Föstudagur 20.05.2011 - 21:11 - FB ummæli ()

Hnífurinn er fundinn

Umræðan um skýrslu fjármálaráðuneytisins er mjög sorgleg og þungbær. Eftir því sem merking  upplýsinganna sekkur dýpra í sálina þá gerir maður sér betur grein fyrir svikunum. Ekki það að maður hafi ekki haft sínar grunsemdir. Upplifun flestra hefur verið að bankar hafi fengið að ganga fram af fullri hörku án afskipta stjórnvalda. Núna er skýringin komin, ríkisstjórn Íslands samdi við bankakerfið um að það mætti hagnast á innheimtu  á skuldum  almennings,  skuldum sem voru seldar nýju bönkunum með miklum afslætti. Hægt er að lesa greinagóð blogg Marinós og Ólafs Pressupenna um skýrsluna auk þess sem Lilja Mósesdóttir hefur komið fram í viðtölum um sama efni,  og hér.

Samtímis og ríkisstjórnin sagðist vera að slá skjaldborg um heimilin og fyrirtækin þá var gerður samningur við bankana sem kom í veg fyrir að lántakendur hefðu einhverja möguleika á því að komast upp úr skuldasúpunni.

Þar sem bankarnir munu hagnast á því að innheimta allar skuldir með sem mestri hörku mun viðkomandi innheimtuástand halda áfram þangað til að fleiri fórnarlömb eru ekki finnanleg.

Að fyrsta vinstri ríkisstjórn Íslands hafi tekið við hnífnum úr hendi bankakerfisins og rekið hann í bakið á okkur án þess að blikka auga er nánast óskiljanlegt. Skýringin sem finnst í viðkomandi skýrslu fjármálaráðuneytisins virðist vera að við verðum líklegri bólfélagar Evrópusambandsins með þessari ráðstöfun. Sennilega finnst Samfylkingarfólki og ESB sinnum í Vg að tilgangurinn helgi meðalið.

Að sjálfsögðu ætti þjóðin að krefjast réttlætis. Lítil hætta virðist þó vera á því vegna þess að þeir sem skulda lítið munu halda sér til hlés svo þeim verði ekki hent í gettóið líka. Síðan er það hópurinn sem trúir á ESB og mun ekki gera neitt sem hugsanlega minnkar líkurnar á því að samlandar þeirra hrekjist inn í bandalag bankaelítunnar. Síðan hópurinn sem flytur í burt og að lokum hópur einstaklinga sem vill halda völdum.

Þar sem við erum sundruð og sjáum ekki heildarmyndina munum við standa okkur sjálfum næst. Þeir sem fluttu út til bráðabirgða koma ekki heim, þeir sem hafa verið í biðstöðu fara út. Afgangurinn af almenningi á Íslandi mun taka að sér með eins litlum tilkostnaði og nokkur kostur er að fita fjármálakerfið um mörg ókomin ár.

Að sjálfsögðu á þjóðin val. Hún gæti kynnt sér sögu annarra þjóða sem hafa lent í svipuðum hremmingum. Þannig gæti hún stytt sér leið í stað þess að rífast um allt milli himins og jarðar. Betra væri að átta sig á því hvers vegna fjármálakerfið stjórnar öllum ríkisstjórnum alls staðar án tillts til hvað þær kalla sig.

Allar ráðstafnir víðs vegar um heim miðast við þarfir banka og annarra fjármálastofnana. Fyrir því er löng hefð og þær stofnanir kunna þá tækni að koma mistökum sínum yfir á almenning. Meðan almenningur er að rífast um stefnur, isma og prinsipp sitja bankar á friðarstóli og hafa okkur að fíflum. Þar sem bankar hafa einkaleyfi á því að búa til peningana okkar hafa þeir völdin í heiminum og ef það vald yrði frá þeim tekið gæti almenningur átt möguleika á leiðréttingu sinna kjara. Meðan ekki er tekið á þessu vandamáli með almennri umræðu og aðgerðum mun öll umfram fita skorin af almenningi og færð bankakerfinu á silfurfati um ókomna tíð.

Fólkið í landinu mun sjálfsagt ekki bregðast neitt við vegna þess að þjóðin sefur. Það er komin tími til þess að fólkið átti sig á því að það er þjóðin.

Flokkar: ESB · Peningar · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur