Mánudagur 13.12.2010 - 22:53 - FB ummæli ()

Að vera þjóð á meðal þjóða…

Núna er svo komið fyrir okkur Vesturlandabúum að við getum fært okkur í nyt dýrkeypta reynslu fátækari þjóða heimsins í viðskiptum þeirra við alþjóðalánastofnanir. Hingað til höfum við talið vandamál fátæku landanna vera bundin við þau. Núna erum við í sömu súpunni og teljum að skuldirnar sem okkur er ætlað að greiða séu okkur óviðkomandi, eins og þeim hefur líka fundist. Margur stjórnmálamaðurinn á Íslandi sem hugsaði hnattrænt áður og fannst skuldir þriðja heimsins mikið óréttlæti samþykkir núna skuldaklafa íslensku þjóðarinnar.

Það virðist vera einkenni á bankakreppum að menn vakni alltaf upp við vondan draum. Það er eins og alþjóðastofnanir geti ekki með nokkru móti spáð í spilin og gert ráðstafanir sem duga. Grikkir héldu sig í góðum málum en s.l. vor varð þeim ljóst að skuldir ríkisins væru orðnar óviðráðanlegar. Það er að verða regla núna að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið vinni saman þegar leysa á skuldavanda ríkja í ESB. Innan ESB var sett á fót stofnun sem líkist AGS. Um er að ræða sjóð sem er hugsaður fyrir lönd ESB í fjárhagslegum vandræðum. Einnig hefur ESB tileinkað sér verklag AGS s.s. strangar kvaðir á löndin sem þiggja lánin. Það er í raun enginn munur á AGS og ESB í þessu sambandi nema Grikkir og Írar hafa kvartað yfir því að þeim finnist ESB vera heldur strangari ef eitthvað er.

Í Grikklandi voru þar að auki sett lög, í tengslum við neyðarpakka AGS/ESB, sem heimila fjármálaráðherra Grikklands einum, án aðkomu þingsins, að innleiða hvaða þá ráðstöfun/samninga sem hann gerir við ESB/AGS eða Seðlabanka Evrópu.

Skilyrði lánadrottna eru venjulega að ná jafnvægi í ríkisfjármálum á skömmum tíma. Því fylgir mikill niðurskurður og skattahækkanir.  Þrátt fyrir tveggja stafa prósentutölur í niðurskurði á launum og úgjöldum hins opinbera hefur Grikkjum ekki miðað sem skildi. Markmiðum um fjárlagahalla og hagvöxt er ekki náð. Sérfræðingar segja að skilyrðin hafi öfug áhrif og dragi úr hagvexti og möguleikum Grikkja til að vinna sig út úr kreppunni. Ef áfram verði haldið á sömu braut á næsta ári mun Grikkland verða gjaldþrota von bráðar. Telja margir sérfræðingar að það eina sem geti bjargað Grikkjum er að komast sem allra fyrst út úr gjörgæslu AGS og ESB.

Írland er komið í klúbbinn og þar eru menn berorðir. Þar er augljóst að bankarnir lánuðu grimmt og á ábyrgðarlausan hátt. Núna þarf írskur almenningur að taka á sig gríðarlegar byrðar þeirra vegna. Megnið af fjármagninu sem fer til Írlands fer beint til bankanna því þeir hafa ekki fengið öll lánin sín endurgreidd sem þeir lánuðu svo létt fyrir kreppu. Írsku bankarnir fengu fé sitt frá stórum evrópskum bönkum og eru ráðstafanir AGS/ESB fyrst og fremst til að bjarga þeim frá því að fara á hausinn og verða ekki eins og fífl í augum umheimsins vegna heimskulegrar lánastarfsemi sinnar.

Það sem einkennir umræðuna er að mikið er tekist á um gagnsemi aðhaldsaðgerðanna. Sú umræða er einnig hér á landi. Þegar horft er yfir sviðið og reynsla þriðja heims landanna skoðuð auk þeirra Vesturlanda sem hafa reynt lyfseðilinn á eigin skinni er nokkuð ljóst að miklar og hraðar aðhaldsaðgerðir vinna gegn markmiðum sínum. Þessar aðgerðir eiga það sammerkt að geta einstaklinga og fyrirtækja til að sjá fyrir sér eða stofna til framkvæmda og viðskipta minnkar verulega. Af þeim sökum minnka möguleikar þjóða til að vinna sig út úr vandanum og gerir kreppur dýpri og dregur þær á langinn.

Hinn mannlegi harmleikur aðhaldsaðgerðanna er efni í bækur  en margsýnt hefur verið fram á aukningu á tíðni sjúkdóma og dauða af völdum þeirra. Tölur sýna að fátækustu löndin hafa oft á tíðum borgað meira af lánum til lánastofnana en þau hafa fengið í neyðaraðstoð frá Vesturveldunum. Þess vegna hefur fé minnkað í þeim löndum þrátt fyrir aðstoð og í raun hafa fjármunir farið frá gjafmildum Vesturlandabúum beint í vasa lánastofnana án þess að auka velsæld fátæku landanna. Pakistanar þurfa núna að endurgreiða sín lán þrátt fyrir flóðin og er sú upphæð mun meiri en sú neyðarhjálp sem þeim býðst. Samtímis krefst AGS að Pakistanar hætti að niðurgreiða rafmagn og hækki taxtana, auki álögur á eldsneyti og hækki söluskatt. Það er nokkuð augljóst að Pakistanar munu ekki hafa það hlýtt og notalegt í vetur.

Lánastofnanir og bankar hafa alls ekki viljað kannast við ábyrgð sína né taka á sig afleiðingarnar af útlánastarfsemi sinnni. Menn skulu greiða sína skuldir og lánadrottnar eru í versta falli saklaus fórnarlömb kreppunnar. Þess vegna á almenningur á blæða til að bæta bönkunum tjón sitt. Það voru lánadrottnar sem hættu að lána árið 2008 og sköpuðu þannig skort á peningum-„skortur á lánalínum“-og á þann hátt settu keðjuverkun af stað sem síðan varð að bankahruninu. Þess vegna liggur ábyrgðin hjá lánadrottnum og raunhagkerfið sem var við sína hefðbundnu framleiðslu á verðmætum árið 2008 kallar eftir þeirri ábyrgð í dag.

Það er sorglegt að það virðist ekki skipta máli hvers konar ríkisstjórnir eru við völd í viðkomandi löndum, hægri-vinstri eða miðjumoð, lánadrottnar virðast alltaf koma fram vilja sínum. AGS og sjóðurESB auk Evrópska Seðlabankans eru stofnanir sem almenningur hefur ekki bein áhrif á, við höfum litla möguleika til að fylgjast með hvað fer þar fram og hvernig ákvarðanir eru teknar. Þessar ólýðræðislegu stofnanir hafa í raun tekið völdin af þingum viðkomandi landa og innleitt ferli niðurskurðar á velferðarkerfi um Evrópu sem tók áratugi að byggja upp með mikilli baráttu verkalýðsfélaga. Það er því nokkuð ljóst að fjármagnsöflin ætla sér að notfæra sér kreppuna til að gera verkamann Evrópu „samkeppnishæfari“ við ódýrara vinnuafl í öðrum heimshlutum.

Margir aðilar sem fjalla um þessi mál á heimsvísu fylgjast með Íslandi í viðskiptum sínum við AGS og ESB. Rætt er um að ef Íslendingum tekst að standa upp í hárinu á þessum stofnunum og hafna aðhaldsaðgerðum og að neita að greiða allar bankaskuldir veki það von hjá öðrum þjóðum. Veki von um að réttlæti sé mögulegt. Veki von um að ábyrgðin sé þeirra sem valda skaðanum og að öllum áföllum sé ekki velt yfir á almenning.

Það er því augljóst að Íslendingar verða að hugsa hnattrænt þegar þeir rökræða um  kreppuna „okkar“ hér á landi og móti afstöðu sína eftir því. Mjög nauðsynlegt er að við séum þjóð á meðal þjóða og stöndum með fátækum og skuldsettum þjóðum sem berjast gegn ofurvaldi ólýðræðislegra alþjóðastofnana sem ætla sér að útmá velferðakerfið í þágu banka.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur