Miðvikudagur 10.11.2010 - 15:13 - Lokað fyrir ummæli

Allt um móður mína

Í minni orðabók er móðir kona sem sinnir börnum og búi, heldur utan um fjölskyldutengsl og önnur vensl, starfar margt innan veggja heimilisins og vinnur – síðast en ekki síst – „úti“ af hugsjón, atorku og heilindum.  Mömmur vinna og ömmur vinna, í nútímanum er það regla en ekki undantekning.

Nú vill svo illa til að hið launaða starf minnar móður hefur falist í því að veita sérhæfða sjúkrahúsþjónustu á stað sem upp á síðkastið hefur hætt að þykja heppilegur til slíks.

Konur á barmi taugaáfalls

Á vinnustað mömmu (skurðstofu sem nú er talin ranglega staðsett innan heilbrigðiskerfisins) vinnur samheldinn og samhentur hópur kvenna sem margar hafa deilt saman starfsdegi í fjölmörg ár.  Þessi hópur er mér sem aukagrein á ættartrénu, ómissandi hluti tilverunnar.

Ég heilsaði upp á þær í hádegishléum sem 12 ára gömul barnapía með lítinn dreng í vagni.  Sams konar heimsóknir gat ég endurtekið um 20 árum síðar með mína eigin drengi á armi.  Reyndar held ég þó að ég geti talið á fingrunum þau skipti sem ég hef komið almennilega inn til þeirra, frekar að ég hafi staðið í dyragætt og rekið inn nefið.  Þessi takmörkuðu innlit helgast ekki bara af smitgát og sóttvörnum skurðstofunnar, það hefur einfaldlega alltaf verið svo mikið að gera og dagskráin þétt.

Líkt og á við um alla sem horfa upp á ættingja og vini missa atvinnuöryggi sitt, hefur mér reynst þungbært að fylgjast með líðan þessara kvenna undanfarin ár.  Óvissa, misvísandi skilaboð, fyrirheit og hótanir á víxl – og umfram allt vanmáttur andspænis endanlegum ákvörðunum hefur lamandi áhrif til lengdar. 

Það er einhvern veginn svo ömurlegt að gott starf njóti ekki sannmælis, heldur liggi undir ámæli einfaldlega tilvistar sinnar vegna.  Sama hversu vel er unnið, er starfsemin litin hornauga.

Hvað hef ég gert til að eiga þetta skilið?

Missir starfs af því tagi sem nú blasir við hjá þessum hópi, leiðir væntanlega til þess sem nefnt hefur verið atvinnuleysi að ósekju*.  Það segir sína sögu á Íslandi í dag að slíkt nýyrði skuli líta dagsins ljós og þyngra en tárum taki hversu margir falla undir þessa skilgreiningu – og eiga á hættu að gera það.

Endurkoman

Allt er í heiminum hverfult og það eina varanlega í lífinu er breytanleikinn.  Klisjur, veit ég vel, en stundum er gott að halla sér að þeim.  Ekki síst þegar við manni blasir hringavitleysa, stefnuleysi og handahófskenndar ákvarðanir.

Ég kýs að trúa því að hinna sérhæfðu starfskrafta sem nú stendur til að losa sig við á sjúkrastofnunum um land allt verði aftur þörf áður en varir (og hafi raunar alltaf verið þörf). 

Ég trúi því ekki að hér hafi fólk verið skorið upp við kvillum eða læknað með öðrum hætti af hvers kyns krankleika að óþörfu. 

Að fólk hafi mætt til vinnu vikuna inn og vikuna út til að framkvæma óþarfa – árum saman.

*sjá m.a. www.nyttukraftinn.is

(Fyrirsagnir í pistlinum eru fengnar að láni hjá Pedro Almodóvar).

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 24.10.2010 - 22:04 - Lokað fyrir ummæli

Besta jafnrétti í heimi (miðað við höfðatölu)

Nokkur eru þau lífsins gæði sem okkur Íslendingum hættir til að taka um of sem gefnum hlut.  

Þegar sagt er:  „Hér er hreint vatn og hreint loft“ sakna ég þess iðulega að heyra í beinu framhaldi: „og það er á okkar ábyrgð að gæta þess vel svo það fari ekki forgörðum“. 

Undanfarið hefur mér virst við líta sömu augum á jafnrétti – „hér er jafnrétti“ – og meira að segja mjög mikið af því samkvæmt mælingum OECD.

Um leið og við fögnum góðum árangri þurfum við að huga að því hvernig við komumst þangað sem við erum í dag, hvort jafnrétti á Íslandi er ógnað (til dæmis nú í kjölfar efnahagshrunsins) og hvað þarf til að viðhalda þessum góða, mælanlega árangri. 

Finnst okkur nóg að gert í þeim málum?

Jafnrétti á vinnumarkaði – jafnrétti til launa

Íslenskur vinnumarkaður er kynskiptur mjög og innan hans eru missýnilegir og misáþreifanlegir skilveggir.  Ég hef um allnokkra hríð lagt mig fram um að kynnast þeim innviðum og verð að segja eftir þá vegferð að hér mætti margt betur fara.

Þegar rætt er um kynbundinn launamun, hvort hann er til staðar og hvort hann sé réttlætanlegur, þarf að greina á milli tvenns konar breytileika; annars vegar útskýranlegs launamunar og hins vegar óútskýrðs.

Sá fyrrnefndi er sá sem við skiljum flest best – þ.e. að ef t.d. konur kjósa sér frekar hlutastörf og forðast stjórnendastöður ætti ekki að koma á óvart að laun þeirra væru yfirleitt lægri en karla sem vinna oftar fulla vinnu og eru oftar yfirmenn.  Þarna er semsagt um praktísk mál að ræða sem leysa má (ef vill) með praktískum hætti.   

Síðarnefndi launamunurinn – sá óútskýrði, er þess eðlis að hann verður ekki „útskýrður burt“ með öðrum rökum en að kyn starfsmanns hafi haft áhrif á launamyndun.

Það getur hins vegar verið tiltölulega óútskýranlegt hvers vegna annað kynið er oftar með „útskýranlega“ lægri laun en hitt.  Hvers vegna kýs annað kynið t.d. oftar hlutastörf og sækir síður í stjórnunarstöður?  Hvað liggur þar að baki?

Je ne sais quoi

Því meira sem launamunur er greindur og því meira sem er „útskýrt burt“ – þeim mun loðnari vill sú mynd verða sem eftir stendur.  Rætt er um ólíkt starfsval sem orsök og jafnvel menningartengdar ástæður.  Á endanum getur skýringin verið „af því bara“. 

Ýmsum gæti þótt í fínu lagi að sumir fái síðri laun en aðrir „af því bara“ og það sé tímasóun að reyna að jafna slíkt.    Þegar kjör „sumra“ og „annarra“  leggjast hins vegar eftir eins ómálefnalegum línum og því hvort þeir séu karlkyns eða kvenkyns, finnst mér full ástæða til að staldra við.

Gildismat

Hluti skilveggjanna á íslenskum vinnumarkaði liggur eftir eðli starfa – eða öllu heldur „málaflokkum“ eins og það er oft kallað.  Það virðist til dæmis vera meira virði að passa peninga en að passa fólk, dýrmætara að byggja sjúkrahús en að starfa í þeim, verðmætara að bora eftir heitu vatni en að baða aðra upp úr því.

Kvenlægir (mjúkir) málaflokkar – og að því er virðist minna virði – eru þannig til dæmis mennta- og menningarmál, uppeldi og umönnun og heilbrigðis- og félagsvísindi.   

Karllægir (harðir) málaflokkar – sem frekar eru metnir til fjár – snúa gjarnan að margs konar verklegum framkvæmdum og umsýslu með fjármuni.

Athyglisvert er að sjá hvernig kynin raða sér í nefndir, jafnt í landstjórn sem sveitastjórnum gagnvart þessum málaflokkum.  Konur virðast ekki geta staðist mjúku málefnin, á meðan karlarnir sinna þeim hörðu.

Kjarasamningar hins vinnandi manns

Gildismat starfa og vinnuframlags er að mínu mati karllægt og litað af umhverfi verkafólks (sérstaklega hvað hið opinbera varðar).  Launakerfin byggja gjarnan á því hversu marga tíma fólk er reiðubúið að vinna, hvort um er að ræða mannaforráð og hvort viðkomandi hefur umsjón með verðmætum.  Frekar en að meta til verðleika menntun og reynslu er traustið lagt á stimpilklukkuna.  (Sjá fyrri vangaveltur um þetta hér).

Að hluta til getur þannig ástæðna fyrir launamun kynjanna verið að leita í þeim kerfum sem notuð eru við að ákvarða laun.  Eru starfskraftar dagsins í dag enn að hrærast í umgjörð og umhverfi gærdagsins?

Kynjastundaskráin

Ég velti oft fyrir mér ekki bara hvar, heldur líka hvenær mál eru rædd og ákvarðanir teknar.  Ég held nefnilega að væri það vilji karla að halda konum utan umræðu eða þátttöku á þjóðfélagsmótandi vettvangi, væri stundaskráin sterkt tæki.

Það er til dæmis alveg glimrandi að boða fundi milli kl. 15 og 17 ef menn vilja ræða málin í næði, já eða milli kl. 07 og 08.

 Tangó er tveggja manna dans

Síst vil ég gefa þeim viðbröðgum við þessum hugleiðingum mínum byr undir vængi að erindið sé að skamma karla fyrir að vera vondir við konur.  Málið er alls ekki svo einfalt – enda þótt umræðunni hætti óneitanlega til að villast ofan í þær skurðgrafir að annað kynið sé gerandi og hitt þolandi.

Menningarlegt gildismat á sér rætur í samfélaginu öllu – bæði kynin eiga þar hlut að máli.   Í áranna rás hafa menn og konur á Íslandi komið sér saman um að samfélagið starfi með ákveðnum hætti, í samræmi við tiltekin gildi.

Á sama hátt er það okkar sameiginlega verkefni, karla og kvenna, að varða veginn til framtíðar.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

Mánudagur 18.10.2010 - 15:23 - Lokað fyrir ummæli

Orlofshúsadraugurinn

Stéttarfélög og verkalýðshreyfing eru til vegna félagsmannanna, ekki fyrir forystuna og ekki fyrir neina hagsmuni aðra.

Þar af leiðandi tek ég gagnrýni á störf hreyfingarinnar fagnandi, enda mikilvægt að hver sá sem tilheyrir slíku samfélagi veiti því athygli og aðhald.

En eitt finnst mér alltaf jafnóþolandi – og jafnvel meira pirrandi eftir því sem ég heyri það oftar:

Að verkalýðshreyfing hugsi ekki um launamenn, hún sé mest upptekin af því að ráðskast með orlofshús!

Nú skal ég verða manna fyrst til að taka undir sjónarmið um að launakjör almennt séu allt of léleg og að hægt gangi að þoka þeim til betri vegar – eitt er víst að þetta gildir um laun míns fólks undanfarin misseri sem einkennst hafa af skerðingum og kaupmáttartapi.

En höldum því samt til haga að orlofssjóðirnir og þeirra umsýsla taka ekki athygli eða tíma frá kjarabaráttunni.  Iðgjöld til orlofssjóða eru greidd af launagreiðanda – ekki dregin af kaupi hvers og eins – og allt utanumhald um þá er aðskilið frá félagssjóðum stéttarfélaga.

Ég er formaður BHM en hef ekki aðkomu að stjórn orlofssjóðs.  Honum stýrir sérstök stjórn, sem veitt er aðhald af fulltrúaráði skipuðu af aðildarfélögunum sem standa að sjóðnum.

Eigur sjóðanna tilheyra félagsmönnum – þær fara ekki um hendur stjórna stéttarfélaga eða bandalaga – um þær sýslar fyrrnefnd stjórn orlofssjóðs.

Ég man ekki til þess í kjarasamningum að minnst hafi verið einu orði á orlofssjóðsiðgjald, hvorki að það þyrfti að hækka né lækka. 

Sjálfsagt væri til umræðu að fella gjaldið inn í launataxta og hætta þessu „braski“ með sumarhús.  Það myndi þó ekki breyta einu einasta til eða frá fyrir forystu eða fjárhag stéttarfélaga eða bandalaga þeirra.

Hins vegar yrði erfiðara – og ekki síst dýrara – fyrir félagsmenn að verða sér úti um orlofsgistingu.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: ,

Föstudagur 15.10.2010 - 15:49 - Lokað fyrir ummæli

Tölur eða tilfinningar?

Mér finnst koma skýrar í ljós með hverjum deginum að okkur skortir sárlega mikilvægar upplýsingar í umræðunni um vanda þjóðarinnar og mögulegar lausnir sem svo löngu þyrftu að vera orðnar að raunveruleika.

Ég held að ég þurfi ekkert sérstaklega að ræða um misvísandi málflutning þar sem einn segir himinn á meðan annar segir haf.  Varla er ég sú eina sem er að ærast af því.

Hér hefur áður verið fjallað um tilhneiginguna til að lesa út úr misgóðri tölfræði þær upplýsingar sem maður vill að séu réttar (þegar menn vilja trúa því að opinberum starfsmönnum hafi fjölgað um 3500 frá hruni).

En ég vil nefna tvennt, sem talar sínu máli – til marks um lukkunar velstand fyrir hrun – um hvað kerfin okkar eru vanbúin til upplýsingasöfnunar og -miðlunar.

Þetta tvennt er annars vegar fjöldi atvinnulausra og hins vegar fjöldi uppboða á heimilum.

Mælingar á því fyrrnefnda hef ég – bara í dag – heyrt gagnrýndar í tvær þveröfugar áttir, annars vegar þess efnis að mælingar séu of háar og hins vegar of lágar.  Rökin er á þennan veg:

-of hátt:  útgefnar tölur innihalda alla þá sem þiggja greiðslur frá Vinnumálastofnun, líka þá sem ráðnir hafa verið til starfa í tímabundin átaksverkefni með greiðsluþátttöku af hálfu Vmst.  Þannig séu atvinnuleysistölur á hverjum tíma oft of háar.

-of lágt: fólk sem fær synjun um bætur frá Vinnumálastofnun er ekki talið til atvinnulausra, enda þótt það sé sannanlega án atvinnu.

Með öðrum orðum, getum við ekki verið viss um að mælingar á atvinnuleysi mæli atvinnuleysi.

Varðandi uppboð á húsnæði hef ég það fyrir satt að upplýsingar um slíkt greini ekki á milli þess hvort um sé að ræða nýbyggt húsnæði sem ekki hefur tekist að selja (og aldrei hefur þannig verið heimili neins), sumarbústaði eða raunveruleg heimili fólks sem sé að missa ofan af sér þakið.

Upplýsingar um uppboð á húsnæði segja okkur þá með öðrum orðum ekki hversu margar fjölskyldur gætu lent á götunni.

Hvort tveggja hlýtur að vera arfaslakt fóður í vitræna umræðu um „lausn vandans“.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.10.2010 - 11:10 - Lokað fyrir ummæli

Rústabjörgun

Í dag heyrist úr ýmsum meinhornum að ef námuslysið í Chile hefði átt sér stað hér, væru menn enn að deila um réttar eða rangar björgunaraðgerðir og „færar leiðir“.

Á minni kaffistofu voru menn ekki sammála þessu, því ef það væri eitthvað sem Íslendingar kynnu, væri það að bjarga fólki í neyð.

En samt – er það ekki einmitt málið?  Hér er fólk í neyð – fullt af fólki fast ofan í holu!

Umhugsunarvert…

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.10.2010 - 09:45 - Lokað fyrir ummæli

Sjálfkviknun lífs

Einhvern veginn læðist að manni sú hugsun við lestur predikana heittrúaðra um rétta leið skuldsettrar þjóðar út úr kreppu (á borð við: „skattleggið allt kvikt og ókvikt og leggið að því loknu á það gjöld og mun þá landið rísa af sjálfu sér undan ört hækkandi yfirborði ríkiskassans…“ og „brettið nú upp ermar og virkið öll fallvötn og heitar lindir, borið göt í  fjöll, endurprentið lowest energy prizes bæklinginn og njótið þess síðan að hlusta á erlenda peninga hrynja inn í landið…“) að það næsta sem mæti manni verði uppskriftir á borð við:

„Takið svitastorkna karlmannsskyrtu, veltið henni upp úr hveiti og skiljið eftir á borði yfir nótt.  Að morgni munuð þér finna mús í fellingum skyrtunnar til marks um sjálfkviknað líf.“

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.10.2010 - 15:48 - Lokað fyrir ummæli

Töff að blása á bíla?

Ég var að festa son minn í bílstólinn um daginn fyrir utan hús. 

Undir húsgaflinum stóð ungur maður og reykti.

„Mamma, hann er að blása á bílinn okkar!“ – sagði barnið. 

Móðirin varð stolt og glöð að þriggja ára gamalt barnið skyldi ekki einu sinni vita hvað reykingar væru, fagnaði breyttum tímum þar sem reykingar væru ekki sjálfsögð athöfn í umhverfi barna.  Sjálf óð ég sums staðar mikinn reyk í bernsku og minnist jólaboða þar sem stundum var erfitt að greina fólk í gegnum „móðuna“.

Þegar heim var komið runnu á mig tvær grímur svo ekki sé meira sagt.

Drengurinn hljóp inn í herbergi og sótti sér kyndil úr playmókastala (á stærð við hálfreykta sígarettu), bar hann fagmannlega upp að munni sér    – og „blés“.

Hann blés á dótabíla og líka á kubbahús og komst meira að segja að því að ef hann blés varlega, þá kom blístur!  Þetta fannst honum hin besta skemmtan og var bara nokkuð rogginn með sig.

Hófst nú forvarnafræðslan:

Ég: „Maðurinn var ekki að blása, hann var að reykja“.  Sonur: „Ó“

Ég: „Það er eitur að reykja, mjög hættulegt, maður verður veikur“. Sonur: „Ó“

Ég: „Það er ekki flott að reykja, eða blása á bíla eða hús“. Sonur: „Ó“

Og svo nokkru síðar:

-„Mamma, hvar er eitrið mitt?  Ég ætla að blása á kastalann.“

Af þessari reynslu hef ég dregið þá ályktun að reykingar þykja á einhvern dularfullan máta töff, sérstaklega ef maður veit ekki hvað þær eru.  Forvarnir þurfa líka að laga sig að breyttum aðstæðum, því reykingasiðir breytast – og töffarafaktorinn með.

„Ó“

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.9.2010 - 15:50 - Lokað fyrir ummæli

„Gríðarleg fjölgun“ Samtaka iðnaðarins

Í nokkra daga hef ég klórað mér í hausnum yfir meintri 3000 manna fjölgun opinberra starfsmanna, sem Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sagði frá í fjölmiðlum og heimfærði á gögn úr vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands. (sjá http://www.visir.is/article/20100927/FRETTIR01/231913240)

Hvar gæti þetta fólk mögulega verið að finna?  Næstum því jafnmargt og allur mannafli Landspítala?   Á tímum þegar „náttúruleg afföll“ eru látin sjá um fækkun starfsfólks hjá hinu opinbera og ráðningarbann er almennt ríkjandi.

Þetta hafði svo gjörsamlega farið framhjá mér og mér gekk svo illa að finna þessi gögn á vefsíðu Hagstofunnar að ég sendi fyrirspurn.

Og svarið:  Jú, ef maður gefur sér að Hagstofan flokki vinnuafl eftir almennum og opinberum formerkjum (sem hún gerir ekki) og gefur sér að yfirheitin „opinber stjórnsýsla“, „fræðslustarfsemi“ og „heilbrigðis- og félagsþjónusta“ tilheyri öll opinberum markaði, má lesa út úr gögnunum að starfsmenn hafi árið 2008 verið alls 51.300.

Þá víkur sögunni að því að gögn fyrir árið 2008 eru flokkuð eftir starfaflokkunarkerfinu „ÍSAT95“ en nýrri gögn fylgja nýju kerfi, eða „ÍSAT2008“.  Ekki er hægt að bera saman gögn milli þessa ólíku kerfa, þar sem skilgreiningar breyttust við yfirfærsluna.  Í nýja kerfinu, árið 2009, er að finna seinni tölu Orra, eða um 55.000. 

En, semsagt, ef maður tekur gögn úr eldra kerfinu samkvæmt fyrrgreindum formerkjum um „opinber störf“ og ber saman við ósambærileg gögn úr nýrra kerfi, kemur fram umrædd fjölgun sem Orri vísar til.

Rúsínan í pylsuendanum er svo að hér er um úrtakskannanir að ræða, með vikmörk upp á ca 1000 fyrir hvern þessara þriggja flokka.  Er ekki þrisvar þúsund 3000?

„Opinberum starfsmönnum“ hefur semsagt á umræddu tímabili fjölgað um vikmörk úrtakskönnunar Hagstofu Íslands á störfum sem ekki eru flokkuð eftir mörkuðum.

Voilá – setjum það í fréttirnar!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 25.9.2010 - 19:15 - Lokað fyrir ummæli

igniþlA

Góðu fréttirnar frá Alþingi þessa dagana:

-þar kunna menn fullvel að reisa skjaldborg.

Slæmu fréttirnar:

-rangan snýr út.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.9.2010 - 12:13 - Lokað fyrir ummæli

Heilagar sauðkindur?

Í tilefni af umræðu sem heyrst hefur ómur af undanfarið um mismunandi slátrunarsiði og það hvort einn hópur geti etið ket sem slátrað er samkvæmt hefðum – og jafnvel undir bænum – annars, finn ég mig knúna til að játa eftirfarandi:

Ég gæti sem best trúað því að ég hafi í gegnum tíðina innbyrt kynstrin öll af mat sem framleiddur hefur verið undir áhrifum annarrar menningar en þeirrar sem ég tilheyri.  Oft finnst mér einmitt mjög gott og spennandi að borða framandi mat. 

Hversu framandi þarf matur annars að vera til að geta af einhverjum talist „mengaður“ af bænum annars siðar?

Gæti t.d. hrísgrjónaræktunarfólk hafa tautað fyrir munni sér búddískar kennisetningar við uppskerustörf, túnfiskveiðimenn heitið á vættir sem mér eru ókunnugar, kryddmalarar vottað virðingu heilagri kú og svo framvegis?

Ef við lítum okkur nær, finnst mér líklegt að það erlenda verkafólk sem mannað hefur íslensk sláturhús undanfarin ár hafi oft tilheyrt öðrum trúfélögum en íslenskri kirkju.  Hvað vitum við svosem um þær bænir eða formælingar sem – meðvitað eða ómeðvitað – fara um huga fólks við slátrun hinna ýmsu skepna?

Og hverjum má ekki vera sama?

Höfum við nokkurn tímann sett það fyrir okkur í hvaða anda, öðrum en hreinlegum, mannúðlegum og löglegum hvað dýrin áhrærir, slíkt er gert?

Ekki svo ég muni.

Mér var hins vegar innrætt – og það í fermingarfræðslunni – að mér bæri að virða það sem öðrum er heilagt. 

Ef ákveðinn hópur vill þannig vera viss um tiltekinn menningarlegan uppruna matvæla, finnst mér allt í lagi að boðið sé upp á slíkt af hálfu matvælaframleiðenda hérlendis sem erlendis.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur