Mánudagur 27.10.2014 - 10:26 - FB ummæli ()

Sjálfbærni ÁTVR

Líklega er ársskýrsla ÁTVR ekki á náttborði margra. Yfir einokunarverslun ríkisins er ekki nein stjórn en eins og segir í reglugerð ,, Forstjóri ber ábyrgð á gerð ársskýrslu fyrir hvert ár og kynnir hana fyrir ráðherra.“ Heildarkostnaður við gerð síðustu ársskýrslu nam hvorki meira né minna en 4,2m. en þó dróst skýrslan saman úr 82 blaðsíðum árið fyrir árið 2011 í ,,einungis“ 48 síður fyrir árið 2012.

Nú er það svo að meginmarkmið Samkeppniseftirlitsins er að fyrirbyggja s.k. ,,fákeppni“ svo að ekki verði úr einokun og kann að haf eitthvað til síns máls. Til að glæða áhuga landsmanna á þjóðhagslegu mikilvægi einokunarverslunar mætti ugglaust kenna nemendum í  framhaldsskóllum s.k. ,,Sjálfbærnistjórnun“ ÁTVR sem líklega undirstrikar æðri gildi einokunarverslunar.

Sjálfbærni ÁTVR

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 19.10.2014 - 22:23 - FB ummæli ()

Orwellska Ögmundar

Í bók George Orwell 1984 er samfélagi lýst þar sem ríkisvaldið hefur náð að umpóla öllum veruleika. Stríð er friður, fáfræði er viska og sannleiksráðuneytið framleiðir sannleikann.

Ögmundur Jónasson hefur ítrekað fullyrt að kaupmenn muni hækka álagningu á áfengi með þeim afleiðingum að verð til neytenda muni hækka. Ögmundur ber fyrir sig ónafngreinda menn innan kaupmannastéttarinnar sem hafi fullyrt slíkt en neitar að gefa upp heimildarmenn.

Skoðanabróðir Ögmundar í þessu máli, Frosti Sigurjónsson hefur tekið í sama streng. Þessir mætu menn bera það á borð fyrir kjósendur að einokun sé samkeppni enda líklega báðir vel lesnir í George Orwell 1984.

 

Dæmi hver fyrir sig.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 19.10.2014 - 12:01 - FB ummæli ()

Adolf ,,nei takk“

Adolf Ingi skrifar undarlegan pistil gegn viðskiptafrelsi með áfengi.  Nánar tiltekið er íþróttafréttamanninum í nöp við að sterkt áfengi sé selt á stöðum þar sem einn vill selja og annar kaupa. Nú er það svo að þeir sem aðhyllast viðskipta og atvinnufrelsi myndu ekki amast út í það þó að Adolf segi ,,nei takk“ við áfengi, hvort heldur er í vefverslunum eða hefðbundnum verslunum. Adolf ætti að vera frjálst að versla löglegar neysluvörur hvar og hvenær sem honum hentar. Engan sérstakan rökstuðning er að finna í greininni annað en tugguna um að haldið yrði áfram á þeirri braut sem einokunarverslun ríkisins ÁTVR hefur markað með því að auka aðgengi:

Aðgengi

Aukið aðgengi er semsagt slæmt nema það komi frá ríkisstarfsmönnum en ekki fylgir sögunni af hverju sterkt áfengi sé verra en annað eða hvort undantekningu megi gera ef um er að ræða einn einfaldan í diet coke sem ætla má að sé 6%-8% í vínanda eða svo.

Ef marka má ljósmyndir af fólki sem gerir meira af því að horfa á íþróttir en að stunda þær, mætti ætla að skýra mætti frjálslegt vaxtarlag af of mikilli transfituneyslu sem þá aftur hlýtur að byggjast á of auðveldu aðgengi enda margar freistingarnar í kjötborðum og mjólkurkælum verslana. Embætti landlæknis sem er öflugur málsvari ríkisforsjárhyggju, neyslustýringar og áfengisbanns, hefur einmitt lagt til að transfitusýrur verði líka bannaðar. Spurningin er hvort Adolf væri til viðræðu um að fara milliveg þannig að transfitusýrur yrðu einungis afgreiddar í ÁTVR í nafni torveldingar á aðgengi?

Annað skaðræðis efni sem einnig er í dreifingu er tóbak, fíkniefni sem kemur rétt á eftir sterkari efnum sem engin vill sjá. Svo undarlega vill til að einkaaðlum er falin dreifing á tóbaki sem Adolf og félagar þurfa eiginlega að útskýra hvernig geti gengið upp. Spurningin er því hvort sömuleiðis væri ekki rétt að torvelda aðgengi að tóbaki með því að binda dreifinguna við ÁTVR eða hreinlega með lyfseðlum?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 19.10.2014 - 10:35 - FB ummæli ()

Árni Páll – hinn nútímalegi

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja að Samfylkingin er klofin í herðar niður.  Annarsvegar er villtasta vinstrið sem studdi Jóhönnu með eignaupptöku(auðlegðarskatt) þjóðnýtingu og reglugerðafargan og svo hinsvegar hinir sem kenna vilja sig við viðskiptafrelsi og eitthvað sem kallað er ,,alþjóðahyggja“ án þess að hugtakið hafi einhverntíman verið útskýrt.

Núverandi formaður flokksins Árni Páll hangir á bláþræði og mun að öllum líkindum þurfa að segja af sér embætti ef flokkurinn kemst ekki í ríkisstjórn í næstu kosningum.  Það er því eðlilegt að Árni Páll sé í kosningaham.  En hver eru hin nútímalegu málefni og áherslur sem Árni Páll raunverulega stendur fyrir og til hvaða pólitísku afla hyggst hann biðla um samstarf í framtíðinni?

Í viðtali við Fréttalbaðið sagði Árni Páll:

,,Það hefur lengi verið mér nokkur ráðgáta að frjálshyggjufólk á Íslandi skuli margt hvert leggjast gegn aðild að Evrópusambandinu“ ….. ,,Hér hefur verið landlæg fákeppni og einokun og pólitískt vald og viðskiptavald verið samtvinnað“….,,Í fljótu bragði man ég bara eina breytingu í frjálsræðisátt sem varð fyrir algerlega innlenda baráttu og það var þegar bjórbannið var afnumið fyrir réttum aldarfjórðungi“

Bjórbannið var afnumið þrátt fyrir mótrök félaga Árna Páls sem á þeim tíma liðsmaður í Alþýðubandalaginu. Rökin voru dæmigerður hræðsluáróður og þá sér í lagi varðandi unglingadrykkju auk þess sem núverandi forystumenn Samfylkingarinnar bentu á að ,,bjórvömbin væri ekki einkamál eiginmannsins“

Nú stendur fyrir dyrum atkvæðagreiðsla með frumvarpi Vilhjálms Árnasonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Bregður þá svo við að heyrst hefur að Árni Páll hafi lýst því yfir að hann ætli að standa vörð um núverandi einokunarverslun og gegn því einstaklingsfrelsi sem hann þó boðar.

Við þetta má bæta að Árni Páll var einnig meðflutningsmaður með frumvarpi Sigurðar Kára sama erindis.

Nútímalegt eða gamaldags…?

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 18.10.2014 - 22:10 - FB ummæli ()

,,Skorið inn að beini“

Embætti landlæknis ber við ,,manneklu og fjárskorti“ til að sinna samkeyrslu á rafrænum lyfseðlum sem þó er haldið utan um í miðlægu tölvukerfi sem augljóslega er eitt stórt klúður.  Um árabil rak embættið gagnagrunn um umferðarslys sem innihélt fjölda árekstra þvert yfir Atlantshafið. Til að vinna á mannlegum breyskleika telur embættið farsælast að beita boðum og bönnum, hvort heldur er að banna hættulegan varning  nú eða einskorða a.m.k. afgreiðsluhlutverkið við meðlimi í BSRB.

Eins og sést á meðfylgjandi súluriti er ljóst að niðurskurðurinn í heilbrigðisgeiranum hefur ekki bitnað harkalega á embætti Landlæknis og Lýðheilsustöðvar, uppreiknað á föstu verðlagi.

skuldir og rekstur

Rekstrarkostnaður og skuldasöfnun

Alls kostar rekstur embættisins sem flokka má sem yfirbyggingu ofan á heilbrigðisgeirann, skattgreiðendur um 1.100 milljónir á ári sem þó dugar ekki til því embættið hefur bætt við sig um 90 milljónum í skuldir sem velt er frá einu ári til annars.

Eins og títt er með embætti hins opinbera er hverskyns bruðl og sukk fært í fallegar umbúðir. Sjaldan er langt í klysjuhugtakið ,,samfélagsleg ábyrgð“ eða ,,umhverfisvernd“ m.a. með ,,upptöku umhverfisvænna prentara“ Ferðalög og veisluhöld á kostnað skattgreiðenda eru svo undir regnhlífarhugtakinu ,,alþjóðlegt samstarf“ sem þykir í senn nútímalegt auk þess að undirstrika mikilvægið. Þannig er hvergi dregið af og fjöldi málþinga ýmist hér á landi eða erlendis til að ræða spurningar á borð við ,,er hægt að auka útiveru íslendinga?“

Í Hörpu var svo haldið ,,hálfs dags málþing um eftirlit embættisins með lyfjaávísunum“ hvar fengin var erlendur fyrirlesari. Niðurstaða embættisins er að ekki sé hægt að rækja umrætt eftirlit vegna fjársveltis og manneklu sem skiljanlegt er enda málþing í senn kostnaðarsöm og mannfrek. Afleðing getuleysisins vekur svo tímabundna athygli en gleymist líklega fljótt hvort eð er.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.10.2014 - 09:17 - FB ummæli ()

Að segja satt og rétt frá

Stundum er talað um að mikilvægt sé að segja ,,satt og rétt“ frá.  Satt væri þá vísun á innihald fréttar en ,,rétt“ næði þá til hvernig frétt væri orðuð.  Dæmigerð frétt í Morgunblaðinu í dag (sem aðrir fjölmiðlar eiga eftir að orða eins) er ,,Tillaga að þjóðarleikvangi“

Ekkert að innihaldi fréttarinnar en svo þegar kemur að: ,,ríkið verði að koma að málinu“ er einfaldlega ekki verið að segja rétt frá, í skilningnum að orðavalið lýsi innihaldinu með sem skýrustum hætti.

Í raun er ekki verið að tala um að ríkið ,,komi að einhverju“ heldur að ríkisvaldið greiði fyrir þetta áhugamál fótboltamanna. Og ríkið á jú enga peninga og býr þá ekki til.  Ríkið getur bara tekið skattfé af fólki strax eða síðar með skuldsetningu í millitíðinni.

Rétt orðaval hefði því verið að ,,skattgreiðendur verða að borga“  Svo gætu menn alveg kryddað að eigin vali með sama hætti og gert er þegar kvartað er undan því að lækka skatta, ,,það á semsagt að loka sjúkrahúsum og skólum“ svo fótboltabullur geti haft það huggulegt einu sinni í mánuði“

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.10.2014 - 08:48 - FB ummæli ()

Frosti og viðskiptafrelsið

Sjaldgæft er að stjórnmálamenn tjái sig um málefni sem varða grundvallarhugmyndafræði. Þegar formaður Efnahags og viðskiptanefndar tjáir sig um viðskiptafrelsi er því vert að leggja við hlustir.  Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við Frosta Sigurjónsson sem réttilega segir að ef ,,innflutningur verði líklega einhverjum milljörðum dýrari….þá getum við ekki notað þá milljarða í þarfari hluti“ og bætir við að ,,við gengum inn í EES til að njóta viðskiptafrelsis“

Ef um er að ræða viðhorfsbreytingu innan Framsóknarflokksins hlýtur flokkurinn að styðja frumvarp Vilhjálms Árnasonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins um viðskiptafrelsi í verslun með áfengi. Þó svo að í framangreindu viðtali sé verið að tala um blöndunartæki og sturtuhausa hlýtur samskonar milljarða sparnaður að skila sér með ,,hagkvæmari innflutningi“ hvort heldur er með viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur eða áfengi. Öllum ætti að vera ljóst að milliganga ríkisvaldsins í viðskiptum milli seljenda og kaupenda hefur alltaf verið til tjóns fyrir báða aðila.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.10.2014 - 23:19 - FB ummæli ()

Landlæknir tapar tiltrú

Læknisfræði og raunvísindi njóta virðingar, sér í lagi í þjóðfélögum þar sem menntun og þekkingarstig er hátt.  Vísindalegar sannanir marka muninn á getgátum og kukli og því sem er vísindalega sannað.  Sem betur fer njótum við þess hér á landi að búa við þokkalegt fyrirkomulag stofnana á sviði heilbrigðismála og getum treyst á að álit séu alltaf skoðunarverð en fullyrðingar og tilmæli þess virði að fara eftir bókstaflega.

Undarlegar áherslur virðast stjórna starfsemi landlæknisembættisins. Embættið hefur tekið einarða afstöðu gegn viðskiptafrelsi með áfengi rétt eins og slíkt geti haft eitthvað með vandamál tengd ofneyslu að gera. Á sama tíma, sér embættið enga ástæðu til þess að grípa inn í eins og því er þó uppálagt lögum samkvæmt þegar veiklyndir læknar ávísa ávanabindandi lyfjum á lyfjafíkla í gríðarlegu magni. Gildir þá einu þó svo að sjúklingar/fýklar hafi látist af völdum of stórra skammta sem ávísuð eru af læknum sem tryggja eiga ,,skert aðgengi“ þeirra sem sannanlega þurfa á slíkri forsjá að halda.

Þegar tekist var á um það hvort heimila ætti verslunum að selja mjólk stóð ekki á embætti borgarlæknis að koma með álit þar sem kom fram að ,,hætt væri á að veruleg afturför ætti sér stað varðandi geymslu og hreinlætisaðstöðu á útsölustöðum“  Líklega eru allir sammála um að framangreint álit hafi ekki stuðst við nein vísindaleg rök og því embættinu til minnkunar að hafa látið slíkt frá sér fara.

Í umsögn um það hvort heimila ætti sölu á bjór stóð ekki á áliti embættis landlæknis; „vinnumenn og jafnvel börn gætu haft tilhneigingu til að misnota bjórinn“. Í besta falli kjánalegur málflutningur án nokkurs læknisfræðilegs rökstuðnings.

Nýlega sendi landlæknir frá sér undarlega grein vegna fyrirliggjandi frumvarps um afnám ríkiseinokunar í verslun með áfengi. Fyrir það fyrsta hlýtur að mega setja spurningamerki við það að embættið skuli yfir höfuð tjá sig um verslunarrekstur ef frá er talin sú tegund sem höndlar með lyf en merkilegt nokk þá telur embættið ekki þörf á ríkiseinokun í dreifingu lyfja sem þó geta verið lífshættuleg séu þau ranglega afgreidd.

Í stuttu máli stenst greinin engan vegin þær kröfur sem gerðar eru til vísindalegrar umfjöllunar. Vissulega mætti segja að undir venjulegum kringumstæðum sé ekki að þörf á að gera neinar sérstakar kröfur til læknisfræðinnar þegar kemur að áliti á verslunarrekstri frekar en að þörf sé á áliti verslunar á læknisfræði.  Hinsvegar má færa með því rök að embættinu væri farsælast til að viðhalda trúverðugleika til lengri tíma, að starfsmenn haldi útgáfu á álitum innan ramma vísindalegra vinnubragða.

Grein Landlæknis er tvíþætt, þ.e. um skaðsemi áfengisneyslu og svo skaðsemi þess sem stofnunin kallar ,,aukið aðgengi“ að áfengi, þ.e. verslunarfyrirkomulaginu sjálfu sem seint verður flokkað til raunvísinda.  Merkilegt nokk þá hefur stofnunin hinsvegar ekki sent frá sér alit á undanförnum árum þegar ÁTVR hefur blygðunarlaust stóraukið aðgengi að áfengi þvert á kenninguna um mikilvægi hóprefsingar í formi skerts aðgengis allra:

Aðgengi

Raunvísindamennirnir Geir Gunnlaugsson landlæknir og Þórarinn Tyrfingsson yfirlæknir SÁÁ, sem tekið hefur í sama streng, gengisfella eigin embætti með því að taka harða afstöðu í máli þar sem ekki eru lagðar neinar vísindalegar sannanir til grundvallar.

Nú er bréfritari ekki með læknisfræðilegan bakgrunn en telur engu að síður að hægt sé að staðhæfa öfugt við fullyrðingar landlæknis sé ,,áfengisneysla“ sé ekki skaðleg þó að um óhóflega áfengisneyslu gegni öðru máli.  Mikilvægt hlýtur að mega telja að gerður sé greinarmunur þarna á enda hljóti forvarnar og meðferðarstarf framangreindra stofnana að miðast við þann hóp neytenda sem fellur undir óhófsskilgreininguna.  Í grein landlæknis segir m.a:

,,Tiltölulega fáir stórdrykkjumenn drekka mestan hluta þess áfengis sem neytt er í samfélaginu. Þegar neysla eykst í einhverju landi er oftast um að ræða neysluaukningu hjá stórdrykkjufólkinu. Drykkjuvenjur eru breytilegar milli landa hvað ölvun varðar”

Hér má staldra við orð eins og ,,tiltölulega“ ,,oftast“ og ,,fáir“ sem út af fyrir sig staðfestir að ekki er verið að fjalla um vísindalegar staðreyndir.  Ef vísindamenn og sérfræðingar hafa ekki vísindi með sér, skiptir álit þeirra engu meira máli en hvers annars og ætti því að skoðast sem persónuleg skoðun en ekki faglegt álit viðkomandi stofnana.  Hinsvegar hlýtur að mega spyrja hvort hóprefsing allra sé viðeigandi í formi einokunarverslunar og skerðingar á atvinnufrelsi ef vandamálið einangranst við ,,tiltölulega fáa”

Hugmyndir um ,,sölubann“ er eitthvað sem undirritaður hefði átt von á úr vígslumessu á nýrri mosku í Reykjavíkurumdæmi en augljóst er að landlæknir hefur ekki kynnt sér ,,vandamál“ tengd bannárum þar sem slíkt hefur verið reynt sbr:

 ,,Reynslan sýnir enn fremur að miklar takmarkanir á aðgengi að áfengi, t.d. sölubann á áfengi, geta dregið úr drykkju og vandamálum tengdum áfengi“

Staðreyndin er að í öllum þeim rannsóknarskýrslum sem gerðar hafa verið er ekki að finna eitt einasta dæmi um skaðsemi verslunarfrelsis í vestrænu þjóðfélagi þar sem einokunarverslun hefur verið afnumin.  Á hinn bógin er ekkert sem bendir til þess að ofdrykkja og unglingadrykkja sé minna vandamál í löndum þar sem ríkisstarfsmenn einir taka við greiðslu fyrir áfengi.

Unglingadrykkja og fjölgun vínbúða

Unglingadrykkja og fjölgun vínbúða

Sömuleiðis er ekkert sem bendir til þess að s.k. ,,skert aðgengi“ valdi meiri áfengisvandamálum og má þar t.d. benda á að Grænlendinga búa líklega við skertasta aðgengi að áfengi sem hugsast getur en áfengisvandamál eru engu að síður mikil. Samanburður milli fylkja í Bandaríkjunum eða landa Evrópu þar sem landamæraverslun viðgengst innifelur í sér augljósa mælingaskekkju.

Atvinnufrelsi er stjórnarskrárvarinn réttur.  Verslunarfrelsi er forsenda hagsældar.  Örökstuddar tilgátur oflátunga sem vilja afnema sjálfsákvörðunarrétt samborgara sinna eiga ekki að fá brautargengi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.10.2014 - 10:30 - FB ummæli ()

Geðveikt ríkisvald

Kleifhugi eða ,, Schizophrenia” er geðsjúkdómur sem lýsir sér þannig að sjúklingurinn fær ranghugmyndir í formi tvöfalds persónuleika.  Um sjúkdóminn hafa verið gerðar bíómyndir eins og Me Myself and Irene þar sem Jim Carey leikur lögreglu sem ýmist telur sig góðu siðprúðu lögguna Charlie eða hinn siðlausa Hank.

Screenshot_100914_103134_AM
 
Fáar þjóðir ættu að þekkja einokun og fákeppni betur en íslendingar.  Líklega er Einokunarverslun Dana þekktust í sögunni og væntanlega fáir sem sjá þann kafla í verslunarsögunni í hyllingum. Þó fynnast enn talsmenn einokunar þótt ótrúlega megi virðast, eins og t.d. í umræðunni um ÁTVR.  Eina hreinræktaða einokunin sem íslendingar búa við í dag er lögskipuð einokun sem hið opinbera hefur komið á með lagasetningu.  Í orði talar hinn auðmjúki Charlie um mikilvægi einstaklinsframtaks, nýsköpunar og samkeppni, allt afsprengi markaðshagkerfis.  Þeir sem halda að löggjafarvaldið, ,,Hank” raunverulega þrái heilbrigða samkeppni ættu að prófa að gefa út gjaldmiðil, selja rauðvínsflösku, opna mjólkursamsölu, rækta sitt eigið kúakyn, stunda löggildingar nú eða bjóða upp á vegagerð. Einokuninni er svo gjarnan pakkað inn í göfugar umbúðir samfélagslegrar ábyrgðar að Orwelskri fyrirmynd. Til að tryggja að hinn almenni borgari leiðist ekki út í ámóta siðlausan rekstur og hið opinbera, rekur svo Charlie Samkeppnisstofnun hvar saman kemur lögreglu og dómsvald til samræmis við þrískiptingu ríkisvaldsins eða þannig. Hank rekur hinsvegar stofnun fyrir þá sem vilja ná sér í lögverndaða einokunarstöðu með útgáfu einkaleyfa af mismunandi gerðum en skilgreining á einkaleyfi er að aðrir eru útilokaðir frá því að veita sömu þjónustu eða framleiða sama hlut og handhafi einka-/einokunar-leyfisins.

Nýjasti leikþátturinn í klofningnum milli Hanks og Charlie er sekt Samkeppnisstofnunar á hinni lögvernduðu ,,sam-sölu” um mjólk en nafnið eitt og sér ætti að gefa nokkuð örugga vísbendingu um eðli starfseminnar.  Upphaf einokunarkerfis í landbúnaði á rætur sínar að rekja til þess tíma þegar Korpúlfsstaðabúið var um það bil að komast í einokunarstöðu í mjólkurframleiðslu fyrir höfuðborgarsvæðið á grundvelli hreinlætis og stærðarhagkvæmni á sama tíma og Sambandið átti undir högg að sækja. Þar þurfti því augljóslega að koma til ,,leiðrétting“ í  þágu neytenda. Seinni tíma rök um matvælaöryggi, hreinleika íslensks landbúnaðar og annað slíkt hafa reyndar nokkuð látið á sjá eftir að upp komst um að íslenska smjörið gat allt eins verið írskt og ,,Íslandsnaut” gat allt eins verið frá Spáni.  

Enn sem komið er hefur fjölmiðlamönnum ekki tekist að finna nema einn viðmælanda sem ekki hafði áttað sig á að landbúnaðarkerfið byggir á einokunarfyrirkomulagi en það er ráðherra samkeppnismála sem hinsvegar telur málið ,,grafalvarlegt” Flestir aðrir myndu líklega telja orðið ,,augljóst” betur lýsandi. Formaður bændasamtakanna bendir hinsvegar á að samkeppnisbrot MS séu unnin ,,af heilindum” og er líklega óþarft að efast um þá fullyrðingu. Landbúnaðarráðherra í hlutverki Hanks hefur boðað að ,,endurskoða” skuli kerfið sem er miður því öllum má ljóst vera að vandamálin með stjórnkerfi landbúnaðarins er auðvitað sú meinloka  að markaðsbúskapur einfaldlega henti ekki.  Stjórnkerfi í landbúnaði er ámóta þarft eins og stjórnkerfi á laxveiðum, matvöruverslun eða dyravörslu.  Kerfið hefur reynst bændum illa og skattgreiðendum afleitlega, það veit Charlie en Hank afneitar áfram veruleikanum enda langt í kosningar.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.9.2014 - 11:56 - FB ummæli ()

Viðskiptafrelsi

Frumvarp Vilhjálms Árnasonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins um afnám einokunarverslunar ríkisins með áfengi er í raun einfaldara mál en ætla mætti.  Þegar öllu er á botnin hvolft skiptir engu máli hver skoðun fólks kann að vera á gæðum þjónustunnar, hvort verð muni hækka eða lækka eða hvort félagsmenn í BSRB séu líklegri til að fara að lögum heldur en verslunarfólk VR, hvort úrval muni batna eða hver áhrif verða á landsbyggðina.  Grundvallarspurningin er einfaldlega, til hvers höfum við ríkis-vald og hvað réttlætir að valdi sé beitt gegn viðskiptum tveggja fullveðja einstaklinga með löglega vöru eða þjónustu? Jafnvel þó svo að menn geti pakkað einokun og höftum í fallegar umbúðir á borð við að ,,þjóðin njóti arðsins” (sem hún auðvitað gerir ekki) eða ÁTVR sé rekið með ,,samfélagslega ábyrgð” (sem aðrir geri ekki) að þá skiptir það bara einfaldlega engu máli.

Allir eru sammála um hlutverk ríkisvaldsins til þess að tryggja með dómsvaldi að viðskipti geti aldrei talist lögleg ef annar aðilinn er þvingaður til viðskiptanna eða blekkingar séu viðhafðar.  Umdeilanlegra er hvort réttlætanlegt sé að beita valdi með afnámi atvinnufrelsis á grundvelli siðferðis (t.d. bann við einkadansi) eða vegna þess að vinsældir tiltekins lögaðila hafi náð svo langt að viðkomandi sé í s.k. ,,markaðsráðandi stöðu”  Siðleysi er orð sem oft er notað með hálfkæringi en orðið nær augljóslega yfir þá staðreynd að ríkið skuli stunda rekstur sem það svo meinar öðrum að taka þátt í, með aðferðum sem það sjálft dæmir aðra til refsingar fyrir.

Margrét Tryggvadóttir skrifar undarlega grein á vefritinu Herðubreið gegn verslunarfrelsi með áfengi.  Margrét er fyrrum sjálfstæður verslunarrekandi sem líklega hefur tekið eigið frelsi til verslunarreksturs sem gefin hlut eins og sjálfsagt er.  En eins og forræðishyggjusinnum er tamt, getur hún illa unað öðrum að búa við sama frelsi og hún kýs sér sjálf.  En Margrét er ekki bara fyrrum verslunarmaður heldur er hún líka fyrrum þingmaður sem hefur látið til sín taka í stórum málum á Alþingi.  Af mörgu mikilvægu mætti nefna frumvarp um að skylda flutningafyrirtæki til að sundurgreina reikninga og að Íslendingar viðurkenni þjóðarmorð á Armenum.  Margrét tekur það fram að hún ,,nennti svo sem ekki að setja mig vel inn í hvernig þetta væri hugsað” en henni þætti þó rétt að heimila brugghúsum að selja beint sína framleiðslu.  Merkilegt nokk þá telur Margrét að einokun í mjólkuriðnaði komi neytendum verr en þegar kemur að áfengi og rökstyður þá afstöðu sína að ÁTVR borgi ,,leigu laun og hita”!

Ríkisforsjársinnar benda á að áfengi sé ekki eins og hver önnur neysluvara.  Atvinnu og viðskiptafrelsi eru sömuleiðis ekki eins og hver önnur réttindi heldur eru þau stjórnarskrárvarin og það ekki að ástæðulausu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Talsmaður einstaklingsfrelsis
RSS straumur: RSS straumur