Mánudagur 18.10.2010 - 19:01 - FB ummæli ()

Hagsmunir hverra

Í dag fer fram mikil barátta um allan heim. Baráttan snýst um hvort tap banka skuli vera fjármagnað af almenningi eða þeim sem orsökuðu bankahrunið. Það voru bankarnir sem gátu ekki fjármagnað sjálfa sig á gjalddaga og fóru því í gjaldþrot. Afleiðingarnar fyrir almenning  eru vel þekktar og augljóst að hugmynd bankanna er að koma sem best frá hruninu á kostnað almennings.

Að bankar sýna nú þegar hagnað og ætla síðan að halda áfram að hámarka hann með öllum ráðum, það er mikil óbilgirni gagnvart almenningi. Að bankarnir vísvitandi tóku stöðu gegn krónunni á sínum tíma til að bæta stöðu sína ætti að flokka undir aðför banka að hag almennings en ekki afbrot einhverra einstaklinga.

Afleiðingar af hegðun bankanna í aðdraganda hrunsins veldur því að stjórnvöld á hverjum stað þurfa að skera niður til að greiða herkostnaðinn við að koma gjaldþrota bönkum í starfhæft ástand á nýjan leik. Baráttan stendur um það hvort sú velferð sem byggð hefur verið upp á hverjum stað verði tekin af almenningi eða ekki. Eftir margra áratuga baráttu almennings fyrir bættum kjörum þá virðast stjórnvöld telja það sjálfsagt og réttmætt að fjarlægja þau réttindi.

Mikil mótmæli í Frakklandi og víðar í Evrópu eru dæmi um slíka baráttu. Í raun er þessi barátta hin raunverulega stéttabarátta í dag, barátta almennings við banka. Atvinnurekendur voru í skotlínu hér áður fyrr en hluti þeirra, smáfyrirtæki, eru oftast í sömu sporum og almenningur. Stóru fyrirtækin, sérstaklega alþjóðleg stórfyrirtæki, nýta sér bankakreppuna í Evrópu til að færa kjör verkamanna þar í það horf sem við þekkjum frá þróunarlöndunum. Það mun hámarka gróða þeirra, lágt kaup, engin réttindi og ekkert almennt velferðakerfi sem er bara kostnaður.

Það er í raun hin eina sanna tæra snilld að hafa tekið forkólfa verkalýðsins og munstrað þá í sjóðsstjóra lífeyrissjóða og leyft þeim að spranga um sali elítunnar. Svipaða sögu er að segja af ýmsum forustumönnum stjórnmálanna. Þegar almenningur á Íslandi vill höggva örlítið skarð í hagnað bankanna þá ætlar allt vitlaust að verða. Að forustumenn verkalýðsins og jafnaðarmenn stjórnmálanna séu farnir að tala máli bankanna gefur sterklega til kynna að þeir hafa ekki alið manninn á meðal skuldsettra Íslendinga sem eiga varla fyrir mat. Þessi augljósa gjá er stöðugt að breikka.

Hin hefðbundna skipting í vinstri og hægri er að riðlast. Barátta verkalýðs við atvinnurekendur er ekki jafn ljós og áður. Línurnar dragast á nýjum stöðum en enn gildir hið fornkveðna að allir séu jafnir nema sumir eru bara miklu jafnari. Misskipting auðs eykst hvert sem litið er. Þess vegna verður almenningur að átta sig á hvoru megin línu menn standa, tala þeir máli mínu eða hagsmunum bankanna. Er það hagur afkomenda minna að velferðakerfinu sé rústað til að endurreisa bankakerfi sem setti okkur á hausinn? Er einhver akkur í því fyrir mig að hafa ríka banka og velferðakerfi sem er rjúkandi rúst? Ef ekki, þá er kominn tími til að safnast saman og stöðva þá þróun.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur