Föstudagur 05.11.2010 - 23:05 - FB ummæli ()

Þurfa bankar að berja tunnur

Það voru tunnumótmæli á Austurvelli í gær. Fjöldinn sem mætti samsvara um 100 þúsund Frökkum að mótmæla í París. Þrátt fyrir það þótti Kastljósi bæði mótmælin lítil og kröfur mótmælenda grátbroslegar í besta falli. Ég fékk flashback til mannkynsögutímanna á menntaskólaárunum. Meðan almenningur í Frakklandi framkvæmdi byltingu þá var elítan alveg rasandi yfir óskammfeilninni á kvörtunum almennings, a.m.k þangað til fallöxin féll.

Grasrótin safnaði a.m.k. 10 þús manns fyrir mánuði á Austurvöll og þá var hafist handa við að kanna hversu illa er komið fyrir almenningi. Hvað hafa stjórnvöld verið að gera s.l. 2 ár? Hvernig gátu stjórnvöld komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að leiðrétta skuldir almennings ef gögnin voru ekki til staðar? Á hvaða gögnum var sú afstaða byggð? Er ekki svarið við spurningunni það sem Jóhanna sagði um daginn að „það er ekki hægt að gera þetta gegn bönkunum og lífeyrissjóðunum“. Er Jóhanna og elítan að verja bankana og um leið að fórna almenningi?

Það litla sem lekið hefur út af niðurstöðum samráðshópsins er að vandinn sé mjög mikill. Aftur á móti er ekki vijli til staðar til að fara í frekari leiðréttingar en orðið er.

Um allan heim bergmálar spurningin hvað er svona merkilegt við banka, hvers vegna borga þeir ekki fyrir mistök sín. Hvers vegna á almenningur að blæða?

Spurningarnar rista djúpt. Hver er saga skuldarinnar?  Á alltaf að greiða skuld án tillits til afleiðinga? Hvernig starfa bankar? Er ekki sanngjarnt að bankar beri hluta af byrðunum enda ollu þeir bankahruninu? Hvers vegna er Jóhanna, fulltrúi litla mannsins, sammála bönkunum?

Að Jóhanna og Steingrímur standi með bönkunum segir okkur að vandamálið er ekki skilgreint út frá vinstri eða hægri pólitík. Vandamálið snýst mun frekar um valdastétt á móti valdalausri stétt, lánadrottnum á móti lánþegum þ.e.a.s. bönkum á móti almenningi.  Á meðan við skiljum ekki banka, hvernig þeir starfa og hvernig þeir stjórna er lítið vit í pólitískri umræðu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur