Þriðjudagur 25.11.2014 - 23:29 - FB ummæli ()

Apple í sérflokki – $700B

Markaðsvirði Apple fór í dag í $700B. Vegna ákvarðana stjórnmálamanna mega Íslendingar kaupa framleiðsluvörurnar en ekki hlutabréfin. Skynsamlegt eða ásættanlegt?AAPL

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.11.2014 - 16:53 - FB ummæli ()

Gleðileg ,,Brennivínjólin“

Eitt sinn var páskabjór bannaður í hillum ÁTVR af því að gulur litur dósanna gæti vakið áhuga barna á að drekka bjór um páska sem ekki væri ,,samfélagslega ábyrgt“

Nú er öldin önnur því nú eru ,,Brennivínjólin“ hjá ÁTVR og hinn rauði jólalitur í senn með ,,heitu eftirbragði“ og ,,meðalfyllingu“ og fylgir þá ekki sögunni hvort ,,fyllingin“ tengist því magni sem innbyrgt er.

Tvöföld samfélagsábyrgð

Samfélagsábyrgð í gjafapakkningum

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.11.2014 - 20:32 - FB ummæli ()

Vímuefnavandi og verslunarrekstur

Oscar Wilde sagði eitt sinn að hann stæðist allt annað en freistingar. Fáir þekkja freistingar jafn vel og stjórnmálamenn. Þó svo að tilgangur Alþingis sé að setja lög og reglur sem tryggja rétt landsmanna, hafa þingmenn ekki staðist þá freistingu að snúa hlutverkinu á haus og þrengt að réttindum borgaranna með lagasetningu sinni. Frelsisskerðingin er hjúpuð göfugum ásetningi til að réttlæta órétt. Ef einhver alþingismaður efast um óréttmæti einokunarverslunar, ætti sá hinn sami að vinda sér beint á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins þar sem flestar hliðar slíks reksturs eru tíundaðar og reyndar sektaðar. Samkeppniseftirlitið hefur reyndar úrskurðað nú þegar að einokun með áfengi er jafn skaðleg og önnur einokun með innsendu erindi til Alþingis.

Sumir óttast að verði einokunarverslun hins opinbera með áfengi lögð af muni vöruverð hækka og úrval minnka. Slíkar bollaleggingar eru auðvitað grátbroslegar en menn gætu þá allt eins spurt hvort bæta mætti úrval og lækka verð á öðrum neysluvörum með einokunarveslunum á fleiri sviðum.

Megináhyggjur einokunarsinna felast í að þeim sem eigi við áfengisvandamál að stríða muni eiga erfiðara um vik með að halda aftur af sinni fíkn fari svo að áfengi verði afgreitt af öðrum en ríkisstarfsmönnum. Að auki muni fleiri verða áfengisfíkninni að bráð ef áfengi verði aðgengilegra.  Þessar áhyggjur standast augljóslega ekki skoðun. Fíknin er réttilega skilgreind sem sjúkdómur og meðhöndluð sem slík. Að spyrða ÁTVR við hlutverk SÁÁ er svipað og að tengja saman Bæjarins Bestu og Hjartavernd. Auðvitað verða ekki fleiri ,,veikir” þó svo að áfengi verði stillt upp í hefðbundnum verslunum frekar en að einhver verði átfíkill af því að horfa á matvæli í verslunum. Ofát veldur mun fleiri ótímabærum dauðsföllum en áfengi. Engum (öðrum en meðlimum VG) dytti þó í hug að torvelda aðgengi átfíkla að matvælum með einokunarmatvöruverslun ríkisins. Ranglega seld lyf geta valdið öruggum dauðdaga en samt dettur engum í hug að einungis félagsmenn í BSRB geti afgreitt lyf. Í annan stað eru allflestir sammála um að ekki sé verjanlegt að selja eða útvega ungmennum undir lögræðisaldri áfengi en eins og allir vita hefur einokunarverslun ríkisins ekkert með slíkt markmið að gera enda síbrotastofnun á því sviði.  Ströng viðurlög eru allt og sumt sem hið opinbera getur viðhaft í því sambandi og tengist augljóslega ekki verslunarrekstri, hvort heldur er opinberum eða einkareknum. Hver hafa annars verið viðurlög við brotum starfsmanna ÁTVR í þessu sambandi og hversu margir hafa hlotið refsingu?

Verslun og viðskipti geta verið mörgum framandi, sér í lagi þeim sem aldrei hafa stundað slíka starfsemi. Þannig átta fáir sig á að t.d. í Bretlandi selst orðið meira af léttvínum á netinu heldur en í verslunum og vínsjóðir eru starfandi víða um heim sem þjóna fjárfestum sem dreifa vilja sparifé sínu með stöðutöku í vínum. Að auki er ýmis verslun og þjónusta viðloðandi vín og það jafnvel á alþjóðavísu. Allir hljóta að sjá að banna slík viðskipti á grundvelli þjóðernis er algerlega galið og getur varla staðist ákvæði EES samningsins. Í þessu sambandi má benda á að einstaklingum hér á landi er heimilt að versla vín og flytja inn til eigin neyslu, af hvaða erlendum vínsala sem er. Viðskipti við innlenda innflytjendur eru hinsvegar bönnuð! Segja að sú hlið málsins sé í takt við þá firru að erlendir áfengisframleiðendur geta auglýst í öllum tímaritum, á netinu og í beinum sjónvarpsauglýsingum en innlendum samkeppnisaðilum er meinað um slíkt jafnræði.

Að leggja stein í götu íslenskrar verslunar hefur hingað til snúist um að hygla úreltu landbúnaðarkerfi með einokun og kvótakerfi. Sama er uppi á teningnum Í tilfelli einokunarverslunarreksturs ÁTVR.  Þar er augljóslega verið að höfða til stórs hóps kjósenda sem hefur réttilega áhyggjur af littlum hópi vímuefnasjúklinga og trúir því að ríkisvaldið nái að torvelda aðgengi sjúkra með rekstri 48 verslana! (til samanburðar rekur Bónus 29 verslanir) og að slíkt hafi sefandi áhrif á áfengissýki! Verslanirnar eru svo staðsettar á bensínstöðum, barnafataverslunum og stórmörkuðum. Vímuefnunum er svo smekklega stillt út í glugga og verslanir auglýstar í bak og fyrir einmitt til að laða að viðskiptavini undir formerkum þess að hefta aðgengi. Af einherjum ástæðum heyrist þó lítið um að ríkið taki yfir rekstur lyfjaverslana til að vinna gegn pillufíkn.

Útstillingargluggi ÁTVR gagnstætt inngangi í Hagkaup

Útstillingargluggi ÁTVR gagnstætt inngangi í Hagkaup

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.11.2014 - 20:34 - FB ummæli ()

Ferðasaga úr Klettafjöllunum

Í hugum flestra sem reynt hafa verður hugtakið „ómissandi” samofið skíðafríum, hvort heldur er í vinahópi eða fjölskylduferð.

IMG_0759

Tær stemning á toppnum

Tilfinningin við að standa á fjallstoppi í tæru lofti og óendanlegu útsýni er óviðjafnanleg. Þeim sem ekki hafa stigið á skíði í langan tíma er óhætt að treysta á að það að skíða er ekki ósvipað og að hjóla, þ.e. gleymist ekki eftir fyrstu grunnkennslu. Hraða og áreynslu geta svo allir stýrt eftir eigin höfði en fullyrða má að fátt jafnist á við dæmigerðan skíðadag þar sem saman fer áreynsla og afslöppun í góðum félagsskap.

Einn stærsti kosturinn við Klettafjöllin í Bandaríkjunum er snjórinn og þá nánar tiltekið s.k. púðursnjór sem hentar miðlungs og betri skíðamönnum afar vel sér í lagi utan troðinna brauta en einnig mætti nefna ameríska gestrisni og þjónustulund sem alltaf er til staðar. Þess skal þó getið að troðnar brautir eru að sjálfsögðu einnig í boði í öllum flokkum. Fyrir byrjendur er afar hentugt að taka fyrstu skrefin í mjúkum snjó en bréfritari hefur aldrei náð að upplifa hart færi í Klettafjöllunum. Besti tíminn til að upplifa púðursnjó, eða léttari útgáfuna ,,kampavínspúður“, er seinnihluta janúar auk febrúar þó reyndar snjói einnig mikið í mars sem þó er sólríkari. Sá er þetta ritar hefur undanfarin aldarfjórðung ferðast árlega til flestra stærstu skíðasvæða báðum megin við Atlantshafið.

Kampavínspúður

Kampavínspúður

Dagur 1

Eins og vænta mátti hafði snjóað gríðarlega í Klettafjöllunum eða um 5 metra og spáð var um 50 cm snjókomu á fyrsta degi ferðarinnar. Eðli málsins samkvæmt var því talsverð eftirvænting í hópnum í upphafi ferðar. Líklega má flokka sem eitt af undrum veraldar að flogið skuli vera frá litlu landi eins og Íslandi til Denver í beinu flugi!

Til að gera sem minnst úr tímamismun var ákveðið taka daginn snemma í ferðinni enda reglumenn á ferð sem sækja lítið í s.k. „apres ski“ sem er fínt heiti yfir s.k. fyllerí í lok skíðadags. Að auki er nokkuð fullsannað að tími er afstæður og fjörlegasta mannlífið er milli 4 og 8 seinnipart dags og því lítið sem tapast á að ganga snemma til náða. Þar sem útlit var fyrir talsverða snjókomu á nokkrum hálendisvegum var ákveðið að gista í Georgetown,gömlum námabæ í um 45 mínútna fjarlægð frá Denver. Um bæinn var eitt sinn ritað að „Men are cheaper than timber. Wood for shoring is dear and scarce. Greedy men are cheap and plentiful.“

Georgetown

Georgetown

Sem betur fer er engin sérstök byggðastefna við lýði í Bandaríkjunum og því þurfa samfélög að finna sér nýjan tilgang ef aðstæður breytast. Slíkt þýðir að stundum leggst byggð af en oftar uppskera menn með „skapandi eyðileggingu“. Georgetown er gott dæmi um slíkt þar sem haldið hefur verið í afar fallega bæjarmynd með varðveislu gamalla húsa, lesta og verslunarhátta og er hiklaust hægt að mæla með viðkomu þar auk þess sem frumstæð en afar frambærileg gisting er í boði.

Eins og menn þekkja er flest stórt í Ameríku, þ.m.t. bílar á borð við Cheverolet Suburban sem henta einstaklega vel fyrir fjóra farþega og umtalsverðan farangur.

Chevrolet Suburban fullhlaðinn.

Chevrolet Suburban fullhlaðinn.

Dagur 2

Þegar við mættum á matargerðarmusterið Happy Cooker í Georgetown rétt fyrir kl. 7, var eldhússtýran upptekin við að moka heimreiðina og því ekki búið að opna. Eftir 5 mínútna hverfisbíltúr var hinsvegar hægt að ganga þurrum skóm inn í salinn og panta Egg Benedict ásamt beikoni og uppáhelltu kaffi í ómældu magni. Aðrir voru ekki á ferðinni og kyrrsæld því allt að fullkomin á stað þar sem tíminn virðist hafa staðnæmst en gestrisnin ekki.

„Hlíðar-fjöll“ borgarbúa kallast Winter Park og eru í um 2 klst. fjarlægð frá Denver. Segja má að hér séu fjöllin há en verðin lág en að auki er í gildi samningur fyrir handhafa lyftukorts í Hlíðarfjalli í Akureyri sem segja má að séu bitastæð vinabæjarskipti. Um er að ræða alls sjö samtengd fjöll aðgengileg frá nýlega byggðum hótel og þjónustukjarna með fjölda hótela og veitingastaða, allt í göngufæri. Besti veitingastaðurinn í fjallinu er Sunspot sem býður einfalda kaffiteríu sem og veitingastað þar sem þjónað er til borðs. Til stóð að bæta við nýrri kláfferju, veitingastað og fjölga troðurum fyrir tímabilið. Winter Park býður upp á prýðis aðstöðu fyrir byrjendur og miðlungs skíðamenn auk góðra ,,off piste“ svæða fyrir þá sem lengra eru komnir. Í miðri viku eru hér fáir og oft finnst manni maður hafi fjallið út af fyrir sig.

IMG_0451

Dagur 5

Eftir fjögurra daga skíðun í WinterPark er förinni heitið til stærsta samfellda skíðasvæðis Bandaríkjanna, Vail. Að vanda er dagurinn tekinn snemma og morgunverður snæddur á hinu upprunalega Hard Rock Café í Empire sem segja má að sé stórt nafn á litlum bæ (400 manns). Nafn veitingastaðarins er dregið af vinnsluaðferð námamanna sem jafnframt bjuggu í bænum þegar silfurnámur gáfu vel af sér á þessum slóðum.

IMG_0443

Hið upprunalega Hard Rock Café

Hið þurra loftslag í Vail gerir að verkum að -18 gráðu frost gerir ekkert annað en að létta snjóinn enn frekar en honum kyngir einmitt niður við komuna á Marriott hótelið í Vail. Því liggur beinast við að forðast troðnar brautir og stefna beint á Bluesky Basin, bakgarðinn, sem einn og sér væri myndarlegt skíðasvæði. Efstastigs lýsingarorð falla hér á borð við „fullkomnun“ og „meiriháttar“ en svona skíðasvæði verður líklega aldrei lýst með orðum frekar en öðrum meistaraverkum.

Ljóst er að í Vail fara saman magn og gæði, a.m.k. mælt í skíðabrekkum.

Nýjasti veitingastaðurinn í Vail heitir því hógværa nafni „10“ og er í miðri brekku. Vart er hægt að hugsa sér meiri íburð, gestum er boðið upp á inniskó fyrir borðhald og skíðaskó í geymslu á meðan snætt er. Vert er að geta að vínlistinn er eins og matseðillinn (upp á 10) með góðu úrvali vína úr flestum heimshlutum. Kobe hamborgari stóð vel undir væntingum og reyndar gott betur og sama mátti segja um íburðarmiklar flatbökur, pastarétti, steikur og sjávarrétti.

Glæsilegri veitingastað er vart að finna á skíðastað. Verð á réttum á bilinu $12-$39 verður að teljast hóflegt a.m.k. á íslenskan mælikvarða. Gríðarlegt úrval veitingastaða og hótela í hæsta flokki finnst í Vail en fyrir útsjónarsama er sömuleiðis nóg af ódýrari valkostum sér í lagi í eldri hluta bæjarins þar sem er gnægð verslana og veitingastaða fyrir allar þarfir. Þess má geta að rekstrarfélagið Vail Resorts tekur á móti fimm milljón gestum árlega til Colorado.

Dagur 7

Eftir stutta viðkomu í GlenwoodSprings, sem státar að sögn af stærstu hitaveitu-sundlaug heims, er rennt inn í líklega mest umtalaða skíðabæ heims, Aspen. Á rólegum degi eru hér líklega fleiri einkaþotur á flugvelli bæjarins en reiðhjól á ársfundi VG. Samt er bærinn afar upprunalegur enda hafa yfirvöld gengið svo langt að úthýsa öllum nýbyggingum (sem seljast á allt að $40m) upp í hæðirnar báðum megin í dalnum. Við innritum okkur á nýjasta hótelið í bænum, Limelight, sem er í göngufæri mitt á milli tveggja þeirra lyfta sem ná niður í bæinn úr Aspen Mountain sem er eitt fjögurra fjalla sem saman mynda skíðasvæðið. Hin eru Aspen Highlands, Buttermilk og Snowmass, hvert með sína sérstöðu en mynda samanlagt eitt stærsta skíðasvæðið í Bandaríkjunum. Svæðin eru það stór að flestir þurfa a.m.k. tvo daga til að fara yfir hvert og eitt en rútur og hótelbílar keyra gesti á milli á öllum tímum.

Um kvöldið fáum við boð um að öllum hótelgestum GB Ferða sé boðið í ,,first tracks“ þ.e. að fara með starfsmanni svæðisins upp í fjallið fyrir opnun og ná fyrstu ferð í ósnertu púðri. Þar sem spáð er að snjó kyngi niður um nóttina, þurfti ekki að greiða atkvæði um þessa tillögu.

Í Aspen er ætlast til þess að hinir ríku og frægu fái að vera í friði fyrir myndavélum og eiginhandaráritunum sem hópurinn reyndar virðir tilneyddur vegna vankunnáttu á því sviði.

Compromise silfurnáman í Aspen

Compromise silfurnáman í Aspen

Bærinn byggðist upp á silfurnámum sem flestum hefur verið lokað í dag ef frá er talið að á sumrin er hægt að fara í magnaðar skoðunarferðir í vögnum hundruð metra niður í yfirgefnar námur sem hentar þeim sem búa yfir meira af spennuþrá en innilokunarkennd.

Dagur 8

Eftir hnédjúpan púðurmorgun í Aspen Mountain er hádegisverður á fremur uppsköluðum veitingastað, Ajax Tavern, sem áfastur er við eitt besta hótel bæjarins Little Nell sem nýlega var endurinnréttað fyrir litlar $18 m! Ilmur af trufflusveppum í salnum er kunnuglegur enda einn þekktasti réttur staðarins parmesan og trufflubaðaðar franskar kartöflur. Matseðillinn er dæmigerður fyrir hádegisstaði af betri tegundinni, ostrur, steikur, hamborgarar og vínseðill í hæsta klassa.

Hluti af endurgerð hótelsins fólst í uppgerð á vínkjallara sem stendur gestum til boða, hvort heldur er í stutta vínsmökkun fyrir mat eða stærri yfirferð. Ólíklegt er að betri vínseðil sé að finna á skíðahóteli auk þess sem uppsetningin er eins og best verður á kosið. Þess má geta að Aspen tekur á móti einni milljón ferðamanna árlega. Það vakti því athygli undirritaðs að forráðamenn staðarins eru afar ánægðir með að Icelandair skuli bjóða upp á flug til Denver sem gefur Evrópubúum hentugan valkost á flugi með einni millilendingu í Keflavík.

Að afloknum skíðadegi er mætt á Little Nell í vínsmökkun í vínkjallara hótelsins. Eftir kampavínsglas á barnum liggur leiðin út um bakdyr inn í vörumóttöku, niður starfsmannalyftu og nokkra ranghala heyrast taktfastir tónar frá rapparanum Tupac innan úr vínkjallaranum. Fyrir valinu er Nuits St. Georges „Les St. Georges“ frá Thibault Liger Belair árgerð 2007, hreint út sagt frábært vín.

Vínsmökkun á Little Nell

Vínsmökkun á Little Nell

Vínþjónn hússins, (sem að sjálfsögðu er Master Sommelier), upplýsir okkur að næsti gestur á undan hefði m.a. drukkið Grand Echezeaux frá Romaneé Conti árgerð 1937 að andvirði $25.000. Vínlagerinn samanstendur af gríðarlegu úrvali vína frá öllum heimshlutum með sérstaka áherslu á Búrgúndí hérað í Frakklandi.

Aspen er allt í senn venjulegur og upprunalegur bær með mikinn sjarma, gríðarlegt úrval veitingastaða af öllum tegundum auk verslana allt frá Prada og Ralph Lauren niður í J Crew og Gap, og rétt eins og í Vail er hér talsvert næturlíf. Eitt fallegasta hótel veraldar er krúnudjásn bæjarins, Hotel Jerome sem jafnframt er á söguminjaskrá byggt 1880. Gistingin er ekki ódýr en óviðjafnanleg og hugsanlega eftirminnileg því sögur fara af draugagangi frá þeim tíma þegar hótelið þjónaði hlutverki líkhúss. Drykkur á barnum hér er algerlega ómissandi.

Aspen_Boutique_Hotels__Luxury_Lodging_in_Aspen_-_Hotel_Jerome

Hótel Jerome

Dagur 9

Heiðskýrt púður

Enn snjóar þegar hótelskutlan skilar okkur í Aspen Highlands um 10 mínútum áður en lyfturnar opna. Förinni er að sjálfsögðu heitið í „Skálina“ eða Highland Bowl sem er svört „tveggja demanta“ brekka (kannski nær að segja brekkur) Í 47 gráðu halla komast snjótroðarar ekki niður og því skíða menn algerlega á eigin vegum hér og reyndar alveg í eigin heimi að auki. Talsverður vindur stendur á fjallið sem feykir lausum snjó yfir í sjálfa skálina þannig að ljóst er að alger veisla er framundan. Eftir 20 mínútna göngu með skíðin á bakinu, í strekkingsvind og stórhríð eftir einstigi ofan á fjallinu er hæsta tindi náð í um 3.900 metrum. Ferðin niður er einfaldlega fullkomin, mittisdjúpur en fisléttur púðursnjór í hrikalegum bratta, ósnortnum snjó og ekki sálu að sjá. Við þessar aðstæður er ekki um neitt annað að hugsa en að komast sem fyrst upp aftur, hugsun sem reyndar hefur sótt á alla tíð síðan.

Ferðaskrifstofan GB Ferðir hefur í samstarfi við Icelandair boðið hentugar skíðaferðir til Colorado í mismunandi verðflokkum. Í vetur hefur verið boðið upp á vikulegar ferðir á tímabilinu 3. jan – 8. mars í 8 nætur (7 skíðadagar). Allar ferðirnar eru með laugardagsbrottför sem er þægilegur dagur, með heimferð á sunnudegi viku síðar og lent í Keflavík að morgni mánudags.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 9.11.2014 - 12:59 - FB ummæli ()

,,Þekkingarfyrirtæki“

Af öllum þeim titlum sem Ölgerðin hefur áunnið sér eru líklega fáir jafn verðskuldaðir og útnefning Félags Viðskipta og Hagfræðinga sem ,,þekkingarfyrirtæki ársins“

Úr umsögninni:

Þær aðgerðir sem einkum þykja hafa skilað árangri í nýsköpun síðastliðin ár er að Ölgerðin setti sér það markmið að skapa umhverfi sem þorir og vill taka áhættur

,,Þekking“ og kænska birtist á mörgum sviðum. Sem dæmi þá eru sykraðir gosdrykkir og Dorritos saltflögur  nú seldir með ,,samfélagslegri ábyrgð“ sem augljóslega dregur úr heilsufarslegri ,,áhættu“ af neyslu vara sem allir væru betur komnir af án.

Þegar til álita kemur að afnema einokun á áfengi vill Ölgerðin hinsvegar ekki taka neina áhættu, nánar tiltekið þá áhættu að tapa sínu hilluplássi hjá sínum ,,samstarfsaðila“ sem er líklega það sem forstjórinn á við með fullyrðingunni um að ,,Ölgerðin skapi umhverfi“

Ölgerðin_þekkingarfyrirtæki_FVH___FVH

Forstjóri Ölgerðarinnar brosir sínu blíðasta gagnvart einokun.

 

 

Við höfum átt mjög gott samstarf við ÁTVR sem hafa að mörgu leyti staðið sig frábærlega

 

 

 

 

 

 

Annar pilsfaldarkapítalisti innan vébanda Félags hilluplásshafa hjá ÁTVR bendir (réttilega) á að stofnunin greiði byrgjum alla reikninga tvisvar í mánuði á sama tíma og byrgjar greiði aðflutningsgjöld til tolls. Með öðrum orðum ,,ríkið“ fjármagnar eigin tollheimtu!  Að afleggja einokunarverslun mun hafa í för með sér ,,gríðarlega rekstraráhættu“ og bætir við að:

Ef varan fer í stórmarkaði verður að vera hægt að hafa áhrif á söluna, annars hafa eigendur stórmarkaða alræðisvald

Já það er nú ljótt ef rétt er að verslunareigendur hafi ekki bara vald heldur alræðisvald á sínum eigin hillum og geti bara óhindrað misþyrmt neytendum með afleitu vöruvali og háu verði á áfengi eins og væntanlega öðrum vörum.

Félag Atvinnurekenda hefur lýst yfir að það sé fylgjandi ,,frelsi“ en lætur þess ógetið að einungis sé átt við frelsi eigin félagsmanna til þáttöku í ríkisverndaðri einokunarstarfsemi.

Ef rétt er að einokunarverslun sé neytendum hagfelld í alla staði eins og félagsskapur hilluplásshafa heldur fram, hlýtur að liggja beint við að rétt sé að taka upp ríkiseinokun á fleiri sviðum, t.d. í verslun með bíla, fatnað og matvöru.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.11.2014 - 00:29 - FB ummæli ()

Oft eru góð ráð dýr!

Líklega er ársreikningur hins s.k. Eignarsafns Seðlabanka Íslands gott dæmi um ofangreint máltæki.

Samkvæmt ársreikningi er aðkeypt sérfræðiþjónusta fyrir árið 2013 hvorki meira né minna en kr. 258 milljónir!

Það hlýtur að teljast athyglisvert að vita hverjir selja sig svo dýrt til Seðlabankans.

Eiginfjárhlutfall er 8,2% sem hlýtur að gefa seðlabankanum þáttökurétt í keppninni um gírstöng ársins.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.11.2014 - 15:27 - FB ummæli ()

Af brauði og víni

Alltaf áhugavert þegar raungreinafólk tjáir sig um þjóðfélagsmál enda auðveldara um vik að gera kröfu til slíkra um orsakasamhengi og rökstuðning, svona nokkurs konar vísindalega nálgun. María Helgadóttir jarðfræðingur skrifar grein á Vísi þar sem hún krefur Guðmund Edgarsson eða nafna hans ,,Guðmund nokkurn Edgarsson“ um rökstuðning fyrir því að brauð og vín geti verið ámóta skaðlegt heilsu og fjölskyldulífi fólks. Guðmundur hafði skrifað grein um hve óskynsamlegt það sé að reka einokunarverslanir með einstaka neysluvörur á borð við áfengi og tók til samanburð við sérverslanir með brauð. Þó svo að vísindamaðurinn María sé jafnframt þýðandi tókst henni semsagt ekki bara að rangnefna greinarhöfund heldur líka að rangþýða grein Guðmundar.

Á móti mætti biðja Maríu Helgu um að benda á orsakasamhengi á milli þess að ríkisstarfsmenn taki við greiðslu fyrir áfengi og svo þess að skaðsemi af völdum ofneyslu minnki eða hverfi.

Nú er það reyndar svo að einkaaðilar (lesist starfsfólk sem ekki eru félagar í BSRB) afgreiða áfengi á veitingahúsum og börum, flugstöðum og reyndar veita prestar reyndar áfengi án vínveitingaleyfis og eftirlits. Hefur sú staðreynd að hið opinbera reki ekki alla veitingastaði, kirkjur og bari eitthvað með skaðsemi af ofneyslu að gera?

Viðskiptafrelsi er ekki baráttumál gráðugra kapítalista fyrir auknum gróða heldur forsenda fyrir hagsæld og þjóðarhag. Grundvallaratriði er að frelsi fylgi ábyrgð. Ábyrgð vegna áfengissölu snýst um að fara að lögum um áfengiskaupaaldur. Engin siðferðisrök geta réttlætt beitingu laga og réttar gegn því ef tveir aðilar vilja eiga viðskipti sín á milli um löglega neysluvöru.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 31.10.2014 - 11:29 - FB ummæli ()

Ákveðni og Frekja

Líklega koma ofangreind tvö hugtök fyrir á hverjum degi í pólitískri umræðu en mörkin eru oft óljós. Á sálfræðivefnum www.persona.is má finna eftirfarandi skýringu:

Hvað er heilbrigt og sjúklegt fer stundum eftir því hvað við komumst upp með. Hvar eru mörkin milli hins jákvætt hlaðna orðs ákveðni og frekjunnar sem er með neikvæða hleðslu. Ákveðni þýðir líklega meira það að standa á sínum rétti, en viðurkenna rétt hins líka, enda þótt þar geti maður stundum lent út við ystu mörk. Frekjan eða óhófleg stjórnsemi er þá notað yfir hegðun sem fer yfir mörkin gagnvart hinum, tekur ekki tilfinningar [hagsmuni] hins aðilans gildar.

Illugi Gunnarsson hefur þann allt að því sérstæða eiginleika á meðal þingmanna að láta sig hagsmuni skattgreiðenda varða og á stundum beitt fyrir sig ákveðni í þeim efnum. Illugi er nánar tiltekið þeirrar skoðunar að einstaklingum sé betur treystandi til að ráðstafa sínu sjálfsaflafé en öðrum, hvort heldur er til að fara í bíó eða annað.

Nýlega bárust fréttir af því að Illugi hefði lent upp á kant við fulltrúa frekjunnar, Benedikt Erlingsson kvikmyndagerðamann. Framkoma Benedikts minnti auðvitað á frekjukast ofdekraðs barns sem lítur á skattfé almennings sömu augum og ómálga börn líta á nammibar í verslun. Líklega hefur sjaldan verið eins ljóst hve sárt það er að tapa einhverju sem maður á ekki eins og þegar frekjubarnið Benedikt lýsti skoðunum sínum á hinum meinta niðurskurði til kvikmyndagerðar. Reyndar er undarlegt að þegar útgjöld hins opinbera eru aukin út og suður að þá skuli hugtakið ,,niðurskurður” á sjálfsaflafé skattgreiðenda ekki vera notað en það er líklega eitthvað allt annað mál.

Kvikmyndagerðarfólki og reyndar öllum sem vinna við einhverskonar menningu er tíðrætt um gríðarleg menningarverðmæti og marföldunaráhrif. Sú hagfræðikenning að hver króna sem slitin er úr buddum launafólks og gefin til kvikmyndagerðarmanna, hreinlega fimmfaldist ætti að vera framlag íslendinga til Ig Nóbel verðlaunanna. Hæfisskylirði eru reyndar að rannsóknir þurfa að vera óviljandi fyndnar. Sem dæmi má nefna að inn í þau margföldunaráhrif er tekin velta allra auglýsingastofa, fjarskiptafélaga osfrv. Þannig er fundið út orsakasamhengi á milli gjafafés til kvikmyndagerðar og SMS skeytasendinga. Sama á svo við um birtingarkostnað á auglýsingum í fjölmiðlum. Á móti margfeldisáhrifunum liggur svo hin hlið málsins að haldi fólk eftir sínu sjálfsaflafé muni það samstundis brenna peningaseðlunum með tilheyrandi stöðnun fyrir hagkerfið.

Gildi landkynningar er svo blásið út auk þess sem að því er látið liggja að kvikmyndaiðnaðurinn sé svo aumur, þ.m.t. Hollywood að útilokað sé að taka hér upp bíómyndir án niðurgreiðslna hins opinbera. Í því sambandi geta menn spurt sig hversu oft kvikmyndir hafi orðið kveikja að ferðalögum á tökustað bíómyndar á erlendri grundu nú eða jafnvel hvort menn yfir höfuð spái í hvar bíómyndir eru teknar hvort heldur er í sýndarveruleika stúdíóa eða í veruleika.

Úr niðurgreiddu upphafsatriði Hollywoodmyndarinnar Promotheus sem hefst við Dettifoss og nágrenni. Hvað skyldu margir bíógestir hafa ákveðið að ferðast á tökustað í Skotlandi eftir að hafa séð myndina?

landkynning_png

Skotlandskynning

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.10.2014 - 21:36 - FB ummæli ()

Samfélagsábyrgð ÁTVR

Undarlegt hlýtur að teljast að álagning ÁTVR skuli vera lægri eftir því sem alkohól magn eykst í hverri flösku. Varla er sú staðreynd til marks um að ÁTVR vinni með ,,samfélagslegri ábyrgð“ að meginmarkmiði áfengislaga um að ,,vinna gegn misnotkun á áfengi“ ?

14. gr.
Álagning ÁTVR á áfengi með 22% eða lægra hlutfall af vínanda að rúmmáli skal vera 18% en álagning áfengis með meira en 22% hlutfall af vínanda að rúmmáli skal vera 12%.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.10.2014 - 20:17 - FB ummæli ()

Heilagar kýr

Flestir Íslendingar flissa með hæfilegri vandlætingu þegar minnst er á að í sumum trúarbrögðum séu kýr tilbeðnar og álitnar heilagar.  Talið er að heilagleiki kúa eigi rætur sínar að rekja til þess tíma er kýr voru tekjuskapandi fyrir eiganda sinn, og enn eimir eftir af þeirri hugsun samanber orðatiltækið ,,cash cow”  Á Indlandi þar sem kúatrú er viðurkennd, lifa 280 milljónir kúa sem að meðaltali kosta eigendur sína sem jafnframt eru tilbeiðendur stórfé enda ekki étnar, ekki frekar en að íslenskir þjóðernissinar borði erlenda osta svo dæmi sé tekið af handahófi.  Augljóslega er hægt að hafa ákveðna samúð með útgjöldum Inverja ef menn uppskera ríkulega á andlega sviðinu sem verður jú vart metið til fjár.  Sérstaða Íslenska kúastofnsins er að þrátt fyrir að kýrnar séu ekki tilbeðnar heldur einfaldlega mjólkaðar og étnar, eru þær engu að síður heilagar. Gildir þá einu þó að hinn Norskættaði landnámsstofn sé úrkynjaður með þeim afleiðingum að meðalnyt mjólkur er einungis helmingur af norskum kynsystrum og fallþungi a.m.k. 30% minni þegar kemur að kjötframleiðslu.

Blóðmjólkun

Þótt Guðni Ágústsson fyrrum ráðherra verði seint talinn rótæklingur þegar það kemur að landbúnaði, gerði hann þó tilraun til að heimila innflutning á norskum fósturvísum til að lagfæra hið augljósa óhagræði sem bændum er ,,áskapað” af íslenskum lögum..  Hagræðingarhugmyndum í landbúnaði hér á landi er hinsvegar ámóta vel tekið eins og góðri gúllasuppskrift á Indlandi af ástæðum sem halda mætti að væru af yfirnáttúrulegaum toga.  Árlega eru skattgreiðendur mjólkaðir um 50.000 krónur á hverja fjölskyldu eða kr. 200.000 fyrir hverja kú í landinu og það án þess að fá svo mikið sem eitt aflátsbréf í skiptum.  Þótt ótrúlegt megi virðast hafa stjórnmálamenn náð að telja skattgreiðendum í þessu landi trú um að einungis með þessu fyrirkomulagi sé matvælaöryggi tryggt og munu skattgreiðendur á kjörtímabilinu ,,fjárfesta” 25.000 milljónum í kúm.  Þrátt fyrir ítrekaða leit, hefur greinarhöfundi ekki tekist að uppgötva haldbetri skýringu en þá að básar á mörgum sveitabæjum einfaldlega rúmi ekki stærri kýr, þeir séu einfaldlega of stuttir og kostnaður vegna endurbóta á fjósum of mikill.

Neytendakvóti

Önnur bábilja er að kvótakerfi í mjólkurframleiðslu sé eitthvað í ætt við hið vel heppnaða kvótakerfi í sjávarútvegi.  Í sjávarútvegi er hráefnið (oft rangnefnt auðlind) hinsvegar takmarkað sem aftur kallar á sóknarstýringu sem aldrei á við í landbúnaði.  Af því leiðir að mjólkurkvótakerfi er í raun kvótakerfi á neytendur og hefur því hver bóndi kvóta sem nemur 180 heimilum í þessu landi sem vitaskuld er galið. Í anda Orwellskrar hugmyndafræði hafa stjórnmálamenn svo sannfært landsmenn um að einokun og fákeppni sem skipulagt er af þeim sjálfum sé af hinu góða hvort heldur er í dreifingu landbúnaðarvara, áfengis eða húsnæðislána.  Til að hvítþvo sig halda stjórnmálamenn svo úti heilögum kúm eins og samkeppniseftirlitinu til að landsmenn taki sína eigin ráðamenn ekki til fyrirmyndar sem segja má að sé kennslubókardæmi um hræsni.

Breyting í vændum?

Í fréttum RÚV í kvöld var viðtal við formann félags kúabænda sem telur það áleitna spurningu hvort gera eigi mjólkurbúskap samkeppnishæfann og þá með þeim sjálfsögðu umbótum að heimila þeim sem slíkt vilja að kynbæta sinn bústofn. Eins og alltaf fyrirfinnast eingstaklingar sem telja sig þess umkomna að skerða frelsi annara.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur