Fimmtudagur 11.4.2013 - 11:13 - Lokað fyrir ummæli

Áhyggjur af áhyggjum Mikaels Torfasonar

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu þann 11. apríl 2013.

Ritstjóri Fréttablaðsins, Mikael Torfason, ritar í leiðara blaðsins þann 2. apríl sl. undir yfirskriftinni „Námsmannabólan“ um það meðal annars hvort fjárfesting í háskólanámi borgi sig á Íslandi, fyrir einstaklinga og samfélagið í heild.

Í leiðaranum bendir Mikael réttilega á að hlutfall framhalds- og háskólamenntaðra á vinnumarkaði hefur aukist undanfarna áratugi og veltir því upp hvort tími sé kominn til að staldra við, enda sé „engu samfélagi hollt að útskrifa fólk úr ríkisstyrktum háskólum sem á ekki von á góðu þegar komið er út í atvinnulífið“.

Ísland er reyndar talsverður eftirbátur samanburðarlanda hvað menntunarstig varðar, því þrátt fyrir jákvæða þróun í átt að hærra menntunarstigi færast viðmiðunarhóparnir – þau lönd sem lengra eru komin – líka áfram með tímanum.

Mikael bendir á mikilvægi þess að auka samsvörun milli menntunar og atvinnulífs og nefnir í því samhengi skort á tæknimenntuðu fólki á vinnumarkaði, sem nú er staðreynd. Lítil aðsókn í raungreinanám er vissulega vandamál sem vert er að laga. Aðgerðir gegn þeirri þróun þarf þó að hefja strax við upphaf skólagöngu barna ef vel á að vera. Mikael leggur til að tekið verði upp hvatakerfi á háskólastiginu, sem beint gæti nemendum á tilteknar brautir, og er það eflaust góðra gjalda vert, svo framarlega sem slíkt er hluti af stærra átaki á öllum skólastigum.

Í leiðaranum er jafnframt minnst á þá staðreynd að ævitekjur háskólagenginna vega ekki alltaf upp kostnaðinn við að afla sér menntunar. Athuganir á arðsemi menntunar á Íslandi sýna reyndar að menntun borgar sig, enn sem komið er. Bandalag háskólamanna (BHM) tekur þó undir með Mikael að til þess að íslenskt atvinnulíf megi eflast og halda í við samkeppni á alþjóðavísu þarf að gæta þess að hér verði áfram hagstætt að sækja sér þekkingu. Íslenskt menntakerfi er óhagstætt, hvað ævitekjur varðar, að því leyti að hér tekur lengri tíma en í samanburðarlöndum að afla þeirrar grunnmenntunar sem er forsenda háskólanáms. BHM leggur því til að tími til stúdentsprófs verði styttur.

Menntun borgar sig

Samfélagslega sýnin sem lýst er í leiðara Mikaels, að mögulega væri rétt að hverfa frá áætlunum um að auka menntunarstig á íslenskum vinnumarkaði, er óneitanlega sérkennileg.

Í skýrslu McKinsey og félaga „Charting a growth path for Iceland“, sem birt var síðastliðið haust, er rýnt í hagstærðir með það fyrir augum að greina vaxtarmöguleika Íslands í átt til aukinnar hagsældar. Þar er bent á það með skýrum hætti að Ísland eigi hvað mesta vaxtarmöguleika á hinum alþjóðlega hluta vinnumarkaðarins, sem ekki byggir beint á staðbundnum auðlindum eða aðstæðum. Forsenda þess að nýta þá möguleika er að efla menntunarstig og styrkja atvinnumöguleika háskólamenntaðra.

Mikael bendir í leiðara sínum réttilega á að samsvörun skortir milli námsvals þeirra sem nú stunda háskólanám og þess hvers konar þekkingu vantar nú helst á vinnumarkaði. Þetta misræmi mun þó ekki endilega leiða til atvinnuleysis þeirra sem útskrifast með menntun sem ekki er eftirspurn eftir. Þeir einstaklingar munu líklega eiga betri atvinnumöguleika vegna menntunar sinnar, enda þótt þeir fái kannski ekki starf við hæfi.

BHM hefur ítrekað bent á þá staðreynd að yfirsýn skortir í opinberum hagtölum yfir það hvort háskólamenntaðir á vinnumarkaði eru í störfum sem samsvara menntun þeirra. Slík greining er nauðsynleg ef raunverulegur vilji er til að efla samsvörun milli námsvals og þarfa atvinnulífsins.

Við eigum ekki að hafa áhyggjur af því að fólk mennti sig í auknum mæli. Áhyggjurnar ættu fremur að beinast að því að okkur mistakist að nýta menntunina til að efla hagsæld Íslands.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: ,

Miðvikudagur 10.4.2013 - 08:19 - Lokað fyrir ummæli

Skuldaleiðrétting til framtíðar, ekki bara fyrir horn

Í umræðum um leiðréttingu skulda vill ýmislegt gleymast. Svo sem það hvort hún er:

Fyrir alla eða suma?

Að leiðrétta allar núverandi verðtryggðar húsnæðisskuldir inniber að fólk sem er fjárhagslega vel stætt og ræður vel við afborganir í lengd og bráð fær sömu meðhöndlun og þeir sem ná ekki endum saman. Þetta er vissulega rausnarleg framkvæmd, en er hún nauðsynleg eða gagnleg til framtíðar? Það verður hver og einn að dæma fyrir sig.

Skammgóður vermir eða varanleg lausn?

Óstöðugleiki hefur ríkt um langa hríð í íslensku efnahagskerfi. Við erum orðin vön því að oft og reglulega þurfi að grípa inn og rétta kúrsinn, redda málum, það er ekkert nýtt. Reddingar eru hins vegar skammtímalausn. Því skiptir meginmáli fyrir framhaldið núna að redding fyrir horn verði studd markvissum aðgerðum til að fyrirbyggja næstu vandræði. Redda fyrirfram – er það ekki eitthvað?

Á kosnað einhverra og þá hverra?

Það er hollt að minna sig reglulega á að „there’s no such thing as a free lunch“. Ekkert verður til af öngvu, plús hér er oftar en ekki mínus þar. Skuldaleiðrétting nær til þeirra sem skulda – en hvað með þá sem skulda ekki, hverjir eru það? Væntanlega þeir sem hafa ekki ennþá stofnað til skulda og hinir sem eru búnir að greiða þær upp. Semsagt ungir og gamlir.

Gamalt fólk hefur vissulega sopið ýmsa fjöru og lagt sitt af mörkum til uppbyggingar almenningsgæða og á það kannski ekki skilið að fá nú enn einn reikninginn. Hins vegar er ólíklegt að það fari að stofna til skulda héðan af, svo redding fyrir horn og áframhaldandi óstöðugleiki er kannski frekar óþægilegt en óbærilegt. Eða hvað?

Ungt fólk 

Víkur þá sögunni að alvarlegasta áhyggjuefninu. Er sanngjarnt að láta ungt fólk sem á eftir að koma þaki yfir höfuð sér bera kostnað af reddingu og búa síðan við áframhaldandi óstöðugleika? Er það verjandi ráðstöfun?

Tillögum um reddingu fyrir horn í skuldamálum þeirra sem nú eru þunga hlaðnir verður að fylgja sannfærandi áætlun um stöðugleika til langs tíma.

Ungir kjósendur þurfa því að krefjast svara um áætlun til framtíðar áður en þeir leggja atkvæði sitt á vogarskál reddinganna.

Björt framtíð styður allar góðar og raunhæfar hugmyndir um bættan hag almennings. Þeim stuðningi fylgir hins vegar skýr krafa um langtímaplan, sannfærandi áætlun um að héðan af verði áherslan lögð á að redda fyrirfram með áherslu á stöðugleika og jafnvægi.

230817_422910494435910_125593183_n

 

Meiri fjölbreytni – Minni sóun – Meiri stöðguleiki – Minna vesen – Meiri sátt

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 21.2.2013 - 22:37 - Lokað fyrir ummæli

Fjölgum okkur!

Mér var að detta í hug patentlausn.

-sem gæti t.d. leyst vanda innlendrar verslunar og þjónustu – sem er allt, allt, allt of stór fyrir okkar fámenna markað.

-sem gæti líka bætt stöðu velferðarþjónustunnar, sem glímir við þann vanda að sjá fámennri þjóð fyrir þjónustu í hæsta gæðaflokki að umfangi sem jafnast á við það besta í mun fjölmennari samfélögum.

-sem gæti reddað alls kyns vanda sem tengist ör-þessu eða smá-hinu.

Patentlausnin er þessi: Fjölgum okkur.

Eini gallinn sem ég sé í fljótu bragði er að við myndum missa „miðað við höfðatölu“ formálann í yfirlýsingum um allra handa eigið ágæti. Sem er kannski bara fínt…

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.2.2013 - 11:44 - Lokað fyrir ummæli

Henni verður strítt…

… sagði einusinni maður þegar verið var að ræða mögulega ættleiðingu stúlku frá Kína inn í fjölskyldu sem samanstóð af tveimur karlmönnum.

Nei, mér líst ekki á þetta, henni verður bara strítt.

Það getur verið óþægilegt að brjóta norm, brydda upp á nýnæmi, ögra okkur með tilefnum til hugmyndafræðilegrar naflaskoðunar.

Svipað viðhorf birtist oft í umræðu um hvort skima eigi fóstur með tilliti til fötlunar. Þetta verður ekkert líf, hvernig á þessi einstaklingur að ná því að lifa hamingjusamlega? Nei, mér líst ekki á þetta. Forðumst fjölbreytileikann.

Hvers konar viðhorf er það að taka því sem gefnum hlut að barni sem á óhefðbundna foreldra og/eða hefur frábrugðið litarhaft verði strítt? Er ekki verkefnið frekar að efla þroska samfélagsins, auka víðsýnina og fagna fjölbreytileikanum? Hætta að stríða? Barn er bara barn, fjölskylda er bara fjölskylda, það þarf þorp til að ala upp barn, hvort sem það er svona eða hinsegin og hvort sem foreldrarnir eru svona eða hinsegin. Samfélag sem stríðir öðruvísi fólki þarf að taka sig á, ekki halda hinu frábrugðna fjarri.

Og hvert er verkefnið ef fatlað fólk á ekki kost á hamingju (eða ef við höldum að það sé þannig)? Er það ekki að auka möguleikana til að svo megi verða, búa í haginn þannig að allir fái pláss? Auðvitað er það verkefnið, ekki að hindra tilvist þeirra sem falla utan norms, sem má til dæmis gera með því að breyta norminu þannig að fleiri passi í það.

Miðaldra körlum verður ekki strítt – eða þeir munu ekki taka það nærri sér…

Þessa dagana er mikið bent á það að konur virðast hafa horfið af hinu pólitíska sviði, eða að minnsta kosti úr sviðsljósinu. Birtar eru myndir af körlum í pallborði, spurt hvar eru konurnar? Réttilega hefur fólk áhyggjur af því hvers vegna þetta hefur allt í einu gerst – við sem erum svo módern og best í heimi í jafnrétti. Hvað klikkaði?

Mín tilgáta er sú að það sem klikkaði hafi meðal annars verið okkar samfélagslega vissa um að konum sem láta á sér bera verður strítt.

Þær verða gagnrýndar fyrir klæðaburð sinn, til dæmis fyrir að klæðast lopapeysu í þingsal.

Þær verða miskunnarlaust hæddar fyrir skort á mælsku eða klaufalega málnotkun.

Svo eitthvað sé nefnt.

Sjálf hef ég til dæmis fengið að heyra það þegar ég var að velta fyrir mér framboði til Alþingis, að ég ætti alls ekki að gera það, vegna þess að ég muni lenda illilega milli tannanna á fólki.

Ég býð mig nú samt fram, vonandi verður mér ekki strítt.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.1.2013 - 13:44 - Lokað fyrir ummæli

Ríkisstofnun efnir til samskota fyrir aðra ríkisstofnun

Undanfarið hafa heilbrigðis- og umönnunarstéttir hver af annarri stigið fram og krafist úrbóta vegna lélegra launakjara og mikils vinnuálags.

Jafnframt hefur verið bent á slæmt ástand tækja- og húsbúnaðar á sjúkrastofnunum landsins.

Almennt ríkir samstaða um nauðsyn þess að bæta úr hvoru tveggja. Enda gildir jafnt um mannauðinn og aðstöðuna, að ef sinnuleysi varir of lengi verður kostnaðarsamt og erfitt að ná fram úrbótum.

Vandi kvenna?

Að mínu mati er mikil einföldun að halda því fram að erfiðleikar í heilbrigðisgeiranum séu vandamál kvennastétta, eins og gert hefur verið að undanförnu meðal annars af hálfu velferðarráðherra. Það ætti í fyrsta lagi að vera orðið úrelt tungutak að tala um kvennastéttir, enda gerir sú staðreynd að fleiri konur en karlar veljast til starfa í hjúkrun og umönnun heilbrigðisþjónustu ekki að sérstöku málefni kvenna. Mögulega er þarna um smættun vandans að ræða; að tengja hann öðru kyninu fremur en hinu.

Illa starfhæft heilbrigðiskerfi er nefnilega sameiginlegur vandi okkar allra, karla jafnt sem kvenna.

Biskup til bjargar?

Nýleg yfirlýsing biskups Íslands um peningasöfnun til tækjakaupa fyrir sjúkrahús, sem hún sér fyrir sér að hefjist í samskotabaukum við messur og  ljúki svo með sjónvarpssöfnun undirstrikar í mínum huga þann stóra vanda sem heilbrigðisþjónusta – og jafnvel allt starf með fólk – býr við.

Það viðhorf að slík starfsemi þurfi að byggjast á samskotum er auðvitað forkastanlegt.

Sú staðreynd að kirkjan er ríkisstofnun og þiggur sem slík framlög úr sameiginlegum sjóðum landsmanna virkar ekki síður truflandi á mig. Það er eitthvað súrrealískt við það að ein stofnun sem rekin er af almannafé efni til samskota meðal almennings til að fjármagna aðra ríkisþjónustu.

Látum vera ef óháð samtök safna fyrir málefni sem þau telja þarft og mikilvægt.

Og látum vera að heilbrigðisstarfsemi sé almennt svo naumt fjármögnuð að fólki þyki eðlilegt að tækjakaup og byggingar hennar sé fjármagnað með samskotum.

Nei annars, látum það ekkert vera, því þannig á þetta auðvitað ekki að vera.

Ekki frekar en að efna ætti til söfnunar til að endurnýja ljósritunarvélar í stjórnarráðinu.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

Þriðjudagur 18.10.2011 - 15:56 - Lokað fyrir ummæli

Orðspor um klíkuskap

Lengi hefur það orð farið af ráðningum í opinber embætti á Íslandi að þær einkennist af klíkuskap og vinafyrirgreiðslum.

Það er slyðruorð sem stjórnsýslan þarf að hrista af sér.

Opinber umræða á Íslandi einkennist oftar en ekki af áköfum, en tímabundnum, rifrildum um fólk frekar en málefni.  Jafnvel umræða sem fer málefnalega af stað hefur tilneigingu til að enda í skotgröfum, þar sem mælendur skiptast í fylkingar þeirra sem ýmist herja á – eða verja – tilteknar persónur.

Það er ósiður sem íslensk umræða þarf að losa sig við.

Mikið hefur verið rætt og ritað um þörf stjórnsýslunnar til að ástunda faglegar og málefnalegar mannaráðningar, með opnum og skýrum ferlum og ríkulegri upplýsingagjöf.  Slík umfjöllun lætur iðulega að því liggja að úrbóta sér þörf, sem dæmi má nefna skýrsluna „Samhent stjórnsýsla“ sem nefnd á vegum forsætisráðherra ritaði í árslok 2010.

Í þeirri skýrslu er meðal annars lagt til að skil verði gerð milli pólitískt ráðinna starfsmanna í Stjórnarráðinu (t.d. aðstoðarmanna ráðherra) og annarra starfsmanna sem óumdeilanlega eigi að meðhöndla án tillits til pólitískrar afstöðu, forsögu eða tengsla.

Meginstefið í umræðum um skil pólitíkur, kunningsskapar og faglegra ráðninga í opinberar stöður er að stjórnsýsla sem ekki nær að hrista af sér orðspor um óeðlilega fyrirgreiðslu, vinaráðningar o.s.frv., gjaldi fyrir með trúverðugleika sínum.

Orðspor um klíkuskap er skaðlegt eitt og sér, þótt ekki sé endilega sannað að hann viðgangist.

Ráðingarferli hefst nefnilega með því að fólk sækir um starf.

Ímynd vinnustaðarins hefur mikið um það að segja hverjir sækjast þar eftir starfi.  Sá sem innst inni trúir því að ráðning muni verða byggð á tengslum frekar en hæfni hugsar sig tvisvar um áður en hann sækir um auglýst starf.

Þegar hið opinbera er annars vegar, mega umsækjendur alltaf búast við því að nöfn þeirra verði birt opinberlega á einhverjum tímapunkti í ráðningarferlinu.  Slík birting getur verið einstaklingnum viðkvæm og mögulegt að orðspor um klíkuskap letji annars hæft fólk til að sýna störfum áhuga.

Athyglisvert er í þessu samhengi að skoða fjölda umsækjenda um opinberar stöður nú á tímum mikils atvinnuleysis og óöryggis á vinnumarkaði. 

Hversu margir sóttu t.d. um starf forstjóra Bankasýslu ríkisins?  Samkvæmt heimasíðu stofnunarinnar voru umsækjendur fjórir.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.10.2011 - 18:28 - Lokað fyrir ummæli

Mannauðsmál ríkisins í kreppu

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 8. október 2011.

Nýútkomin skýrsla Ríkisendurskoðunar dregur fram helstu ógnir og veikleika í mannauðsmálum ríkisins. Ábendingar eru gerðar til fjármálaráðuneytisins í tíu liðum sem segja í stuttu máli þetta:

– Afmarka þarf framtíðarverkefni ríkisins og meta hvers konar mannafla þarf til að framkvæma þau.

– Ríkið þarf að tileinka sér árangursríkari mannauðsstjórn og hlúa betur að starfsfólki sínu.

– Ríkið þarf að laða til sín og halda í hæft og vel menntað starfsfólk.

Þetta hljómar mjög skýrt (auk þess að hljóma eins og BHM hefði skrifað það) en hefur engu að síður reynst erfitt að koma til leiðar.

Tillögur Ríkisendurskoðunar til fjármálaráðuneytisins um leiðir til að laða að og halda í hæft starfsfólk endurspegla þá vankanta sem nú eru á framkvæmd mála. Bent er á mikinn launamun háskólamenntaðra starfsmanna miðað við almennan vinnumarkað, skort á umbun til starfsmanna sem skara fram úr og brotalamir í mannauðsstjórnun hjá stofnunum ríkisins. Einnig er til þess tekið að illa sé fylgst með starfsmannaveltu og veikindafjarvistum, en slíkur sofandaháttur hlýtur að teljast afar varhugaverður á tímum eins og nú, þegar saman fara strangar aðhaldskröfur í rekstri og oft stóraukin eftirspurn eftir opinberri þjónustu.

Stundum kostar fleira fólk minna en færra fólk

Veikindafjarvistir og starfsmannavelta eru mjög kostnaðarsöm fyrirbæri og hvorugt til þess fallið að létta róður stofnana á niðurskurðartímum. Stundum er eflaust ódýrara að fjölga starfsfólki en fækka því, enda skilar vinnandi fólk afköstum í þjónustu sem fjarverandi eða fyrrverandi starfsfólk gerir ekki. Ríkið ætti að gæta að þessu umfram aðra vinnuveitendur, þar sem kostnaður vegna þeirra sem eru veikir eða utan vinnumarkaðar fellur á ríkissjóð, rétt eins og launakostnaður starfsmanna.

Leiðarljós fjármálaráðherra í aðhaldsaðgerðum dýpkaði vandann

Varðandi samkeppnishæfni ríkisins um sérfræðimenntaða starfsmenn tekur skýrsla Ríkisendurskoðunar í sama streng og aðrar sem á undan henni komu, svo sem Rannsóknarskýrsla Alþingis og skýrslan „Samhent stjórnsýsla“ sem nefnd á vegum forsætisráðherra skilaði í árslok 2010. Launamunur milli markaða er til vansa, starfsmannavelta mikil og of lítið gert til að laða að og halda í mannauð.

Veikleikar stofnana ríkisins, ósamkeppnishæf launakjör og atgervisflótti hafa síst batnað í kjölfar aðgerða sem hvatt var til í „Leiðarljósi í aðhaldsaðgerðum“, eins og það birtist í skýrslu fjármálaráðherra um jöfnuð í ríkisfjármálum sumarið 2009. Leiðarljósið fjallaði m.a. um að lækka laun embættismanna og setja þak á hæstu laun ríkisstarfsmanna byggt á grunnlaunum forsætisráðherra. Laun háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins voru markvisst lækkuð og tilmælum beint til annarra stofnana ríkisins að lækka laun yfir 400 þúsund krónum. Aðgerðir þessar stuðluðu markvisst að því að skerða kjör háskólamenntaðra sérfræðinga hjá ríkinu.

Leiðarljós ráðherra kvað og á um að náttúrleg fækkun starfsmanna skyldi látin viðgangast og nýráðningum haldið í lágmarki. Dregið skyldi úr yfirvinnu og aukagreiðslum um leið og vitað var að annir myndu líklega aukast á öllum sviðum ríkisrekstrar. Skrúfað var fyrir framlög til sí- og endurmenntunar, sem er sérfræðingum nauðsynleg til að geta staðið undir nafni.

Ekki kom beint fram í leiðarljósinu að treyst skyldi á guð og lukkuna í starfsmannahaldi, en nánast má lesa það á milli línanna þegar hliðsjón er höfð af ábendingum fagaðila í mannauðsmálum.

Framtíðarmannafli í óvissu

Það sem ég les á milli lína í áherslum fjármálaráðuneytisins um mannauðsumsýslu á krepputímum er að treysta skuli á þolgæði ríkisstarfsmanna, fórnfýsi, trygglyndi, hugsjónir og brennandi áhuga þeirra á starfi sínu.

Segja má að það hafi gefist nokkuð vel hingað til, félagsmenn BHM í ríkisþjónustu umbáru til dæmis 26 mánaða samningsleysi án launahækkana af nokkru tagi. Sami hópur umbar um leið markvissar launaskerðingar, hækkaða skatta, auknar álögur og tekjutengingar.

Þessi hópur bíður þess nú að ríkið standi við sinn hluta bókana með nýgerðum kjarasamningum og endurskoði forsendur launaákvarðana hjá háskólamenntuðu starfsfólki. BHM telur úrelt að háskólamenn þiggi laun samkvæmt kerfi sem á meira skylt við uppmælingu en mat á vinnuframlagi sérfræðinga.

Háskólamenn eru framtíðarmannafli ríkisins, enda eðlilegt að opinber þjónusta byggist jafnan á nýjustu og bestu fagþekkingu. Enn er óskrifað blað hvernig ríkið ætlar að laða til sín og umbuna framtíðarstarfsfólki sínu fyrir vel unnin störf og brýnt að bætt verði úr þeirri óvissu.

BHM gerir þá kröfu að markvisst verði unnið að verkefnum bókana með nýgerðum samningum hvað varðar samanburð á kjörum milli almenns og opinbers vinnumarkaðar, mannauðsmál, framþróun starfsumhverfis og eflingu sí- og endurmenntunar félagsmanna BHM hjá ríkinu.


Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.2.2011 - 12:17 - Lokað fyrir ummæli

Kæri vinur, Jón Gnarr – ertu nokkuð að ruglast?

Ofangreind setning er úr Hjalla-orðabókinni minni og kom ósjálfrátt upp í hugann þegar ég sá heilsíðuauglýsingu með mynd af borgarstjóra Reykjavíkur að hvetja til samskota fyrir líknarfélag í Fréttablaðinu í dag. 

Næsta setning kom úr áramótaskaupinu: Það er eitthvað svooo rangt við þetta…

Eða hvernig ná menn heilli brú út úr eftirfarandi:

-Landspítalinn er svo fjársveltur að velunnarar kvenlækninga og fæðingarþjónustu stofna styrktarfélag til að kaupa tæki og bæta aðbúnað sjúklinga

-Efnt er til fjársöfnunar meðal almennings, á sama tíma og framlög úr almannasjóðum eru skert 

-Borgarstjórinn í Reykjavík, sem um þessar stundir stendur með niðurskurðarhnífinn á lofti yfir barnagæslu, kennslu og uppfóstran barna – með öðrum orðum aðbúnaði og lífskjörum ungra barnafjölskyldna – pósar á mynd til að styðja við fjársöfnun

-sem er ætlað að púkka upp á opinbera þjónustu

-sem verið er að skera niður!

Ég næ a.m.k. ekki samhenginu – en vona þó að söfnunin gangi vel

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 31.1.2011 - 22:23 - Lokað fyrir ummæli

Tónlistarskólar – uppeldi og lífsleikni

Ég er ein þeirra fjölmörgu sem er alin upp í tónlistarskóla, þótt ég hafi ekki orðið tónlistarmaður.

Meðal þess sem tónlistarnám og tónlistarástundun hefur kennt mér (auk þess að blása í lúður og lesa nótur) er:

að ganga í takt.  Maður skyldi ekki gera lítið úr þeim eiginleika að kunna að fylgja takti, að hlusta eftir hrynjandi.  Hryneyra hjálpar manni meðal annars að muna ljóð og skrifa eftir upplestri. 

að fara eftir fyrirmælum og taka tillit til annarra.  Í hljómsveit er ekki aðalmálið að skara framúr, heldur vera hluti af hljómnum.  Það er ekki síður krefjandi að halda sig til hlés en að láta heyrast í aðalrödd.  Enda heyrist ekki aðalröddin nema henni sé gefið svigrúm.  

að vera liðsmaður.  Mitt uppáhaldshlutverk var að vera „2. klarinett“.  Ekki að vera berskjölduð með aðalrödd, heldur að styðja við þann sem var í því hlutverki og sjá til þess að það gengi vel.  Ég lærði að það er kalt á toppnum og að maður þarf bakhjarl ef maður skyldi villast þangað.

agi.  Kúnstarinnar reglur eru margar í tónlist og það er líka kúnst að brjóta þær eða sveigja.  Stjórnandinn ræður, æfingin skapar meistarann og svo framvegis…

– að koma fram, yfirstíga sviðsskrekk og standa keik andspænis áheyrendum – mörgum eða fáum – aftur og aftur og aftur.  Ég hef komið fram vel æfð og illa æfð, vel stemmd og illa stemmd, með auðveld verkefni og illa yfirstíganleg.  Áheyrendur hafa grátið af gleði (þegar þjóðsöngurinn var fluttur á elliheimilum í Nýja Íslandi í Kanada), haldið fyrir eyrun (á þröngum göngum elliheimila á Íslandi andspænis háværri lúðrasveit), gengið framhjá mér (þegar ég spilaði jólalög ásamt systur minni í Kringlunni),  elt mig á röndum (í skrúðgöngum) – en oftast þó hlustað og klappað með hefðbundnum hætti.

að takast á við mistök.  Allir gera einhvern tímann mistök – detta út af laginu.  Mestu máli skiptir þá að „koma aftur inn“ – finna lagið og halda áfram.  Ef það tekst, er ekki einu sinni víst að neinn taki eftir mistökunum…

Veganestið mitt úr tónlistarskólanum er mér óendanlega dýrmætt.  Ég er svosem ennþá slarkfær á lúðurinn – en þó hefur frekar fennt yfir fingrafimina en lífsleiknina sem ég þakka tónlistarnáminu.

Fyrsti kennarinn minn sagði oft þegar ég var illa æfð og rak í vörðurnar: 

„Þú ert bara eins og maður sem er úti að ganga og allt í einu stígur hann í poll.“

Núna – þrjátíu árum síðar – vil ég miðla þessum sannindum áfram til þeirra sem halda á fjöreggi tónlistarskólanna.

Gætum að hvar drepið er niður fæti, stöndum vörð um það uppeldisstarf sem fram fer í tónlistarskólum landsins – stígum ekki í poll!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 25.11.2010 - 09:37 - Lokað fyrir ummæli

Educated by Iceland

Háskólamenntaðir launamenn hafa orðið hart úti í aðhaldsaðgerðum hins opinbera eftir hrun og búið við skert launakjör jafnt á almennum sem opinberum vinnumarkaði.  Félagsmenn aðildarfélaga BHM eru millitekjufólk og hafa ekki þótt þurfa vernd í þrengingum, þvert á móti eru úrræði sniðin að því að þeir beri stóran hluta kostnaðar.  Nægir þar að nefna skattabreytingar, aukna tekjutengingu bóta, svo ekki sé minnst á beinar launaskerðingar á tímum verðbólgu.  Þá hafa úrræði vegna skulda hingað til ekki tekið tillit til námslána.

Menntun er samfélagsauður.

Góð menntun er forsenda framþróunar á vinnumarkaði og undirstaða samfélagslegra gæða.  Öll viljum við njóta nýjustu þekkingar í menntakerfinu, heilbrigðisþjónustu, náttúruvöktun og félagslegum úrræðum.  Miklar kröfur eru gerðar til fagfólks og  þeim verður að fylgja eftir með starfsaðstæðum sem hvetja til fagmennsku, bjóða upp á sí- og endurmenntun, alþjóðleg tengsl og innleiðingu nýrrar þekkingar. 

Kjör háskólamenntaðra verða að taka tillit til að slíkar kröfur verði uppfylltar.  Til að svo megi verða þarf að snúa við öfugþróun á vinnumarkaði þar sem hlutur menntunar er ítrekað verðfelldur í kjarasamningum.  Frá undirritun stöðugleikasáttmála hefur legið fyrir tilboð ríkisins um kjarasamning við aðildarfélög BHM sem heggur enn í sama knérunn og því ekki hægt að ganga að.  Á sama tíma hefur markvisst verið skorið niður í launagreiðslum háskólamenntaðra. 

Flytjum út hugvit, ekki fólk!

Ísland er ekki samkeppnishæft um störf háskólamenntaðra, launakjör þeirra hér á landi standast ekki alþjóðlegan samanburð.  Lágt gengi og láglaunastefna valda því einnig að íslenskur vinnumarkaður laðar ekki til sín sérfræðinga erlendis frá, þannig að vandséð er hvernig fylla má í eyðurnar sem innlendur atgervisflótti skapar.

Vangaveltur um að samfélag hafi ekki efni á að meta menntun að verðleikum á krepputímum eru hættulegar og til marks um úreltan, metnaðarlausan og einangrandi hugsunarhátt.  Við eigum ekki að ýta undir málflutning sem hvetur til að láglaunastörfum sé fjölgað en þekkingu kastað á glæ.  Klisjukennd svör við áhyggjum af brottflutningi menntaðs fólks á borð við „menntum bara fleiri“ eru innantóm, því við bætum ekki fjárhagslegt tap af landflótta með frekari fjárfestingu í menntun til útflutnings. 

Kostnaður samfélagsins við að mennta einstakling frá leikskóla til fyrstu háskólagráðu er lauslega áætlaður 23 milljón krónur.  Meðalskatttekjur af háskólamenntuðum starfsmanni eru ríflega milljón á ári.  Um 2.600 Íslendingar stunda nú nám erlendis. Ef tveir þriðju þeirra skila sér ekki til baka er fjárfesting upp á 40 milljarða horfin – eitt Icesave. Því til viðbótar verður hið opinbera af beinum skatttekjum upp á meira en 2 milljarða á ári.

Menntun er dýrmæt.  Missum verðmætin ekki úr landi! 

Horfum fram á veginn og stefnum upp á við.  Ísland þarf á því að halda að hér verði til fjölbreytt og vel launuð störf, til þess að svo geti orðið verðum við að viðurkenna mikilvægi þess að menntun sé metin til launa.

Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM

Pistill þessi birtist einnig í Fréttablaðinu 25. nóvember.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur