Þriðjudagur 14.12.2010 - 22:42 - FB ummæli ()

Hvað gera hundarnir á Alþingi á morgun

Fjárlögin fyrir næsta ár verða væntanlega tekin fyrir á Alþingi á morgun. Það er lokaumferð og síðan verða þau að lögum og munu marka allt næsta ár og komandi ár. Þess vegna skiptir máli hver niðurstaðan verður. Spunameistarar valdsins settu upp leikrit sem fær hæstu einkunn. Álfheiður var látin setja fram geðveikan niðurskurð sem enginn ætlaði að framfylgja og hún átti hvort eð er að hætta. Guðbjartur átti að taka við af henni og hún bara dró sig í skjól. Síðan kemur nýr ráðherra eins og frelsandi engill og allir verða voða sáttir við niðurskurðinn, nema náttúrulega kettirnir í VG.

Ekki að undra að klækjarefirnir Jóhanna og Steingrímur séu létt pirruð. Það er í raun mjög skiljanlegt þegar þau hafa verið í læri árum saman undir handleiðslu Davíðs Oddsonar og loksins þegar þau ætla að brillera líka þá sýkjast fótgönguliðarnir af einhverju kattarfári.

Alvara málsins felst í því að of hraður og mikill niðuskurður gerir kreppuna dýpri og lengri. Kettirnir vilja forðast að slíkt gerist og forða velferðarkerfinu frá því að stórskaðast. Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er slétt sama enda eru excel skjöl biblía þeirra. Jóhanna og Steingrímur sem alkunnir vinstri menn ættu að geta tekið undir sjónarmið kattanna. Vonandi verður það niðurstaðan.

Einhvern veginn óttast ég hið gagnstæða. Hugsanlegt er að AGS hafi bannað Steingrími að skera minna niður eða þá að vinstri maðurinn Steingrímur sé sáttur við niðurskurðinn. Ekki vil ég trúa því að hann vilji bara ráða. Eitt er víst að ef við fylgjum ráðleggingum AGS í einu og öllu mun okkur farnast eins og öllum þeim löndum sem sjóðurinn hefur stjórnað.

Það er hefð fyrir því að verkalýðshreyfingin mótmæli kröftuglega niðurskurði AGS um allan heim. Hún gerir ekkert slíkt á Íslandi og er að auki sátt við veru sjóðsins hér á landi.

Það er mjög sérkennilegt að þeir þingmenn sem berjast gegn niðurrifsstefnu AGS á Íslandi eigi við ofurefli að etja. Sennilega hefur AGS hvergi átt sér jafn marga dygga stuðningsmenn og á Íslandi.

Almenningur setur traust sitt á að kettirnir komi vitinu fyrir hundana á Alþingi, okkur öllum til heilla.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur