Kjörþokki Pírata byggir á því að þeir eru svona ,,öðruvísi“ stjórnmálamenn en kjósendur eru búnir að fá upp í háls af stjórnmálamönnum sem segja ekki það sem þeir meina og meina ekki það sem þeir segja. Engum dettur í í hug að Píratar séu bara nýjar umbúðir á gamaldags vinstri stjórnmál. Þess í stað eru Píratar ný kynslóð stjórnmálamanna með nýja stjórnarskrá öfugt við gamla draslið með eignarrétt og höfundarrétt og svoleiðis bull, eða svo vitnað sé í Fréttatímann ,,skilin milli hægri og vinstri eru nánast ógreinileg”.
Eins og kunnugt er, þykir Pírötum höfundarréttur hið mesta böl sem í raun ætti að hugnast öðrum vinstri mönnum vel því sá réttur er auðvitað eitt form af eignarrétti sem er jú eitur í beinum vinstri manna:
5.1 Takmörkun á frelsi fólks til að safna og miðla upplýsingum er óásættanleg
Núverandi hugmyndum um höfundarrétt væri ekki hægt að framfylgja á internetinu nema með því að vega gróflega að réttindum borgaranna. Það er ólíðandi að fjárhagslegir eiginhagsmunir trompi borgararéttindi og frjáls samskipti,
Píratar álykta að: Frjáls dreifing (skuli vera) á efni sem er ekki í fjárhagsskyni.
Til að skilja betur hvað það er sem Píratar meina má nefna að þegar þessi pistill er skrifaður er greinarhöfundi ókleyft að dreifa pistlinum á Facebook þar sem reikningurinn er nú læstur í 3 daga í refsingarskyni vegna höfundarréttarbrota gagnvart Pírötum. Afbrotið fólst þó ekki í því að ég hafi hakkað mig inn í tölvu Birgittu og dreift hennar tölvupóstum að hætti Wikileaks heldur póstaði ég hlekk á mynd (sem ég vil kalla ,,íslenskur kjörþokki“) af Flickr ljósmyndasíðu sem þó er opin öllum.