Laugardagur 02.04.2011 - 00:02 - FB ummæli ()

Bankahólfið-Icesave

Það er sagt að af tvennu illu séu skárra að samþykkja Icesave en að hafna Icesave. Lánshæfismat landsins muni versna verulega og enginn vilji lána okkur nema á okurvöxtum ef við höfnum samningunum. Auk þess mun höfnun hafa mikla óvissu í för með sér fyrir Ísland. Það er kynnt undir kvíða og ótta sem er auðvelt á þessum óvissutímum þegar bankar um alla Evrópu valda miklum vandræðum. Reynt er að telja okkur trú um að við komumst á lygnan sjó ef við samþykkjum Icesave.

Það er ekki vandræðalaust að koma með rök sem byggjast á skynsemi og réttlætiskennd gegn þessum hræðsluáróðri. Óttaslegið fólk hrekst undan og á erfitt með að hugsa rökrétt.

Fyrir þá sem greiða ekki skuldir annarra né láta kúga sig til þess er lítil hjálp í því að reyna að skilja hvers vegna sumir vilja endilega gera það.

Það er munur á bankabók og bankahólfi. Það eru tveir lyklar að hverju bankahólfi og það er ekki opnað nema báðir lyklarnir séu notaðir samtímis. Leigjandi bankahólfsins geymir annan lykilinn. Sá sem hefur bankahólf á leigu í banka getur geymt þar ýmis verðmæti og það bankahólf er aldrei opnað nema eigandinn mæti á staðinn með sinn lykil.

Bankabók virkar ekki á sama hátt þó margir vilji trúa því. Þegar þú leggur peningana þína inn á bankabók þá lánar þú bankanum peningana og bankinn getur gert hvað sem er við þá. Það er eðlilegasti hlutur í heimi því þú lánaðir bankanum peningana og ekki ferð þú að skipta þér af því hvernig aðili ráðstafar peningunum sínum. Þú ert í raun og veru að lána bankanum peningana þína þegar þú stofnar bankabók. Það hefur fylgt lánastarfsemi all tíð að endurheimtur eru ekki alltaf 100%.

Bankabók er skuldaviðurkenning bankans um að hann skuldi þér peninga.

Innistæðutryggingakerfi er tryggingasjóður fyrir bankana ef þeir geta ekki staðið í skilum.

Icesave er ríkisábyrgð á vanefndum banka við skuldunauta sína.

Mikill fjöldi fólks lánaði Landsbankanum mikið af peningum þ.e. lagði inn á bankabók. Landsbankinn sólundaði þeim peningum og að lokum stóð ekki í skilum við lánveitendur sína, fólkið sem lánaði Landsbankanum peningana sína. Þegar það gerist eru vanskilamenn venjulega dregnir fyrir dómstóla til að krefja þá um greiðslu.

Þessi lánasamningur, bankabókin, var á milli lánveitenda-almennings og skuldara-bankans. Núna segja bankarnir að þeir geti ekki endurgreitt lánin sem þeir fengu hjá almenningi. Þess vegna finnst bönkunum að almenningur eigi að leggja stórfé inn í bankana svo að bankarnir geti endurgreitt skuld sína við almenning. Er þá ekki almenningur að endurgreiða sjálfum sér það sem sá sami almenningur lagði inn á bankabók sína í upphafi?

Okkur sem finnst það vera rugl að kóa með bönkunum skiljum ekki þá sem nota hræðsluáróður til að bjarga bönkum sem hafa stundað meinta glæpastarfsemi. Hvernig er hægt að hafa samúð með málpípum sem hafa hingað til þóst standa með lítilmagnanum en berjast af alefli fyrir hagsmunum banka gegn almmenningi.

Það hjálpar ekki lúbarinni konu að segja henni í sífellu að annað hvort eigi hún að sætta sig við ofbeldið eða þá að það sé rangt að hún sé barin. Það verður að fjarlægja ofbeldismanninn, það er eina lausnin.

Fyrsta skrefið er að hætta að kóa með og segja Nei við Icesave.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur