Þriðjudagur 6.5.2014 - 21:53 - Lokað fyrir ummæli

Pollapönk

Pollapönk

Eurovision 2014 – Pollapönk – No Prejudice

 

Það er afar ánægjulegt, sem gamall pönkari, að sjá þessa frábæru listamenn taka á fordómum með þessum jákvæða hætti og ná áfram í Eurovison í kvöld. Hver og einn er fagmaður á sínu sviði, með hjartað á réttum stað og eru þeir allir mjög svo líflegir og litríkir á sviði.

Pönkið (e. punk), sem gekk einnig undir heitinu ,,ræflarokk“, þróaðist á tímabilinu frá 1975 til 1976 og þá í Bandaríkjunum, á Bretlandseyjum og í Ástralíu. Sex Pistols, the Clash, the Damned í London,  Television og the Ramones í New York City  eru þegar orðnar klassískar hljómsveitir pönksins. Svo má ekki gleyma Patti Smith (e. the Patti Smith Group)  sem heimsótti Ísland á síðasta ári og tróð upp með Russell Crowe á Kexinu sælla minninga á miðri Menningarnótt í Reykjavík.

Meðlimir pollapönks eru þeir Heiðar Örn Kristjánsson, Haraldur Freyr Gíslason, Arnar Gíslason, Guðni Finnsson og bakraddir syngja þeir Snæbjörn Ragnarsson og þingmaðurinn Óttarr Proppé. Þetta eru pönkarar og þungarokkarar af bestu gerð.

Það sem gleður mann sérstaklega sem föður er hve vel þeir hafa náð til barna með tónlist sinni og nú þjóðarinnar allrar.

Gangi ykkur vel drengir og njótið þess arna í ,,botnleðju“.

Njótum boðskaparins.

Hann er ósvikinn.

Flokkar: Heimspeki · Menning og listir

Mánudagur 5.5.2014 - 18:07 - Lokað fyrir ummæli

Hanna Birna og leki

Nú hafa niðurrifsöfl á Íslandi tekið sig saman ásamt sundirlyndisfjandanum og ráðist á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur ráðherra innanríkismála. Það sem hún á að hafa til sakar unnið er að koma gögnum úr ráðuneytinu í fjölmiðla, gögnum sem hefðu ekki átt að rata í fjölmiðla.

Galgopar og æsingafólk allt hefur verið kallað saman til að reyna að eyðileggja orðspor Hönnu Birnu.  Hanna Birna hefur staðið sig vel í stjórnmálum og gert allt til þesss að framgangur þessa máls sé þannig að fólk geti brátt séð niðurstöðu lögreglurannsóknar varðandi það.

En Merði Árnasyni og fleirum er svo óskaplega mál að ekki er hægt að bíða eftir því að lögreglurannsókn ljúki. Nýlega birti Hæstiréttur upplýsingar vegna málsins og þar mátti rekja klukkan hvað skjalið var búið til og rakið hvenær það birtist í fjölmiðlum.

Hvers vegna ræðir enginn það að hugsanlega var verið að vísa úr landi manni sem tekið hefur þátt í mansali?

Hvað er mansal? Er það ekki verslun með fólk, þrælasala og glæpamennska?

Pistlahöfundur þekkir vel til flóttamanna og fólks sem hefur mátt þjást undir margvíslegum kringumstæðum. Pistlahöfundur telur sig þekkja vel til Afríku og þeirra mála sem varða aðstöðu og afkomu fólks sem flokkast sem flóttafólk.  Eitt sinn í París var setið til borðs með flóttamanni sem týndist í frumskógi í 20 ár. Flestir til borðs höfðu verið flóttamenn áður en ekki nokkur maður verið glæpamaður, stundað mansal eða þrælasölu.

Hvar sem er í veröldinni þjáist fólk og á erfitt. Á Íslandi verður að gæta að því, eins og í öðrum ríkjum, að þegar við tökum á móti flóttafólki þá gerum við það á okkar forsendum og þeim forsendum að um mannúðarmál sé að ræða og að viðkomandi hafi ekki gerst brotlegur. Einhver getur haft samúð með þeim sem hafa rænt til að hafa ofan í sig og á. Einnig má hafa samúð með þeim sem hafa verið píndir til vondra verka.

Allt þetta er sorglegt og erfitt að eiga við. Hins vegar getum við ekki stuðlað að því að aðilar sem eru glæpamenn og hafa stundað mansal gangi framar þeim flóttamönnum, varðandi dvalarleyfi á Íslandi, sem hafa beðið lengi og hafa væntanlega betri málstað að verja en sá sem hefur stundað mansal.

Þrátt fyrir að margt megi betur fara hjá Útlendingastofnun og Innanríkisráðuneytinu, t.a.m. að ráða fleiri sérfræðinga af erlendum uppruna, flýta málum og laga símsvara embættanna, má ekki víkja frá ákveðnum frumforsendum varðandi gögn og hælisleitendur.

Það er mjög alvarlegt að gera fólki það að brjóta lög áður en dómur er fallinn eða rannsókn er lokið. En þar sem Mörður og fáeinir aðrir þingmenn á vinstri vængnum hafa nú fundið hér ,,gott mál“ að djöflast í og vega sig upp á er rétt að taka allt það sem frá þessu fólki fer með fyrirvara. Hins vegar er aðhaldið nauðsynlegt og af hinu góða þeim sem vammlaus er.

Ég tel að Hanna Birna Kristjánsdóttir muni koma sterkari út úr þessari rimmu.

Bíðum hæg þar til rannsókn er lokið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 3.5.2014 - 11:19 - Lokað fyrir ummæli

Undirskriftir og ESB

Í Fréttablaðinu í dag, 3. maí 2014, víkur bæði núverandi ritstjóri blaðsins og sá fyrrverandi að afhendingu undirskriftalista til Alþingis Íslendinga. Báðir láta það vera að fjalla málefnalega um tvær skýrslur sem gerðar hafa verið um aðildarviðræður við ESB þar sem bent hefur verið á að engar varanlegar undanþágur verði hægt að fá í aðildarviðræðunum. Lagaprófessor hefur þó bent á að líkur séu á að við fáum líklega varanlega viðurkennda 200 mílna efnahagslögsögu sem reyndar þegar er viðurkennd á alþjóðlegum vettvangi og langt utan landsteina ESB. Þetta þekkja Íslendingar vel og þá baráttu sem háð var til að tryggja afkomu þjóðarinnar til langrar framtíðar.

Þegar pistlahöfundur var stjórnarmaður í einu af félögum ungra sjálfstæðismanna á tímum samningaumleitana um evrópska efnahagssvæðið (EES) lagði fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins til, þá þingmaður Sunnlendinga og ráðherra í ríkisstjórn, að pistlahöfundur færi og mælti því gegn að EES samningurinn yrði lagður í þjóðaratkvæði. Farið var með drög að EES samningnum (fjölda binda sem fengust úr hendi núverandi forstjóra 365 miðla), sem þá lá fyrir Alþingi Íslendinga, austur fyrir fjall og fjallað m.a. um að líkur væri á að þjóðin öll gæti hreint ekki lesið þann fjölda blaðsíðna sem myndaði fjölmörg bindi EES samningsdraganna.

Rök pistlahöfundar voru skýr og eru það enn. Alþingi Íslendinga á að taka ákvarðanir um viðamikil mál sem þessi enda þannig um málið búið í stjórnskipun landsins. Ekki hefur pistlahöfundur breytt þeirri skoðun sinni né sýn þó svo að einhverjir aðrir telji það ekki henta þeim í dag. Í tilviki ESB þá er ekki einu sinni fram komin drög og aðeins verið að draga umsókn til baka sem ætti að falla skör neðar stjórnsýslulega en þegar unnið var hart í því að Alþingi eitt og sér afgreiddi EES samninginn sem afsalaði ekki stórum hluta af fullveldinu eins og vænta má með ESB aðild.

Ekki er séð, þó svo að yfir 53 þúsund Íslendingar hafi nú ritað undir áskorun um að leggja ógerðan og óumsamnin samning um aðild Íslands að ESB fyrir íslenska þjóð, að fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins hafi kallað eftir því ofan af Kögunarhól að allt þetta fólk læsi svo sem eins og brot af því sem fram hefur komið af efni um málið. Ekki liggur fyrir e.k. samræmt próf um það eða skilmálar að baki undirskriftunum að viðkomandi einstaklingur, sem ritaði undir, hafi jafnframt og samhliða staðfest með undirskrift sinni að hafa lesið t.a.m. skýrslu Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands um málið eða hvað þá skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Án slíkra skilmála eru undirskriftir sem þessar ekki marktækar og fólk látið ,,kaupa köttinn í sekknum“ eina ferðina enn.

Hvað með hið marg umrædda ,,upplýsta samþykki“ sem fjallað hefur verið um m.a. varðandi gagnagrunna á heilbrigðissviði og alla þá umræðu?

Varðandi það að menn væru eða væru ekki að svíkja kosningaloforð skal á það bent að þegar ráðamenn taka sæti í ríkisstjórn er lagt upp með áætlun og stefnu ríkisstjórnar. Þetta þekkja ritstjórarnir vel. Við það að taka sæti (t.a.m. í fyrsta skipti sbr. núverandi stjórn) birtast mönnum oft nýjar upplýsingar um hvernig málum er komið sem áður voru þeim dulin enda ríkir mikill trúnaður t.a.m. um samningaumleitanir við kröfuhafa bankanna og fjölmarga aðra þætti. Einn sá þáttur snýr að alþjóðasamvinnu, alþjóðasamningum sem og öryggis- og varnarmálum er heyra undir Utanríkisráðuneytið og utanríkismálanefnd Alþingis. Það má vel vera að mál hafi borist svo illa leikin í hendur núverandi meirihluta frá þeim fyrrverandi að ekki var séð fram á að hægt yrði annað en að slíta viðræðum við ESB á þeim forsendum sem fyrir liggja. Það þurfa alls ekki að vera ,,svik við kjósendur“ í slíku fólgið. Þingmenn og ráðherrar eru ekki kjörnir vegna eins máls heldur vegna afstöðu þeirra til fjölmargra málaflokka og vegna trausts sem þeir byggja á vegna áralangrar stjórnmálabaráttu.

Væri ekki meira vit í því fyrir ritstjóra Fréttablaðsins að eyða nokkrum auglýsingasíðum blaðsins, sé þetta svo mikið hjartans mál, í að skýra út t.a.m. sjávarútvegskaflann sem er enn óopnaður fyrir íslenskri þjóð í stað þess að fjalla fjálglega um að Alþingi Íslendinga eigi nú að taka mark á mótmælum utanhúss frekar en það hefði átt að gera það þegar sótt var um aðild að NATO.

Fyrir áhugasama má finna hér slóð á vefsetur Utanríkisráðuneytisins varðandi framangreint efni. Skorað er á þá er stóðu að umtalaðri undirskriftarsöfnun að endurtaka hana þar sem fólk ,,kýs“ eða greiðir ,,atkvæði“ um hvern samningskafla og hakar við skilmála þess efnis að viðkomandi hafi lesið, skilið og kynnt sér vel efni og innihald tengt viðkomandi kafla. Sé það ekki gert má ætla að skilaboð og áróður fyrir slíka undirskriftasöfnun sé mun óljósari almenningi á Íslandi en sú einfalda nálgun og skýr tilgangur sem var í tengslum við undirskriftasöfnun varðandi Reykjavíkurflugvöll. Það var afmarkað mál ólíkt aðild að ESB.

Hafa stuðningsmenn ESB aðildar skautað léttilega framhjá þessari augljósu staðreynd hingað til eins og svo mörgu öðru viðkomandi ESB og aðildarumsókn.

Svo má benda á að það kusu 193.828 manns í síðustu kosningum til Alþingis.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 1.5.2014 - 11:29 - Lokað fyrir ummæli

Skítugasti maður Evrópu

Ludvik Dolezal frá Tékklandi - Mynd afrituð af vefnum www.visir.is (birt 1. maí 2014)

Ludvik Dolezal frá Tékklandi – Mynd afrituð af vefnum www.visir.is (birt 1. maí 2014)

Í nýlegum pistli hér á Eyjunni fór pistlahöfundur stuttlega yfir stjórnmálaferil þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins og varð á þau leiðu mistök að fara rangt með það vinstra framboð sem þingflokksformaðurinn hafði starfað í áður en hann gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Eftir að hafa fengið ábendingu um það frá þingflokksformanninum sjálfum að farið væri með LYGAR leitaðist pistlahöfundur við að leiðrétta mistök sín. Með réttmætinum breytingum leiðrétti pistlahöfundur pistil sinn enda hafði, við nánari skoðun, þingflokksformaðurinn ekki fylgt Jóhönnu Sigurðardóttur úr Alþýðuflokknum í Nýjan vettvang heldur Vilmundi Gylfasyni í Bandalag jafnaðarmanna.

Óhætt er að segja að viðbrögð netheima, t.a.m. á fésbókarsíðu þingflokksformannsins, urðu umtalsverð og þar látið margt flakka. Eftir að leiðrétting á pistlinum hafði verið gerð setti pistlahöfundur inn á fésbókarþráð þingflokksformannsins að leiðrétt hafi verið að þingflokksformaðurinn klauf sig ekki á sínum tíma úr Alþýðuflokknum með Jóhönnu heldur klauf þingflokksformaðurinn sig úr Alþýðuflokknum með Vilmundi heitnum Gylfasyni. Hefur þingflokksformaðurinn ekki en séð ástæðu til að þakka pistlahöfundi fyrir þessa mikilvægu leiðréttingu.

Þegar lesinn er þráður stuðningsmanna þingflokksformannsins kemur í ljós talsverður stuðningur við það að þarna hafi verið um LYGAR að ræða. Eftir lestur þeirra fjölmörgu athugasemda varð pistlahöfundi svo um að hann var á tímabili farinn að halda að hann væri að verða skítugasti maður Mosfellsbæjar, jafnvel Íslands eða Evrópu. Létti honum mjög eftir að í málgagni evrópusinna, www.visir.is, birtist frétt þess efnis að það væri hann Ludvik Dolezal frá Tékklandi sem hampaði titlinum að vera skítugasti maður Evrópu.

Ætla má, í ljósi þessa kjörs innan Evrópu, að pistlahöfundur verði að sætta sig við að vera aðeins skítugasti maður Mosfellsbæjar í bili a.m.k. þar til einhver annar vogar sér að tjá sig um pólitíska fortíð stjórnmálamanna á Íslandi í dag.

Að lokum er viðeigandi að rifja upp vísu er Jón Baldvin Hannibalsson orti til Ragnheiðar Ríkharðsdóttur núverandi formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins og þáverandi félaga í Bandalagi jafnaðarmanna árið 1985. Hér er um n.k. pólitískt ,,Sonatorrek“ Jóns að ræða eftir að hann hafði misst góða félaga en athygli vekur að hann fól Jóhönnu Sigurðardóttur að koma þessu öllu til skila en hún sá sér heldur ekki vært í hinum gamla og góða Alþýðuflokki frekar en Ragnheiði.

Ilmandi við öllum blasa,

yfir skyggja reiðina,

sextán blóm í sama vasa

sýna okkur leiðina.

Höfundur: Jón Baldvin Hannibalsson (1985)

En bæði Jóhanna og Ragnheiður sáu ekki aðra leið færa á þessum tíma en að kljúfa Alþýðuflokkinn í herðar niður þrátt fyrir velvilja Jóns Baldvins í þeirra garð þegar hann vildi ,,sýna þeim leiðina“. Jóhanna fór reyndar bara hálfa leiðina í ESB en Ragnheiður fer enn sínar eigin leiðir.

Jóhanna (þá í Alþýðuflokknum) afhendir Ragnheiði Ríkharðsdóttur (þá í Bandalagi jafnaðarmanna, áður í Alþýðuflokknum) blóm - NT, 2. febrúar 1985

Jóhanna (þá í Alþýðuflokknum) afhendir Ragnheiði Ríkharðsdóttur (þá í Bandalagi jafnaðarmanna, áður í Alþýðuflokknum) blóm – NT, 2. febrúar 1985

Óhætt er að segja að á þessum tíma hafi Alþýðuflokkurinn verið í ,,djúpum skít“.

Nú situr Jón Baldvin bitur hér við Mosfellsdal rétt eins og Egill Skallagrímsson forðum. Nú er reynt að beita sömu brögðum innan Sjálfstæðisflokksins og verður pistlahöfundur að benda sjálfstæðisfólki á það að hann hefur talsverða óbeit á því.

Á síðasta aðalfundi Sjálfstæðisfélags Mosfellinga sá fyrrverandi forseti Alþingis, frú Salome Þorkelsdóttir,  ástæðu til þess að standa upp og leggja áherslu á að sjálfstæðisfólk stæði  saman og sýndi samstöðu. Pistlahöfundur ber mikla virðingu fyrir þessari góðu konu og þessum orðum hennar.

Verður sjálfstæðisfólk að meta það hvort útspil Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, varðandi evrópumál að undanförnu og á skjön við ályktanir landsfundar flokksins, hafi verið á þá lund sem ein helsta stuðningsmanneskja hennar hér í Mosfellsbæ lagði upp með á aðalfundi Sjálfstæðisfélags Mosfellinga nýlega.

Hitt er þó víst að Ludvik Dolezal mun áfram þurfa að berjast fyrir tilveru sinni innan Evrópu og vera n.k. birtingarmynd ritstjórnar ,,VÍSIS“ á þeim sem fylla í fátæktarhlið GINI stuðuls Evrópu 1. maí 2014.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 28.4.2014 - 12:11 - Lokað fyrir ummæli

ESB, Davíð og Ragga Rikk

Þingflokksformenn VG og Sjálfstæðisflokksins mættu ,,Í Bítið" á Bylgjunni í morgun 28. apríl 2014 - Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Svandís Svavarsdóttir

Þingflokksformenn VG og Sjálfstæðisflokksins mættu ,,Í Bítið“ á Bylgjunni í morgun 28. apríl 2014 – Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Svandís Svavarsdóttir

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (oft kölluð Ragga Rikk hér í Mosfellsbæ), þingmaður pistlahöfundar í Kraganum og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, mætti ,,Í Bítið“ á Bylgjunni í morgun (28. apríl 2014)  ásamt samstarfskonu sinni á Alþingi Svandísi Svavarsdóttur þingflokksformanni Vinstri grænna. Báðar mjög yndælar konur við bæði menn og dýr.

Hélt Ragnheiður uppteknum hætti og sagðist áfram um aðild að Evrópusambandinu (ESB). Hélt hún áfram að ræða um fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, sem yfirleitt og nær alltaf hélt flokkunum, fyrst sem borgarstjóri og síðar sem formaður hans, í um eða yfir 40% fylgi bæði í borg og í landsmálum. Sagði hún hann vera með skrifum sínum í Morgunblaðið að draga fylgi flokksins niður í allt að 25% eða neðar. Vekur þetta athygli í ljósi þess að þegar spurt er í skoðanakönnunum hvort fólk vilji kjósa flokk eða ekki er sjaldan eða aldrei spurt um hvort honum fylgi fyrrverandi formenn þeirra flokka sem í framboði eru og ritstjórar miðla eins og 365, DV eða Morgunblaðsins.

Ragnheiður, eins ágæt og frambærileg sem hún kann að vera, virðist nú á harða hlaupum frá sínum eigin flokki og stefnuskrá hans en ætlar ekki að yfirgefa flokkinn. Hleypur hún þá í hringi?

Hún þekkir þetta vel úr knattspyrnunni að þegar markmenn eru farnir að skora í eigið mark er þeim yfirleitt vikið af velli. Þá skiptir litlu þó markmaðurinn sé vinsæll söngfugl eða skemmtikraftur uppfullur af ,,STEMMARA“.

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, tók skilaboðum Ragnheiðar vel enda virðist flest sem Ragnheiður segir þessa dagana vera vatn á millu vinstri manna og sundrungarafla í Sjálfstæðisflokknum. Þessi málgleði verður einnig til þess að draga fjöður yfir þá staðreynd að VG gekk á bak orða sinna með því að sækja um aðild að ESB undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur fyrrverandi forsætisráðherra og án þess að íslenska þjóðin væri spurð álits á slíku umsóknarferli og tilsvarandi fjárútlátum því tengdu.

Jóhanna var sælla minninga eitt sinn samherji Ragnheiðar á vinstri vængnum, Jóhanna í ,,Nýjum vettvangi“, sem einhverjir kölluðu reyndar ,,Nýjan vettling“, Ragnheiður í ,,Bandalagi jafnarðarmanna“, oft kallað ,,Bandalag jafnaðarmanns“ vegna fylgisskorts, og bauð ,,Nýr vettvangur“ fram gegn lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem Davíð Oddsson leiddi. Svo má ekki gleyma því sveita-pólitíska ,,ástarsambandi“ Ragnheiðar við VG þegar hún náði nærri því að setja Mosfellsbæ á hausinn í lóðabraski sínu ásamt VG í bæjarpólitíkinni hér í bæ. Það voru vinsælar eyðslufyllerísákvarðanir sem héldu henni í bæjarstjórastólnum um árabil. Eftir þetta býr Mosfellsbær við yfir 120% skuldsetningu sem er skelfileg staða. Hið sama hugsaði ESB þegar ICESAVE var og hét. Hver man það ekki? (Ath. sjá leiðréttingu hér að neðan sem gerð hefur verið á meginmálinu)

Það er því ekki lagt í að ræða um það ,,Í Bítið“ sem máli skiptir fyrir Ísland þegar þessar ágætu þingkonur hittast undir blóðrauðri sólaupprás sem blasir nú við úr austri. Ekkert nýtt undir sólinni á þeim bænum en nú virðist ESB hafa náð um árabil að tætast í Íslendingum rétt eins og um Pútín blessaðan væri að ræða. Það er ekkert einkaleyfi á sundrungu bundið við Rússland þessa dagana, síður en svo.

Gefnar hafa verið út tvær skýrslur varðandi ESB. Í þeim er fjallað ítarlega um skilyrði þessara nýju og fjárhagslega vel tæknivæddu Ráðstjórnarríkja í Evrópu. Höfundar eru á því að engar unganþágur fáist sem varanlegar verða fyrir Ísland, t.a.m. í auðlindamálum, varðandi alþjóðasamninga, landbúnað ofl.

Römm virðist sú taug sem tengir fólk við alræðið og miðstjórnina sé viðkomandi, sem á þetta guðfalska vald trúir,  ekki sjálfum treystandi til að gæta eigin landamæra. Það væri lítið fyrir Ragnheiði Ríkharðsdóttur að gera ,,Í Býtið “ að morgni og ræða of háa skatta og gjöld á sjávarútveginn og aðrar atvinnugreinar landsins væri hún búin að fá mest allt skattavald, úthlutunarheimildir, nánast alla alþjóðasamvinnu og gerð alþjóðasamninga framselt til miðstjórnar ESB í Brussel og frá Íslendingum sjálfum. Vilji hún afsala þessu valdi en þjóðin ekki, hvað þá?

Hvort væri nú hyggilegara, eins og staðan er með fylgi Sjálfstæðisflokksins í dag, að fá Davíð Oddsson aftur á þing eða losa sig við Ragnheiði Ríkharðsdóttur af þingi? Mörgum finnst hún skelegg en hvað hefur hún haft fram að færa öll þessi ár annað en að ganga með þetta ESB steinbarn í maganum ár eftir ár eftir ár?

Pistlahöfundur telur að ritstjóri Morgunblaðsins hafi hins vegar ekki hug á þingsetu. Með skrifum sínum vill hann augljóslega brýna sitt fólk varðandi ESB, m.a. vegna þeirrar pólitísku skoðunar hans að Íslandi sé betur borgið utan ESB. Þá skoðun ber að virða rétt eins og þá skoðun Ragnheiðar á því að minnka við sig völdin vegna anna og Svandísar að koma upp sinni miðstýrðu draumaveröld alræðisins.

Ætli að fylgistap Sjálfstæðisflokksins sé ekki einmitt til komið vegna þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins standa ekki allir í fæturna í vörn sinni fyrir sjálfstæði Íslands og gegn aðild að ESB? Það er þó aldrei að vita nema að fylgi flokksins geti vaxið fari menn og konur að þeirri stefnu sem veitti flokknum mesta fylgið þegar best lét. Á meðan klofningshræður sitja í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og eru þar komnar í fremstu röð hans er ekki von á góðu.

Það á hið sama við mölétin föt.

Svo má bæta við hér undir blá lokin að í borgarstjórnarkosningum árið 1990 hlaut Sjálfstæðisflokkurinn rúm 60% atkvæða en „Nýr vettvangur“ hennar Jóhönnu, vinkonu Ragnheiðar, hlaut um 14% atkvæða. Ætli Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem áður hefur skipt um vettvang til að spila í ,,meistaradeildinni“ og oftar en ekki á kostnað trúverðugleika Sjálfstæðisflokksins um árabil, verði að fara að finna sér ,,Nýjan vettvang“, ,,Nýjan vettling“, nú eða leita leiða til að auka fylgi flokksins með einhverjum öðrum hætti? Er hún kanski ómissandi?

Í dag þarf að standa í fæturna og sigla í gegnum brimskaflinn. Það hefur Sjálfstæðisflokkurinn oft gert með marga dugmeiri þingmenn en fáeina þá sem nú sitja fyrir flokkinn á þingi og kunna lítt með umboð sitt að fara í söluherferð sinni fyrir ESB. Svo má Ragnheiður, rétt eins og hver sem er, hafa sína skoðun og tjá hana hverjum sem vill heyra. Það er alls ekki bannað.

Ekki má gleyma þeim traustu og tryggu sjálfstæðismönnum sem sitja enn á þingi og standa sína plikt. Það eru einmitt þeir sem standa vörð um helgi landsins en ekki þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins einn og óstuddur.

LEIÐRÉTTING:

Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur komið því á framfæri við pistlahöfund að hún var alls ekki þátttakandi í framboði ,,Nýs vettvangs“ á sínum tíma. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum og bent á að pistlahöfundur láðist að ráða í hvaða vinstra framboð það var sem hún tók þátt í á sínum tíma enda hafa þau verið fjölmörg síðustu ár og áratugi. Kom í ljós að það var framboð ,,Bandalag jafnaðarmanna“ sem hún vann með og er hér birt afrit af grein frá því 9. október 1986 sem birtist í Dagblaði Vísi þar sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir vandar þeim ekki kveðjurnar sem kvöddu það framboð á sínum tíma. Ætti nú enginn að velkjast í vafa um hvað átt var við í pistlinum hér að framan enda stendur hann þrátt fyrir þessa smávægilegu villu sem hér með er leiðrétt.

Grein úr Dagblaði Vísi frá því 9. október 1986

Grein úr Dagblaði Vísi frá því 9. október 1986

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 25.4.2014 - 18:27 - Lokað fyrir ummæli

Everest og ESB

Everest - Hæsta fjall jarðar 8.848 metrar yfir sjó

Everest – Hæsta fjall jarðar 8.848 metrar yfir sjó

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sló á þráðinn til Pútín forseta, fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi forseta Rússlands og sagðist ekki nenna að standa í þessu Úkraínumáli lengur. Bað hún Pútín um að hætta þessu hernaðarbrölti sínu við landamæri Úkraínu enda hefði hún enga skriðdreka að ráði lengur og enginn væri ógnin úr vestri nema helst það er varðar of mikinn efnahagslegan viðsnúning í Bandaríkjunum og argaþras frá Obama sem brátt yfirgefur Hvíta húsið í Washington.

Á sama tíma hafa Serparnir sagt upp störfum hjá þeim sem hafa efni á að fljúga til Nepal og ráða þar þessa blessuðu fátæklinga til að hlaupa með vistir upp og niður Everest og leggja slóða. Serparnir ,,bera“ víst marga þá ríkustu upp sem koma m.a. frá Kína og Rússlandi. Þeir borga hvað sem er til að komast á topp Everest. Eftir flugferð upp í um 2.860 metra hæð við þorpið Lukla í Nepal er haldið upp í grunnbúðir í um 5.380 metra og þaðan uppá topp fjallsins sem er í um 8.848 metrum. Frá grunnbúðum upp á topp eru því um 3.468 metrar en eldfjallið okkar Öræfajökull er í um 2.110 metrum frá fjöruborði og uppá topp.

En hvað tengir þetta saman?

Jú, það eru hetjurnar. Hverjir eru hetjurnar í þessu samhengi öllu saman, þeir sem þora, þeir sem geta og þeir sem sigra toppinn?

Ef við byrjum á því að undirstrika að það er Pútín sem er ,,hetjan“ í sínu heimalandi. Hann er sigurvegarinn enda hefur hann vaðið yfir og tekið það sem hann langar í. Hann er hins vegar ekki hetjan sem fór á Everest en hann er hetjan sem tók Krímskaga aftur ef svo má að orði komast, hann er töffarinn og snillingur Rússa í dag. ESB er ekki með forseta og er því Angela Merkel, helsti bandamaður Rússa í viðskiptum með gas, olíu og bíla látin hringja í Pútín og ,,skamma“ hann. En hvað er nú pólitískt rétt í þessu öllu saman, hvar eru gjárnar og þorir ESB að taka áhættu á leið sinni í átt að ,,friði“? Hugsanlega væri betri krókur en kelda fyrir kosningarnar til Evrópuþingsins?

Þeir eru raunverulegar hetjur sem geta borið föggur ferðalanga á Everest upp og niður, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár án þess að ná á allri sinni ævi þeim kaupmætti sem þeir hafa er borið er fyrir eða þeir sem eru bornir upp. Það hafa margir drýgt hetjudáð við að komast á toppinn. Serparnir hafa nú misst mikið og hafa misst ættingja og vini í klakaflóði í hlíðum Everst. Það er mikil sorg og mikil fórn sem fylgir því að stunda þessa iðju.

Nú leggur ESB á sitt Everest í utanríkismálum eina ferðina enn með Þýskaland í fararbroddi. Vandinn er bara sá að ,,Serpar“ ESB, þ.e. embættismenn þess, hafa aldrei komist ofar en á efstu hæð Berlaymont byggingarinnar í Brussel og hafa þá oftar en ekki varla getað náð andanum af spenningi. Svo eru þessir ESB ,,Serpar“ líklega skíthræddir við að fá yfir sig pappírsflóð enda gætu þeir á leiðinni upp á efstu hæð orðið óvænt fyrir áföllum af stærðargráðu sem enginn hefur séð fyrir eða tekist á við í því augnarmiði að ganga t.a.m. erinda smáríkja innan ESB. Nú er komið að því að fara uppá þak, útundir bert loft og ógna Rússum. Þar gæti orðið kalt og dimmt eða hvað?

Nú er spurningin sú hvort ESB geti tekist á við þetta verkefni og komist á toppinn í utanríkismálum heimsins.

Tekst ESB að ná toppnum á meðan engan ,,Serpa“ er að finna til að bera allt hafurtaskið? Er nú orðið hættulegt að standa í fæturna?

Eru þetta aumingjar og liðleskjur í ESB?

Flokkar: Heimspeki · Íþróttir · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 21.4.2014 - 10:52 - Lokað fyrir ummæli

Fótboltinn og Nýji Flokkurinn

5 leikir - 0 unnir og enn kenna þeir dómaranum um ófarirnar

5 leikir – 0 unnir og enn kenna þeir dómaranum um ófarirnar

Nýjar og mátulega staðfestar heimildir DV herma að búið sé að stofna dulda fésbókarsíðu ,,Nýja Sjálfstæðisflokksins“. Aðrar heimildir herma að aðstandendum framboðsins hafi áskotnast fjölda meðlima í kjölfar hrakfara Manchester United í meistaradeildinni í fótbolta á Englandi. Áhugi Manchester United stuðningsmanna á fótbolta dvínar ört á meðan sagt sé að fylgi hins nýja flokks vaxi ómælt. Þar sem einhverjir áhangendur Manchester United á Íslandi hafa orðið fremur lítið að gera þessa stundina hefur hluta af þessum ofur-virka hóp tekist að sameinast undir merkjum hins ,,Nýja Sjálfstæðisflokks“.

Það er þekkt úr knattspyrnunni að félög á Englandi hafa náð umtalsverðum árangri eftir gríðarlega innspýtingu fjármagns frá Rússlandi, arabaheiminum og svo Asíu. Hefur þetta fé verið notað til að kaupa bæði leikmenn og áhangendur sem eru orðnir ótrúlega margir á Íslandi. Það sem vekur athygli í knattspyrnuheiminum er að samhliða því að bestu félagslið heims séu á Englandi gengur landsliði Englendinga skelfilega.

Eins og flestir vita hefur mannskapurinn, sem skipar forystusveit ,,Nýja Sjálfstæðisflokksins“, á að skipa mönnum sem vilja ganga í Evrópusambandið. Evrópusambandið hefur eytt umtalsverðu fé til að markaðssetja sig á Íslandi svo árum skiptir. Gekk Evrópusambandið lengra en félagsliðið Manchester United og setti yfir landið sendiherra. Leiða má líkum að því að það hafi verið gert m.a. vegna þess að skattlagningavald aðildarríkjanna gerir það að verkum að pumpa má mun meira fé út úr skattborgurum ESB ríkjanna til að fjármagna slíka útrás en Manchester United gat gert þegar kom að miðasölu og auglýsingum til áhangenda sinna.

Það er einnig vel þekkt að Evrópusambandið er búið að styrkja fjölda listafólks, fræðimanna og stuðlað að margvíslegum verkefnum hér á landi til að auglýsa sambandið m.a. á meðal embættismanna og blaðamanna. Sumir höfnuðu þessum fjármunum á meðan aðrir þáðu.

Sama gerðist þegar gekk vel hjá Manchester United. Það fór allskonar fólk að styðja þetta sögufræga lið þegar vel gekk og það er eðlilegt enda fær það lið sem hefur bestu leikmenn vallarins mestu athyglina og vinnur flesta leikina. Þá þurfti reyndar fjármagn til, ötula og fjáða stuðningsmenn og skipti oft litlu hvaðan þeir komu og hverjir þeir voru.

Nú gengur Manchester United illa eins og Evrópusambandinu. Því eru sterkar líkur á að þessi öfl geti sameinast enda þar að finna fjölmarga dugmikla einstaklinga sem geta fengið til sín fjölda fólks sé eitt og aðeins eitt tryggt en það er fjármagn. Svo þarf að fara að velja leikmenn sem geta unnið leiki og skorað mörk. Möguleiki er því á að þessi ,,Nýji Sjálfstæðisflokkur“ geti náð í úrvalsdeildina fyrr eða síðar.

Spurningin er samt sú hvort dómaranum verði kennt um gangi þeim ekki vel.

Áfram Liverpool !

Flokkar: Íþróttir · Menning og listir · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 15.4.2014 - 08:56 - Lokað fyrir ummæli

Eiginfjárkrafa ESB

Hertar eiginfjárkröfur ESB á fjármálastofnanir - Klippt út úr Morgunblaðinu 15. apríl 2014

Hertar eiginfjárkröfur ESB á fjármálastofnanir – Klippt út úr Morgunblaðinu 15. apríl 2014

Það er greinilega orðið vandlifað bæði innan og utan Evrópusambandsins (ESB) fyrir evrópusambandssinna sem hafa áttað sig á því að smærri fyrirtæki, eins og fjármálafyrirtæki, geta varla vaxið né dafnað með sífellt hertari tilskipunum frá Brussel. Þetta er því orðið talsvert flóknara og yfirgripsmeira en Lovsamling for Island sem safnað var saman að frumkvæði Jóns forseta á síðari hluta 19. aldar. Á síðum Morgunblaðsins í dag, 15. apríl 2014, er bent á að stjórnarformaður MP banka telji að tilskipanir ESB séu innleiddar helst til of hratt hér á Íslandi um þessar mundir.

Í dag er lögbundið að fjármálafyrirtæki beri að hafa 8% eiginfjár á reikningum sínum og óheimilt er að fara undir það hlutfall ella gæti slíku fyrirtæki að öðrum kosti verið lokað af Fjármálaeftirlitinu (FME). Bent skal á að pistahöfundur gagnrýndi FME og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra (þ.e. fyrri ríkisstjórnar) þegar þeir voru komnir í 16% er benti til þess að þeir ætluðu að ganga alveg frá skuldurum þessa lands og ná bæði gulli og silfri úr tönnum landans rétt eftir hrun. FME og fyrri ríkisstjórn urðu afturreka með þessi áform sín enda voru þau alveg út í hött á þeim tíma sem algjörlega var óljóst hvers virði eignasöfn bankakerfisins var í miðjum dómsmálum um vafasamar lánveitingar fjármálafyrirtækja fyrir hrun. Hér skal áréttað að FME getur gert ríkari kröfur um hlutfall eigin fjár fjármálafyrirtækja en að framan greinir.

Það er svigrúm sem FME hefur í þessu efni en  innleiðing tilskipunarinnar hækkar lágmarkið lögum samkvæmt sem eykur kröfur um fjárhagslegan styrk sem og leiðir vissulega til kostnaðar sem af því hlýst sem stjórnarformaður MP banka hefur bent réttilega á. Hér fer FME eftir svonefndu SREP-ferli við mat sitt en ef tilskipun ESB nær fram að ganga gæti eiginfjárhlutfall minni fjármálafyrirtækja þurft að vera allt að 20% þó svo að ferli FME mæli það minna.

Fyrir liggur frumvarp á Alþingi Íslendinga um að auka á kröfu um eigið fé í fjármálafyrirtækjum um allt að 2,5% og þá í 10,5% í stað 8%. Þetta er gert m.t.t. til tilskipanna frá ESB sem stjórnarformaður MP banka vildi semja sig undir og hefur staðið fremstur í flokki við að mæra og móta framtíðarsýn heillar þjóðar út frá Kögunarhól, einum lægsta sjónarhól á Suðurlandi. Má ætla að Ingólfur Arnarsson, sem flúði útlegðardóm í Noregi, hefði valið sér betri stað til að líta yfir landið sem hann hafði nýlega numið enda við hann kennt Ingólfsfjall fremur en Kögunarhóll.

Þetta er reyndar skiljanleg krafa frá ESB í ljósi stöðu efnahagsmála þar og líkur eru á að kröfur þar séu háværar um að bankar þar sameinist og verði sterkari. En hentar þetta íslenskum fyrirtækjum og íslenskum aðstæðum? Þetta eykur a.m.k.líkur á að þýskir, franskir og breskir bankar geti tekið upp með ,,kíttispaða“ og hirt ódýrt portúgalska, spænska, gríska, kýpverska ofl. banka á næstu árum eða allt til ársins 2019 þegar búið verður, skv. skilyrðum ESB, að innleiða alla eiginfjáraukana í löggjöf þeirra ríkja sem eru innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Það sem þetta þýðir er að bankakerfið þarf að gera hærri ávöxtunarkröfu á rekstur sinn í heildina. Vegin meðalávöxtun (e. weighted average cost of capital – WACC) fjármálafyrirtækja mun því hækka almennt enda er ávöxtunarkrafa eigin fjár hærri en lánsfjár. Þetta þýðir því að bankar verði að sækja meira fé til viðskiptavina sinna svo þeir geti dekkað þennan kostnað. Það gerist með hærra vaxtaálagi, hærri þóknunum osfrv. Tekjumótel stærri banka er talsvert víðtækara og eiga þeir auðveldara með að klípa hér og þar af viðskiptavinum sínum heldur en minni fjármálastofnanir. Því munu bankar eins og MP banki, eins ágætur og hann er og nauðsynlegur í flóru fjármálafyrirtækja á Íslandi, ekki geta keppt við stærri fjármálastofnanir á sama grunni og áður.

Þessi aðgerð ESB er því ekki klæðskrerasaumuð að smærri fjármálafyrirtækjum en það sem þau geta hins vegar gert er að aðgreina sig á markaðnum en slíkt er erfitt á Íslandi sem er lítill markaður og þröngur. Rétt eins og gerðist hjá stóru bönkunum, þegar Dr. Gylfi Magnússon, þá efnahags- og viðskiptaráðherra, ætlaði að hækka eiginfjárhlutfallið í 16% en var afturreka með það (a.m.k. um tíma og kom svo aftur með það fyrir stóru bankana þegar mátti sjá að þeir þoldu það) því að lánasöfn bankana rýrnuðu enda rangt reiknuð sbr. dómsmál, kemur í ljós nú að hið sama er uppi á teningnum hjá MP banka. Lánasafnið reyndist ekki eins gott og menn ætluðu. Eina ráðið við þessu þegar krafan um eigið fé eykst er að auka eigið fé (selja nýja hluti í bankanum) eða selja eignir en ekki biðja þingheim að hætta við lagasetninu til að uppfylla skilyrði skv. tilskipunum frá ESB, eða hvað?

Stjórnarformaður MP banka virðist hafa vaknað af vondum draumi sé litið til yfirlýsingar hans á aðalfundi MP banka nýlega. Væri því ekki ráð að samið yrði frekar við ESB um að við fengjum hægari aðlögun að EES svæðinu í stað þess að við förum í hraðari aðlögun að ESB?

Hvaða skilaboð er verið að senda með þessum tilskipunum frá Brussel til smærri og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi sem og vaxtarsprota í íslensku atvinnulífi?

Það er greinilega vandlifað í þessum heimi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Laugardagur 12.4.2014 - 09:08 - Lokað fyrir ummæli

Athyglissýki og meðalhóf

Við Íslendingar erum ekki öðruvísi en aðrar þjóðir en þessi litla þjóð virðist þó eiga heimsmet á hvern einstakling sem hér býr í fjölmörgum ,,keppnisgreinum“ ef svo má að orði komast. Fyrir utan hina vel þekktu hjarðhegðun, sem lýsa má með fótanuddtækinu, bumbubananum, soda-stream tækjakaupæðinu (hinu fyrra), hjólaskautahæðinu og hlutabréfakaupaæðinu hinu fyrra (2000-2003) og hinu síðara (2005-2008), erum við mörg hver með einstaklega mikla athyglissýki. Við erum einnig mörg of feit og hefur það m.a. leitt til að hin vel þekkta alþjóðlega sjónvarpskeppni, ,,the Biggest Loser“, hefur tröllriðið landanum og gefið öðrum gott fordæmi. Hefur pistlahöfundur ekki farið varhluta af þessari keppni enda bentu börnin á að rétt væri að pabbinn færi í þessa keppni en létu nú fylgja með að hann væri nú kanski ekki beinlínis ,,loser“ heldur ,,biggest“. Það er mikið rétt enda börnin oftast þau sem segja sannleikan og koma sér beint að efninu, fylgja dygðunum sem við hin eldri virðumst mörg hver gleyma.

En snúum okkur að dygðunum.  Til vitrænnna dygða teljast:

  • skilningur
  • þekking
  • viska
  • hyggindi

Til hinna siðrænu dygða teljast:

  • hugrekki
  • hófstilling
  • veglyndi
  • stórlyndi
  • mikillæti
  • mátulegur metnaður
  • háttvísi
  • sannsögli
  • vinátta
  • réttlæti

Þegar kemur að athyglissýki er ljóst að þar keppa aðilar um að berast á, fá athygli almennings og notast er við fjölmargar aðferðir til að koma sér á framfæri og oftar en ekki á kostnað annarra. Þetta er lýtur því lögmálum framboðs og eftirspurnar og máli skiptir hvar þú ert í hillunni og hve áberandi þú ert svo einhver vilji kaupa þig og yfireitt veita þér athygli. En er þetta sýki rétt eins og áfengissýki eða fíkn? Það þarf alls ekki að vera enda getur þetta verið einhver rík þörf til að tjá sig og verður hún þó oftar til þess reyndar að skyggja á aðra og vitrænni persónu, einstakling sem hefur framangreindar dygðir að leiðarljósi. Hægt er að sjá þetta á börnum, þ.e. athygslisþörfina, þar sem eitt barn getur oft skyggt á heilan hóp vegna þess að það stekkur fremst fram og lætur á sér bera með margvíslegum hætti. Oft er þetta afar gamansamt en oft er þetta einnig leiðingjarnt.

Dæmi um þetta má finna á Alþingi Íslendinga. Þar starfa 63 þingmenn ásamt starfsfólki þingsins. Á Alþingi Íslendinga eru fluttar fjölmargar þingsályktunartillögur og mörg frumvörp, bæði þingmannafrumvörp og svo frumvörp frá ríkisstjórn sem viðkomandi fagráðherra mælir oftar en ekki fyrir. Sjá má það af þátttöku þingmanna að þeir nenna hreinlega ekki að taka þátt í umræðum á þinginu um þorra þeirra mála sem þar koma fram heldur ná að hópa sér saman um fáein mál sem vekja athygli almennings og eru ,,efst á baugi“ og eru góð söluvara fyrir fjölmiðla. Þar má nefna:

  • Fjölmiðlafrumvarp
  • Rannsóknanefndir og skýrslur þeirra
  • Evrópusambandið og umsókn eða afturköllun umsóknar
  • Utanríkismál ef um stríðsátök er að ræða
  • Skuldaleiðréttingar
  • Flugvallarmálið
  • Fjárlagafrumvarp

Þetta er ekki upp talið en gefur ágæta innsýn í þá málaflokka sem eru áberandi í umræðunni í dag. Vissulega fer yfirgripsmikið starf fram í nefndum þar sem hver þingmaður sérhæfir sig, ef svo má að orði komast, í ákveðnum málaflokkum. En þrátt fyrir allt virðast fjölmargir þingmenn ekki setja sig vel í málaflokka en eru tilbúnir að koma fram í ræðustól Alþingis og ræða um málefni sem viðkomandi hefur jafnvel lítið eða ekkert vit á. Þá er sagt að þetta sé ,,hans skoðun“ og það má vel vera. Margir segja; ,,…en þetta er nú mín skoðun.“. Hér ríkir mál-, tjáningar- og ritfrelsi en það fylgir ábyrgð því hvernig maður tjáir sig og kemur sínum málum á framfæri.

Ef við snúum okkur að athyglissýki skal bent á að einn þingmaður á Alþingi Íslendinga reif nýlega þrjá 10 þúsund krónur seðla í ræðustól Alþingis. Þetta átti líklega að vera táknrænt og þarna kemur þingmaður fram og setur nýtt viðmið (e. benchmark)  varðandi það sem má bjóða almenningi uppá úr ræðustól Alþingis Íslendinga. Hvað kemur næst? Verða þarna rifin skuldabréf eða hlutabréf ákveðinna fyrirtækja. Með þessu framferði þingmannsins, sem vissulega var vakin athygli á, er hann ekki að gæta hófs né háttvísi. Þetta átti að vera gert til að mótmæla kostnaði við gerð skýrslu að beiðni Alþingis Íslendinga. Hefði þingmaðurinn ekki getað komið þessu á framfæri með öðrum hætti?

Þetta framferði lýsir ekki mikilli visku né hyggindum. En vissulega fékk hann þá athygli sem hann sóttist eftir en á kostnað Alþingis og dró þannig athygli frá efni skýrslunar sjálfrar og færði hana yfir á að vandamálið sé ekki í raun innihaldið heldur kostnaðurinn við gerð hennar. Alþingi Íslendinga ,,fjárfesti“ í þessari vinnu og málið fékk lýðræðislega umfjöllun á sínum tíma þegar ákvörðun um rannsókn var tekin. Er ekki lágmark að þingmaðurinn, sem situr þó annað þing en það sem tók þessa ákvörðun, beri lágmarks virðinu fyrir þeirri fjárfestingu sem Alþingi lagði í en rýri ekki verkið meira en efni standa til. Í sama mund bera þingmenn fyrir sig að málið var tekið það snemma upp á Alþingi að þeir hefðu ekki haft tök á að kynna sér efnið hennar sem er vel yfir eitt þúsund síður. Þetta er því mikið verk sem á eftir að vera rætt lengi á Alþingi enda ekki vanþörf á og þingmenn mega ekki verða uppvísir af jafn lélegum vinnubrögðum sjálfir og gagnrýnin í skýrslunni um sparisjóðina gengur út á.

Ef þeir gera það ekki mun virðing á Alþingis Íslendinga minnka enn frekar.

En eftir stendur spurningin hvers vegna þingmaðurinn reif ekki evrur?

Gætum hófs.

 

Flokkar: Heimspeki · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 8.4.2014 - 22:43 - Lokað fyrir ummæli

Gröf óþekkta embættismannsins

Óþekkti embættismaðurinn - Listaverk eftir listamanninnn Magnús Tómasson

Óþekkti embættismaðurinn – Listaverk eftir listamanninnn Magnús Tómasson

Skýrsla Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um aðildarviðræður Íslands við ESB kom út í gær 7. apríl 2014 og var kynnt sérstaklega á Grand Hótel. Var skýrslan  unnin fyrir Alþýðusamband Íslands, Félag atvinnurekenda, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands. Skýrslan er 134 síður og flokkast í eftirfarandi aðalkafla:

  • Aðildarviðræður við ESB
  • Efnahags- og peningamál
  • Sjávarútvegsmál
  • Landbúnaðarmál
  • Staða og framtíð EES

Óhætt er að segja að mikil vinna hefur farið í þessa skýrslu og haldið í ferðir erlendis og þá sérstaklega til Brussel. Í 2. kafla skýrslunar er tekur á helstu niðurstöðum skýrslunar segir m.a.:

Háttsettur embættismaður hjá stækkunardeild ESB benti samt sem áður á að það væru fordæmi fyrir því að nýjar grundvallarreglur (f. acquis communautaire) væru skrifaðar inn í aðildarsamning til að leysa erfið mál í aðildarviðræðum. Um leið og aðildarsamningur tekur gildi verða allar sérlausnir sem hann tekur til hluti af grundvallarreglum ESB, sem ekki verður breytt nema með samþykki allra aðildarríkja. Að mati téðs embættismanns væri vel mögulegt að sníða lausnir sem skiluðu því sem Ísland sæktist eftir en færu ekki gegn grundvallarreglum ESB. Mótun slíkra sérlausna taki aftur á móti tíma í samningaviðræðum.

Fyrir utan það að segja lítið annað en það sem vitað er, þ.e. hvað ESB getur samið um varðandi undanþágur sem verða aldrei varanlegar, segir þessi klásúla í skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands ekkert að ráði en eins öfugsnúið sem það kann að vera segir hún einnig allt sem segja þarf. Hér er vitnað í óþekkan embættismann í Brussel.  Gæti t.a.m. sá embættismaður, sem Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands vitnar í, alveg eins hafa fallið frá fyrir mörgum árum enda innleggið sígilt og afar uppörvandi áhugasömum.

Það er löngu vitað að við getum fengið undanþágur en þær verða ekki varanlegar nema hugsanlega ef þær væru skýrt og skilmerkilega orðaðar eins og Dr. Stefán Már Stefánsson lagaprófessor hefur nú áréttað með ítarlegri bók um sama viðfangsefni, þ.e. viðræður við ESB. Dæmi um slíkt yrði að við gætum hugsanlega fengið að tilgreina í samningi við ESB 200 mílna fiskveiðilögsögu enda afar skýrt og skiljanlegt. Þetta eru grundvallar réttindi strandríkja sem við Íslendingar unnum baki brotnu fyrir að fá samþykkt af samfélagi þjóðanna og börðumst fyrir fyrst þjóða og aðrir hermdu svo eftir áratugum þar á eftir með vísan í fræði er nefnast á enskri tungu ,,law of the sea“.

Það virðist engu skipta þegar um átrúnað er að ræða. Erfitt er að koma staðreyndum að þegar trúboðið er sterkt og vel fjármagnað. Hér gilda því sömu lögmál og innan trúarhreyfinga. Þar eru hinir heilögu ósnertanlegir, þeir verða óþekktar persónur og dulafullir leikendur. Fjarðlægðin gerir einnig fjöllin blá og mennina mikla. Kirkjan er stór og mikil með gríðarstóru hvolfþaki.

En hvert fara þeir allir, hermenn ESB?

Where have all the flowers gone…

Því er eina ráð þeirra sem vilja leita heimildarmanna Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands að leita frekar uppi grafreiti í Brussel og spyrja hina föllnu hermenn ESB rétt eins og pistlahöfundur leitaði að gröf átrúnaðargoðsins Jim Morrisson og fann í Père Lachaise kirkjugarðinum í París. Í kirkjugörðum og við minningarreiti fær maður aðeins eitt svar. Það svar er skýrt og skilmerkilegt sem enginn dregur í efa óháð trúarhreyfingum, stjórnmálaskoðunum og gang himintungla.

Munurinn á milli pílagrímaferðanna væri líklega sá að átrúnaðargoð ESB-sinna yrði líklega að finna í gröf óþekkta embættismannsins í Brussel rétt eins og finna má minnismerki óþekkta hermannsins í Moksvu rétt fyrir utan dyrnar að Kreml.

Það er mjög svipað sem báðir þessir óþekktu hermenn höfðu barist fyrir og lögðu margt í sölurnar svo ná mætti að miðstýra sem mestu af eins mörgum og kostur var. En hverju mun það skila?

Almennt má segja að lestur úttektar Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands var fróðlegur en minnti reyndar óneitanlega á draugasögur Jóns Árnasonar.

Gamalt efni en sígilt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur