Laugardagur 11.12.2010 - 12:36 - FB ummæli ()

Jóhanna í sögulegu ljósi

Jóhanna ráðleggur Lilju Mósesdóttur að ákveða sig hvort hún telji sig vera í liði með ríkisstjórninni eða ekki. Sennilega hefur forsætisráðherrann verið í fasta svefni þegar Lilja flutti ræðu sína um miðja nótt á Alþingi. Þar rökstuddi Lilja mjög vel hvers vegna hún telur fjárlagafrumvarpið ófullnægjandi og hreinlega skaðlegt í núverandi mynd. Þar sem Lilja er hagfræðingur og sérfræðingur í kreppuhagfræði er vert að leggja við hlustir.

Lilja nefnir að hagvöxtur Íslands sé mínus 3 prósent fyrir 2010 en var áætlaður núll og verði í mesta lagi 1% á næsta ári en gert er ráð fyrir 3 prósentum í plús í fjárlagafrumvarpinu. Því skeikar um heil 5 prósentustig á áætlunum fyrir þessi ár og það er ekki lítið þegar rætt er um hagvöxt. Lilja bendir á það augljósa að ekki verði nægjanlegt eldsneyti á tankinum og nauðlending út í móa líkleg niðurstaða. Sjálfsagt veit Jóhanna betur.

Hugmyndir manna um aukinn hagvöxt treysta mjög á aukna einkaneyslu almennings. Vöruskiptajöfnuður bendir til að minnst lítið sé flutt inn til landsins og ekki hittir maður nokkurn mann sem ekki er að spara. Aukinn niðurskurður hins opinbera mun valda fjölgun atvinnulausra og minnkandi innkaupum á vöru og þjónustu hjá einkaaðilum. Hvoru tveggja mun enn minnka einkaneysluna. Aukin skattheimta mun valda því sama. Af þessum sökum er fjárlaga frumvarpið í núverandi mynd skaðlegt og mun valda því að kreppan mun dýpka og dragast á langinn.

Margar rannsóknir sýna fram á að þessi stefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem Jóhanna hefur gert að sinni hefur skelfilegar afleiðingar fyrir almenning.

Lilja leggur til auknar tekjur með skattlagningu séreignasparnaðar og auk annarra leiða sem mun gera niðurskurð næstu ára mun minni.

Lilja rökstuddi mál sitt vel en þrátt fyrir það er hún ekki að gera rétt að mati Jóhönnu. Eina sem Lilja fer fram á er að augljósir vankantar séu lagfærðir fyrir þriðju og síðustu umræðu á Alþingi. Eina sem Jóhanna fer fram á er að Lilja styðji ríkisstjórnina möglunarlaust. Lilja virðist hafa rétt fyrir sér, bæði sagan og kennisetningin styður hennar málflutning. Sú stutta saga sem núverandi ríkisstjórn hefur skapað virðist benda til þess að ríkisstjórnin hafi rangt fyrir sér í veigamiklum málum. Kennisetningar núverandi ríkisstjórnar virðast snúast um að koma okkur inn í ESB og fylgja stefnu AGS fram yfir gröf og dauða.

Hagstjórnarsaga Íslands er skelfileg og hefur stjórnast af sérhagsmunum, fljótfærni og mjög slökum árangri. Það væri mun skynsamlegra fyrir Jóhönnu að þiggja góð ráð hjá Lilju en að vera með derring, því Jóhanna er óneitanlega hluti af hagstjórnarsögu Íslands.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur