Miðvikudagur 06.04.2011 - 20:31 - FB ummæli ()

Spilafíkillinn

Vonandi verður þjóðin upplýstari um hag sinn og stöðu að loknum Icesave kosningunum vegna umræðunnar sem er í gangi vegna kosninganna. Í aðdragenda bankahrunsins 2008 mátti ekki segja henni neitt og hún vaknaði síðan upp við ákall landsföðursins um hjálp til æðri máttarvalda. Það hefði verið nær að snúa sér beint til þjóðar sinnar löngu fyrr þegar vitað í hvað stefndi. Í stað þess var þjóðin meðhöndluð sem óviti og í dag eru þeir sem eru að reyna að skilja tilveruna meðhöndlaðir sem baldnir unglingar. Ef illa fer er hætta á því að þjóðin flytji að heiman og þá mun verða einmannalegt í kotinu hjá gömlu hjúunum.

Sjálfsagt eru þeir til sem trúa því að með auknum skuldum þá aukist lánshæfismat Íslands í augum erlendra lánastofnana. Í raun er það della og það skilja flestir enda mun vinsemd erlendra lánadrottna ekki byggjast á þeirri röksemd. Lánadrottnar eru sennilega ekki einslit hjörð og því munu sjálfsagt ýmsir lána til arðbærra verkefna núna sem og hingað til. Bönkum er aftur á móti lífsspursmál að fólk treysti þeim fyrir innlánum sínum. Ef Icesave fer fyrir dómstóla þá gæti komið í ljós að innistæðutryggingakerfið er ekki gallalaust. Ástandið í Evrópu og Bandaríkjunum er þannig að öll nákvæm og djúp umræða um innistæður er ekki bönkum hagstæð. Það er bönkunum mjög mikilvægt að almenningur trúi því að bankabækur séu jafn traustur geymslustaður fyrir peninga og bankahólf. Auk þess að ef um allt þrýtur komi ríkissjóður og bæti mönnum tap sitt.

Sennilega á lang stærstu hluti almennings meiri verðmæti í húsnæði eða bílnum sínum en inn á bankabókum sínum. Við tryggjum öll húsnæði okkar eða bílinn okkar sjálf. Þess vegna finnst mér að fólk geti tryggt sínar innistæður sjálft. Þeir sem ættu mjög lítið á bankabók þyrftu ódýra tryggingu og hinir sem eiga milljarða kaupa þá dýrar tryggingar. Það sem bankarnir vilja alls ekki er að það yrði þá gerð tryggingafræðileg útekt á því hversu traustir bankar eru. Þá kæmi í ljós að bankakreppur eru sífellt að gerast með nokkurra ára millibili. Varla er alltaf því um að kenna að einhver keypti sér flatskjá.

Bankabók er ekki bankahólf. Þegar við leggjum peningana okkar inn á bankabók erum við að lána bankanum peningana okkar. Bankinn getur gert hvað sem honum sýnist með þá. Íslensku bankarnir „týndu“ ölllum peningunum sem við lánuðum þeim. Núna eru bankarnir eins og einstaklingur sem misst hefur alla ábyrgðarkennd sökum fíkniefnaneyslu, neitar allri sök og vill ekki borga en bendir bara á aðra.

Afrakstur Icesave umræðunnar gæti orðið eldfimur. Er það ekki rangt að hafa innistæðutryggingu á innistæðum almennings í bönkum? Bankabókin er skuldaviðurkenning bankans.  Innistæður eru í raun bara lán almennings til einkabanka, síðan endar innistæðutryggingin alltaf á ríkissjóði að lokum, eingöngu til þess að fólk treysti einkabanka fyrir peningum sínum. Er einhver almenn trygging á einhverjum öðrum lánveitingum milli aðila?

Ef almenningur lánar banka pening sem bankinn svíkst um að endurgreiða á þá sami almenningur að setja enn meiri peninga inn í bankann svo bankinn geti staðið í skilum? Ef við verðum að valda atvinnuleysi, niðurskurði í heilbrigðis- og menntamálum til að borga okkar eigin innlán, til hvers eru þá eiginlega bankar? Datt einhverjum í hug spilavíti?

Icesave umræðan bæði innanlands og á heimsvísu gæti orðið til þess að afhjúpa „spilafíkilinn“ í þjóðfélögum okkar. Sú umræða gæti orðið almenningi til góða. Sú umræða mun aldrei verða fugl né fiskur ef við samþykkjum Icesave á laugardaginn. Þess vegna er það skylda okkar við mannkynið að segja nei.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur