Föstudagur 14.01.2011 - 22:27 - FB ummæli ()

Letter of intent, ástarbréf leppstjórnarinnar

Viljayfirlýsing íslenskra stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var gerð opinber í dag á heimasíðu sjóðsins og efnahagsráðuneytisins. Viljayfirlýsingin er dagsett 22. desember s.l. og hefur verið haldið leyndri fyrir almenningi allan þennan tíma. Ekki veit ég til þess að hún hafi verið rædd á Alþingi. Auk þess er hún ekki þýdd á íslensku heldur er eingöngu á erfiðri stofnana ensku. Það virðist sem öllum sé sama, alveg skítsama, og þó sérstaklega valdhöfunum sem buðu sig fram til að opna gallsúra íslenska stjórnsýslu.

Í þessari viljayfirlýsingu sem og þeim fyrri lofa þeir sem skrifa undir hana, Jóhanna, Steingrímur, Árni Páll og Már, að fylgja fyrirmælum sjóðsins í einu og öllu og bera allar þær hugmyndir sem þau kunna að fá undir sjóðinn áður en þær eru raungerðar. Þau hreykjast yfir því hversu dugleg þau hafa verið að uppfylla kröfur sjóðsins úr síðustu viljayfirlýsingu og biðjast forláts á þeim kröfum sem þeim hefur ekki enn unnist ráðrúm til að uppfylla.

Það er ekki vafi hver ræður för á Íslandi í dag.

Endurfjármögnun föllnu bankanna er gerð að kröfu AGS og í þessari viljayfirlýsingu er því lofað að sparisjóður Keflavíkur verði endurfjármagnaður fyrir lok febrúar. Íbúum landsins hefur líka verið tjáð að 14 milljarðar munu fara í sparisjóðinn en að öðru leyti er ríkiskassinn tómur eins og Ögmundur sagði þegar rætt var um vegatolla. Góðir vegir auka öryggi vegfarenda en AGS hefur meiri áhuga á heilsu bankakerfisins eins og kemur skýrt fram í viljayfirlýsingunni; „Finally, fully restoring the health of the banking system remains a key objective“.

Það virðist sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og ríkisstjórn Íslands séu sammála um að alltaf sé til nægjanlega mikið fé til að endurreisa fallna banka og sparisjóði en alls ekki fyrir fátæka, sjúka og aðra sem þurfa aðstoð samfélagsins.

Til hvers þarf þjóðin alla þessa banka og auk þess minnist ég ekki þess að vinstri pólitík, svona almennt séð, hafi hingað til snúist um að forgangsraða bönkum fram yfir almannahagsmuni. Það er AGS hins vegar þekktur fyrir og því er núverandi ríkisstjórn á Íslandi ríkisstjórn AGS þar sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar skrifa undir viljayfirlýsingu, þar sem ekki örlar á svokallaðri vinstri pólitík.

Þess vegna eru skilgreiningar hjá viðkomadi valdhöfum á sjálfum sér á borð við „vinstri“ rangnefni, nánast ósannsögli. Leppstjórn AGS væri mun nærri lagi. Þess vegna skulum við hafa það hugfast mánudaginn 17. janúar þegar við komum saman til að mótmæla fyrir framan Alþingishúsið að við erum að mótmæla leppum, ekki sjórnvöldum okkar, því við kusum aldrei AGS til að stjórna okkur.

Viljayfirlýsingin: http://www.imf.org/external/pubs/cat/longres.aspx?sk=24571.0

Flokkar: AGS · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur