Mánudagur 03.01.2011 - 19:12 - FB ummæli ()

Dýragarður Samfylkingarinnar

Jóhanna kallaði þau ketti og Össur kallar Lilju hryssu. Orðaleikir sem sjálfsagt eru ætlaðir til heimabrúks hjá Samfylkingunni. Óvissan sem þessi pólitíska staða skapar er athyglisverð. Margir hafa velt fyrir sér mismunandi niðurstöðum á óvissunni.

Nú er ekki gerlegt fyrir utanaðkomandi aðila, sem þekkir ekki alla málavexti eins vel og þeir sem standa í þessu, að spá fyrir hvernig endalokin verða. Aftur á móti skapar umrótið tækifæri til að meta það sem er sýnilegt.

Það sem var einkennandi í upphafi var umfjöllun blaðamanna að þau þrjú væru ekki með í liði og að þau létu ekki að stjórn. Það virtist sem greining blaðamanna á ástandinu væri að vald formannanna væri ekki ótvírætt og þar lægi hundurinn grafinn. Það tók nokkurn tíma að síast út í umræðuna að um málefnalegan ágreining væri að ræða.

Í raun er andstaða þremenninganna á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum studd skjalfestu séráliti Steingríms í umfjöllun Alþingis um aðkomu AGS á sínum tíma, haustið 2008. Þar sem Steingrímur hefur horfið frá fyrri sannfæringu ættu blaðamenn að reyna að fá skýringu hans á þeirri stefnubreytingu. Þá gæti hugsast að greining blaðamanna yrði sú að Steingrími hefði ekki tekist að fá alla þingmenn flokksins til að fylgja nýrri stefnu varðandi aðkomu AGS á Íslandi. Þar með væri komin málefnaleg umræða um stefnu AGS. Blaðamenn virðast mjög oft ekki sjá neina aðra leið en AGS og þess vegna finnst þeim sjálfsagt út í hött að ræða um stefnu sjóðsins.

Það er orðið nokkuð ljóst að Samfylkingin ætlar með Ísland inn í Evrópusambandið með góðu eða illu. Af þeim sökum er allt sem skerðir völd hennar óæaskilegt og andstaða Samfylkingarmanna gegn þremenningunum því skiljanleg. Það verður mjög athyglisvert að loknum þingflokksfundinum hjá vinstri grænum á miðvikudaginn að sjá hvernig þau taka á þessu máli. Örugglega óska þremenningar sér innst inni að þeim verði kastað út úr flokknum því þá væru þau laus og fengju að starfa í friði. Þau eru þekkt fyrir allt annað en að velja sér auðveldustu leiðina í lífinu og því er lítil hætta á því. Vandamál Steingríms virðist vera að hann er kominn í svikamyllu, hann tapar nánast hvað sem hann gerir. Spurningin er hvernig honum tekst að nýta sér hina miklu pólitísku reynslu sem hann býr yfir.

Hvernig sem fer hef ég á tilfinningunni að þegar horft verður á þessa sögu síðar meir verði niðurstaðan sú að Samfylkingin hafi stækkað á kostnað Vinstri grænna vegna endanlegrar yfirfærslu Steingrímsarmsins (andlega og/eða líkamlega) og eftir sitji kettirnir í Vg.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur