Óðinn í Viðskiptablaðinu er skyldulesning alls hugsandi fólks á Íslandi. Í blaðinu í dag er tilvitnun í Egil Helgason sem hægt er að taka undir:
Aðalmálið hlýtur að vera að efla íslenska dagskrá í staðinn fyrir allan óhroðann sápujukkið,glæparuslið og raunveruleikaþáttaógeðið sem veltur yfir okkur. Hlutverk RÚV hlýtur að vera að flytja okkur íslenskt menningarlegt efni-helst eitthvað sem aðrir framleiða ekki. Þetta eru einu rökin fyrir tilvist stofnunarinnar.
Eina leiðréttingingn er að RÚV, eða arftaki þess í formi menningarsjóðs, þarf einmitt ekki að ,,flytja“ eitt né neitt því um það sjá nóg af aðilum hvort heldur er YouTube, Vimeo eða aðrir sambærilegir. Netið er sá dreifingarmiðill sem RÚV hefði átt að veðja á fyrir löngu í stað úreltrar örbylgjudreifingar sem augljóst er að forráðamenn stofnunarinnar skildu hvorki tæknilega né kostnaðarlega.
RÚV byggir á fornri hugmyndafræði um svokallaða línulega dagskrá. Öll uppbygging og starfsemi stofnunarinnar miðast við dagskrárgerð en ekki efnisframleiðslu samkvæmt nútímakröfum. Þannig eru t.d. allar fréttir unnar í fyrirsagnaformi fyrir útvarp og sjónvarp og yfirfærðar óbreyttar á netið. Netið hinsvegar hefur yfirburðarkosti þegar kemur að eiginlegri greiningu og ætti að vera útgangspunktur. Sjónvarpsfréttir ættu að vera afleidd vara en ekki öfugt. Til samanburðar þá kemst texti í einum sjónvarpsfréttatíma fyrir á hálfsíðu í dagblaði.
Áhugavert verður að fylgjast með viðbrögðum stjórnenda RÚV sem og menntamálaráðherra við skýrslu nefndar um starfssemi og rekstur rúv frá 2007. Illugi Gunnarsson þarf að ákveða hvort hann ætlar að fylgja stefnu landsfundar og þeim grunngildum sem hans flokkur stendur fyrir eða verja úrelta risaeðlu á þjóðminjasafninu.