Sunnudagur 02.01.2011 - 15:29 - FB ummæli ()

ESB og sjávarútvegur

Evrópusambandið vill fisk í matinn. Ekki bara það heldur vill ESB góðan fisk, veiddan á löglegan hátt eftir heilbrigðisstöðlum. Þess vegna eru til lög og stofnun í ESB sem fjallar um slík mál, DG Sanco. Til að geta flutt inn fisk til ESB þurfa skip sem veiða fiskinn að vera á DG Sanco lista ESB (The directorate General of health an consumers). Til að komast á þann lista þurfa skipin að uppfylla skilyrði um hreinlæti og geymslu á fiski og auk þess að stunda löglegar veiðar.

Skip um víða veröld hafa DG Sanco leyfi en ESB virðist ekki leggja mikla fjármuni til eftirlits á því hvort viðkomandi skip fullnægi skilyrðunum eftir að þau hafa einu sinni fengið leyfið. Meðfram strönd Vestur Afríku eru ein auðugustu fiskimið heimsins. Mikill fiskur er veiddur þar og er síðan fluttur til neytenda í ESB. Fiskinum er landað fyrst í spænsku höfninni Las Palmas á Kanaríeyjunum og dreifist síðan þaðan um ESB.

Þegar veiðar skipa eru kannaðar meðfram strönd Vestur Afríku kemur í ljós að mörg þeirra brjóta lög. Þau veiða innan landhelgi og með ólöglegum veiðafærum. Mikið brottkast á sér stað, allt að 70%. Mörg skip hafa ekki einu sinni leyfi til að veiða á svæðunum. Fiskistofnanir eru í verulegri hættu sökum stjórnlausra veiða. Fátæk Afríkulönd hafa litla strandgæslu sem getur ekki rönd við reist. Afrískir sjómenn kvarta sáran yfir ágangi sjóræningjaskipanna og fiskigengd hefur minnkað mikið næst landi sökum ofveiði. Ef strandríki Vestur Afríku hefðu sama styrk og við Íslendingar höfðum í okkar þorskastríðum þá gætu þau gætt landhelgi sinnar, byggt upp öflugan iðnað um sjávarútveg og fætt þjóðir sínar.

Fyrir margt löngu urðu Íslendigar að sætta sig við rányrkju erlendra togara, nánast í flæðarmálinu, en til allra hamingju tókst okkur að verja auðlind okkar.

Sjóræningjaskipin við strönd Afríku vilja veiða með eins litlum tilkostnaði og mögulegt er. Aðstaða sjómanna er oft slæm, umgengni við fiskinn oft ábótavant og því ættu neytendur í ESB aldrei að sjá fisk frá þessum aðilum. Því miður hefur meirihluti þessara skipa leyfi ESB til að landa fiski í ESB, þ.e. þau hafa DG Sanco númer.

Í Las Palmas á að vera eftirlit til að koma í veg fyrir svindl af þessum toga en það er ekki að virka. Þess vegna er Las Palmas gáttin þar sem ólöglega veiddur fiskur flæðir inn í ESB. Því miður virðast kannanir áhugsamtaka benda til þess að fjöldi ólöglegra skipa fjölgi frekar en hitt á lista DG Sanco hjá ESB.

Nú vill svo til að önnur stofnun hjá ESB á að sjá til þess að skip veiði löglega, DG Mare. Svo óheppilega vill til að DG Sanco og DG Mare hafa nánast enga samvinnu í því að útrýma þessum ólöglegu skipum af listanum hjá DG Sanco. Hér er augljóst dæmi um tvær stofnanir hjá ESB þar sem önnur reynir að útrýma sjóræningjaveiðum en hin auðveldar þær.

Ef eftirlit væri hert, skip tekin af listanum og sett löndunarbann á þau inn á ESB markaðinn þá yrðu sennilega mjög miklar breytingar til batnaðar. Mörg félagasamtök(NGO) hafa bent á þessa staðreynd og ESB lofar alltaf bót og betrun án sýnilegs árangurs.

Löndunarbann er Evrópusambandinu ekki framandi sem tæki til að koma hreyfingu á mál. Löndunarbann á Makríl frá Íslandi var nýlega sett á en neytendum í ESB til lukku þá flytjum við engan makríl til ESB og því minnkaði ekki framboð á fiski til þeirra.

Sierra Leone er dæmi um fátækt ríki á Vesturströnd Afríku. Sierra Leone er eitt fátækasta land í heimi og getur því ekki mætt kröfum ESB um innflutning og er þess vegna bannað að flytja fisk til ESB, þ.e.a.s. löndunarbann(2009). Meðan fátækum löndum er ómögulegt að verja landhelgi sína og jafnvel bannað að selja fisk sinn á stærsta fiskmarkað heims er sama heimsveldi að moka upp fiskinum þeirra og flytja til sinna heimahafna. Til að kóróna vitleysuna þá leyfir ESB sjóræningjaskipum að gera slíkt hið sama. Þrátt fyrir að margsinnis hafi verið bent á að fiskistofnar Vestur Afríku séu í útrýmingarhættu gerist ekkert í Brussel. Nema að sjálfsögðu löndunarbann á Makríl frá Íslandi sem er hvort eð er ekki fluttur til ESB.

Ef fátæk Afríkulönd gætu selt fisk inn á Evrópumarkað myndi það stuðla að verðmætasköpun, atvinnu og gjaldeyristekjum fyrir viðkomandi lönd. Sökum örbirgðar leigja þau út veiðiréttinn en geta ekki fylgst með því að rétt sé veitt. Auk þess veiða skip án veiðleyfa en hafa DG Sanco leyfi til að flytja fisk til ESB. Erlendu skipin landa öllum afla á Kanaríeyjum og sækja alla þjónustu þangað. ESB fær því allan fiskinn og þá verðmætasköpun sem verður af veiðunum en ekki viðkomandi Afríkulönd. Að auki er fiskur uppistaðan í næringu Vestur Afríkuþjóða og sá fiskur er ekki tvíétinn sem fer á Evrópumarkað.

Í raun hefur Evrópa ekkert breyst í eðli sínu. Okkur Íslendingum tókst að hrekja Breta og Þjóðverja af miðunum og þurftum að berjast við herskip þeirra til að tryggja okkur sjávarauðlindina. Fátækar Afríkuþjóðir eru ekki í sömu stöðu og við og eru því arðrænd af gömlu nýlenduríkjunum.

Evrópusambandið er að sjálfsögðu hagsmunasamtök þeirra ríkja sem tilheyra því. Hugsanlega getur það gagnast ríkjum að ganga í ESB. Þegar kemur að ESB aðild verður maður að vega og meta heildrænt og hnattrænt hvort slíkt hugnist manni. Ef miðað er við sjávarútvegsstefnu ESB gagnvart fátækum löndum Vestur Afríku er nokkuð ljóst að um pilsfaldakapitalisma/nýlendustefnu er að ræða. Slík stefna á sennilega best heima í röðum nýfrjálshyggjumanna en síst meðal humanista, umhverfis, vinstri og jafnaðrmanna.

Western Africa: A Fish Basket of Europe Past and Present                                              JACQUELINE ALDER USSIF RASHID SUMAILA  http://jed.sagepub.com/content/13/2/156.full.pdf+html

DG Sanco:  http://ec.europa.eu/dgs/health_consumer/index_en.htm

Greenpeace: http://www.greenpeace.org/international/en/news/features/exposed-pirates-bankrolled-by/

Greenpeace: http://www.greenpeace.org/international/Global/international/publications/oceans/2010/351%20-%20WestAfricaReportDEF-LR.pdf

Environmental justice foundation:

http://www.ejfoundation.org/pdf/DIRTY_FISH_EJF_Report.pdf

http://www.ejfoundation.org/pdf/EJF%20pirate%20fish.pdf

http://www.ejfoundation.org/pdf/party_to_the_plunder.pdf

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur