Mánudagur 28.02.2011 - 12:42 - 4 ummæli

Blóðugt ofbeldi á netinu

Ég er ekki viss um að foreldrar geri sér grein fyrir því hversu blóðugt ofbeldi er að finna á netinu og hversu mikilvægt það er að heimatölvan sé útbúin öflugri ofbeldis og klámsíu. Því miður er slík vörn ekki nægileg!  

Ég var að vafra um netið og skoða mismunandi  fréttaflutning af atburðunum í Norður-Afríku. Þar varð ég var við myndbandsbrot frá fréttastofum sem almennt eru taldar ábyrgar þar sem sjást afar óhuggulegar myndir af fólki falla fyrir byssukúlum, jafnvel sýndar aftökur.

Þá varð ég var við að ofbeldissían stoppaði nokkur myndskeið. Ég sá fljótt eftir því að hafa tekið ofbeldissíuna úr sambandi því ég endaði fljótt í myndasöfnum með myndskeiðum af afar blóðugu ofbeldi, dauðaslysum og jafnvel morðum.

Er hálf miður mín.

Er búinn að setja ofbeldis og klámvörnina aftur á – en verð að setja að mér er ekki alveg rótt.  Fyrst myndefnið á netinu hefur svona áhrif á harðsvíraðan hrokagikk eins og mig – hver eru þá áhrifin á börnin okkar ef og þegar þau komast í tæri við myndskeið af svo blóðugu ofbeldi ?  

Ég segi þegar – því tölvufærni unglinga er þannig að ég efast ekki um að þeir finna sér leiðir fram hjá ofbeldis- og klámsíum sem foreldrar setja upp á tölvurnar.

En það er deginum ljósara að slíkar síur eiga að vera á öllum þeim tölvum sem börnin okkar hafa aðgang að. Það er ekkert barnaefni það blóðuga ofbeldi sem er aðeins nokkrum músarklikkum frá börnunum okkar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Sæll

    Þú hittir naglann á höfuðið. Það er hlutverk okkar foreldra að vernda börnin okkar fyrir þeim viðbjóði sem liggur fyrir hunda og manna fótum um allt internetið.

    Hef samt grun um að mjög margir foreldrar láti þetta undir höfuð leggast eins og margt annað í uppeldi barna sinna.

    Tólin eru til, og flest auðveld í notkun.

  • Einar Steingrímsson

    Mig grunar að börnin okkar, sem eru alin upp við miklu meira og grófara ofbeldi í netheimum, séu einfaldlega eins ónæm fyrir því og við erum gagnvart ofbeldislýsingum í Íslendingasögunum. Þegar mér var farið að líða illa yfir ofbeldi sem ég horfði á í tölvu yfir öxlina á tíu ára syni mínum varð hann alveg forviða og sagði: „En, pabbi, þetta er ekki í alvöru.“

    Ég held sem sé að við séum að ýkja hættuna sem fylgi því að horfa á ofbeldi á skjá. Enda hefur alvarlegum ofbeldisglæpum í USA fækkað verulega síðustu 30 árin, og ekki síst á tímanum eftir tilkomu ofbeldisfullra tölvuleikja og myndbanda. Og ég veit ekki til að neinum þeirra mörgu sem reynt hafa hafi tekist að sýna á sannfærandi hátt fram á að gláp á svona lagað leiði til aukins ofbeldis.

  • Einar. Þú getur nú varla verið mjög sjóaður á internetinu ef þú trúir því að allt ofbeldi sem þar er að finna sé „ekki í alvörunni“. Mjög grafískt myndefni af raunverulegum slysum, barsmíðum og sjálfsvígum, svo eitthvað sé nefnt, eru að finna á víð og dreif. Ég myndi gefa dæmi, en hef eiginlega ekki geð í mér að birta hlekki. Er að auki ekki viss um að síðuhaldara myndi líka það.

    Það eru raunar heilu vefirnir sem gera út á dreifingu slíks efnis. Hversu skaðleg áhrif það hefur á ómótaðan huga er svo annað mál, og fer væntanlega eftir uppeldi, aðstæðum og atgerfi þess er horfir. Ég mun þó sjá til þess að mín börn hafi ekki aðgang að óvörðum tölvum á okkar heimili þegar fram í sækir.

  • Ps. tek fram að hraustur og Bragi Freyr Gunnarsson eru sami maðurinn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og einum? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur