Fimmtudagur 23.07.2015 - 22:32 - FB ummæli ()

Nýtt Evrópusamband

Átökin milli Evrópusambandsins og Grikklands velta upp áleitnum spurningum. Öllum er ljóst að Grikkir voru svínbeygðir til að sættast á hörðustu skilmála síðan 2010. Syriza fór í þennan leiðangur með það að leiðarljósi að ná pólitískri lausn það er að mannleg gildi, mannréttindi og virðing fyrir öðrum yrði ofaná. Þannig að Grikkir gætu staðið í skilum og byggt upp samfélagið samtímis. Þeir trúðu á sameiginlega evrópska menningu sem ætti að finnast í Evrópusambandinu. Í því fólust mistök þeirra.

Þess í stað var fullveldið afnumið í Grikklandi og fært undir stjórn teknókrata. Allar eigur gríska ríkisins voru fluttar í sjóð sem ákveður hvort og hvernig þær verða seldar. Stofnunin Hellenic Statistical Authority mun ákveða afgang af grískum fjárlögum-eftir beinum fyrirmælum Trjókunnar- en ekki ákveðið af þjóðkjörnum fulltrúum á þingi. Til að hámarka niðurlægingu Syriza þá munu fulltrúar Trjókunnar hittast í Aþenu til að ráða ráðum sínum. Tsipras forsætisráðherra Grikkja hafði lofað grísku þjóðinni að það myndi aldrei gerast aftur.

Ein megin hugsunin að baki Evrópusambandinu er sú trú að teknókrötum/bankamönnum sé mun betur treystandi fyrir fjármálum en stjórnmálamönnum. Hægt sé að setja reglur og ramma sem síðan er hægt að stjórna fólki með. Þessi trú varð ofaná í átökunum milli Evrópusambandsins og Grikkja. Trúin á sameiginleg viðmið og menningu varð undir. Það ætti því öllum að vera ljóst í dag að fjármagnsöflin stjórna Evrópusambandinu en ekki stjórnmálin.

Töluverð hætta er á því að Evrópusambandið í núverandi mynd líði undir lok. Vonandi mun fæðast nýtt lýðræðislegt Evrópusamband þar sem áhrif almennings verða í forgrunni. Girt verði fyrir stjórnun fjármálaaflanna á Evrópusambandinu úr reykfylltum bakherbergjum Seðlabanka og annarra peningastofnana, þ.e. Evrópusamband fyrir fólkið en ekki fyrir fjármagnið. Þá mun Evrópusambandið  hætta að rústa þjóðríkjum eftir pöntun.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur