Fimmtudagur 25.4.2013 - 22:53 - FB ummæli ()

Hvers vegna heldur fjórflokkurinn völdum

Samkvæmt skoðanakönnunum þá stefnir í að fjórflokkurinn haldi sínum völdum. Við getum þar með sagt að Búsáhaldarbyltingunni sé lokið. Reyndar er hugsanlegt að Vinstri grænir fylli Austurvöll að nýju ef D og B mynda næstu ríkisstjórn. Það virðist fara þeim best að öskra á auðvaldið utan girðingar en að hjóla í það á Alþingi.

Dögun var stofnuð til að sameina alla þá sem vildu gefa fjórflokknum frí. Meginástæðan er að fjórflokkurinn er verkfæri séhagsmunaaðila eða auðvalds eins og það hefur lengstum verið kallað. Tilraunin mistókst. Lilja Mósesdóttir vildi stofna sinn flokk, Birgitta vildi stofna sinn flokk og Lýður vildi stofna sinn flokk. Sturla vildi stofna sinn flokk, Halldór í Holti vildi stofna sinn flokk og svo framveigis.

Hugmyndin var að sameinast fyrir þessar kosningar og komast til valda. Afnema 5% þröskuldinn ásamt fleiri umbótamálum. Síðan væri hægt að bjóða fram seinna í mörgum litlum flokkum sem kæmu sínum mönnum að.

Líf Búsáhaldarbyltingarinnar er í höndum þjóðarinnar á laugardaginn. Var henni ekki stefnt gegn fjórflokknum og spillingunni, ég bara spyr.

Dögun er valmöguleiki því við í Dögun ætlum að hjóla í sérhagsmunahópana í anda Búsáhaldarbyltingarinnar, kjóstu X-T.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 24.4.2013 - 13:01 - FB ummæli ()

Velferð fyrir fjármagn eða fólk

Uppboð á heimilum fólks er algengt á Íslandi í dag, um 3 á dag að meðaltali. Þetta er gert til að tryggja endurheimtur fjármagns fjármagnseigenda. Afleiðingarnar eru skelfilegar fyrir viðkomandi fjölskyldur. Þetta er ekki velferð í verki. Þetta ætlar Dögun að stöðva.

Á öðrum vettvangi eru fjármagnseigendur að reyna að hámarka fé sitt og er ég þá að hugsa um svokallaða snjóhengju. Ef hún verður losuð þá munu Íslendingar þurfa að taka á sig allan gjaldeyrisvaraforðann og meira til. Skuldir okkar munu margfaldast, krónan falla og ný kreppa bresta á hér á landi.

Dögun hafnar þessum hugsunarhætti eða sértrú að fjármagnseigendur eigi einhvern sérrétt eða meiri umhyggju en venjulegar manneskjur. Fjármagnseigendur eru oftast að höndla með umfram fjármagn en fjölskyldur á Íslandi eru að berjast fyrir aleigu sinni. Á þessu er mikill munur. Við í Dögun tökum afstöðu með lántakendum, þess vegna og ef þarf á kostnað lánveitandans. Þess vegna viljum við m.a. fara skiptigengisleiðina(þýsku leiðin) við að losa um snjóhengjuna. Sú leið hefur reynst vel.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 22.4.2013 - 23:20 - FB ummæli ()

Að horfast í augu við staðreyndir

Fyrir stafni í íslenskri pólitík eru mörg vandamál og þau eru rædd en á einhvern hátt á almenningur erfitt með að ná alvarleikanum. Sennilega er of mikið suð í umræðunni. Það kom fram í skýrslu Seðlabanka Íslands í mars að við munum ekki getað staðið í skilum með afborganir af lánum Íslands á næstu árum. Að sjálfsögðu á slík niðurstaða að heltaka íslenska pólitík í dag en gerir það ekki.

Dögun hefur bent á þetta fyrir alllöngu síðan og vill mæta þessu vandamáli með því að reyna að endursemja um skuldir okkar. Það er raunhæft og sjálfsagt fyrsta skref. Því miður snýst hin pólitíska umræða um mörg önnur atriði sem munu aldrei verða á dagskrá ef við leysum ekki þetta skuldavandamál fyrst. Það ætti að vera öllum ljóst.

Vandamálið er að vandamálið er ekki viðurkennt en það hverfur ekki þrátt fyrir það, því miður.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 22.4.2013 - 00:01 - FB ummæli ()

Hvað viltu

Það eru margir í nettu áfalli yfir því að það virðist stefna í valdatöku Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna eftir kosningar. Þeir hafa hingað til staðið með þeim öflum í þjóðfélaginu sem stjórna í valdi auðs. Hjá þeirri valdastétt verða hagsmunir almennings oftast afgangsstærð. Sjálfstæðisflokkurinn er víst bara reynslunni ríkari en annars óbreyttur.

Þar með getum við gengið að því sem vísu að allar breytingar á stjórn fiskveiða eða útdeilingu á kvóta verði núverandi kvótagreifum þóknanlegar. Að breyta þessu kerfi er eitt af aðalatriðum í stefnu Dögunar og er þess vegna í kjarnastefnu hennar. Við viljum stokka upp stjórn fiskveiða til að auka afla og, við viljum frjálsar handfæraveiðar, við viljum að þjóðin fái mun meira í sinn hlut af þessari auðlind. Eða eins og segir í stefnu Dögunar:

  • Að fullt jafnræði verði í aðgengi að veiðiheimildum.
  • Að greitt verði auðlindagjald fyrir afnotin sem renni til ríkis og sveitarfélaga.
  • Að framsal, framleiga og veðsetning veiðiheimilda verði óheimil.
  • Að aflahlutur sjávarbyggða sé tryggður og hluti veiðileyfa svæðisbundinn.
  • Að öllum nýtanlegum afla sé landað og enginn hvati verði til brottkasts m.a. með því að kvótasettum fisktegundum verði fækkað.
  • Að fjárhags- og rekstrarlegur aðskilnaður sé tryggður milli veiða og fiskvinnslu, allur afli fari á markað og verðmyndun sé 100% bundin fiskmörkuðum.
  • Að veiðiráðgjöf verði endurskoðuð og fleiri aðilar komi að ráðgjöfinni.
  • Að handfæraveiðar verði frjálsar.
  • Að settar verði framfylgjanlegar reglur um umgengni við auðlindina og hafsbotninn til að stuðla að endurnýjun, sjálfbærni og notkun umhverfisvænni veiðarfæra og aðferða við veiðar.

Fjórflokkurinn vill ekki né getur komið þessum breytingum á þrátt fyrir yfirgnæfandi vilja þjóðarinnar. Þess vegna skaltu kjósa Dögun, X-T, ef þú vilt raunverulegar breytingar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 20.4.2013 - 19:41 - FB ummæli ()

Að láta Ísland sigla sinn sjó

Kjósendur hafa mismunandi ástæður fyrir því að kjósa þennan eða hinn flokkinn. Sumir eru vinstri menn og leggja áherslu á að velferðakerfið gefi öllum sem líkust kjör til að þroskast og dafna. Aðrir eru hægri menn og vilja frelsi einstaklingsins til að græða á daginn og.. Jafnvel eru til menn sem trúa því að það komi þeim efnaminni til góða. Síðan er til fólk sem mismunandi blanda af þessu öllu.

Það sorglega er að allir hóparnir eru arðrændir og þeir virðast vera sáttir við það. Að minnsta kosti kvarta þeir ekki en halda áfram að auka(vinstri) eða lækka(hægri) skatta á samborgurum sínum. Hinn raunverulegi arðræningi horfir á og sér að leikföngin virka vel  og þjóna sínum tilgangi. Það er engin hætta á því að allir sameinist gegn mér, þess vegna fann ég upp hægri og vinstri ekki satt?

Hinn raunverulegi arðræningi eru þeir sem búa til peningana okkar sem skuld. Það eru bankarnir sem gera það og hafa einkaleyfi á því. Þess vegna þurfa allir verkamenn að vinna aukalega til að borga fyrir peninga sem búnir eru til sem skuld. Þess vegna þurfa fyrirtækjaeigendur að eiga meiri afgang í sínu fyrirtæki til að borga fyrir peninga sem eru búnir til sem skuld.

Á Íslandi hafa bankarnir fóðrað fjórflokkinn beint eða með milliliðum og tryggt sér vinnufrið. Þau framboð sem bönkunum steðjar hætta af hafa skipt sér í margar smáfylkingar því bankarnir voru svo heppnir að ágreiningur var næg ástæða til að láta Ísland sigla sinn sjó. Við í Dögun lögðum upp með það að sameina alla en það mistókst. Þar með virðist sem fjórflokkurinn muni sigla næsta tryggur áfram. Kjósandi góður þú getur að minnsta kosti lágmarkað skaðann af brotabrölti okkar og sleppt því að kjósa fjórflokkin. Að sjálfsögðu mæli ég með Dögun.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 20.4.2013 - 09:22 - FB ummæli ()

X-T

Almenningur er grálúsugur eftir samveru sína við fjórflokkinn á liðnum kjörtímabilum. Öllu má svo sem venjast og þótti kannski ekki tiltökumál í gamla daga. Við ættum þó að þekkja hann af verkum sínum og það ætti að leiða okkur að öðrum valmöguleikum.

Tel að fólk eigi að kjósa T núna í kosningunum en forðast gamla settið, fjórflokkinn.

Það krefst hugrekkis af hálfu kjósenda að kjósa nýja flokka. Læt fylgja hér með góða upptöku þar sem sérstaða Dögunar er skýrð vel út í stuttu máli.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 18.4.2013 - 19:51 - FB ummæli ()

Pendúllinn

Núna sveiflast pendúllinn til baka hjá íslenskum kjósendum. Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn  virðast ætla að sitja í næstu ríkisstjórn. Sjálfsagt ýmsar skýringar á því en ég verð þó að kvarta yfir skorti á sögulegu samhengi. Það var þetta með vín á gamla belgi; ”Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi, því þá sprengir vínið belgina, og vínið ónýtist og belgirnir. Nýtt vín er látið á nýja belgi.“ Markúsarguðspjall 2:22.

Við í Dögun stofnuðum nýjan belg, þ.e. Dögun og settum ýmislegt í hann. Fyrir utan framúrskarandi frambjóendur þá er það stefnan sem er verðmætust og við ætlum að standa við hana.

Það sem er einna mikilvægast er að við teljum núverandi ríkisfjármál ekki sjálfbær og þar þurfi að grípa til róttækra aðgerða. Við verðum að endursemja um skuldir okkar því við eigum ekki fyrir þeim í nánustu framtíð. Þetta atriði er afgerandi hvernig tekst til að framkvæma annað.

Það er kvartað yfir því að þessi staða ríkissjóðs sé ekki þungamiðja pólitískrar umræðu fyrir þessar kosningar. Það er skiljanlegt því svona svartsýni er ekki vel til fallin að afla sér atkvæða. Svona er það nú samt og má lesa um það á heimasíðu Seðlabanka Íslands. Það er nú ekki meira leyndó en það.

Að vera ekki borgunarmaður lamar allt annað og því ætlum við í Dögun að reyna að semja um skuldrinar svo við getum gert eitthvað meira. Varla flokkast það undir trollerí eða töfrahatta kæri kjósandi.

Svona til frekari skýringa á stefnu Dögunar í efnahagsmálum er hér gott myndband með Þórði Birni frambjóðenda Dögunar:

http://www.youtube.com/watch?v=ymJJC3pNjBk

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 17.4.2013 - 20:38 - FB ummæli ()

Spyrjum fyrst og kjósum svo

Það er tekist á um landið okkar. Fjármagnseigendur vilja fá sitt það er sinn hlut í gömlu bönkunum, snjóhengjuna og fleira. Við eigum engan gjaldeyri til þess. Þá verðum við að nota gjaldeyrisvaraforða AGS og þá er hann orðin okkar skuld. Þar sem við eigum ekki einu sinni gjaldeyri til að standa í skilum á skuldum okkar þá er slík ráðstöfun óðs manns æði.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að fjármagnseigendur blésu upp bólu hér til að græða fyrir hrun og höfðu eigin gróða að leiðarljósi en ekki almannahag frekar en opinberir aðilar sem töluðu bara um veislur hér og þar. Nemum staðar og skynjum að þetta atferli var glæpur gagnvart þjóðinni og ekki hefur vottað fyrir iðrun.

Núverandi fjórflokkur hefur gengið erinda fjármagnseigenda í nútíð og fortíð og þess vegna eru allar líkur á því að svo verði áfram. Ef fjórflokkurinn kemst aftur til valda verður hag almenningss fórnað fyrir hag fjármagnseigenda, það er nokkuð víst. Sviðsmyndin verður þá þjóð sem er föst á önglinum. Mjög skuldsett og sífelld þörf á nýjum lánum og lánalínum frá AGS. Þjóð sem verður að skera mjög mikið niður í velferðinni, meira en nú. Þjóð sem verður að auka samkeppnishæfni sína með því að kasta fyrir borð öllum réttindum sem unnist hafa í áranna rás með verkalýðsbaráttu foreldra okkar og foreldra þeirra. Þjóð sem verður að sætta sig við allt fleiri álbræðslur og að vinna í þeim til að borga skuldir. Skuldir sem komu til af græðgi fárra útvaldra.

Hvað villt þú kæri kjósandi. Vilt þú treysta atkvæði þínu hjá nýju stjórnmálaafli sem heitir Dögun sem lofar að kasta sér fyrir ljónin, fjármagnseigendur og berjast fyrir hag almennings eða ætlar þú að steypa framtíð landsins í álbræðslur á lágmarkskaupi til að borga skuldir annarra.

Þitt er valið en mundu, það er tekist á um landið okkar og það verður gert í þessum kosningum en ekki síðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 6.4.2013 - 20:13 - FB ummæli ()

Hverjum er sjálfrátt

Við vitum að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn láta vel að stjórn banka, LÍÚ og virkjunarsinna, það kennir reynslan okkur. Rannsóknarskýrslan sagði okkur margt um það og einnig að vinnubrögðin væru afleit hjá stjórnvöldum. Núverandi kjörtímabil kenndi okkur Íslendingum líka góða lexíu. Núna vitum við að það breyttist ekkert í megindráttum við það að fá vinstri stjórn. Farið var að kröfum AGS, bankarnir endurreistir á kostnað skattgreiðenda, bönkunum gefið veiðileyfi á skuldug heimili, 3 fjölskyldur bornar út á dag og svo mætti telja áfram. Núverandi Alþingi átti ýmsa valmöguleika þegar kom að lausn ýmissa mála en fórnaði yfirleitt hagsmunum almennings fyrir sérhagsmuni fjármagns og kvótaeigenda.

Þar stöndum við í dag og það er með ólíkindum að tilfinning margra er að þingmönnum sé ekki sjálfrátt, þeim sé í raun stjórnað af sérhagsmunum fjármagnsins. Vonbrigðin eru skiljanleg og almenningur er uppgefinn á þessari pólitík.

Ég tel að mikið sé í húfi í næstu kosningum. Þeir sem taka við stjórninni munu þurfa að taka afstöðu með eða á móti almenningi. Að orða þetta á þennan hátt um kjörna fulltrúa okkar er geggjun en svona er komið fyrir okkur. Verður kröfuhöfum bankanna greitt út með lífeyri okkar. Verður snjóhengjunni hleypt út svo nota þurfi gjaldeyrisvarasjóðinn. Verður fjöldskyldum áfram kastað á dyr í þágu lánadrottna. Munu virkjanir og verksmiðjur verða viðvarandi dóp fyrir efnahaginn. Reynslan er ólygnust og hún segir okkur að fjórflokkurinn muni ekki greiða götu almennings í viðskiptum hans við sérhagsmunaöflin á Íslandi.

Kjósendur verða að axla ábyrgð og kynna sér vel þá valkosti sem eru í boði. Það er lýðræðisleg ábyrgð og skylda kjósenda, þ.e. að veita upplýst samþykki fyrir því að einhver stjórni í umboði þeirra. Ég skora á alla kjósendur að kynna sér vel stefnu Dögunar því við ætlum okkur að standa með almenningi og koma böndum á sérhagsmunaöflin. Hvers konar framtíð vilt þú fyrir þig og þína, það er í þínum höndum kæri kjósandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 2.4.2013 - 17:44 - FB ummæli ()

Landspítalinn og fjármagnið

Sigurður Guðmundsson skrifar grein í Læknablaðið um hörmungar í íslenska heilbrigðiskerfinu. Á því var full þörf, vægast sagt. Ástandið er slæmt og eins og hann bendir á þá hafa bankastofnanir notið forgangs fram yfir heilbrigðisstofnanir. Þetta er vel þekkt eftir kreppur. Tökum nokkur dæmi:

  • Um 1990 voru afborganir Afríkuþjóða til AGS meiri en öll útgjöld til mennta- og heilbrigðismála.
  • 1998 eyddi Senegal fimm sinnum meira í afborganir til AGS en heilbrigðismála og löndin sunnan Sahara fjórum sinnum.
  • Oxfam International hefur áætlað að 29,000 manns hafi látist af malaríu vegna niðurskurðar fyrirskipaðan af AGS á Filipseyjum.
  • 90,000 manns hafi ekki fengið meðferð við berklum á Filipseyjum vegna niðurskurðarins.
  • Dánartíðni af völdum berkla tvöfaldaðist í Rússlandi á milli 1991 til 2002-og er enn mjög aukin.
  • Niðurskurðurinn í S-Evrópu núna er farinn að kosta mannslíf samkvæmt nýlegri grein í Reuters.

Til allrar hamingju erum við ekki komin á þennan stað og hér er lýst fyrir ofan og vonandi sökkvum við ekki jafn djúpt. Það er vel þekkt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setur þarfir fjármagnsins ofar heilbrigðiskerfinu. Afleiðingarnar eru eins og Sigurður lýsir og síðan minni árangur og aukin dánartíðni.

Þeir sem þekktu til sögu AGS í bland við spillt stjórnvöld vissu að svona gæti farið fyrir íslensku heilbrigðiskerfi. Sumir mótmæltu og vildu að farin yrði önnur leið en margir sátu hjá. Sigurður kemur með góða skýringu á því:

”Allt þetta höfum við látið yfir okkur og sjúklinga okkar ganga án þess að við höfum hreyft verulegum andmælum. Hvernig stendur á þessu? Við erum seinþreytt til vandræða og ef til vill er langlundargeð og jafnvel meðvirkni okkur í blóð borin. Er mögulegt að þeir sem ákveða framlög til heilbrigðismála hafi gengið á lagið, og jafnvel meðvitað eða ómeðvitað misnotað þetta langlundargeð? Látið hefur verið í veðri vaka að þrátt fyrir niðurskurð sé allt í góðu gengi, fólk afkasti einfaldlega meiru, og sjúklingum sé jafnvel sinnt og áður. Þannig hefur samfélagið skilið ástand mála á spítalanum. Reyndin er því miður önnur, eins og nú er ljóst”.

Stóra spurningin er hvort of seint sé um rassinn gripið. Framundan er snjóhengjan og ýmslegt annað upp á tæpa þjóðarframleiðslu. Seðlabankinn bendir á að Íslendingar muni ekki eiga gjaldeyri til að standa í skilum með afborganir á næstu árum. Kannski fengu bankarnir allt meðan eitthvað var til og núna eru bara skuldirnar eftir. Því miður eru það dagdraumar fyrir gjaldþrota þjóð að ætla sér að byggja nýjan Landspítala.

Ég veit að það hjálpar engum að segja ”hate to say I told you so” en það hefði hjálpað mikið ef við hefðum komið í veg fyrir þá pólitík sem rekin var á liðnu kjörtímabili og líka á þar síðasta. Eins og Joseph Stiglitz sagði:

  • Did any nation avoid this fate? Yes, said Stiglitz, identifying Botswana. Their trick?

                       „They told the IMF to go packing.“

Grein Sigurðar er bænaskjal til flokkanna sem bjóða fram í Alþingiskosningunum núna í apríl. Hvort læknastéttin á von á þvi að eitthvað breytist með því að höfða til góðmennsku gömlu flokkanna sem aldrei hafa sinnt heilbrigðismálum af viti skal ég láta ósagt en..

Insanity: doing the same thing over and over again and expecting different results.

Albert Einstein

Frekar myndi ég höfða til nýu framboðanna.

 

 

Ann-Louise Colgan, april 2002, African action.

Jeremy Brecher, Panic Rules: Everything you want to know about the Global Economy, by Robin Hahnel (South End Press, 1999).

Stucler D. Plos Medicine 2008

The Globalizer Who Came In From the Cold  JOE STIGLITZ: TODAY’S WINNER OF THE NOBEL PRIZE IN ECONOMICS by Greg Palast

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur