Laugardagur 06.11.2010 - 22:54 - FB ummæli ()

Flateyringar eða plat-aurar

Á Flateyri þarf að loka fiskverkuninni og þar vinna næstum allir í plássinu. Í vandamálum Flateyringa kristallast margt í tilverunni.

Á Flateyri er allt til staðar til að vinna fisk, kunnátta og tæki. Það skortir fiskinn. Á sama tíma og það er skortur á fiski fyrir Flateyringa er nóg af fiski í hafinu. Einnig er töluvert af fiski í svokölluðum kvóta en sá fiskur er einokaður af fáum útvöldum og þann fisk fá ekki Flateyringar nema að borga stórfé fyrir.

Á Flateyri er líka skortur á peningum. Kom fram í Kastljósinu að vinna væri í gangi við að semja við lánadrottna og niðurstaða þeirrar vinnu gætu ráðið úrslitum fyrir Flareyringa.

Vandamál fólksins á Flateyri er mjög sérkennilegt. Ekki langt frá landi er fullt af fiski og í næsta banka er fullt af peningum en hvorugt er ætlað Flateyringum. Það er augljóst að ef við leystum þetta vandamál yrði allt í blóma á Flateyri.

Jafnvel borgarbörn eins og ég vitum nokkuð um hvernig við veiðum og vinnum fisk en hvernig býr maður til peninga?

Peningar eru búnir til í bönkum og þeir hafa einkaleyfi á því eins og kvótagreifarnir sem hafa einkaleyfi á því að veiða fisk. Þegar fiskur er veiddur er tekið af stofni sem þá minnkar þangað til hann hefur fjölgað sér aftur. Þegar peningur er afgreiddur úr banka þá minnkar ekki í neinni bankabók. Í hvert skipti sem tekið er lán hjá banka er búinn til nýr peningur og hann settur í umferð. Af því leiðir að í hvert skipti sem lán er endurgreitt hverfur peningurinn aftur inn í bankann og er eytt. Þess vegna eru peningar í útrýmingarhættu því ef allir greiddu upp lánina sín þá væru ekki til neinir peningar. Ef bankar hætta að lána(„allar lánalínur að lokast“ „skortur á lánsfé“) þá minnka peningar í umferð. Þegar magn peninga minnkar þá lendir raunhagkerfið í vanda.

Jafnvel borgarbörn eins og ég vita hvað fiskur er, hlutur sem hægt er að selja, kaupa og líka borða. Fiskur er hlutur með eigið verðmæti. Hvað er peningur?

Peningur er ekki hlutur og hefur ekkert eigið verðmæti heldur hugtak sem er ákveðið með lögum. Eins og Aristoteles sagði „ Money exists not by nature but by law“. Peningur er mælieining eins og tonn. Við vigtum fiskinn í tonnum því annars yrðum við að nota aðrar viðmiðanir. Við gætum ákveðið að vega fiskinn í lestinni við einhvern stein í þorpinu okkar en fólkið í næsta þorpi notaði einhvern annann stein sem viðmiðun.  Peningar hafa bara það gildi sem þeir telja.

Til einföldunar voru peningar fundnir upp til að meta verðgildi hluta. Flateyringar gætu selt fiskinn fyrir ákveðið magn af mat, olíu og rafmagni en það yrði ansi flókið á endanum. Peningar eru því mælieining á verðmæti til að auðvelda viðskipti.

Ég tel að við þurfum að fara að velta fyrir okkur um hvað peningar snúast því sennilega yrðu allir mög vantrúaðir á smið sem segðist ekki geta byggt hús vegna skorts á sentimetrum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur