Föstudagur 03.02.2012 - 22:53 - FB ummæli ()

Dýr flatskjár

Það hófst bankakreppa árið 2007 og stendur enn, hún er verri núna en þá. Það sem hefur gerst í aðalatriðum er að dælt hefur verið gríðarlega miklu fjármagni inn í gjaldþrota banka og þessir fjármunir verða að skuldum almennings. Á Íslandi voru þrír einkabankar endurreistir að kröfu AGS. Það kostaði okkur 64% af einni þjóðarframleiðslu. Einkabankar sem hefðu átt að fara á hausinn samkvæmt kokkabókum frjálshyggjunnar.
Svokallaður pilsfaldakapitalismi.
Almenningur hefur þurft að sætta sig við að eiga enga aðkomu að þessum ákvörðunum. Hann hefur þurft að sætta sig við miklar skuldir á ríkissjóði sem koma til vegna björgunar gjaldþrota bankakerfis. Bankakerfi sem hagaði sér glæpsamlega. Auk þess þarf almenningur að taka; miklum skattahækkunum, fasteignalán hækka, atvinnuleysi, kaupmáttur fellur, niðurskurði í velferð og miklum öðrum skaða s.s. lífeyrissjóðakerfi okkar Íslendinga.
Það ríkir í raun óöld. Það eru mótmæli víðs vegar um Evrópu og Bandaríkin. Sem andsvar reyna valdhafarnir að innsigla völd sín með öllum ráðum. Í Bandaríkjunum eru komin lög sem heimila hernum að handtaka hvern sem er, hvenær sem er, hvar sem er, á grunsemdunum einum saman. Ekki er þörf á dómsúrskurði og fanginn á ekki rétt á að vera leiddur fyrir dómara. Bandaríkin eru því í raun í andyri fasismans. Í ESB er verið að koma á miðstýrðu fjármálaráðuneyti sem mun ákveða fjárlög ríkjanna innan ESB. Þar með mun almenningur ekki eiga neina lýðræðislega möguleika á að hafa áhrif á fjármál ríkja sinna né ESB.
Afleiðingar frjálshyggjunnar eru þær að þurrka út frelsi einstaklingsins.
Bankarnir eru þó frjálsir ferða sinna og geta fyllt hirslur sínar að vild úr sameiginlegum sjóðum þjóðríkjanna. Framleiðsla þeirra í ýmsu formi, skulda, afleiða o.fl. teygir anga sína út um allt hagkerfið og ef þeir fara um koll verður mikil keðjuverkun sem enginn sér fyrir. Óttinn við hið óþekkta heldur stjórnmálamönnum í spennitreyju um víða veröld.
Auk þess hafa bankar einkaleyfi á því að búa til peninga. Ríkissjóðir gefa út ríkisskuldabréf. Bankar taka við slíkum bréfum(„kaupa þau“) og búa til peninga miðað við hvað ríkissjóður hefur sett stóra upphæð á bréfið. Þannig fá ríkissjóðir peninga til að reka þjóðfélögin, þegar skatttekjur duga ekki fyrir útgjöldum. Síðan þarf ríkissjóður að endurgreiða bönkunum peningana sem þeir bjuggu til úr engu. Ef matsfyrirtæki bankanna lækka lánshæfismat viðkomandi ríkis þá þurfa ríkissjóðir að endurgreiða bönkunum ríkisskuldabréfin með hærri vöxtum. Matsfyrirtækin stilla því af vaxtabyrði ríkja eða stilla af gróða bankanna. Í dæmum Portúgals og Grikklands þá er þetta samspil að setja heilu þjóðlöndin á hausinn.
Þrátt fyrir allt ofanritað þá verður niðurstaða valdhafanna alltaf sú að einhver keypti sér flatskjá.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur