Föstudagur 31.12.2010 - 23:48 - FB ummæli ()

2010 in memorian-breytan

Við áramót leggur maður mat á hið liðna og reynir að kristalla reynslu sína sér og sínum til framgangs á komandi árum.

Rannsóknarskýrsla Alþingis og fleiri aðilar hafa reynt það sama. Gagnrýnt var að valdhafar landsins í aðdraganda hrunsins hefðu gert mörg mistök. Einnig er það ljóst að almenningur hefur mjög litla möguleika til að hafa raunveruleg áhrif á ákvarðanir valdhafanna milli kosninga. Valdamiklir sérhagsmunahópar hafa stjórnað landinu mun frekar en almenningur.

Það virðist vera að almenningur hafi orðið illilega fyrir barðinu á vondum mönnum.

Nú er það þannig að valdið er hjá þjóðinni svo fremi að hún hafi ekki gleymt því. Til að nota valdið sér til framdráttar þarf almenningur að vita hvað hann vill, hvað hann skortir og hvernig hlutunum er fyrirkomið. Með tilkomu internetsins eru möguleikar almennings til að afla sér upplýsinga meiri en nokkru sinni. Eftir hrunið haustið 2008 virtist það nokkuð ljóst að full þörf væri fyrir almenning að setjast niður og lesa sig til um stefnur og málefni svo að sagan myndi ekki endurtaka sig. Það var stundum sagt um kjósendur Sjálfstæðisflokksins að jafnvel þó að hundur væri í framboði næði hann kjöri. Á hinn bóginn má svo sem segja að kjósendur hafi aldrei rangt fyrir sér og ef að þeir vilja að hundur stjórni verður svo að vera.

Það sem ég er að velta fyrir mér er að almenningur virðist ekki vera að haga sér neitt öðruvísi gagnvart pólitík en áður. Ég tel að ekki hafi orðið nein grundvallarbreyting á hegðun almennings á því hvernig hann myndar sér skoðun á mönnum og málefnum. Þar sem hegðun almennings gagnvart pólitík var talin skipta máli í aðdragnda hrunsins hlýtur það að skipta máli að ekki hafi orðið nein breyting á þeirri hegðun.

Menn töldu að sigur Jóns Gnarr í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík hefði verið sigur almennings, mótmæli almennings og algjör niðurlæging fyrir gömlu flokkana.

Jón áttaði sig á því að almenningur las aldrei stefnuskrá þeirra flokka sem hann kaus, þess vegna skrifaði Jón enga stefnuskrá. Jón vissi líka að sá sem var mest áberandi sigraði. Íslenskir blaðamenn héldu ekki vatni yfir Jóni og því fékk hann massíva kynningu og blaðamenn spurðu engra erfiðra spurninga. Jón sigraði með sömu aðferðarfræði og gömlu flokkarnir hafa alltaf notað, miklum auglýsingum á almenning sem kynnir sér ekki hlutina. Þegar Besti flokkurinn vinnur stórsigur án þess að vera með stefnuskrá segir það mér að almenningur kaus ekki um málefni heldur um eitthvað allt annað. Sigur Besta flokksins er þess vegna gæðastimpill á gömlu aðferðafræðina sem stunduð hefur verið í íslenskri pólitík s.l. áratugi.

Þess vegna verð ég að álykta eftirfarandi í ljósi reynslunnar af árinu 2010. Meðan almenningur breytir ekki hegðun sinni í umgengni við stjórnmál munu valdhafar draga almenning þangað sem þeim sýnist. Þess vegna mun almenningur halda áfram að greiða fyrir kreppuna og mistök fyrri valdhafa.

Mín einlæga von er að allur almenningur á Íslandi hætti að drepa tímann en snúi sér í staðinn að því að kynna sér vel stjórnmál. Kynni sér söguna, noti netið og reyni að átta sig á samhengi hlutanna. Ef almenningur myndar sér sjálfstæða skoðun að lokinni sjálfstæðri rannsóknarvinnu en lætur ekki mata sig eins og kornabarn þá óttast ég ekki framtíðina, þá veit ég að börnin mín munu vilja búa á Íslandi í framtíðinni.

Almenningur á að vera breytan í jöfnunni en ekki fasti.

Gleðilegt ár og þökk fyrir þau liðnu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur