Laugardagur 19.11.2011 - 22:47 - FB ummæli ()

Egg höggormsins

Athygli heimsins er á Grikklandi eins og að þetta litla land skipti einhverju höfuðmáli.Hvað þá hver sé forsætisráðherra þar. Það hefur verið reynt að telja okkur trú um að Grikkland sé lítil hrukka á annars flekklausum ferli peningamálastefnu Evrópusambandsins. Hana þurfi bara að strauja, ef til vill pressa, síðan er „case closed“.

Á yfirborðinu snýst þetta um að almennir skattgreiðendur í Grikklandi borgi fyrir mistök bankanna. Misheppnaða lánastarfsemi sem bar ekki ávöxt. Sá sem sáir verður að taka með í reikninginn að ekki er alltaf uppskera. Þýskir og franskir stórbankar eiga mikilla hagsmuna að gæta og því þrýsta þeir á að fá sín lán endurgreidd með skattfé grísks almennings. Það sem ætti að vekja athygli er að hér um endurtekningu að ræða. Mörg önnur lönd hafa lent í svipuðu og er Argentína 2001 dæmi um það. Þar var allt  sett á annann endann þannig að nánast varð borgarastyrjöld. Þrátt fyrir mikla fátækt í kjölfarið lifðu bankarnir af hremmingarnar.

Grikkland er gjaldþrota og Spánn og Ítalía líka. Allir bankar í Evrópu eru í raun gjaldþrota og lifa á spena Seðlabanka Evrópu. AGS telur að evrópskir bankar þurfi 200 billjónir evra til að endurfjármagna sig og sumir tala um 600 billjónir evra. Það er því mikið tómahljóð í hirslum evrópska banka eða það sem við hin köllum yfirvofandi gjaldþrot.

Það er hægt að kenna öllu svo sem um hvernig er komið er fyrir okkur. Evran átti að vera betur hönnuð. Margir hagfræðingar sögðu fyrir löngu að svona færi. Að fráfarandi forsætiráðherra Grikklands, George Papanderou,  skildi fara strax út með það eftir að hann komst til valda að landið hans væri á hausnum jók ekki traust. Gríska bankakerfið (Bank of Greece) breytti reglum og gerði spákaupmönnum mun auðveldara fyrir að spila með grísk ríkisskuldabréf haustið 2009. Það var eins og að skvetta bensíni á eld. Það reyndar rifjar upp fyrir okkur að svipuð spámennska felldi þýska markið 1923 og einnig asíska hagkerfið 1987.

Það skiptir kannski ekki öllu máli núna.

Þegar valdamestu forystumenn Evrópu, Merkel og Sarkozy, (27. October EU Brussels’ Agreement) geta ekki annað en óskað eftir því við lánastofnanir-banka að þær felli niður skuldir Grikkja, ef þeim þóknast, sýnir svo ekki verður um villst hvar valdið liggur í heiminum í dag. Þannig hefur verið búið um hnútana að „markaðurinn“ getur refsað stjórnvöldum. Markaðurinn hefur vopnin sem bíta. Aukið skuldaálag, sem margir telja náttúrufyrirbrigði, stjórnar örlögum heilla þjóða og heimsálfa en ekki kjörnir fulltrúar fólksins. Ekkert veldur Sarkozy meiri kvíða en að Frakkar detti úr AAA flokknum og sá ótti stjórnar gjörðum Sarkozy. Ekki skynsamleg hugsun hvað sé flestum þegnum hans fyrir bestu. Þess vegna hefur bankakerfið þumalskrúfu á kjörnum leiðtogum okkar og því eru þeir í raun strengjabrúður.

Samkvæmt nýju Brussel samkomulagi, um björgun Grikklands, eru einungis settar 110 billjónir í endurfjármögnun banka á evrusvæðinu. Það er allt of lítið ef við ætlum að notast við hið úrelta peningakerfi. Afskriftir á skuldum Grikkja verða ekki 50% heldur um 19% þegar upp verður staðið og skuldastaða Grikkja verður vel yfir 140% af VLF árið 2020.

Niðurskurðarkröfurnar eru í raun sjálfsmorð á efnahag Grikkja. Ef Grikkland fellur og fer út úr evrusamstarfinu telja margir hagfræðingar að evran hrynji á minna en 24 klukkustundum. Þýskaland mun þá taka upp gamla markið og aðrar þjóðir munu lenda í verulegum vandræðum.

Að ætla sér að fylla ítalska og spænska skuldagatið, sem er 3000 billjónir evra, með 240 billjónum evra (EFSF-sjóðsins) er nánast grátbroslegt. Hvaða heilvita manni datt í hug að lána svona mikið?

Þar sem Brussel gerir ráð fyrir hjálp AGS eða Kínverja þá er það um leið yfirlýsing um eigið getuleysi. Þess vegna mun þetta útspil Brussel ekki telja kjark í markaðinn og mun það því steypa Spáni og Ítálíu fram af bjargbrúninni. Þar með er evran hrunin og miklar hörmungar gætu orðið að raunveruleika í Evrópu. Mikið atvinnuleysi, fátækt og vaxandi hungur samfara auknum niðurskurði. N-Evrópa mun ekki sleppa. Í raun mun skuldaplágan og vanhæfni stjórnmálamanna til að leysa hana valda því að Evrópa mun falla niður á stall vanþróaðra ríkja. Kjör almennings munu verða mjög svipuð um allan heim. Samtímis munu fjármálastofnanir eða bankar ráða lögum og lofum um kjör almennings.

Hér er einnig um endurtekningu að ræða. Í kjölfar heimskreppunnar miklu 1929 brast þáverandi peningakerfi; gullfóturinn. Í kjölfarið kom mikil upplausn, rasismi og heimstyrjöld. Hvort það séu tímanna tákn að Georg Paparendou, sem er sósíalisti, hefur boðið rasistum(LAOS-flokkurinn) til sætis í grísku ríkisstjórninni skal ósagt látið en það minnir örlítið á Neville Chamberlain.

Allir sem fylgjast með gera sér grein fyrir því að þær ákvarðanir sem teknar eru af kjörnum fulltrúum okkar stjórnast af hagsmunum bankanna. Skuldir bankakerfisins í einu formi eða öðru, afleiðuviðskipti sérstaklega, eru svo gríðaleg að jörðin öll á ekki neina möguleika á því að standa í skilum. Þær skuldir sem bankakerfið hefur búið til með sinni spilavítishegðun eru óviðráðanlegar. Að ætlast til þess að framleiðsla jarðairnnar dugi til að framfleyta jarðarbúum og að greiða bankaelítunni þann gróða sem hana dreymir um er því algjörlega óraunhæf.

Hvers vegna er þessari skuldasúpu troðið ofaní kokið á okkur eins og á franskri gæs sem er verið að stríðala fyrir slátrun?  Það er ekki gæsinni til góðs en út kemur góð gæsalifur. Ef allt fer sem horfir mun allur allmenningur sitja eftir réttindalaus, án velferðakerfis og nægjanlega svangur til að vinna myrkranna á milli fyrir lágmarks nauðþurftum. Bankarnir munu krýna sig sem einvalda og sitja á gullinu eins og ormar. Er hugsanlegt að það sé hinn raunverulegi tilgangur?

Eina óvissan er hvort við leyfum þeim að ganga alla leið eða stöðvum þá í tíma. Spurningin er í raun hvort við gerum það eða það verður hlutskipti barnanna okkar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur