögunina. Undirritaður tók málið að sér og benti umræddum umsjónarmanni að skuldarinn hefði ekki átt að byrja að leggja fyrir fyrr en umsókn hans hafi verið samþykkt sem sagt ári eftir að hann hafði lagt umsókn sína inn. Regluverkið var skýrt en umræddur umsjónarmaður hafnaði því og virtist alveg fyrirséð að hafa beitt júridískum þangagangi við úrvinnslumálsins. Nú fór málið aftur til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara, það tók svo annað ár að vinna málið hjá umboðsmanni skuldara en núna var komið árið 2013 og umbjóðandi minn hafði skilað inn umsókn sinni árið 2011. Nú ætlaði umboðsmaður skuldara að beita sömu taktík og hafna umbjóðanda mínum en þá þurfti undirritaður að skrifa langt bréf þar sem bent var á staðreyndir málsins út frá því regluverki sem gilti um greiðsluaðlögun einstaklinga, eftir nokkrar vikna skrifræði samþykkti umboðsmaður skuldara rök undirritaðst en taldi að vinna ætti málið upp á nýtt. Nú þarf umbjóðandi minn sjálfsagt að bíða í eitt ár til viðbótar til að fá úrlausn sinna máli. Þessi málsmeðferð er til skammar sérstaklega þegar litið er til málavaxta og þeirrar staðreyndar og regluverkið var skýrt. Umbjóðanda mínum bar ekki að leggja fyrir fyrr en að umsókn hans var samþykkt en ekki um leið og hann skilaði henni inn.

Það er mat undirritaðs að ógagnsæi og vanþekking á regluverkinu innan stofnunarinnar sé alvarlegt vandamál sem veldur skjólstæðingu stofunarinnar tjóni, fjárhagslegu og andlegu enda erfitt fyrir fólk í skuldavanda að bíða í mikilli óvissu eftir úrlausn.

Annað dæmi um vanmátt umboðsmann skuldara er sú staðreynd að engar skýrar reglur virðast gilda um það hvernig umsjónarmenn eiga að vinna úr þeim málum þar sem selja þarf fasteignir skuldara sem augsýnilega geta ekki haldið fasteignum sínum. Sumir umsjónarmenn hafa sjálfir gert samninga við fasteignasala um sölu fasteignanna en beinlínis talið óheimilt að skuldararnir sjálfir sjái um það. Undirritaður efast í fyrsta lagi að umsjónarmenn hafi vald til að ráðstafa eignum fólks með þessum hætti og umsjónarmenn geti ekki tekið fram fyrir hendurnar á fólki við val á fasteignasölu. Í öðru lagi efast undirritaður um að það samræmist ákvæðum samkeppnislaga að umsjónarmaður sjálfur geti einn gert samning við fasteignasala og lagt honum í hendur það verk að selja fasteigna þeirra sem eru í ferli hjá embætti umboðsmanns skuldara. Verður að gera kröfu um að gagnsæi sé í þessu og að fleiri en einum fasteignasala sé heimilt að selja umræddar eignir.

Hér að ofan eru nefnd örfá raunverulega tilvik. Eflaust á embættið eftir að fínpússsa sig í þessu en hversu lengi ætlum við að gefa þessu embætti tíma til þess?

Flokkar: Lögfræði

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur