Þriðjudagur 05.04.2011 - 21:17 - FB ummæli ()

„there is no alternative“

Í Icesave umræðunni hafa menn fært rök fyrir því að óæskilegt sé að setja Íslendinga í skuldafangelsi. Bent hefur verið á að siðaðar þjóðir hafi afnumið skuldafangelsi úr löggjöfum sínum fyrir löngu. Sumir Íslendingar telja Icesave lítið mál. Ólafur Margeirsson hagfræðingur metur afleiðingarnar þær að JÁ er gjaldþrot og með NEI-i er fræðilegur möguleiki á því að hagkerfi Íslands geti reist sig upp úr þeim rústum sem það er í. Hvernig er hægt að segja að Icesave sé smámál í þessu samhengi? Hvernig er hægt að leggja slíkar byrðar á samlanda sína vegna þess að maður er fullur sektarkenndar vegna hátternis nokkurra útrásarvíkinga. Sérstaklega þegar líkur eru á greiðslufalli Íslands, dýr syndaaflausn til handa alþjóðasamfélaginu það.

Þegar varað er við því að heil þjóð lendi í skuldafangelsi hafa menn í huga m.a.  land eins og Haítí. Árið 1804 brutust þeir undan yfirráðum Frakka. Frakkland hafði áður auðgast vel á auðlind landsins, „svarta gullinu“, þ.e. þrælunum,  íbúum Haítí. Frakkar voru að vonum ekki sáttir. Þess vegna settu þeir ásamt vinum sínum Bandaríkjamönnum,  Spánverjum og Bretum verslunarbann á Haítí. Í dag er slíkt ástand kallað; „að vera ekki hluti af alþjóðasamfélaginu“. Þess vegna neyddist Haítí til að skrifa undir samning við Frakka árið 1825. Þeir samþykktu að borga bætur til franskra þrælaeigenda, þ.e. þrælarnir sem brutust undan þrældómnum voru neyddir til að greiða bætur til þrælahaldaranna! Upphæðin var risastór, 150 milljónir franka í gulli, sem tekin var að láni hjá bönkum í Frakklandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Þeir samþykktu að borga kröfuna í þeirri von að verða gjaldgengir á mörkuðum heimsins. Það tók þá 122 ár að borga skuldina. Um aldamótin 1900 fór um 80% af ráðstöfunarfé þeirra í afborgun af þessari skuld.

Síðan frönsku skuldinni lauk, 1947, hafa vesturveldin, alþjóðasamfélagið, haldið áfram að kúga Haítí. Skuldsetning Haítí er gífurleg. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stjórnar endurheimtum skuldanna. AGS krafðist afnáms verndartolla á hrísgrjónum og þar með flæddu bandarískt ríkisstyrkt hrísgrjón yfir Haítí. Hrísgrjónabændur á Haítí fóru þá á hausinn og landið er ekki sjálfbært með mat lengur. Atvinnuleysi er um 75%. Laun duga varla fyrir mat. Einræðisfeðgarnir Papa Doc og Baby Doc stofnuðu til 45% af skuldum Haítí og megnið lenti í einkabankabókum þeirra, með góðfúslegu leyfi alþjóðasamfélagsins. Í þessu tilfelli er alþjóðasamfélagið sammála um að skuldir sem vanhæfir stjórnendur Haítís stofnuðu til skulu greiddar af skattgreiðendum.

Íslendingar sem hluti alþjóðasamfélagsins, ennþá, berum ábyrgð á neyð Haítí. Við getum sjálfsagt samþykkt að við höfum ekki farið vel með Haítí. Sjálfsagt fórnarkostnaðurinn af því að vera þjóð meðal þjóða. Núna er röðin komin að Íslandi, okkur er boðið inn í sama klefa og Haítí hefur verið í frá 1825. Sömu lönd hóta okkur verslurnabanni og einangrun. Er uppgjöf valmöguleiki þrátt fyrir ofurefli, ekki ef örlög Haítís verða okkar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur