Sunnudagur 01.05.2011 - 00:30 - FB ummæli ()

Fyrsti maí

Það eru erfiðir tímar,
það er atvinnuþref,
ég hef ekkert að bjóða,
ekki ögn sem ég gef,
nema von mína og líf mitt
hvort ég vaki eða sef,
þetta eitt sem þú gafst mér
það er alt sem ég hef.

Fyrsti maí er dagur verkalýðsins og þá safnast launamenn saman úr mörgum stéttum og setja fram kröfur sínar. Krafan hefur verið um langan aldur að deila auðæfum með meiri sanngirni á milli okkar og að hinn almenni launamaður sé gerandi í skipulagi þjóðfélagsins.

Í dag er allt Ísland svo skuldsett að ekkert hreyfist né vex á landinu okkar. Landið getur ekki fengið frekari lán vegna skulda og er í raun gjaldþrota. Þess vegna er ekkert til skiptanna hvað sem fyrsta maí líður því allt sem er aflögu fer í greiðslu skulda. Lánadrottnum hefur tekist vel upp en afgangurinn af hagkerfinu hefur siglt í strand. Lánadrottnarnir eða bankarnir hafa allt í hendi sér, okkur og valdhafa.

Á Íslandi er allt til alls nema peningar. Verkamenn, kunnátta, kraftur, auðlindir, verkefni, hráefni, tól og tæki, húsnæði og fleira, allt sem þarf til að skapa verðmæti, nema peninga.
ó hve leingi ég beið þín,
það er vorhret á glugga,
napur vindur sem hvín,
en ég veit eina stjörnu,
eina stjörnu sem skín,
og nú loks ertu komin,
þú ert komin til mín.

Það er galin hugmynd að bankar hafi einkaleyfi á því að búa til peninga. Þar að auki búa þeir peningana þannig til að við tökum þá að láni, það er að við erum skuldsett til að fá pening. Þess vegna eru allir í skuld því eina leiðin til að fá pening er að taka hann að láni hjá banka. Þar sem allir skulda bönkunum erum við ofurseld þeim.

Þeir sem stjórna peningamyndun og magni peninga í umferð hafa völdin.

Bankar stjórna magni peninga í umferð og árið 2008 var dregið verulega úr magni peninga með því að hætta að lána og að innkalla skuldir. Þess vegna stöndum við eins og asnar og getum ekki framleitt vegna þess að við höfum enga peninga þó að við höfum allt annað til þess.

Peningar eru einingar fyrir verðmæti og þeir flytja verðmæti frá einum stað til annars. Peningar eru ávísun á verðmæti, peningar eru ekki verðmæti, peningar eru verðlausir nema í núverandi kerfi bankanna.

Það er eðlilegasti hlutur í heimi að opinberir aðilar útdeili peningum til almennings svo að hann geti stundað sín viðskipti og framleitt það sem þarf. Peningar eru verkfæri ekki galdur.

Að rífast og skammast í skuldsettum atvinnurekendum, gjaldþrota ríkissjóði og yfirskuldsettum sjávarútvegi sem á bara gamla dalla upp í skuldir er út í hött á fyrsta maí. Við þurfum að sameinast öll um að ná valdinu til að framleiða peninga frá bönkunum. Bankarnir skuldsetja alla, líka ríkissjóð, alla sem við viljum að deili með okkur auðæfunum af sanngirni. Auðæfin og völdin eru ekki hjá þeim skuldsettu heldur hinum sem lánuðu, lánadrottnunum, þ.e. bönkunum.

Án skuldapeninga bankakerfisins, með okkar eigin peningum getum við endurreist Ísland. Samstaða var, er og verður alltaf málið.

Sameinumst um að valdið til að búa til peninga sé okkar og það verði skilgreint sem fjórða valdið í skipun Lýðveldisins Íslands.

En í kvöld lýkur vetri
sérhvers vinnandi manns,
og á morgun skín maísól,
það er maísólin hans,
það er maísólin okkar,
okkar einíngarbands,
fyrir þér ber ég fána
þessa framtíðarlands.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur