Þriðjudagur 23.7.2013 - 09:02 - FB ummæli ()

Ríkisbúskapur á Íslandi 2012 – samanburður

Nýlegar tölur Eurostat sýna að hallinn á ríkisbúskapnum á Íslandi var vel fyrir neðan meðallag á árinu 2012. Hann lækkar svo umtalsvert á yfirstandandi ári, skv. mati Hagstofunnar. Við erum að komast í hóp þeirra landa sem minnstan halla hafa.

Ísland hefur því náð langt frá árslokum 2008 er við vorum með langmesta hallann, eða um 13,5% af landsframleiðslu (á þriðja hundruð milljarða króna).

Þær þjóðir sem féllu í djúpa kreppu, líkt og við, eru flestar með verri stöðu en Ísland. Eystrasaltslöndin eru þó með minni halla en Ísland. Írar sem voru með svipað bóluhagkerfi og Íslendingar eru enn með 7,6% halla, á móti 3,4% hjá okkur. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan.

Halli ríkisbúskapar 2012 í Evrópu

Spánverjar og Grikkir eru með um og yfir 10% halla, Portúgalir, Bretar og Kýpverjar með 6,3-6,4% og vaxandi halla. Meira að segja hinir hagsýnu Hollendingar og Danir eru með meiri halla en Ísland. Í Bandaríkjunum var hallinn um 7% á árinu 2012.

Íslend hefur því náð góðum árangri. Tölurnar tala sínu máli.

Þegar við skoðum niðurstöðuna á fyrsta ársfjórðungi 2013 kemur í ljós að hallinn var þá um 1,9% hér og er hann því verulega minnkandi.

Það leiðir athygli að því að staða Íslands er á yfirstandandi ári með besta móti í samanburði við Evrópuríkin og Bandaríkin.

Það bendir til að ekki sé ástæða til að fara í alltof róttækan niðurskurð opinberra útgjalda núna, þó aðhald sé vissulega mikilvægt.

Hagvöxtur ætti að vera mikilvægasta markmið hagstjórnarinnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 22.7.2013 - 15:58 - FB ummæli ()

Hættulegur niðurskurður – frábært myndband

Ég hef nokkrum sinnum varað við niðurskurði opinberra útgjalda í kreppu. Sérstaklega er ástæða til að vara við því, að frjálshyggjumenn á hægri vængnum vilja nota tækifærið í kreppunni til að skera niður velferðarríkið – og lækka í staðinn skatta á hátekjufólk og fyrirtæki.

Of mikill niðurskurður á röngum tíma hefur magnað kreppuna í mörgum vestrænum löndum á síðustu fimm árum.

Hér er frábært myndband frá Mark Blyth, prófessor í stjórnmálahagfræði í Boston. Hann hefur nýlega skrifað bók um efnið, sem hefur fengið góða dóma.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 20.7.2013 - 06:45 - FB ummæli ()

Keith Richards – skuggalegur skratti!

KeithÉg las fyrir skömmu ævisögu Keith Richards, gítarleikara Rolling Stones. Bókin heitir einfaldlega “Life”.

Þetta er frábær bók sem kemur skemmtilega á óvart.

Ég hef að vísu aldrei verið mikill aðdáandi Keiths og bara svona hóflegur aðdáandi Rolling Stones. Þeir voru þó stór hluti af umhverfinu sem maður ólst upp í og tilheyrðu auðvitað tíðarandanum sem mótaði mína kynslóð.

Það áhugaverða við bókina er hversu hreinskilinn Keith er og hann segist muna allt, þrátt fyrir líferni sem margir myndu tengja við gleymsku! Hann hefur í öllu falli frá mörgu að segja og glæðir tíðarandann og umhverfi stórstjarnanna miklu lífi.

Við lestur bókarinnar verður manni ljósara en áður hversu mikið Keith á í því stórveldi í músíkinni sem Stones urðu. Hann á stærstan þátt í hinum sérstaka tónlistarstíl sem einkennt hefur hljómsveitina. Mick Jagger var auðvitað sérstakur söngvari og frábær sviðsmaður – en tónlistarheilinn var Keith.

Hann var líka driffjöðurin bak við hið skapandi starf. Samt sökk hann djúpt í dópið, ekki síst kókaín og heróin um langt árabil. Ævintýralegar eru lýsingar hans á þeim veruleika, sem hann mælir þó ekki með fyrir neinn.

Ótrúlegt er líka hvernig hann náði að lifa af þetta líferni, þar sem augljóslega var ítrekað teflt á tæpasta vað. Á einum stað segir hann, að þetta hafi verið slæmt ár, því margir vina hans hafi fallið í valinn vegna ofneyslu. En sjálfur skrölti hann alltaf áfram. Keyrði sig meðal annars áfram á lyfjum í allt að sjö sólarhringa samfleytt við upptökur og lagasmíð, t.d. er þeir gerðu plötuna Exile on Main Street í suður Frakklandi!

Þetta var öfgafullt líferni. Auðurinn sem fylgdi frægðinni hjálpaði til. Ofneyslan fór ekki eins illa með hann og algengast er vegna þess að hann gat stólað á meiri gæðaefni en seljast alla jafna a götunni, segir hann. Og dýrir lögfræðingar björguðu honum ítrekað frá fangelsunum.

Þrátt fyrir skuggalegt líferni var greinilega í honum heil manneskja. Hann er vinur vina sinna og augljóslega klókur. Les bækur í stórum stíl og endaði sem traustur fjölskyldumaður.

Ævisaga Keith Richards er ekki bara forvitnileg sýn inn í hans heim, heldur einnig ómetanleg lýsing á tíðaranda rokksins – og raunar tíðaranda síðustu áratuga.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 18.7.2013 - 17:40 - FB ummæli ()

Niðurskurður dýpkar kreppuna

Alþjóðlega fjármálakreppan er nú á fimmta ári. Ástæðan fyrir því hve mörgum þjóðum gengur illa að endurheimta hagvöxtinn er röng stefna. Niðurskurðarstefnan (“austerity policies”) hefur illu heilli verið ráðandi.

Þrátt fyrir að reynslan frá Kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar sé skýr varðandi mikilvægi keynesíska úrræða (opinberar örvunaraðgerðir og skjaldborg um lágtekjuheimili) þá hafa niðurskurðarmenn í hópi hagfræðinga og stjórnmálamanna haft yfirhöndina.

Niðurskurðarstefnu hefur verið beitt í of miklum mæli. Þegar það er gert í kreppuaðstæðum tekur hagkerfið aðra dýfu niðurávið (“double-dip crisis”; og jafnvel “triple-dip crisis”). Hætta er þannig á að niðurskurður opinberra útgjalda magni kreppuna og seinki umsnúningi til vaxtar.

Það reynist dýrkeypt því skuldavandi hins opinbera, sem leysa átti með niðurskurði, eykst vegna frekari samdráttar í hagkerfinu. Þess vegna kenndi Keynes að tíminn fyrir niðurskurð og skuldalækkun ríkissjóðs væri eftir að hagvöxtur væri kominn í trausta uppsveiflu.

Nú er reynslan að kveða upp sinn dóm á alþjóðavettvangi. Þeir hagfræðingar sem boðað hafa dygðir niðurskurðar í kreppunni hafa haft rangt fyrir sér og í reynd magnað og dregið kreppuna á langinn (sjá ágæta umfjöllun um þetta hér).

Í þessu samhengi er mikilvægt að ný ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðismanna fari ekki offari í niðurskurði opinberra útgjalda á næstunni, jafnvel þó skuldirnar séu áhyggjuefni. Slíkt gæti dýpkað kreppuna, eins og fjölmörg dæmi sýna (Írland, Bretland, Spánn, Grikkland o.fl.).

Ísland var komið með góðan hagvöxt á árinu 2011, raunar einn þann allra mesta á Vesturlöndum. Það varð vegna vel heppnaðra viðbragða stjórnvalda og AGS við kreppunni og aukins kaupmáttar í kjölfar kjarasamninga 2010 og aftur vorið 2011.

Jafnvel hóflegar skattahækkanir á hærri tekjuhópa og fyrirtæki drógu ekki úr hagvextinum. Kaupmáttaraukning millistéttarinnar á að vera megin markmiðið. Það er sú fylking sem dregur hagvaxtarvélina áfram með aukinni neyslu – sem svo laðar fram aukna fjárfestingu.

Við ættum að halda áfram á þeirri braut. Bætt skuldastaða ríkisins komi svo í kjölfarið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 17.7.2013 - 22:26 - FB ummæli ()

Einkavæðing – Beaty borgar ekki!

Eitt af því vitlausasta sem hægri menn gerðu á árunum fyrir hrun var að freista þess að einkavæða hluta af Orkuveitu Suðurnesja (HS Orku). Raunar voru þeir einnig komnir af stað með að einkavæða hluta af Orkuveitu Reykjavíkur í REI-málinu.

Eftir að Íslendingar höfðu verið brautryðjendur í nýtingu jarðvarma til húshitunar í áratugi, með góðum árangri, þótti Sjálfstæðismönnum allt í einu mikilvægt að setja orkuveiturnar í hendur útlendinga – sem enga reynslu höfðu af slíkri starfsemi og sem ekkert höfðu fram að færa.

HS Orka endaði í höndum Ross Beaty, braskara frá Kanada. Hann fann þessu ágæta fyrirtæki stað í skúffu í Svíþjóð, til að fara á svig við lög.

Annað var eftir því.

Nú er komið á daginn að þessi mikli braskhöfðingi þykir ekki traustur greiðandi skulda sinna, eins og Ingi Freyr Vilhjálmsson á DV hefur greint frá að undanförnu.

Raunar máttu menn vita það frá byrjun, því Ross Beaty gat ekki einu sinni greitt kaupverðið. Orkuveitan varð að lána honum fyrir megninu af kaupverðinu, svo furðulegt sem það nú er. Beaty fékk kúlulán frá seljandanum með gjalddaga til uppgreiðslu sjö árum síðar.

Í millitíðinni ætlaði hann að láta arðgreiðslur af HS Orku greiða kaupverðið fyrir sig. En nú er vafamál hvort hann geti greitt kaupverðið – því arðurinn er ekki nógu mikill!

Hver átti svo ávinningur Íslendinga af þessari góðgerð gagnvart erlenda braskaranum að vera?

Enginn!

Hagnaður íslensks orkufyrirtækis, sem áður hafði runnið til samfélagsins, skyldi sendur úr landi til að gleðja erlendan braskara, sem ekkert lagði til starfseminnar.

Þetta var eiginlega verra en vúdú-hagfræðin sem Sjálfstæðismenn gerðu að sinni hagspeki fyrir síðustu kosningar.

 

Síðasti pistill: Læknir varar við einkavæðingu

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 16.7.2013 - 21:08 - FB ummæli ()

Læknir varar við einkavæðingu

Nú þegar heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins er farinn að reifa aukna einkavæðingu og aukin notendagjöld í heilbrigðisþjónustunni kemur fram viðvörum frá starfandi lækni, Vilhjálmi Ara Arasyni, sem bloggar hér á Eyjunni.

Það er hárrétt hjá Vilhjálmi að vara við einkavæðingu, því það er sérstaklega óskynsamleg leið – raunar hættuleg fyrir gæði þjónustunnar og markmið um að bæta heilsufar þjóðarinnar.

Vilhjálmur bendir á athyglisverða nýja grein í bandarísku læknablaði um samanburð milli þjóða á einkennum og árangri í heilbrigðismálum.

Skoðið t.d. eftirfarandi staðreyndir um einkavæðingu og heilsufar þjóða:

  • Bandaríkin eru það land sem lengst hefur gengið í einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar.
  • Bandaríkin eru með lang dýrustu heilbrigðisþjónustuna í hópi nútímaþjóða.
  • Bandaríkin eru fjarri því að vera með besta heilsufarið, raunar drógust þau aftur úr öðrum þróuðum þjóðum frá 1990 til 2010, þegar fjölmargir þættir heilsufars eru samanbornir.
  • Í Bandaríkjunum er einna mestur munur á heilsufari og ævilengd milli stétta og kynþátta í vestrænum ríkjum.

Hvers vegna skyldi þá einhver vilja taka Bandaríkin sér til fyrirmyndar og auka markaðsvæðingu og einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni?

Ísland kemur vel út úr þessum samanburði og er í einu af efstu sætunum á mörgum mælikvörðum á gæðum og árangri í heilbrigðisþjónustu – og hefur raunar bætt stöðu sína nokkuð á tímabilinu frá 1990 til 2010, á meðan Bandaríkin hafa dregist afturúr.

Eigum við þá að fara að taka tossana okkur til fyrirmyndar?

  • Útgjöld til heilbrigðismála á Íslandi voru fyrir neðan meðallag OECD-ríkjanna á árinu 2011 (um 9% af landsframleiðslu á móti 9,3% hjá OECD-ríkjum). Bandaríkin voru með nærri tvöfalt meðaltalið (um 17,7%).
  • Við skerum ekki meira niður í útgjöldum til íslenskrar heilbrigðisþjónustu án þess að skaða þjónustuna.
  • Aukin notendagjöld munu leiða til aukins ójafnaðar í aðgengi að þjónustunni milli þjóðfélagshópa og aldurshópa.
  • Aukinn hlutur einkavæðingar innan kerfisins er einnig líklegur til að auka ójöfnuð í aðgengi og heilsufari milli þjóðfélagshópa.
  • Heilbrigðisþjónusta sem rekin er af ríki og sveitarfélögum, með aga og metnaði, er sú leið sem bestum árangri hefur skilað – og með hóflegum tilkostnaði.

Getur ekki einhver reynt að hafa vit fyrir Sjálfstæðismönnum í þessum efnum?

Markaðsvæðing virkar ekki á sama hátt í heilbrigðisþjónustunni og á almennum neytendamarkaði – og á því takmarkað erindi þangað.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 15.7.2013 - 22:27 - FB ummæli ()

Er Vigdís Hauksdóttir hægri róttæklingur?

Við sem berum umhyggju fyrir Framsóknarflokknum verðum stundum hugsi yfir ummælum þingkonunnar Vigdísar Hauksdóttur.

Stundum talar hún eins og Hannes Hólmsteinn og stundum er eins og hún sé í samkeppni við unga Heimdellinga um fjandskap í garð opinberra starfsmanna og listafólks. Vigdís hljómar á köflum eins og hægri róttæklingur.

Í dag var hún að dást að niðurskurði ríkisútgjalda í Bretlandi, sem  hinn hægri sinnaði fjármálaráðherra George Osborn hefur stýrt – rétt eins og hann hafi náð einhverjum umtalsverðum árangri í að koma Bretlandi upp úr kreppunni. Svo er þó ekki!

Osborn hefur verið að skera niður breska velferðarkerfið frá því hægri stjórnin komst þar til valda. Það hefur í senn komið illa við fátækt fólk, barnafólk í millistétt og stúdenta – auk þess að draga úr hagvaxtarmöguleikum Breta. Þeir sullast stefnulaust áfram í kreppunni, minnst uppávið. Fylgi stjórnarinnar meðal almennings fer minnkandi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir Framsókn vera miðjuflokk. Ég held að hann meini það.

En er George Osborn besta fyrirmyndin fyrir stjórnmálamenn á miðjunni? Eða Hannes Hólmsteinn og Heimdellingarnir?

Ég held ekki. Kanski Vigdís Hauksdóttir ætti að hugleiða það.

 

Niðurskurður er ekki mikilvægasta mál ríkisstjórnarinnar

Nú er Vigdís formaður fjárveitinganefndar Alþingis og meðlimur í nýskipuðum niðurskurðarhópi ríkisstjórnarinnar. Hún segist ætla að taka til hendinni og virðist hafa mikinn metnað fyrir niðurskurði opinberra útgjalda og fækkun ríkisstarfsmanna.

Sjálfsagt er að leita ætíð hagræðingar og aga í meðferð opinberra fjármuna. En menn ættu líka að hafa í huga að niðurskurður er ekki leiðin til að auka hagvöxt eða standa vörð um heimilin á krepputímum.

Niðurskurð ætti einkum að framkvæma á uppsveiflunni, eins og Keynes kenndi.

Ef Vigdís Hauksdóttir er virkilega með sömu stjórnmálaskoðanir og Osborn, Hólmsteinn og Heimdallur þá er Framsókn hins vegar í vanda. Þessir aðilar vilja rífa niður velferðarríkið og lækka skatta á hátekju- og stóreignafólk.

Það hættulegasta sem getur hent Framsókn er einmitt að hún taki í miklum mæli að sér að framkvæma óvinsæla stefnu Sjálfstæðisflokksins – án þess að ná markverðum árangri fyrir venjuleg heimili, eins og lofað var.

Slíkt mun fara illa með fylgið.

Kanski allir áhrifamenn Framsóknar ættu að einbeita sér að heimilunum og láta Sjálfstæðismenn dreyma um niðurrif velferðarkerfisins og úthlutun fríðinda til yfirstéttarinnar?

 

Síðasti pistill: Frá vúdú-brellum til niðurskurðar 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 14.7.2013 - 21:42 - FB ummæli ()

Frá vúdú-brellum til niðurskurðar

Ég sagði það aftur og aftur fyrir kosningar, að vúdú-hagfræði Sjálfstæðismanna, sem þeir fengu að láni frá Hannesi Hólmsteini, væri blekkingarleikur einn. Hún væri brella til að réttlæta skattalækkanir til hátekjufólks og fyrirtækjaeigenda.

Fólki var talin trú um að hægt væri að lækka skatta verulega og að þá myndu skatttekjur ríkisins aukast – en ekki draga saman. Nýtt fé yrði til, eins og þegar kanínur spretta upp úr hatti töframannsins!

Þetta hljómaði svo vel að næsta fráleitt virtist að slá hendi á móti slíkum hvalrekum.

Nú er búið að samþykkja verulega lækkun veiðigjaldsins og auðlegðarskattur stóreignamanna verður lækkaður í árslok. Gróði auðmanna eykst við hvoru tveggja, en fátt annað mun breytast.

Ekki fjölgar fiskiskipum né störfum sjómanna, enda ekki hægt að sækja fleiri fiska en kvótinn heimilar. Sama er í áliðjunni. Gróði útvegsmanna eykst einfaldlega – en tekjur ríkissjóðs dragast saman.

Og nú segja bæði fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins að fé vanti í ríkissjóð. Það vantar t.d. um 8 milljarða til að reka heilbrigðiskerfið. Heilbrigðisráðherra segir einn valkost þann að loka einstökum þáttum þjónustunnar og einnig boðar hann að aðrir en ríkið séu hæfari í að reka heilbrigðisþjónustuna.

Einkavæðing heitir þetta, með einum eða öðrum hætti, m.a. svipuð rekstrarform og á elli- og hjúkrunarheimilinu EIR. Menn muna hvernig það fór!

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, var fljótur að taka undir með Kristjáni heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins um að frábært væri að fá ný rekstrarform í heilbrigðisþjónustuna. Hann telur líklega að reynslan af EIR sé svo góð!

Og þó – hann varar við einkavæðingu í heilbrigðisgeiranum í viðtali við RÚV í dag.

Menn hafa kanski ekki heyrt af slæmri reynslu Svía af aukinni einkavæðingu og nýjum rekstrarformum í heilbrigðisþjónustunni. Röð hneyksla og slæmrar reynslu af þeirri leið er nú að breyta stefnunni í Svíþjóð – aftur til aukins ríkisrekstrar.

 

Vúdú-hagfræðin sett til hliðar

Í stað vúdú-hagfræðinnar er nú sem sagt verið að reifa verulega aukinn niðurskurð. Gerður hefur verið út niðurskurðarhópur stjórnvalda, sem gárungarnir kalla “slátrara” eða “dauðasveit”. Það hljómar ekki vel.

Auðvitað má leita aukinnar hagræðingar í opinbera geiranum . Mikið hefur þó verið gert í því á síðustu 4 árum og óvíða er því hægt að skera mikið niður til viðbótar án þess að skaða þjónustustig og gæði, hvort sem er í menntun eða heilbrigðisþjónustu (sjá t.d. hér og hér og hér).

Heilbrigðisráðherra talar um samdrátt opinberu þjónustunnar og að fólki verði í staðinn boðið að kaupa sér þjónustu af einkaaðilum. Hann virðist vilja minnka velferðarríkið.

Ekki var mikið talað um niðurskurð eða einkavæðingu fyrir kosningar.

Nú er hins vegar allt á annan veg. Töfrabrögð frjálshyggjumanna eru úr sögunni og niðurskurður, einkavæðing og aukin notendagjöld eru komin á dagskrá.

Engum ætti að koma þetta á óvart. Ég sagði að þetta færi svona – í mörgum greinum hér á Eyjunni. Vúdú-hagfræðin eykur einfaldlega vanda ríkissjóðs og kallar á niðurskurð (sjá hér). Hversu hratt og ákveðið er gengið til verks af ráðherrum Sjálfstæðisflokks er þó ef til vill undrunarefni.

Stóra spurningin er hins vegar sú, hversu mikið viðnám Framsóknarmenn munu geta veitt gegn nýrri frjálshyggjuvæðingu Íslands?

Mikið er í húfi í þeirri baráttu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 14.7.2013 - 11:56 - FB ummæli ()

Varúð – Ísland er ekki ódýrast!

Viðskiptablaðið birti um daginn frétt frá evrópsku hagstofunni og lagði áherslu í uppslætti sínum á að norrænt verðlag væri nú lægst á Íslandi.

“Ísland er ódýrast Norðurlandanna”, sagði fyrirsögnin.

Matvara er um fimmtungi dýrari á Íslandi en í ESB-löndum en þó er hún enn dýrari á hinum Norðurlöndunum.

Þetta er þó mjög villandi uppsláttur hjá Viðskiptablaðinu. Þetta eru tölur um verðlag mælt í Evrum, með kaupmáttarjafngildingu.

Þetta er verðlagið eins og það blasir við útlendingum – ekki Íslendingum.

Við innbyggjar Íslands erum með íslenska krónu og mun lægri tekjur og minni kaupmátt en hinar norrænu þjóðirnar.

Það þýðir í reynd að fyrir Íslendinga er verðlag hærra, miðað við laun og tekjur,  en hjá hinum norrænu þjóðunum.

Myndin hér að neðan sýnir þetta, þ.e. kaupmátt ráðstöfunartekna heimilanna í Evrópulöndum, á sama mælikvarða og verðkönnunin sem Viðskiptablaðið vísaði í (Heimild: Hagstofa Íslands).

Þar kemur fram að kaupmátturinn á Íslandi var svipaður árið 2010 og á Spáni og litlu hærri en á Möltu – þ.e. í mun fátækari löndum en Ísland er. Norrænu þjóðirnar eru talsvert ofar en við.

Ráðstöfunartekjur EU 2010

Ísland er sem sagt með mun minni kaupmátt heimila en frændþjóðirnar á hinum Norðurlöndunum. Tekjur að teknu tilliti til verðlags eru frá 10% til 40% hærri hjá þessum frændum okkar. Samt eru skattar þar hærri.

Þetta þýðir auðvitað að Ísland er dýrara fyrir heimilin. Afkoman er lakari hér, sem þessu nemur.

Við getum þó huggað okkur við að Ísland er heldur ódýrara fyrir útlendinga en hin norrænu löndin eru. Það hjálpar ferðaþjónustunni.

Verðlag án tillits til ráðstöfunartekna hefur þannig takmarkaða meiningu.

Kaupmáttur ráðstöfunartekna sýnir stöðu heimilanna á mun raunsærri hátt.

 

Síðasti pistill: Um hvað snérist bóluhagkerfið?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 10.7.2013 - 20:00 - FB ummæli ()

Um hvað snérist bóluhagkerfið?

Bóluhagkerfi verður þegar ofþensla keyrir um þverbak. Of mikið fé verður í umferð, of miklar framkvæmdir, of mikil eignakaup, of mikil spákaupmennska eða brask – og mest með lánsfé.

Mikil skuldsetning þjóðarbús er þannig oft lykileinkenni á bólutíma. Verulega aukin skuldsetning skapar aukna hættu á hruni eða fjármálakreppu (sjá hér).

Stundum er talað um húsnæðisbólur. Þá er fjárfest of mikið í húsnæði (of mikið aðgengi er að lánsfé til að byggja og kaupa húsnæði). Verðið hækkar þá umfram annað og byggingamenn og braskarar græða.

Írsla bóluhagkerfið var einkum húsnæðisbóla. Það sama á við um bóluna á Spáni og í Bandaríkjunum  á árunum 2002-2007.

Frá 1995 til um 2000 var bóla á markaði hátæknifyrirtækja, “dot.com-bólan”. Henni fylgdi offjárfesting í netfyrirtækjum og öðrum hátæknifyrirtækjum, sem leiddi til verulega mikilla hækkana á hlutabréfaverði í þeim geira (Nasdaq vísitalan mælir það). Þessarar bólu gætti mest í Bandaríkjunum.

Svo getur verið um að ræða almenna bólu á hlutabréfamarkaði, sem tengist ofþenslu í hlutabréfakaupum, ekki síst með lánsfé. Skuldsettar yfirtökur og kaup fyrirtækja/hlutabréfa eru algengar við slíkar aðstæður.

Íslenska bóluhagkerfið snérist að mestu leyti um slíkt fyrirtækjabrask með lánsfé. Verð á hlutabréfum í íslensku kauphöllinni hækkaði sjöfalt frá 2002 til 2007, sem er óvenju mikið. Skuldir íslenska þjóðarbúsins margfölduðust álíka mikið á sama tíma.

Þó bóluáhrifa hafi gætt á íslenska fasteignamarkaðinum þá var það víkjandi einkenni, samanborið við fyrirtækjabraskið. Húsnæðisbólur voru víða meiri en hér á landi.

Þetta má til dæmis sjá á þróun skuldsetningar hjá heimilunum annars vegar og fyrirtækjunum hins vegar (myndin hér að neðan – heimild Seðlabanki Íslands).

Skuldir fyrirtækja og heimila stærri

Mynd 1: Skuldaþróun fyrirtækja og heimila á Íslandi frá 2001 til 2012 (skuldir sem % af landsframleiðslu)

Hér má sjá hvernig skuldir fyrirtækjanna jukust miklu örar en skuldir heimilanna. Raunar jukust skuldir íslenskra fyrirtækja mun meira en skuldir fyrirtækja í öðrum vestrænum löndum á þessum tíma (hér). Skuldasöfnun einkabankanna var auðvitað líka einstök. Þeir gerðu hina gríðarlegu og stórhættulegu skuldasöfnun þjóðarbúsins mögulega.

Íslenska bóluhagkerfið var þannig einkum braskbóla með lánsfé. Fyrirtækjaeigendur og fjármálamenn voru helstu þátttakendurnir. Það voru þeir sem settu Ísland á hausinn.

Hvers vegna gerðu þeir það? Jú, þeir græddu gríðarlega á braskinu (sjá hér). Einmitt þess vegna munu þessir aðilar reyna fyrir sér aftur – ef aðstæður leyfa.

Það voru þannig hvorki heimilin né Íbúðalánasjóður sem settu þjóðarbúið á hliðina, hvorki með fjárfestingum í íbúðum né flatskjám. Og því síður voru það 90% húsnæðislán Framsóknar!

Það voru sem sagt einkabankarnir og atvinnurekendur í einkageiranum sem drekktu Íslandi í skuldum. Þeir söfnuðu langmestu af skuldunum. Opinberu eftirlitsaðilarnir (Seðlabanki, Fjármálaeftirlit og ríkisstjórnir) leyfðu þeim að gera það – og brugðust þar með hlutverki sínu í einu og öllu.

Þetta er mikilvægt að hafa í huga – öllum stundum!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 9.7.2013 - 11:24 - FB ummæli ()

Höfundar mikilla mistaka

Sjálfstæðisflokkurinn segir stoltur frá því á heimasíðu sinni að allir núlifandi fjármálaráðherrar flokksins hafi hist á fundi hjá Bjarna Benediktssyni í ráðuneytinu nýlega og veitt honum „góð ráð“.

Auðvitað er elskulegt og sjálfsagt að hafa svona samkomu í þessum hópi.

Hinu er þó ekki að leyna, að þarna komu saman höfundar mikilla mistaka, sem hafa orðið þjóðinni dýrkeypt. Í selskapinn vantaði bara Davíð Oddsson og Hannes ráðgjafa hans.

Þetta eru meðlimir Eimreiðarhópsins sem innleiddi frjálshyggjubyltinguna í Sjálfstæðisflokknum og tveir fjármálaráðherrar voru þarna sem sátu í gegnum bóluhagkerfið og hrunið – þegar allt fór á allra versta veg. Þjóðin mun bera byrðar vegna þessa um langa framtíð.

Hér myndaðist jú stærsta bóluhagkerfi sögunnar sem endaði með stærsta og dýrasta fjármálahruninu.

Hafa þessir menn dregið einhvern lærdóm af þeim mistökum sem gerð voru á þeirra vakt?

Maður verður ekki var við slíkt í opinberum málflutningi.

Þess vegna ætti Bjarni Benediktsson að taka ráðleggingar frá þessum annars ágætu mönnum með miklum fyrirvörum.

 

Síðasti pistill: Þjóðaratkvæði væri gott fyrir Framsókn

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 7.7.2013 - 16:50 - FB ummæli ()

Þjóðaratkvæði væri gott fyrir Framsókn

Það voru Sjálfstæðismenn sem lögðu mesta áherslu á að ná fram lækkun veiðigjaldsins fyrir útvegsmenn.

Sjávarútvegsáðherra Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, fékk hins vegar það dapra hlutverk að koma því í framkvæmd. Þar með tóku Framsóknarmenn á sig óvinsældir vegna þessa forgangsmáls Sjálfstæðismanna!

Forseti vor, Ólafur Ragnar Grímsson, kannar nú hvort hann eigi að vísa málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann hefur áður gefið ádrátt um að slíkt komi vel til greina.

Það er vissulega djúp gjá milli þings og þjóðar í málinu. Mikill stuðningur er við núverandi veiðigjald meðal þjóðarinnar (70%) á meðan meirihluti Alþingis samþykkir umtalsverða lækkun þess. Undirskriftir um 35 þúsund kjósenda, er söfnuðust í kyrrþey á rúmri viku á sumarleyfistíma, eru einnig sterk og réttmæt krafa um aðkomu þjóðarinnar.

En fleira mælir með þjóðaratkvæði um lækkun veiðigjaldsins. Málið er grundvallaratriði um eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni. Ef þjóðin nýtur ekki eignar sinnar á auðlindinni með sameiginlegum fjárhagslegum ávinningi þá verður eignarhaldið lítils virði – beinlínis innantómt.

Íbúar Alaska, hver og einn, hafa fengið heimsenda ávísun á hverju ári síðan 1982 vegna gjaldtöku fyrir afnot olíufélaga af olíuauðlind þjóðarinnar (sjá hér). Þetta eru um hundrað þúsund krónur á mann á ári, um 400 þúsund á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Auk þess fær ríkissjóður Alaska um 80% af tekjum sínum frá olíuvinnslunni, sem gerir þeim kleift að leggja hvorki tekjuskatt á einstaklinga né söluskatt (vsk.) á neyslu heimilanna. Norðmenn njóta verulegs ávinnings af eignarhaldi þjóðarinnar á olíuauðlindum, með öflugum olíusjóði sínum.

Íslendingar hafa lengst af fengið ekkert auðlindagjald fyrir afnot einkaaðila af sjávarauðlindinni og áður en núverandi veiðigjald kom til sögunnar var hér í gildi sýndargjald, sem litlu skilaði. Nýja veiðigjaldið færði okkur nær leið Noregs og Alaska – en fjær leið Nígeríu.

Þetta er því stórmál sem þjóðin á vissulega að fá að tjá sig um. Atkvæðagreiðslurnar um Icesave-samningana voru atkvæðagreiðslur um fjárhagslegar skuldbindingar og mögulega framtíðarskattheimtu – svipað og veiðigjaldið er nú.

Á þessu eru svo enn fleiri fletir. Til dæmis væri það gott fyrir ríkiskassann að þjóðin felldi lækkun veiðigjaldsins. Þá þyrfti ekki að þrengja enn frekar að velferðar- og menntamálum, með niðurskurðaraðgerðum sem draga auk þess úr hagvexti. Gott væri að þjóðin fengi að tjá sig um slíka forgangsröðun.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um veiðigjaldsmálið er þannig grundvallarmál af stærstu gerð og rökrétt framhald þeirrar lýðræðisvæðingar sem núverandi forseti stofnaði til.

Loks er athyglisverður flötur á málinu sá, að það væri gott fyrir Framsókn að fá þjóðaratkvæði um málið, á hvorn veg sem það færi. Þá væri Framsókn losuð undan óvinsældum, sem framkvæmdin (fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins) skapar þeim.

Ef frumvarpið yrði fellt verður auk þess meira svigrúm til að efna velferðarloforð Framsóknar.

Framsókn ætti því sjálf að vera jákvæð gagnvart þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Ákvörðun forsetans nú er þannig mikilvæg – á marga vegu.

 

Síðasti pistill: Sjálfstæðismenn vega enn að Framsókn

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 7.7.2013 - 11:14 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismenn vega enn að Framsókn

Sífellt verður ljósara að Sjálfstæðismenn skrifuðu undir stjórnarsáttmálann með lygamerki á fingrum. Þar var lofað verulegri niðurfellingu skulda heimilanna.

Nú eru komin skilaboð frá Sjálfstæðismönnum úr öllum áttum. Þeir segja: ekki efna þessi loforð!

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi bankamaður í MP banka, sagði um síðustu helgi að hjálpa ætti Framsókn við að svíkja loforð sín. Um þessa helgi hamrar hann járnið enn frekar og gerir grín að Framsóknarflokknum, í vikulegum viðhafnardálki sínum í Fréttablaðinu.

Villandi tal um að kosningaloforð Framsóknar árið 2003, um 90% lán fyrir ódýrar íbúðir, sé helsta orsök mikils taps Íbúðalánasjóðs hefur svo orðið ýmsum tilefni til neikvæðrar umfjöllunar um frekari skuldalækkun til heimilanna nú.

Þetta er villandi tal vegna þess að það var árás einkabankanna á Íbúðalánasjóð sem skapaði tap sjóðsins, auk rangra ákvarðana sem teknar voru hjá sjóðnum í þeirri stöðu, en ekki 90% lánin sérstaklega. Einkabankarnir voru leiðandi í ógæfuþróun fjármálanna hér eftir 2003. Íbúðalánasjóður var fórnarlamb frjálshyggjutilraunarinnar.

Nú kemur svo Vihjálmur Bjarnason fjárfestir og þingmaður Sjálfstæðisflokks og fer niðrandi orðum um Framsókn og segir að engu hafi verið lofað um skuldaniðurfellingu. Loforðið hafi einungis verið um “að taka þetta til athugunar og þessi þingsályktunartillaga sem var samþykkt (í vikunni), meðal annars með mínu atkvæði, hún byggir á því að skoða málið.”

Sjálfstæðismenn flagga þannig óheilindum, strax á fyrstu vikum stjórnarsamstarfsins.

Þetta undirstrikar hversu mikilvægt það er fyrir Framsókn að ná árangri í skuldamálunum.

Ef sá árangur næst þá verður líka ljóst að Framsókn færir heimilunum þann ávinning – gegn vilja Sjálfstæðisflokksins og Samtaka atvinnulífsins.

 

Síðasti pistill: Ný bók um tekjuskiptinguna í heiminum

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 4.7.2013 - 09:44 - FB ummæli ()

Ný bók um tekjuskiptinguna í heiminum

Income inequality kápaÞessa dagana kemur út ný bók um þróun tekjuskiptingarinnar í hagsældarríkjum heimsins, hjá hinu virta forlagi Stanford University Press.

Bókin heitir Income Inequality: Economic Disparities and the Middle Class in Affluent Countries og er í ritstjórn Janet C. Gornick og Markus Jäntti, en þau eru stjórnendur “Luxembourg Incomes Study” (LIS), alþjóðlegrar rannsóknarstofnunar í Lúxemborg.

Hér má sjá efnisyfirlit og upplýsingar forlagsins um bókina.

Í bókinni er kafli um áhrif bóluhagkerfisins á tekjuskiptinguna á Íslandi (1993 til 2010), eftir mig og Arnald Sölva Kristjánsson hagfræðing.

Við félagarnir erum mjög ánægðir með bókina, enda erum við þarna í hópi með sumum af fremstu sérfræðingum heimsins í rannsóknum á tekjuskiptingu. Þeirra á meðal eru, auk ritstjóranna, Anthony B. Atkinson, Lane Kenworthy, Arthur Alderson, Vincent Maler og Timothy Smeeding.

Bókin er fræðileg og fóru allir kaflar í gegnum þrefalt mat sérfræðinga áður en þeir voru endanlega samþykktir til útgáfu.

Hér má sjá lýsingu útgáfunnar á efni bókarinnar:

“This state-of-the-art volume presents comparative, empirical research on a topic that has long preoccupied scholars, politicians, and everyday citizens: economic inequality. While income and wealth inequality across all populations is the primary focus, the contributions to this book pay special attention to the middle class, a segment often not addressed in inequality literature. The research also casts important light on how economic inequality affects and is affected by gender disparities, labor markets, institutions, and politics.

Written by leading scholars in the field of economic inequality, all 17 chapters draw on microdata from the databases of LIS, an esteemed cross-national data center based in Luxembourg. Using LIS data to structure a comparative approach, the contributors paint a complex portrait of inequality across affluent countries at the beginning of the 21st century. The volume also trail-blazes new research into inequality in countries newly entering the LIS databases, including Japan, Iceland, India, and South Africa.”

Og hér er umsögn frá Harvard háskóla:

„This is one of the most important books on inequality published in the past decade. Focusing on what has happened to the middle class since the 1980s, during a period of substantial economic and political restructuring, this volume’s remarkable insights and influence will span disciplines.“—Jason Beckfield, Harvard University

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 3.7.2013 - 01:21 - FB ummæli ()

ÍLS – álíka tap og hjá Davíð í Seðlabankanum?

Rannsóknarnefnd Alþingis um starfsemi Íbúðalánasjóðs segir tap af rekstri sjóðsins nema alls um 270 milljörðum króna (þar af um 170 í beint tap og 103  vegna uppgreiðsluáhættu).

Ríkisendurskoðun mat það svo að að kostnaður ríkisins við gjaldþrot Seðlabankans hafi verið um 267 milljarðar króna (m.v. árið 2012 – sjá hér). Tap Seðlabankans féll til á mun styttri tíma.

Á yfirborðinu virðast þetta vera álíka stórir skellir, en ekki eru öll kurl komin til grafar.

Kostnaður vegna beggja er um 6,8 m.kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu (2 x 3,4 m.kr.).

Skýrslan um Íbúðalánasjóð er enn einn áfellisdómurinn um stórgallaða stjórnarhætti og eftirlit sem brást á áratugnum fram að hruni, þegar afskiptaleysisstefna frjálshyggjunnar var allsráðandi.

Rannsóknarnefndin nefnir m.a. pólitískar ráðningar, ófagleg vinnubrögð og mistök hjá ÍLS og í ráðuneyti húsnæðismála. Einnig eru Fjármálaeftirlit og Seðlabanki sögð hafa brugðist í eftirlitshlutverki sínu.

Þessi ákúra bætist nú við fyrri niðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis um fall íslensku bankanna, þar sem æðstu stjórnendur Fjármálaeftirlits og Seðlabanka voru allir sakaðir um alvarlega vanrækslu í starfi sínu, auk fjögurra ráðherra.

Þar voru stjórnendur einkabankanna einnig sakaðir um grafalvarlega misbresti í störfum sínum. Nú fær Íbúðalánasjóður svipaða umsögn, þó tap hans falli í skuggann af risagjaldþrotum einkabankanna íslensku. Tap ÍLS er þó geigvænlegt, rétt eins og tap lífeyrissjóðanna.

Stjórnvöld verða að taka þessa ítarlegu skýrslu til alvarlegrar umfjöllunar og draga af henni allan þann lærdóm sem forða mætti okkur frá öðrum eins hamförum í fjármálum þjóðarinnar.

Fjárhagstjónið sem tíðarandi frjálshyggjunnar olli hér á landi var stærra en áður hefur sést í sögunni. Hér fór flest í fjármálaheiminum úr böndunum.

Talsmenn afskiptaleysisstefnu og vúdú-hagfræða hafa hins vegar neitað allri ábyrgð og virðast reiðubúnir að hefja leikinn á ný.

Það er áhyggjuefni – svo ekki sé meira sagt!

 

Síðasti pistill: Skuldirnar – óvinir heimilanna opinbera sig

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar