Fimmtudagur 16.12.2010 - 15:56 - FB ummæli ()

Evrópusambandið-fyrir hvern

Á Írlandi er í uppsiglingu mjög alvarlegt ástand. Stjórnvöld ákváðu árið 2008 að bjarga einkabönkum á Írlandi og töldu sig geta það. Í haust þegar gramsað hafði verið í haugnum kom í ljós að gjaldþrot bankanna voru mun verri en talið var. Til að standa við loforð sitt þurfa Írar að taka gríðalega stór lán. Lánveitendur eru Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið.

Án skulda einkabankanna væri ríkissjóður Íra í ágætis málum.

Hegðun írsku bankanna var ábyrgðarlaus fyrir hrun. Þeir höfðu fjármagnað sig með lánum frá stórum evrópskum bönkum. Öll þessi starfsemi með samþykki Seðlabanka Evrópu. Eftir hrun hafa stóru bankarnir ekki viljað lána írsku bönkunum og þeir lenda því í vanda sem núna er kominn á herðar hins almenna Íra. Aftur á móti þá fjármagna stóru bankarnir neyðarlánin sem ESB lánar síðan til írsku þjóðarinnar til að bjarga gjaldþrota írskum bönkum. Því virðast stóru þýsku og frönsku bankarnir ekki geta tapað þrátt fyrir ábyrgðarlausa lánastarfsemi fyrir hrun sem setti írsku bankana á hausinn.

Það eru ekki ný sannindi að bankar vilji græða sem mest. Það eru heldur ekki ný sannindi að AGS sé vanur að aðstoða banka við að þjóðnýta tapið. Hitt hefur ekki verið jafn ljóst að ESB sé sauðtryggur liðsmaður bankaelítunnar í Evrópu.

Sú áætlun sem AGS/ESB hafa sett Íra í er um margt merkileg.

Írum eru sett mjög ströng skilyrði sem hafa hingað til verið aðalsmerki AGS og verið mjög gagnrýnd. Nú bregður svo við að ESB er algjörlega sammála AGS í aðferðarfæðinni. Það stingur í stúf því AGS hefur verið kallaður handrukkari fjármagnsaflanna í heiminum en ESB hefur frekar verið tengt við lýðræði, jöfnuð, vinnuvernd, réttlæti, neytendavernd og mannréttindi. Nú sýnir það sig að elítan í ESB er líka í handrukkarabransanum.

Annað sem er merkilegt við áætlunina er að til þess að halda bara í horfinu þarf hagvöxtur Íra árið 2014 að vera um 8-10%. Það er náttúrulega ekki hægt. Þess utan eru skilyrðin sem AGS/ESB setja kreppudýpkandi s.s. niðurskurður og skattahækkanir. Þess vegna mun þessi spírall með minnkandi hagvexti og stöðugt vaxandi skuldum enda í gjaldþroti Írlands.

Stóru bankarnir, í Þýskalandi og Frakklandi, undir handleiðslu og eftirliti Seðlabanka Evrópu, eiga útistandandi um 1000 milljarða evra hjá jaðarlöndum ESB. Jaðarlöndin eru m.a. Írland og Grikkland. AGS/ESB er því mætt að svæðið til að bjarga stóru bönkunum því litlir bankar í gjaldþrota löndum gera engan stórbisness.

Þegar umgengni ESB gagnvart almenningi er á pari við umgegni AGS, þá veltir maður því fyrir sér fyrir hverja er Evrópusambandið eiginlega.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur