Einokunarverslun ríkisins ÁTVR skilaði nýverið af sér 96 blaðsíðna ársskýrslu sem hlýtur að vera eitthvert veglegasta plagg sinnar tegundar sem gefið er út hér á landi. Aðkeypt vinna við gerð skýrslunar nam kr. 4,2 milljónum, aðallega vegna grafískrar vinnu en vinnuframlag starfsmanna stofnunarinnar er ekki reiknað þar með.
Í skýrslunni sem forstjóra ber að útskýra fyrir fjármálaráðherra, þar sem engin stjórn er yfir stofnuninni, kennir ýmissa grasa og margt sem kemur undarlega fyrir sjónir. Grunnstefið er þó alltaf froðuhugtakið um ,,samfélagslega ábyrgð” (og er þá vitaskuld átt við samfélag starfsmanna).
Eins og áður sagði er margt illskiljanlegt og annað þversagnarkennt í ársskýrslunni. Má þar nefna að ÁTVR telur sig ,,stuðla að lýðheilsu” og leggur áherslu á ,,fræðslu til viðskiptavina” en þó eru allar vörukynningar, bæklingar eða annað markaðsstarf stranglega bannað í verslunum.
Hvernig ÁTVR ,,notar auðlindir af ábyrgð” skal ósagt látið en í hverri viku allt árið um kring fer einn starfsmaður til útlanda sem kann að þykja undarlegt fyrir stofnun sem ekki flytur inn neinar vörur en samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni eru allar ferðir kolefnisjafnaðar.
Eins og kemur fram í fréttatilkynningu með ársreikningnum gekk reksturinn ljómandi vel og því líklega full ástæða til að þakka starfsmönnum að viðskiptavinir hafi ekki leitað annað. Taldi forstjóri einokunarstofnunarinnar að skattgreiðendur stæðu í slíkri þakkaskuld við starfsmenn að réttlætanlegt væri að verja 13,7 milljónum af almannafé í útivistarbúnað fyrir starfsfólkið sem kaupauka (sem stjórnendur sjá reyndar ekki ástæðu til að reikna til skattskyldra hlunninda)
Öllum hugsandi einstaklingum er vitaskuld full ljóst að einokunarrekstur getur aldrei verið til hagsbóta fyrir neytendur. Sá misskilningur er einnig til staðar að með ríkisrekstri náist hið margrómaða markmið um að ,,arðurinn renni til þjóðarinnar” sem vitaskuld er alger firra enda enginn arður af eiginlegri smásölu ÁTVR ekki frekar en að arður sé af rekstri Tollstjóraembættisins.
Í skýrslu McKinzey um samkeppnishæfni þjóðarinnar er einmitt bent á að hér á landi séu allt of margir fermetrar undir verslun. Að leggja niður rekstur ÁTVR myndi augljóslega lagfæra það óhagræði um tugþúsundir fermetra auk þess sem sala á dýru verslunuarplássi um land allt myndi renna í ríkissjóð. Að auki myndi vínsala í almennum verslunum augljóslega styrkja verslunarrekstur á landsbyggðinni sem sumstaðar stendur höllum fæti.
ÁTVR heldur hinsvegar áfram að þenja út ríkisbáknið í umboði fjármálaráðherra og opnaði nýverið ,,nýtt og stærra húsnæði” í hveragerði, væntalega sem lið í ,,skertu aðgengi” eins og getið er um í lögum um stofnunina.