Fimmtudagur 21.10.2010 - 20:23 - FB ummæli ()

Stjörnurnar og ASÍ

Forustumenn verkalýðshreyfingarinnar eru innmúraðir inní valdaelítu landsins. Það hefur átt sér töluverðan aðdraganda og er því ekkert nýtt. Nýjasta birtingamynd þess í dag er togstreita forystunnar á milli þess að stjórna lífeyrissjóðum eða verkalýðsfélagi. Röksemdarfærslunni er stillt þannig upp að ekki komi til greina að reka afa og ömmu út á gaddinn vegna óráðssíu unga fólksins. Það hvarlar að manni stundum að unga kynslóðin hafi fundið upp syndina í boði Davíðs Oddsonar. Um leið er það gleymt að þegar einhver tekur lán þá er einhver annar sem lánar.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa bent á þá leið að þær afskriftir sem lífeyrissjóðirnir þyrftu að taka á sig yrðu eingöngu innheimtar með skerðingu á réttindum yngri kynslóðarinnar. Þeir sem eru núna á lífeyri þyrftu ekki að taka á sig skerðingu. Röksemdin er sú að yngra fólkið getur hugsanlega bætt lífeyriskjör sín síðar. Auk þess er áætlað að afskriftirnar séu eingöngu um 4% af eignum sjóðanna.

Því hvarlar það að manni að hugsun sjóðsstjóranna snúist mest um hag sjóðsins, ávöxtun og hagnað, þ.e. að ársreikningurinn verði sem bestur. Það er í sjálfu sér göfugt markmið en verðu frekar ómerkilegt þegar kannað er hvað hangir hinum megin á spýtunni.

Það dynja á okkur fréttir af heimilum sem eru á leið í eða komin í gjaldþrot. Úrræði stjórnvalda bera þess öll merki að þau gagnast seint og illa. Það á sér stað harmleikur hjá þúsundum fjölskyldna. Daglega lesum við um fátækt, matargjafir, uppboð og útburð. Allt of oft þarf maður að gnísta tönnum þegar fréttist af einhverjum sem hefur tekið sitt eigið líf vegna skulda.

Lífeyrissjóðirnir tóku þátt í hrunadansinum, fjárfestu í bólunni og ætluðu sér að ná í hagnað af fjármagni en ekki heiðarlegri framleiðslu. Þegar bólann sprakk kom í ljós að gæslumenn lífeyris okkar höfðu fallið á prófinu en græddu á verðbólguskotinu sem þeir voru meðsekir um að skapa. Í dag tileinka verkalýðsforingjar sér sömu aðferðafræði og bankar. Ekkert skal gefið eftir og mistök fyrri ára skulu greiðast upp af almenningi með góðu eða illu.

Sameiningin er fullkomnuð, verkalýðsforingar sem sjóðsstjórar tala sömu tungu og bankastjórar og atvinnurekendur. Samtök atvinnurekenda tala máli stórfyrirtækja og kvótaeigenda en litli atvinnurekandinn á hvergi heima eins og verkalýðurinn. Það er augljóst að draga þarf nýja línu í sandinn. Hver sinnir hagsmunum fjármagnsins og hver sinnir hagsmunum fólksins?  Það er nauðsyn að almenningur bindist einingu svo við getum skapað framtíðarland fyrir okkur eftir þennan vetur sem við erum stödd í.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur