Föstudagur 11.11.2011 - 21:03 - FB ummæli ()

Skuldin stjórnar og drepur

Eins lengi og ég get munað þá hafa borið fyrir augun myndir af sveltandi börnum í Afríku. Myndirnar eru skelfilegar. Með aukinni tækni og hreyfimyndum sést neyðin enn betur og til eru myndir af börnum deyjandi úr þorsta og hungri liggjandi á jörðinni. Máttvana hreyfingarnar og stunurnar skila sér djúpt inn í skilningavitin. Kvikmyndatökufólkið hefur eingöngu getað kvikmyndað en ekki haft nein tök á því að aðstoða deyjandi börnin því vandinn er svo gríðarlegur.

Afríka er heimsálfa sem gæti fætt stóran hluta heimsins, hvað þá sjálfa sig. Afríka er rík af auðlindum af ýmsum toga. Afríka er svo skuldum vafin að afborganir þeirra til ríkra fjármálstofnana í ríkum löndum eru mun hærri upphæð en ríkir skattgreiðendur senda til Afríku sem þróunaraðstoð. Í raun væri það mun einfaldara fyrir ríkisstjórnir sem vilja styðja Afríku með þróunaraðstoð að ganga bara beint yfir götuna heima hjá sér og greiða niður skuldir Afríku í næsta bankaútibúi.

Án skuldanna væri enginn svangur í Afríku.

Þess vegna er það skuldin sem drepur börnin og eigandi skuldarinnar, lánadrottinn, er því ábyrgur. Þess vegna er áhrifaríkasta lausnin að fjarlægja skuldina.

Í Afríku er fullt af fólki, margt af því er atvinnulaust. Í Afríku er mikið að óleystum verkefnum. Í Afríku er mikið af hráefnum. Í Afríku er mikið af þekkingu til að leysa fæðu- og vatnsskort. Í Afríku er til tæki og tól til að leysa fæðu- og vatnsskort. Það virðist vera allt til alls í Afríku til að leysa fæðu- og vatnsskort. Þrátt fyir það deyja börn í umvörpum úr þorsta og hungri algjörlega að nauðsynjalausu. Það deyja 22.000 börn á dag í heiminum fyrir 5 ára aldur samkvæmt Sameinuðu Þjóðunum, að nauðsynjalausu.

Taktu eftir, 22.000 börn á dag, þ.e 15 börn á mínútu!

Þar sem Afríkubúar skulda svo mikið þá er ekki hægt að lána þeim meira til að sinna nauðþurftum þegnanna. Ástæðan er því skortur á peningum, ekki vatni eða mat heldur peningum.

Ef peningar hefðu aldrei verið fundnir upp og við stunduðum ennþá vöruskipti væri enginn svangur í Afríku. Þess vegna er miklar skuldir og skortur á peningum dánarorsök barnanna í Afríku. Því eigum við að beina athygli okkar að dánarorsökinni.  Orsökin er kerfi sem kallast bankakerf. Íslendingar hafa fengið að finna fyrir eyðingarmætti þessa kerfis undanfarin ár og ættu því að hafa skilning á mætti þess.

Peningar eru verkfæri, færa verðmæti frá einum stað til annars. Peningar setja töluleg gildi á verðmæti með sama hætti og meter setur tölulegt gildi á lengd. Þar sem bankar hafa einkaleyfi á framleiðslu peninga er auðvelt að skapa skort á peningum. Þar sem bankar búa bara til pening með því að lána hann þá verða allir að skuldsetja sig til að fá afnot af peningum. Ef þú færð ekki lán þá ertu stopp. Þess vegna stjórna bankar þeim verklegu fræmkvæmdum sem verða að veruleika í þjóðfélögum manna.

Ef þjóðhöfðingi í Afríku gæti framleitt sína peninga sjálfur væri staðan öðruvísi. Þá myndi hann hópa saman fólki og láta það grafa eftir vatni, leggja leiðslur frá vatnsbólum eða rækta mat. Til að fólkið geti flutt verðmæti vinnu sinnar út í þjóðfélagið býr þjóðhöfðinginn til peninga fyrir fólkið og verðmæti fljóta því óhindrað um þjóðfélagið. Í dag þarf sami þjóðhöfðingi að fá peninga fyrst að láni hjá bönkum og því deyja börnin.

Ef við afnemum einkrétt banka á því að búa til peningana okkar og afhendum almenningi það vald þá munu kjörnir fulltrúar okkar hafa valdið til að framkvæma til að sinna þörfum fólksins. Peningavaldið er sterkasta valdið og þegar það ratar heim til almennings er hægt að endurreisa lýðræðið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur